Hæstiréttur íslands
Mál nr. 381/2015
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og rakið er í héraðsdómi gerðu Kaupþing banki hf. og áfrýjandi með sér lánssamning 26. ágúst 2008, þar sem stefndi var lánveitandi og áfrýjandi lántaki. Í samningnum var kveðið á um að áfrýjanda yrðu lánuð japönsk jen að jafnvirði 250.000.000 króna og skyldi greiða lánsfjárhæðina inn á gjaldeyrisreikning hans hjá bankanum. Hinn 5. september 2008 var andvirði lánsins að frádregnum kostnaði, 300.469.766 japönsk jen, lagt inn á gjaldeyrisreikning áfrýjanda hjá bankanum. Lánið skyldi endurgreiða með 48 mánaðarlegum greiðslum, í fyrsta sinn 1. september 2009, og bera LIBOR-vexti, að viðbættu 3,5% vaxtaálagi. Þá var kveðið á um það í samningnum að vanefndi lántaki skuldbindingu samkvæmt honum bæri honum að greiða dráttarvexti, auk álags, að viðbættu dráttarvaxtaálagi er skyldi vera 10%. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var lánssamningnum ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., sem síðar fékk heiti stefnda. Hinn 19. október 2009 var gerður viðauki við lánssamninginn, þar sem samið var um breytt lánskjör. Samkvæmt viðaukanum skyldi greiða lánið mánaðarlega með 46 afborgunum, í fyrsta sinn 1. nóvember 2009, og vaxtaálag vera 3,75%, en að öðru leyti skyldu skilmálar lánssamningsins haldast óbreyttir. Í viðaukanum kom fram að um væri að ræða lán í japönskum jenum að jafnvirði 250.000.000 króna.
Áfrýjandi innti á tímabilinu frá 3. nóvember 2008 til 1. júlí 2011 af hendi afborganir höfuðstóls og vaxta, þar af 26 greiðslur í erlendri mynt, oftast í sterlingspundum, og 14 í íslenskum krónum. Þar sem ekki var staðið í skilum af hálfu áfrýjanda eftir gjalddaga 2. ágúst 2011 var lánið gjaldfellt í heild sinni samkvæmt heimild í lánssamningum með því að áfrýjanda var send greiðsluáskorun 5. mars 2012, þar sem höfuðstóll skuldar áfrýjanda var sagður vera 245.907.005 japönsk jen. Sagði í greiðsluáskoruninni að yrði skuldin ekki greidd innan 15 daga yrði gengið að handveðum sem sett hefðu verið til tryggingar greiðslu á öllum fjárskuldbindingum áfrýjanda við stefnda. Var gengið að veðunum og nam andvirði þeirra 248.639.366 krónum, sem ráðstafað var inn á lánið 4. maí 2012. Eftir þá ráðstöfun voru eftirstöðvar lánsins taldar nema 112.361.543 japönskum jenum.
Sama dag og hin japönsku jen voru samkvæmt framansögðu lögð inn á gjaldeyrisreikning áfrýjanda hjá Kaupþingi banka hf. var 249.450.000 íslenskum krónum ráðstafað inn á tékkareikning áfrýjanda hjá bankanum. Þremur dögum síðar, eða 8. október 2008, voru 248.450.000 krónur síðan teknar út af reikningnum og lagðar inn á reikning bankans til ávöxtunar sem peningamarkaðsinnlán.
II
Í málinu er ágreiningur um hvort fyrrnefndur lánssamningur sé um lán í japönskum jenum eða íslenskum krónum, bundið gengi japanskra jena. Þá er deilt um hvort Kaupþing banki hf. hafi 5. september 2008, án fyrirmæla áfrýjanda, skipt japönskum jenum hans fyrir íslenskar krónur og með því valdið áfrýjanda skaðabótaskyldu tjóni. Loks er ágreiningur um hvort skilyrði séu til þess að víkja til hliðar skuldbindingum áfrýjanda samkvæmt umræddum lánssamningi á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. þeirra.
III
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að fyrrnefndur lánssamningur sé um lán í erlendum gjaldmiðli.
Eins og rakið hefur verið voru 300.469.766 japönsk jen tekin 5. september 2008 út af gjaldeyrisreikningi áfrýjanda hjá Kaupþingi banka hf. og þeim skipt fyrir 249.450.000 krónur, sem lagðar voru samdægurs inn á tékkareikning áfrýjanda hjá bankanum.
Sönnunarbyrði hvílir á fjármálafyrirtækjum um heimild starfsmanna sinna til einstakra ráðstafana fyrir hönd viðskiptamanna, en um sönnun fer eftir almennum reglum.
Með tölvubréfi áfrýjanda 15. september 2008 til viðskiptastjóra hans hjá Kaupþingi banka hf. var eftirfarandi fyrirspurn beint til viðskiptastjórans: „Gott væri að sjá á hvaða reikning og númer andvirði lánsins fór inn á.“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið að fyrirspurninni hafi verið svarað. Ekki var aðhafst frekar af hálfu áfrýjanda af þessu tilefni fyrr en tæpum þremur árum síðar, eða 7. júlí 2011, en þann dag sendi þáverandi lögmaður áfrýjanda tölvubréf til stefnda þar sem sagði eftirfarandi: „Gert er ráð fyrir því að umrædd JPY séu flutt án samþykkis Bylgju VE. 75 ehf. af gjaldeyrisreikningi félagsins inna gjaldeyrisreikning Kaupþings banki h.f. og félaga sem voru tengd eigendahópi bankans.“ Þá kom fram í bréfinu að forsvarsmenn áfrýjanda hafi ekkert haft um það að segja að „JPY var breytt úr JPY í íslenskar krónur sama dag og JPY voru greidd inná JPY reikning félagsins.“ Í tölvubréfi viðskiptastjórans 5. september 2008 til annars starfsmanns bankans sagði að áfrýjandi væri með „ca. 250 m.kr.“ á umræddum tékkareikningi, sem þyrfti að ávaxta til „1. okt.“, og var þeirri fyrirspurn beint til starfsmannsins hver væri besta leiðin til þess. Í svari bankans sama dag kom fram að hann gæti boðið „16,37“ í einn mánuð. Í framhaldi af þessu var af hálfu áfrýjanda 8. september 2008 undirritaður samningur hans við Kaupþing banka hf. um peningamarkaðsinnlán að höfuðstól 248.450.000 krónur, sem skyldi bera 16,37% vexti og bankinn átti að endurgreiða 1. október sama ár með 250.788.597,74 krónum.
Svo sem áður greinir var andvirði framangreinds lánssamnings, 300.469.766 japönsk jen, greitt 5. september 2008 inn á gjaldeyrisreikning áfrýjanda hjá Kaupþingi banka hf. Hinni erlendu mynt var síðan sama dag skipt fyrir íslenskar krónur og sú fjárhæð, 249.450.000 krónur, lögð samdægurs inn á tékkareikning áfrýjanda hjá bankanum. Þremur dögum síðar var 248.450.000 krónum ráðstafað út af reikningnum inn á reikning bankans til ávöxtunar í formi peningamarkaðsinnláns samkvæmt samningi þar um, sem undirritaður var sama dag af hálfu áfrýjanda. Verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að hinum japönsku jenum hafi með vitund og vilja áfrýjanda verið skipt fyrir íslenskar krónur og þeim síðan ráðstafað af hans hálfu til framangreindrar ávöxtunar hjá bankanum, enda hefur áfrýjandi ekki gefið aðrar haldbærar skýringar á tilurð þeirra fjármuna sem hann lagði til viðskiptanna. Fær sú niðurstaða fyllilega samrýmst því að áfrýjandi greiddi athugasemdalaust afborganir og vexti af láninu allt frá 3. nóvember 2008 til 1. júlí 2011 og hafðist heldur ekki að þegar stefndi gjaldfelldi það og ráðstafaði 248.639.266 krónum af fjármunum áfrýjanda, sem voru á handveðsettum reikningum hans hjá bankanum, 4. maí 2012 til greiðslu inn á lánið. Verður í því sambandi að líta til þess að áfrýjandi er fyrirtæki í atvinnurekstri, sem er bókhalds- og ársreikningsskylt samkvæmt lögum nr. 145/1994 um bókhald og lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Að öllu þessu virtu er hafnað málsástæðum áfrýjanda, sem reistar eru á því að stefndi hafi á saknæman og ólögmætan hátt valdið áfrýjanda skaðabótaskyldu tjóni. Þá hefur áfrýjandi engin haldbær rök fært fyrir þeirri málsástæðu sinni að víkja beri fyrrgreindum lánssamningi til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eða annarra ákvæða III. kafla laganna.
Auk þeirra málsástæðna, sem afstaða hefur verið tekin til hér að framan, tefldi áfrýjandi í greinargerð til Hæstaréttar fram þeirri málsástæðu, yrði talið að áðurnefnd gjaldeyrisviðskipti hafi komist á með samþykki hans, að Kaupþing banki hf. hafi valdið sér skaðabótaskyldu tjóni með því að leggja til þau viðskipti. Sú málsástæða fær ekki komist að hér fyrir dómi, enda standa ekki til þess skilyrði 2. mg. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi gjaldfelldi framangreint lán með greiðsluáskorun 5. mars 2012 og verður því að miða upphafsdag dráttarvaxta sem krafist er við þann dag er mánuður var liðinn frá þeim degi, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en upphafsdag dráttarvaxta.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að upphafsdag dráttarvaxta ber að miða við 5. apríl 2012.
Áfrýjandi, Bylgja VE 75 ehf., greiði stefnda, Arion banka hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2015.
Mál þetta, sem var þingfest 13. september 2012 og dómtekið 4. mars 2015, er höfðað af Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, með stefnu birtri 3. september 2012, á hendur Bylgju VE 75 ehf., Illugagötu 4, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 246.757.297 japönsk jen ásamt dráttarvöxtum frá 2. ágúst 2011 til greiðsludags að frádregnum innborgunum, samtals að fjárhæð 248.639.366 krónur, hinn 4. maí 2012. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda. Loks er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
II
Hinn 26. ágúst 2008 var undirritaður lánssamningur, nr. 8400, milli Kaupþings banka hf. og stefnda þar sem Kaupþing banki hf. lánaði stefnda jafnvirði 250.000.000 króna í japönskum jenum samkvæmt grein 2.1 í samningnum. Lánssamningum var síðan ráðstafað til stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dagsettri 21. október 2008.
Samkvæmt grein 2.2 í lánasamningnum skyldi lánið, að uppfylltum útborgunarskilyrðum, borgað út í einni greiðslu eftir skriflegri beiðni stefnda a.m.k. tveimur bankadögum fyrir fyrirhugaða útborgun lánsins. Í samræmi við grein 2.2 og 2.3 í samningnum var andvirði lánsins, að frádregnum kostnaði, lagt inn á gjaldeyrisreikning stefnda, nr. 0358-38-678006, hinn 5. september 2008 og nam fjárhæðin 300.496.766 japönskum jenum. Tilgangur lánsins var samkvæmt grein 2.3 í samningnum að fjármagna fjárfestingu stefnda í rekstrarfjármunum og samkvæmt greininni skuldbatt stefndi sig til að ráðstafa láninu til þess verkefnis sem það var veitt til.
Samkvæmt grein 2.4 í samningnum skyldi fjárhæðin endurgreiðast með 48 greiðslum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn hinn 1. september 2009 og skyldi greiðsla vaxtafjárhæðarinnar fara eftir 3. gr. samningsins. Hinn 19. október 2009 var gerður viðauki við lánssamninginn þar sem stefnandi samþykkti lengingu lánstíma og vaxtaálagshækkun. Samkvæmt viðaukanum skyldi greiða eftirstöðvar lánsins með 46 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn hinn 1. nóvember 2009. Sérhver afborgun átti að nema 1/142 hluta af eftirstöðvum lánsins en á síðasta gjalddaga skyldi greiða allar eftirstöðvar þess, nema lánið yrði framlengt. Einnig var gerð breyting á vaxtaálagi lánsins en það skyldi eftirleiðis vera 3,75%. Að öðru leyti ættu skilmálar lánssamningsins að haldast óbreyttir.
Samkvæmt grein 3.1 í lánssamningnum skyldu þeir hlutar lánsins sem voru í öðrum myntum en evrum og íslenskum krónum bera LIBOR-vexti eins og þeir væru ákvarðaðir fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils, að viðbættu 3,5% vaxtaálagi.
Samkvæmt grein 3.3 í lánssamningnum skyldu þeir hlutar lánsins sem voru í íslenskum krónum bera vexti REIBOR-vexti eins og þeir væru ákvarðaðir fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils, að viðbættu 3,5 % vaxtaálagi.
Samkvæmt grein 3.5 í lánssamningnum skyldu vextirnir reiknast frá útborgunardegi lánsins og greiðast eftir á á eins mánaðar fresti á lánstímanum, í fyrsta skipti hinn 1. nóvember 2008.
Samkvæmt grein 3.7 í lánasamningnum skyldu dráttarvexti greiðast af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Vegna þess hluta lánsins sem var í íslenskum krónum bar að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndarálags. Vegna þess hluta lánsins sem var í erlendum myntum bar að greiða dráttarvexti sem skyldu vera vaxtagrunnur, auk viðkomandi vaxtaálags, sbr. gr. 3.1, 3.2 og 3.3, að viðbættu dráttarvaxtarálagi sem skyldi vera 10%. Samkvæmt niðurlagi greinarinnar hafði Kaupþing banki hf. val um það hvort krafist væri dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.
Samkvæmt grein 4 í lánasamningnum, sem ber fyrirsögnina ,,myntbreyting“, kemur fram heimild lántaka til að óska eftir myntbreytingu á láninu, sé það í skilum. Við útreikning á jafnvirði við slíka breytingu skyldi notað sölugengi þeirrar myntar sem horfið væri frá og kaupgengi þeirrar myntar eða mynta sem taka áttu við. Samkvæmt greininni kynni lánssamningurinn að fá nýtt lánsnúmer að öllu leyti eða að hluta ef lántaki nýtti sér heimildina til myntbreytingar.
Stefnandi kveður að samtals hafi verið greiddar af láninu 40 afborganir ásamt vöxtum, þar af 14 greiðslur verið í íslenskum krónum og 26 greiðslur í erlendri mynt. Ekki hafi verið greitt á gjalddaga lánsins hinn 2. ágúst 2011 og hafi skuldin því verið í vanskilum frá þeim degi. Stefnandi hafi sagt upp láninu og þar með gjaldfellt eftirstöðvar skuldarinnar með heimild í 8. gr. lánssamningsins. Hinn 2. ágúst hafi eftirstöðvar skuldarinnar numið 246.757.297 japönskum jenum.
Stefnandi gekk að handveðum sem sett höfðu verið til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum stefnanda vegna vanefnda stefnda, sbr. grein 5.1 og 5.2 í lánasamningnum. Stefnandi kveður að andvirði handveðanna hafi numið samtals 248.639.366 krónum og hafi þeirri fjárhæð verið ráðstafað inn á skuldina í tveimur greiðslum hinn 4. maí 2012.
Stefnandi kveður að hinn 7. júlí 2011 hafi lögmaður stefnda sent tölvubréf til starfsmanna stefnanda, þar sem staðhæft hafi verið að andvirði lánsins, sem hafi verið greitt inn á gjaldeyrisreikning stefnda hinn 5. september 2008, hefði verið flutt af gjaldeyrisreikningi stefnda án heimildar stefnda inn á ,,gjaldeyrisreikning Kaupþings banka hf. og félaga sem voru tengd eigendahóp bankans“ og að ,,forsvarsmenn Bylgju VE 75 ehf. (hefðu) ekkert um (það) að segja, þegar JPY var breytt úr JPY í íslenskar krónur sama dag og JPY voru greidd inná (sic) JPY reikning félagsins“. Stefnandi kveður að þessum fullyrðingum hafi verið mótmælt af hálfu stefnanda, sbr. til að mynda bréf bankans til lögmanns stefnda, dagsett 8. febrúar 2012, og ódagsett bréf sem hafi verið sent í kjölfar bréfs lögmanns stefnda til stefnanda hinn 17. febrúar 2012. Eftir að lánið hafi verið greitt inn á gjaldeyrisreikning stefnda hafi fjárhæðin staðið þar til frjálsrar ráðstöfunar stefnda. Stefndi hafi hins vegar óskað eftir því að fjárhæðin yrði greidd út af nefndum gjaldeyrisreikningi inn á annan reikning félagsins hjá lánveitanda, nánar tiltekið reikning í íslenskum krónum, og hafi fjárhæðinni því verið myntbreytt í því skyni. Hinni íslensku fjárhæð hafi síðan verið ráðstafað inn á safnreikning bankans en sú ráðstöfun hafi verið hluti af samningi aðila um peningamarkaðsinnlán stefnda hjá Kaupþingi banka hf., nr. 449081, dagsettum 8. september 2008.
Stefndi kveður að það sé ekki rétt sem stefnandi haldi fram að stefndi hafi óskað eftir því að japönsk jen yrðu greidd inn á annan reikning í eigu stefnda. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir stefnda til stefnanda um að hann skyldi leggja fram fyrirmæli stefnda, þess efnis að stefndi hafi óskað eftir millifærslu af reikningi 0358-38-678006, heildarupphæð sem lögð hafi verið inn á reikninginn, liggi ekkert fyrir sem skýri hver hafi gefið fyrirmæli og hvort fyrirmæli hafi yfirhöfuð verið gefin. Af framlögðum gögnum megi hins vegar ráða að hjá stefnanda hafi starfað sömu starfsmenn og áður störfuðu hjá Kaupþingi banka hf., sem hefðu átt að þekkja til viðskipta Kaupþings banka hf. og stefnda. Líkt og framlögð gögn stefnanda beri með sér hafi starfsmenn stefnanda sagt á fundum með stefnda og í síma, að unnið hafi verið að lausn vegna ágreinings aðila. Þá liggi fyrir að Arion banka hafi verið sent bréf, dagsett 25. júlí 2011, þar sem tilkynnt hafi verið formlega sú ákvörðun Bylgju VE. 75 ehf. að fresta greiðslum á afborgunum til þess tíma að Arion banki myndi ljúka skoðun á umdeildu láni og tæki afstöðu til sáttaboðs stefnda. Að virtum framlögðum bréfum megi sjá að ákvörðun stefnda sem hafi verið tilkynnt stefnanda, um að bíða með frekari greiðslur af umdeildu láni, sé ekki aðeins vegna óvissu um það hvort lánasamningur hefði í raun verið gengistryggt lán í íslenskum krónum, heldur sé hún ekki síður til þess að fá afstöðu stefnanda til bótaábyrgðar stefnanda sem fjármálafyrirtækis á ætluðu tjóni stefnda, sem sé að mati stefnda dómkrafa þessa máls.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því að umdeilt lán sé í erlendum myntum, bæði að því er varðar form og efni samningsins. Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eigi því ekki við um kröfuna. Lánið hafi verið greitt út í erlendri mynt, þ.e. japönskum jenum, inn á gjaldeyrisreikning stefnda hjá lánveitanda, í samræmi við skilmála lánasamningsins. Í grein 2.7 í lánasamningnum komi fram að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af og ef inntar yrðu af hendi í íslenskum krónum greiðslur sem greiða skyldi í erlendum myntum, skyldi greiða samkvæmt sölugengi lánveitanda. Lánsfjárhæðin sé í gr. 2.1 í lánssamningi tilgreind sem jafnvirði íslenskra króna.
Í grein 3.7 í lánssamningnum segi að vanefni lántaki skuldbindingu samkvæmt lánssamningnum beri honum að greiða dráttarvexti sem skuli vera vaxtagrunnur, auk viðkomandi álags, sbr. grein 3.1, að viðbættu dráttarvaxtaálagi sem skyldi vera 10%. Hinn 31. júlí 2011 hafi mánaðarlegir LIBOR-vextir verið 0,14031%. Því sé krafist dráttarvaxta af gjaldfallinni fjárhæð sem samanstandi af 0,14031% vaxtagrunni að viðbættu 3,75% vaxtaálagi og 10% dráttarvaxtaálagi, eða samtals 13,89031%.
Stefnandi kveður að þar sem stefndi hafi ekki efnt, og þar með vanefnt, samninginn, sé stefnanda nauðugur sá kostur að leita atbeina dómstóla við innheimtu kröfunnar.
Stefnandi vísar til almennra reglna kröfuréttar og meginreglna um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
IV
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að hann eigi kröfu um skaðabætur úr hendi stefnanda. Skaðabótakrafan sé a.m.k. jafnhá og hver sú fjárhæð sem stefnda kunni að verða gert að greiða stefnanda. Krafa stefnda um skaðabætur lúti að því að gera stefnda eins settan og ef þeir gerningar sem krafa stefnanda byggist á hefðu aldrei verið gerðir. Stefndi krefst þess að skaðabótakröfu sinni á hendur stefnanda ljúki sem gagnkröfu með skuldajöfnuði sérhverrar kröfu sem stefnandi kunni í máli þessu að verða talinn eiga á stefnda, sbr. 28. gr. laga 91/1991.
Það sé mat stefnda að stefnandi byggi dómkröfu sína á háttsemi sem hafi verið framin með saknæmum og ólögmætum hætti af hálfu starfsmanna Kaupþings banka hf., sem Kaupþing banki ábyrgist á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og reglna skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Samkvæmt 13. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlits hafi skuldajöfnunarréttur haldist, þrátt fyrir framsal kröfuréttinda frá Kaupþingi banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., stefnanda þessa máls.
Stefndi kveður að Kaupþingi banka hf., sem stefnandi leiði rétt sinn af, hafi verið sannanlega ljóst að lánið hafi verið veitt til fjárfestingar í rekstrarfjármunum, nánar tilgreint veiðiheimildum, sbr. lið 2.3 í lánasamningi. Ekki hafi orðið af fyrirhuguðum kaupum á veiðiheimildum og sé óumdeilt að starfsmenn Kaupþings banka hf., þeir sömu og starfi nú hjá stefnanda, hafi vitað að ekki hafi orðið af ætluðum viðskiptum. Starfsmönnum Kaupþings banka hf. hafi einnig verið ljóst að mjög óvarlegt hafi verið að breyta ætluðu erlendu láni í íslenskar krónur í september 2008, nema því aðeins að verið væri að fjárfesta í rekstrarfjármunum í íslenskum krónum.
Það að skipta erlendri mynt í íslenskar krónur í september 2008, án samþykkis stefnda, á sama tíma og Kaupþing banka hafi verið ljós „skortstaða“ á erlendum gjaldeyri, sbr. kafla 13.7 í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sé að mati stefnda ákvörðun sem uppfylli saknæmis- og ólögmætisskilyrði almennu skaðabótareglunnar. Milli framgöngu bankans og tjóns stefnda sé beint orsakasamhengi og tjón stefnda sennileg afleiðing skaðaverka stefnanda. Sú staðreynd að afleiddur vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaðnum hafi farið niður í núll í mars 2008 hafi verið skýrt merki um þann verulega skort á erlendum gjaldeyri sem til staðar hafi verið hér á landi. Boðið hafi verið upp á að ávaxta evrur nánast á krónuvöxtum sem hefði undir venjulegum kringumstæðum átt að leiða til mikils innflæðis gjaldeyris, sem ekki hafi orðið raunin. Krónan hafi á hinn bóginn fallið þegar erlendir aðilar hafi tekið krónur sínar í auknum mæli út úr bönkunum þar sem afleiddir vextir á þeim tíma hafi verið orðnir þeir sömu og evruvextir. Þessum krónum hafi síðan verið skipt í evrur sem leitt hafi til falls íslensku krónunnar. Seðlabanki Íslands hafi reynt að stemma stigu við þessari þróun með útgáfu innistæðubréfa og telja megi líklegt að það hafi að einhverju leyti spornað við frekari falli krónunnar.
Stefndi kveður að þetta brot bankans varði Kaupþing banka hf., sem stefnandi leiði rétt sinn af, skaðabótum, sem krafa sé gerð um hér að framan til skuldajöfnunar á móti kröfum stefnanda og þar með sýknu stefnda af dómkröfum stefnanda.
Stefndi byggir varakröfu sína um lækkun dómkrafna stefnanda á því að honum sé heimill skuldajöfnuður á skaðabótakröfu sinni sem sé jafnhá eða lægri fjárhæð og hver sú fjárhæð sem stefnda kunni að verða gert að greiða stefnanda, 246.757.297 japönsk jen, eða lægri fjárhæð, auk dráttarvaxta allt í samræmi við dómkröfu stefnanda. Krafa stefnda sé um skaðabætur, krafan eigi að gera stefnda eins settan og ef þeir samningar, sem krafa stefnanda byggir á, hefðu aldrei verið gerðir. Á því sé byggt, og þess krafist, að skaðabótakröfu stefnda á hendur stefnanda ljúki sem gagnkröfu með skuldajöfnuði sérhverrar kröfu sem stefnandi kunni í máli þessu að verða talinn eiga á stefnda, sbr. 28. gr. laga 91/1991. Varakrafa sé því samhljóða aðalkröfu og málsástæður séu þær sömu að því virtu að varakrafa sé ekki krafa um sýknu heldur krafa um skaðabætur sem skuli lækka dómkröfu stefnanda að mati dómsins.
Stefndi gerir þá kröfu að dómurinn neyti heimilda sem tilgreindar séu í III. kafla samningalaga nr. 7/1936, aðallega 36. og 36. gr. c og víki til hliðar þeim samningsskuldbindingum stefnda sem hann verði talinn vera í gagnvart stefnanda. Þess sé aðallega krafist að dómurinn leysi stefnda úr þeim skuldbindingum að öllu leyti, eða að samningsskuldbindingum stefnda verði af dómnum vikið til hliðar að hluta eða þær lækkaðar. Ósanngjarnt verði að telja og andstætt góðri viðskiptavenju að bera kröfu fyrir sig sem hafi stofnast hjá fjármálastofnun, án fyrirmæla stefnda. Erlendri mynt í eigu stefnda hafi verið breytt í íslenskar krónur án heimildar. Stefndi áréttar þann aðstöðumun sem hafi verið með stefnanda og stefnda, sem hafi reitt sig á ráð og ráðvendni starfsmanna bankans.
Stefndi kveður að allt frá því að Kaupþing banki hf. hafi fallið hafi birst fréttir af sakamálarannsóknum á starfsháttum bankans fyrir hrun. Markaðsmisnotkun í útlánastarfsemi, með gjaldeyri og hlutabréf sé á almennu vitorði nú, en hafi ekki verið það fyrir hrun. Fyrir hrun hafi hins vegar orðið markaðsbrestur með gjaldeyri, þ.e.a.s. markaðurinn hafi verið uppþornaður í þeim skilningi að ekkert framboð hafi verið til staðar. Kaupþing banki hafi vitað í hvað stefndi og hafi allt að einu farið fram með óábyrgum hætti.
Stefndi gerir þá kröfu að dómurinn, með vísan til 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, breyti þeim samningsskuldbindingum, sem stefndi kunni að verða talinn bundinn af, þannig að lán stefnanda sé í raun í íslenskum krónum, sem beri almenna vexti sambærilegra lána að teknu tilliti til innborgana og að það sé sama fjárhæð og sú innborgun sem tilgreind sé í stefnu, sem hafi verið greidd 4. maí 2012.
Stefndi vísar til þess að dómar hafi á undangengnum tveimur árum verið kveðnir upp þar sem skilmálum lánssamninga um verðtryggingu hafi verið hafnað þar sem þeir hafi verið taldi brjóta gegn fyrirmælum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með því að verðtryggingin hafi verið miðuð við gengi erlendra mynta. Hafi jafnvel verið talið að lánssamningar hafi verið færðir í leigusamningsform gagngert til að komast fram hjá greindum fyrirmælum. Stefndi kveður að rökstuðningur stefnanda fyrir dómkröfu hans sé haldinn sama ógildingarannmarka. Hann telji til skuldar í íslenskum krónum sem breyta eigi með gengi erlendrar myntar fram til gjalddaga, sem gefi efni til að víkja skilmálum til hliðar.
Stefndi vísar til þess að á annarri blaðsíðu lánasamningsins sé lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum, bæði með tölustöfum og bókstöfum. Hvorki þar né annars staðar í lánasamningnum sé að finna ákvæði um hversu há lánsfjárhæðin sé í erlendri mynt en slíkt sé að mati stefnda algjör forsenda þess að um erlenda skuldbindingu sé að ræða. Með öðrum orðum að það sé hvergi staf að finna í lánasamningnum um fjárhæð hins ætlaða erlenda láns. Þess í stað sé eingöngu tilgreint að lánsfjárhæð sé að jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum ,,... í eftirfarandi myntum JPY 100%.“ Stefndi kveður að þetta gefi bersýnilega til kynna að lánið sé í raun og veru í íslenskum krónum og hafi verið bundið við gengi umrædds gjaldmiðils í framangreindu hlutfalli, þ.e. að veitt hafi verið lán í íslenskum krónum sem sé gengistryggt með viðmiðun við JPY, en slík gengistrygging sé ólögmæt, sbr. 13. gr. laga 38/2001.
Stefndi vísar til laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál til stuðnings kröfu þess efnis að lánasamningur sé í raun lán til stefnda í íslenskum krónum. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. laga nr. 87/1992 sé erlendur gjaldeyrir; erlendir peningaseðlar, slegnir peningar, tékkar og aðrar ávísanir, víxlar og önnur greiðslufyrirmæli sem hljóða á um greiðslu í erlendri mynt, minnispeningar, gull, silfur og aðrir dýrir málar ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum erlendis. Stefndi kveður að millifærsla inn á svokallaðan IG-reikning (innlendan gjaldeyrisreikning) sé ekki millifærsla á erlendum gjaldeyri, hvorki í skilningi laga nr. 87/1992 né samkvæmt almennum skilningi. Stefndi kveður að fé í erlendum gjaldmiðli hafi í reynd aldrei skipt um hendur, þrátt fyrir aðalskyldu forvera stefnanda, sem stefnandi leiði rétt sinn af, samkvæmt ákvæðum lánasamningsins. Það hafi aldrei staðið til hjá forvera stefnanda að lána stefnda erlendan gjaldeyri. Stefnda hafi verið lánaðar gengistryggðar íslenskar krónur.
Til frekari stuðnings vísar stefndi til greinar 2.7 í lánasamningi en greinin kveði á um að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af en greiði lántaki í íslenskum krónum skuli lántaki greiða samkvæmt sölugengi bankans. Af framlögðum gögnum megi ráða að stefndi greiddi Kaupþingi banka hf., sem stefnandi leiði rétt sinn af, aldrei í japönskum jenum. Stefndi hafi greitt íslenskar krónur, eða ensk pund, sem ekki sé heimilt samkvæmt grein 2.7 í lánasamningi. Að mati stefnda þjóni grein 2.7 í samningnum vart öðrum tilgangi en að binda skuldbindinguna, sem sé íslenskar krónur, við gengi japanskra jena á þeim tiltekna degi sem greiðslan hafi farið fram.
Í grein 2.5 í lánasamningi sé fjallað um heimild til skuldfærslu til greiðslu afborgana og vaxta. Í þessari grein lánasamningsins sé vísað til íslensks krónureiknings stefnda og til reiknings stefnda í japönskum jenum, sem lánsfjárhæðin hafi verið lögð inn á og færð af á sama degi án þess að nokkur fyrirmæli frá stefnda hafi legið fyrir. Með öðrum orðum hafi lánasamningurinn heimilað lánveitanda skuldfærslu af reikningi í japönskum jenum en lánveitandi hafi fært japönsk jen á sama degi, mögulega á sömu mínútu, og japönsk jen hafi verið lögð inn á þann reikning.
Stefndi vísar til þess að í 4. gr. lánasamningsins sé fjallað um myntbreytingarheimild. Að mati stefnda gefi þessi grein bersýnilega til kynna að hún snúist um að gengistryggja lán í íslenskum krónum enda komi það beinlínis fram í ákvæðinu að miða eigi við sölugengi myntar sem horfið sé frá, en kaupgengi þeirra myntar sem tekið sé við. Að mati stefnda sé vandséð af hverju erlent lán ætti að miðast við gengisskráningu íslenskrar krónu ef lánið sé í annarri mynt en íslenskri krónu. Með þessari grein hafi lántaka verið veitt heimild til að óska þess að breyta ,,vísitölu“ lánsins meðan á lánstíma stóð. Sýni þetta glöggt að lánið hafi aldrei verið í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla. Hafi lánssamningur í reynd verið í erlendri mynt hefði heimildarákvæði um breytingu á andlagi lánsfjárhæðar ekki kveðið á um breytingu á viðmiðum heldur beinlínis um innbyrðis skipti milli þeirra gjaldmiðla sem horfið sé frá og þess gjaldmiðils sem myntbreytt sé í. Að mati stefnda hefði annars verið þýðingarlaust að vísa til gengisskráningar á íslensku krónunni við slíka myntbreytingarheimild. Ekki sé með nokkru móti hægt að útskýra þetta ákvæði samningsins með öðrum hætti, enda sé algerlega þýðingarlaust að umbreyta t.d. samningi sem raunverulega hefði verið í japönskum jenum fyrst í íslenskrar krónur, ef breyta ætti honum í evrur. Af þessu ákvæði megi ráða að ekki sé gert ráð fyrir myntbreytingu í myntina íslenska krónu, enda sé lánasamningurinn gengistryggður og miðist við gengi íslenskrar krónu.
Til stuðnings varakröfu sinni vísar stefndi til framlagðrar skýrslu Bjarna Kristjánssonar. Stefndi kveður að skýrslan sanni það að Kaupþing banki hafi ekki farið fram með ábyrgum hætti sem fjármálafyrirtæki með starfsleyfi. Forveri stefnanda sé þess valdur, með þeim hætti að það valdi skaðabótaskyldu gagnvart stefnda, að gengi íslenskrar krónu hafi fallið. Markviss háttsemi forvera stefnanda uppfylli saknæmis- og ólögmætisskilyrði almennu skaðabótareglunnar. Milli framgöngu bankans og tjóns stefnda sé beint orsakasamhengi og tjón stefnda sennileg afleiðing skaðaverka stefnanda. Stefndi kveðst eiga skaðabótakröfu til skuldajöfnunar við dómkröfu stefnanda. Uppkaup forvera stefnanda á erlendum gjaldeyri, vitandi að slík háttsemi hefði áhrif til lækkunar á gengi íslenskrar krónu, hafi leitt til ætlaðs tjóns stefnda, sem endurspeglist í dómkröfum stefnanda.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna II. kafla laga nr. 108/2007, laga nr. 161/2002, laga nr. 7/1936, laga nr. 87/1992, laga nr. 38/2001 og til meginreglna samningaréttar. Byggir stefndi sérstaklega á 28. gr. laga nr. 91/1991 varðandi skuldajöfnuð og varðandi málskostnað vísast til 130. gr. sömu laga.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að greiðsluskyldu stefnda samkvæmt lánssamningi aðila, dagsettum 26. ágúst 2008. Byggir stefnandi á því að umþrættur samningur sé um lán í japönskum jenum og stefndi beri greiðsluskyldu samkvæmt honum.
Stefndi byggir sýknukröfu sína, sem og kröfu um lækkun dómkrafna, á því að hann eigi skuldajafnaðarkröfu á hendur stefnanda vegna tjóns sem forveri stefnda hafi valdið honum með saknæmum og ólögmætum hætti með því að skipta japönskum jenum í eigu stefnda í íslenskar krónur, án þess að stefnandi hafi gefið fyrirmæli þess efnis. Einnig byggir stefndi á því að umdeilt lán sé í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þá byggir stefndi kröfu sína á því að víkja eigi samningnum til hliðar og leysa hann undan greiðsluskyldu á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem það verði að teljast ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig kröfuna.
Ákvæðum umdeilds lánssamnings hefur verið lýst hér að framan. Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringar á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um þann lánssamning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.
Samkvæmt samningnum sjálfum er hann sagður vera að jafnvirði 250.000.000 íslenskra króna í japönskum jenum. Í samningnum er kveðið á um að lánið skuli greitt inn á bankareikning stefnanda í japönskum jenum, sem og varð reyndin. Fé í erlendum gjaldmiðlum skipti því í reynd um hendur þegar Kaupþing banki hf., forveri stefnanda, efndi aðalskyldu sína. Í viðauka við samninginn, dagsettum 19. október 2009, er lánsfjárhæðin einnig tilgreind með sama hætti og í lánssamningi. Stefndi hefur innt af hendi 40 greiðslur afborgana og vaxta af láninu og greiddi hann þær oftast í erlendum gjaldmiðlum. Lög um gjaldeyrismál nr. 87/1992 breyta ekki eðli skuldbindingarinnar. Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar að lánið til stefnanda hafi verið í erlendum gjaldmiðli og skiptir þá ekki máli í hvaða tilgangi hann tók það. Slíkt lán fellur ekki undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001, um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum.
Stefndi byggir á því að hann sé óbundinn af samningnum, þar sem það verði að teljast ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að fjármálafyrirtæki beri fyrir sig kröfu sem stofnaðist með því að fjármálafyrirtæki breytti eign stefnda í japönskum jenum í íslenskar krónur, án hans fyrirmæla, til tjóns fyrir stefnda, sem og að hann eigi kröfu vegna þess tjóns sem það hafi valdið honum, sem koma eigi til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda. Eru fullyrðingar stefnda um að starfsmenn Kaupþings banka hafi breytt japönskum jenum, sem hann hafi átt, yfir í íslenskar krónur, á árinu 2008, án hans beiðni, með öllu ósannaðar, en stefndi átti ýmis önnur viðskipti við bankann á þessum tíma og af gögnum málsins verður ekki séð að stefndi hafi gert athugasemdir vegna þessa fyrr en löngu síðar. Þá getur niðurstaða sakamála á hendur æðstu stjórnendum bankans ekki leitt til þess að stefndi þurfi ekki að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir málsástæðum sínum. Verður þessari kröfu stefnda því hafnað.
Við mat á því hvort ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig umræddan samning skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Hrun íslensku bankanna sem varð hér á landi í október 2008 getur eitt og sér ekki orðið til þess að losa stefnda undan því að standa við skuldbindingar sínar. Rannsókn bankahrunsins og háttsemi stjórnenda Kaupþings banka breytir því ekki að stefndi verður að standa við skuldbindingar sínar. Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að upplýsingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstaða sakamála á hendur stjórnendum bankans sé ætlað að styðja þær málsástæður sem byggja á 36. gr. laga nr. 7/1936. Atriði sem þar koma fram geta hins vegar ekki talist sönnun á þeim staðhæfingum stefnda. Þá verður ekki talið að þó svo að fyrir liggi að töluverður aðstöðumunur hafi verið á aðilum nægi það ekki eitt og sér til að sýna fram á að skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 sé fullnægt. Veður því hafnað kröfu stefnda um að samningurinn verði ógildur eða honum vikið til hliðar.
Samkvæmt því sem að framan greinir er málsástæðum stefnda hafnað. Stefnda ber að standa við skuldbindingar sínar og þann samning sem hann gerði við forvera stefnanda. Samningurinn hefur verið í vanskilum frá 2. ágúst 2011. Krafa stefnanda verður því tekin til greina, eins og hún er fram sett, þ.e.a.s. stefndi verður dæmdur til að greiða skuld sína við stefnanda, sem er í japönskum jenum, ásamt dráttarvöxtum, að frádreginni innborgun, sem greidd var hinn 4. maí 2012.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Bylgja VE-75, greiði stefnanda, Arion banka hf., 246.757.297 japönsk jen ásamt 13,89031% dráttarvöxtum frá 2. ágúst 2011 til greiðsludags, að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð 248.639.366 krónur, sem greidd var hinn 4. maí 2012.
Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.