Hæstiréttur íslands
Mál nr. 534/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 30. september 2009. |
|
Nr. 534/2009. |
A(Björgvin Þórðarson hdl.) gegn B C og D(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að A yrði svipt fjárræði ótímabundið á grundvelli c. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2009, þar sem sóknaraðili var svipt fjárræði ótímabundið. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að fjárræðissviptingin verði takmörkuð við ákveðnar eignir. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá er þess krafist að skipuðum talsmanni þeirra verði dæmd þóknun vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti ásamt kærumálskostnaði.
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. lögræðislaga skal héraðsdómari kalla fyrir dóm þann sem krafa um sviptingu lögræðis beinist að, kynna honum kröfuna og gefa honum kost á að tjá sig um hana, nema ástandi hans sé svo háttað samkvæmt vottorði læknis að það sé tilgangslaust. Sóknaraðili sótti ekki þing þegar mál hennar var tekið fyrir í héraðsdómi. Af læknisvottorði því, sem greinir í hinum kærða úrskurði, verður ekki ráðið að tilgangslaust hafi verið að kalla hana fyrir dóm. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Björgvins Þórðarsonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, Huldu Rósar Rúriksdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 31. ágúst 2009.
Með beiðni sem barst dóminum 10. júní sl. hafa sóknaraðilar B, kt[...], [...], Kópavogi, C, kt. [...], [...], Hafnarfirði og D, kt. [...], [...], Kópavogi krafist fyrir Héraðsdómi Reykjaness að varnaraðili, A, kt. [...], [...], Kópavogi verði svipt fjárræði ótímabundið skv. a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Í kröfu kemur fram varnaraðili sé alls ófær um að gæta hagsmuna sinna sjálf vegna heilabilunarsjúkdóms sem hún hefur verið að kljást við í mörg ár. Nýlega komust sóknaraðilar, sem eru þrjú af fjórum börnum varnaraðila, að því, að varnaraðili hefði árið 2005 samþykkt veðsetningu fasteignar sinnar og skuldbundið sig þar með til greiðslu u.þ.b. 4 milljóna króna. Sóknaraðilar telja að á þeim tíma hafi hún ekki gert sér grein fyrir því sem hún undirritaði og þeirri ábyrgð sem því fylgir. Þau telja hana ekki vera hæfa til þess að taka slíkar ákvarðanir og leggja því fram beiðni þessa.
Sóknaraðilum var alls ókunnugt um skuldbindingu móður sinnar þar til fyrir stuttu og hyggjast í framhaldi af fjársviptingarmáli þessu reyna að hnekkja ábyrgð móður þeirra á fyrrnefndri skuldbindingu enda um mikla fjármuni að ræða.
Það er mat sóknaraðila að brýn þörf sé á því og að það samrýmist hagsmunum varnaraðila til framtíðar að hún sé svipt fjárræði sínu. Í framhaldi af þeirri sviptingu er einnig talið nauðsynlegt að hún fái fjárhaldsmann sem myndi sjá um hennar fjármál og gæta hagsmuna hennar í hvívetna.
Í læknisvottorði Jóns Snædals yfirlækni á Landakoti kemur fram að varnaraðili sé haldinn síðkomnum Alzheimer sjúkdómi sem í hennar tilviki komi fram í skerðingu á þremur sviðum vitrænnar getu: skammtímaminni, athygli og einbeitingu og innsæi/dómgreind. Hún sé ekki fær um að vera fjár síns ráðandi en hefur ekki dómgreind til að gera sér grein fyrir því. Vegna eðlis sjúkdómsins eru engar líkur á að þetta ástand muni lagast.
Við fyrirtöku máls þessa í dag var tekin símaskýrsla af Jóni Snædal þar sem hann staðfesti læknisvottorð sitt og sagði það afdráttarlaust að varnaraðili hefði enga burði til að sjá um fjármál sín og að hann byggi þá skoðun sína á því að hann hafi komið að umönnun varnaraðila um alllangt skeið.
Við meðferð málsins fyrir dóminum var sóknaraðila skipaður talsmaður skv. 1. mgr. 31. gr. lögræðislaga. Þá var varnaraðila skipaður verjandi úr hópi starfandi lögmanna skv. 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga. Verjandi hafði uppi andmæli við kröfunni og krafðist þess til vara að næði hún fram að ganga yrði gildi sviptingarinnar takmarkað við tilteknar eignir.
Með vísan til 4. gr.c-liðar lögræðislaga nr. 71/1997 þykir sóknaraðili hafa fært fram fullnægjandi rök fyrir kröfu sinni sem verður því tekin til greina.
Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist allur kostnaður vegna málsins úr ríkissjóði þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Björgvins Þórðarsonar hdl. og skipaðs talsmanns sóknaraðila Huldu Rós Rúriksdóttur hrl. eins og segir í úrskurðarorði.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
A, kt. [...], er svipt fjárræði ótímabundið frá uppkvaðningu úrskurðar þessa að telja.
Þóknun talsmanns sóknaraðila og þóknun verjanda varnaraðila að fjárhæð 74.700 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts.