Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 28. febrúar 2011.

Nr. 113/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 17. mars 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir þýfi sem fundist hafi á heimili varnaraðila og sé talið komið úr öðrum innbrotum en þeim sem sakborningar, sem nú sæta gæsluvarðhaldi, hafi játað. Þykir þetta nægja til þess að rökstuddur grunur teljist fram kominn um að varnaraðili leggi fyrir sig móttöku og eftir atvikum verslun með þjófstolna muni og að svo kunni að verða áfram, þó að þeir sem hafa játað að hafa afhent varnaraðila muni úr innbrotum, sæti nú gæsluvarðhaldi og séu því ekki líklegir, meðan svo stendur, til að afhenda varnaraðila þýfi. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2011.

Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 17. mars 2011 kl. 16:00.  

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan hafi að undanförnu haft til rannsóknar innbrot sem framin hafi verið á heimilum og í gistihúsum á höfuðborgarsvæðinu. Við rannsókn málsins hafi fjórir aðilar setið í gæsluvarðhaldi. Einum þeirra, Y, hafi verið birt ákvörðun um brottvísun sem hann hafi tilkynnt að hann myndi una og sé hann nú farinn af landi brott. Hann sé talinn hafa verið sendur hingað til lands í þeim tilgangi að brjótast inn og koma þýfi í sölu. Þrír einstaklingar,  þeir Z, kt. [...], Þ, kt. [...], og Æ, kt. [...],  hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins en þeir hafi viðurkennt aðild sína að 70 innbrotum, þar sem gífurlegum verðmætum hafi verið stolið. Nokkur vinna sé eftir við frekari greiningu á hverju innbroti og því hverjir þar standi að baki. Eins liggi ekki fyrir hvað hafi orðið um allt það þýfi sem hafi verið tekið en Z hafi borið í skýrslutökum að hafa afhent manni sem hann kallar x  þýfi úr fjölda innbrota og að hann hafi staðgreitt fyrir þýfið með reiðufé. Fyrir liggi símagögn sem staðfesti samskipti á milli þeirra aðila sem sitja í gæsluvarðhaldi og kærða og beri gögnin það með sér að aðilarnir hafi verið að eiga viðskipti með þýfi. Símasamskiptin ná yfir langt tímabil og hafi átt sér iðulega stað í kringum innbrot sem þeir aðilar sem sitja í gæsluvarðhaldi hafi játað aðild sína að.  Kærði X sé skráður sem x í símum þeirra. Eftir skýrslutöku af Z þann 22. febrúar sl. hafi honum verið sýnd mynd af kærða og hafi hann þá ekki borið kennsl á hann sem x en lögregla telji alveg ljóst af símagögnum, framburðarskýrslum og þeim munum sem fundust heima hjá kærða að það sé engin skynsamlegur vafi á að kærði sé umræddur x.

Kærði hafi verið handtekinn að morgni 4. febrúar sl., á heimili sínu að [...] í [...] ásamt bróður sínum Ö og hafi lögregla framkvæmt húsleit á vettvangi í kjölfar handtökunnar. Við húsleitina hafi lögregla fundið ýmsa muni sem nú hafi verið raktir til fjölda innbrota, þar á meðal innbrota sem þeir sakborningar sem sitji í gæsluvarðhaldi hafa játað aðild sína að. Um hafi verið að ræða tölvur, sjónvarp, peninga, skilríki o.fl. Þá hafi lögregla einnig fundið kvittanir sem bendi til útflutnings á peningum og handskrifaða lista þar sem taldir hafi verið upp ýmsir munir og verð. Einnig hafi verið framkvæmd húsleit í bílskúr að [...] sem kærði sé leigutaki að og fundust þar sömuleiðis munir sem séu þýfi.

Z hafi játað að hafa afhent kærða þýfi úr eftirtöldum innbrotum og hafi fundist munir úr nokkrum þeirra við húsleit lögreglu á heimili kærða. Í skýrslutöku af Z þann 31. janúar 2011 hafi hann verið spurður að því hvort einhver regla væri á því hvenær kærði tæki við þýfi frá honum og hafi hann svarað því til að svo væri ekki en hann seldi honum ef verðið væri gott hjá honum. Sagði Z jafnframt að hann vissi til þess að það væru fleiri en hann sem seldu kærða þýfi. Það væri aldrei neitt vesen að selja kærða því hann borgaði alltaf strax.

1.       Mál nr.  007-2010-57213.

Brotist inn að [...] í Kópavogi þann 6. september 2010. Úr húsnæðinu var m.a. stolið myndavélum, Play station leikjatölvu, Ipod touch, 2 fartölvum af gerðinni Mac Book pro, farsímum og skartgripum. Fartölva úr innbrotinu fannst við húsleit hjá kærða.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hann héldi að þýfið hefði farið til kærða en tók fram að S hefði séð um það.

2.       Mál nr. 007-2010-61401.

Brotist var inn í einbýlishús að [...], Kópavogi, þann 22. september sl.  Úr húsnæðinu var m.a. stolið talsverðu magni skartgripa, fatnaði og íþróttatösku.

Z  bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði svo keypt þýfið.

3.       Mál nr. 007-2010-63765.

Brotist var inn að [...], Kópavogi, þann 1. október 2010.  Úr húsnæðinu var stolið skartgripum, ilmvatnsflöskum og peningum.

Z  bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði svo keypt skartgripina.

4.       Mál  nr. 007-2010-62671.

Brotist var inn í einbýlishús að [...], Reykjavík, þann 27. september sl.  Úr húsnæðinu var m.a. stolið 2 Canon digital myndavélar, fartölvu og skargripum.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hafa svo hitt kærða á bílastæði við [...] og kærði hefði keypt af þeim þýfið.

5.       Mál nr. 007-2010-63151.

Brotist inn að [...], Kópavogi þann 29. september sl. og stolið fartölvu og skartgripum.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt þýfið úr innbrotinu af þeim.

6.       Mál nr. 007-2010-64003.

Brotist inn í einbýlishús að [...], Kópavogi, þann 2. október sl.  Úr húsnæðinu var m.a. stolið 5 stk. fartölvur 4 stk. myndavélar auk skartgripa.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt fartölvur úr innbrotinu af þeim.

7.       Mál nr.  007-2010-67582.

Brotist inn að [...], Reykjavík, þann 14. október 2010 og stolið sjónvarpi, leikjatölvu og  3 skartgripaskrínum.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hann hefði hringt í kærða eftir innbrotið og hann hefði komið, skoðað þýfið og svo keypt það allt.

8.       Mál nr. 007-2010-75080.

Brotist inn í fyrirtækið [...], [...], Hafnarfirði þann 13. nóvember sl. og fatnaði stolið. Fatnaður úr innbrotinu fannst við húsleit hjá kærða.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt mest af fatnaðinum.

9.       Mál nr. 007-2010-79551.

Brotist inn að [...] í Garðabæ þann 1. desember 2010 þar sem var stolið erlendum gjaldeyri, skartgripum og armbandsúri.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt skartgripina.

10.    Mál nr.  007-2010-80142.

Brotist inn að [...], Reykjavík þann 3.desember 2010 og stolið sjónvarpi, mikið af skartgripum og skjalatösku með ýmsum gögnum.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt skartgripina.

11.    Mál nr. 007-2010-80320.

Brotist inn að [...] í Reykjavík þann 3.desember 2010 og stolið haglabyssu, 100-150 skotum og veiðitösku.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt haglabyssuna. 

12.    Mál nr.  007-2010-82757 og  007-2010-82847.

Brotist inn í raðhúsin að [...] og [...] í Hafnarfirði þann 14. desember sl. og stolið sjónvarpstæki, fartölvu, og skartgripum.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt skartgripina.

13.    Mál nr. 007-2010-85451.

Brotist inn að [...] í Hafnarfirði þann 25. desember 2010 þar sem 50 tommu sjónvarpi, 2 stk. fartölvum, Garmin leiðsögutæki og Ipod var stolið. Fartölva úr innbrotinu fannst við húsleit hjá kærða.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hann hefði selt kærða þýfið en hann hefði hitt kærða í íbúð að [...] í Reykjavík.

14.    Mál nr. 007-2010-85453.

Brotist inn að [...] í Hafnarfirði þann 25. desember 2010 þar sem 4 stk. fartölvum, Nintendo leikjatölvu, Ipod og nokkurt magn af skartgripum var stolið. Fartölva og fartölvutaska úr innbrotinu fannst við húsleit hjá kærða.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að hann hefði selt kærða þýfið en hann hefði hitt kærða í íbúð að [...] í Reykjavík.

15.    Mál nr. 007-2010-86081.

Brotist inn í [...] í Kópavogi þann 29. desember 2010, þar sem var stolið fartölvu, skartgripum, þ.á.m. demöntum og tösku.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt skartgripina.

16.    Mál nr. 007-2010-86087.

Brotist inn að [...] í Mosfellsbæ þann 29. desember 2010 og stolið skartgripum og peningum að fjárhæð kr. 125.000,-

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt skartgripina.

17.    Mál nr. 007-2011-1685.

Brotist inn að [...], Kópavogi, þann 08 janúar 2011 og  stolið 2 fartölvum, 2 farsímum, leikjatölvu og skartgripum.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að kærði hefði keypt skartgripina og fartölvurnar.

18.    Mál nr. 007-2010-59877.

Brotist inn að [...] í Hafnarfirði þann 16. september 2010 og flakkara og Canon linsu m.a. stolið og fundust þessir munir við húsleit hjá kærða.

Z bar í skýrslutöku þann 31. janúar 2011 að þeir hefðu í kjölfarið hitt kærða fyrir utan veitingastaðinn [...] í Hafnarfirði og selt honum þýfið.

19.    Mál nr. 007-2010-37426.

Brotist inn í  Gistiheimilið [...],  [...], Reykjavík, þann 8. júní sl. og verðmætum stolið úr herbergjum gesta.

Z bar í skýrslutöku þann 2. febrúar 2011 að hann hefði selt kærða þýfið eða á netinu.

20.    Mál nr. 007-2010-24169.

Brotist inn á Hótel [...] [...], Reykjavík þann 19. apríl sl. og verðmætum stolið úr herbergjum gesta.

Z bar í skýrslutöku þann 2. febrúar 2011 að hann hefði selt kærða þýfið.

 Mál nr. 007-2010-20871.

Brotist inn á Hótel [...] [...] Reykjavík. þann 5. apríl 2010 og verðmætum stolið úr herbergjum gesta.

Z bar í skýrslutöku þann 2. febrúar 2011 að hann hefði selt kærða þýfið.

21.    Mál nr. 007-2010-23289.

Brotist inn á [...], gistiheimili [...], Reykjavík, þann 15. apríl sl. og verðmætum gesta stolið.

Z bar í skýrslutöku þann 2. febrúar 2011 að hann hefði selt kærða þýfið eða á netinu.

Við húsleitir hjá kærða hafi einnig fundist þýfi sem hafi verið rakið til innbrota sem ekki hafi verið játuð af þeim sakborningum sem nú sitji í gæsluvarðhaldi og sé hluti þýfisins úr innbrotum sem framin hafi verið eftir að þeir hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Að mati lögreglu sé því ljóst að fleiri innbrotsþjófar hafi afhent eða selt kærða þýfi. Um er að ræða eftirtalin innbrot:

22.    Mál nr. 007-2010-61587.

Brotist inn að [...] í Kópavogi þann 24. september 2010 og minniskorti með myndum m.a. stolið.

23.    Mál nr. 007-2010-23687.

Brotist inn að [...] í Reykjavík þann 17. apríl 2010 og minniskorti og skilríkjum m.a. stolið

24.    Mál nr. 007-2011-2502.

Brotist inn í bíl við [...] í Reykjavík þann 11. janúar 2011 og Garmin GPS tæki m.a. stolið.

25.    Mál nr. 007-2011-5447.

Farið í fataskáp í íþróttahúsinu að [...] í Kópavogi þann 25. janúar 2011 og Ipod touch m.a. stolið.

26.    Mál nr. 007-2009-45507.

Brotist inn að [...] í Reykjavík þann 26. júlí 2009 og Apple fartölvu m.a. stolið.

27.    Mál nr. 007-2010-83753.

Brotist inn í vinnuskúr við [...] í Reykjavík þann 17. desember 2010 og verkfærum m.a. stolið. 

28.    Mál nr. 007-2010-68511

Brotist inn að [...] í Reykjavík 10. september 2010 og síma af tegundinni Samsung m.a. stolið.

29.     Mál nr. 007-2010-65918

Brotist inn að [...] þann 8. október 2010 og iMac borðtölvu, mús og lyklaborði og sjónvarpi m.a. stolið.

30.    007-2010-28261

Brotist inn að á Hótel [...] að [...] í Reykjavík þann 4. maí 2010 og Sony Vaio fartölvu m.a. stolið.

Fartölvan fannst hjá kaupanda af kærða.

Kærði hafi játað að hafa tekið við þeim munum sem hafi fundist á heimili hans en kveðst ekki hafa tekið við þeim frá Z. Kveðst hann hafa keypt munina á netinu og af félögum sínum auk þess sem annar félagi hans hafi komið með hluta af mununum til hans og beðið hann að selja þá. Kveðst hann hafa aðstoðað þennan félaga sinn við sölu á munum. Kærði hafi ekki gert grein fyrir þessum félögum sínum. Kveðst hann ekki hafa vitað að um þýfi væri að ræða en hafi þó getað gert sér það í hugarlund. Að öðru leyti hafi kærði neitað sök.

Lögregla hafi tekið skýrslur af hópi fólks sem undanfarið hafi millifært töluverðar fjárhæðir inn á bankareikning kærða. Nokkrir hafi gefið þær skýringar á  millifærslunum að kærði hafi verið að lána þeim peninga og neitað að hafa keypt af honum muni. Tvær konur hafi játað í skýrslutöku að þær hefðu keypt sjónvörp af kærða. Bæði þessi sjónvörp hafi verið haldlögð af lögreglu. Þá hafi lögregla haldlagt eitt sjónvarp til viðbótar sem kærði hafi játað að hafa aðstoðað við söluna á en meintir kaupendur hafi neitað að hafa keypt það af honum þrátt fyrir að hafa lagt peninga inn á bankareikning hans. Eitt sjónvarpanna hafi þegar verið rakið til innbrots sem lögregla hafi haft til rannsóknar og fannst þýfi úr sama máli heima hjá kærða (Mál nr. 007-2010-65918, sbr. að ofan). Tveir karlmenn hafi játað í skýrslutöku að hafa keypt fartölvur af kærða og hafi ein fartalvan verið rakin til innbrots sem lögregla hafi haft til rannsóknar. Annar karlmaður hafi játað í skýrslutöku að hann hafi ætlað að kaupa tölvu af kærða en þeir hafi ekki komið sér saman um verð og því ekkert orðið af kaupunum. Enn fremur hafi karlmaður játaði í skýrslutöku að hafa keypt [...] fatnað af kærða en fatnaðurinn hafi verið rakinn til innbrots sem Z hafi játað aðild sína að.

Rannsókn málsins sé á lokastigi. Kærði sé undir sterkum grun um að hafa ítrekað brotið gegn 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa margoft tekið við þýfi af innbrotsþjófum og svo selt það áfram og þannig tekið þátt í ávinningnum af fjölda innbrota. Að mati lögreglu séu yfirgnæfandi líkur fyrir því að hann muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Telji lögregla ljóst að kærði muni ekki fá skilorðsbundinn dóm vegna fjölda mála sem hér um ræðir.  Stefnt sé að því að taka ákvörðun um saksókn innan þess tíma sem hér sé krafist.

Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 4. febrúar sl., nú síðast með úrskurði frá 18. febrúar sl.  Af greinargerð lögreglustjóra, sem rakin var hér að framan og rannsóknargögnum málsins má ljóst vera að kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið eða átt aðild að fjölda brota undanfarna mánuði. Er brotaferill hans óvenju langur og samfelldur. Með vísun til þessa er fallist á það með lögreglustjóra að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið. Þá hefur verið upplýst að stutt er í að ákæra verði gefin út í málinu. Samkvæmt þessu eru uppfyllt skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 17. mars 2011 kl. 16:00.