Hæstiréttur íslands

Mál nr. 166/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Húsleit

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu um heimild til húsleitar á heimili X þar sem ekki hefðu verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því að uppfyllt væru skilyrði 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. mars 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til húsleitar á heimili varnaraðila að [...] í Reykjavík. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt að leita í húsum sakbornings, geymslustöðum, hirslum, skipum, loftförum, bifreiðum eða öðrum farartækjum hans í því skyni að handtaka hann, rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa uppi á munum sem hald skal leggja á. Eftir 3. mgr. sömu lagagreinar er það skilyrði fyrir húsleit að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.

Í greinargerð sóknaraðila til stuðnings kröfunni er fjallað með almennum hætti um ætlaða þátttöku varnaraðila í skipulagðri brotastarfsemi, sem einkum er talin tengjast stórfelldum innflutningi fíkniefna og peningaþvætti. Sóknaraðili hefur um nokkurt skeið neytt þeirra rannsóknarúrræða að hlusta síma varnaraðila og hafa eftirfararbúnað á bifreið hans, án þess að ráðið verði af gögnum málsins að það hafi leitt til þess að hann verði tengdur við tiltekin brot. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að uppfyllt séu skilyrði 74. gr. laga nr. 88/2008 til þess að fallist verði á framangreinda kröfu hans. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 10. mars 2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði um heimild til leitar á heimili kærða, X, kt. [...], að [...] í því skyni að rannsaka andlag brots og önnur ummerki. Þess er krafist að heimildin nái til leitar í læstum hirslum og geymslum sem tilheyra íbúðinni.

I

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglan hafi til rannsóknar mál er varði stórfelldan innflutning fíkniefna og peningaþvætti hér á landi. Málið sé rannsakað sem liður í starfsemi skiplagðra brotasamtaka en kærðu í málinu séu taldir hafa það að meginmarkmiði að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varði allt að 12 ára fangelsi. Lögregla hafi fyrst hafið rannsókn á málinu eftir að ítrekaðar upplýsingar hafi borist þess efnis að hér á landi væri starfræktur hópur einstaklinga sem stæði skipulega að innflutningi, framleiðslu og sölu fíkniefna sem og peningaþvætti. Lögregla hafi verið að vinna í því að skoða þær upplýsingar sem borist hafi úr ýmsum áttum og setja upp mynd af grunuðum brotahóp. Lögreglan hafi unnið að rannsókn þessari í samstarfi við erlend yfirvöld.

„Um er að ræða einstaklinga sem tengjast fyrirtækjunum [...], kt. [...], sem er [...] hér á landi, og [...], kt. [...] sem er [...]. Þessi fyrirtæki eru í eigu A, kt. [...] og X, kt. [...]. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins [...] er B, kt. [...]. Þessum einstaklingum tengjast svo þeir C, kt. [...], D, kt. [...] og E, kt. [...].

Höfuðpaurar hópsins munu vera þeir A og X. A er búsettur í Hollandi en hann mun vera sá aðili sem útvegar hluta fíkniefnanna. X mun vera sá sem stjórnar hópnum hér á landi. Upplýsingar liggja fyrir um að fyrirtækin [...] og [...] séu notuð til að þvætta ávinning af brotastarfsemi þessara einstaklinga.

Um er að ræða umfangsmikla rannsókn þar sem ofangreindur hópur er vel skipulagður og hver aðili virðist hafa sitt hlutverk. Brot kærðu eru margþætt en við rannsókn málsins hingað til hefur grunur lögreglu um innflutning og framleiðslu á fíkniefnum sem og peningaþvætti styrkst. Þá hefur lögregla einnig orðið þess var að kærðu standa skipulega að öðrum brotum hér á landi, t.a.m. fjársvikum, þjófnuðum og sölu á fíkniefnum.

Lögreglu hafi ítrekað borist upplýsingar þess efnis að hópurinn standi að innflutningi á kókaíni og MDMA töflum, ásamt því að framleiða kannabisefni og flytja inn og selja amfetamín í miklu mæli hér á landi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem hafa borist eru fíkniefni falin með matvörum sem eru fluttar inn til landsins í tengslum við [...], en hópurinn mun einnig hafa útvegað burðardýr til að flytja efnin inn með flugi. Lögreglu hefur einnig borist upplýsingar þess efnis að þessi sami hópur hefði flutt inn til landsins tugi kílóa af amfetamíni með skipi, og að sú leið væri notuð reglubundið. Í október sl. barst greiningardeild Ríkislögreglustjóra upplýsingar um að ákveðið skip væri að koma hingað til lands með miklu magni af amfetamínbasa, sem notað er til að vinna amfetamín úr og voru ofangreindir aðilar nafngreindir í tengslum við þann innflutning. Við skoðun lögreglu á komu þessa skips kom í ljós að það hefur tvisvar sinnum komið hingað til lands á síðasta ári. Þessar upplýsingar koma heim og saman við þær upplýsingar sem lögreglu hefur áður borist.

Lögreglan hefur með heimild héraðsdóms aflað gagna að því er varðar ofangreinda einstaklinga, símagagna og bankagagna. Þá hefur lögregla hlustað og hljóðritað símtöl í og úr farsíma kærða sem og komið fyrir eftirfararbúnaði í bifreið hans. Við skoðun á símagögnum kærða má sjá að hann er í samskiptum við stóran hluta af ofangreindum hópi. Við hlustun á síma kærða hefur ítrekað komið fram að hann er með annað símtæki sem lögreglu hefur ekki tekist að hafa upp. Þá hefur komið í ljós að hann hefur verið í samskiptum við fleiri aðila sem mögulega tengjast ofangreindum hóp og stunda fíkniefnaviðskipti. Þá hafa einnig komið fram athyglisverð tengsl kærða við aðila að nafni F, en hann er félagi hans í viðskiptum. En lögregla hafði ekki tekist að afla þeirra upplýsinga úr opinberum gögnum. F virðist sjá um fjárfestingar fyrir [...] og á í raun helming í félaginu sem rekur [...], en X er skráður stjórnarmaður [...] með prófkúruumboð. Peningaþvættisskrifstofu hefur borist tilkynningar um ætlað peningaþvætti F, en háar fjárhæðir af reiðufé hafa verið lagðar inn á hans perónulega bankareikninga og síðan inn á bankareikninga félags í hans eigu. F tók nýverið við umboðið [...] og er starfsstöð félagsins nú í [...] að [...]. Sem umboðsaðili fyrir [...] er F í góðri aðstöðu til að geta þvættað peninga og til að koma þeim úr landi án mikillar fyrirhafnar.

Við skoðun lögreglu á fjármálum meintu höfuðpaura hópsins, þeirra A og X og fyrirtækjanna tveggja, má sjá að árið 2013 var A með rúmar 2 milljónir í tekjur, en það sama ár staðgreiddi hann íbúð að fjárhæð 26 milljónir króna. Á tímabilinu frá júlí 2014 til janúar 2015 má sjá að lagðar voru inn samtals 23 milljónir af reikningi [...], yfir á reikning í eigu fyrirtækisins [...]. Þá voru 16 milljónir teknar út í reiðufé af þeim reikning í þremur færslum, en A tók út a.m.k. 12 milljónir af þessum 16 milljónum. Í lok september á síðasta ári voru millifærðar af reikningi [...] samtals sex milljónir inn á reikninga A og X.

Hlustun og hljóðritun á símum kærðu í málinu hefur nýst lögreglu vel við rannsókn málsins, en með því hefur lögreglan náð að skoða betur tengsl og hlutverk hvers einstaklings inn í ofangreindum hóp. Þá hefur lögreglu einnig tekist að fylgjast með því þegar aðilar málsins funda, en þeir óska ítrekað eftir því við hvorn annan að funda á einhverjum ákveðnum stað. Lögreglu er það ljóst að aðilar málsins tala allir varlega í símann af ótta við það að lögreglan sé að hlusta.

Við hlustun á síma kærða hefur komið fram að hann er í samskiptum við aðila hér á landi sem eru þekktir hjá lögreglu vegna fíkniefnamála. Kærði hefur óskað eftir því að koma „prufu“ til annarra og telur lögregla að hann eigi þar við prufu af fíkniefnum.

Þá hefur komið fram í hlustun að kærði er í samskiptum við aðila að nafni G, en hann býr að [...]. Við eftirlit lögreglu hefur komið í ljós að kærði og G funda saman á þeim stað, en G er einnig til rannsóknar í málinu þar sem hann stendur í sölu og dreifingum á fíkniefnum og er það ætlun lögreglu að hann sé að selja fyrir kærða.

Núna í lok febrúar kom hingað til lands pólskur maður að nafni H á Audi A6 bifreið með ferjunni Norrænu. H og bifreiðin voru tekin til skoðunar hjá Tollgæslu. H kvaðst vera að koma hingað í viku gerð að heimsækja vin sinn I. H var með tvo síma meðferðis, annars vegar Iphone síma og hins vegar lítinn ódýran takkasíma með tveimur simkortum. Slíkir símar eru oft nefndir „burner phones“ þar sem þeir eru notaðir í ákveðnum verkefnum og svo hent. I reyndi að hringja í takkasímann á meðan H var í haldi Tollgæslunnar, en I er í nánum tengslum við kærða, X, en hann er starfsmaður [...]. Hann fékk í fyrra senda tvo Blackberry síma frá Hollandi frá umræddum stjórnanda [...] brotasamtakanna. Lögreglan hefur áður séð Blackberry síma senda frá Hollandi í tengslum við fíkniefnasmygl en hægt er að kaupa sérhannaða Blackberry síma í Hollandi. Úr þeim hefur verið fjarlægður míkrafónn og síminn notaður eingöngu til að senda dulkóðuð textaskilaboð. Ekki er staðfest að um þessa tegund Blackberry síma sé að ræða. Í bifreið H voru þrír fimm lítra brúsar af bláum rúðuvökva en enginn rúðuvökvi var á bifreiðinni sjálfri. Á brúsunum stóð að 5% alcohol innihald væri í vökvanum. Við prófun á vökvanum hjá Tollgæslu kom fram að alcoholmagn vökvans væri um 30 %. Það er því ljóst að innihaldið er ekki það sama og á brúsanum stendur. Í bifreiðinni var sterk kemísk lykt og var H með pappíra þar sem stóð að kemískt efni sem notað er til þess að fæla villisvín hafi hellst niður í bílinn og því væri þörf á að skipta innréttingum bifreiðarinnar út. Efnin verða nú á næstu dögum send til frekari greiningar erlendis.

Þá var H með pappíra sem sýndu að eigandi bifreiðarinnar sendi 630 dollara til Kína þann 3. febrúar sl. Samkvæmt upplýsingum frá Europol er það þekkt aðferð meðal [...] brotahópa að panta svokölluð forefni (precursor) til amfetamínframleiðslu í Kína og smygla í rúðuvökva.

H var sleppt úr haldi tollgæslu og ók hann sem leið lá til Reykjavíkur. Lögreglan missti sjónar af bifreiðinni og fannst hún ekki fyrr en um sólarhring síðar. Með heimild héraðsdóms kom lögreglan fyrir eftirfararbúnaði í bifreiðinni ásamt því sem hún hlustaði og hljóðritaði símtöl í og úr farsíma H. Við hlustun á síma H vaknaði grunur lögreglu að H hafi farið með bifreiðina á verkstæði þegar hann kom með hana til Reykjavíkur. Lögregla telur líklegt að ferð H hingað til lands hafi verið í saknæmum tilgangi og að í bifreiðinni hafi verið fíkniefni eða efni til fíkniefnaframleiðslu þó að leit tollvarða hafi ekki skilað árangri. En þekkt er að fíkniefni séu það vel falin í bifreiðum að ítarleg leit tollgæslu skili ekki árangri.

Eftir að lögreglan hafði upp á bifreiðinni gat hún fylgst með ferðum hennar. H fór ásamt aðila að nafni J með bifreiðina á bílasölur og reyndi að selja hana á rúmar 7 milljónir þrátt fyrir að engin aðflutningsgjöld hafi verið greidd af henni. Nokkrum dögum síðar fór J á bifreiðinni og hitti þar annan aðila út á Seltjarnarnesi. Þeir óku út að Gróttuvita og varð lögreglan vitni að því er aðilinn á hinni bifreiðinni ók á miklum hraða inn í bifreið J, [...]. Þeir hafa þegar sótt um bætur vegna tjóns á bifreiðinni. Tryggingafélagið hefur nú haft samband við lögreglu og hefur tekið bílinn í sínar vörslur. Skoðunarmaður tryggingafélagsins tilkynnti það að búið væri að eiga við og opna holrúm undir bílnum. Lögregla telur að þarna hafi mögulega verið geymslustaður fíkniefna.

Þann 3. mars sl. fór lögreglan í verslun kærða, [...], til að birta honum fyrirkall. Sáu lögreglumann hvar bifreið kærða var fyrir utan verslunina. Er lögreglan kom inn hitti hún fyrir framkvæmdastjóra verslunarinnar, B. Hann sagði X ekki vera við en bauð lögreglumönnum að koma inn fyrir og leita. Lögreglan fann hvergi X, en vakti það athygli lögreglu að sími hans var á gólfinu í versluninni. Telur lögreglan það ekki útilokað að X hafi í flýti forðað sér er hann varð lögreglu var. Fíkniefnaleitarhundur var fenginn til að aðstoða við leit og merkti hann staði inn í versluninni. Við leit fannst smáræði af amfetamíni inn á lager verslunarinnar. Við hlustun á símum kærðu í málinu eftir að þetta atvik átti sér stað hefur komið í ljós að X er nú í felum.“

II

Við rannsókn málsins hafi ítrekað komið fram að X sé með annað símanúmer sem lögreglu hafi ekki tekist að bera kennsl á. Kærði í málinu tali ítrekað mjög varlega í síma af ótta við að lögregla sé að hlusta. Við rannsókn stórfelldra fíkniefnalagabrota hafi það nýst vel að hlusta og hljóðrita samtöl sem eigi sér stað inn í íbúð kærðu þar sem þeir notist oft við samskiptaforrit á netinu til að ræða málin nánar sín á milli. Telji lögregla því nauðsynlegt til að halda áfram með rannsókn málsins að koma fyrir búnaði inn í íbúð X og hlusta og hljóðrita þar samtöl sem eiga sér stað. Vitað sé að X sé farinn erlendis og sé ekki væntanlegur fyrr en þann 17. mars nk. Vilji lögreglan því nýta tækifærið og fá heimild til að koma fyrir búnaði á meðan kærði er ekki inni á heimilinu. Samhliða beiðni lögreglu um að koma fyrir búnaði til hlustunar á heimili kærða óskar lögregla eftir heimild til leitar í því skyni að rannsaka andlag brots og önnur ummerki.

Um sé að ræða umfangsmikla rannsókn lögreglu á skipulögðum brotasamtökum þar sem margir aðilar komi við sögu og séu brotin margþætt. Rannsóknin sé að hluta til unnin í samstarfi við erlend yfirvöld. Lögreglan telji að ríkir almannahagsmunir séu fyrir því að hafa upp á þeim einstaklingum sem starfræktir eru í brotasamtökunum og stöðva ofangreinda brotastarfsemi. Til rannsóknar sé brot sem varðað geti allt að 12 ára fangelsi. Lögreglan telji að ástæða sé til að ætla að leit á heimili kærða geti skipt miklu máli fyrir rannsókn málsins.

Í ljósi ofangreinds sé þess krafist af hálfu lögreglustjóra að heimiluð verði leit í ofangreindri húsnæði í því skyni að rannsaka ummerki brots.

Þess sé krafist að krafan verði tekin fyrir á dómþingi án þess að kærði verði kvaddur á dómþingið, með vísan til rannsóknarhagsmuna í málinu. Vísað sé til 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Vísað til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 82. gr., sbr. 1. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

III

Fyrir þingfestingu málsins féllst dómari á kröfu lögreglustjóra þess efnis að krafa hans hlyti meðferð fyrir dómi, án þess að kærði yrði kvaddur á dómþingið, sbr. ákvæði 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Lögreglustjóri krefst þess að heimiluð verði leit á heimili kærða, í því skyni að rannsaka andlag brots og önnur ummerki. Þá kom fram í nánari lýsingu á kröfu að lögreglan vilji nýta tækifærið á meðan kærði sé erlendis til þess að koma þar fyrir búnaði. Sá búnaður sem um ræðir er hlustunarbúnaður og er nánari lýsing hans að finna í kröfu lögreglustjóra sem lögð var fram samhliða þessari beiðni, í máli nr. R-128/2017. Þeirri kröfu lögreglustjóra var hafnað með úrskurði í dag.

Í gögnum málsins er ekki að sjá að grunur liggi fyrir um að eitthvað brot hafi átt sér stað inni í því andlagi sem óskað er húsleitar í. Þá er ekki að sjá í gögnum málsins neina tilgreiningu á því hvaða ummerki gætu verið á staðnum eða mögulega hvaða muni sé þar að finna sem hald skal leggja á. Virðist sem krafan byggist á því, að fyrst nauðsyn beri fyrir lögreglu að komast inn í húsnæðið í því skyni að koma þar fyrir hlustunarbúnaði þá sé réttast að leita í húsnæðinu í leiðinni.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar sem tengja kærða við ýmsa aðila. Grunar lögreglu að hópur manna, stundi ýmis konar brot s.s. innflutning og framleiðslu á fíkniefnum og peningaþvætti og hafi grunur lögreglu í þá veru styrkst. Þá hafi lögreglan einnig orðið þess var að „kærðu“ standi skipulega að öðrum brotum hér á landi.

Skilyrði fyrir húsleit skv. 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt geti ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið og að gögnum málsins virtum, þykir ekki vera fyrir hendi rökstuddur grunur, um að kærði hafi gerst sekur um brot sem sætt getur ákæru og varðað geti fangelsisrefsingu að lögum og að augljósir rannsóknar­hagsmunir séu í húfi um þau brot.

Er því að mati dómsins ekki fullnægt skilyrðum 1., 2. og 3. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður því að hafna kröfu lögreglustjóra um leit í húsakynnum kærða.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um heimild til húsleitar á heimili kærða X, kt. [...], að [...] í því skyni að rannsaka andlag brots og önnur ummerki er hafnað.