Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/1999


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Uppsögn
  • Ráðningarsamningur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 1999.

Nr. 296/1999.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Heilsugæslunni í Garðabæ

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Opinberir starfsmenn. Uppsögn. Ráðningarsamningur.

J var ráðin til starfa hjá H sem framkvæmdastjóri frá 1. ágúst 1998, en skriflegur ráðningarsamningur var gerður 21. sama mánaðar. Í ráðningarsamningnum kom fram, að ráðning J væri ótímabundin og uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Þó skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur á fyrstu þremur mánuðunum í starfi vera einn mánuður. Stjórn H ákvað 20. október 1998 að segja J upp starfi frá og með 1. nóvember sama árs. Í svari H við beiðni J um rökstuðning 20. sama mánaðar, kom fram að uppsögnin hefði átt sér stað á reynslutíma samningsins og væri að öllu leyti í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest. J krafði H um skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Á það var fallist með héraðsdómi, að J hefði mátt vera fyllilega ljóst að samningurinn gerði ráð fyrir þriggja mánaða reynslutíma. Gegn andmælum H var ekki á það fallist, að uppsögnin hefði átt rætur að rekja til ávirðinga í starfi, sem getið væri í 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Hefði því 44. gr. laganna ekki átt við og því ekki skylt að gefa H færi á að tjá sig áður en til uppsagnarinnar kom. Bæri að líta til þess, að uppsögn J hafi farið fram á reynslutíma, en samkvæmt eðli máls hlyti svigrúm aðila til uppsagnar að vera rýmra þá en ella. Í þessu ljósi var og talið að rökstuðningur fyrir uppsögninni af hálfu H hefði verið nægilegur. Var því fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að uppsögnin hefði verið lögmæt samkvæmt 43. gr. laga nr. 70/1996 og bæri að sýkna H af skaðabótakröfu J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 1999 og krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða sér 1.732.212 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. desember 1998 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður þá látinn niður falla.

Greint er frá málsatvikum í héraðsdómi.

Í 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að starfsmenn ríkisins, aðrir en embættismenn, skuli ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Skuli sá frestur vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um annað sé samið í kjarasamningi. Samkvæmt 42. gr. laganna skal gerður skriflegur ráðningarsamningur milli forstöðumanns stofnunar og starfsmanns þar sem meðal annars komi fram ráðningarkjör. Slíkur samningur var gerður milli áfrýjanda og stjórnarformanns stefndu hinn 21. ágúst 1998. Gilti ráðning áfrýjanda frá 1. ágúst 1998 og var hún ótímabundin. Skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir en fyrstu þrjá mánuði í starfi áfrýjanda átti fresturinn að vera einn mánuður. Ákvæði samningsins um þetta verður túlkað með hliðsjón af 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996. Ber og að líta til þess að áður hafði gilt sambærilegt ákvæði í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1974 um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana, sbr. lög nr. 7/1990. Að þessu athuguðu og með skírskotun til forsendna héraðsdóms þykir áfrýjanda hafa mátt vera fyllilega ljóst að samningurinn gerði ráð fyrir þriggja mánaða reynslutíma.

Áfrýjandi byggir kröfur sínar í málinu á því að með uppsögn sinni hinn 20. október 1998 hafi stefnda brotið gegn 44. gr. laga nr. 70/1996, en í 1. mgr. hennar segir að skylt sé að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. laganna og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna, sem þar eru greindar. Af hálfu stefnda hefur því verið neitað að uppsögnin hafi átt rætur að rekja til ávirðinga í starfi, sem getið er í 21. gr. laga nr. 70/1996. Gegn andmælum hans þykir ekki sýnt fram á að framangreint ákvæði  44. gr. laganna hafi átt hér við. Verður því ekki talið að skylt hafi verið að gefa áfrýjanda kost á að tjá sig áður en til uppsagnarinnar kom, sbr. síðari málslið 1. mgr. 44. gr. laganna. Ber og að líta til þess að uppsögn áfrýjanda fór fram á reynslutíma, en samkvæmt eðli máls hlýtur svigrúm aðila til uppsagnar að vera rýmra þá en ella. Í ljósi þess verður og talið að rökstuðningur fyrir uppsögninni af hálfu stefnda hafi verið nægilegur.

Samkvæmt framansögðu er á það fallist með héraðsdómi að uppsögn áfrýjanda úr starfi hafi verið lögmæt samkvæmt 43. gr. laga nr. 70/1996. Verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

                                                    Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 1999.

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 25.maí 1999 hefur Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, kt. 160156-2289, Dyngjuvegi 5, Reykjavík, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 19. janúar 1999 á hendur Heilsugæslunni í Garðabæ, kt. 670784-0299, Garðatorgi, Garðabæ, til heimtu bóta vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar út starfi.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða henni kr. 1.732.212,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtarlaga nr. 25/1987 frá 17. desember 1998 til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaðarfjárhæðar verði tekið tillit til þess að stefnandi hefur ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti sem hún þarf að greiða af þóknun lögmanns síns.

Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

 

 

II.

Stefnandi, sem er viðskiptafræðingur að mennt, réðst til starfa hjá stefndu sem framkvæmdarstjóri frá 1. ágúst 1998, en áður starfaði hún hjá Skattstofu Reykjavíkur. Skriflegur ráðningarsamningur var gerður hinn 21. sama mánaðar. Kemur þar m.a. fram, að starfshlutfall stefnanda skuli vera 50% að og ráðning sé ótímabundin. Þá segir í ráðningarsamningnum: "Uppsagnarfrestur ótímabundins ráðningarsamnings er þrír mánuðir. Þó skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuðir (sic) á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Uppsagnarfrestur tímabundins ráðningarsamnings er einn mánuður. Uppsögn miðast við mánaðarmót. Þessi ákvæði um uppsagnarfrest eiga við nema um annað sé samið í kjarasamningi."Viðbótarsamkomulag um vinnutíma og viðveru framkvæmdastjóra var samhliða gert.

Stjórnarformaður stefndu afhenti stefnanda uppsagnarbréf hinn 21. október 1998. Bréfið er dagsett hinn 20. sama mánaðar og hljóðar svo: "Stjórn Heilsugæslunnar í Garðabæ þykir leitt að tilkynna yður að á stjórnarfundi 20.10.98, var tekin ákvörðun um að leysa yður frá störfum frá og með 1. nóvember 1998. Óskað er eftir því að þér leggið störf strax niður."

Daginn eftir, hinn 22. október, ritaði stefnda stefnanda annað bréf svohljóðandi: "Undirrituð vísar til fyrra bréfs sem var afhent yður 21. október 1998 og áréttar að eins og kveðið er á um í ráðningarsamningi, þá eigið þér rétt á 1 mánaðar uppsagnarfresti, þér munuð því fá greidd laun út nóvembermánuð, þó að ekki sé óskað eftir vinnuframlagi yðar frá og með 21. október 1998. Vegna uppgjörs starfsloka óskar undirrituð eftir upplýsingum um vinnu umfram hefðbundins (sic) vinnutíma samanber viðbótarsamning."

Stefnandi krafði stefndu um rökstuðning fyrir uppsögninni með bréfi 28. október 1998.

Svarbréf stefndu er dagsett 20. nóvember 1998 og segir þar m.a.: "Um starf yðar hafði verið gerður sérstakur ráðningarsamningur dagsettur 21. ágúst 1998. Samkvæmt samningnum skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur, fyrstu þrjá mánuði starfstímans, vera einn mánuður. Á fundi sínum þann 20. október, tók stjórn heilsugæslunnar þá ákvörðun að segja samningi þessum upp með umsömdum uppsagnarfresti. Var uppsagnarbréf afhent yður næsta dag, eða þann 21. október 1998. Þar sem ákvörðun stjórnarinnar byggir á skriflegum starfssamningi, uppsögnin á sér stað á reynslutíma samningsins og er að öllu leyti í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest, verður ekki séð að tilvitnuð lagaákvæði stjórnsýslulaga eigi við í þessu tilfelli. Með vísan til framangreinds er erindi yðar hafnað."

Lögmaður stefnanda ritaði stefndu bréf 17. nóvember 1998 þar sem hann heldur því fram að stefnandi hafi ekki fengið umbeðinn rökstuðning fyrir kröfu sinni. Verði því ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að tekin hafi verið órökstudd ákvörðun um að segja stefnanda upp störfum. Í bréfinu er lýst þeirri skoðun að uppsögnin sé ólögmæt og óskað eftir viðræðum um uppgjör bóta.

Með bréfi til lögmanns stefnanda 30. nóvember 1998 hafnaði stjórn stefndu kröfum stefnanda. Er þar sérstaklega reifað það sjónarmið, að megintilgangur reynslutíma hljóti að vera sá að gefa starfsmanni og vinnuveitanda hæfilegan umþóttunartíma til þess að taka ákvörðun um það hvort framhald skuli verða á ráðningarsambandi. Við það mat og til grundvallar ákvörðun sinni hafi stjórnin stuðst við hefðbundnar venjur. Jafnframt er vísað til "hinna almennu reglna IX. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996."

Með bréfi dags. 2. desember 1998 boðaði lögmaður stefnanda höfðun bótamáls, en setti þó ekki fram tiltekna fjárkröfu..

 

 

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því, að hún hafi verið ráðin ótímabundið í stöðu framkvæmdarstjóra hjá stefndu frá 1. ágúst 1998. Stefnda sé ríkisstofnun, og óumdeilt sé að um réttindi stefnanda og skyldur í starfi hafi átt að gilda lög nr. 70/1996. Uppsögn stefndu á ráðningarsamningnum hafi verið ólögmæt af mörgum ástæðum.

Stefnanda hafi ekki með neinum hætti verið kynnt að til álita hafi komið að segja henni upp störfum. Hún hafi því ekki fengið neitt tækifæri til að tjá sig um það álitaefni áður en ákvörðun var tekin. Hún hafi ekki verið boðuð til stjórnarfundarins þar sem ákvörðun var tekin, en samkvæmt viðauka við ráðningarsamning hennar sé einmitt tekið sérstaklega fram að hún hefði rétt til setu á stjórnarfundum. Engar frambærilegar ástæður hafi verið færðar fram sem réttlætt gætu uppsögnina, t.d. að stefnandi rækti ekki starf sitt með fullnægjandi hætti eða þess háttar. Stefnandi kveðst taka fram að gefnu tilefni frá stefndu, að staðhæfing stefndu um að uppsögnin hafi verið lögmæt vegna þess að hún hafi verið ákveðin og framkvæmd á "reynslutíma" sé tilhæfulaus, og er því haldið fram að ekkert tímabil sé skilgreint sem reynslutími í ráðningarsamningnum.

Öll þessi atriði telur stefnandi augljós brot á ákvæðum 44. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 21. gr. þeirra laga. Með hinni ólögmætu og tilefnislausu uppsögn hafi stjórn stefndu valdið henni fjártjóni, sem stefndu beri að bæta samkvæmt sakarreglunni.

Stefnandi telur útilokað fyrir sig að sanna með óyggjandi hætti raunverulegt fjártjón sitt vegna uppsagnarinnar. Bætur verði því að ákvarðast eftir álitum, svo sem gert hafi verið í dómaframkvæmd í svipuðum málum. Telur stefnandi að í þeim efnum beri einkum að líta til eftirtalinna atriða:

Stjórn stefndu hafi verið kunnugt um að stefnandi sagði upp fyrra starfi sínu, viðskiptafræðingsstöðu hjá ríkisstofnun, til þess að takast á hendur framkvæmdarstjórastarfið. Hún hafi haft fulla ástæðu til að ætla að hún gæti aukið starfshlutfall sitt hjá stefndu og þannig haft meiri vinnutekjur í framtíðinni en hún hafði í upphafi. Ekki sé vafamál að framkvæmdarstjórastarf á stofnun sem þessari sé meira en 50% starf, enda hafi hún unnið meira en sem því svaraði. Hún hefði ekki fallist á að taka við starfinu hjá stefndu ef hún hefði talið að ákvæði um heimild stefndu til að segja henni upp störfum að tilefnislausu á svokölluðum reynslutíma væri hluti af ráðningarskilmálum. Stefnandi hafi í kjölfar uppsagnarinnar leitað eftir starfi sem hæfi menntun hennar, en ekki fengið ennþá. Hún skýrir þessa stöðu sína með því að hún þyki ekki eins eftirsóknarverður vinnukraftur á vinnumarkaðinum og hún var áður, eftir þá meðferð sem hún hlaut hjá stefndu.

Uppsögnin og framkvæmd hennar hafi í alla staði verið mjög meiðandi fyrir stefnanda, sem ekki hafi á neinn hátt brotið af sér í starfi. Henni hafi nánast verið skipað að hypja sig á dyr, rétt eins og hún  hefði orðið uppvís að misferli í starfi, og með þessu hafi aðrir starfsmenn þessarar opinberu stofnunar að sjálfsögðu fylgst.

Stefnandi gerir tölulega þá grein fyrir kröfum sínum, að hæfilegt sé að hún fái bætur sem jafngildi þeim launum sem hún hefði haft í umræddu starfi í 24 mánuði. Mánaðarlaun hennar hafi verið 72.801 króna. Stefnukrafa sé í samræmi við það.

Dráttarvaxtakröfu sína kveður stefnandi byggjast á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, einkum 10. og 12. gr. Dráttarvaxta sé krafist frá þeim tíma er einn mánuður var liðinn frá því óskað var viðræðna við stefndu um uppgjör bóta.

 

Stefnda byggir sýknukröfu sína á ákvæðum ráðningarsamningsins um uppsagnarfrest. Uppsögn hafi farið eftir 43. gr. laga nr. 70/1996, en ekki eftir 1. málslið 1. mgr. 44. gr. þeirra laga. Ekki hafi komið til þess að stefnandi yrði áminnt vegna einhverra þeirra atriða sem greinir í 21. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu hafi ákvæði 1. málsliðs 1. mgr. 44. gr. starfsmannalaganna enga þýðingu í þessu máli, og uppsögnin sé þar af leiðandi ekki brot á því ákvæði eða 21. gr. laganna, svo sem stefnandi byggi á. Við þessar aðstæður hafi ekki verið skylt að gefa stefnanda kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tæki gildi, svo sem skýrt sé kveðið á um í 2. málslið 1. mgr. 44. gr.

Þegar uppsögn byggi á ákvæðum 43. gr. laga nr. 70/1996, en ekki á ástæðum sem greinir í 1. málslið 1. mgr. 44. gr., sbr. 21. gr., sé ekki gert að skyldu að hún verði borin undir starfsmann eða að honum sé gefinn kostur á að tjá sig um ástæður hennar áður en hún tekur gildi. Komi þessi regla skýrt fram í 2. málslið 1. mgr. nefndrar 44. gr., en vísun til reynslutíma falli undir aðrar ástæður í skilningi þess ákvæðis. Stefnda telur þannig að ekki hafi verið skylt að rökstyðja uppsögn sérstaklega frekar en gert var.

Verði ekki á það fallist liggi engu að síður fyrir að rökstuðningur fyrir uppsögn stefnanda hafi verið fullgildur, þess efnis að um væri að ræða reynslutíma, og vísað til ákvæða í ráðningarsamningi og til starfsmannalaga.

Þeirri málsástæðu stefnanda að rökstuðningur stefndu fyrir uppsögninni sé tilhæfulaus, þar sem ekkert tímabil sé skilgreint sem reynslutími í ráðningarsamningnum, mótmælir stefnda sem rangri. Í ráðningarsamningi stefnanda séu skýr ákvæði um gagnkvæman uppsagnarfrest. Almennt þrír mánuðir, en í samningnum segi berum orðum að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skuli vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Með þessu ákvæði sé ótvírætt vísað til þess að um reynslutíma sé að ræða. Það hafi stefnanda mátt vera ljóst, en hún sé viðskiptafræðingur að mennt og hafi áður starfað hjá ríkinu. Í 41. gr. laga nr. 70/1996 sé mælt fyrir um að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skuli vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma. Hvort sem litið er til þessa ákvæðis eða efnis ráðningarsamningsins, sé ljóst að réttur til gagnkvæms þriggja mánaða uppsagnarfrests verði ekki lögvarinn fyrr en að loknum reynslutíma. Sá tími hafi verið ákveðinn þrír mánuðir eins og ráðningarsamningurinn beri glöggt með sér. Stefnandi hafi ekki bent á aðrar skýringar á því að uppsagnarfrestur fyrstu þrjá mánuði í starfi skyldi vera einn mánuður en að um reynslutíma hafi verið að ræða, enda sé engri annarri skýringu til að dreifa.

Verði talið að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt og bótaskyld, krefst stefnda þess til vara að umkrafðar bætur verði lækkaðar verulega. Er bótakröfu stefnanda mótmælt í heild sem órökstuddri. Því er mótmælt að nokkra þýðingu hafi við ákvörðun bóta þótt stefnandi hafi sagt upp öðru starfi hjá ríkisstofnun er hún réði sig til starfa hjá stefnda. Því er og mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi haft ástæðu til að ætla að hún myndi auka starfshlutfall sitt hjá stefnda. Hvorki hafi verið ráðagerðir um það við gerð ráðningarsamnings né sú orðið raunin. Nýr framkvæmdarstjóri hafi verið ráðinn í hálft starf og engra breytinga að vænta á því. Þá er því mótmælt að stefnandi hafi unnið meira en sem nam hálfu starfi. Stefnda byggir einnig á því, verði fallist á það með stefnanda að enginn reynslutími hafi verið skilgreindur eða uppsögn hafi ekki mátt fara fram með eins mánaðar uppsagnarfresti, að ekki séu skilyrði til frekari bóta en sem nemi föstum launum fyrir tvo mánuði, svo sem fylgi ótímabundinni ráðningu eftir þrjá mánuði í starfi, sbr. einnig ákvæði 41. gr. starfsmannalaga. Verði ekki á það fallist telur stefnda að einungis komi til álits að dæma lítilsháttar bætur að álitum. Ráðning stefnanda hafi aðeins varað á reynslutíma og því hafi stefnandi ekki orðið af starfi sem hún hafi gengt um langt skeið eða haft ástæðu til að ætla að hún myndi gegna til frambúðar. Þá hafi einungis verið um hálft starf að ræða. Til þess beri og að líta, að ef stefnandi hafi átt biðlaunarétt, sem ekki hafi verið, hefði slíkur réttur í hennar tilviki ekki náð lengra en í sex mánuði að öðrum skilyrðum uppfylltum. Líta beri til þess að stefnandi er viðskiptafræðingur og megi ætla að hún eigi auðvelt með að afla sér annars starfs, hafi hún ekki þegar aflað þess. Líta verði einnig á að umkrafðar bætur séu allt of háar og enn hafi ekki liðið tvö ár frá uppsögn, en svo sé bótakrafan rökstudd.

Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt með vísan til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Telur stefnda einungis efni til að dæma dráttarvexti frá dómsuppsögu, eða í fyrsta lagi miðað við þingfestingu málsins, sökum vafa um bótaskyldu og bótafjárhæð, verði ekki fallist á sýknukröfu. Í því tilviki er byggt á að stefnandi hafi ekki fyrr en með málsókn þessari krafið stefndu um bætur með rökstuddum hætti.

 

Álit dómsins.

Stefnandi var ráðin til starfa hjá stefndu, sem framkvæmdastjóri í hálfu starfi, frá 1. ágúst 1998 með samningi dagsettum 21. s.m. Stefnandi var ríkisstarfsmaður í skilningi þeirra laga og er stefnda ríkisstofnun sem starfar á grundvelli laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Ráðningarsamningurinn var ótímabundinn með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ennfremur var um það samið að gagnkvæmur uppsagnarfrestur skyldi vera einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi.

Í máli þessu hefur þýðingu á hvaða lagagrundvelli stefnanda var veitt lausn frá störfum sínum. Óumdeilt er að ráðningarsamningur var gerður samkvæmt 42. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með bréfi stefndu til stefnanda dagsett 20. október 1998 er stefnanda veitt lausn frá störfum, frá og með  1. nóvember 1998. Vísar stefnda í uppsagnarbréfi þessu ekki til lagagrundvallar er uppsögnin byggist á.  Með bréfi dagsettu hinn 22. október, er uppsögnin áréttuð og sagt, að eins og kveðið sé á í ráðningarsamningi eigi stefnda rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti og muni fá greidd laun út nóvembermánuð, þótt ekki sé óskað eftir vinnuframlagi hennar frá og með 21. október 1998. Í bréfi stefndu, dagsett 20. nóvember 1998 til stefnanda er enn vísað til að í ráðningarsamningi stefnanda skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera einn mánuður, fyrstu þrjá mánuði starfstímans.  Ákvörðun stefndu hafi byggst á skriflegum starfsamningi, uppsögnin hafi átt sér stað á reynslutíma samningsins og  sé að öllu leyti í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest.

Þegar litið er til aðdraganda uppsagnar stefnanda, liggur ekki fyrir að uppsögnin eigi rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ber því við mat á lögmæti uppsagnarinnar  að beita  43. gr. laga nr. 70/1996 .

 Í ráðningarsamningnum stendur að upphafsdagur ráðningar sé  1. ágúst 1998. Stefnanda var tilkynnt um starfslok með bréfi dagsett 20. október 1998. Við aðalmeðferð var á því byggt af  hálfu stefnanda að hún hefði hafið störf 1. júlí 1998. Af hálfu stefndu var því mótmælt að sú málsástæða fengi komist að í málinu. Verður því lagt til grundvallar í málinu að ráðningarsamningur hafi öðlast gildi þann 1. ágúst 1998. Stefnanda var því sagt upp störfum innan þeirra tímamarka er eins mánaða uppsagnarfrestur gilti á ráðningarsamningnum.

Í 41. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, er mælt fyrir um að starfsmenn ríkisins skuli ráðnir til starfa ótímabundið, með gagnkvæmum uppsagnarfresti, sem sé þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um annað sé samið í kjarasamningi. Í 41. gr. starfsmannalaga er reynslutími ráðningarsamnings ríkisstarfsmanna ekki tiltekinn og verður því ályktað, að það hafi verið vilji löggjafans að eftirláta forstöðumönnum ríkistofnanna að ákveða lengd reynslutíma hverju sinni. Er þá hér haft sérstaklega í huga að tilgangur með setningu starfsmannalaga nr. 70/1996 var meðal annars sá að gera réttarstöðu opinberra starfsmanna sem líkasta réttarstöðu starfsmanna hjá einkafyrirtækjum. Almenna reglan er sú að starfsmenn hjá einkafyrirtækjum eru ráðnir til reynslu í tiltekinn tíma, sem er breytilegur áður en ótímabundin ráðning öðlast gildi. Í máli þessu var gagnkvæmur uppsagnarfrestur fyrstu þrjá mánuðina í starfi ákveðinn 1 mánuður. Með þessu ákvæði í ráðningarsamningi stefnanda voru málsaðilar að ákveða að reynslutíminn skyldi vara í þrjá mánuði. Var hvorum aðila um sig heimilt að segja upp samningnum á þessum tíma með umsömdum uppsagnarfresti án þess að tilgreina ástæður uppsagnarinnar sérstaklega.

Uppsögn ríkisstarfsmanns á grundvelli 43. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996 er lögmæt, sé þess gætt að virða umsaminn uppsagnarfrest. Ekki hvílir sú skylda á forstöðumanni ríkisstofnunar samvæmt 43. gr. starfsmannalaga að tilgreina ástæðu uppsagnar, en fari starfsmaður fram á það ber honum að rökstyðja uppsögn skriflega, samkvæmt  2. mgr. 44. gr. starfsmannalaga. Í máli þessu óskaði stefnandi eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögn sinni og var hún af hálfu stefndu rökstudd á þann veg í bréfi, dagsettu 20. nóvember 1998, að uppsögnin ætti sér stað á reynslutíma samningsins  og væri í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest. Verður að telja að stefnda hafi rökstutt uppsögnina nægilega eins og hér stóð á.

Samkvæmt þessu ber að sýkna stefndu af öllum dómkröfum stefnanda í máli þessu.

Þá ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 60.000.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefnda, Heilsugæslan í Garðabæ, á að vera sýkn af öllum dómkröfum stefnanda, Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefndu kr. 60.000 í málskostnað.