Hæstiréttur íslands
Mál nr. 97/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
- Aðfarargerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 31. janúar sama ár um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun hans frá 31. janúar sl. um að X skuli sæta nálgunarbanni til 28. febrúar nk. þannig að lagt verði bann við því að X veiti börnum sínum, þeim A, kt. [...] og B, kt. [...], eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að lögreglan á höfuðborgar-svæðinu hafi nú til rannsóknar meint ofbeldi þeirra X og C gegn börnunum A og B. X er faðir barnanna en C er eldri bróðir þeirra.
Aðstoðarsaksóknari tekur fram að upphaf málsins megi rekja til máls 007-2016-[...] þar sem D, eldri systir A og B, hafi kært X föður sinn og C bróður sinn fyrir áralangt ofbeldi gegn sér. Í því máli sé X undir sterkum grun um að hafa nefbrotið brotaþola og slegið hana með fánastöng í líkamann svo hún hafi hlotið mikla áverka af, auk annarra tilvika. Þá sé C sömuleiðis undir sterkum grun um ofbeldi á hendur D. Í tveimur skýrslutökum af D, þann 16. september sl. og aftur þann 12. janúar sl., lýsi hún einnig alvarlegu ofbeldi sem A og B hafi orðið fyrir af hálfu föður þeirra og C eldri bróður þeirra. Lýsi hún því að faðir slái börnin með höndum, skóhorni, belti og inniskóm og viðvarandi ofbeldi sé á heimilinu. Þá verði yngri börnin sömuleiðis vitni að ofbeldi gegn öðrum á heimilinu.
Þá er þess getið að 6. desember sl. hafi barnavernd rætt við A og B í skólum barnanna. Þar hafi komið fram hjá B að hann hefði orðið fyrir ofbeldi af hálfu foreldra sinna sem hefðu slegið hann með höndum, inniskóm og stundum með skóhorni úr járni. Þá hafi komið fram hjá B að eldri bróðir hans, C, sem byggi á heimilinu hefði einnig beitt hann ofbeldi með því að lemja hann, hrinda, kýla og sparka í hann. Þá hefði hann orðið vitni að ofbeldi bróður gegn systur sinni. A hafi í viðræðum við barnavernd ekki sagst verða fyrir ofbeldi af hálfu foreldra sinna en segðist verða fyrir ofbeldi af C bróður síns.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur einnig fram að í skýrslutöku fyrir dómi þann 16. janúar sl. hafi komið fram hjá B að hann væri beittur ofbeldi af hálfu bróður síns og þá hefði hann orðið vitni að ofbeldi gegn systrum sínum á heimilinu. Ekki hafi verið unnt að ljúka skýrslutöku af B þar sem honum hafi liðið illa og óskað eftir að þurfa ekki að tjá sig frekar.
Þá er frá því greint að í skýrslutöku fyrir dómi 16. janúar sl. hafi A lýst því að hún hafi írekað orðið fyrir ofbeldi af hálfu bróður síns eða orðið vitni að ofbeldi hans gegn systkinum sínum. A hafi kosið að tjá sig ekki um ofbeldi foreldra sinna en hefði lýst því að faðir hennar væri mjög skapstór maður. Það væri ljóst af yfirheyrslunni yfir A að hún óttaðist föður sinn og hefði miklar áhyggjur af því að ekki yrði unt að tryggja öryggi hennar í málinu kysi hún að tjá sig. Meðal gagna málsins séu m.a. ljósmyndir af áverkum sem talið sé að A hafi orðið fyrir af hálfu föður síns þegar þau hafi verið stödd í [...] yfir jólin 2016. Gögnin hafi borist lögreglu frá eldri systur barnanna, D. Samkvæmt D hafi A verið slegin með belti eða skóhorni af föður sínum umrætt sinn. Í bókunarkerfi lögreglu sé einnig að finna nokkrar tilkynningar um læti eða ofbeldi á heimili kærða sem styðji við framburð barnanna og systur þeirra um ofbeldi sem þau hafi sætt eða orðið vitni að (sjá bókanir lögreglu í máli nr. 007-2015-[...] frá 12. maí 2015 og í máli nr. 007-2016-[...] frá 5. nóvember 2016).
Af hálfu sóknaraðila kemur einnig fram að framburður barnanna og D um meint ofbeldi hafi verið borinn undir kærðu og neiti þeir báðir sök eða geri lítið úr þeim tilvikum sem borin hafi verið undir þá eða hafi lýst þeim á annan veg. Fram hafi komið hjá X að hann hefði notað skóhorn til að hræða börnin og hefði hann danglað í þau með því. Þá hafi hann kannast að hafa öskrað á börnin og hrætt þau. C hefði kannast við að hafa tekið A hálstaki og hent henni til en segðist eingöngu hafa hrætt B bróður sinn. Móðir barnanna, E, hafi einnig verið yfirheyrð vegna málsins og neiti hún að hafa orðið vitni að ofbeldi X og C. Milli þessara þriggja aðila sé þó töluvert misræmi og lýsi þau atvikum sem borin hafi verið undir þau með ólíkum hætti.
Þá kemur fram að Barnavernd Reykjavíkur hafi þann 16. janúar sl. tekið ákvörðun um að vista börnin tímabundið utan heimilis til 31. janúar nk. vegna alvarleika málsins. Í framhaldi hafi lögreglan tekið ákvörðun um að X og C skyldu sæta nálgunarbanni gagnvart börnunum á sama tíma þar sem ljóst væri að taka þyrfti frekari skýrslur af börnunum en það hafi verið mat lögreglu að mikilvægt væri að X og C gætu ekki sett sig í samband við börnin á meðan. Þann 25. janúar sl. hafi verið tekin lögregluskýrsla af A og fyrirhugað var að tekin yrði skýrsla í Barnahúsi af B sama dag sem reyndist ekki unnt sökum vanlíðanar hjá honum. Þann 31. janúar sl. hafi því verið tekin skýrsla af B á lögreglustöð í samráði við Barnavernd Reykjavíkur. Sé það mat lögreglu, eftir að aftur hafi verið rætt við börnin, að taka þurfi frekari skýrslur af þeim og því sé mikilvægt að takmarka áfram samskipti X og C við börnin. X hafi upphaflega verið gert að sæta nálgunarbanni með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 16. janúar sl. til 31. janúar sl. sem staðfest hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-[...]/2017 og síðan með dómi Hæstaréttar nr. 48/2017.
Í ljósi þess sem að framan greinir telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en X og C liggi að mati lögreglu undir rökstuddum grun um að hafa beitt A og B líkamlegu ofbeldi sem talið sé varða við ákvæði almennra hegningarlaga og barnaverndarlaga. Það sé mat lögreglu að brýnt sé að að börnin njóti verndar fyrir frekara ofbeldi og áreiti af hálfu föður þeirra og bróður meðan rannsókn málsins sé enn á viðkvæmu stigi og mikilvægt að kærðu setji sig ekki í samband við börnin eða geti haft áhrif á framburð þeirra á þessu stigi máls. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi barnanna verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.
Niðurstaða:
Eins og rakið er í greinargerð hefur lögregla til rannsóknar ætluð brot varnaraðila gagnvart tveimur börnum sínum, B og A. Þar kemur fram að ætluð brot varnaraðila varði í senn við barnaverndarlög og almenn hegningarlög án þess að vísað sé til tiltekinna refsiákvæða. Með dómi Hæstaréttar Íslands 25. janúar 2017 í málinu nr. 48/2017 var á það fallist að fullnægt væri skilyrðum a-liðar 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 svo að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni þannig að honum væri bannað að setja sig í samband við börnin. Samkvæmt a-lið 4. gr. fyrrgreindra laga er það skilyrði fyrir að beita nálgunarbanni að rökstuddur grunur sé um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Skýrslur sem lögregla tók af börnunum 25. og 31. janúar sl. eða önnur gögn málsins breyta ekki því mati Hæstaréttar Íslands að framangreindum lagaskilyrði sé fullnægt.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 verður nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Af 1. mgr. 7. gr. laganna verður einnig ráðið að unnt er að beita nálgunarbanni vegna ríkra rannsóknarhagsmuna. Samkvæmt framlögðum gögnum liggur fyrir að samkomulag milli barnaverndaryfirvalda í Reykjavík og varnaraðila þar sem hann skuldbindur sig til þess að búa ekki á heimili sínu með börnunum. Kom jafnframt fram að samkomulag þess efnis hafi verið framlengt þannig að það gildi út febrúarmánuð. Þá hefur jafnframt komið fram að barnaverndaryfirvöld hafi ekki farið fram með kröfu um nálgunarbann, eins og barnaverndarnefnd er heimilt að gera á grundvelli 37. gr. barnaverndarlaga, heldur hafi þótt eðlilegt að lögreglustjóraembættið gerði slíka kröfu fyrir dómi þar sem lögreglurannsókn stæði yfir á hinu ætlaða ofbeldi.
Brotaþolar hafa nú gefið skýrslu bæði í Barnahúsi 16. janúar sl. og hjá lögreglu 25. og 31. janúar sl. Upplýst er að lögregla telur nauðsynlegt að taka aftur skýrslu af börnunum í Barnahúsi. Af þessum sökum telur lögreglan mikilvægt að vernda börnin gegn frekara ofbeldi og áreiti af hendi varnaraðila sem geti haft áhrif á framburð þeirra meðan á rannsókn málsins stendur. Hvað þetta atriði varðar skal tekið fram að ekki náðist að klára skýrslutöku af B í Barnahúsi þar sem honum leið mjög illa. Ekki er efni til að draga í efa mat lögreglu að ástæða sé til þess að hann gefi að nýju skýrslu í Barnahúsi. A er aftur á móti á sextánda aldursári og hún hefur þegar lokið við að gefa skýrslu í Barnahúsi og hjá lögreglu. Að teknu tilliti til hagsmuna barnanna á þessu stigi rannsóknar málsins og þess sem hér hefur verið rakið um þörf á frekari skýrslutöku og möguleg áhrif á framburð brotaþola ef ekki er komið í veg fyrir að sóknaraðili hafi samskipti við börnin þykir mega fallast á að framangreindu skilyrði fyrri málsliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 sé fullnægt.
Af hálfu sóknaraðila var upplýst fyrir dómi að ekki hafi verið ákveðið hvenær börnin gæfu frekari skýrslur. Það hafi tekið drjúgan tíma að vinna traust þeirra, en við fyrri skýrslutöku í Barnahúsi hafi þau ekki viljað tjá sig nema að hluta til um atvik. Af hálfu sóknaraðila var upplýst að nálgunarbanni verði aflétt þegar ástæða hennar þykir ekki lengur vera fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2011. Í þessu ljósi ber að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 31. janúar sl. um að X skuli sæta nálgunarbanni til 28. febrúar nk., þannig að lagt er bann við því að X veiti börnum sínum, þeim A, kt. [...] og B, kt. [...], eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 160.000 krónur.