Hæstiréttur íslands

Mál nr. 644/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                              

Föstudaginn 2. desember 2011.

Nr. 644/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Reynir Logi Ólafsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. desember 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á það sem segir í hinum kærða úrskurði að upplýst sé um atvik sem tengi varnaraðila svo við ætlaða skotárás að kvöldi 18. nóvember 2011 að slá megi því föstu að fyrir liggi rökstuddur grunur um þátttöku hans í verknaðinum. Verður því fallist á að vegna rannsóknarhagsmuna skuli varnaraðili sæta gæsluvarðhaldi eins og greinir í hinum kærða úrskurði. Verður niðurstaða hans því staðfest.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 29. nóvember 2011.

                Árið 2011, þriðjudaginn 29. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gert þá kröfu að þá kröfu að dómurinn úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. desember 2011 kl. 16.  Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar skotárás á bifreið A, en skotið hafi verið tvívegis á bifreið hans föstudaginn 18. nóvember sl., þar sem hann hafi ekið bifreiðinni í [...] Reykjavíkur. 

Brotaþoli, A, og vitni sem hafi verið farþegi í bifreiðinni, hafi lýst atvikum þannig að meðkærði Y, sem nú sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, hafi boðað A á sinn fund að kvöldi föstudagsins 18. nóvember sl. vegna tiltekinnar fíkniefnaskuldar.  Er A og umrætt vitni hafi komið akandi á bifreið A á bifreiðaplani við bílasöluna [...], við [...] í Reykjavík, hafi meðkærði Y ekið bifreið sinni í veg fyrir bifreið A.  Út úr bifreið Y hafi stigið þrír menn, þ.e.  Y sjálfur og tveir menn sem hafi hulið andlit sín, hafi annar mannanna verið með haglabyssu í hendi.  Hafi A þá reynt að aka bifreið sinni aftur á bak frá mönnunum og hafi þá annar mannanna skotið úr byssunni og lentu höglin á framenda bifreiðarinnar.  Eftir þetta hafi Y og mennirnir tveir farið inn í bifreið Y og ekið mjög greitt á eftir A.  Er A hafi komið að hringtorgi við [...] við [...] þá hafi Y ekið bifreið sinni upp að bifreið hans og hafi þá verið skotið öðru sinni á bifreiðina með þeim afleiðingum að afturrúðan mölbrotnaði og hafi  m.a. högl hafnað í farþegasæti bifreiðarinnar.

Sunnudaginn 20. nóvember sl. hafi meðkærði Y verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.  Hafi Y viðurkennt aðild sína að málinu, en kveðst þó ekki hafa vitað að skotvopn hafi verið með í för.  Af ótta um líf sitt kveðst Y ekki vilja greina frá því hverjir hafi verið með honum í umrætt sinn.

Í máli þessu liggi fyrir að umræddur Y og kærði X hafi verið í miklum símsamskiptum stuttu fyrir skotárásina.  Fyrir liggi framburður um að þeir hafi átt fund saman rétt fyrir árásina, þar sem Y hafi borið upp vandræði sín gagnvart A og óskað eftir aðstoð hans í málinu.  Þá liggi fyrir að þeir hafi verið saman laugardaginn 19. nóvember á sveitabæ í [...].  Fram sé kominn framburður aðila, sem hafi verið með Y og X föstudaginn 18. nóvember, sem skoðað hafi myndband af fyrri skotárásinni, þess efnis að til greina komi að sá sem skjóti úr byssunni sé kærði X.  Þeir lögreglumenn sem hafi horft á umrætt myndband telji sig þekkja kærða X sem þann aðila sem skjóti úr byssunni. En lögreglu hafi einnig borist ítrekaðar ábendingar um að kærði X eigi aðild að máli þessu.

Kærði X hafi verið handtekinn í gær og yfirheyrður vegna málsins.  Í skýrslutöku hjá lögreglu neiti hann allri aðild að málinu.  Hann geti hins vegar ekki gert grein fyrir ferðum sínum 18. nóvember með öðrum hætti en að hafa verið á „þvælingi.”  Hann kveðst daglega nota amfetamín og Mogadon og kveðst ekki muna hvar hann hafi verið staddur um kl. 20:00 þennan dag.   Hann kveðst ekkert hafa hitt meðkærða Y eftir árásina.

Kærði X sé nú undir rökstuddum grun um aðild að tilraun til manndráps, þannig að varði við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.  Sé hann nú á reynslulausn vegna fyrri dóma fyrir ofbeldisbrot, en hann eigi að baki þó nokkurn sakarferil. Hann hafi m.a. hlotið 3 ára fangelsisdóm í mars 2007, fyrir margvísleg ofbeldisbrot, þ. á m. fyrir að hafa klippt fingur af manni, sjá dóm Hæstaréttar nr. [...].  Honum hafi verið veitt reynslulausn 21. desember 2010 í 2 ár á eftirstöðvum 264 daga refsingar.  Ljóst sé, verði hann sekur fundinn, að með þessu broti hafi hann rofið almennt skilorð reynslulausnar.

Rannsókn málsins sé skammt á veg komin og því afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði er undir rökstuddum grun um aðild að tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Kærði er á reynslulausn vegna fyrri dóma fyrir ofbeldisbrot. Brotið getur varðað allt að 16 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 218. gr. eða 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga.  Hljóta rannsóknarhagsmunir að krefjast þess að kærði gangi ekki laus, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Ber því að ákveða að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. desember 2011, kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.