Hæstiréttur íslands
Mál nr. 239/2005
Lykilorð
- Sjúkrahús
- Læknir
- Örorka
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2005. |
|
Nr. 239/2005. |
Sveinbjörn Ben Eggertsson(Sigurður G. Guðjónsson hrl. Björn Þorri Viktorsson hdl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Sjúkrahús. Læknar. Örorka. Skaðabætur.
S krafði Í um skaðabætur vegna þess að ekki hafði verið brugðist rétt við þegar móðir hans kom til mæðraskoðunar skömmu fyrir fæðingu hans. Kvaðst móðirin þar hafa sagt ljósmóðurinni, sem annaðist skoðunina, að hreyfingar fóstursins hefðu minnkað skyndilega, en henni verið tjáð að allt væri með eðlilegum hætti. S fæddist með keisaraskurði þremur dögum síðar og kom þá í ljós að naflastrengurinn var vafinn um háls hans auk þess sem „ekta“ hnútur var á honum. Greindist S með spastíska lömun eftir fæðinguna, sem rakin var til súrefnisskorts fyrir fæðingu. Byggðist skaðabótakrafa S á því að koma hefði mátt í veg fyrir fötlun hans ef rétt hefði verið staðið að skoðun og eftirliti við mæðraskoðunina. Í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, var talið ósannað að önnur viðbrögð við mæðraskoðunina hefðu skipt sköpum þar sem fullvíst þótti að skaðinn hefði átt sér stað í móðurkviði fyrr á meðgöngunni. Þar sem þessu mati hafði ekki verið hnekkt varð það niðurstaða Hæstaréttar að staðfesta dóminn. Var Í því sýknað af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. júní 2005. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 24.938.600 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum frá 29. maí 1999 til 1. júlí 2001, vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 12. júlí 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.
Atvikum málsins er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Móðir áfrýjanda segist hafa kvartað um skyndilega minnkaðar hreyfingar fósturs, þegar hún kom til reglubundinnar mæðraskoðunar 26. maí 1993, en ekki hafi verið gripið til neinna aðgerða og henni tjáð að allt væri með eðlilegum hætti. Um þessa kvörtun er ekkert skráð í mæðraskrá, sem að öðru leyti er vel færð um vöxt fósturs og aðrar mælingar. Móðirin hringdi á kvennadeild Landspítalans undir miðnætti 28. maí og sagði að hún fyndi nánast engar hreyfingar. Var hún þá hvött til að koma þangað strax og var skráð í mæðraskrá eftir komu hennar, að hún hafi engar hreyfingar fundið í tvo daga. Áfrýjandi fæddist síðan með keisaraskurði kl. 4.46 þá um morguninn. Áfrýjandi telur að koma hefði mátt í veg fyrir fötlun hans ef rétt hefði verið staðið að skoðun og eftirliti við mæðraskoðunina 26. maí, en í stað þess hafi hún fengið rangar upplýsingar, sem hafi leitt til þess, að hún leitaði ekki ráðgjafar hjá Landspítalanum fyrr en síðla kvölds 28. maí.
Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, telur ósannað að önnur viðbrögð við mæðraskoðunina 26. maí 1993 hefðu skipt sköpum þar sem fullvíst megi telja, að skaði sá, sem áfrýjandi býr við, hafi átt sér stað í móðurkviði fyrr á meðgöngunni. Hefur þessu mati ekki verið hnekkt. Verður því að staðfesta dóminn með skírskotun til forsendna hans.
Rétt er, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2004.
Mál þetta var höfðað 26. maí 2003 af hjónunum Eggert Sveinbjörnssyni og Soffíu Dagmar Þórarinsdóttur Bugðutanga 2, Mosfellsbæ f.h. ólögráða sonar þeirra, Sveinbjörns Ben Eggertssonar, til heimilis sama stað, og telst hann vera stefnandi málsins en samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 fara ofangreindir foreldrar með forræði þess. Stefndi er íslenska ríkið. Málið var dómtekið 3. þ.m.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða honum aðallega 24.938.600 krónur, en til vara lægri upphæð, með 0,7% ársvöxtum frá 29. maí 1999 til 11. janúar 2000, en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 21. s.m., en með 1,2% ársvöxtum frá þeim degi til 21. ágúst s.á., en með 1,3% ársvöxtum frá þeim degi til 21. nóvember s.á., en með 1,7% ársvöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2001, samkvæmt II. kafla laga nr. 25/1987 með síðari breytingum, en samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 12. júlí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Af hálfu stefnanda er einnig krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur hans verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I
Um málsefni greinir frá því í stefnu að á árinu 1992 hafi Soffía Dagmar Þórarinsdóttir orðið þunguð að stefnanda. Á meðgöngunni hafi hún haft mjög háan blóðþrýsting. Barnið hafi verið glasabarn og móðirin verið í vikulegu eftirliti alla meðgönguna á Landspítala v/Hringbraut. Barnið í kviði hafi verið mjög sprækt á meðgöngu en þremur dögum fyrir fæðingu, eða þann 26. maí 1993, hafi móðirin skyndilega fundið minnkandi fósturhreyfingar. Hún hafi farið í reglubundið mæðraeftirlit þann sama dag og skýrt þar frá áhyggjum sínum vegna snögglega minnkandi hreyfinga barnsins en ekki verið sett í mónitor eða sónar heldur verið sagt að allt væri eðlilegt og að minnkandi hreyfingar stöfuðu af því að barnið væri að skorða sig. Fæðingartími samkvæmt ómun skyldi vera 20. júní 1993. Tveimur dögum eftir mæðraeftirlitið, eða að kvöldi 28. maí, hafi móðirin farið í skoðun að eigin frumkvæði á kvennadeild Landspítalans og látið vita að hún hefði vart fundið fósturhreyfingar undanfarinn hálfan annan sólarhring. Óskað hafi verið eftir því að hún kæmi umsvifalaust til frekari rannsókna. Hvorki mónitor né ómskoðun hafi þá sýnt hreyfingarmerki. Í aðgerðarlýsingu 29. maí 1993 komi fram að blóðþrýstingur hafi mælst 170/110. Rit hafi verið flatt og reactionslaust, tilraunir til að vekja fóstrið hafi ekki borið árangur og hafi konan verið undirbúin undir keisara þar sem grunur hafi leikið á strengs complication. Í ljós hafi komið að naflastrengur hafi verið vafinn um háls fósturs og auk þess ekta hnútur á honum. Höfuð hafi verið óskorðað. Klukkan 4.20 hafi móðir farið á skurðstofu, framkvæmdur hafi verið keisaraskurður og lifandi drengur fæðst kl. 4.46. Drengurinn hafi orðið fyrir súrefnisskorti í móðurkviði og afleiðingar þess alvarlegur spasmi sem hann búi við í dag.
Í vottorði Ingvars Ingvarssonar heilsugæslulæknis 18. mars 2003, segir um stefnanda: “Sveinbjörn er fjölfatlaður drengur. Hann er flogaveikur og algjörlega hreyfihamlaður sem er rakið til súrefnisskorts í fæðingu. Bundinn hjólastól. Hann er greindur með alvarlega heilalömun, breytilega vöðvaspennu, skerta máltjáningu og seinkun á andlegum þroska. Algjörlega upp á aðra kominn hvað varðar ADL (aðstoð vegna athafna daglegs lífs). Tjáir sig, setningar góðar en nokkuð bjagað tal. Seinkaður motorþroski og spasticitet í útlimum. Auk hjólastóls notar hann standbretti, spelkur og göngugrind.”
Í málinu liggja frammi umsagnir sérfræðinga á vegum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, ritaðar í mars 2003, þ.e. barnalæknis, sálfræðings og félagsráðgjafa.
Niðurstaða (álit) Sólveigar Sigurðardóttur barnalæknis, sérfræðings í fötlunum barna, er svohljóðandi:
“Tæplega 10 ára gamall drengur með extrapyramidal heilalömun á grundvelli súrefnisskorts í kringum fæðinguna. Drengurinn var nánast fullburða, fæddur eftir 37 vikna meðgöngu. Hann er alvarlega hreyfihamlaður og auk þess með flogaveiki. Bilið milli Sveinbjörns og jafnaldranna hefur verið að breikka á undanförnum árum og finnst mér að skoða eigi möguleika á námi í sérskóla, þá Öskjuhlíðarskóla. Leggja þarf áfram áherslu á sjúkra- og sundþjálfun og eftirlit vegna flogaveiki hjá Pétri Lúðvígssyni. Einnig þurfa Sveinbjörn og foreldrar hans öfluga ráðgjöf vegna hegðunarmótunar, setja þyrfti upp umbunarkerfi sem hægt væri að þróa og aðlaga eftir því sem árangur næst.”
Niðurstöður athugunar á fagsviði hreyfi- og skynhamlana í mars 2003 hafa að geyma svofellda greiningu (ICD-10):
“1. Heilalömun með breytilegri vöðvaspennu G80.3.
2. Þroskahömlun, væg F70.
3. Vísbendingar um ákveðna styrkleika í einföldum, sjónrænum þáttum.
4. Áráttu- og þráhyggjuröskun F42.
5. Athyglisbrestur F98.9.
6. Flogaveiki G40.9.
7. Afleiðing súrefnisskorts í kringum fæðingu.”
Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 26. október 2000, til Landlæknisembættisins segir að foreldrar hans hafi leitað til hans vegna líkamstjóns sem sonur þeirra hafi orðið fyrir á meðgöngu og við fæðingu. Með hliðsjón af meðgöngu- og fæðingarsögu, sbr. það sem áður greinir, var þess óskað að kannað yrði hvort í öllu hefði verið eðlilega staðið að fæðingareftirliti þann 26. maí 1993.
II
Samkvæmt beiðni landlæknisembættisins 28. nóvember 2000 skilaði Reynir Tómas Geirsson, prófessor/forstöðulæknir kvennadeildar Landspítala v/Hringbraut greinargerð vegna umræddrar fæðingar og meðgöngu. Þar er atvikum lýst ítarlega á grundvelli fyrirliggjandi mæðraskrár, barnaskrár, aðgerðarlýsingar, hjúkrunarskrár, meðgönguskýrslu og annarra frumgagna spítalans. Í niðurstöðukafla segir:
“. . . Það er álit undirritaðs að miðað við það, sem vanalegt var að gera 1993, hefði mátt standa nokkuð nákvæmar að meðgöngueftirliti hjá þessari konu m.t.t. að gera 1-2 ómskoðanir á síðasta þriðjungi meðgöngunnar til að meta vöxt fóstursins. Lítil þyngdaraukning, forsaga konunnar og blóðþrýstingshækkunin gáfu tilefni til þess. Þrátt fyrir það má ekki ætla að vaxtarseinkunin hefði fundist, enda öryggi ómskoðana til slíks innan við 50% á þeim tíma (jákvætt forspárgildi aðferðarinnar talið 30-60%). Sónartækni þess tíma var ekki þannig að auðvelt hefði verið að sjá að naflastrengurinn var vafinn um háls og enn síður að hnútur væri á honum. Að öðru leyti var meðgöngueftirlitið útfært nokkuð vel með þéttum skoðunum. Breyting varð þegar konan hætti að finna hreyfingar og mögulegt er að skaðinn sem barnið hugsanlega varð fyrir, hafi orðið þá, ef hann stafar af súrefnisskorti. Fyrri viðbrögð um nóttina þegar konan kom inn hefðu því ekki hugsanlega breytt neinu þar sem ritið var þá þegar orðið “flatt”, þ.e.a.s. með merkjum um fósturstreitu og um möguleg skaðleg áhrif á heilastarfsemi fóstursins (við “flatt” rit getur samspil ólíkra hluta heilans verið truflað). Skaðinn, sem barnið varð fyrir, hefur því líklega verið kominn til áður en konan kom inn aðfararnótt þess 29.05.93.
Aðeins 10-15% barna með spastíska lömun hafa sannanlega fengið þann skaða vegna súrefnisskorts. Fóstur þola minnkun á blóðflæði um fylgju og minnkun á súrefnistilfærslu vel niður að ákveðnu marki. Yfir 85% spastískra lamana verða hins vegar af óþekktum orsökum sem eru komnar til fyrir fæðingu barnsins, þ.e.a.s. meðfæddar eða ekki sjáanlega tengdar súrefnisskorti sem kemur til í fæðingunni sjálfri. Því er, þrátt fyrir ofansagt, ekki víst að skaði hjá þessu barni sé til kominn vegna súrefnisskorts í meðgöngunni eða fæðingunni. Ef svo var þá varð skaðinn áður en konan kom inn til fæðingar, á síðustu dögum eða vikum fyrir fæðinguna og kannski að mestu leyti á þeim einum og hálfa sólarhring sem leið frá því að hreyfingar barnsins minnkuðu og fram að því að konan kom inn á deildina.”
Með bréfi Landlæknisembættisins 25. september 2001 til nefnds prófessors er óskað eftir því að ljósmóðir, sem sá móður Sveinbjarnar í mæðraeftirliti þann 26. maí 1993, lýsi því skriflega hvernig hún minnist þeirrar heimsóknar. Í tilefni þessa segir Unnur Jónsdóttir í yfirlýsingu dags. 5. október 2001 (hún hafði þá látið af ljósmóðurstörfum vegna aldurs): “Soffía Dagmar Þórarinsdóttir, f. 24.11.55 3319 kom í mæðraskoðun 26.05.93 hjá mér, ég man ekki orðaskifti okkar, mín vinnuregla var að skrifa niður kvartanir ef einhverjar voru.”
Drög Landlæknisembættisins að álitsgerð í máli stefnanda máls þessa er dagsett 30. október 2001. Endanleg álitsgerð, samhljóða drögunum, er dagsett 19. mars 2003 og er hún svohljóðandi:
“Efni kvörtunar:
Saga: Móðir Sveinbjarnar Ben, Soffía Dagmar Þórarinsdóttir, kt. 241155-3319 hafði fætt barn 1979. Hún undirgekkst síðan glasafrjóvgun 37 ára gömul og við skoðun 42 dögum síðar þann 09.11.1992 reyndist fóstursekkur vera í legi við ómskoðun og fósturhjartsláttur greindist. Hún kom í fyrstu almennu mæðraskoðun á kvennadeild þann 09.12.1992, þá 12 vikur gengin. Í upphafi meðgöngu var blóðþrýstingur eðlilegur og var á bilinu 150-170/95-100 mm Hg á síðasta þriðjungi meðgöngu nema í síðustu skoðun þremur dögum fyrir fæðingu er hann var 155/105 mm Hg. Vegna blóðþrýstingshækkunarinnar var í byrjun apríl ráðlögð “algjör hvíld” og í maí var þess getið að blóðþrýstingurinn hefði lækkað við hvíldina. Soffía Dagmar reykti ekki. Fjölskyldusaga er ómarkverð en hún var fremur þung, 109 kg. Hún kom 16 sinnum í mæðraskoðun á meðgöngunni. Þyngdaraukning var lítil þann tíma eða 3,2 kg. Þvagskoðanir voru eðlilegar. Legbolshæð óx eðlilega fram að fæðingu. Hjartsláttur var alltaf metinn eðlilegur og höfuð merkt óskorðað í síðasta hluta meðgöngunnar en ekki var merkt við skorðun höfuðs í tveimur síðustu mæðraskoðunum. Legástunga var gerð í upphafi meðgöngu, gekk hún vel og eðlilegir litningar greindust hjá fóstrinu. Soffía var í rhesus neikvæðum blóðflokki og fékk rhesus mótefni eftir legvatnsástunguna. Grunur kom um legvatnsleka í janúar 1993 en var hann ekki staðfestur með vissu enda gekk meðgangan áfram á eðlilegan hátt ef frá er talin áðurnefnd blóðþrýstingshækkun. Af tilefni hennar var vakin athygli á því í meðgöngunni að hún væri sennilega með langvinnan háþrýsting sem væri áhættuþáttur fyrir vaxtarseinkun fósturs.
Soffía Dagmar kveður barnið hafa verið mjög sprækt í kviði en þremur dögum fyrir fæðingu, með keisaraskurði, hafi hún skyndilega fundið minnkaðar hreyfingar. Hún fór í reglubundið mæðraeftirlit 26.05.1993 og kveðst þar hafa skýrt frá áhyggjum sínum vegna snögglega minnkandi hreyfinga. Ekki var gerð ómskoðun né heldur fósturriti notaður. Hún kveður sér hafa verið sagt að allt væri eðlilegt og að minnkandi hreyfingar stöfuðu af því að barnið væri að skorða sig. Fæðingartími samkvæmt ómun skyldi vera 26.05.1993 (svo) eða rúmum þremur vikum síðar. Í bréfi lögmanns Soffíu kemur síðan fram að tveimur dögum eftir mæðraeftirlitið eða að kvöldi 28.05.1993 hafi Dagmar farið að eigin frumkvæði í skoðun á kvennadeild Landspítalans og látið þar vita af því að hún hefði vart fundið fósturhreyfingar undanfarinn einn og hálfan sólarhring.
Samkvæmt mæðraskrá kom Dagmar skoðun á kvennadeildina þann 26.05.1993 eins og að ofan greinir og var þar skoðuð af reyndri ljósmóður en ekki var getið um að læknir hefði skoðað hana þá. Engar athugasemdir voru færðar í mæðraskrána þann 26.05.1993 um að Dagmar hefði minnst á minnkaðar hreyfingar. Ljósmóðirin sem um ræðir er nú hætt störfum en samkvæmt yfirlýsingu hennar var það vinnuregla hennar að skrá niður kvartanir ef einhverjar væru en ekki man hún orðaskipti þeirra í þessari heimsókn enda langt um liðið. Eins og að ofan greinir kom Soffía Dagmar þessu næst á fæðingardeild kvennadeildar um miðnætti þann 28.05.1993 vegna minnkaðrar fósturhreyfingar. Klukkan 01.00 þann 29.05.1993 er eftirfarandi skráð í sjúkraskrá “kemur konan á deild 23-A vegna minnkaðra hreyfinga. Fann engar hreyfingar í gær eða í dag (27.05.-28.05). Konan er gengin 36,5 vikur.” Þarna kemur því ekki fram að fósturhreyfingar hefðu greinst minnkaðar þann 26.05.1993. Við komu virtist legbotnshæð nokkuð eðlileg, höfuð var metið óskorðað og legvatn ekki farið. Hún var með samdrætti öðru hvoru en fæðing ekki talin byrjuð. Hafin var skráning með fóstursírita og var hjartsláttarritið talið “flatt”, en skráningin hófst kl. 00.54. Ljósmóðir reyndi að hvetja fóstrið með svonefndri “víbróakústískri stimulation” en það er viðurkennd aðferð til að fá fram hröðun á hjartslætti og greina þar með betur eðlilegan fósturhjartslátt. Engin svörun var við þessu. Ritið var enn flatara er frá leið eða allt fram til kl. 02.20 þessa nótt. Vakthafandi fæðingarlæknir sá Soffíu Dagmar og gerði ómskoðun. Þar var staðfest að barnið var í höfuðstöðu og fósturmælingar leiddu í ljós að stærð barnsins var nokkuð fyrir neðan meðallag en ekki var talið að um vaxtarskerðingu væri að ræða. Fósturritið var flatt áfram en með töluvert djúpum dýfum í þrígang. Grunur vaknaði um að naflastrengur væri í klemmu og var því á grundvelli ofanskráðs ákveðinn keisaraskurður. Hann var síðan gerður á venjulegan hátt. Naflastrengur reyndist vafinn um háls barnsins og ennfremur var “ekta” hnútur á strengnum. Barnið fæddist kl. 04.46 þessa nótt. Legvatn var tært. Barnið var fremur slappt í fyrstu með Apgarskor 5 við eina mínútu 7 við sjö mínútur og 9 við tíu mínútur.
Drengurinn reyndist vera með viðvarandi fósturblóðrás (persistent fetal circulation). Hann var með lágan blóðsykur og blóðflögur lækkuðu og hann því grunaður um sýkingu sem þó ekki greindist Hann var á vökudeild Landspítala Hringbraut í tæpar þrjár vikur eftir fæðingu. Hann mun síðan hafa greinst með spastíska lömun sem talin er geta átt rót sína til súrefnisskorts í fæðingu.
Umsögn: Meginatriði þessa máls snýst um hvort rétt hafi verið að mæðraeftirliti Soffíu Dagmar staðið þann 26.05.1993. Ljóst er að barnið varð fyrir súrefnisskorti fyrir fæðingu og hlaut spastíska lömun eftir. Mögulegt er að langvinnur háþrýstingur hafi átt þátt í einhverri vaxtarseinkun fóstursins en það var fremur lítið miðað við líkamsstærð konunnar og með tilliti til fyrra barns eða aðeins 2533 grömm og 47 sm. Getur það bent á einhvern næringarskort. Engum vafa virðist þó undirorpið að megin ástæðan er vafinn naflastrengur um háls og hnútur á strengnum. Þetta kann að hafa valdið hlutfallslega minna blóðstreymi til fylgjubeðs um tíma en miðað við gang mála virðist aðalvandinn hefjast þegar Soffía Dagmar verður vör við minnkaðar fósturhreyfingar. Samkvæmt bréfi lögmanns Soffíu skýrði hún frá áhyggjum sínum vegna minnkandi hreyfinga við mæðraeftirlit þann 26.05.1993 en þar kemur ekki fram nákvæmlega hvenær hreyfingarnar minnkuðu. Samkvæmt sjúkraskrá kvaðst hún hafa fundið fyrir minnkandi hreyfingum í einn og hálfan sólarhring áður en hún kom á kvennadeildina síðla kvölds 28.05.1993 og þar er einnig skráð að hreyfiskerðingar hefði orðið vart dagana 27.5. og 28.05.1993 en ekkert minnst á þann 26.05.1993. Enn fremur er vísað til umsagnar ljósmóðurinnar sem sá Soffíu Dagmar þann 26.05.1993 um vinnubrögð sín sem áður var getið.
Miðað við skráningu í sjúkraskrá, í tvígang, frá þessum tíma virðist því allt benda til að fósturhreyfingarnar hafi minnkað hugsanlega snögglega þann 27.05.1993 og Soffía leitað síðan til kvennadeildar kvöldið eftir, Þegar þangað var komið var rétt við brugðist, réttri greiningartækni beitt og réttilega gerður bráður keisaraskurður þá um nóttina.
Mjög erfitt er að meta hvort unnt hefði verið að koma í veg fyrir fötlun Sveinbjarnar litla en líklega var skaðinn skeður áður en Soffía Dagmar kom inn á kvennadeildina þann 28.05.1993. Við komu var fósturritið þegar orðið "flatt" þ.e.a.s. komin voru merki fram um fósturstreitu og um möguleg skaðleg áhrif á heilastarfsemi. Færa má fyrir því rök að hugsanlega hefðu verið efni til að gera eina til tvær ómskoðanir á síðasta þriðjung meðgöngu til að meta vöxt fósturs í ljósi lítillar þyngdaraukningar, forsögu konunnar og blóðþrýstingshækkunar. Hins vegar er ekki hægt að ætla að vaxtarseinkun hefði greinst enda öryggi ómskoðunar til slíks fremur lítið. Ennfremur má fullyrða að sónartækni þessa tíma (1993) hefði ekki greint að naflastrengur væri um háls og enn síður að á honum væri hnútur.
Álit: Miðað við ofangreindar upplýsingar er ekki að sjá að mæðraeftirlit hafi brugðist í þessu tilviki og nær útilokað hefði verið að koma í veg fyrir þær alvarlegu afleiðingar súrefnisskorts sem Sveinbjörn Ben varð fyrir”
Frammi liggur viðbót Reynis Tómasar Geirssonar við framangreinda greinargerð hans vegna beiðni aðstoðarframkvæmdastjóra lækninga LSH 10. október 2003 með vísun til óska frá ríkislögmanni um viðbótarupplýsingar varðandi þá staðhæfingu í fyrri greinargerð að “einungis 10-15% barna með spastíska lömun hafi sannanlega fengið þann skaða vegna súrefnisskorts.” Í niðurlagi hennar segir:
“. . .Spurt er, hvort viðbrögð frá tímanum frá því að Soffía Dagmar Þórarinsdóttir kom á Kvennadeildina og þar til keisaraskurður var ákveðinn, hafi verið nægjanlega fljót og hvort þau kunni að hafa haft áhrif á útkomuna. Ljóst var nokkru eftir að konan kom á deildina að ritið var ekki “reaktift” og ekki tókst að fá fram hröðun á hjartslætti, þegar notuð var hljóðörvun á fóstrið. Ef örvun fæst ekki fram er talið rétt að bíða átekta nokkra stund vegna þess að prófið hefur fyrst og fremst jákvætt forspárgildi, þ.e.a.s. ef hröðun næst fram er talið líklegt að ástand fósturs í móðurkviði sé gott (Irion O et al. Is intrapartum vibratory acoustic stimulation a valid alternative to fetal scalp pH determination? Brit J Obstet Gynaecol 1996;103: 642-647). Ekkert svar með hröðun er hins vegar ekki talið jafngilda greiningu um að fóstrið sé í hættu statt. Því var eðlilegt að halda áfram að fylgjast með ritinu. byrjað var að undirbúa keisaraskurð nokkru eftir að konan kom á fæðingaganginn, eins og fram kemur í fyrri greinargerðinni. Eftir stuttan tíma, þar sem ekki var tekið hjartsláttarrit (30 mínútur), var konan sett á ný í rit. Þá var tekið eftir viðbótarmerki um fósturstreitu, sem var djúp hjartsláttardýfa hjá fóstrinu. Keisaraskurðurinn var þá endanlega undirbúinn. Hér voru aðstæður metnar svo að ekki væri nauðsynlegt að gera neyðarkeisaraskurð (hyperacute emergency caesarean section) heldur venjulegan bráðakeisaraskurð. Við keisaraskurðinn var legvatnið tært og Apgar einkunnin sem barnið fékk strax eftir fæðingu sýndi viðunandi gildi sem ekki tengjast slæmum og bráðum súrefnisskorti. Þetta getur bent til þess að skaðinn hafi orðið talsvert löngu fyrir fæðinguna og að keisaraskurður 1-2 klst. fyrr hefði ekki breytt útkomunni. Um er að ræða barn sem hefði hugsanlega getað dáið í móðurkviði og tilviljun réði því að það náðist í barnið áður.
Undirrituðum þykir því enn líklegast að skaðinn hafi verið kominn til nokkru áður en konan kom inn laust eftir miðnætti aðfaranótt 29.5.1993 (kl. 01.00) og ýmislegt bendir til þess að skaðinn kunni að eiga sér aðdraganda fyrir 26.5.2003. (svo).
Ég vil einnig benda á að konan var með langvinnan (krónískan) háþrýsting sem tengist ofþyngd hennar (body mass index 34,5) og hún var ekki með háþrýsting sem fellur undir skilgreininguna “alvarlegur” fyrr en í fæðingunni sjálfri (170/110 mmHg). Hún greindist heldur ekki með meðgöngueitrun fyrir fæðinguna, þ.e.a.s. hafði ekki eggjahvítu í þvagi.
Undirritaður telur, aðspurður, að tíðni skoðana í mæðraeftirliti hafi verið eðlileg miðað við aðstæður í þessari þungun og miðað við undirliggjandi háþrýstingsvandamál konunnar. Um aðra þætti mæðraeftirlitsins vísa ég til fyrri skýrslu minnar.”
Unnur Jónsdóttir og Reynir Tómas Geirsson staðfestu framangreindar skýrslur sínar.
Fyrir dómi kvaðst móðir stefnanda, Soffía Dagmar Þórarinsdóttir, hafa haft hægt um sig í meðgöngunni samkvæmt ráðleggingu, legið mest fyrir og lesið. Við skoðunina 26. maí 1993 hafi hún skýrt ljósmóðurinni Unni Jónsdóttur, sem ávallt hafi verið við hinar reglubundnu mæðraskoðanir, frá verulega minnkuðum hreyfingum fósturs. Venja hafi verið í síðustu skoðunum að læknir kæmi í lokin og “færi yfir”. Unnur hafi hlustað hana með pípu og kvatt til lækni sem hafi þreifað kvið hennar utan fata og sagt þetta vera eðlilegt, barnið væri að skorða sig. Hún hafi síðan ekki fundið hreyfingar 27. og 28. maí. Hún kvaðst minnast þess að hafa komið út frá umræddri skoðun í mæðravernd 26. maí fullviss um að allt væri í lagi þar sem hún hafi treyst því sem sér hefði verið sagt. Faðir stefnanda, Eggert Sveinbjörnsson, kvaðst hafa hringt á kvennadeildina að kvöldi 28. maí til að spyrjast fyrir hvort óhætt væri að Soffía Dagmar færi með honum norður í land, í fermingarveislu. Hjónin báru að móðurinni hefði verið sagt að koma strax þegar upplýst var hvernig háttaði um fósturhreyfingar. Soffía Dagmar kvaðst hafa komið á spítalann rétt undir miðnætti þ. 28. maí, verið mjög fljótlega lögð á bekk, tengd við mónitor og ákveðið að hún skyldi fara í sonar og læknir hafi strax komið til hennar.
Samkvæmt mæðraskrá kom Soffía Dagmar fimmtán sinnum til reglubundins mæðraeftirlits frá 9. desember 1992 (meðganga í vikum 12 + 2) til 26. maí 1993 (meðganga í vikum 36 + 2). Auk reglubundinna, staðlaðra skráninga, s.s. um þyngd og blóðþrýsting, er skráð í athugasemdadálk og staðfest með upphafsstöfum ljósmóðurinnar U.J. og læknis. Athugasemdir lúta almennt að góðri líðan og góðum hreyfingum. Þann 14. apríl er skráð “algjör hvíld”. Eingöngu þ. 26. maí eru engar athugasemdir skráðar og staðfesting er aðeins af hálfu U.J. Unnur Jónsdóttir bar að hún myndi ekki eftir Soffíu Dagmar eða skoðunum sem hana varða. Hún sagði að venjulega hefði læknir verið við hinar reglubundnu skoðanir. Kvörtun vegna minnkaðra fósturhreyfinga hefði verið skráð í athugasemdadálk mæðraskrárinnar og hún hefði beðið um sonarskoðun eða hjartsláttarrit; til þess hefði ekki þurft samráð við lækni. Hún kvað það ekki vera venjulegt að fóstur skorðaði sig í tilfelli fjölbyrja (Soffía Dagmar hafði áður eignast barn fjórtán árum áður-innskot dómsins) svo fljótt sem hér um ræðir.
III
Samkvæmt beiðni lögmanns stefnanda 30. mars 2003 framkvæmdi Jónas Hallgrímsson læknir mat “á afleiðingum súrefnisskorts sem Sveinbjörn varð fyrir á meðgöngu og við fæðingu 29.05.1993. Óskað er eftir mati samkvæmt þeim skaðabótarétti sem var í gildi fyrir setningu skaðabótalaga nr. 50/1993: 1. Hver sé varanleg læknisfræðileg örorka Sveinbjörns. 2. Hver sé fjárhagsleg örorka Sveinbjörns.”
Matsgerð er dagsett 25. apríl 2003. Niðurstaða hennar er svohljóðandi:
“Líkamleg og andleg fötlun Sveinbjörns er það mikil að hann er háður öðrum með allar athafnir daglegs lífs. Bil á milli hans og jafnaldra breikkar stöðugt í námi og er líklegt að fyrr en síðar verði algjör stöðnun hjá honum þannig að hann geti ekki nýtt sér almenna kunnáttu við lestur að neinu gagni. Vegna hreyfihömlunar og þroskaskerðingar er ósennilegt að hann muni geta lært að skrifa. Hreyfihömlun hans í dag útheimtir stöðuga sjúkraþjálfun til þess að viðhalda þeirri færni sem hann nú hefur og er líklegt að þegar fram í sækir muni verða afturför vegna aukinnar vöðvaspennu og stirðleika. Það er mat undirritaðs að Sveinbjörn eigi best heima á stofnun en foreldrum hans hefur tekist með mikilli vinnu og þrautseigju að halda honum heima í eigin umsjá að viðbættum þeim stuðningi sem fáanlegur hefur verið að utan í skóla og á annan félagslegan hátt.
Auðséð er að Sveinbjörn mun aldrei geta aflað tekna fyrir eigin vinnu . . .
Það er mat undirritaðs að varanleg læknisfræðileg örorka Sveinbjörns sé 90% og varanleg fjárhagsleg örorka 100%.”
Að beiðni lögmanns stefnanda framkvæmdi Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur útreiknings 1. maí 2003 á örorkutjóni stefnanda. Reiknaðist honum höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps á slysdegi nema 24.615.600 krónum verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda 1.476.900 krónur eða 6% af höfuðstólsverðmæti tapsins. Frá og með 26. aldursári var gengið út frá meðaltekjum iðnaðarmanna. Við útreikning höfuðstólsverðmætis voru samkvæmt ósk lögmannsins notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir allt frá slysdegi, eða samtals til útreikningsdags 1. maí 2003 54,81%.
Að beiðni lögmanns stefnda framkvæmdi tryggingafræðingurinn síðan eftirtalda útreikninga:
1) Örorkutjón stefnanda á grundvelli meðaltekna verkamanna eins og þær voru 29/5 1993, þ.e. á slysdegi.
2) Örorkutjón stefnanda á grundvelli meðaltekna iðnaðarmanna eins og þær voru á slysdegi.
3) Örorkutjón stefnanda á grundvelli meðaltekna verkamanna eins og þær voru í maí 2003.
4) Höfuðstólsverðmæti bóta frá almannatryggingum, frá 16 til 67 ára, miðað við upphæðir eins og þær voru á slysdegi.
5) Höfuðstólsverðmæti bóta frá almannatryggingum, frá 16 til 67 ára, miðað við upphæðir eins og þær voru árið 2003.
Niðurstöður tryggingafræðingsins um höfuðstólsverðmæti á slysdegi:
1) Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps 9.872.400 krónur og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda 592.300 krónur.
2) Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps 11.692.700 krónur og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda 701.600 krónur.
3) Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps 19.136.800 krónur og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda 1.148.200 krónur.
4) 5.025.000 krónur.
5) 8.933.000 krónur.
IV
Bótafjárhæð samkvæmt aðalkröfu stefnanda er reist á framangreindum tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar frá 1. maí 2003. Hún er þannig sundurliðuð:
1. Örorkutjón:
1.1 Varanlegt örorkutjón kr. 24.615.600
1.2 - 25% frádráttur vegna skattfrelsis af bótum
v/varanlegs örorkutjóns og eingreiðsluhagræðis - kr. 6.153.900
Samtals kr. 18.461.700
1.3 Töpuð lífeyrisréttindi kr. 1.476.900
Samtals kr. 19.938.600
2 Miskabætur kr. 5.000.000
Samtals kr. 24.938.600
Varakrafa stefnanda tekur mið af lækkun vegna bóta almannatrygginga.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að forða hefði mátt honum frá þeirri fötlun, sem hann búi við vegna súrefnisskorts fyrir fæðingu, ef rétt hefði verið staðið að skoðun og eftirliti þann 26. maí 1993 þegar móðir barnsins hafi sérstaklega haft orð á áhyggjum sínum vegna minnkandi fósturhreyfinga. Upplýsingar, sem hún hafi fengið við mæðraskoðun án þess að fullnægjandi rannsókn lægi þar að baki, um að ástæður skyndilega minnkandi fósturhreyfinga væru þær að barnið hefði skorðað sig en þær hafi reynst rangar, hafi síðan leitt til þess að hún hafi ekki leitað ráðgjafar hjá Landspítalanum fyrr en um miðnætti 28/29 maí þrátt fyrir að hafa ekki fundið neinar fósturhreyfingar dagana 27. og 28. maí. Rekja megi örorku stefnanda til þessarar handvammar.
Þá er byggt á því að of langur tími hafi liðið frá því að móðir stefnanda kom á kvennadeild Landspítalans og þar til bráðakeisaraskurður var framkvæmdur. Forða hefði mátt stefnanda frá tjóni hefði keisarafæðingin verið framkvæmd fyrr eða um leið og fyrir lá hversu alvarlegt ástand fóstursins var orðið í móðurkviði.
Byggt er á því að stefndi beri húsbóndaábyrgð á því sem misfarist hafi við mæðraeftirlitið á meðgöngu móður stefnanda og við framkvæmd fæðingar. Um líkamstjónið er vísað til niðurstöðu matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar læknis og á því byggt að 90% læknisfræðileg örorka stefnanda sé sönnuð með læknisfræðilegum gögnum og matsgerðinni. Líkamstjónið sé til þess fallið að valda minnkun á starfsorku. Í tilviki stefnanda sé ljóst að mikil skerðing á starfsorku sé þegar komin fram.
Miskabótakröfu stefnanda er ætlað að bæta öll óþægindi hans og þjáningar af völdum áverkanna auk röskunar á stöðu og högum.
V
Af hálfu stefnda er málatilbúnaði stefnanda og kröfum reistum á honum mótmælt. Byggir stefndi á því að mæðraeftirlit og viðbrögð við ástandi móður stefnanda hafi verið fyllilega í samræmi við viðurkenndar aðferðir og þekkingu. Engri ólögmætri eða saknæmri háttsemi hafi verið til að dreifa, hvorki við mæðraeftirlit né þegar Soffía Dagmar hafi haft sambandi og komið eftir miðnætti aðfararnótt 29. maí 1993 uns keisaraskurður hafi verið framkvæmdur. Byggir stefndi á því að líkamstjón stefnda verði ekki rakið til athafna eða athafnaleysis starfsmanna stefnda.
Þar sem ekkert óeðlilegt hafi komið fram við mæðraskoðun þann 26. maí 1993 hafi ekki verið ástæða til frekari aðgerða þann dag. Ekkert bendi til þess að móðir stefnanda hafi sérstaklega getið um minnkaðar fósturhreyfingar þennan dag og ólíklegt sé, þótt svo hefði verið, að einhverjar aðgerðir hefðu komið í veg fyrir tjón stefnanda; þar komi m.a. til að sónarskoðun á þessum tíma hefði ekki greint vafinn naflastreng um háls eða ektahnút. Þá sé einnig alþekkt að strengur geti verið vafinn um háls og á honum hnútur án þess að nokkuð ami að fóstri. Fyrir því séu sterkar vísbendingar að súrefnisskortur og heilaskaði stefnanda hafi verið til kominn áður en móðir stefnanda kom á sjúkrahús eftir miðnættið 29. maí 1993 og líklega áður en hún kom í reglulegt mæðraeftirlit 26. s.m.
Af hálfu stefnda er á það bent að tæplega sjö og hálft ár hafi liðið uns fullyrðingar um kvartanir móður um minnkaðar fósturhreyfingar við reglubundið eftirlit 26. maí 1993 hafi verið settar fram í kvörtun til landlæknis. Ekki sé unnt að leggja þessar fullyrðingar til grundvallar, bæði vegna tómlætis og þess að ekkert sé skráð um slíkar kvartanir. Löglíkur séu á því að kvartanir hefðu verið skráðar og virtar ef fram hefðu komið, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál.
Af hálfu stefnda er mótmælt sem rangri og órökstuddri þeirri staðhæfingu að of langur tími hafi liðið frá því að móðir stefnanda kom á kvennadeild landspítala uns bráðakeisaraskurður hafi verið framkvæmdur. Ekki virðist vera á því byggt af hálfu stefnanda að framkvæma hefði átt neyðarkeisaraskurð en engar aðstæður hafi réttlætt það og í slíkum tilvikum sé um áhættusama aðgerð að ræða.
Varakrafa stefnda er rökstudd á eftirfarandi hátt:
Örorkutjónsútreikning beri að miða við meðaltekjur iðnaðarmanna í maí 1993.
Frá framtíðartekjumissi stefnanda beri að draga þær bætur almannatrygginga sem gera megi r áð fyrir að hann muni njóta og ennfremur að líta til þess að hann njóti og muni njóta ýmiss konar samfélagslegrar aðstoðar og umönnunar í framtíðinni, t.d. á grundvelli laga um félagslega aðstoð og laga um málefni fatlaðra.
Líta beri til frádráttar vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis miðað við hærri hundraðshluta en gert sé af hálfu stefnanda og taki sá frádráttur einnig til tapaðra lífeyrisréttinda.
Miskabótakröfu er mótmælt en til vara sem of hárri.
Vaxtakröfu er mótmælt, m.a. sakir tómlætis. Dráttarvaxtakröfu er mótmælt, einkum upphafstíma þar sem ekki eigi að dæma þá frá fyrri tíma en dómsuppsögu, sbr. 15. gr. eldri vaxtalaga nr. 25/1987 og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Komi til bótaskylda beri engu að síður að koma til skiptingar og lækkunar bóta eftir vægi orsaka þar sem yfirgnæfandi líkur séu á að tjón stefnanda sé af öðrum orsökum en ætlaðri sök starfsmanna stefndu.
VI
Soffía Dagmar var með langvinnan háþrýsting sem talið var tengjast ofþyngd hennar (bodymax index 34,5). Hún var ekki með háþrýsting sem fellur undir það að vera alvarlegur fyrr en í fæðingunni sjálfri. Hún hafði verið sett á háþrýstingslyf í seinni hluta meðgöngunnar. Hún greindist ekki með meðgöngueitrun fyrir fæðingu. Barnið var í minna lagi þegar það fæddist sem vel getur gefið vísbendingu um næringarerfiðleika. Hugsanlegt er að Soffía Dagmar hafi verið með blóðsykurs vandamál (meðgöngu sykursýki) en sykurþolspróf var ekki framkvæmt, þar sem aldrei komu fram merki um sykur í þvagi á meðgöngu.
Þegar Soffía Dagmar kom til umræddrar skoðunar um miðnætti 28./29. maí 1993 var hún sögð með samdrætti öðru hverju þótt fæðing væri ekki talin byrjuð. Legbotnshæð var nokkuð eðlileg, höfuð talið óskorðað og legvatnið ekki farið. Skráning var hafin með fóstursírita kl.00.54 og var hjartsláttarritið talið flatt. Reynt var að vekja fóstrið með svonefndri hljóðörvun sem telst viðurkennd aðferð en engin svörun eða viðbrögð fengust. Ritið varð enn flatara er frá leið, allt til kl.02.20 um nóttina þegar vakthafandi fæðingalæknir var tilkallaður og gerði hann ómskoðun. Var þá staðfest að barnið væri í höfuðstöðu. Fósturmælingar leiddu í ljós að stærð barnsins var nokkuð fyrir neðan meðallag en ekki var talið að um vaxtarskerðingu væri að ræða. Fósturritið var áfram flatt og þrívegis komu fram töluverðar dýfur. Vaknaði þá grunur um naflastrengsklemmu og á grundvelli þessara upplýsinga var ákveðið að taka barnið með keisaraskurði sem framkvæmdur var á venjulegan hátt. Barnið fæddist kl.04.46 umrædda nótt og reyndist naflastrengur vafinn um háls þess og var svonefndur ektahnútur á strengnum.
Er keisaraskurðurinn var framkvæmdur var legvatnið tært og Apgar gildi barnsins þokkalegt. Það var mat barnalæknis á vökudeild að gert væri ráð fyrir því að barnið myndi þroskast og dafna eðlilega. Það var mat lækna vökudeildar eftir fæðinguna að klinisk atriði hefðu komið fram sem bentu til sýkingar hjá barninu fyrir fæðingu þótt ekki hafi verið hægt að sanna það með rannsóknum. Sérstaklega var getið lágs sykurmagns í blóði barnsins og fækkunar á blóðflögum. Þá ber þess að geta að rannsóknir hafa almennt sýnt að aðeins í fæstum tilfellum þar sem börn fá heilalömun (cerebral paulsy) má rekja það til súrefnisskorts við fæðingu; mikill meirihluti tilvika er vegna óþekktra orsaka fyrir fæðingar. Samkvæmt þessu verður að ætla að sá skaði, sem barn þetta varð fyrir, hafi verið til kominn áður en móðirin kom inn á kvennadeild aðfararnótt 29. maí 1993. Sennilega hefur hann átt sér stað löngu fyrir 26.maí. Barnið var lítillega vaxtarskert sem gæti hafa tengst hækkun blóðþrýstings móður. Barnið fæddist með ektahnút á naflastreng og getur naflastrengsklemma í lok meðgöngunnar hafa valdið minnkaðri súrefnis- og næringartilfærslu til barnsins, þar með reyndi það að spara tiltæka orku og hreyfa sig sem allra minnst.
Soffía Dagmar kveðst hafa kvartað um minnkaðar hreyfingar fósturs í mæðraskoðun þann 26. maí er hún kom til reglubundinnar skoðunar á kvennadeildina en mæðraskoðanir voru þéttar og vel útfærðar. Ekkert er skráð um þessa kvörtun í mæðraskrá þótt ljósmóðir staðfesti með upphafsstöfum sínum að skoðun hafi farið fram og engin athugasemd eða kvittun er um að læknir/sérfræðingur hafi verið tilkvaddur eða framkvæmt skoðun. Ljósmóðirin, Unnur Jónsdóttir, hefur borið að hefði konan borið upp kvörtun um minnkaðar hreyfingar hefði það verið skráð, læknir verið kallaður til og sennilega við brugðist með monitorriti eða ómskoðun.
Við komu á fæðingargang Kvennadeildar um miðnætti 28-29. maí komu fram merki um fósturstreitu í monitorriti og var við brugðist með ítarlegum rannsóknum, síritun, hljóðörvun og ómskoðun og síðan gerður keisaraskurður og er ekki annað að sjá en viðbrögð hafi verið rétt og viðunandi og með eðlilegum flýti. Miðað við fósturrit (kliniskt ástand barnsins) seinustu klst. fyrir fæðinguna (keisaraskurðinn), verður að telja að lífsmörk barnsins strax eftir fæðinguna hafi verið óvenjugóð eða Apgar 5 við eina mín. 7 við sjö mín. og 9 við tíu mín. Legvatnið var og tært sem bendir til að áverki barnsins hafi ekki verið nýtilkominn. Við rannsókn barnsisns á vökudeild var viss grunur um að það hefði verið með sýkingu fyrir fæðingu þótt ekki tækist að sanna slíkt. Það var og mat lækna vökudeildar að barnið myndi sennilega þroskast eðlilega.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að ósannað sé að Soffía Dagmar hafi kvartað um minnkaðar hreyfingar við mæðraskoðun þann 26. maí 1993. Einnig er ósannað að önnur viðbrögð hefðu skipt sköpum þar sem ljóst er af gögnum málsins að fullvíst megi telja að sá skaði, sem stefnandi býr við, hafi átt sér stað í móðurkviði fyrr á meðgöngunni. Fötlun stefnanda verður því ekki rakin til lélegs mæðraeftirlits eða fæðingarhjálpar.
Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Benedikt Ó. Sveinsson og Konráð Lúðvíksson, sérfræðingar í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Sveinbjörns Ben Eggertssonar.
Málskostnaður fellur niður.