Hæstiréttur íslands
Mál nr. 667/2006
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 10. maí 2007. |
|
Nr. 667/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn arūnas Budvytis og (Sveinn Andri Sveinsson hrl. Þórður Bogason hdl.) Virūnas Kavalčiukas (Björgvin Jónsson hrl. Björn Jóhannesson hdl.) |
Ávana- og fíkniefni. Upptaka.
S og V voru sakfelldir fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á tæplega 12 kílóum af mjög sterku amfetamíni ætluðu til söludreifingar. Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð hefði verið unnt að drýgja efnið og fá úr því um eða yfir 30 kíló af amfetamíni, með ríflega 20% styrkleika. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að engum vafa sé undirorpið hverjir hættueiginleikar efnisins séu. Brot S og V séu þaulskipulögð og að þeir hafi frá upphafi gert sér far um að villa fyrir rannsóknaraðilum. Þótti refsing S og V hæfilega ákveðin fangelsi í sjö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða Virūnas Kavalčiukas um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærðu og staðfestingar héraðsdóms um upptöku haldlagðra fíkniefna og bifreiðar.
Ákærði arūnas Budvytis krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhald er hann hefur sætt frá 7. júlí 2006 komi með fullri dagatölu til frádráttar dæmdri refsingu.
Ákærði Virūnas Kavalčiukas krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhald er hann hefur sætt frá 7. júlí 2006 komi með fullri dagatölu til frádráttar dæmdri refsingu.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu og heimfærslu brota þeirra til refsiákvæða. Refsing ákærðu er hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald sem ákærðu hafa sætt frá 7. júlí 2006.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.
Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum verða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða arūnas Budvytis fyrir Hæstarétti felld á ríkissjóð, en ákærða Virūnas Kavalčiukas verður gert að greiða annan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða arūnas Budvytis fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Virūnas Kavalčiukas greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, svo og annan áfrýjunarkostnað málsins, 77.661 krónu.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2006.
Ríkissaksóknari höfðaði málið með ákæru útgefinni 5. október 2006 á hendur ákærðu, arūnas Budvytis, litháískum ríkisborgara, fæddum 18. desember 1974, 1 Burlington Close, Berckton E 65RX, London, Englandi og Virūnas Kavalčiukas, litháískum ríkisborgara, fæddum 18. september 1970, Dauksos 8-3, Kaunas, Litháen, „fyrir stórfellt brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa, fimmtudaginn 6. júlí 2006, í hagnaðarskyni flutt hingað til lands 11.949,75 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar. Ákærðu fluttu efnið falið í eldsneytistanki bifreiðarinnar WX51 SFN af gerðinni VW Passat, með farþegaferjunni Norrænu og fannst efnið við komu ferjunnar til Seyðisfjarðar.“
Amfetamínið var endurvigtað 18. október og vó þá 11.895,96 grömm. Við munnlegan málflutning breytti ákæruvaldið kröfugerð sinni því til samræmis, en háttsemin er í ákæru talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og 32/2001. Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Þá er krafist upptöku á greindum fíkniefnum, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Jafnframt er krafist upptöku á nefndri bifreið, sbr. 7. mgr. 5. gr. téðra fíkniefnalaga og 2. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar.
Ákærðu krefjast sýknu, en ellegar vægustu refsingar sem lög leyfa.
I.
Ákærðu komu með Norrænu til Seyðisfjarðar að morgni fimmtudagsins 6. júlí. Þegar verið var að tollafgreiða ferjuna færðu þeir VW Passat skutbifreið með bresk skráningarmerki WX51 SFN að grænu hliði, ómeðvitaðir um að bifreiðin og skráðir farþegar, sem með henni kæmu, höfðu verið valin í úrtak fyrir tollskoðun. Í ljós kom að ákærði Virūnas var ekki á farþegalista, heldur landi hans, A, búsettur í [...] á Englandi, sem einnig var eigandi bifreiðarinnar samkvæmt breskum heimildarskjölum. Ákærði arūnas gaf þá skýringu á þessu að hann hefði keypt bifreiðina þremur mánuðum áður og væri því réttur eigandi hennar. Við skoðun í farþegarými sáust fjögur ilmspjöld við aftursæti og í farangursgeymslu.
Í skýrslu Jóhanns Freys Aðalsteinssonar deildarstjóra tollgæslunnar, sem hann staðfesti fyrir dómi, segir að framangreind atriði hafi vakið grunsemdir tollvarða, sem og að ákærðu hafi virst stressaðir, sér í lagi ákærði arūnas. Þá hafi þeir ekki gefið trúverðugar skýringar á ferðum sínum; sagst enga þekkja á Íslandi og hvorki vitað hvar þeir ætluðu að gista né hvað þeir myndu skoða á þeirri viku, sem þeir ætluðu að dvelja hér á landi sem almennir ferðamenn. Við nánari leit í bifreiðinni hafi fundist átta 1,5 lítra plastflöskur, fylltar með hvítu dufti, sem komið hafði verið vandlega fyrir í eldsneytistanki. Ákærðu hafi ekki kannast við að neitt væri falið í tankinum. Fyrir dómi kvaðst Jóhann Freyr ekki vita til þess að gerð hefði verið skýrsla um aðra muni, sem fundust í bifreiðinni. Hann ræki þó minni til þess að tollverðir hefðu séð greiðslukvittanir vegna eldsneytiskaupa og hefði vakið grunsemdir hve lítil olía hefði verið keypt hverju sinni.
Ákærðu voru handteknir um kl. 14 og færðir á lögreglustöð. Jafnframt tók lögregla við bifreiðinni, farangri ákærðu og öðru, sem í henni var. Af gögnum málsins má ráða að ákærði arūnas hafi verið með farsíma, persónuskilríki, tvö greiðslukort og 200 evrur í fórum sínum og ákærði Virūnas með síma og skilríki, auk 990 evra og 103 danskra króna. Af sömu gögnum verður ekki séð að gerð hafi verið leitarskýrsla vegna farangurs ákærðu og annarra muna, sem í bifreiðinni voru.
Ákærðu voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald 7. júlí, sem síðan hefur verið framlengt þrisvar sinnum, síðast 4. október og þá til þess dags er dómur gengur í málinu; þó ekki lengur en til 29. nóvember. Var sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti 6. október í kærumáli ákærða Virūnas nr. 522/2006.
II.
Við eftirgrennslun kom í ljós að ferðaskrifstofan Jetis í Kaunas hafði 19. júní bókað ferð með Norrænu fyrir bifreiðina WX51 SFN og tvo farþega, ákærða arūnas og A, með tilgreindum vegabréfanúmerum. Pöntunin var gerð í nafni A. Í fyrrnefndri skýrslu Jóhanns Freys er vísað til gagna frá Smyril Line í Færeyjum þessu til staðfestingar, sem og að 29. júní hafi 1.118 evrur verið millifærðar frá Jetis yfir á reikning skipafélagsins og farmiðar gefnir út 1. júlí. Þá liggur fyrir skýrsla Eiríks Ragnarssonar rannsóknarlögreglumanns og samhljóða vætti fyrir dómi um að hann hafi fengið þær upplýsingar hjá starfsmanni Jetis að ókunnur maður hafi komið á ferðaskrifstofuna 28. júní, greitt ferðina með 1.011 evrum í reiðufé og sagst vera að ganga erinda A, sem væri erlendis.
Fyrir liggur að ákærðu fóru með Norrænu frá Hanstholm í Danmörku að kvöldi 1. júlí, frá Þórshöfn í Færeyjum til Seyðisfjarðar 5. júlí og að þeir áætluðu brottför þaðan 13. júlí.
III.
Kristján Friðþjófsson hjá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík fór austur 6. júlí til rannsókna á bifreiðinni WX51 SFN og móttöku á umræddum flöskum. Samkvæmt skýrslum, sem Kristján staðfesti fyrir dómi, voru flöskurnar löðrandi í díselolíu og því ómögulegt að gera á þeim fingrafararannsókn. Hins vegar hefðu náðst fingraför af loki yfir olíudælu bifreiðarinnar, en þau reynst ónothæf til samanburðarrannsókna við fingraför ákærðu. Sævar Jóhannsson fingrafarasérfræðingur staðfesti síðastgreint atriði fyrir dómi. Efnið í flöskunum var vigtað á starfsstöð tæknideildar 7. júlí og vó þá 11.949,75 grömm. Að sögn Kristjáns hafi litprófun á sýni úr hverri flösku gefið jákvæða svörun og bent til þess að um afar sterkt amfetamín væri að ræða. Í framhaldi hefðu 4,32 grömm af efni úr flösku, merktri nr. 4, verið send Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 10. júlí.
IV.
Samkvæmt matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents á nefndri rannsóknastofu, sem hann staðfesti fyrir dómi, vó sama efnissýni 3,965 grömm við móttöku, en 3,284 grömm eftir þurrkun. Hið þurrkaða sýni hafi innihaldið amfetamín og hafi efnapróf bent til þess að amfetamínið væri að mestu á formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínbasa hafi verið 68%, sem samsvari 92% af amfetamínsúlfati. Nánar aðspurður um styrkleika efnisins bar Jakob að um væri að ræða afar sterkt amfetamín, miðað við flest önnur sýni samkynja efnis, sem rannsóknastofan fengi til meðferðar. Þannig hefði meðaltalsstyrkur amfetamínbasa verið nálægt 20% í rannsökuðum sýnum árið 2005. Jakob kvað eðlilegt að amfetamín léttist við endurvigtun og byggðist það á uppgufun vatns og eftir atvikum annarra lífrænna leysiefna.
Rannsóknastofunni var undir rekstri málsins falið að efnagreina sýni úr hinum flöskunum sjö, sem fundust í Passat bifreiðinni. Samkvæmt matsgerð Jakobs 10. nóvember 2006, sem ekki er vefengd af hálfu ákærðu, reyndist magn amfetamínbasa í þeim sýnum á bilinu 68-72% (meðaltalsstyrkur 70,7%), sem samsvari amfetamínsúlfati á bilinu 93-98% (meðaltalsstyrkur 96,4%). Sem fyrr léttust sýni við þurrkun.
V.
Húnbogi Jóhannsson stjórnaði lögreglurannsókn málsins. Hann bar fyrir dómi að reynt hefði verið að afla upplýsinga gegnum Interpol um ætlaða vitorðsmenn ákærðu, „C“ og „B“, en sú rannsókn hefði ekkert leitt í ljós. Eins væri farið með könnun á símanúmeri, sem ákærði arūnas hefði sagst hafa átt að hringja í eftir komu til landsins og önnur símasamskipti, sem athuguð hefðu verið.
Gögn málsins bera með sér að eftir komu til landsins hafi ákærðu fengið hvor um sig ein persónuleg SMS skilaboð; ákærði arūnas úr bresku símanúmeri, síðdegis 6. júlí, sem hljóða svo í íslenskri þýðingu: „Hvað hefur orðið um þig? Mamma þín er að verða vitlaus, er að leita að þér innan fjölskyldu þinnar.“ Daginn eftir bárust skilaboð í síma ákærða Virūnas, úr litháísku númeri, sem á íslensku hljóða svo: „Hvernig gengur í fríinu?“
Þá liggur fyrir skýrsla Húnboga, dagsett 24. júlí, en samkvæmt henni bárust þær upplýsingar frá Interpol í Vilnius, Litháen, 11. júlí að ákærðu hefðu farið í Passat bifreiðinni um landamæri Litháen 29. júní kl. 22:20, á leið til Póllands gegnum bæinn Lazdijai. Þá upplýsti Interpol 17. júlí að ákærði Virūnas hafi farið frá Litháen 20. júní, gegnum landamærastöð í Kalvarijos, í bifreiðinni EN 1167, ákærði arūnas flogið samdægurs frá Vilnius til Stokkhólms og komið til baka með flugi frá London 27. júní kl. 21:07.
VI
Ákærði arūnas var yfirheyrður fjórum sinnum hjá lögreglu, 6., 14. og 21. júlí og loks 12. september, ávallt vegna gruns um innflutning á miklu magni fíkniefna. Meðákærði Virūnas gaf þrjár skýrslur, 7., 14. og 20. júlí, ávallt undir sömu formerkjum.
Við tvær fyrstu yfirheyrslurnar hélt ákærði arūnas því fram að litháísk stúlka að nafni C, sem hann þekkti frá Kaunas, en nú byggi á Skotlandi, hefði hringt í hann um miðjan júní og beðið hann að fara til Íslands með stera fyrir hross. Hún hefði hvorki tilgreint magn slíkra efna né hvernig flutningurinn ætti að fara fram, en beðið hann að skilja Passat bifreið sína eftir á tilteknum stað, nálægt heimili sínu í London. Þar hefði B, kærasti C og skipuleggjandi ferðarinnar, tekið bifreiðina og skilað henni á sama stað einum og hálfum sólarhring síðar. Að sögn ákærða hefði B látið þess getið við afhendinguna að allt væri í lagi með efnið og að leitarhundar myndu ekki finna lykt af því. Fyrir framangreint viðvik sagðist ákærði hafa átt að fá 3.000 sterlingspund og allan útlagðan ferðakostnað, gegn framvísun greiðslukvittana við heimkomu. Hann kvað D, vin sinn í Litháen, hafa pantað ferðina með Norrænu og lagt út fyrir henni, en B hefði sagt að betra væri að gera þetta í Litháen. Í upphafi hefði staðið til að A, færi með í Íslandsförina, í boði ákærða, en sá hefði fótbrotnað í knattspyrnuleik 24. eða 25. júní og hætt við. Ákærði hefði þess í stað hringt í meðákærða Virūnas, líklegast 26. júní og boðið honum í ferðina, en þeir þrír hefðu þekkst til margra ára og meðákærði á þessum tíma búið hjá A í [...]. Meðákærði hefði þegið boðið og ekki vitað um hin földu efni. Ákærðu hefðu haldið frá London 28. júní í Passat bifreiðinni, tekið ferju til Frakklands, ekið þaðan um Belgíu og Holland, inn í Þýskaland, þar sem D hefði afhent þeim farmiðana á bensínstöð í nágrenni Hamborgar. Við það tækifæri hefði ákærði endurgreitt honum miðaverðið, 1.180 evrur. Þaðan hefðu ákærðu ekið til Danmerkur, gist eina nótt á hóteli í námunda við Hanstholm og stigið um borð í Norrænu 1. júlí. Að sögn ákærða hefði hann átt að hringja í C eftir komuna til Íslands og fá frekari fyrirmæli. Hann hefði þó vitað að hann ætti að skilja bifreiðina eftir við eitthvert sveitabýli og sækja hana á sama stað þegar búið væri að fjarlægja sterana.
Ákærði Virūnas greindi frá því við yfirheyrslur 7. og 14. júlí að hann hefði komið til Íslands í boði meðákærða arūnas, í þeim tilgangi að fara í hvalaskoðun, sjá Geysi og fara í sund og hefði hann ekki vitað um nein efni falin í Passat bifreiðinni. Hann kvaðst vera kvæntur og búa í Kaunas, en sækja vinnu á Englandi og dvelja þar nokkra mánuði í senn. Á meðan byggi hann hjá A í [...]. Ákærði lýsti aðdraganda Íslandsferðarinnar á þann veg að hann hefði hitt meðákærða fyrir tilviljun á götu í London 26. eða 27. júní og hann boðið ákærða í ferðina í stað A, sem hefði forfallast. Ákærði kvaðst ekki vita hvenær eða hvernig A hefði fótbrotnað. Ákærðu hefðu lagt upp frá London 28. eða 29. júní, tekið ferju frá Dover til Frakklands, ekið þaðan um Belgíu og Holland, inn í Þýskaland, þar sem ókunnur maður hefði afhent þeim farmiða með Norrænu á bensínstöð nálægt Hamborg. Þaðan hefðu ákærðu ekið til Danmerkur og gist eina nótt á hóteli nálægt Hanstholm fyrir brottförina til Íslands. Að sögn ákærða hefði meðákærði lagt út fyrir gistingunni, eldsneyti og öllum mat, sem þeir hefðu borðað á leiðinni. Hann kvaðst annars ekki vita hvernig greiðslu ferðakostnaðar hefði verið háttað og sagði að sér hefði ekki fundist neitt grunsamlegt við ferðalagið í heild. Aðspurður kvaðst ákærði síðast hafa farið frá Litháen til Englands um miðjan maí, hafa verið þar í vinnu til loka júní og á meðan búið hjá A. Í lok yfirheyrslunnar 14. júlí var ákærða kynnt að lögregla hefði undir höndum gögn frá erlendum yfirvöldum, sem stönguðust á við framburð hans í veigamiklum atriðum. Í ljósi þeirra upplýsinga var ákærða gefið færi á að breyta framburði sínum, en hann kvaðst standa fast við fyrri frásögn.
VII.
Við yfirheyrslu 20. júlí sagðist ákærði Virūnas vilja breyta framburði sínum og kvað rangt að ákærðu hefðu lagt upp frá London. Þeir hefðu hins vegar sammælst um að skýra svo frá, ef tollyfirvöld myndu spyrja um ferðir þeirra, enda líklegt að minna yrði spurt ef þeir segðust koma frá Englandi, auk þess sem meðákærði arūnas byggi þar og Passat bifreiðin bæri bresk skráningarmerki. Að sögn ákærða væri hið sanna í málinu að hann hefði farið frá Englandi til Litháen um miðjan júní ásamt A og þeir farið landleiðina í sömu Passat bifreið, sem ákærði héldi að væri í eigu A. Eftir að heim kom hefði ákærði hvorki séð né heyrt frá meðákærða fyrr en 26. júní þegar þeir hefðu hist fyrir tilviljun á götu í Kaunas og meðákærði boðið honum í Íslandsförina, vegna forfalla A. Þeir hefðu síðan lagt upp frá Kaunas síðla kvölds 28. júní og ekið um Pólland, Þýskaland og Danmörku. Meðákærði hefði haft bókunarseðil meðferðis og framvísað honum í Hanstholm til að fá farmiðana með Norrænu, en þar hefðu þeir gist eina nótt á hóteli. Í framhaldi sagði ákærði rangt að þeir hefðu hitt einhvern í Hamborg og fengið miðana þar. Ákærði kvaðst sem fyrr ekki vita um annað tilefni ferðarinnar en að skoða Ísland og sagðist ekki telja neitt óeðlilegt við að meðákærði greiddi allan ferðakostnað. Hann kvaðst halda að upplýsingar frá Interpol um brottför ákærðu frá Litháen 29. júní væru ónákvæmar og þrætti fyrir að hafa farið frá Litháen 20. júní í bifreiðinni EN 1167.
Við yfirheyrslu 21. júlí kvaðst ákærði arūnas hvorki vilja breyta né nokkru bæta við fyrri framburð í málinu. Nánar aðspurður um kvittanir fyrir eldsneytiskaupum og öðrum útgjöldum í ferðinni kvaðst ákærði eiga þær allar, að frátaldri kvittun vegna gistingar í Danmörku, sem hann hefði aldrei fengið í hendur. Aðrar kvittanir ættu að vera í Passat bifreiðinni og sagðist ákærði ekki skilja af hverju lögregla hefði ekki fundið þær við leit. Hann áréttaði að A hefði fótbrotnað við knattspynuiðkun á Englandi, eða í það minnsta skemmt liðbönd, en ákærði hefði hitt hann eftir slysið og séð spelku á öðrum fæti hans. Aðspurður kvaðst ákærði ekki þekkja neinn á Íslandi, sagðist ekki hafa gert ráðstafanir fyrir fram varðandi gistingu, en hafa ætlað að dvelja á gistiheimili eða hóteli. Hann áréttaði einnig að hann hefði hringt heim til meðákærða Virūnas í [...] og boðið honum í ferðina og sagði framburð meðákærða um óvæntan fund þeirra á stræti í London vera rangan. Ákærða var í framhaldi kynnt frásögn meðákærða 14. júlí af ferðlagi þeirra um Frakkland, Belgíu, Holland, Þýskaland og Danmörku og staðfesti hann réttmæti þess framburðar. Ákærða voru í kjölfarið kynnt gögn frá Interpol um ætlaða flugferð hans frá London til Litháen 27. júní og brottför þaðan 29. júní, um Lazdijai, í Passat bifreiðinni.
Eftir tæprar hálfrar klukkustundar hlé, sem ákærði óskaði eftir til að ráðfæra sig við verjanda, sagði hann nefndar upplýsingar vera réttar og kvaðst áður hafa logið um sömu atriði til að vernda fjölskyldu sína. Hann vildi ekki útskýra í hverju sú vernd væri fólgin. Næst var ákærða kynnt að greitt hefði verið fyrir farmiðana með Norrænu 28. júní á ferðaskrifstofunni Jetis í Kaunas, hann minntur á fyrri frásögn um fótbrot A 24. eða 25. júní og hann því næst spurður hví nafn meðákærða hefði ekki verið fært á viðkomandi miða í stað A. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því. Hann staðfesti þá frásögn meðákærða að þeir hefðu sammælst að villa um fyrir tollyfirvöldum, segjast búsettir á Englandi og vera að koma þaðan, ef þeir yrðu stöðvaðir við tollskoðun. Að sögn ákærða hefði hann talið slíkt myndu auðvelda þeim að komast óhindrað gegnum tollinn, en sjálfur hefði hann vitað um ólöglega stera falda í Passat bifreiðinni. Hann kvað meðákærða ekki hafa vitað um efnin, en hafa samþykkt að ljúga að tollyfirvöldum, að beiðni ákærða. Í framhaldi staðfesti ákærði leiðrétta ferðalýsingu meðákærða við yfirheyrslu 20. júlí og kvað líkt og hann rangt að þeir hefðu hitt D í Hamborg og fengið farmiðana hjá honum. Hið rétta væri að ókunnur maður hefði afhent ákærða miðana í Litháen, fyrir tilstilli B eða C. Þar hefði efnið einnig verið sett í bifreiðina, líklegast 28. júní eða sama dag og ákærðu hefðu lagt af stað til Íslands. Ákærði vildi ekki svara því hver hefði afhent honum bifreiðina eftir að efninu hefði verið komið fyrir í henni. Hann áréttaði að A hefði fótbrotnað, en sagði það hafa gerst í Litháen og hefði hann logið til um annað. Hann hefði engu síður séð A eftir slysið og í kjölfar þess hringt frá Englandi til meðákærða í Litháen og boðið honum með í stað A. Í framhaldi hefðu ákærðu hist fyrir tilviljun á götu í Kaunas, eins og meðákærði hefði greint frá 20. júlí.
VIII.
A bar vitni hjá lögreglu í Kaunas 22. ágúst. Hann kvaðst þekkja ákærðu, hafa verið með þeim í skóla og vera kunningi þeirra beggja. Að sögn A hefði hann verið að velta því fyrir sér í júní að fara til Íslands með eiginkonu sinni og barni. Í byrjun þess mánaðar hefði hann verið staddur á Englandi, beðið ákærða arūnas að kaupa farmiða með Norrænu og látið hann hafa nauðsynlegar persónuupplýsingar í því sambandi, en ákærði hefði ætlað með í ferðina. Þegar A hefði verið kominn heim til Litháen, í lok júní eða byrjun júlí, hefði ákærði boðið honum að fara einn með sér til Íslands og hann sagt að farmiðarnir væru svo dýrir. A bar að hann hefði afþakkað boðið og hætt við ferðina, enda ekki viljað fara án fjölskyldu sinnar. Hann kvaðst síðast hafa hitt ákærða Virūnas í byrjun júlí og þá ekki vitað að hann ætlaði í Íslandsförina. A kvaðst vera skráður eigandi bifreiðarinnar WX51 SFN og hafa verið umráðamaður hennar dagana 15.-29. júní, en lánað ákærða arūnas bifreiðina á sama tímabili og ákærði keypt hana af A í byrjun júlí.
IX.
Ákærði arūnas kvaðst engu vilja breyta í framburði sínum við yfirheyrsluna 12. september. Hann staðfesti fyrri frásögn um að hafa keypt Passat bifreiðina af A, líklega í apríl 2006, fyrir 4.000 pund og eiga eftir að greiða 1.500 pund af kaupverðinu. Ákærði áréttaði einnig að í upphafi hefðu hann og A ætlað saman til Íslands, en eftir slysið í Litháen hefði meðákærði Virūnas komið inn í myndina. Hann kvað aldrei hafa komið til tals að fjölskylda A færi með í nefnda för og sagði rangt að A hefði borið slíkt fyrir sig þegar hann hefði tilkynnt forföll. Að sögn ákærða væri hins vegar mögulegt að A hefði sett falskar umbúðir á annan fót sinn og logið til um fótboltameiðsl til að komast hjá ferðinni. Loks færi A með rangt mál ef hann segðist hafa selt bifreiðina í byrjun júlí.
X.
Fyrir dómi lýsti ákærði arūnas sig saklausan af ákæru. Hann viðurkenndi hins vegar að hafa flutt til landsins ótilgreint magn af ætluðum steralyfjum fyrir hesta, sem falin hefðu verið í Passat bifreið hans. Ákærði lýsti aðdraganda þessa nánar á þann veg að í byrjun júní hefðu C og B haft samband og beðið hann að fara í umrædda ferð. Ákærði kvaðst hafa vitað að nefndir sterar væru ólöglegir hér á landi, en ákveðið að láta slag standa, enda hefðu C og B sagt að ef hann yrði gripinn myndi hann hljóta í mesta lagi tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Fyrir viðvikið hefði hann átt að fá greidd 3.000 pund. B hefði skipulagt ferðina og sagt að betra væri að kaupa farmiðana með Norrænu í Litháen. Ákærði hefði því beðið D að kaupa fyrir sig tvo miða í Kaunas. Hann hefði einnig haft samband við A og boðið honum með, enda ekki treyst sér til að fara einn í svo langt ferðalag. A hefði tekið boðinu, grunlaus um raunverulegan tilgang ferðarinnar. Í framhaldi hefðu A og meðákærði Virūnas verið beðnir að aka Passat bifreiðinni frá Englandi til Litháen um miðjan júní, en bifreiðina hefði ákærði keypt af A í apríl. Ákærði hefði sjálfur flogið frá Englandi til Litháen 27. júní, fengið bifreiðina í hendur og verið sagt að fara með hana á tiltekinn stað í Kaunas, þar sem sterunum yrði komið fyrir einhvers staðar í henni. Bifreiðina hefði hann svo fengið að nýju sólarhring síðar. Ákærði hefði einnig mælt sér mót við D, fengið miða vegna ferðarinnar með Norrænu og endurgreitt honum miðaverðið. Um svipað leyti hefði A fótbrotnað, eða hann að minnsta kosti sagst hafa fótbrotnað og því hefði ákærði hringt í aðra til að bjóða með í ferðina. Hann hefði síðan hitt meðákærða óvænt í miðbæ Kaunas síðla kvölds 27. júní, sagt honum frá forföllum A og boðið meðákærða í hans stað. Meðákærði hefði tekið boðinu án frekari umhugsunar, enda ferðin að kostnaðarlausu og hann grunlaus um raunverulegan tilgang hennar. Nánar aðspurður um ferðakostnað kvaðst ákærði hafa átt að leggja út fyrir öllum kostnaði, en halda kvittunum til haga og fá hann endurgreiddan hjá C og B við heimkomu, auk fyrrnefndrar þóknunar. Ákærði sagði að þær kvittanir hefði hann geymt nálægt gírstöng bifreiðarinnar. Nánar aðspurður kvað ákærði efnin hafa verið sett í bifreiðina 28. júní og hefðu þeir félagar lagt upp í ferðina daginn eftir. Þeir hefðu ekið sem leið lá um Pólland, Þýskaland og Danmörku og ferðin til Hanstholm tekið um einn og hálfan sólarhring. Á leiðinni hefðu þeir stoppað nokkrum sinnum til að borða, tekið eldsneyti 3-4 sinnum og nokkrum sinnum fengið sér smá blund áður en komið hefði verið til Hanstholm. Ákærði kvaðst á leiðinni hafa beðið meðákærða að ljúga því að tollvörðum, ef þeir yrðu stöðvaðir, að þeir væru að koma frá Englandi, en B hefði sagt að slíkt væri langbest, því minna væri leitað á Englendingum en Litháum. Svipuð rök hefðu búið að baki því að segjast hafa móttekið farmiðana í Hamborg. Að sögn ákærða hefði hann átt að hafa símasamband við C og B kl. 14 sama dag og ákærðu kæmu til Seyðisfjarðar, en ekki hefði verið svarað í umrætt símanúmer. Ákærði gat þess að hann væri kvæntur, tveggja barna faðir og byggi móðir hans með fjölskyldunni í London.
Ákærði Virūnas bar af sér sakir fyrir dómi og kvaðst hafa verið grandalaus um að fíkniefni eða önnur ólögleg efni hefðu verið falin í títtnefndri Passat bifreið. Ákærði greindi annars frá því að hann væri kvæntur, þriggja barna faðir og byggi fjölskyldan í Kaunas ásamt aldraðri móður hans. Að sögn ákærða hefði hann verið staddur úti á götu í Kaunas 26. eða 27. júní og hitt meðákærða arūnas fyrir hreina tilviljun. Meðákærði hefði sagt að hann væri á leið til Íslands 1. júlí, hann ætlað að skoða landið sem almennur ferðamaður og nefnt að upphaflegur ferðafélagi sinn hefði forfallast. Í framhaldi hefði hann boðið ákærða í ferðina, sagst vera búinn að kaupa tvo farmiða með Norrænu og að ferðin yrði ákærða að kostnaðarlausu. Að sögn ákærða hefði hann því slegið til, án frekari umhugsunar eða samráðs við fjölskyldu sína. Þeir hefðu síðan lagt af stað frá Kaunas síðla dags 28. eða 29. júní, í Passat bifreiðinni og ekið sem leið lá um Pólland, Þýskaland og þaðan til Hanstholm í Danmörku. Að sögn ákærða hefði ferðin tekið um sólarhring og þeir aðeins stöðvað í örfá skipti til að næra sig og kaupa eldsneyti. Á leiðinni hefði meðákærði haft orð á því að ef þeir yrðu stöðvaðir við tolleftirlit ætti ákærði að segja að þeir væru að koma frá Englandi. Ákærða hefði ekki fundist neitt óeðlilegt við það, enda byggi meðákærði þar í landi og bæri bifreiðin bresk skráningarmerki. Þá hefði meðákærði einnig beðið hann að ljúga því, ef þeir yrðu stöðvaðir, að þeir hefðu fengið farmiðana með Norrænu afhenta á bensínstöð í Hamborg. Hefði ákærða ekki fundist neitt athugavert við þá beiðni og því samþykkt hana. Miðana hefðu þeir hins vegar fengið afhenta í Hanstholm og þá fyrst hefði ákærði séð að hann myndi ferðast undir nafni A. Að sögn ákærða hefði hann ekki kippt sér upp við það og ekki talið ástæðu til að láta vita um breytinguna.
XI.
Samkvæmt 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu röksemdir dómara lúta að því hvað teljist sannað og með hverjum hætti. Um sönnun fer annars eftir reglum 45.-48. gr. laganna. Í því sambandi ber að meta skynsamlegan vafa til hagsbóta fyrir ákærðu, bæði um atriði er varða sekt þeirra og önnur, sem telja má þeim í óhag. Sönnunarbyrði hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr., en sönnunarmat dómara er frjálst, þó þannig að dómur skal fyrst og fremst reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr.
Í málinu liggur fyrir að ákærðu fluttu til landsins 11.895,96 grömm af verulega sterku amfetamíni, sem komið hafði verið haganlega fyrir í eldsneytistanki VW Passat bifreiðarinnar WX51 SFN og tollverðir fundu við leit eftir komu Norrænu til Seyðisfjarðar 6. júlí síðastliðinn. Ákærðu neita engu síður sök; ákærði arūnas á þeim grunni að hann hafi haldið að um væri að ræða ólögleg steralyf fyrir hross og ákærði Virūnas á þeim grunni að hann hafi ekki vitað um nein ólögleg efni í bifreiðinni. Við mat á trúverðugleika þeirra frásagna og annars framburðar ákærðu er óhjákvæmilegt að horfa til þess að þeir hafa ítrekað verið uppvísir að ósannindum um mikilvægar staðreyndir málsins og einsætt er að þeir sammæltust um ferðasögu, sem þeir hvikuðu ekki frá fyrr en lögregla upplýsti þá um sönnunargögn, sem hröktu frásögn þeirra. Að auki hefur framburður ákærðu hvors um sig ekki aðeins verið reikull, mótsagnakenndur og í meira lagi ótrúverðugur heldur gætir einnig á köflum ósamræmis milli frásagna þeirra. Verður nú skýrt í hverju þetta er fólgið.
Af framburði ákærða arūnas hjá lögreglu og fyrir dómi er einsætt að hann vissi að ólögleg efni höfðu verið falin í bifreiðinni, sem og að hann tók að sér að flytja þau til Íslands gegn greiðslu tiltekinnar þóknunar og útlagðs kostnaðar. Leggja verður til grundvallar framburð ákærða um eignarhald á bifreiðinni, en sú fullyrðing hans fær vissa stoð í vætti A hjá lögreglu í Kaunas og hefur ekki verið hrakin af hálfu ákæruvaldsins. Ákærði er tvísaga um hvar efnið var sett í bifreiðina. Í fyrstu hélt hann því fram að þetta hefði gerst í London, í lok júní, sem og að ákærðu hefðu lagt upp þaðan í Íslandsförina. Ákærði hélt fast við þennan framburð við þrjár yfirheyrslur hjá lögreglu, síðast 21. júlí, en dró hann til baka þann dag, eftir að lögregla kynnti honum óræk gögn um flugferð hans frá London til Vilnius að kvöldi 27. júní og för ákærðu beggja um landamæri Litháen og Póllands síðla kvölds 29. júní í sömu Passat bifreið. Í kjölfarið tefldi ákærði því fram að efnið hefði verið sett í bifreiðina í Kaunas. Sem fyrr kvaðst hann hafa verið beðinn um að færa bifreiðina á tiltekinn stað, þar sem ókunnir menn hefðu komið efninu fyrir og ákærði sótt hana að nýju, allt að sólarhring síðar. Hann hefur ávallt haldið því fram að „C“ og „B“ hafi fengið hann til verknaðarins og að þau hafi staðið að baki skipulagningu hans, þótt fyrst eigi þau að hafa starfað á Englandi og síðar frá Litháen. Er ekkert fram komið í málinu, sem styður þennan framburð ákærða, en á móti skortir haldbær gögn, sem hrekja hann. Ber ákærða að njóta vafans í þessu sambandi, sbr. 45.-46. gr. laganna um meðferð opinberra mála, enda hefur ekki tekist að útiloka þann framburð að hann hafi ekki átt frumkvæði að flutningi efnisins. Þáttur ákærða er engu síður stór, enda lagði hann til bifreið sína, vissi að í henni voru ólögleg efni og hefur ekki hvikað frá þeim framburði að C og B hafi sagt honum að leitarhundar myndu ekki finna lykt af efninu. Benda umrædd atriði eindregið til þess að ákærði hafi vitað eða mátt vita að um fíkniefni væri að ræða. En fleira kemur til skoðunar.
Ákærði hefur greint frá því að hann hafi látið panta og greiða fyrir bifreiðina og tvo farþega með Norrænu frá Hanstholm til Seyðisfjarðar. Af frásögn hans verður og ráðið að hann hafi átt frumkvæði að því að velja sér ferðafélaga og beðið meðákærða Virūnas að ljúga því að þeir væru að koma frá Englandi og hefðu móttekið farmiða með Norrænu á bensínstöð nálægt Hamborg. Skýringar ákærða á þeim framburði og fráhvarf hans frá upprunalegri ferðasögu benda einnig til þess að hann hafi vitað að fíkniefni voru falin í bifreiðinni. Hann hefur enga skýringu gefið á því af hverju meðákærði og A voru beðnir að flytja bifreiðina frá Englandi til Litháen um miðjan júní, en um þetta atriði eru ákærðu sammála. Verður að telja mikið í lagt að færa bifreiðina milli fjarlægra landa til þess eins að flytja í henni falin steralyf, en sú frásögn ákærða er afar ótrúverðug. Þá hefur ákærði verið tvísaga um aðkomu A að öðru leyti og ýmist borið því við að hann hafi slasast í knattspyrnuleik á Englandi eða í Litháen, eða gert sér upp slík meiðsl til að koma sér undan ferðinni til Íslands. Hefur engin skýring fengist á þessu misræmi, en ljóst er að ákærði er hér einnig uppvís að ósannsögli. Eftir stendur að ákærði lét þriðja aðila greiða fyrir ferðina á ferðaskrifstofu í Kaunas 28. júní, þrátt fyrir að hann væri sjálfur til staðar, vissi þá að A væri forfallaður og hafði kvöldið áður, ef marka má framburð hans fyrir dómi, boðið meðákærða í sömu ferð. Hefur ákærði enga skýringu gefið á því af hverju hann lét ekki vita um nýjan ferðafélaga, í síðasta lagi við útgáfu farmiða í Hanstholm, en þannig stuðlaði hann vísvitandi að því að meðákærði ferðaðist undir fölsku flaggi með Norrænu. Þá hélt ákærði því fram hjá lögreglu 21. júlí að ókunnur maður hefði afhent honum farmiðana, fyrir tilstilli C eða B, en fyrir dómi kvað hann vin sinn eða kunningja, D, hafa afhent honum miðana og einnig hafa lagt út fyrir þeim. Hefur hvorki fengist skýring á greindu misræmi í framburði ákærða, né heldur á reikulli og einkar ótrúverðugri frásögn hans um hvar, hvenær og hvernig fund hans og meðákærða bar að þegar ákærði á að hafa boðið honum í Íslandsförina. Sagði ákærði í fyrstu að hann hefði hringt til meðákærða frá Englandi, á heimili hans í [...], líklega 26. júní, næst að meðákærði hefði verið í Litháen þegar símtalið hefði átt sér stað og loks að þeir hefðu hist fyrir hreina tilviljun á verslunargötu í miðbæ Kaunas, tveimur dögum fyrir brottför. Þegar ákærði var fyrir dómi minntur á að hann hefði lent á flugvellinum í Vilnius laust eftir kl. 21 að kvöldi 27. júní kom fyrst fram að ákærðu hefðu hist sama kvöld milli kl. 22 og 23, fyrir lokun verslana. Er þó um 100 kílómetra veg að fara milli borganna tveggja.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að ákærði hefur ítrekað orðið ber að ósannsögli um veigamiklar staðreyndir málsins, gert sér far að villa um fyrir tollyfirvöldum og lögreglu við rannsókn þess og sammælst við meðákærða að gefa rangar upplýsingar um ferðasögu þeirra, allt til að hamla gegn því að leiða megi sannleikann í ljós. Þá er upplýst að við tollskoðun á Seyðisfirði voru fjögur ilmspjöld fyrir ofan aftursæti og í hliðum farangursrýmis bifreiðarinnar, en þar fyrir neðan var umrætt amfetamín falið í eldsneytistanki. Er fráleit sú skýring ákærða á staðsetningu ilmspjaldanna að þau hafi verið á nefndum stöðum til að eyða tóbakslykt í bifreiðinni. Þegar allt þetta er virt og sérstaklega er litið til þess, að ákærði léði afnot af bifreið sinni til flutnings á ólöglegu efni til Íslands, tók virkan þátt í undirbúningi ferðarinnar, fyrst með því að stuðla að flutningi bifreiðarinnar frá Englandi til Litháen, næst með vali á ferðafélaga og kaupum á farmiðum með Norrænu, því næst með því að hlutast til um að efni væru falin í bifreiðinni, vitandi að þau væru ólögleg og í þeirri trú að svo væri um þau búið að sérþjálfaðir leitarhundar fyndu ekki lykt af þeim og loks með því að annast flutning efnanna, gegn greiðslu þóknunar og útlagðs kostnaðar, er sannað að ákærði hafi vitað eða hlotið að vita að fíkniefni væru falin í bifreiðinni og að hann hafi kært sig kollóttan um hvaða efni þetta væru. Ber því að sakfella ákærða fyrir innflutning á umræddu amfetamíni, sem augljóslega var ætlað til söludreifingar hér á landi. Ákærði framdi brotið að því leyti í hagnaðarskyni, að hann áskildi sér 3.000 sterlingspunda þóknun fyrir flutninginn, eða jafnvirði ríflega 400.000 króna og endurgreiðslu útlagðs ferðakostnaðar, en gegn eindreginni neitun ákærða er ósannað að hann hafi haft eða átt að hafa annan ávinning af brotinu. Er háttseminni engu síður rétt lýst í ákæru og hún þar réttilega heimfærð til refsiákvæða, enda um verulegt magn af hættulegum fíkniefnum að ræða og er óumdeilt að styrkleiki þeirra er sérlega mikill.
Áður en ákærði Virūnas gaf sína fyrstu skýrslu hjá lögreglu 7. júlí var honum kynnt að grunur léki á að hann ætti aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna. Ef sú frásögn ákærða fyrir dómi er sannleikanum samkvæm, að hann hafi hitt meðákærða arūnas fyrir hreina tilviljun í miðbæ Kaunas að kvöldi 27. júní, þá fengið boð um að fara til Íslands sér að kostnaðarlausu tveimur dögum síðar og þekkst boðið á staðnum, með þá ætlun í huga að skoða landið sem almennur ferðamaður, er með hreinum ólíkindum að ákærði skuli ekki, þegar í upphafi málsrannsóknar, hafa skýrt réttilega frá ferðalagi sínu og meðákærða. Ákærða gafst annað tækifæri til að leysa frá skjóðunni 14. júlí, en hélt fast við fyrri frásögn um að ákærðu hefðu hist fyrir tilviljun á Englandi, meðákærði þá boðið honum til Íslands, þeir lagt upp frá London í Passat bifreið meðákærða og móttekið farmiða með Norrænu á bensínstöð í námunda við Hamborg. Jafnframt staðhæfði ákærði ranglega að hann hefði verið að vinna á Englandi frá því um miðjan maí og þar til ferðalagið hófst. Var honum þó kynnt í lok nefndrar yfirheyrslu að lögregla hefði undir höndum gögn, sem stönguðust á við framburð hans og gefinn kostur að breyta ferðasögunni. Eftir að fyrir lá að ákærðu fóru sannanlega um landamæri Litháen og Póllands að kvöldi 29. júní, í sömu bifreið, greindi ákærði frá ferðalaginu á sama veg og meðákærði gerði síðar. Ákærði hefur þó aldrei gefið haldbæra ástæðu fyrir því af hverju hann reyndi að villa um fyrir tollyfirvöldum og lögreglu með framangreindum hætti og sammæltist við meðákærða um rangan framburð, en sú frásögn að honum hafi ekki fundist neitt óeðlilegt eða athugavert við það felur fráleitt í sér marktæka skýringu á umræddum framburði. Framferði ákærða verður enn tortryggilegra, ef litið er til þess að hann er kvæntur, þriggja barna faðir í Litháen og hefur engin tengsl við meðákærða, búsettan á Englandi, sem útskýra af hverju hann hafi haldið tryggð við hann í svo alvarlegri stöðu, sem raun ber vitni, ef ákærði er á annað borð saklaus af ákæru. Loks bætir það ekki stöðu ákærða að hann vissi, eigi síðar en við afhendingu farmiða með Norrænu í Hanstholm, að hann myndi ferðast með skipinu í nafni A og taldi enga ástæðu til að vekja athygli á því atriði. Þótt ákærði hafi frá upphafi staðfastlega neitað aðild að broti meðákærða telur dómurinn einsætt samkvæmt framansögðu að hann sé með beinum hætti viðriðinn brotið og er misvísandi og ótrúverðugum framburði hans og meðákærða um annað hafnað.
Vegna ítrekaðra rangfærslna og ósannsöglis ákærða er erfitt að henda reiður á hlut hans í innflutningi fíkniefnanna. Þegar það er þó virt, að ákærði tók að sér að flytja Passat bifreiðina frá Englandi til Litháen um miðjan júní, að engin skýring hefur fengist á þeirri ferð, að meðákærði segist ekki hafa tekið við bifreiðinni fyrr en eftir 27. júní, að ákærði þekktist sama dag, samkvæmt eigin framburði, boð um að fara í rúmlega tveggja vikna ferð um meginland Evrópu og til Íslands, sér að kostnaðarlausu og án samráðs við fjölskyldu sína, að ákærðu sammæltust um upplogna ferðasögu til að villa um fyrir íslenskum yfirvöldum og loks þess, að ákærði tók sér í framhaldi far með Norrænu í nafni þriðja manns, telur dómurinn hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi vitað eða hlotið að vera ljós raunverulegur tilgangur ferðarinnar. Þegar við bætist vitnisburður Jóhanns Freys Aðalsteinssonar fyrir dómi, sem ekki er efni til að vefengja og mat hans á því að ákærði hafi virst stressaður við tollskoðun á Seyðisfirði og hvorki gefið haldbæra skýringu á komu sinni né ferðaáætlun hér á landi, telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna að ákærði hafi verið flutningsmaður umrædds amfetamíns í skilningi 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, enda um mikið magn að ræða af mjög hættulegu efni, ætluðu til söludreifingar. Ber að sakfella ákærða samkvæmt því.
XII.
Ákærðu eru sannir að sök að hafa staðið saman að innflutningi á tæplega 12 kílóum af mjög sterku amfetamíni, í átta plastflöskum, sem faldar voru í eldsneytisgeymi VW Passat bifreiðarinnar WX51 SFN. Samkvæmt matsgerðum Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði er styrkleiki amfetamínbasa í efninu á bilinu 68-72%, eftir því úr hvaða flösku sýni voru tekin og meðaltalsstyrkur því 70,3%, enda flöskurnar allar af sömu stærð. Af matsgerðunum og vitnisburði Jakobs Kristinssonar dósents má ráða að einhver rýrnun verði á efninu við þurrkun, sem virða ber ákærðu til hagsbóta við refsiákvörðun. Á hinn bóginn er ljóst að hefði ákærðu tekist ætlunarverk sitt, má gróflega áætla að unnt hefði verið að drýgja amfetamínið og fá úr því um eða yfir 30 kíló af efni, með ríflega 20% styrkleika, til söludreifingar. Er því engum vafa undirorpið hverjir eru hættueiginleikar efnisins. Brot ákærðu var þaulskipulagt. Það varðar innflutning á gífurlegu magni hættulegra fíkniefna og er í senn stórfellt og sérlega gróft. Eins og áður greinir er hlutur ákærða arūnas í brotinu betur upplýstur en þáttur ákærða Virūnas. Eins og hér stendur á telur dómurinn það engu skipta um refsiákvörðun, enda einsætt að ákærðu sammæltust um flutning amfetamínsins og að ákærði Virūnas var í raun nauðsynlegur hlekkur í skipulagningu og fullframingu brotsins, með því að ljá ferðalagi meðákærða til Íslands blæ trúverðugleika. Ákærðu hafa frá upphafi gert sér far að villa um fyrir rannsóknaraðilum. Af þeim sökum er í senn óupplýst hverjir eru samverkamenn þeirra og vafi leikur á hver eiginlegur þáttur þeirra er í brotinu. Þá hefur framburður ákærðu tekið miklum breytingum og eru skýringar þeirra hvors um sig á tilefni ferðalagsins fráleitar. Ákærðu eru á fertugsaldri og hafa báðir hlotið refsidóma í öðrum ríkjum. Að þessu virtu og með vísan til annars, sem að framan er rakið, eiga ákærðu sér engar málsbætur. Á hinn bóginn horfir til sérstakrar refsiþyngingar magn og styrkleiki þess efnis, sem þeir fluttu inn í sameiningu, sbr. 1. og 3. töluliður 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hengingarlaga. Að öllu þessu gættu þykir refsing ákærðu hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í sjö ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald, sem þeir hafa sætt frá 7. júlí 2006, sbr. 76. gr. hegningarlaganna.
Jónas Jóhannsson telur að samverknaður ákærðu, eðli og alvarleiki brotsins og tillit til almennra varnaðaráhrifa refsinga, fyrir brot af þessu tagi, geri það að verkum að refsing eigi að vera átta ára fangelsi.
Að kröfu ákæruvaldsins og með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni ber að gera upptæk til ríkissjóðs þau 11.895,96 grömm af amfetamíni, sem lögregla haldlagði 6. júlí 2006. Í ljósi alvarleika málsins og með skírskotun til 7. mgr. 5. gr. téðra laga og 2. mgr. 14. gr. nefndrar reglugerðar þykir og rétt að gera upptæka til ríkissjóðs bifreiðina WX51 SFN, sem notuð var til að flytja amfetamínið til landsins.
Samkvæmt greindum málsúrslitum og með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar, en til hans teljast óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar máls og meðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 164. gr. laganna. Fyrir liggur sakarkostnaðaryfirlit ákæruvaldsins 15. nóvember 2006, sem nemur 527.996 krónum og stafar af rannsókn á sýnum úr flöskunum átta, sem fundust í vörslum ákærðu. Teljast þau útgjöld til sakarkostnaðar í skilningi 164. gr., sem ákærðu ber að greiða óskipt. Að auki ber að dæma ákærða arūnas til greiðslu málsvarnarlauna verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og ákærða Virūnas til greiðslu málsvarnarnarlauna verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til tímaskýrslna verjenda, sem tóku við málsvörn ákærðu í byrjun september, þykja laun þess fyrrnefnda hæfilega ákveðin 450.000 krónur og þess síðarnefnda 550.000 krónur, hvoru tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari sótti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Jónas Jóhannsson, Eggert Óskarsson og Greta Baldursdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærðu, arūnas Budvytis og Virūnas Kavalčiukas, sæti fangelsi í sjö ár. Til frádráttar refsingum ákærðu komi gæsluvarðhald, sem þeir hafa sætt frá 7. júlí 2006.
Gerð eru upptæk til ríkissjóðs 11.895,96 grömm af amfetamíni og VW Passat bifreiðin WX51 SFN.
Ákærði arūnas greiði 450.000 króna málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns og ákærði Virūnas 550.000 króna málsvarnarlaun Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns. Annan sakarkostnað, 527.996 krónur, greiði ákærðu óskipt.