Hæstiréttur íslands
Mál nr. 354/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Forsjá
- Matsgerð
|
|
Þriðjudaginn 26. maí 2015. |
|
Nr. 354/2015.
|
K (Eyjólfur Ármannsson hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Börn. Forsjá. Matsgerð
K krafðist þess að lagt yrði fyrir B að afla nýs forsjárhæfnismats í máli B gegn henni og reisti þá kröfu á því að neikvætt viðmót sitt við fyrirliggjandi forsjárhæfnismat hefði haft áhrif á þátttöku sína í þeim prófum sem hún undirgekkst. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu K, kom fram að B hefði aflað forsjárhæfnismats áður en málið var höfðað og með því rækt þá lagaskyldu að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst, sbr. 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Gætu fyrrnefndar ástæður, sem K bæri við að leitt hefðu til þess að forsjárhæfnismatið gæfi ekki rétta mynd af forsjárhæfni hennar, ekki valdið því að fram færi nýtt mat. Teldi dómari hins vegar ástæðu til að afla frekari gagna gæti hann mælt fyrir um það, sbr. 2. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2015, þar sem kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir varnaraðila að afla nýs forsjárhæfnismats í máli hans gegn sóknaraðila var hafnað. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber barnaverndarnefnd, áður en hún höfðar mál til sviptingar forsjár eftir 29. gr. laganna, að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst. Í málinu liggur fyrir mat sérfróðs manns 27. október 2014 um forsjárhæfni sóknaraðila, en varnaraðili höfðaði 4. febrúar 2015 mál á hendur henni til sviptingar forsjár nafngreinds sonar hennar, sbr. a. og d. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Sóknaraðili ber því við að neikvætt viðmót sitt við forsjárhæfnismatið hafi haft áhrif á þátttöku sína í þeim prófum sem hún fór í vegna þess. Sé ljóst að forsjárhæfnismat, sem gert sé við aðstæður þar sem matsþoli er ekki samvinnufús og sýni hroka og mótþróa, sé ekki til þess fallið að sýna rétta niðurstöðu.
Sem fyrr segir aflaði varnaraðili forsjárhæfnismats áður en hann höfðaði fyrrgreint mál. Verður að telja að með því hafi hann rækt þá lagaskyldu að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en það var höfðað, sbr. 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga. Geta fyrrnefndar ástæður, sem sóknaraðili ber við að leitt hafi til þess að forsjárhæfnismatið gefi ekki rétta mynd af forsjárhæfni hennar, ekki valdið því að fram fari nýtt mat. Telji dómari á hinn bóginn ástæðu til að afla frekari gagna getur hann mælt fyrir um það, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt þessu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar vegna beiðni stefndu um að aflað verði nýs forsjárhæfnismats þann 17. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 4. febrúar sl.
Stefnandi er Reykjavíkurborg fyrir hönd Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Ráðhúsi Reykjavíkur.
Stefnda er K, kt. [...],[...],[...].
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði svipt forsjá sonar síns, A, kt. [...], sbr. a- og d- liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og jafnframt verði stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Gagnsök sem höfðuð var með gagnstefnu sem gefin var út þann 16. mars sl. og lögð fram í dómi samdægurs var vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum í dag.
Mál þetta hefur sætt flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002. Stefndu var veitt gjafsókn í máli þessu með bréfi innanríkisráðuneytisins dagsettu 20. febrúar sl.
Málavextir.
Stefnandi lýsir málsatvikum svo í stefnu að stefnda fari ein með forsjá drengsins A, en faðir hans, B, búi í Svíþjóð. Hafi drengurinn ásamt systkinum sínum, C, [...] ára og D, [...] ára, lengst af verið búsettur á heimili stefndu, en faðir C og D sé E. Hafi barnaverndaryfirvöld verið með mál systkinanna til meðferðar frá árinu 2004 með hléum. Fyrir liggi 11 meðferðaráætlanir og hafi stefnda fengið margþættan stuðning í gegnum tíðina og þá hafi hún reynt að vinna bug á áfengis- og vímuefnafíkn sinni án árangurs. Hafi stefnda nýlega farið í endurmat til að meta hæfni hennar til að fara með forsjá og séu niðurstöðurnar þær að hún sé ekki hæf til að fara með forsjá Asonar síns og hafi drengurinn verið vistaður hjá fyrrum stjúpföður sínum í [...] frá 22. febrúar 2104. Hafi mál drengsins verið til vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum með hléum frá árinu 2004 og hafi afskiptin beinst að uppeldisaðstæðum A og systkina hans vegna vanrækslu, vanlíðunar barnanna og gruns um vímuefnaneyslu stefndu. Hafi stefnandi veitt fjölskyldunni fjölþættan stuðning á grundvelli barnaverndarlaga eftir að hún hafi flutt til Reykjavíkur árið 2010 og þá hafi óboðað eftirlit verið með heimilinu. Hafi ítrekaðar tilkynningar borist sumarið 2011 vegna ætlaðrar vímuefnaneyslu stefndu og óláta á heimilinu.
Mál barnanna hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þann 13. nóvember 2012, en þá hafi ítrekaðar tilkynningar borist um ætlaða vanrækslu barnanna og lélegan aðbúnað. Hafi nefndinni þótt ljóst að börnin hefðu búið við vanrækslu og óöryggi um nokkurt skeið hjá stefndu og hafi nefndin talið stuðningsaðgerðir á heimili fullreyndar. Þar sem stefnda hafi ekki samþykkt vistun barnanna hafi verið úrskurðað um vistun þeirra utan heimilis í allt að tvo mánuði, sbr. b- lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Í kjölfarið hafi börn stefndu verið vistuð í Kennslu- og greiningarvistun á Vistheimili barna til 21. desember 2012. Haldnir hafi verið reglulegir fundir auk þess sem sálfræðingur hafi rætt við börnin. Hafi stefnda undirritað meðferðaráætlun 9. janúar 2013 þar sem gert hafi verið ráð fyrir tilsjón inn á heimilið, persónulegum ráðgjafa fyrir drengina og liðsmann fyrir stúlkuna. Jafnframt myndi sálfræðingur hitta A vegna vanlíðunar. Á árinu 2013 hafi barnavernd borist nokkrar tilkynningar um bága stöðu barnanna og óreglu stefndu. Hafi niðurstöður úr vímuefnaprófi 9. ágúst 2013 sýnt gildi kannabisefna í þvagi stefndu í hæstu hæðum. Hafi stefnda viðurkennt neyslu kannabisefna og sagt hana stafa af miklum kvíða. Í kjölfarið hafi verið unnið að því að koma henni í meðferð á Hlaðgerðarkoti en í vímuefnaprófi sem tekið hafi verið 21. febrúar 2014 hafi hún mælst jákvæð fyrir kókaíni. Í tilkynningu frá 1. ágúst 2013 komi fram að börnin hafi séð kærasta stefndu sniffa hvítt duft á heimili hennar og þá hafi komið fram að stefnda neyti áfengis í kringum börnin.
Stefnda hafi verið borin út úr leiguhúsnæði á vegum Félagsbústaða í febrúar 2014 vegna vangreiddrar húsaleigu og brotum á húsreglum. Hafi henni ásamt börnunum verið fylgt á gistiheimili við [...] en viku síðar hafi hún greint frá því að hún hafi verið undir áhrifum áfengis og verið með ólæti á gistiheimilinu og hafi hún þurft að yfirgefa það. Hafi verið leitað eftir því við stefndu að börnin yrðu þegar í stað vistuð utan heimilis á Vistheimili barna en stefnda hafi hafnað því. Hafi reynst erfitt að ná í hana, hún hafi neitað að gefa upp dvalarstað sinn og vísað á lögmann sinn. Á fundi með henni 18. febrúar 2014 hafi henni verið kynnt tillaga um vistun barnanna utan heimilis til 6 mánaða vegna alvarlegrar stöðu fjölskyldunnar. Hafi stefnda ekki samþykkt vistun og hafi hún þá verið látin vita að börnin yrðu sótt í skóla og færð á vistheimilið án hennar samþykkis á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga. Stefnda hafi þá lýst því yfir að hún væri ekki í andlegu jafnvægi til að hitta börnin að svo stöddu og hafi hún óskað eftir aðstoð vegna vanlíðunar. Á fundi barnaverndarnefndar 20. febrúar 2014 hafi verið lagt til að börnin yrðu vistuð utan heimilis til 6 mánaða á meðan stefnda tæki á vandkvæðum sínum og sækti sér meðferð við hæfi. Þá hafi verið lagt til að hún undirgengist forsjárhæfnismat og kæmi sér upp viðunandi heimilisaðstæðum. Hún hafi mætt til viðtals daginn eftir ásamt lögmanni sínum þar sem henni hafi verið kynnt bókun fundarins. Hún hafi lýst sig hlynnta tillögunum en óskað eftir að kynna sér gögnin. Hún myndi ekki mæta á fleiri fundi hjá Barnavernd eða undirrita nein skjöl fyrr en hún væri komin með húsnæði. Í kjölfarið hafi verið gerður umsjársamningur við föður C og D og A vistaður þar með systkinum sínum. Í framhaldi af þessu hafi verið höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og gerð krafa um að vistun barnanna stæði til 21. ágúst 2014. Stefnda hafi samþykkt vistun undir meðferð málsins og hafi það því verið fellt niður. Stefnda hafi farið í meðferð á Hlaðgerðarkoti í júní 2014 og hafi henni lokið í ágúst sama ár. Hafi hún í kjölfarið flutt á áfangaheimili á vegum Samhjálpar og tekið þátt í eftirmeðferðarprógrammi. Í lok október sama ár hafi borist niðurstöður úr forsjárhæfnismati og hafi helstu niðurstöður verið þær að vegna slakrar þroskastöðu, tilfinningalegs ójafnvægis, neyslu, viðhorfa, húsnæðisleysis, samskipta við karlmenn og samskiptaerfiðleika ásamt áralangri vanrækslu, væri stefnda ekki talin hafa nægilega eða nauðsynlega hæfni til að fara með forsjá barna sinna. Í nóvember 2014 hafi borist ítrekaðar tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur vegna bágrar stöðu stefndu og hafi henni verið vísað af áfangaheimilinu vegna ítrekaðra brota á húsreglum. Hafi hún viðurkennt að hafa fallið á vímuefnabindindi í nóvember 2014 og á fundi sínum 9. desember sama ár hafi barnaverndarnefnd komist að þeirri niðurstöðu að stefnda væri ófær um að fara með forsjá sonar síns og hafi borgarlögmanni verið falið að krefjast þess fyrir dómi að stefnda yrði svipt forsjá sonar síns.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að ákvæði a- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt í máli þessu. Hafi stuðningsaðgerðir á grundvelli laganna ekki dugað til að tryggja öryggi drengsins til frambúðar í umsjá stefndu. Hafi málefni hennar verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur frá 2010 og liggi fyrir í málinu 19 tilkynningar, 11 meðferðaráætlanir, 12 bókanir meðferðarfunda Barnaverndar Reykjavíkur og 5 bókanir eða úrskurðir Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Stefnandi hafi á tímabilinu þurft að beita neyðarvistun og vista börn stefndu tímabundið utan heimilis hennar í nokkur skipti. Að mati stefnanda hafi drengurinn búið við vanrækslu og óöryggi um langt skeið. Þrátt fyrir margþættar stuðningsaðgerðir sé ljóst að aðstæður drengsins í umsjá stefndu séu óviðunandi. Hafi ítrekaðar tilkynningar borist er varði áhyggjur af aðbúnaði og utanumhaldi stefndu auk þess sem hún hafi í tímans rás verið í neyslu áfengis og kannabisefna án þess að leita sér meðferðar. Þrátt fyrir víðtækan stuðning við stefndu hafi uppeldishæfni hennar farið versnandi. Staða hennar haustið 2014 hafi verið þess eðlis að hún hafi verið búsett í vernduðu umhverfi á áfangaheimili en þurft að víkja úr því vegna óreglu og óstöðugleika. Þá hafi hún viðurkennt að hafa fallið á vímuefnabindindi. Niðurstöður forsjárhæfnismats séu þær að hún sé ekki hæf til að fara með forsjá sonar síns. Staða hennar í dag sé með öllu óviðunandi, hún sé húsnæðislaus, atvinnulaus og hafi á ný leitað í neyslu vímuefna. Brýnir hagsmunir drengsins krefjist þess að honum verði sem fyrst skapaðar öruggar og traustar uppeldisaðstæður í varanlegu fóstri.
Að mati stefnanda sé af öllu framgreindu ljóst að stefnda sé óhæf til að bera ábyrgð á og sinna uppeldisskyldum sínum gagnvart drengnum. Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Stefnda hafi sýnt að hún geti ekki búið syni sínum þau uppeldisskilyrði sem hann eigi skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir barns og foreldra vegist á séu hagsmunir barnsins þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Þá sé hinu opinbera skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt um í stjórnarskránni, barnaverndarlögum og Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992. Þá eigi reglan sér stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.
Stefnandi telur að meðalhófs hafi verið gætt og öll vægari úrræði hafi verið reynd, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, án þess að þau hafi megnað að bæta forsjárhæfni stefndu og uppeldisaðstæður sonar hennar í umsjá hennar. Sé því ljóst með hliðsjón af aðstæðum öllum og gögnum málsins að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og sonar hennar sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hans og þroska, sbr. a-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu drengsins eða þroska hans sé hætta búin sökum augljóss skorts á forsjárhæfni stefndu vegna vímuefnaneyslu, greindarskorts og persónuleikatruflana, sbr. d-lið 1. mgr. 29. gr. sömu laga. Til að tryggja syni stefndu fullnægjandi vernd og umönnun, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, sé nauðsynlegt að svipta stefndu forsjá drengsins.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefnda byggir á því að stefnandi hafi ekki virt stjórnsýslulega málsmeðferð skv. 25. gr. barnaverndarlaga sem kveði á um að stefnandi geti, eftir því sem nánar sé ákveðið í áætlun skv. 23. gr. sömu laga, tekið við forsjá eða umsjá barns með samþykki foreldris. Hafi stefnda vísað til þessa við meðferð málsins hjá stefnanda þann 9. desember sl. án árangurs. Afstaða stefndu hafi verið sú að mikilvægt væri að endurmat færi fram og ný áætlun lægi fyrir í málinu áður en stefnda tæki afstöðu til þeirrar tillögu sem þá hafi legið fyrir barnaverndarnefnd. Hafi sérstök áhersla verið lögð á að hin nýja áætlun skv. 23. gr. laganna yrði unnin í samvinnu við stefndu og eftir atvikum að höfðu samráði við drenginn eins og lagaákvæði geri ráð fyrir og að áætlunin verði til lengri tíma en áður. Var vísað til 48. gr. laganna um samþykki foreldra og barns skv. 25. gr. Í áætluninni þyrfti að kveða með skýrum hætti á um umgengni. Sé augljóst af gögnum málsins að A vilji vera í sambandi við móður sína og óvissa um það valdi honum miklum áhyggjum.
Stefnda byggir sýknukröfu sína einnig á því að stjórnsýsluúrræði hafi ekki verið tæmd af hálfu stefnanda. Hafi stjórnsýslulegri meðferð hvorki verið hagað í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga um samvinnu og samstarf við stefndu né ákvæði laganna sem krefjist þess að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta. Með málsókninni hafi stefnandi ekki beitt vægustu ráðstöfunum sem völ sé á til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt en aðeins sé gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum ráðstöfunum verði ekki náð með öðru og vægara móti, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Markmið laganna sé að tryggja að börn búi við viðunandi aðstæður sbr. 2. gr. laganna. Barnið búi nú við aðstæður sem barnaverndaryfirvöld telji viðunandi og stefnda hafi samþykkt. Verði orðið við kröfum stefnanda í máli þessu munu aðstæður barnsins ekki breytast, þar sem barnið muni áfram vera í vistun í [...] líkt og verið hafi frá 22. febrúar 2014. Stefnda hafi ekki gert neina kröfu um að þeirri vistun verði hætt, þvert á móti hafi hún lagt til og óskað eftir því að stefnandi fari með umsjá barnsins skv. 25. gr. barnaverndarlaga og í samræmi við áætlun skv. 23. gr. laganna. Verði stefnda sýknuð í málinu skapist grundvöllur til að beita þessu vægasta stjórnsýsluúrræði sem völ sé á í samvinnu við stefndu.
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að með málsókn sinni brjóti stefnandi gegn skýrum fyrirmælum 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga þar sem segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða að slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Stefnandi hafi því ekki gætt meðalhófs við meðferð málsins og þar með brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrri stuðningsúrræði hafi miðað við að barnið yrði áfram í umsjá stefndu en svo sé ekki lengur. Fyrri stuðningsúrræði réttlæti ekki að horfið verði frá meðalhófi og að ekki verði beitt vægustu ráðstöfunum sem völ sé á til að ná því markmiði að hagsmunum barnsins sé sem best borgið, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Stefnda hafi fallist á og óskað eftir því að stefnandi taki drenginn í umsjá sína á grundvelli 25. gr. laganna en stefnandi hafi ekki fjallað um þessa ósk stefndu í úrskurði sínum. Með því að fallast á þessa ósk hefði verið hægt að ná hinu lögmæta markmiði að barnið búi við viðunandi og öruggar aðstæður. Þess í stað hafi stefnandi ákveðið að höfða mál þetta en það sé mjög íþyngjandi fyrir stefndu og leiði til mjög íþyngjandi málsmeðferðar fyrir barnið. Myndi forsjársvipting hafa verulega íþyngjandi áhrif á andlega líðan barnsins sem gæti upplifað að með forsjársviptingu móður væri það endanlega að missa móður sína og tengsl við hana. Barnið eigi rétt á að þekkja foreldra sína, sbr. 1. gr. a í barnalögum nr. 76/2003. Sé réttur barnsins best tryggður með því að það haldi sem bestu og sterkustu tengslum við stefndu þrátt fyrir að vera vistað í [...] næstu ár.
Stefnda byggir á því að stefnandi hafi ekki leitast við að eiga samvinnu við hana við fyrirtöku málsins hjá barnaverndarnefnd þann 9. desember sl. og beri úrskurður stefnanda frá þeim degi þess merki að ekkert tillit hafi verið tekið til sjónarmiða og tillagna stefndu í málinu. Stefndu hafi ekki verið á fundinum sýnd sú fyllsta nærgætni og virðing sem kveðið sé á um í 4. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Sé því um slíka stjórnsýsluannmarka að ræða að sýkna beri stefndu í málinu. Mikilvægt sé að tekið sé tillit til vilja barnsins en A sé orðinn 14 ára gamall, en í 2. málslið 2. mgr. 23. gr. laganna sé gert ráð fyrir að hafa skuli samráð við yngri börn en 15 ára eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til. Í viðtali við fulltrúa Barnaverndar Reykjavíkur þann 28. nóvember sl. hafi drengurinn sagst sakna móður sinnar og vildi hann búa hjá henni. Á fundi 2. desember sl. hafi hann sagt að hann væri ekki sáttur við að dvelja í núverandi vistun til 18 ára aldurs, það væri of langur tími. Hann vilji búa hjá móður sinni þegar hún væri búin að bæta sig og væri batnað. Hann hafi einnig tekið fram að honum liði vel í [...] og sagt að það væri fínt að búa hjá E og systkinum sínum.
Stefnda hafnar því alfarið að forsjárhæfnismatið frá 27. október 2014 verði lagt til grundvallar í málinu. Hafi samstarf stefndu og matsmanns gengið mjög erfiðlega en það hafi fengið mjög á stefndu að hitta matsaðila. Stefnda hafnar alfarið niðurstöðu matsins en viðurkennir að hafa átt við áfengis- og vímuefnavanda að etja og sé það ásamt atvinnuleysi ástæðan fyrir vandamálum hennar. Stefnda segist hafa farið í meðferð til að taka á þessum vanda sínum og hafi verið að bæta ráð sitt undanfarið. Hún sé komin með íbúð í Reykjavík og sé að leita sér að vinnu.
Stefnda bendir á að stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að drengurinn sé í daglegri umönnun stefndu og að uppeldi og samskipti hennar og drengsins sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hans og þroska, sbr. a-liður 29. gr. barnaverndarlaga. Þessi málsgrundvöllur sé ekki í samræmi við staðreyndir málsins þar sem fyrir liggi að barnið sé í vistun í [...] og hafi verið undanfarna 12 mánuði. Ekkert í breytni stefndu sé líklegt til að valda barninu skaða meðan það sé vistað í [...] og þá hafi stefnda fallist á að umgengni hennar við barnið, sem sé einu sinni í mánuði, verði undir eftirliti.
Stefnda bendir á að í þinghaldi þann 23. febrúar sl. hafi hún óskað eftir því að gerð yrði dómsátt í málinu þar sem kveðið yrði á um það að hún afsalaði sér forsjá yfir drengnum og jafnframt um framhald á vistun hans í [...]. Hafi hún farið fram á að í dómsáttinni yrði kveðið á um umgengni hennar við drenginn, einnig að stefnandi hefði eftirlit með honum og veitti honum sálfræðilegan stuðning. Lögmaður stefnanda hafi hafnað þessu og vísað til 4. mgr. 81. gr. barnaverndarlaga þar sem kveðið sé á um úrskurðarvald barnaverndarnefndar í málum er varði umgengni. Sé þetta dæmi um vilja stefndu til að leysa málið í samstarfi við stefnanda og með hagsmuni drengsins í huga og á sem minnst íþyngjandi hátt fyrir hann. Sé því um að ræða brot á 4. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og einnig sé farið gegn meginreglum barnaverndarstarfs um að ávallt skuli beitt vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að, sbr. 2. málslið 7. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna þar sem kveðið sé á um samvinnu við foreldra.
Niðurstaða.
Mál þetta höfðaði stefnandi á hendur stefndu í því skyni að hún verði svipt forsjá sonar síns, A, sem nú er 14 ára gamall, með vísan til a- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002 og var það þingfest 6. febrúar sl. Lögmaður stefndu óskaði þá eftir fjögurra vikna fresti til að leggja fram greinargerð og taldi ekki ástæðu til þess að málinu yrði flýtt og krefðust hagsmunir barnsins ekki flýtimeðferðar. Málinu var frestað til 20. febrúar sl. en þeirri fyrirtöku var frestað utan réttar til 23. febrúar sl. Lögmaður stefndu óskaði þá eftir frekari fresti til að skila greinargerð og í þinghaldi 5. mars sl. lagði hann fram greinargerð og nefndi einnig að hann hygðist leggja fram gagnstefnu í næsta þinghaldi. Málinu var því frestað til sáttaumleitana til 16. mars sl. og í því þinghaldi lagði lögmaður stefndu fram gagnstefnu. Sættir voru reyndar en tókust ekki og í þinghaldi þann 24. mars sl. voru sættir enn reyndar en tókust ekki. Í því þinghaldi lýsti lögmaður stefnanda því yfir að gerð yrði krafa um að gagnsök yrði vísað frá dómi. Í þinghaldi þann 27. mars sl. lagði lögmaður stefnanda fram greinargerð í gagnsök og gerði þær kröfur aðallega að kröfum á hendur honum yrði vísað frá dómi en til vara var krafist sýknu af dómkröfum stefnanda. Málflutningur um frávísunarkröfuna fór fram þann 17. apríl sl. og sama dag var tekin til ákvörðunar eða úrskurðar beiðni stefndu dagsett sama dag um að aflað yrði nýs forsjárhæfnismats. Gagnsök var með úrskurði dómsins uppkveðnum í dag vísað frá dómi eins og að framan greinir.
Lögmaður stefndu óskar eftir því að dómari leggi fyrir stefnanda að afla nýs forsjárhæfnismats um stefndu og vísar til 2. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 því til stuðnings. Í beiðninni segir að tilgangur með matinu sé að meta forsjárhæfni stefndu og leiða í ljós hæfni hennar til að fara með forsjá sonar síns og gæta hagsmuna hans og taka ákvarðanir með bestu hagsmuni og öryggi hans í huga í framtíðinni. Er þess farið á leit að dómkvaddur verði einn hæfur og óvilhallur matsmaður, sérfróður á sviði forsjárhæfnismats, til að meta forsjárhæfni stefndu. Í rökstuðningi með beiðninni kemur fram að í málinu liggi fyrir forsjárhæfnismat frá því í október 2014 en það mat gefi ekki rétta mynd af forsjárhæfni stefndu þar sem hún hafi ekki sýnt samvinnu við matið, hún hafi verið með mótþróa og sýnt neikvætt viðhorf. Sé því mikilvægt að nýtt forsjárhæfnismat fari fram, enda geri stefnda sér nú fyllilega grein fyrir mikilvægi þess og þýðingu varðandi framtíð tengsla hennar við son sinn. Stefnda hafi enga samvinnu sýnt við fyrra matið og ekki gert sér grein fyrir því að það yrði síðar notað gegn henni til að svipta hana forsjá í dómsmáli. Fyrra matið byggi á fjórum viðtölum og prófunum sem matsmaður hafi tekið 19. og 26. september og 3. og 17. október 2014. Samstarfið hafi verið erfitt, en samkvæmt matsmanni hafi stefnda oft sýnt hroka og mótþróa og verið töluvert óþolinmóð. Hún hafi talið forsjárhæfnismatið óþarft og ekki þjóna neinum tilgangi þar sem hún hafi verið búin að samþykkja að sonur hennar yrði í fóstri og umsjá í [...].
Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd áður en mál er höfðað til sviptingar forsjár skv. 29. gr. sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar getur dómari lagt fyrir barnaverndarnefnd að afla nánar tilgreindra gagna, svo sem matsgerðar um foreldra eða barn. Með þessari lagagrein er lögð áhersla á að barnaverndarnefnd sé ekki að höfða mál nema eftir ítarlegan undirbúning og að vandlega athuguðu máli. Í máli þessu liggur fyrir að forsjárhæfni stefndu hefur tvívegis verið metin, fyrra matið er dagsett 5. júlí 2010 og laut að fimm börnum hennar, þeirra á meðal A. Fram kemur í matsgerðinni að málefni fjölskyldunnar hafi verið á borði barnaverndarstarfsmanna í [...] síðastliðin ár. Hafi fjölmargar tilkynningar borist, fyrst vegna neyslu stefndu og E en síðustu tvö ár hafi einna helst borist tilkynningar um slæman aðbúnað barnanna og slakt utanumhald. Leiki grunur á að ástæður tilkynninga kynnu að vera í fyrsta lagi að stefnda bæri ekki skynbragð á þarfir barna sinna, hana skorti innsæi og skilning á hvað væri þeim fyrir bestu og í öðru lagi að hún kynni að vera í neyslu kannabisefna. Þá var það niðurstaða matsins að stefnda væri með skerta forsjárhæfni. Kysi hún að vera í samvinnu væri með öflugum stuðningi og viðeigandi úrræðum hægt að hjálpa henni að yfirstíga þau vandamál sem fjölskyldan glímdi við svo stefnda gæti sinnt uppeldi barnanna með fullnægjandi hætti. Grundvallaratriði væri að hún hætti neyslu vímugjafa sem sýnt þætti að hefði haft truflandi áhrif á foreldrahlutverkið. Taldi matsmaður sanngjarnt og eðlilegt að stefnda fengi tækifæri til að sýna að hún gæti lagfært þau atriði sem sneru að henni sem foreldri og umönnunaraðila. Í matsgerðinni er tekið fram að F hafi tekið að sér að þýða og fara yfir greinargerðina með stefndu og hafi hún viljað koma á framfæri að hún lýsti sig albúna til að takast á við það að vera góð móðir og eindreginn vilji hennar væri að hafa áfram forsjá barna sinna. Síðari matsgerðin er dagsett 27. október 2014. Þar kemur fram að stefnda hafi mælst á mörkum tornæmis og vægrar greindarskerðingar. Þá kemur einnig fram að þrátt fyrir víðtækan stuðning, bæði í formi kennsluvistunar á Vistheimili barna, tilsjón, sálfræðimeðferð og fjárhagslegs stuðnings, hafi ástand stefndu eingöngu farið versnandi varðandi uppeldishæfni. Hún hafi ekki hætt að sækja í áfengi og fíkniefni og hafi hún forgangsraðað málum þannig að börnin hafi lifað við mikið óöryggi og vanrækslu á flestum sviðum uppeldis. Hún hafi ekki verið til samvinnu nema að hluta til og viðhorf hennar séu neikvæð varðandi flesta þá sem komi að málefnum barnanna. Hafi þetta komið skýrt fram í fyrra forsjármati og hafi ekki breyst. Málefni stefndu hafi verið á borðum barnaverndaryfirvalda í meira en 10 ár og eftir mikinn stuðning og vinnu til að styðja hana með börnin virðist staða hennar aldrei hafa verið verri en núna. Taldi matsmaður því stefndu ekki hæfa til að fara með forsjá barna sinna og litlar líkur væru á að hún næði upp nægjanlegri og nauðsynlegri færni til þess. Helstu niðurstöður matsmanns voru því að vegna slakrar þroskastöðu, tilfinningalegs ójafnvægis, neyslu, viðhorfa, húsnæðisleysis, samskipta við karlmenn og samskiptaerfiðleika ásamt áralangri vanrækslu, þá væri stefnda ekki metin með nægjanlega eða nauðsynlega hæfni til að fara með forsjá Jax eða almennt barna sinna. Þá taldi matsmaður að hefði hún umsjá með börnum sínum þá væri veruleg hætta á öryggi þeirra m.t.t. þroska þeirra, námsstöðu og andlegs og líkamlegs öryggis. Fyrir utan framangreindar matsgerðir hafa verið lögð fram í máli þessu fjölmörg gögn sem sýna afskipti Barnaverndar Reykjavíkur af málefnum stefndu og barna hennar undanfarin ár. Er þar m.a. um að ræða 19 tilkynningar, 11 meðferðaráætlanir, 12 bókanir meðferðarfunda Barnaverndar Reykjavíkur og 5 bókanir eða úrskurði Barnaverndarnefndar.
Með vísan til framanritaðs hefur stefnandi að mati dómsins uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga að upplýsa málið nægjanlega áður en ákvörðun var tekin um að krefjast forsjársviptingar á grundvelli 29. gr. laganna. Fyrir liggja í málinu tvær matsgerðir varðandi forsjárhæfni stefndu, hin fyrri frá árinu 2010 og hin síðari frá 27. október sl. Telur dómurinn því enga ástæðu til þess að beita ákvæðum 2. mgr. 56. gr. laganna og leggja fyrir stefnanda að afla nýs forsjárhæfnismat eins og stefnda hefur krafist. Verður kröfu stefndu þar að lútandi því synjað.
Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.
Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfu stefnanda, K, þess efnis að lagt verði fyrir stefnanda, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, að afla nýs forsjárhæfnismats, er synjað.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.