Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 16

 

Þriðjudaginn 16. janúar 2007.

Nr. 34/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi „þar til málum hans lýkur hjá lögreglu“ en þó ekki lengur en til föstudagsins 23. febrúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðahaldi allt til föstudagsins 23. febrúar 2007 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 12. janúar 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi þar til málum hans lýkur hjá lögreglu en þó eigi lengur en til föstudagsins 23. febrúar 2007, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kærði hafi verið ásamt tveimur öðrum mönnum handtekinn í nótt í bifreið við Smáratorg í Kópavogi eftir að í bifreiðinni fannst sjóðsvél.  Þremenningarnir, þ.m.t. kærði, hafi játað að hafa fyrr um nóttina brotist inn í hárgreiðslustofuna Hárkó í Hlíðarsmára 11 í Kópavogi og stolið sjóðsvélinni.  Aðkoma á vettvangi á hárgreiðslustofunni hafi borið með sér að brotist hafði verið þar inn (M. 007-2007-02609).  Kærði sé grunaður um fleiri brot að undanförnu:

M. 007-2007-02181: Að morgni miðvikudagsins 10. þ.m. hafi kærði verið stöðvaður við akstur á bifreiðinni [...] á Reykjanesbraut á móts við Kaplakrika í Hafnarfirði.  Kærði sé réttindalaus.  Kærði hafi greint frá því við yfirheyrslu að hann hefði stolið bifreiðinni ekið henni án ökuréttinda. Við leit í bifreiðinni hafi verið lagt hald á muni sem taldir séu vera þýfi og taldir eru að hluta tengjast innbrotum í Borgarfirði í byrjun þessa mánaðar.

M. 007-2007-1018: Fimmtudaginn 4. þ.m. hafi verið tilkynnt um innbrot í íbúðarhúsnæði að [...] í Kópavogi.  Tilkynnandi hafi greint frá því að DVD spilara hefði verið stolið og tveimur talstöðvum.  Kærði hafi greint frá því við yfirheyrslu þann 6. þ.m. að hann hefði farið með tveimur mönnum að [...] og aðstoðað þá við að taka þaðan heimabíókerfi.

M. 010-2006-64253:  Að morgni fimmtudagsins 21. f.m. hafi verið tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við [...] í Reykjavík.  Þegar lögregla kom á staðinn hafi tilkynnandi greint frá því að tveir grunsamlegir menn hafi verið við húsnæði þar nálægt og síðan hafi þeir verið við bifreiðina [...].  Við athugun lögreglu hafi komið í ljós að bifreiðinni hafði verið stolið þann 20. s.m. í Reykjanesbæ.  Kærði hafi verið handtekinn ásamt öðrum manni skömmu síðar í húsnæði þar nálægt.  Kveikjuláslyklar bifreiðarinnar hafi fundist í húsnæðinu.  Kærði hafi viðurkennt við yfirheyrslu þann 21. f.m. að hafa stolið bifreiðinni.

M. 036-2006-14726: Aðfaranótt þriðjudagsins 19. f.m. hafi verið tilkynnt um stuld á bensíni í Lækjargötu í Hafnarfirði.  Ökumaður bifreiðarinnar [...] hafði komið á bensínstöðina, dælt bensíni á bifreiðina og síðan ekið á brott án þess að greiða fyrir bensínið.  Kærði hafi viðurkennt við yfirheyrslu þann 21. f.m. að hafa stolið bensíninu.

M. 010-2006-64753: Aðfaranótt sunnudagsins 24. f.m. var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í bensínstöð Olís við Álfabakka í Reykjavík.  Lögregla hafi komið á staðinn skömmu síðar og handtekið kærða á vettvangi.  Við leit á kærða hafi fundist nokkur búnt af símkortum.  Lögregla hafi lagt hald á upptöku úr eftirlitsmyndavél sem sýni kærða ásamt öðrum manni fara inn á bensínstöðina.  Á vettvangi hafi kærði greint frá því að hann hefði brotist inn til að ná sér í matvæli.  Við yfirheyrslu síðar sama dag hafi kærði neitað að tjá sig um málið. 

M. 036-2006-14443: Aðfaranótt mánudagsins 11. f.m. var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í bílskúr að [...] í Hafnarfirði og skömmu síðar barst aftur tilkynning um ferðir geranda frá staðnum.  Kærði hafi verið handtekinn skömmu síðar skammt frá vettvangi en hann hafi þá verið í annarlegu ástandi.  Tiltekinn vitorðsmaður kærða hafi verið handtekinn skömmu síðar þar skammt frá.  Kærði hafi greint frá því við yfirheyrslu síðar sama dag að hann hefði farið inn í bílskúrinn í því skyni að hlýja sér. 

M. 034-2006-12569: Að kvöldi mánudagsins 4. f.m. var tilkynnt um innbrot í íbúðarhúsnæði að [...] í Reykjanesbæ.  Kærði var handtekinn kvöldið í Reykjanesbæ ásamt tveimur öðrum aðilum.  Við leit í bifreiðinni og í húsnæði sem kærði og samferðafólk hans hefur haldið til í fannst mikið af munum sem taldir eru tengjast innbrotinu og fleiri innbrotum á svæðinu.  Við yfirheyrslu þann 6. f.m. neitaði kærði aðild að innbrotinu eða hann hafi haft vitneskju að um væri að ræða þýfi.

M. 010-2006-61110: Aðfaranótt laugardagsins 2. f.m. hafi verið tilkynnt um innbrot í prentsmiðjuna Odda við Höfðabakka 3 í Reykjavík og hafði verið stolið fartölvu og tölvuskjá.  Lagt hafi verið hald á upptöku úr eftirlitsmyndavél sem sýni kærða ásamt öðrum manni á vettvangi í umrætt skipti.  Við yfirheyrslu þann 24. f.m. hafi kærði viðurkennt að hafa ásamt öðrum manni brotist inn í fyrirtækið.

 Kærði hafi áður verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir rán, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. júní sl. í máli nr. 670/2006 þar sem kærði hafi verið dæmdur í 9 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundið í 2 ár.  Kærði hafi lokið afplánun dómsins þann 29. nóvember sl.  Þann 29. september sl. hafi kærði verið dæmdur í sektarrefsingu fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot.  Ljóst sé að brotaferill kærða hófst að nýju strax að lokinni afplánun.  Lögreglan telji yfirgnæfandi líkur á því, með vísan til ferils kærða og hegðunar undanfarnar vikur, að fari hann frjáls ferða sinna muni hann halda brotastarfseminni áfram.  Mikilvægt er að orðið verði við kröfu lögreglunnar til þess að kærða verði ókleyft að halda brotahrinunni áfram, svo að lögreglu gefist ráðrúm til að ljúka rannsókn ofangreindra mála og unnt verði að ljúka meðferð mála hans fyrir dómi.

Sakarefnið sé talið varða við 231. gr., 244. gr., 254. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Með vísan til framlagðra rannsóknargagna er fallist á að fyrir hendi séu skilyrði þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 svo sem krafist er og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldstímanum skemmri tíma. Ber því að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð:

Kærði, X, [kt. og heimilisfang], skal sæta gæsluvarðhaldi þar til málum hans lýkur hjá lögreglu en þó eigi lengur en til föstudagsins 23. febrúar 2007, kl. 16:00.