Hæstiréttur íslands
Mál nr. 439/2010
Lykilorð
- Laun
|
Fimmtudaginn 3. mars 2011. |
|
|
Nr. 439/2010. |
Sigtryggur Leví Kristófersson (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Norðurflugi ehf. (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Laun.
S krafðist þess að N ehf. greiddi sér laun vegna vinnu sem S hafði innt af hendi fyrir N ehf. sem flugmaður og framkvæmdastjóri félagsins frá því í október 2006 til september 2008 auk útlagðs kostnaðar. S byggði launakröfu sína að hluta á drögum að starfssamningi sem hafði verið lagður fyrir stjórn N ehf. í febrúar 2008 og að samkomulag hefði verið um að uppgjör á kröfunni færi fram þegar N ehf. fengi flugrekstrarleyfi. Hæstiréttur taldi ósannað að samningur hefði verið gerður við S um störf í þágu N ehf. á þessu tímabili og vísaði til þess að í umræddum samningsdrögum hefði ekki verið kveðið á um að greitt yrði fyrir fyrri störf S í þágu félagsins. Þá lá fyrir að á tilteknum fundi í stjórn N, þegar S var formaður stjórnar, hefði ársreikningur félagsins fyrir rekstrarárið 2007 verið afgreiddur til framlagningar á aðalfundi og hann síðan samþykktur þar. Óumdeilt væri að í ársreikningnum hefðu hvorki verið færð til gjalda laun S, fremur en til framkvæmdastjóra eða annarra stjórnarmanna, né til skuldar krafa hans um vangoldin laun. Af þessum sökum var talið að S hefði ekki tekist að sanna, gegn andmælum N ehf., að hann hefði fyrir ársbyrjun 2008 leyst af hendi störf í þágu félagsins sem ætlunin hefði verið að hann fengi greidd laun fyrir. Jafnframt var talið að S ætti ekki tilkall til greiðslu frekari launa vegna starfa í þágu N ehf. á árinu 2008 enda lágu hvorki fyrir viðhlítandi gögn um störf S í þágu N ehf. né um tekjur N ehf. á því ári. Loks var talið að ekki hefði tekist lögfull sönnun um þær greiðslur sem S hélt fram að hann hefði innt af hendi fyrir hönd N ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2010. Hann krefst að stefnda verði gert að greiða sér 22.435.384 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. nóvember 2006 til 15. september 2008, en af 22.435.384 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum þremur innborgunum á samtals 1.450.000 krónum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins stofnuðu Ágúst Bjarnason og Sigurður Þ. Sigurðsson 20. janúar 2006 ásamt einum öðrum manni Þórsgötu 6 ehf. og var hlutafé í félaginu samtals 600.000 krónur, en í tilkynningu um stofnun þess var aðalstarfsemi sögð vera húsbyggingar og önnur mannvirkjagerð. Nafni félagsins var breytt 15. maí 2006 í Norðurflug ehf., en fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var tilkynnt 16. júní sama ár að áfrýjandi væri framkvæmdastjóri félagsins ásamt Sigurði. Fyrir héraðsdómi lýstu Ágúst og Sigurður því báðir í vitnaskýrslum að þegar áfrýjandi kom að félaginu hafi verið uppi ráðagerðir um að það keypti þyrlu til frístundaafnota fyrir þá þrjá, einkum í tengslum við veiði. Félagið fékk 21. júní 2006 afsal fyrir flugskýli við Reykjavíkurflugvöll, en samkvæmt skýrslum Ágústs og Sigurðar mun það um líkt leyti hafa eignast þyrlu.
Fram er komið að síðari hluta árs 2006 hafi áfrýjandi leitað til forráðamanna Sunds ehf. og kynnt þeim hugmyndir um að auka umsvif stefnda með þátttöku þess félags. Í þeim efnum hafi áfrýjandi meðal annars ráðgert að stefndi fengi flugrekstrarleyfi, keypti nýja þyrlu og myndi sinna margvíslegum flugrekstri. Á þessum grunni voru á hluthafafundi 3. janúar 2007 gerðar nýjar samþykktir fyrir stefnda, þar sem kveðið var á um að tilgangur félagsins væri meðal annars flugrekstur. Um leið var hlutafé hækkað í 1.200.000 krónur með því að Sund ehf. lagði fram nýtt hlutafé að fjárhæð 600.000 krónur og var jafnframt kjörin ný stjórn, þar sem áfrýjandi varð formaður, en hann og Sigurður virðast þá hafa látið af starfi framkvæmdastjóra, sem Páll Þór Magnússon tók við. Aftur voru gerðar nýjar samþykktir fyrir stefnda 15. mars 2007, þar sem meðal annars kom fram að hlutafé í félaginu væri 121.200.000 krónur, en fyrirtækjaskrá var tilkynnt 11. október 2007 um þessa hækkun hlutafjár, svo og að hlutafjáraukningin hefði verið greidd að fullu 27. ágúst sama ár. Þegar þarna var komið hafði stefndi fengið 23. mars 2007 flugrekstrarleyfi fyrir svokallað verkflug með loftförum í atvinnuskyni.
Fyrir liggur að áfrýjandi boðaði 4. febrúar 2008 til stjórnarfundar 8. sama mánaðar, þar sem átti meðal annars að fjalla um „ógreidd laun Sigtryggs“ og starfssamning fyrir hann. Á þessum fundi mun áfrýjandi hafa lagt fram drög að starfssamningi milli sín og stefnda, þar sem sagði í 1. grein að hann „sem verið hefur starfandi stjórnarformaður félagsins frá 1. október 2006, er ráðinn framkvæmdastjóri þess.“ Þá var í 5. grein ráðgert að grunnlaun áfrýjanda yrðu 765.000 krónur á mánuði, en þau myndu hækka í 895.000 krónur þegar nánar tilgreint flugrekstrarleyfi handa stefnda fengist frá Flugmálastjórn Íslands. Samkvæmt fundargerð frá stjórnarfundinum 8. febrúar 2008 var báðum þessum dagskrárefnum frestað til næsta stjórnarfundar, en tekið fram um liðinn, sem varðaði ógreidd laun, að um þau hafi engin gögn legið fyrir á fundinum. Næsti stjórnarfundur mun hafa verið haldinn 9. maí 2008, en af fundargerð frá honum verður ekki ráðið að þessi málefni hafi verið þar til umfjöllunar. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár 16. júlí 2008 var kosin ný stjórn í stefnda á aðalfundi 15. maí sama ár og átti áfrýjandi þar sæti sem varamaður. Nýja stjórnin hélt fund síðastgreindan dag og var meðal annars tekið fram í fundargerð að þar væri mættur „framkvæmdastjóri félagsins Sigtryggur L. Kristófersson.“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið að tilkynnt hafi verið til fyrirtækjaskrár að áfrýjandi gegndi þessu starfi og virðist Páll Þór Magnússon eftir sem áður hafa verið skráður þar sem framkvæmdastjóri stefnda.
Stefndi sótti 18. júní 2008 um flugrekstrarleyfi fyrir bæði verkflug og flutningaflug, en samkvæmt umsókninni réði hann yfir þremur þyrlum, þar af einni, sem nota ætti fyrir farþegaflug. Leyfi flugmálastjórnar liggur ekki fyrir í málinu, en óumdeilt virðist vera að það hafi verið veitt á grundvelli þessarar umsóknar sumarið 2008 og stefndi lagt upp frá því stund á flugrekstur með farþega. Þegar þar var komið sögu virðist ekkert frekar hafa verið fjallað um óskir áfrýjanda um uppgjör ógreiddra launa og gerð starfssamnings og ritaði hann af því tilefni bréf til stefnda 15. ágúst 2008, þar sem því var lýst að hann hygðist láta af störfum 15. september sama ár ef ekki yrði frá þessu gengið. Af því varð ekki og mun áfrýjandi hafa hætt störfum síðastnefndan dag, en mál þetta höfðaði hann 27. ágúst 2009 til heimtu ógreiddra launa fyrir tímabilið frá 1. október 2006 til 15. september 2008, auk útlagðs kostnaðar vegna viðgerða á flugskýli stefnda.
II
Eins og rakið var að framan var áfrýjandi samkvæmt tilkynningum til fyrirtækjaskrár framkvæmdastjóri stefnda frá miðju ári 2006 til 3. janúar 2007, en stjórnarformaður félagsins frá þeim tíma til 15. maí 2008, þegar hann gerðist varamaður í stjórn. Eftir það liggur ekkert fyrir í málinu um stöðu áfrýjanda hjá stefnda annað en að annars vegar var hann í fundargerð frá stjórnarfundi síðastgreindan dag nefndur framkvæmdastjóri félagsins og hins vegar í umsókn um flugrekstrarleyfi, sem hann undirritaði 18. júní 2008 af hálfu stefnda, var hann sagður vera allt í senn framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stjórnarformaður, en fyrir engu þessu var þó stoð samkvæmt því, sem tilkynnt var til fyrirtækjaskrár. Þó er óumdeilt að áfrýjandi sinnti þyrluflugi í þágu stefnda sumarið 2008 og fékk greiddar í tengslum við það 1.000.000 krónur af þeirri fjárhæð, sem hann telur til innborgana á dómkröfu sína samkvæmt áðursögðu.
Í aðilaskýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi lýsti hann því að drög sín að starfssamningi, sem lögð voru fram á stjórnarfundi stefnda 8. febrúar 2008, hafi aldrei verið samþykkt. Hann kvaðst á hinn bóginn hafa rætt um laun fyrir störf sín við stjórn stefnda allt frá þeim tíma, sem Sund ehf. gerðist hluthafi í félaginu, en gera hafi átt upp við hann „þegar flugrekstrarleyfi væri í höfn og það væri hægt að fljúga með farþega ... þannig að það biðu sem sagt allir eftir þessu flugrekstrarleyfi.“ Ósannað er að samningur hafi nokkru sinni verið gerður við áfrýjanda um störf í þágu stefnda á þessu tímabili. Að því verður að gæta að í drögunum að starfssamningi, sem áfrýjandi lagði fyrir stjórn stefnda í febrúar 2008, var orðum hagað þannig að hann væri með samningnum ráðinn í starf framkvæmdastjóra og fengi fyrir það tiltekin mánaðarlaun, en í engu var þar ráðgert að greitt yrði fyrir störf á fyrri tíma. Þá liggur fyrir að á fundi í stjórn stefnda 9. maí 2008, þegar áfrýjandi var enn formaður hennar, var ársreikningur félagsins fyrir rekstrarárið 2007 afgreiddur til framlagningar á aðalfundi, sem samþykkti hann 15. sama mánaðar „með atkvæðum allra hluthafa.“ Ársreikningur þessi liggur ekki fyrir í málinu, en óumdeilt er að þar hafi hvorki verið færð til gjalda laun til áfrýjanda fremur en til framkvæmdastjóra eða annarra stjórnarmanna né til skuldar krafa áfrýjanda um vangoldin laun. Að þessu virtu er ósannað gegn andmælum stefnda að áfrýjandi hafi fyrir ársbyrjun 2008 leyst af hendi störf í þágu stefnda, sem ætlunin hafi verið að greiða áfrýjanda laun fyrir.
Í málinu liggja ekki fyrir viðhlítandi gögn um störf áfrýjanda fyrir stefnda á árinu 2008, hvorki að því er varðar umfang þeirra, viðfangsefni né hvenær þau voru leyst af hendi. Þá liggja heldur ekki fyrir gögn um tekjur stefnda á árinu 2008, en eins og áður var getið mun stefndi ekki hafa fengið flugrekstrarleyfi til farþegaflugs fyrr en um mitt það ár. Í þessu ljósi og gegn mótmælum stefnda er ósannað að áfrýjandi eigi tilkall til greiðslu frekari launa en hann hefur þegar fengið í hendur.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður að hafna kröfu áfrýjanda um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest, en áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sigtryggur Leví Kristófersson, greiði stefnda, Norðurflugi ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2010.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. mars 2010 er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 27. ágúst 2009. Stefnandi er Sigtryggur Leví Kristófersson, kt. 160962-5779, Haukanesi 16, Garðabæ. Stefndi er Norðurflug ehf. , kt. 460206-2940, Kringlunni 4-6, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld vegna vangreiddra launa og útlagðs kostnaðar að fjárhæð 22.435.384 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.274.525 krónum frá 01.11.2006 til 01.12.2006, af 3.084.525 krónum frá 01.12.2006 til 01.01.2007, af 3.894.525 krónum frá 01.01.2007 til 01.02.2007, af 4.704.525 krónum frá 01.02.2007 til 01.03.2007, af 5.514.525 krónum frá 01.03.2007 til 01.04.2007, af 6.324.525 krónum frá 01.04.2007 til 01.05.2007, af 7.711.164 krónum frá 01.05.2007 til 01.06.2007, af 8.521.164 krónum frá 01.06.2007 til 01.07.2007, af 9.331.164 krónum frá 01.07.2007 til 01.08.2007, af 10.141.164 krónum frá 01.08.2007 til 01.09.2007, af 10.951.164 krónum frá 01.09.2007 til 01.10.2007, af 11.761.164 krónum frá 01.10.2007 til 01.11.2007, af 12.571.164 krónum frá 01.11.2007 til 01.12.2007, af 13.381.164 krónum frá 01.12.2007 til 01.01.2008, af 14.191.164 krónum frá 01.01.2008 til 01.02.2008, af 15.001.164 krónum frá 01.02.2008 til 01.03.2008, af 15.811.164 krónum frá 01.03.2008 til 01.04.2008, af 16.621.164 krónum frá 01.04.2008 til 01.05.2008, af 18.419.688 krónum frá 01.05.2008 til 01.06.2008, af 19.229.688 krónum frá 01.06.2008 til 01.07.2008, af 20.039.688 krónum frá 01.07.2008 til 01.08.2008, af 20.849.688 krónum frá 01.08.2008 til 01.09.2008 af 21.659.688 krónum frá 01.09.2008 til 15.09.2008 og af 22.435.384 krónum frá 15.09.2008 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 1.450.000 krónur, þ.e.a.s. 500.000 krónur sem greiddar voru 22. ágúst 2008, 500.000 krónur, sem greiddar voru 12. september 2008 og 450.000 krónur, sem greiddar voru 19. desember 2008 en tekið verði tillit til þeirra við uppgjör kröfunnar. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
II.
Helstu málavextir eru þeir að stefnandi, sem er þyrluflugmaður, gerðist einn eigenda stefnda í júní 2006, stuttu eftir að nafni og tilgangi einkahlutafélagsins Þórsgata 6, var breytt í Norðurflug ehf. Á þeim tíma átti félagið eina litla þyrlu sem, samkvæmt vætti Sigurðar Þ. Sigurðssonar og Ágústs Bjarnasonar, hluthafa í stefnda, var ætlað að nota eins og góðan veiðijeppa, til að komast á veiðistaði sem erfitt væri að ná til á bíl. Með aðkomu stefnanda var ákveðið að færa út kvíarnar, kaupa fleiri þyrlur, sækja um flugrekstrarleyfi og stunda þyrluþjónustu. Nýkjörin stjórn stefnda tilkynnti til fyrirtækjaskrár þann 16. júní 2006 að Sigurður Þ. Sigurðsson og stefnandi væru framkvæmdastjórar og að með prókúru færu Ágúst Bjarnason og stefnandi. Ekki liggja fyrir neinir samningar á milli stefnda og stefnanda um vinnuframlag eða laun.
Í júní 2006 keypti stefndi flugskýli, merkt 9, við Reykjavíkurflugvöll. Kaupverð flugskýlisins var 8.000.000 króna. Hafnar voru endurbætur flugskýlisins. Fékk stefnandi, að sögn, til starfans erlenda verkamenn, sem hann kveðst hafa greitt laun, samtals 1.464.525 krónur á tímabilinu frá 6. mars 2006 til 16. ágúst 2006. Gerir hann kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða sér þessa fjármuni. Í málinu liggja frammi afrit af bréfaskriftum á milli stefnanda f.h. stefnda og byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá janúar 2007. Samskiptunum lyktar með því að sá síðarnefndi tilkynnir, með vísan í byggingarreglugerð og skipulags- og byggingarlög, að allar framkvæmdir við flugskýlið séu óheimilar.
Á hluthafafundi 3. janúar 2007 var hlutafé stefnda aukið um 600.000 krónur að nafnvirði þegar fjárfestingarfélagið Sund ehf., nú Icecapital ehf. gekk til liðs við félagið og eignaðist 50% alls hlutafjár þess. Síðar var hlutafé aukið um 120.000.000 króna að nafnvirði hinn 27. ágúst 2007 og aftur um 60.000.000 króna að nafnvirði í júní 2009. Kom sú aukning öll frá Sundi ehf.
Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár, 8. janúar 2007, er Páll Þór Magnússon tilgreindur framkvæmdastjóri stefnda og stefnandi tilgreindur sem formaður stjórnar. Á aðalfundi stefnda 15. maí 2008 víkur stefnandi sem stjórnarformaður en er kjörinn í varastjórn. Hann er titlaður framkvæmdastjóri í fundargerð stjórnarfundar sama dag.
III.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann greindi frá því að hann hafi upphaflega verið eini starfsmaður félagsins. Hann hafi gegnt framkvæmdastjórastörfum en einnig tekið að sér að fljúga þyrlum. Lýsti hann vexti stefnda eftir að hann kom til liðs við félagið. Hann hafi sótt um flugrekstrarleyfi til að mega stunda farþegaflug. Hann sagðist hafa rætt við nýja hluthafann, Sund ehf., um launakjör sín á árinu 2007. Sagðist hann muna eftir tveimur stjórnarfundum þar sem rætt hafi verið að þegar flugrekstrarleyfi yrði fengið, og félagið farið að fá tekjur, yrði gert upp við sig. Þá sagði stefnandi að eftir stjórnarfund í mars eða apríl 2007 hafi Sigurður G. Guðjónsson tekið sig tali og lagt til að hann sætti sig við 750.000 krónur á mánuði. Þetta hafi ekki verið efnt. Stefnandi greindi frá því að hann hafi látið útbúa drög að starfssamningi, dags. í febrúar 2008. Samningsdrögin hafi verið lögð fram á stjórnarfundi en hann sagðist ekki hafa fengið nein viðbrögð við tillögum sínum. Þá sagði stefnandi að hann hafi lagt út fyrir félagið með því að greiða verkamönnum fyrir vinnu við flugskýli félagsins þar sem það hafi ekki átt fyrir þessum kostnaði.
Stefnandi fór yfir ljósrit af „Log” bók sem sýnir allt flug sem hann hefur flogið fyrir félagið frá árinu 2006. Hann sagði að aðallega væri um að ræða þjálfunarflug og flug vegna innra starfs félagsins, sem ekki skapaði tekjur. Þó hefði hann flogið 2 flug í apríl 2008 og nokkur í júní og júlí 2008. Hann sagðist hafa keypt nýja þyrlu fyrir félagið á árinu 2007 og í framhaldi af því hafi flugrekstrarleyfi fengist. Þá sagðist hann hafa útvegað félaginu samning um verkefni á Grænlandi að verðmæti 70.000.000 króna. Hann hafi verið einn flugmanna í því verkefni. Einu greiðslurnar sem hann hafi fengið hafi tengst Grænlandsverkefninu. Hann sagðist ekki hafa gert reikning fyrir þessu þar sem um launagreiðslur hafi verið að ræða. Þá sagði hann ástæðuna fyrir því að hann hafi ekki gefið launin upp til skatts hafa verið þá að hann hafi ekki fengið launamiða frá fyrirtækinu. Hann sagðist ekki hafa kvittanir undir höndum fyrir útlögðum kostnaði sem hann krefur um í máli þessu. Um störf sín sem framkvæmdastjóra stefnda sagði stefnandi að hann hefði ráðið menn til starfa fyrir félagið og samið við þá um kaup og kjör. Hann sagðist miða launakröfur sínar við yfirflugstjóra hjá Landhelgisgæslu ríkisins, sem honum þyki eðlilegt og frekar lágt miðað við fyrri reynslu og umhverfi sem hann komi úr.
Fyrir dóminn kom vitnið Birgir Ómar Haraldsson. Hann sagðist hafa komið að fyrirtækinu í júlí eða ágúst 2008 til að sjá um fjármálin. Hann hafi verið tilkynntur til Flugmálastjórnar sem „Accountable Manager” 1 nóvember 2008, en stefnandi hafi hætt þann 15. september sama ár. Vitnið sagði að reka hefði átt félagið á lágum launum þar til það færi að bera sig. Það hafi enn ekki orðið. Eigið fé sé, og hafi alltaf verið, neikvætt. Reynt sé að meta framlag og finna rétta umbun fyrir vinnuna. Mikil vinna hafi verið í tengslum við umsókn um flugrekstrarleyfi en fleiri hafi komið að því en stefnandi. Félagið hafi greitt fyrir þá vinnu til a.m.k tveggja utanaðkomandi aðila.
Vitnið sagði hugsunina hafa verið þá að umbun stefnanda fyrir vinnuframlag kæmi fram sem hækkun á hlutafé. Greiðslurnar þrjár hafi eingöngu verið vegna þyrluflugsins á Grænlandi en Grænlandsverkefnið hefði verið 50.000.000 króna virði. Stefnandi hafi fengið sömu greiðslur og aðrir fyrir það. Hann sagði jafnframt að þegar launakrafan hafi komið fram hafi þess verið getið í ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 og komið fram á aðalfundi 2009. Staðfesti vitnið að rætt hefði verið um launakröfur stefnanda á stjórnarfundi þann 8. febrúar 2008. Sagði hann Sigurð G. Guðjónsson hafa beðið sig að finna leiðir til að semja við stefnanda en kvaðst ekki minnast þess að hann ætti að fá 750.000 krónur á mánuði frá þeim tíma er hann hóf störf. Hann sagði stefnanda ekki hafa getað greitt inn neitt hlutafé en umbunin hafi átt að koma á móti framlagi stefnanda við hækkun hlutafjár. Hann hefði átt að finna sanngjarna fjárhæð sem endurspeglaði framlag stefnanda til félagsins.
Sigurður G. Guðjónsson kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvaðst hafa komið inn í stjórn stefnda í byrjun árs 2007, en hafi orðið stjórnarformaður eftir aðalfundinn það ár. Í tengslum við hlutafjáraukningu 2008 hafi komið til álita að stefnandi fengi einhverja umbun fyrir störf í þágu félagins. Ráðningarsamningsdrögin frá stefnanda hafi ekki verið í neinum raunveruleikatengslum við stöðu félagins. Stefnandi hafi ráðið menn sem félagið greiddi stórfé til að vinna að flugrekstrarleyfinu. Hann hafi verið að reka Harley Davidsson umboðið á Grensásvegi þegar hann taldi sig vera að leggja fram mikið framlag til félagsins. Talað hafi verið um að eðlilegt væri að hjálpa honum að eignast meira í félaginu sem umbun fyrir vinnuframlag og til að hjálpa honum að viðhalda hlut sínum í félaginu.
Vitnið sagði að bókhald og reikningsskil félagsins hefðu verið unnin á skrifstofu Sunds ehf. án endurgjalds. Enginn hafi fengið greitt, ekki heldur hann sjálfur fyrir lögfræðivinnu fyrir félagið. Páll Magnússon hafi verið framkvæmdastjóri um tíma. Hann hafi ekki fengið neitt greitt. Einu mennirnir sem hafi fengið greitt hafi verið flugstjórarnir. Þeir hafi skapað félaginu tekjur.
Vitnið sagði að í febrúar 2008 hafi stefnandi boðað til stjórnarfundar þar sem hann hafi gert miklar launakröfur og lagt fram drög að ráðningarsamningi. Sagði vitnið að hann hafi rætt við stefnanda um að greiða mætti honum þóknun svo hann gæti tekið þátt í hlutafjáraukningunni. Segist hann aldrei hafa handsalað stefnanda að hann ætti að fá laun frá árinu 2006. Vitnið staðfesti að hann hefði rætt við Birgi Ómar um að finna tölu til að gera upp við stefnanda.
Þá kom fyrir dóminn sem vitni Páll Þór Magnússon. Hann sagði stefnanda, Ágúst Bjarnason og Sigurð Þ. Sigurðsson hafa boðið Sundi ehf. að kaupa sig inn í félagið Norðurflug á árinu 2006 eða 2007. Þá hafi það átt eina litla þyrlu. Ákveðið hafi verið af hálfu Sunds ehf. að efla félagið og leggja til meira hlutafé. Ekki hafi verið kynnt að um væri að ræða launaskuld við stefnanda á þessum tíma. Vitnið lýsti þróun félagsins eftir að Sund kom að því. Félagið hafi breyst úr áhugamannafélagi í flugfélag. Sund hefði fjármagnað kaup á tveimur stórum þyrlum og staðið að því að sækja um flugrekstrarleyfi. Nokkrir aðilar hafi komið að því verkefni. Tveir eða þrír aðilar rukkuðu fyrir vinnu við umsókn um flugrekstrarleyfi. Sagðist vitnið fyrst hafa heyrt um launakröfur stefnanda í byrjun árs 2008. Menn hafi allir lagt fram vinnu án þess að rukka fyrir það.
Vitnið staðfesti að stefnandi hafi komið fram f.h. félagsins sem framkvæmdastjóri gagnvart Flugmálastjórn Íslands. Einnig að hann hafi keypt þyrlur fyrir félagið. Ákveðið hefði verið að ef hallaði á menn í vinnu yrði fundin leið til að greiða það með hlutafé. Sagðist vitnið vita til þess að Birgir Ómar hefði rætt við stefnanda um laun og að talan 700.000 eða 750.000 krónur hefði komið til tals í því efni.
Hluthafar í stefnda, Sigurður Þórarinn Sigurðsson og Ágúst Bjarnason, komu fyrir dóminn sem vitni. Staðhæfðu þeir báðir að ávallt hefði verið talað um að stofna til sem minnsta kostnaðar við reksturinn og að eigendur fengju ekki greitt fyrir sína vinnu í þágu félagsins. Aftur á móti hefði þyrluflugmönnum verið greidd laun eftir að þeir voru ráðnir. Þá sögðu þeir að þeim væri ekki kunnugt um að stefnandi hefði greitt iðnaðarmönnum fyrir vinnu við flugskýlið.
Þyrluflugmennirnir Jón Kjartan Björnsson og Snorri Geir Steingrímsson og tæknistjóri Jón Pálsson, starfsmenn stefnda, komu fyrir dóminn. Vitnuðu þeir um að stefnandi hefði sem framkvæmdastjóri ráðið þá til starfa, tvo fyrstnefndu vorið 2007 en þann síðastnefnda í maí 2008. Fram kom í máli þeirra að litlar sem engar tekjur hefðu verið í rekstri fyrirtækisins þar til Grænlandsverkefnið kom til í júlí 2008. Skráð flug fram að því hjá stefnanda hefði einkum verið til að þjálfa hann til að fljúga stóru þyrlunni. Þá tilgreindi eitt vitnið menn sem unnu að umsókn um flugrekstrarleyfi félagsins.
IV.
Stefnandi byggir á því að hann hafi starfað fyrir félagið í 23 ½ mánuð án þess að fá laun greidd og án þess að sérstakur starfssamningur hafi verið gerður við hann. Hann hafi ítrekað óskað eftir því við meðstjórnarmenn og núverandi stjórnarmenn að gengið yrði frá starfssamningi við sig og honum greidd áunnin laun og útlagður kostnaður. Hann hafi sjálfur lagt fram drög að starfssamningi í febrúar 2008, en ákvæði hans hafi ekki sætt neinum andmælum af hálfu stjórnarmanna, m.a. þeirri ráðagerð að grunnlaun hans yrðu kr. 895.000 fyrir hvern mánuð.
Stefnandi kveðst hafa leitað til lögmanns um aðstoð. Lögmaður hans hafi ritað stjórn stefnda bréf, hinn 15. ágúst 2008, þar sem meðal annars komi fram að stefnandi gerði kröfu um uppgjör. Þá hafi komið fram að hann myndi hverfa úr starfi að loknu því verkefni, sem hann sinnti þá á Grænlandi, og ljúka átti 10. september 2008, nema honum hefðu verið greidd áunnin laun fyrir þann tíma eða samið um uppgjör þeirra. Jafnframt gerði hann kröfu um að gerður yrði við hann skriflegur starfssamningur á grundvelli þeirra draga sem hann hafði kynnt. Stefnandi segir stjórn stefnda hafa virt kröfur sínar að vettugi og hafi hann því orðið að hverfa úr starfi í samræmi við áskilnað í bréfi lögmannsins, hinn 15. september 2008.
Stefnandi rökstyður kröfur sínar þannig að hann krefji stefnda um greiðslu launa, framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð og orlof fyrir októbermánuð 2006 til 15. september 2008. Hann geri kröfu til að stefnda verði gert að greiða sér í laun 750.000 krónur fyrir hvern starfsmánuð, auk 8% framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð, eða samtals 810.000 krónur fyrir hvern mánuð sem laun séu ógreidd. Stefnandi kveðst miða við að gjalddagi launa og framlags atvinnurekanda til lífeyrissjóðs hafi verið 1. næsta mánaðar eftir þann mánuð sem hann innti af hendi vinnuframlag sitt í samræmi við venjur þar að lútandi, sbr. og skyldu til atvinnurekanda til að greiða laun, a.m.k. vikulega skv. 2. gr. laga 28/1930 um greiðslu verkkaups. Þá kveðst stefnandi gera kröfu til þess að stefndi greiði sér í orlof 10.17% af launum.
Stefnandi byggir á því að krafa hans til launa að fjárhæð 750.000 krónur fyrir hvern mánuð, sem hann sinnti störfum fyrir stefnda, sé mjög í hóf stillt og vísar til þeirrar meginreglu að stefndi sem atvinnurekandi beri hallann af því að geta ekki sýnt fram á að samið hafi verið um önnur og lægri laun. Stefnandi vísar til þess að hann hafi sent stefnda uppkast að ráðningarsamningi um áramót 2007/2008 þar sem ráð hafi verið fyrir gert að hann hefði kr. 895.000 í mánaðarlaun og að sú fjárhæð hafi ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu stefnda. Um að áskilin laun stefnanda séu sanngjörn og eðlileg telur stefnandi ennfremur rétt að líta til kjara þyrluflugstjóra hjá Landhelgisgæslu Íslands en þeir hafi sambærileg þyrluflugsréttindi og stefnandi. Í því sambandi vísar hann til kjarasamnings fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra atvinnuflugmanna hjá Landhelgisgæslu Íslands, sem aftur vísi til þess að um kaup og kjör flugmanna fari eftir samningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair Group hf./Icelandair ehf. Stefnandi vísar til launatöflu með kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða hf. um að flugstjórar hafi haft föst laun á bilinu frá 551.412 til 1.020.223 krónur á mánuði frá 1. janúar 2007. Launum sé þar skipt í 25 flokka og séu meðallaunin 785.819 krónur. Þá vísar stefnandi jafnframt til þess að samhliða starfi þyrluflugstjóra hafi hann gegnt framkvæmdastjórastarfi hjá félagi sem hafi mestan starfstíma hans haft hlutafé að nafnvirði 121.000.000 króna, sem verði að teljast vera stórt félag á íslenskan mælikvarða. Því geti mánaðarlaun að fjárhæð 750.000 krónur ekki talist ósanngjörn.
Kröfu stefnanda um greiðslu stefnda á 8% af launagreiðslum sem lögbundið framlag til lífeyrissjóðs kveðst hann byggja á 1. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 1. mgr. 2. gr. Krafan sé jafnframt byggð á víðtæku almennu samningsákvæði þar að lútandi í öllum samningum aðildarsamtaka vinnumarkaðarins. Hann kveður stefnda ekki hafa innt þessa skyldu af hendi með greiðslum til lífeyrissjóðs og eigi stefnandi því lögvarða kröfu um greiðslur þessar beint úr hendi stefnda. Stefnanda beri síðan að skila mótteknum fjárhæðum vegna þessa liðar til lífeyrissjóðs eða söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda samkvæmt fyrrgreindum lögum.
Stefnandi styður kröfu sína til orlofslauna við ákvæði laga nr. 30/1987 um orlof. Samkvæmt þeim sé orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl. Stefnandi hafi ekki átt þess kost að taka orlof frá störfum hjá stefnda á því tímabili sem launakröfur hans lúti að. Stefnda beri því skv. ákvæðum 7. gr. laganna að greiða stefnanda 10,17% orlof á launa- og lífeyrisgreiðslur. Gjalddagi orlofsgreiðslna sé við lok hvers orlofsárs, þ.e. 1. maí 2007, 576.639 krónur, 1. maí 2008, 988.524 krónur og við starfslok 15. september 2009, 370.696 krónur, í samræmi við ákvæði 8. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu geri stefnandi kröfur til launa, lífeyrissjóðsframlags og orlofs samtals að fjárhæð 20.970.859 krónur.
Stefnandi segir stefnda hafa greitt inn á kröfuna samtals 1.450.000 krónur. Fjárhæðin skiptist þannig að 500.000 krónur hafi verið greiddar 22. ágúst 2008, 500.000 krónur hafi verið greiddar 12. september 2008 og 450.000 krónur hinn 19. desember 2008 með ráðstöfun mótekinna fjárhæða í samræmi við tilkynningar lögmanns stefnanda í bréfum til stefnda, dags. 21. nóvember og 19. desember 2008. Tekið verði tillit til innborgananna við uppgjör kröfunnar. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Stefnandi gerir jafnframt kröfu um að stefndi endurgreiði sér útlagðan kostnað að fjárhæð kr. 1.464.525 vegna greiðslu hans til verktaka við smíði flugskýlis stefnda á Reykjavíkurflugvelli á tímabilinu frá 6. mars 2006 til 16. ágúst 2006. Stefnandi kveðst miða við að gjalddagi þeirrar kröfu sé 1. nóvember 2006 en á þeim tíma hafi stjórnarmönnum stefnda verið kunnugt um að stefnandi hafði lagt þessa fjármuni út fyrir hönd stefnda. Krafa stefnanda um greiðslu á útlögðum kostnaði sundurliðast þannig að hann hafi greitt Mariuzi Siwiccki, 496.425 krónur, Arthuri 383.175 krónur, Ziebi 467.925 krónur og Jacek 117.000 krónur.
Stefnandi vísar um launakröfu sína til almennra reglna vinnuréttar og laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og laga um greiðslu verkkaups nr. 28/1930.
Krafa stefnanda um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar byggir á almennum reglum fjármunarréttar og að vinnan sem stefnandi hafi greitt fyrir úr eigin vasa í þágu stefnanda hafi nýst stefnanda í starfsemi hans.
Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Hann styður kröfu sína um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi kveðst ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.
V.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að aldrei hafi verið samið við stefnanda, af hálfu forsvarsmanna stefnda, um að stefnanda yrðu greiddar 750.000 krónur í laun á mánuði frá 1. nóvember 2006 að telja. Stefndi bendir í því sambandi á að stefnandi hafi þann 16. júní 2006 verið kosinn í stjórn félagsins og tekið að sér framkvæmdastjórn hans ásamt öðrum stjórnarmanni, Sigurði Þ. Sigurðssyni. Hvergi sé í gögnum frá þessum tíma að finna samþykkt í þá veru að stefnandi, einn eigenda stefnda, skyldi fá sérstaklega greitt fyrir vinnu í þágu félagsins.
Stefndi segir að á stefnanda hvíli sönnun fyrir tilvist ráðningarsamnings hans og stefnda um að hann hafi gegnt launuðu starfi framkvæmdastjóra. Að sama skapi hvíli á stefnanda að sanna efni meints ráðningarsamnings, svo sem um launakjör, uppsagnarfrest og lausn undan vinnuskyldu í uppsagnarfresti. Þá kveður stefndi að ráðningarsamningi um starf stefnanda sem framkvæmdastjóra félagsins geti vart hafa verið til að dreifa þau ár sem hann var stjórnarformaður stefnda og aðrir aðilar hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra, án þess að þiggja laun. Þá vísar stefndi til fundargerða aðalfunda stefnda um að ekki hafi verið greidd stjórnarlaun.
Stefndi kveður það engu skipta fyrir mál þetta, þótt stefnandi hafi í byrjun árs 2008 gert kröfu um að fá greidd laun sem framkvæmdastjóri og lagt fram drög að ráðningarsamningi. Aðalatriðið sé að stefndi hafi ekki fallist á launakröfur stefnanda og hafi aldrei samþykkt að stefnandi, einn hluthafa, fengi greidd laun í líkingu við þau, sem krafa er gerð um í máli þessu.
Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi ráðið þyrluflugmann til starfa hjá stefnda í byrjun árs 2007, en sá aðili hafi að mestu sinnt því þyrluflugi sem fram hafi farið á vegum stefnda. Stefndi kveður jafnframt að við brotthvarf stefnanda hafi komið í ljós að stefnandi hafi ekki alltaf skilað fjármunum, sem hann móttók fyrir þyrluflug á vegum stefnda. Um það atriði vísar hann til bréfs lögmanns stefnanda, dags. 21. nóvember 2008, þar sem stefnandi leggur til að hann ráðstafi 450.000 krónum sem hann hafi móttekið frá viðskiptavinum inn á kröfur sínar á hendur félaginu. Kveðst stefndi telja þá háttsemi heimildarlausa notkun stefnanda á peningum stefnda.
Stefndi byggir einnig sýknukröfu sína á að stefnandi hafi tekið þátt í að semja og samþykkja ársreikninga stefnda fyrir rekstrarárin 2006, 2007 og 2008 í stjórn og á aðalfundum. Stefnandi hafi ekki gert neinar athugasemdir á þessum fundum við ársreikningana, þó á þeim væri ekki gert ráð fyrir skuld stefnda við stefnanda. Með því hafi hann sýnt af sér slíkt tómlæti að allar launakröfur stefnanda á hendur stefnda séu niður fallnar af þeim sökum, hafi þær á annað borð einhvern tíma verið til.
Stefndi kveður að fari svo að krafa stefnanda til launa úr hendi stefnda verði tekin til greina mótmæli hann fjárhæð dómkröfu stefnanda sem allt of hárri og órökstuddri með öllu. Í fyrsta lagi verði laun framkvæmdastjóra svo lítils og fjárvana einkahlutafélags, sem sé að hefja rekstur, fyrst og síðast að taka mið af fjárhag viðkomandi félags, en ekki kjarasamningum annarra og óskyldra aðila, eins og byggt sé á í máli þessu. Sníða verði kröfunni stakk eftir vexti. Launin verði að vera sanngjörn og eðlileg. Í öðru lagi sé því mótmælt að stefnandi eigi launakröfu á hendur stefnda, sem gjaldfallið hafi mánaðarlega frá 1. nóvember 2006 að telja til og með 15. september 2008. Stefndi hafi aldrei samið við stefnanda um að hann fengi laun, sem framkvæmdastjóri eða þyrluflugmaður, frá þeim tíma. Stefnandi hafi fyrst sett fram formlega launakröfu með bréfi lögmanns síns í ágúst 2008. Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda þar sem krafa til launa geti aldrei borið dráttarvexti fyrr en mánuði eftir að hún var sett fram. Þá gerir stefndi kröfu um að verði krafa stefnanda að einhverju leyti tekin til greina eigi að dæma dráttarvexti frá dómsuppsögu.
Stefndi segist mótmæla því sérstaklega að stefnandi hafi verið svo önnum kafinn við störf hjá stefnda að hann hafi ekki getað tekið sér orlof og eigi af þeim sökum inni orlofsgreiðslur. Forsvarsmenn stefnda viti til þess að stefnandi hafi farið í mótorhjólaferð til útlanda á þeim tíma sem hann telji sig hafa verið í launaðri vinnu hjá stefnda. Stefnandi hafi á þessum árum staðið í uppbyggingu á verslun með umboð fyrir mótorhjól. Hann hafi því virst hafa rúman tíma til að sinna öðrum störfum og áhugamálum sínum.
Stefndi segir stefnanda ekki eiga aðild að þeim þætti dómkröfu sinnar er lýtur að 8% framlagi í lífeyrissjóð. Beri því að sýkna stefnda af þeim þætti dómkröfunnar vegna aðildarskorts.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á almennum reglum samningaréttar um stofnun löggerninga, reglum kröfuréttar um tómlæti, reglum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og reglum laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Krafa um dráttarvexti byggi á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað byggi á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
VI.
Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort til launaskuldar, ásamt rétti til orlofsgreiðslu og framlags stefnda í lífeyrissjóð, hafi stofnast vegna vinnuframlags stefnanda í þágu stefnda á tímabilinu frá 1. nóvember 2006 til 15. september 2008. Þá er ágreiningur um hvort stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi stefnda vegna vinnu verkamanna við flugskýli á Reykjavíkurflugvelli sumarið 2006.
Stefnandi var einn af eigendum stefnda sem var í upphafi tímabilsins lítið áhugamannafélag um þyrlurekstur en með tilkomu nýs hluthafa sem lagði fram fjármuni til kaupa á tveimur stórum þyrlum og leyfis Flugmálastjórnar Íslands til flugreksturs með farþega breyttist í svonefnt rekstrarfélag. Ekki var gerður ráðningarsamningur við stefnanda en hann krefur um laun, 750.000 krónur á mánuði auk 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð og orlofslauna, fyrir allt tímabilið sem framkvæmdastjóri og þyrluflugmaður. Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi rétt á launagreiðslum.
Leitt hefur verið í ljós í málinu að samkomulag hafi verið um það innan eigendahóps stefnda að þeir ynnu að uppbyggingu félagsins, án þess að fá greidd laun, þar til félagið færi að bera sig. Gegn mótmælum stefnda hefur stefnandi ekki sýnt fram á að öðru máli gegndi um sig. Það að stefnandi hafi gert kröfu um laun á grundvelli draga að starfssamningi í ársbyrjun 2008, breytir engu þar um. Sýnt er að launakröfur stefnanda, samkvæmt nefndum drögum að starfssamningi, voru svo háar að þær mynduðu ekki umræðugrundvöll um málið. Á þeim tíma var stefnandi stjórnarformaður í félaginu en samkvæmt 2. mgr., sbr. 3. mgr. 41. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138 frá 1994 er framkvæmdastjórn ósamrýmanleg starfi stjórnarformanns. Hann gekk úr stjórn félagsins á aðalfundi félagsins 15. maí 2008 og er í fundargerð stjórnarfundar sama dag tilgreindur sem framkvæmdastjóri, en ekki var gerður ráðningarsamningur á milli aðila á þeim tíma. Stefnandi, sem var ýmist titlaður stjórnarformaður eða framkvæmdastjóri stefnda, gerði nýjum eiganda, Sundi ehf., ekki grein fyrir að hann teldi félagið skulda sér laun og launatengd gjöld. Þá er þeirrar skuldar ekki getið í ársreikningum félagsins.
Í kjölfar aðalfundar í maí 2008 hófst þyrluflugþjónusta félagsins á Grænlandi eins og áður hefur komið fram. Stefnandi var einn þyrluflugmanna í því verkefni og hefur komið fram að hann fékk greitt eins og aðrir þyrluflugmenn fyrir þá vinnu.
Hvað snertir kröfur stefnanda um endurgreiðslu kostnaðar sem hann lagði út vegna vinnu við flugskýli nr. 9 á Reykjavíkurflugvelli, sumarið 2006, þá hefur ekki, gegn mótmælum stefnda, tekist lögfull sönnun um að greiðslur þessar hafi verið inntar af hendi í þágu félagsins. Ekki liggja fyrir fullgild fylgiskjöl um þessar greiðslur eða viðurkenning þeirra einstaklinga sem um ræðir fyrir móttöku greiðslu úr hendi stefnanda af þessu tilefni.
Að öllu framangreindu virtu verður að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu en málskostnaður á milli aðila þykir mega falla niður.
Dóminn kvað upp Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Norðurflug ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Sigtryggs Leví Kristóferssonar. Málskostnaður fellur niður.