Hæstiréttur íslands
Mál nr. 835/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Þriðjudaginn 5. janúar 2016. |
|
Nr. 835/2015.
|
K (Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.) gegn M (Arnbjörg Sigurðardóttir hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður. Gjafsókn.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem K var gert að greiða M málskostnað í máli sem M hafði höfðað gegn K og krafist þess að lögheimili barna þeirra tveggja yrði hjá sér. Sátt náðist í málinu þess efnis að annað barnið hefði lögheimili hjá K og hitt hjá M. Eftir atvikum þótti rétt að málskostnaður milli aðila í héraði félli niður en staðfest var ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsókn sem K hafði verið veitt þar fyrir dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. nóvember 2015 þar sem leyst var úr ágreiningi aðila um málskostnað og kveðið á um gjafsóknarkostnað í máli þeirra sem að öðru leyti var lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði en til vara að hann verði felldur niður. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins hófu aðilar sambúð árið 1997 og eiga saman tvö börn, dreng fæddan [...] og stúlku fædda [...]. Þau gengu í hjúskap 2005 en munu hafa slitið samvistir um mitt ár 2014. Í kjölfarið leitaði sóknaraðili skilnaðar en við hann reis ágreiningur um hvar lögheimili barnanna ætti að vera. Höfðaði varnaraðili málið og krafðist þess að lögheimili þeirra yrði hjá sér. Aðilar gerðu dómsátt 26. nóvember 2015 um að drengurinn hefði lögheimili hjá varnaraðila en stúlkan hjá sóknaraðila. Með sáttinni lauk málinu að öðru leyti en því að málskostnaður var ákveðinn með hinum kærða úrskurði ásamt gjafsóknarkostnaði sóknaraðila.
Eftir atvikum er rétt að málskostnaður milli aðila í héraði falli niður en gjafsóknarákvæði hins kærða úrskurðar verður staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Málskostnaður í héraði fellur niður en ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað sóknaraðila, K, er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 300.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. nóvember 2015.
Mál þetta var tekið til úrskurðar um málskostnaðarkröfur aðila í dag.
Það var höfðað 11. júní sl. til ákvörðunar um lögheimili tveggja barna aðila og meðlagsgreiðslur.
Stefnandi er M, kt. [...], [...], [...]. Stefnda er K, kt. [...], [...], [...].
Í dag tókst sátt fyrir dómi með aðilum. Lauk málinu þar með um annað en málskostnað, sem þau lögðu í úrskurð dómsins. Krefst hvort um sig málskostnaðar úr hendi hins, stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Lögmaður stefndu hefur afhent yfirlit um vinnu sína vegna málsins, en lögmaður stefnanda gerði munnlega grein fyrir kostnaði hans af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði skv. gjafsóknarleyfi dags. 10. nóvember 2015, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Ásgeirs Blöndal Jóhannssonar, hdl., sem ákveðst 1.100.000 krónur.
Eftir atvikum þykir rétt að gera stefndu að greiða stefnanda málskostnað að hluta, 800.000 krónur.
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Mál þetta fellur niður um annað en málskostnað.
Stefnda K greiði stefnanda M 800.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Ásgeirs Blöndals Jóhannssonar hdl. 1.100.000 krónur.