Hæstiréttur íslands

Mál nr. 178/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Réttindaröð
  • Laun


Fimmtudaginn 28. apríl 2011.

Nr. 178/2011.

Jonathan B. Logan

(Hjörleifur Kvaran hrl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Laun.

J kærði úrskurð héraðsdóms þar sem staðfest var sú afstaða slitastjórnar G hf. að hafna kröfu hans sem hann hafði lýst sem forgangskröfu við slit G hf. J hafði verið ráðinn til starfa hjá G hf. með ráðningarsamningi 1. apríl 2006. Samkvæmt ráðningarsamningnum voru meginskyldur J að byggja upp viðskipti G hf. í K og B og koma á fót starfsemi bankans í B. Sérstakt dótturfélag G hf., GCC, var sett á stofn til að halda utan um starfsemi G hf. í B. J gegndi starfi framkvæmdastjóra hjá dótturfélaginu og sat í stjórn þess. Í úrskurði héraðsdóms var fallist á með G hf. að réttindi og skyldur samkvæmt samningnum hefðu flust yfir til GCC þegar það var stofnað, skrifstofa þess opnuð í NY og sóknaraðili ráðinn framkvæmdastjóri. Þar hefði J starfað í október 2008. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að J hefði í kærumálinu reynt að draga úr starfsemi GCC og haldið því fram að hann hefði í raun verið starfsmaður G hf. Í málinu var talið í ljós leitt að GCC hefði verið dótturfélag G hf. og launagreiðandi J á því tímabili sem krafa hans miðaðist við. Hvorki upplýsingar um að G hf. hefði sent GCC fé til launagreiðslna fengju því breytt né önnur gögn sem J hefði lagt fyrir Hæstarétt. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurður var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2011, þar sem staðfest var sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að hafna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 414.644 bandaríkjadalir, sem lýst var sem forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði aðallega viðurkennd sem forgangskrafa við skiptin en til vara sem almenn krafa að því marki sem hún verði ekki viðurkennd sem forgangskrafa. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um að hafna kröfu sóknaraðila nr. CL20091103-546 í kröfuskrá að fjárhæð 54.198.112 krónur (414.644 bandaríkjadalir) en til vara að krafan verði lækkuð í 1.910.496 krónur (14.496 bandaríkjadali) og þá aðeins viðurkennd sem almenn krafa. Varnaraðili krefst og kærumálskostnaðar.

I

Sóknaraðili hefur fyrir Hæstarétti bent á að ætlun varnaraðila hafi verið að stunda umfangsmeiri starfsemi í Bandaríkjunum en starfsheimildir dótturfélags varnaraðila, Glitnir Capital Corporation (GCC), hafi náð yfir. Skrifstofa GCC hafi í raun verið „margnota húsnæði“ í þágu varnaraðila og þar hafi starfað bæði starfsmenn varnaraðila og GCC. Öllum hafi verið greidd laun í gegnum reikninga GCC og hafi sérhæft launagreiðslufyrirtæki, Cerdian, annast greiðslurnar. Eftir að starfsmenn GCC hafi tekið við hlutverki Ceridan hafi launadeild varnaraðila fengið sérhæft fyrirtæki, AON Consulting, til að sjá um eftirlaunaréttindi starfsmanna sinna í Bandaríkjunum, umfram 401K lífeyrisreikninga, og til að veita starfsmönnum GCC sömu þjónustu. Tekjur GCC hafi verið óverulegar og hafi varnaraðili mánaðarlega sent fyrirtækinu þær fjárhæðir sem greiða skyldi í laun um næstu mánaðamót, bæði til starfsmanna varnaraðila og GCC. Launadeild varnaraðila hafi síðan bókfært kostnað vegna starfsmannanna á GCC eða þá einingu innan varnaraðila sem ábyrgð bar á viðkomandi starfsmanni, jafnt föst laun og aukagreiðslur. Launadeild varnaraðila hafi einnig annast yfirumsjón með launagreiðslum. Gagnvart stjórnvöldum í Bandaríkjunum hafi GCC komið fram sem launagreiðandi sóknaraðila og allra starfsmanna sem unnu á skrifstofunni, bæði GCC og varnaraðila. Hins vegar hafi hvorki varnaraðili né nokkur starfsmannanna litið svo á að þessi háttur á launagreiðslum hefði nein áhrif á ráðningarsamband starfsmannanna við varnaraðila.

Sóknaraðili hefur leitast við að hnekkja hinum kærða úrskurði með því að engin aðilaskipti hafi orðið að ráðningarsamningi hans frá 1. apríl 2006. Telur hann niðurstöðu úrskurðarins um að GCC hafi tekið við réttindum og skyldum varnaraðila byggða á því að varnaraðili hafi af hagkvæmnisástæðum kosið að efna skyldur sínar með því að greiða sóknaraðila laun í gegnum GCC án þess að athugasemdir hafi við það verið gerðar. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt ný gögn sem hann telur sýna að varnaraðili hafi talið hann starfsmann sinn en ekki GCC. Þar er í fyrsta lagi um að ræða lánssamning milli aðila 11. júní 2008 þar sem hann telur koma fram að hann sé starfsmaður varnaraðila og að uppsögn hans úr störfum hjá varnaraðila teljist vanefnd á lánssamningnum.  Í öðru lagi hefur hann  lagt fram yfirlýsingu frá þáverandi yfirmanni launadeildar varnaraðila, þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi verið starfsmaður hans og að varnaraðili hafi aldrei talið að fyrirkomulag launagreiðslna ætti að hafa áhrif á ráðningarsamband aðila. Þessi skjöl sýni að afstaða beggja  málsaðila hafi verið sú að sóknaraðli hafi allan sinn starfstíma starfað hjá varnaraðila. Sóknaraðili hafi auk þess haft yfirumsjón með allri starfsemi varnaraðila í Kanada og Bandaríkjunum, þar á meðal lánveitingum móðurfélagsins á Íslandi til viðskiptavina á þessu markaðssvæði. Einn þáttur í þessu hafi verið að sóknaraðili tók að sér forstöðu GCC, eftir að það félag var stofnað, og félagið hafi að auki verið „millileikur í átt að annarri skipan málefna varnaraðila í USA“. Þegar varnaraðili hafi orðið ógjaldfær í október 2008 hafi verið lokið undirbúningi fyrir umsókn um leyfi til að stofna útibú og verðbréfafyrirtæki í New York og þar með hefði tímabundnu hlutverki GCC verið lokið.

Auk þessa styður sóknaraðili kröfu sína með því að opinberar yfirlýsingar skilanefndar varnaraðila í október 2008 um að erlendri starfsemi hans yrði hætt, synjun á að nýta starfskrafta hans til annarra verka og tilkynning um að ekki yrði um frekari launagreiðslur til hans að ræða hafi falið í sér uppsögn ráðningarsamningsins frá 1. apríl 2006. Hann hafi engin laun fengið fyrir vinnu á uppsagnarfresti sínum frá 1. nóvember 2008 til 1. maí 2009 og því verði krafa hans ekki lækkuð af þeim sökum. Hann hafi verið millistjórnandi hjá varnaraðila og tilheyrt, eins og tugir slíkra, þriðja efsta lagi stjórnendanna, á eftir forstjóra og framkvæmdastjórum í framkvæmdastjórn. Hann hafi því ekki haft með höndum framkvæmdastjórn í skilningi þágildandi ákvæðis 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

II

Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði var sóknaraðili ráðinn til starfa hjá varnaraðila með ráðningarsamningi 1. apríl 2006. Í grein 2.1. sagði í íslenskri þýðingu: „Þú verður ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra og forstöðumanns Glitnis North American Operation og starfar fyrir bankann sem slíkur eða alfarið skv. frekari ákvörðun bankans þar um. Þú verður ráðinn í starf framkvæmdastjóra þegar stjórn bankans samþykkir að opna skrifstofur í Bandaríkjunum.“ Í hinum kærða úrskurði var fallist á með varnaraðila að réttindi og skyldur samkvæmt samningnum hafi flust yfir til dótturfélags varnaraðila Glitnir Capital Corporation (GCC) þegar það var stofnað, skrifstofa þess opnuð í New York í september 2007 og sóknaraðili ráðinn framkvæmdastjóri. Fram er komið að þar hafi sóknaraðili starfað í október 2008. Hann hefur í kærumáli þessu leitast við að draga úr umfangi starfsemi GCC og haldið því fram að hann hafi í raun verið starfsmaður varnaraðila.

 Í málinu er í ljós leitt að félagið Glitnir Capital Corporation var dótturfélag varnaraðila og að það var launagreiðandi sóknaraðila á því tímabili fyrir gjaldþrot varnaraðila sem krafa sóknaraðila miðast við. Fá hvorki upplýsingar um að varnaraðili hafi sent dótturfélaginu fé til launagreiðslna né ný gögn sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt þessu breytt. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Jonathan B. Logan, greiði varnaraðila, Glitni Banka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2011.

I

Mál þetta var þingfest 25. júní 2010 og tekið til úrskurðar 9. febrúar 2011.  Sóknaraðili er Jonathan B. Logan, búsettur í USA, en varnaraðili er Glitnir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru að krafa hans að fjárhæð 414.644 bandarískir dollarar verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila.  Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans verði viður­kennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga að því marki sem hún verður ekki viður­kennd sem forgangskrafa.  Þá krefst sóknaraðili máls­­kostn­aðar úr hendi varnaraðila að við­bætt­um virðisaukaskatti.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að hafna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 54.198.112 krónur (414.644 bandarískir dollarar).  Til vara krefst varnaraðili þess að krafa sóknaraðila verði lækkuð í 1.910.456 krónur (14.496 banda­ríska dollara).  Til þrautavara krefst varnaraðili þess að krafa sóknaraðila verði viður­kennd sem almenn krafa og jafnframt að hún verði lækkuð í 1.910.456 krónur.  Þá krefst varnaraðili máls­kostn­­að­ar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisauka­skatti.

II

Sóknaraðili var ráðinn til starfa hjá varnaraðila með ráðningarsamningi dagsettum 1. apríl 2006.  Hann var ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra og forstöðumanns á skrifstofu varnaraðila í New York í Bandaríkjunum og skyldi hann starfa fyrir varnaraðila sem slíkur eða alfarið sam­kvæmt ákvörðunum varnaraðila þar um eins og í ráðningarsamningnum greinir og yrði hann síðar ráðinn í starf framkvæmdastjóra þegar stjórn bankans myndi samþykkja að opna skrif­stof­ur í Bandaríkjunum. 

Samkvæmt ráðningarsamningnum voru meginskyldur sóknaraðila að byggja upp viðskipti varn­ar­aðila í Kanada og Bandaríkjunum og koma á fót starfsemi bankans í Bandaríkjunum.

Var sérstakt dótturfélag varnaraðila, Glitnir Capital Corporation, hér eftir nefnt GCC, sett á stofn til að halda utan um starfsemi varnaraðila í Bandaríkjunum og hinn 14. desember 2006 var send umsókn til fyrir­tækja­skrár New York fylkis um leyfi til að stunda viðskipti í fylkinu.  Samkvæmt gögnum málsins var skrifstofa dótturfélagsins í New York hins vegar ekki opnuð formlega fyrr en 5. nóvember 2007.  Gegndi sóknaraðili starfi framkvæmdastjóra hjá dótturfélaginu og sat hann í stjórn félagsins ásamt Magnúsi Bjarnasyni sem jafnframt var stjórnarformaður félagsins.

Hinn 7. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og skipa honum skilanefnd.  Skilanefndin tilkynnti í kjölfarið að allri erlendri starfsemi yrði hætt.

Hinn 15. október 2008 gerði Magnús Bjarnason varnaraðila tilboð í alla hluti GCC fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags sem yrði í eigu hans, sóknaraðila og tveggja samstarfsmanna sem starfað höfðu á skrifstofu félagsins í New York.  Samkvæmt tilboðinu skyldi félagið afhent til­boðsgjafa eins og fjárhagsstöðu þess væri háttað við gerð tilboðsins og sem tilboðsgjafi þekkti og sætti sig við að öllu leyti.  Skyldi tilboðsgjafi taka við öllum réttindum og skyldum sem fylgdu hlutafénu þ.m.t. rétti til arðgreiðslna og atkvæðisrétti frá og með greiðslu kaup­verðs­ins en allar kröfur og skuldbindingar milli varnaraðila og GCC myndu falla niður við samþykki tilboðsins.  Var kauptilboðinu tekið og var nýtt félag, Glacier Partners Corporation, stofnað á grunni GCC og fékk það félag heimild til að stunda viðskipti í Bandaríkjunum samkvæmt umsókn til fyrirtækjaskrár New York fylkis 5. nóvember 2008.

Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009.  Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009.  Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009,  var varnaraðila skipuð slitastjórn.  Hinn 26. maí 2009 gaf slita­stjórn varnaraðila út innköllun til kröfuhafa bankans sem birt var fyrst í Lögbirtingablaðinu þann dag.  Var frestur til að lýsa kröfum sex mánuðir frá fyrstu birtingu og lauk kröfu­lýsingar­fresti samkvæmt því 26. nóvember 2009.  Frestdagur var 15. nóvem­ber 2008 og er upphafs­dagur slitameðferðar  22. apríl 2009.

Sóknaraðili lýsti kröfu sinni sem byggir á áðurgreindum ráðningarsamningi með bréfi 26. október 2009 og sundurliðast krafa hans svo:

                                                                                                                     

Tegund kröfu

Fjárhæð í IKR

Fjárhæð í USD   

Laun vegna október 2008                            

3.547.730

27.142

Lífeyrissjóður 17% jan-okt 2008

6.031.220

46.142

Eftirlaunaáætlun miðað við 30. sept. 2008

17.406.258

133.167

Laun í uppsagnarfresti í sex mánuði

21.286.776

162.855

Lífeyrissjóðsiðgjöld á sex mán. uppsagnarfresti

3.618.706

27.685

Heilbrigðis- og líftrygging í október 2008

210.704

1.612

Heilbrigðis- og líftrygging á sex mán. uppsagnarfr.

1.264.227

9.672

Trygging v/tannlæknaþjónustu í október 2008

31.239

239

Trygging v/tannlæknaþjónustu á sex mán. upps.fr.

187.438

1.434

Lögfræðikostnaður vegna lögfræðiráðgjafar erlendis

613.814

4.696

Heildarfjárhæð

54.198.112

414.644

Með bréfi slitastjórnar 4. desember 2009 var kröfu sóknaraðila hafnað með þeim rökum að sóknaraðili hefði ekki þegið laun frá varnaraðila á því tímabili sem krafan tók til.  Af hálfu sóknaraðila var afstöðu slitastjórnar til kröfunnar hafnað með bréfi 16. desember 2009.  Var fjallað um ágreining vegna afstöðu slitastjórnar til kröfu sóknaraðila á skiptafundi 17. desember 2009 og var boðað til sérstaks ágreiningsfundar um hana 24. mars 2010.  Var þá ekki mætt af hálfu sóknaraðila til fundarins og taldi slitastjórn því nauðsynlegt að bera málið undir héraðsdóm til úrlausnar.  Með bréfi slitastjórnar varnaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2010 var krafist úrlausnar dómsins um ofangreindan ágreining og var erindið móttekið 11. maí 2010.

III

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að fyrir hendi hafi verið ráðningarsamband við varnaraðila á því tímabili sem kröfur hans taki til og byggist þær á ráðningarsamningi aðila frá 1. apríl 2006. 

Telur sóknaraðili að heim­færa megi einstaka þætti kröfu sinnar eins og þeir komi fram í sundurliðun kröfulýs­ingar beint til ákvæða samningsins.  Krafa um launagreiðslur á starfstíma og á upp­sagn­ar­fresti byggi á 6. gr. samningsins, sbr. 10. gr., krafa um lífeyrisframlag á 9. gr., sbr. 10. gr., heilbrigðis- og líftryggingar á 9. gr., sbr. 10. gr.  Þá sé krafist erlends lögfræði­kostn­að­ar vegna ráðgjafar og innheimtu kröfu.

Sóknaraðili telur að 112. gr. laga nr. 21/1991 taki ótvírætt til kröfu sóknaraðila enda nái hún sam­­kvæmt orðanna hljóðan yfir laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem og bætur vegna slita á vinnusamningi, sbr. 1. og 2. töluliði1. mgr.  ákvæðisins.  Falli kröfu­lið­ir allir undir þau atriði sem tilgreind séu í framan­greind­um tveimur málsgreinum, enda sé líf­eyris­söfnun og heilbrigðis- og líftryggingar að öllu leyti á ábyrgð launþega í þeim heimshluta þar sem sóknaraðili bjó og starfaði fyrir varnar­aðila.  Greiðslur til sóknaraðila vegna slíkra út­gjalda séu því, rétt eins og laun, endur­gjald fyrir vinnu hans hjá varnaraðila.

Höfnun slitastjórnar á kröfu sóknaraðila sem byggist á því að ekki hafi verið vinnuréttar­sam­band á milli aðila sé óskiljanleg enda liggi fyrir ráðningarsamningur milli aðila.  Hafi þeim ráðn­ingarsamningi aldrei verið sagt upp með formlegum hætti þó að sóknaraðili líti svo á að október­mánuður 2008 hafi verið síðasti mánuður hans í starfi, þar sem hafi legið fyrir í lok þess mánaðar að varnaraðili hygðist ekki inna af hendi frekari launagreiðslur til hans.  Varnaraðili hafi ekki lagt fram annan ráðningarsamning í málinu sem sóknaraðili eigi að vera aðili að, enda sé slíkum ráðningar­samn­ingi ekki til að dreifa.  Þá hafi varnaraðili ekki lagt fram nein gögn um að fyrirliggjandi ráðn­ingarsamningi hafi nokkurn tíma verið sagt upp af öðrum hvorum málsaðila, honum slitið eða hann úr gildi felldur á annan hátt.

Fyrir liggi í málinu að varnaraðili hafi gefið út skriflega yfirlýsingu um veitingu kaupréttar til sókn­ar­aðila hinn 1. júní 2007.  Eins og fram komi í inngangsorðum yfirlýsingarinnar og sam­þykkt stjórnar varnaraðila sem yfirlýsingin byggi á, hafi slíkir kaupréttir aðeins verið ætlaðir stjórn­endum og starfsmönnum varnaraðila.  Þannig liggi fyrir að varnaraðili hafi litið svo á að sókn­araðili væri starfsmaður hans á þeim tíma.  Enn fremur sé að finna handskrifað neðst í þeirri yfirlýsingu, að vísað sé til greinar 6.5. í ráðningarsamningi sóknaraðila, en sú grein fjalli um veitingu kauprétta og skilyrði þeirra.  Það fari því ekki á milli mála að varnaraðili hafi á þessum tíma talið sig vera í ráðningarsambandi við sóknaraðila á grundvelli ráðningar­samn­ings­ins frá 1. apríl 2006.  Hvenær varnaraðili telji umræddu ráðningarsambandi hafa lokið sé full­komin ráðgáta enda hafi ekkert gerst á tímabilinu 1. júní 2007 til loka október 2008 sem styðji slíkt.

Geti aðilaskipti að vinnuréttarsamningi ekki átt sér stað án samþykkis beggja aðila og hafi sókn­ar­aðili aldrei veitt samþykki sitt fyrir slíkum aðilaskiptum.  Þá hafi enginn annar tekið á sig þær skyldur sem varnaraðili beri samkvæmt fyrirliggjandi ráðningarsamningi og geti sókn­ar­aðili ekki gert neinar kröfur þar að lútandi.

Sóknaraðili kveður þá fullyrðingu varnaraðila að hann hafi ekki greitt laun sóknaraðila vera til­­hæfu­­lausa með öllu enda liggi fyrir fjöldi gagna um samskipti þar að lútandi.  Varnaraðili hafi sjálfur kosið að hafa ýmsan hátt á við að efna skyldur sínar og hafi fyrirkomulagið verið misjafnt á ólíkum tímabilum ráðningarsambandsins.  Alltaf hafi greiðslurnar þó komið frá varn­ar­aðila, ýmist beint, í gegnum þriðja aðila eða GCC.  Sýni skjöl málsins með ótvíræðum hætti að yfirstjórn og ákvarðanataka allrar framkvæmdar launagreiðslna og launamála hafi verið hjá varnaraðila og að aðrir, hvort sem um hafi verið að ræða Cerdian eða GCC, hafi eingöngu verið að sinna framkvæmdaratriðum hvað það varði.

Breyti engu um réttarstöðu kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila hvar varnaraðili hafi kosið að sóknaraðili hefði sína starfsstöð.  Þegar sóknaraðili hafi hafið störf fyrir varnaraðila hafi hann verið staðsettur í Toronto í Kanada en síðar hafi starfsstöð hans verið flutt til New York.  Starfsskyldur hans hafi alltaf náð yfir alla Norður-Ameríku og á engan hátt verið einskorðaðar við þau mál sem fallið hafi undir GCC.  Þvert á móti hafi mjög mörg þeirra viðskipta sem heyrt hafi undir starfsemi á því landssvæði, sem sóknaraðili hafi borið ábyrgð á „beint á bókum“ varnaraðila á Íslandi, bæði fyrir og eftir að GCC hafi verið komið á fót.

Eftir standi sá kjarni málsins að aðilar hafi átt lögvarða kröfu hvor á hendur hinum, annars vegar um vinnuframlag og hins vegar um launagreiðslur.  Vanefndi annar hvor aðilinn sínar skyldur samkvæmt ráðningarsamningnum hafi ekki verið á annan að sækja um efndir eða bætur en gagnaðilann.

IV

Varnaraðili kveður aðalkröfu sína byggja á því að sóknaraðili hafi verið starfsmaður GCC sem hafi verið dótturfélag varnaraðila í Bandaríkjunum frá þeim tíma sem það félag var stofnað og þar til sóknaraðili hafi ásamt fleirum keypt alla hluti félagsins og stofnað GPC.  Hjá GCC hafi sóknaraðili haft með höndum starf framkvæmdastjóra og hafi starfsskyldur hans verið á starfsstöð þess félags í New York og við það félag eingöngu en ekki varnaraðila.  Sem framkvæmdastjóri GCC hafi sóknaraðili meðal annars veitt forystu opnun skrifstofu GCC í New York í september 2007.

Þrátt fyrir að gerður hafi verið ráðningarsamningur milli aðila málsins í apríl 2006 megi ljóst vera að réttindi og skyldur samkvæmt honum hafi sjálfkrafa flust yfir til dótt­ur­félagsins GCC við stofnun þess og hafi starfsskyldur sóknaraðila því verið bundnar við það félag.  Þetta hafi sóknaraðila verið ljóst eða mátt vera ljóst enda hafi hann verið í forsvari fyrir GCC sem fram­kvæmda­stjóri þess og hafi hann birst út á við sem slíkur í umfjöllunum fjölmiðla um viðskipti félagsins sem og kaup sóknaraðila o.fl. á félaginu í október 2008.  Launagreiðslur til sóknar­aðila og greiðslur launatengdra gjalda hafi verið greiddar af hálfu GCC.  Þá hafi sóknaraðili sjálfur gert grein fyrir því til bandarískra skattyfirvalda að GCC væri vinnuveitandi hans við útfyllingu á svokölluðu W-4 eyðublaði, sem tilgreini skattalega stöðu launþega.  Enn fremur hafi GCC gert reikningsskil í samræmi við lög um ársreikninga og alþjóðlega reiknings­skila­staðla, sem sjálfstæð eining, með öllum tekjum og gjöldum sem tilheyrt hafi félag­inu á hverju upp­gjörs­tímabili ásamt eignum og skuldum í lok hvers uppgjörstímabils.  Varnar­aðili bendir í því sambandi á að algengt sé að móðurfélög, eins og varnaraðili í þessu tilviki, annist marg­vís­lega þjónustu fyrir dótturfélög sín eins og GCC, til dæmis, láni fé til starfseminnar í upp­hafi.  Peningafærslur frá móðurfélagi til dótturfélags séu þó eingöngu viðskiptafærslur á milli aðila og hafi ekkert með tilteknar tekjur eða tiltek­in gjöld dótturfélagsins að gera.

Vert sé að vekja sérstaka athygli á að yfirlit yfir launagreiðslur sóknaraðila sem hann hafi lagt fram varði aðeins launagreiðslur til hans á árinu 2006 eða fram að þeim tíma er GCC hafi verið stofnað.  Þá sé vakin athygli á að í greinargerð sóknaraðila sé viður­kennt að starfsmenn GCC hafi annast framkvæmd launagreiðslna og að á tíma­bili hafi launagreiðslur komið í gegn­um GCC.  Tímabilið frá því að ráðningar­samn­ing­urinn hafi verið gerður, og sóknaraðili virðist byggja kröfur sínar fyrst og fremst á, og þar til dótturfélagið hafi verið stofnað, skipti hins vegar engu máli hér heldur eingöngu tímabilið sem kröfur sóknaraðila taki til, þ.e. október 2008 varðandi launa­greiðsl­ur, janúar-október 2008 vegna lífeyrisgreiðslna og svo bætur vegna slita á vinnu­samningi í sex mánuði frá október 2008. Öll gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu lúti að því tímabili sem hann sannarlega hafi starfað fyrir varnaraðila, þ.e. fyrir hluta ársins 2006.  Gögn sem varði önnur tímabil, þ.e. frá stofnun GCC og fram í október 2008, beri hins vegar skilmerkilega með sér að vinnuveitandi og launa­greið­andi í almennum skilningi þessara hugaka í vinnurétti hafi verið GCC en ekki varnar­aðili.  Það sé það tímabil sem skipti öllu máli hér.

Við mat á því hvort ráðningarsamband hafi verið milli málsaðila beri að líta til starfs­skyldna sókn­ar­­aðila, hvernig launagreiðslum til hans hafi verið háttað og hver hafi greitt opinber gjöld, s.s. skatta, tryggingargjald og framlag í lífeyrissjóð.  Gögn máls­ins svari framangreind­um atriðum með skýrum hætti þannig að ljóst sé að dótturfélag varnar­aðila hafi verið vinnu­veit­andi sóknaraðila á því tímabili er kröfur hans taki til og sé því lýstri kröfu hans beint að röngum aðila.  Sé með engum hætti hægt að líta svo á að varnaraðili og dótturfélag hans séu ein heild við mat á því hvort ráðningar­sam­band sé milli málsaðila.

Um miðjan október 2008 hafi GCC verið selt og hafi nýir eigendur, þ.m.t. sóknaraðili, tekið við öllum skuldbindingum félagsins.  Í fréttatilkynningu hins nýja félags GPC frá 31. mars 2009 komi fram að sóknaraðili hafi verið einn af lykilstarfsmönnum GCC.  Varnar­aðili bendir á að í kröfulýsingu sóknaraðila sé því sleppt að vísa til þeirra launa sem hann hafi aflað eftir fyrrgreind kaup en af fréttatilkynningunni megi ráða að ráðn­ing­ar­samband sóknaraðila og GCC hafi ekki verið rofið eins og ráða megi af kröfum sóknar­aðila.  Þurfi sóknaraðili að bera hall­ann af því.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili haldi því fram að varnaraðili hafi talið sig vera í ráðn­ing­ar­sambandi við sóknar­aðila á grundvelli ráðningarsamningsins frá 1. apríl 2006 er gefin hafi verið út skrifleg yfirlýsing um veitingu kaupréttar til sóknaraðila hinn 1. júní 2007.   Varn­ar­aðili bendir í fyrsta lagi á að sóknaraðili hafi ekki tekið við stjórnun GCC fyrr en í septem­­ber sama ár og í öðru lagi sé í umræddri kaupréttaryfirlýsingu sérstaklega tilgreint það skilyrði fyrir kaupréttinum, að starfsmaður hafi ekki hætt hjá varnaraðila eða dótturfélagi hans (e. subsidiaries) fyrir 1. desember 2008.  Kaupréttur í varnaraðila hafi auðvitað verið ákveðinn af stjórn bankans og aðeins veittur framkvæmdastjórum og lykilstarfsmönnum bankans og dótt­ur­félaga hans á árunum 2007-2008.

Ljóst sé að sóknaraðila hafi ekki verið sagt upp með formlegu uppsagnarbréfi vegna rekstrar­stöðv­unar varnaraðila eins og öllum starfsmönnum varnaraðila.  Slíkt bréf hafi ekki verið afhent honum þar sem hann hafi ekki verið starfsmaður varnaraðila í október 2008.  Þegar skila­­nefnd varnaraðila hafi tekið bankann yfir hafi verið tilkynnt að allri starfsemi erlendis yrði hætt.  Starfsemin í Bandaríkjunum hafi farið fram í hluta­félaginu GCC og verið tekin yfir af sóknaraðila o.fl. í október 2008 en GPC hafi verið stofnað til að halda áfram starfsemi GCC af starfsmönnum síðargreinda félags­ins.  Það geti ekki hafa verið tilviljun að þessir tilteknu einstaklingar, þar af þrír fyrrverandi starfsmenn GCC, hafi tekið yfir félagið þegar ljóst hafi verið að starfsemi þess yrði hætt í kjölfar rekstrarstöðvunar varnaraðila.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að varnaraðili hafi ekki borið ábyrgð á skuldbind­ing­um GCC á því tímabili sem lýstar kröfur sóknaraðila taki til og af því leiði að sóknar­aðili hafi beint kröfu sinni að röngum aðila.  Þegar af þeirri ástæðu beri að stað­festa afstöðu slitastjórnar varnaraðila og hafna kröfu sóknaraðila.

Verði fallist á að einhvers konar ráðningarsamband hafi verið milli málsaðila á því tíma­bili sem kröfur sóknaraðila taki til og að þær njóti stöðu forgangskrafna samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé á því byggt að lækka beri kröfufjárhæðina.

Varðandi kröfu sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti sé á því byggt að starfi hans hjá dóttur­félagi varnaraðila hafi aldrei verið sagt upp heldur hafi sóknaraðili einhliða tekið ákvörð­un um að hætta störfum og stofna nýtt félag á grunni GCC.  Byggi varnaraðili þannig á því að ráðn­­ing­arsamningi málsaðila hafi ekki verið formlega sagt upp.  Styðji málatilbúnaður sókn­ar­­aðila þá málsástæðu enda segi í greinargerð hans að hann hafi litið svo á að október 2008 hafi verið síðasti mánuður hans í starfi þar sem starf­semi GCC hafi hætt í kjölfar rekstrar­stöðv­unar varnar­aðila.  Verði því að álykta svo að sóknar­aðili hafi þannig einhliða ákveðið að rjúfa ráðn­ing­ar­samninginn og af þeim sökum telji varnaraðili að hafna verði öllum kröfum sókn­ar­aðila um laun og launa­tengd­ar greiðslur í uppsagnarfresti.  Á sama tíma, eða um miðjan októ­ber, hafi GCC verið keypt af sóknaraðila, Magnúsi Bjarnasyni o.fl., með yfirtöku allra réttinda og skyldna félagsins og verði ekki annað ráðið en að starf sóknaraðila hafi fylgt með í þeim kaupum með tilheyrandi skyldum fyrir nýjan vinnuveitanda sem yfirtekið hafi allar skuld­­bind­ing­ar sem á GCC hafi hvílt, þ.á m. allar skuldbindingar vegna launa og launa­tengdra gjalda, hvort sem þær hafi verið ógreiddar eða aðeins áfallnar.  Þá hafi í kaup­tilboðinu ekki verið gerð­ur neinn fyrirvari vegna launa sem GCC hafi verið skuld­bundið að greiða starfs­mönn­um sínum.

Ef ekki verði fallist á framangreint sé á því byggt að vinna sóknaraðila í uppsagnar­fresti fyrir GPC, eigi að koma til frádráttar kröfu hans um laun í uppsagnarfresti.  Krafa um laun í upp­sagn­­ar­fresti sé ekkert annað en krafa um bætur vegna slita á vinnu­samningi.  Afli launþegi sér annarra launatekna á því tímabili sem hann geri kröfu til eigi þær að dragast frá kröfunni. Grund­­vallist þetta á þeirri reglu skaðabóta­rétt­arins að starfsmaður eigi rétt á að fá fjárhagslegt tjón bætt en hann geti aldrei orðið betur settur en hann hefði verið ef tjón hefði ekki orðið.

Verði ekki fallist á framangreint telur varnaraðili að hafna verði helmingi af launa­kröfu sókn­ar­aðila fyrir október 2008 og helmingi af kröfum um heilbrigðis- og líf­trygg­ingar og trygg­ingu vegna tannlæknaþjónustu fyrir sama mánuð.  Hafna beri öllum kröfum sóknaraðila um líf­eyr­is­greiðslur enda sé krafa um lögbundið framlag vinnu­veitanda í lífeyrissjóð krafa við­kom­andi lífeyrissjóðs en ekki starfsmannsins, sbr. 4. töluliður 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Byggist framangreint á því að hafi ráðningar­sam­band verið milli aðila, hafi það slitnað við kaup/stofnun sóknaraðila á GCC en fyrir liggi að kauptilboð sóknaraðila o.fl. sé dagsett 15. október 2008.  Þá hafni varnaraðili alfarið kröfu samkvæmt svokallaðri eftirlauna­áætl­un (e. unfunded deferred pension plan) þar sem sú krafa sé vanreifuð og ekki unnt að sjá á hverju hún byggist.

Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila um kostnað út af lögfræðilegri ráðgjöf erlendis vegna kröf­unnar enda telur varnaraðili ekki hafa verið sýnt fram á grundvöll kostnaðar­kröf­unn­ar, þ.e. að ekki hafi verið sýnt fram á réttmæti og lögmæti þess að láta varnaraðila bera kostn­að sem sóknaraðili hafi stofnað til og krefjist forgangs fyrir.  Kostn­aðar­krafa sóknaraðila sé heldur ekki nægjanlega rökstudd að mati varnaraðila.  Varnar­aðili bendir á í þessu sam­bandi að heimild til greiðslustöðvunar hafi fengist í nóvem­ber 2008 og því óheimilt af hálfu sókn­ar­aðila að krefjast kostnaðar þess sem hér sé krafist, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991.

Standi þá eftir kröfur vegna:

Tegund kröfu

Fjárhæð í IKR

Fjárhæð í USD   

Laun fyrir hálfan október 2008

1.773.865

13.571

Heilbrigðis- og líftrygging f. hálfan október 2008

105.352

806

Trygging v/tannlæknaþjónustu f. hálfan október 2008

31.239

119

                                                                                                 

Heildarfjárhæð

1.910.456

14.496

Verði ekki fallist á aðalkröfu varnaraðila um að hafna skuli kröfu sóknaraðila sé ljóst að krafa sóknaraðila geti ekki notið forgangs við slitameðferð varnaraðila.  Sóknaraðili haldi því fram í greinargerð sinni að um sé að ræða forgangskröfu vegna launa og launatengdra greiðslna og byggi hann því kröfu sína á 112. gr. laga nr. 21/1991.  Ef fallist yrði á að ráðningarsamband hafi verið á milli aðila á þeim tíma sem um ræðir telur varnaraðili að krafa sóknaraðila geti ekki notið forgangsréttar við slitameðferð varnaraðila þar sem sóknaraðili hafi haft með hönd­um fram­kvæmda­­stjórn í skilningi ákvæðis 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.  Sóknaraðili hafi með stöðu sinni sem framkvæmdastjóri dótturfélags varnaraðila talist til framkvæmdastjórnar varn­­ar­­aðila og eigi því ekki rétt til að krafa hans verði viðurkennd sem forgangskrafa á grundvelli  3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.  Hafi dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að túlka beri orðalag fyrrgreinds ákvæðis laganna rúmt.  Geti krafa sóknaraðila því einungis verið almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.  Þessu til stuðnings vísar varnaraðili jafn­framt til þess að kaupréttur hafi aðeins boðist æðstu stjórnendum og lykilstarfsmönnum varn­ar­aðila og dótturfélaga.  Sé ljóst að sóknaraðili hafi þar með ekki talist lykilstarfsmaður varnaraðila heldur verið einn af æðstu stjórnendum innan samstæðunnar þar sem hann hafi verið fram­kvæmda­stjóri eins af dótturfélögunum.

Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar varnaraðili til meginreglna gjald­þrota­skipta-, samninga- og kröfuréttar.  Um málskostnað vísar hann til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V

Í máli þessu lýtur meginágreiningur aðila að því hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli ráðningarsamnings milli þeirra 1. apríl 2006.  Teljist sóknaraðili eiga kröfu á hendur varnaraðila er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar og hvar skipa skuli henni í skulda­röð við slit varnaraðila.

Óumdeilt er að sóknaraðili var ráðinn til starfa hjá varnaraðila með ráðningarsamningi frá 1. apríl 2006.  Samkvæmt grein 2.1 í samningnum segir að sóknaraðili sé ráðinn í stöðu fram­kvæmda­stjóra og forstöðumanns Glitnis North American Operation og starfi fyrir bankann sem slíkur eða alfarið samkvæmt frekari ákvörðun þar um.  Þá segir þar jafnframt að sóknar­aðili verði ráðinn í starf framkvæmdastjóra þegar stjórn bankans samþykki að opna skrif­stof­ur í Bandaríkjunum.  Í gr. 2.2. segir svo að starfsskyldur sóknaraðila verði samkvæmt skilgrein­ingu bankans þar um.  Til viðbótar venjulegum starfsskyldum tengdum stöðu sóknaraðila kunni honum að vera falin aukaverkefni eða viðbótarskyldur eftir hentugleikum, sé slíkt talið nauðsyn­legt til þess að mæta viðskiptalegum þörfum bankans.  Þá segir í 3. gr. þar sem greinir frá ráðn­ingar­tíma að hafi ráðningu ekki verið sagt upp samkvæmt greinum 10.1 eða 13 í samningnum, skuli ráðning halda áfram þar til henni verði sagt upp annaðhvort með skriflegri uppsögn sóknaraðila með þriggja mánaða fyrirvara eða að bankinn segi sóknaraðila upp störfum með 12 mánaða fyrirvara en uppsögn af hendi bankans skuli eftir fyrsta árið vera skrifleg og með sex mánaða fyrirvara.  Í 4. gr. er starfsstöð sóknaraðila tilgreind þannig að í upphafi skuli hún vera í Toronto í Ontario í Kanada og skuli sóknaraðili starfa með skrif­stofu bankans í Halifax í Nova Scotia.  Þá sé gert ráð fyrir að sóknaraðili komi sér fyrir í New York eða Connecticut um sumarið eða haustið 2006 en bankinn kunni jafnframt að krefj­ast þess að sóknaraðili starfi tímabundið á öðrum stað eins og sanngjarnt geti talist á hverjum tíma. 

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á hendur varnaraðila á því að ráðningarsamningi milli aðila hafi í raun aldrei verið sagt upp með formlegum hætti þó svo að sóknaraðili líti svo á að síðasti mánuður hans í starfi hafi verið október 2008 þar sem legið hafi fyrir í lok þess mánaðar að varnaraðili hygðist ekki greiða honum frekari laun.

Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna fram á það svo ekki verður um villst að sóknaraðili starfaði sem framkvæmdastjóri dótturfélags varnaraðila GCC frá og með stofnun þess félags og þar til sóknaraðili sjálfur ásamt fleirum keypti félagið af skilanefnd varnaraðila 15. október 2008.  Kemur fram í yfirliti yfir alþjóðastarfsemi varnaraðila og starfsstöðvar dóttur­félaga sem tekið var af vefsvæði varnaraðila 3. nóvember 2010 varðandi Glitnir Capital Corporation, New York, að sóknaraðili sé framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækjaþróunar í Bandaríkjunum og Kanada.  Þá kemur fram í frétt af heimasíðu varnaraðila 5. september 2007, þar sem tilkynnt er um opnun dótturfélags varnaraðila, að sóknaraðili sé framkvæmdastjóri nýju starfsstöðv­ar­innar, sem beri heitið Glitnir Capital Corporation og er þar haft eftir sóknaraðila að bankinn muni einkum beina sjónum sínum þar vestra að þeim þremur meginsviðum þar sem hann sé nú þegar í fremstu röð í heiminum; jarðvarma og öðrum endurnýjanlegum orkulindum, sjávarútvegi og þjónustu við olíuiðnaðinn.  Þá muni GCC vinna náið með norrænum við­skipta­vinum sínum á banda­rísk­um markaði.

Samkvæmt launagreiðsluyfirliti GCC frá 18. janúar 2008 til 30. september 2008 greiddi GCC sóknaraðila laun á þessu tímabili.  Skiptir í þessu sambandi ekki máli hvernig dótturfélagið fjármagnaði rekstur sinn.  Þá gerði sóknaraðili bandarískum skattyfirvöldum grein fyrir því að GCC væri vinnuveitandi hans, við útfyllingu á svokölluðu W-4 eyðublaði, sem tilgreinir skattalega stöðu launþega.  Þykja gögn þessi bera með sér svo óyggjandi sé að launagreiðandi sóknaraðila á þessum tíma var GCC en ekki varnaraðili.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi gefið út skriflega yfirlýsingu um veitingu kaup­réttar til sóknaraðila 1. júní 2007.  Hafi slíkir kaupréttir samkvæmt yfirlýsingunni aðeins verið ætlaðir stjórnendum og starfsmönnum varnaraðila og því sé ljóst að á þessum tíma hafi varnaraðili litið á sóknaraðila sem starfsmann sinn.  Þá sé í yfirlýsingunni vitnað til greinar 6.5 í ráðningarsamningi aðila.  Í umræddri yfirlýsingu kemur fram að skilyrði kaupréttar sé að sóknaraðili hafi ekki hætt hjá varnaraðila eða dótturfélagi hans fyrir 1. desember 2008.  Verður því ekki af yfirlýsingu þessari dregin önnun ályktun en að sóknaraðili hafi á þessum tímapunkti talinn eiga kauprétt, hvort sem hann hafi verið starfsmaður varnaraðila eða dótturfélags varnaraðila og veitir yfirlýsingin því enga sönnun um að sóknaraðili hafi verið starfs­maður varnaraðila á þeim tíma sem kröfur hans taka til.

Að öllu framangreindu virtu þykir ljóst að sóknaraðili var starfsmaður GCC og þáði laun frá því félagi þegar slitastjórn var sett yfir varnaraðila í október 2008.  Með því að ekki var gerður nýr ráðningarsamningur milli sóknaraðila og dótturfélagsins þykir ljóst að dótturfélag­ið GCC hafi yfirtekið réttindi og skyldur varnaraðila samkvæmt samningnum með samþykki sóknaraðila og liggur ekki annað fyrir en að sóknaraðili hafi haldið öllum sínum réttindum samkvæmt ráðningarsamningnum við yfirfærsluna.  Þá er þess að geta að í ráðningarsamn­ingn­um var gert ráð fyrir því að sóknaraðili yrði ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra þegar stjórn varnaraðila samþykki að opna skrifstofu í Bandaríkjunum.  Þegar af þessum ástæðum verður kröfum sóknaraðila hafnað og eru því ekki efni til að fjalla frekar um aðrar málsástæður eða kröfur aðila.

Þegar málið er virt í heild sinni og að teknu tilliti til útlagðs kostnaðar vegna þýðinga, þykir hæfilegt að sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Einar Páll Tamimi hdl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Páll Eiríksson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, Glitnis banka hf., að hafna kröfu sóknaraðila, Jonathans B. Logan, að fjárhæð 414.644 bandarískir dollarar sem lýst var sem forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað.