Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2005


Lykilorð

  • Þjónustukaup
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. mars 2006.

Nr. 453/2005.

Icecool ehf.

(Garðar Briem hrl.)

gegn

Alfreð Bóassyni

(Gylfi Thorlacius hrl.)

 

Þjónustukaup. Matsgerð.

Deilt var um fjárhæð tveggja reikninga, sem I ehf. hafði sent A vegna breytinga, sem hann hafði óskað eftir að gerðar yrðu á bifreið sinni. Við gerð reikninganna var lagt til grundvallar að vinnustundir við verkið hefðu verið 498. Í dómi héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, var litið til matsgerðar dómkvadds manns, sem m.a. taldi eðlilegan fjölda vinnustunda við verkið vera 435. Tímafjöldinn var þó lækkaður í 383 stundir af ákveðnum ástæðum. Fallist var á þá afstöðu héraðsdóms að I ehf. hefði ekki gert fullnægjandi grein fyrir þeim miklu breytingum, sem urðu á verkinu, og þeim aukakostnaði, sem af því leiddi, í samræmi við kröfu 31. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Hins vegar þótti ekki efni til að lækka vinnustundafjölda I ehf. sökum þess að félagið myndi framvegis njóta reynslunnar af þessu verki. Þar sem matsgerðinni hafði ekki verið hnekkt var hún lögð til grundvallar en rétt þótti að lækka þann fjölda vinnustunda, sem þar var ákveðinn, um 20 stundir. Átti I ehf. því rétt á að fá nánar tiltekna fjárhæð fyrir verkið og var A dæmdur til að greiða félaginu eftirstöðvar skuldarinnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 26. október 2005. Hann krefst þess aðallega, að stefndi greiði sér 968.660 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. janúar 2004 til greiðsludags, en til vara 686.294 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi deila málsaðilar um kostnað vegna breytinga og viðgerðar áfrýjanda á bifreið stefnda á árinu 2003, en verk það, sem upphaflega var beðið um, varð umfangsmeira en ella hefði verið, vegna breytinga sem áður höfðu verið gerðar á bifreiðinni.

Áfrýjandi sendi stefnda tvo reikninga vegna verksins 20. október 2003 og 31. desember sama ár, samtals að fjárhæð 3.468.660 krónur. Meðan á verkinu stóð greiddi stefndi 500.000 krónur, þegar hann sótti bifreiðina í júlí 2003 greiddi hann 1.000.000 krónur og í nóvember sama ár 1.000.000 krónur, eða samtals 2.500.000 krónur. Er aðalkrafa áfrýjanda mismunur þessa, 968.660 krónur. Áfrýjandi krefst greiðslu fyrir 498 vinnustundir og er tímagjald hans 4.482 krónur á klukkustund.

Samkvæmt matsgerð dómkvadds manns 15. september 2004 var eðlilegur heildarkostnaður verksins talinn vera 3.021.221 króna. Miðar hann við að ekki hefði þurft fleiri en 435 vinnustundir til að ljúka verkinu, og er tímagjald hans 4.275 krónur á klukkustund.

Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, hafði framangreinda matsgerð, sem talin var ítarlega og fagmannlega unnin, til hliðsjónar við úrlausn málsins. Að því er varðaði mat á vinnustundum var litið til þess að reynsla forsvarsmanns áfrýjanda af bifreiðabreytingum hefði átt að leiða til þess að hann áttaði sig fljótlega á því, að bakfæra þyrfti það, sem áður hafði verið unnið við bifreiðina. Þá þótti ósannað að áfrýjandi hefði gert stefnda skýra grein fyrir umfangi verksins og hversu mikið það myndi kosta. Við mat á þeim tíma, sem farið hafði í hönnunarvinnu taldi héraðsdómur að fyrirsvarsmaður áfrýjanda myndi njóta í starfi sínu þeirrar reynslu, sem hann hafi fengið af þessu verki, þótt þessi tegund bifreiðar væri sjaldgæf hér á landi. Tímafjöldi samkvæmt matsgerð var samkvæmt framansögðu lækkaður í 383 stundir. Tímagjald áfrýjanda, 4.482 krónur á klukkustund, var talið vera innan eðlilegra marka, og lagði héraðsdómur það til grundvallar.

Í 31. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup segir, að hafi seljandi þjónustu áskilið sér fyrirvara um verð og í ljós komi að það muni hækka verulega skuli seljandinn tilkynna neytanda án tafar og óska eftir fyrirmælum um verkið. Fallist er á með héraðsdómi, að áfrýjandi hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir þeim miklu breytingum sem urðu á verki hans og þeim aukakostnaði sem af því leiddi og verði hann að bera halla af því. Aftur á móti eru ekki efni til að lækka vinnustundafjölda áfrýjanda sökum þess, að hann muni í starfi sínu njóta þeirrar reynslu, sem hann fékk af þessu verki. Matsgerð sú, sem fyrir liggur og ekki hefur verið hnekkt, ákvað vinnustundafjöldann 435 klukkustundir. Samkvæmt því, sem að framan greinir, þykir rétt að lækka þann fjölda um 20, þannig að áfrýjandi fái greitt fyrir 415 vinnustundir á tímagjaldinu 4.482 krónur, eða 1.860.030 krónur. Ekki er deilt um efniskostnað, 1.236.624 krónur, þannig að áfrýjandi á rétt á að fá greiddar 3.096.654 krónur fyrir verk sitt. Stefndi hefur þegar greitt 2.500.000 krónur, og eru eftirstöðvarnar 596.654 krónur, sem stefndi er dæmdur til að greiða með vöxtum, svo sem greinir í dómsorði.

Staðfest er ákvæði héraðsdóms um málskostnað, þar með talinn matskostnaður.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Alfreð Bóasson, greiði áfrýjanda, Icecool ehf., 596.654 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. janúar 2004 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. júlí 2005.

Mál þetta var tekið til dóms 16. júní 2005.

Aðalstefnandi og gagnstefndi er Icecool ehf., kt. 680489-1499, Lóurima 12, Selfossi.

Aðalstefndi og gagnstefnandi er Alfreð Bóasson, kt. 101246-2059, Nýbýlavegi 52, Kópavogi.

             Af hálfu aðalstefnanda er þess krafist aðallega að aðalstefndi verði dæmdur til þess að greiða skuld að fjárhæð 968.660 krónur auk dráttarvaxta, skv. III. kafla laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 31. janúar 2004 til greiðsludags. Til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða 541.851 krónu auk dráttarvaxta, skv. III. kafla laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 31. janúar 2004 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er þess krafist að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda málskostnað að skaðlausu.

             Af hálfu aðalstefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda og að aðalstefnandi verði dæmur til að greiða málskostnað aðalstefnda að skaðlausu, þ.m.t. útlagðan kostnað vegna matsgerðar að fjárhæð 183.720 krónur. Til vara að dómkröfur aðalstefnanda verði lækkaðar verulega og að aðalstefnandi verði dæmur til að greiða málskostnað aðalstefnda að skaðlausu, þ.m.t. útlagðan kostnað vegna matsgerðar að fjárhæð 183.720 krónur, eða að málskostnaður verði látinn niður falla. Til þrautavara er þess krafist að aðalstefndi verði eingöngu dæmdur til að greiða 521.221 krónu og að að aðalstefnandi verði dæmur til að greiða málskostnað aðalstefnda að skaðlausu, þ.m.t. útlagðan kostnað vegna matsgerðar að fjárhæð 183.720 krónur eða að málskostnaður verði látinn niður falla.

             Af hálfu gagnstefnanda er þess krafist að gagnstefnda verði gert að greiða 432.219 krónur með dráttarvöxtum, skv. III. kafla laga nr. 38/2001, frá 7. nóvember 2003 til greiðsludags. Einnig er þess krafist að gagnstefnda verði gert að greiða gagnstefnanda málskostnað að mati dómsins, þ.m.t. útlagðan kostnað vegna matsgerðar að fjárhæð 183.720 krónur.

             Af hálfu gagnstefnda er krafist sýknu. Þess er og krafist að gagnstefnandi verði dæmdur til að greiða gagnstefnda málskostnað að mati dómsins.

 

Málsatvik

Deila aðila snýst um kostnað vegna breytinga og viðgerðar á bifreiðinni, SB 746, af gerðinni GMC Truckmaster árgerð 2002, sem áður hafði verið breytt fyrir 44 tommu hjólbarða. Bifreiðin mun hafa verið flutt ný til landsins frá Kanada snemma árs 2002. Stuttu síðar var jeppabreytingaverkstæðinu Breyti ehf. falið að breyta bifreiðinni fyrir 44 tommu hjólbarða, sem á þeim tíma hafi verið stærstu hjólbarðar sem fáanlegir voru á íslenskum markaði fyrir breytt torfæruökutæki, skráð til nota á götum og þjóðvegum. Breytingarnar fólu í sér grunnhækkun ásamt öllu sem slíkri hækkun fylgir.

Sú breyting á bifreiðinni sem Breytir ehf. hannaði og framkvæmdi mun hafa reynst illa og var aðalstefndi óánægður með verkið. Bifreiðin mun hafa rásað mjög mikið og drifbúnaður og burðarvirki hennar, sérstaklega að framan, virst of veikburða fyrir þau átök sem bifreiðinni var ætlað að mæta.

Var aðalstefnda ráðlagt að láta setja framhásingu undir bifreiðina til að fullnægjandi burði og drifstyrkleika yrði náð. Með loftpúðafjöðrun yrði betra fjöðrunarsviði náð, aksturseiginleikar yrðu betri og hindrað að burðargrind skekktist við akstur við erfiðar aðstæður með tilheyrandi álagi á yfirbyggingu bifreiðarinnar. Aðalstefndi leitað til aðalstefnanda og óskað eftir þessari þjónustu. Þegar verkið var hafið kom í ljós að færa þurfti breytingu Breytis ehf. til baka, gera við sprungur sem komið höfðu í grind o.fl. og auk þess var ákveðið að setja einnig nýtt drifhlutfall í bifreiðina að aftan.

Aðalstefnandi hefur sent aðalstefnda tvo reikninga vegna verksins. Annars vegar að fjárhæð 909.984 krónur, dagsettan 20. október 2003, og hins vegar 2.558.676 krónur, dagsettan 31. október 2003, samtals 3.468.660 krónur.

Aðalstefndi greiddi 500.000 krónur á meðan á verkinu stóð, 1.000.000 króna í júlí 2003 þegar hann sótti bifreiðina á Selfoss, og 1.000.000 króna í nóvember 2003, eða samtals 2.500.000 krónur.

Eftir að aðalstefnandi sendi aðalstefnda reikning, dagsettan 31. desember 2003, ritaði aðalstefndi aðalstefnanda bréf, dagsett 16. janúar 2004, þar sem hann mótmælti reikningnum. Jafnframt fór hann fram á að aðalstefnandi afhenti sér varahluti sem teknir höfðu verið úr bifreiðinni við breytingar á henni. Aðalstefnandi svaraði bréfi aðalstefnda með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2004. Lögmaður aðalstefnda ritaði aðalstefnanda bréf, dagsett 18. febrúar 2004, þar sem reikningi aðalstefnanda var enn mótmælt og því lýst yfir að aðalstefndi teldi sig hafa greitt viðgerð aðalstefnanda á bifreiðinni að fullu og jafnframt var áskilinn réttur til að afla mats dómkvadds matsmanns á viðgerðinni. Einnig var gerður áskilnaður um endurgreiðslu ef tilefni væri til með hliðsjón af mati dómkvadds matsmanns. Lögmaður aðalstefnanda krafði aðalstefnda um greiðslu með innheimtubréfi, dagsettu 6. júní 2004.

Hinn 16. apríl 2004 var, að kröfu aðalstefnda, Þórarinn Guðmundsson, bifreiðasmíðameistari, dómkvaddur til að meta umfang verksins og eðlilegt gjald fyrir það. Matsgerð var lokið 15. september 2004.

Aðalstefnandi krefur aðalstefnda um eftirstöðvar endurgjalds fyrir vinnu við bifreiðina. Aðstefndi heldur því fram að aðalstefnandi hafi gert tilboð í verkið, en því er hafnað af hálfu aðalstefnanda. Aðalstefndi heldur því fram að hann hafi þegar ofgreidd aðalstefnanda, hvort sem miðað sé við tilboð eða við eðlilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem látin var í té, og hefur gagnstefnt til endurgreiðslu.

 

Aðalsök

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda

Aðalstefnandi kveður Gunnar Egilsson, framkvæmdastjóra og aðaleiganda aðalstefnanda, strax hafa gert aðalstefnda grein fyrir því að bifreiðin væri sérstök og ekki væri vitað til þess að sambærilegri bifreið, af þessari tegund, hefði áður verið breytt fyrir 44 tommu hjólbarða hérlendis.

Aðalstefndi hafi ákveðið óskað eftir tilboði í breytingu með loftpúðafjöðrun og hásingu, en aðalstefnandi hafi færst undan og tjáð honum að af framangreindum ástæðum kæmi ekki til mála að gera tilboð. Aðalstefnanda hafi ekki verið gefið svigrúm til þess að kanna undirvagn bifreiðarinnar að neinu ráði né framkvæma neinar mælingar og útreikninga, enda hafi aðalstefndi verið í stuttu stoppi á Selfossi í það skiptið og hafi reyndar verið óljóst á þeim tímapunkti hvaða ákvörðun aðalstefndi tæki í sínum vanda.

Aðalstefnandi hafi þó, í síðari samtölum aðila, tjáð aðalstefnda hvað hann gæti ímyndað sér að breyting miðað við hásingu og loftpúða myndi kosta og gefið upp töluna eina milljón til tólfhundruð þúsund krónur sem áætlun og hafi þá haft í huga reynslu sína af breytingum á öðrum bifreiðum frá bandarískum framleiðendum, Ford og Dodge.

Aðalstefndi hafi síðan kosið að eiga viðskipti við aðalstefnanda, þrátt fyrir að ekkert fast tilboð hefði verið gert í verkið.

Í apríl 2003 hafi vinna hafist við bifreiðina. Fljótlega hafi komið í ljós, annars vegar, að undirvagn hennar var talsvert frábrugðinn undirvögnum annarra bandarískra bifreiða. Hins vegar að breyting Breytis ehf. var farin að gefa sig verulega og ýmsir brestir og sprungur komnar í burðarvirkið auk þess sem breytingin hafði ekki verið vel unnin.

Meðan á verkinu stóð hafi aðalstefndi óskað eftir að aðalstefnandi ynni ýmis viðbótarverk. svo sem breytingu á ýmsum atriðum sem Breytir ehf. hafði ekki unnið við og í sumum tilvikum unnið við en ekki klárað. Megi sérstaklega nefna sjálfvirkt stýrikerfi fyrir loftpúðafjöðrun, sem sé tímafrekt og sérstaklega vandasamt verkefni og sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi.

Aðalstefnandi hafi haldið nákvæmar tímaskýrslur yfir verkið og haldið vel utan um alla efnisnotkun til verksins.

Aðalstefndi, sem sé vélfræðimenntaður með þekkingu á járni og járnavinnu, hafi margoft komið til Selfoss á verkstæði aðalstefnanda á meðan á framkvæmdum stóð og hafi gert sér grein fyrir byggingarlagi bifreiðarinnar. Hann hafi gert sér grein fyrir að breyting Breytis ehf. var að skapa stefnanda mikla erfiðleika og hann gat gert sér grein fyrir því að verkið var talsvert umfangsmeira en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir.

Aðalstefndi hafi orðið þess áskynja að röskun varð á viðskiptaáætlunum stefnanda fyrir það hversu verkið var umfangsmeira af framangreindum ástæðum. Hafi hann séð að stefnandi varð að fara þá leið að færa yfirbyggingu niður, þ.e.a.s. nær grind, og þar með bakfæra fyrri breytingu, og síðan að undirbyggja stífufestingar og loftpúðasæti þannig að bifreiðin næði eðlilegri hæð og svigrúm hjóla og fjöðrunar væri fullnægjandi. Hafi aðalstefndi gert sér grein fyrir, að hefðu púðar og hásing verið sett undir bifreiðina strax eftir að fyrra fjöðrunar og burðarvirki hafði verið fjarlægt, hefði bifreiðin orðið allt of há.

Aðalstefndi hafi samþykkti þá leið sem farin var, enda hafi það verið staðfest með mati dómkvadds matsmanns, að sú leið var sú rétta fyrir þess konar bifreið sem hér um ræðir. Þá komi fram í matsbeiðninni að ekki hafi verið hægt að gera sér grein fyrir nauðsyn þessa fyrr en við upphaf verksins.

Aðalstefnandi kveðst hafa treyst aðalstefnda og afhent honum bifreiðina án þess að greitt væri að fullu fyrir þá þjónustu sem hafði verið látin í té.

Í öllum samskiptum aðalstefnanda, bæði gagnvart aðalstefnda og lögmanni hans og í matsferlinu, hafi aðalstefnandi mótmælt þeirri staðhæfingu aðalstefnda að um tilboðsverk hafi verið að ræða.

Eftir því sem lesa megi úr matsgerðinni, sé framkvæmdaliður vegna vinnu við breytingu við hásingu og loftpúðafjöðrun og breytingu því tengt, efni og vinna, metinn 1.510.080 krónur. Þá sé metinn sérstaklega kostnaður við ýmis aukaverk því tengd sem felist í því að lækka bifreiðina, breytingu á olíutanki og ýmislegt annað 443.360 krónur. Loks sé metinn kostnaður ýmissa aukaverka sem tengist fjöðrun bifreiðarinnar og viðgerðum á afturhluta hennar 1.067.778 krónur.

Lögmaður aðalstefnanda hafi ritað matsmanni bréf, í samráði við lögmann aðalstefnda, þar sem óskað hafi verið eftir nánari útlistunum varðandi verð á hásingu, notkun járns og ýmissa slípihluta. Í svarbréfi breyti matsmaður ekki niðurstöðu mats, en leiðrétti reikningsskekkju sem numið hafi óverulegri fjárhæð. Lögð séu fram í málinu gögn frá tveimur innflytjendum hásinga, sem sýni að verð það sem matsmaður leggi til grundvallar sé of lágt.

Aðalstefnandi kveðst byggja kröfu sína á því að um þjónustukaup hafi verið að ræða. Keypt hafi verið hönnunarþjónusta í tímavinnu, verkið hafi verið unnið í tímavinnu og kaup á hlutum til framkvæmdarinnar verið á útsöluverði með hefðbundnum hætti.

Gunnar Egilsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi aðalstefnanda, hafi áralanga reynslu af breytingum á undirvagni og burðarvirki bifreiða af ýmsum tegundum og hafi rekið eigið breytingaverkstæði í nokkur ár. Auk þess hafi hann verið farsæll akstursíþróttamaður, sem smíðað hafi sitt keppnistæki sjálfur og unnið glæsta sigra.

Aðalstefnandi hafi látið aðalstefnda í té vel unna vinnu í flóknu tæknilegu verkefni sem standist gæðakröfur og öryggiskröfur reglugerðar bæði hvað varði hönnun og útfærslu. Um hafi verið að ræða verkefni sem hafi verið óvenjulegt að því leyti að unnið hafi verið við tegund bifreiðar, sem ekki séu fordæmi fyrir að hafi áður verið á Íslandi, og hins vegar hafi verið fengist við endurvinnu á breytingu sem mistekist hafði hjá kollega aðalstefnanda. Aðalstefnandi vekur athygli á því að aðalstefndi hafi lýst því yfir í matsferli að breytingin hefði tekist vel og að hann væri ánægður með bifreiðina.

Með aðalkröfu krefst aðalstefnandi greiðslu samkvæmt útskrifuðum reikningum samtals að fjárhæð 3.468.660 krónur. Bendir hann á að hinn dómkvaddi matsmaður hafi að verulegu leyti staðfest í matsgerð reikninga hans. Helstu frávik séu fjöldi vinnustunda og verð pr. klukkustund.

Aðalstefnandi telur að viðmiðun matsmanns, hvað varðar tímagjald, sé röng. Meðalverð fyrir unna klukkustund á breytingaverkstæðum sé ekki rétt viðmiðun í máli þessu. Aðalstefnandi sé á meðal þeirra fremstu í þessum atvinnugeira á Íslandi bæði hvað varði hönnun og framkvæmd og einstaklega góð reynsla sé hjá björgunarsveitum, einstaklingum og verktökum á bifreiðum sem hann hafi framkvæmt breytingar á, bæði hvað varði virkni og bilanatíðni. Reynsla framkvæmdastjórans og þekking hafi komið að góðum notum við framkvæmdina.

Þá hafi verkefni það sem mál þetta snúist um verið óvenjulegt og einstaklega erfitt viðfangs þar sem það hafi falið í sér nýja hönnun á burðarvirki að verulegu leyti þar sem engir uppdrættir eða teikningar hafi legið fyrir. Útreiknað meðalverð klukkustundar á breytingaverkstæðum sé einfaldlega af þessum ástæðum ekki rétt viðmiðun. Verð útseldrar klukkustundar á verkstæði stefnanda, á þeim tíma sem breytingin var framkvæmd, 4.482 krónur, hljóti að teljast sanngjarnt.

Þá er því haldið fram, að sá fjöldi vinnustunda sem tíundaður sé í reikningi hans, 498 alls, sé sá stundafjöldi sem verkefnið tók. Hann hafi vandað vinnu sína og talsverður tími hafi farið í vangaveltur, mælingar og áætlanagerð, sem erfitt sé fyrir matsmann að greina, vel hafi verið staðið að verki og engum tíma hafi verið sóað.

Varðandi önnur atriði í matsgerðinni en tímafjölda og tímagjald, sé vísað til samantektar hans á dómskjali nr. 5. Aðalstefnandi telur vera eðlilega þá fjárhæð sem krafið sé um vegna hásingar og driflæsingar í hásinguna. Hann telur að niðurstaða mats sýni of lága fjárhæð og að matsmaður hafi ekki með fullnægjandi hætti gert grein fyrir á hvaða forsendum sé byggt, þrátt fyrir óskir þar um. Aðalstefnandi leggi fram gögn sem styðji þá fjárhæð sem fram komi í reikningi hans. Aðalstefnandi gerir athugasemdir við niðurstöðu matsgerðar hvað varðar notkun á járni í stífur, púðasæti o.fl. og telur magn vanmetið í matsgerðinni sem og verð. Þá gerir hann athugasemdir við að magn og verð á slípi- og skurðarskífum, borum, suðuvír o.fl. sem sé stórlega vanmetið í matsgerð og telur réttilega krafið miðað við notkun og markaðsverð í reikningi sínum.

Aðalkrafa aðalstefnanda sé þannig reiknuð:

 

Skv. reikningi nr. 126

Kr.

909.984.-

Skv. reikningi nr. 136

1.558.676.-

Samtals

Kr.

3.468.660.-

Innborganir (500.000 +1.000.000 + 1.000.000)

2.500.000.-

Mismunur, aðalkrafa

Kr.

968.660.-

 

Varakrafa byggist á því að stuðst sé við niðurstöðu matsmanns eins og unnt sé að lesa hana í ljósi þess að röng forsenda hafi verið gefin matsmanni um að um tilboðsverk hafi verið að ræða. Byggt sé á þeim forsendum sem fram komi í matsgerðinni með fyrirvara um athugasemdir á síðara stigi málsins.

Varakrafa aðalstefnanda sé þannig reiknuð:

 

Efni og vinna sbr. lista á bls. 5 í matsgerð

Kr.

1.510.080.-

Efni og vinna sbr. lista á bls. 6 í matsgerð

Kr.

443.360.-

Efni og vinna sbr. lista á bls. 8 í matsgerð, sjá leiðrétt á dskj. 7

Kr.

1.088.414.-

 

 

 

Samtals

Kr.

3.041.854.-

Innborganir

Kr.

2.500.000.-

Mismunur, varakrafa

Kr.

541.851.-

 

Um lagarök er vísað til laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Um vexti vísast til laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001. Um málskostnað vísast til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök aðalstefnda

Aðalstefndi kveðst í mars 2003 hafa leitað tilboða í ísetningu framhásingar, eða framdrifs, ásamt loftpúðum og öllu efni, auk virðisaukaskatts, frá þremur aðilum. Hann hafi fengið munnlegt tilboð frá Breyti ehf. að fjárhæð 900.000 krónur m/vsk og frá Fjallabílum að fjárhæð 1.100.000 - 1.200.000 krónur m/vsk. Í kjölfarið hafi honum verið bent á stefnanda.

Kveðst aðalstefndi þá hafa farið austur á Selfoss með bifreiðina og komið við á verkstæði aðalstefnanda. Hafi hann skýrt aðalstefnanda frá fyrri breytingum á bifreiðinni og lýst því hvaða verk þyrfti að vinna. Aðalstefnandi hafi í kjölfarið skoðað bifreiðina ítarlega og m.a. farið undir bifreiðina og skoðað umræddar breytingar. Að lokinni skoðun hafi aðalstefnandi boðið 1.000.000 króna í að skipta um framhásingu á bifreiðinni, ásamt öllu efni og vinnu. Tilkynnti aðalstefndi þá aðalstefnanda að hann gengi að tilboðinu. Í kjölfarið hafi aðalstefnandi boðið aðalstefnda og konu hans í kaffi á heimili sitt.

Samkvæmt samkomulagi aðila skyldi verkið taka um hálfan mánuð eða um 10 virka daga.

Eftir að hinar umsömdu breytingar á bifreiðinni hófust hafi komið í ljós að lagfæra þyrfti afturhásingu og að sprungur voru komnar í grind hennar. Hafi aðalstefndi þá óskað eftir því að aðalstefnandi annaðist viðgerð á umræddum atriðum. Hafi aðalstefndi í því sambandi farið fram á það við aðalstefnanda að hann lagfærði bifreiðina þannig að hann yrði betri í akstri, en aksturseiginleikar hennar höfðu ekki verið sem skyldi. Ekki hafi verið samið sérstaklega um greiðslu fyrir þennan þátt verksins.

Aðalstefndi heldur því fram að þegar hann hafi sótt bifreiðina til aðalstefnanda 17. júlí 2003. Hafi hann spurt fyrirsvarsmann aðalstefnanda hvernig „peningamálin stæðu” og hafi fyrirsvarsmaðurinn sagt að „þetta væri að mestu leyti komið.” Þá hafi aðalstefndi verið búinn að greiða 1.500.000 krónur m/vsk inn á viðgerðina. Síðar hafi hann greitt 1.000.000 króna til viðbótar. Bendir aðalstefndi á að matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt verð fyrir þær viðbótarbreytingar sem fallið hafi utan við tilboð aðalstefnanda í verkið væri 1.067.781 króna með vsk.

Aðalstefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að aðalstefnandi hafi gert honum bindandi tilboð að fjárhæð 1.000.000 króna í ísetningu á framdrifi ásamt allri vinnu og efni. Tilboð þetta hafi verið munnlegt. Sé á því byggt, að þar með hafi komist á bindandi samningur milli aðila. Í því sambandi er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og skuldbindingargildi tilboða. Samkvæmt sömu meginreglum sé aðalstefnanda óheimilt að krefja aðalstefnda um hærri greiðslur en sem tilboðinu og samningnum nemi.

Aðalstefnandi hafi staðfest í bréfi til aðalstefnda, dagsettu 3. febrúar 2004, að hann hafi gert tilboð í verkið upp á 1.000.000 til 1.200.000 krónur. Síðarnefndu tölunni sé mótmælt sem rangri, en hún hafi ekki verið nefnd í samningaviðræðum aðila.

Aðalstefndi kveðst alfarið mótmæla því, sem fram komi í stefnu, að aðalstefndi hafi verið í „stuttu stoppi“ á Selfossi og þar af leiðandi hafi aðalstefnanda ekki verið unnt að skoða bifreiðina sem skyldi. Þvert á móti hafi aðalstefnandi fengið allan þann tíma sem nauðsynlegur hafi verið til að skoða bifreiðina. Er á það bent að aðalstefnandi hafi haft tíma til þess að bjóða aðalstefnda og konu hans í kaffi eftir að samningar höfðu tekist um verkið.

Því er einnig harðlega mótmælt að aðalstefnandi hafi tilkynnt aðalstefnda um að „bíllinn væri sérstakur og ekki væri vitað til þess að sambærilegum bíl af þessari tegund hafi áður verið breytt fyrir 44 tommu hjólbarða hérlendis.“ Hið rétta sé að aðalstefnandi hafi ekki vikið einu orði að þessu heldur skoðað bifreiðina og undirvagn hennar og strax boðið 1.000.000 króna í umræddar breytingar.

Í þessu sambandi er á það bent að aðalstefndi hafi áður leitað tilboða í verkið frá tveimur öðrum aðilum, Breyti ehf. og Fjallabílum ehf. Aðalstefndi hafi ekki talið æskilegt að ganga til samninga við Breyti ehf. um lagfæringar á fyrri vinnu, sem hafi reynst ófullnægjandi. Tilboð Fjallabíla ehf. hafi hins vegar verið hærra en tilboð aðalstefnanda og því hafi aðalstefndi gengið að tilboði aðalstefnanda. Gefi augaleið að hefði aðalstefnandi ekki fallist á að gera bindandi tilboð í verkið hefði aðalstefndi tekið tilboði Fjallabíla ehf.

Tilboð aðalstefnanda hafi verið gert í ísetningu framdrifs og öllu því sem því fylgi. Utan tilboðsins hafi hins vegar fallið lagfæring á afturhluta grindar bifreiðarinnar og aðrar lagfæringar sem ætlaðar hafi verið til þess að laga aksturseiginleika hennar.

Aðalstefndi kveðst í öðru lagi byggja sýknukröfu sína á því að sú fjárhæð sem aðalstefnandi hafi krafið aðalstefnda um fyrir umrætt aukaverk sé ósanngjörn miðað við eðli þeirrar vinnu sem innt hafi verið af hendi. Aðalstefndi hafi aflað mats dómkvadds matsmanns á sanngjarnri og eðlilegri greiðslu fyrir þennan verkhluta og hafi matsmaður komist að þeirri niðurstöðu, með matsgerð dagsettri 15. september 2004, að sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir þennan þátt verksins væri 1.067.781 króna. Aðalstefnda sé því óskylt að greiða aðalstefnanda hærri fjárhæð fyrir verkið, samkvæmt 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. einnig 37. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup.

Að þessu virtu sé aðalstefndi ekki skuldbundinn til að greiða aðalstefnanda hærri fjárhæð en 2.067.781 krónu fyrir það verk er aðalstefnandi hafi innt af hendi. Aðalstefndi hafi engu að síður greitt aðalstefnanda 2.500.000 krónur fyrir verkið. Sé því ljóst að aðalstefndi hafi greitt stefnanda að fullu þá kröfu sem hann hafi með réttu átt á aðalstefnda. Beri því að sýkna aðalstefnda af kröfum aðalstefnanda.

Á því er sömuleiðis byggt að töluverður aðstöðumunur hafi verið á aðilum við samningsgerðina og því beri að skýra allan vafa um ákvæði samnings aðila aðalstefnda í hag. Ljóst sé að aðalstefnandi sé sérfræðingur í jeppabreytingum og hafi einnig umfangsmikla reynslu af samningsgerð um jeppabreytingar, en aðalstefndi hafi ekki sérþekkingu á þessu sviði.

Aðalstefndi byggir kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar á því að honum hafi verið nauðsynlegt að afla mats dómkvadds matsmanns til að hnekkja því verði sem aðalstefnandi hafi krafist fyrir verkið. Niðurstaða matsmanns staðfesti ótvírætt að sú fjárhæð sem aðalstefnandi hafi krafið aðalstefnda um sé langt umfram eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir verkið. Í ljósi þessa beri því aðalstefnanda að bæta aðalstefnda umræddan kostnað.

Varakröfu sína byggir aðalstefndi á sömu málsástæðum og settar hafa verið fram fyrir aðalkröfu, eftir því sem það á við. Að auki byggir hann á því, að kröfufjárhæð aðalstefnanda sé umtalsvert hærri en talist geti eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir hið umdeilda verk.

Í því sambandi bendir hann á að fjöldi vinnustunda samkvæmt yfirliti aðalstefnanda (dskj. nr. 3.8), verði að teljast ótrúverðugur, en þar komi fram að útseld vinna forsvarsmanns aðalstefnanda vegna vinnu í bifreiðinni sé allt upp í 16 tímar á dag, eða 19 – 19,5 tímar með matar og kaffihléum. Algengast sé að útseld vinna forsvarsmanns stefnanda sé 10 tímar á dag, eða 13 tímar með matar og kaffihléum, oft nokkra daga í röð. Hér beri einnig að líta til þess að forsvarsmaður stefnanda reki bifreiðaverkstæði og sé einnig með ferðaþjónustu sem óhjákvæmilega þurfi að sinna. Séu þessar tímaskráningar aðalstefnanda því dregnar verulega í efa og ljóst sé að ekki verði byggt á þeim við ákvörðun á eðlilegu og sanngjörnu verði fyrir hið umdeilda verk.

Þrátt fyrir að byggt sé að mestu á niðurstöðu dómkvadds matsmanns, telur aðalstefndi að niðurstaðan sé í sumum tilvikum of há, m.a. varðandi efni og fjölda vinnustunda. Því til stuðnings vísar aðalstefndi til gangverðs fyrir sambærileg verk, miðað við annars vegar áætlað verð aðalstefnanda á viðgerðinni í bréfi hans, dagsettu 3. febrúar 2004, og hins vegar tilboð Breytis ehf. og Fjallabíla ehf. Sömuleiðis er á það bent að lagfæringar á afturhluta bifreiðarinnar verði að teljast einfalt smíðaverk sem feli í sér einfalda smíðavinnu og lítinn efniskostnað.

Varakrafan sé einnig reist á því, að aðalstefnandi hafi tjáð aðalstefnda, er hann sótti bifreiðina og hafði þá greitt 1.500.000 krónur inn á verkið, að greiðslum fyrir verkið væri að mestu leyti lokið. Nánar tiltekið hafi orð stefnanda verið: „þetta er að mestu leyti komið.” Verði að telja, að í þessum orðum aðalstefnanda hafi falist loforð um að eftirstöðvar samningsverðsins, umfram það sem þegar hafði verið greitt, væru ekki háar. Annað hafi komið á daginn þegar aðalstefnandi hafi sent aðalstefnda rúmlega tveggja milljóna króna reikning fyrir eftirstöðvunum.

Þá vísar aðalstefndi til meginreglna kröfuréttar um úrræði vegna vanefnda. Við upphaf verks, í mars 2003, hafi aðalstefnandi lofað aðalstefnda að verkið tæki 10 virka daga. Aðalstefnandi hafi hins vegar skilaði aðalstefnda bifreiðinni 17. júlí 2003 og sé því ljóst að um verulegan afhendingardrátt hafi verið að ræða á verkinu. Vegna þessara vanefnda aðalstefnanda beri honum að veita afslátt af verkinu til að bæta aðalstefnda afnotamissi bifreiðarinnar.

Þrautavarakrafa aðalstefnda byggir einnig á þeim málsástæðum sem raktar hafa verið, eftir því sem við á.

Aðallega er á því byggt, að við ákvörðun á verði fyrir hið umdeilda verk beri að leggja til grundvallar matsgerð dómkvadds matsmanns, Þórarins Guðmundssonar, bifreiðasmíðameistara, dagsetta 15. september 2004. Matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir hin umsömdu verk væri 3.021.221 króna. Nánar tiltekið sundurliðist niðurstaða matsmanns þannig:

 

Ísetning framdrifs með efni og vinnu

kr.

1.510.080,-

Lækkun bifreiðar o.fl.

 kr.

443.360,-

Lagfæring afturhluta bifreiðar

kr.

1.067.781,-

 

 

Samtals kr.

3.021.221,-

 

Byggt er á því að niðurstaða dómkvadds matsmanns sýni eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir hið umsamda verk, sbr. orðalag 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. einnig 37. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Aðalstefnanda sé því óheimilt að krefja aðalstefnda um hærri fjárhæð fyrir verkið.

Óumdeilt sé í málinu að aðalstefndi hafi greitt 2.500.000 krónur inn á verkið, og að frádreginni þeirri fjárhæð sé aðalstefnanda óheimilt að krefja aðalstefnda um hærri fjárhæð en 521.221 krónu.

Máli sínu til stuðnings vísar aðalstefndi til 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. einnig 37. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, með síðari breytingum.

 

Gagnsök

Málsástæður gagnstefnanda

Gagnstefnandi hefur vegna málsins aflað sér matsgerðar dómskvadds matsmanns, Þórarins Guðmundssonar, bifreiðasmíðameistara, sem dagsett er 15. september 2004. Kveður hann niðurstöður matsgerðarinnar sýna, að hann hafi ofgreitt gagnstefnda fyrir vinnu hans við jeppabifreið þá sem máls þetta snýst um. Beri því gagnstefnda að endurgreiða gagnstefnanda það sem gagnstefnandi hafi greitt umfram eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir vinnu gagnstefnda. Sé gagnsakarmálið höfðað til sjálfstæðs dóms um endurkröfuna.

Gagnstefnandi byggir kröfu sína á því að gagnstefndi hafi gert gagnstefnanda bindandi tilboð í ísetningu á framdrifi ásamt allri vinnu og efni að fjárhæð 1.000.000 króna. Tilboðið hafi verið munnlegt en afgerandi. Gagnstefndi hafi sömuleiðis staðfest í bréfi til gagnstefnanda, dagsettu 3. febrúar 2004, að hann hafi gert tilboð í verkið upp á 1.000.000 til 1.200.000 króna. Síðarnefndu tölunni sé mótmælt sem rangri, en hún hafi ekki verið nefnd í samningaviðræðum aðila. Er á því byggt að komist hafi á bindandi samningur milli aðila sem gagnstefnda beri að efna. Í því sambandi er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og skuldbindingargildi tilboða. Samkvæmt sömu meginreglum sé gagnstefnda óheimilt að krefja gagnstefnanda um hærri greiðslur en sem tilboðinu og samningnum nemur.

Því er alfarið mótmælt, sem fram komi í stefnu í aðalsök, að gagnstefnandi hafi verið í „stuttu stoppi“ á Selfossi og þar af leiðandi hafi gagnstefnda ekki verið unnt að skoða bifreiðina sem skyldi. Þvert á móti hafi gagnstefnandi gefið gagnstefnda allan þann tíma sem nauðsynlegur hafi verið til að skoða bifreiðina, auk þess sem að gagnstefndi hafi haft tíma til þess að bjóða gagnstefnanda og konu hans í kaffi eftir að samningar höfðu tekist um verkið.

Því er einnig harðlega mótmælt að gagnstefndi hafi tilkynnt gagnstefnanda um að „bíllinn væri sérstakur og ekki væri vitað til þess að sambærilegum bíl að þessari tegund hafi áður verið breytt fyrir 44 tommu hjólbarða hérlendis.“ Hið rétta sé að gagnstefndi hafi ekki vikið einu orði að þessu heldur skoðað bifreiðina og undirvagn hennar og boðið strax 1.000.000 króna í umræddar breytingar.

Í þessu sambandi er á það bent að gagnstefnandi hafi leitað tilboða í verkið frá tveimur öðrum aðilum, Breyti ehf. og Fjallabílum ehf. Hafi tilboð Breytis ehf. hljóðað upp á 900.000 krónur og Fjallabíla ehf. upp á 1.100.000 krónur. Breytir ehf. hafi annast fyrri breytingar á bifreiðinni og hafi þær reynst ófullnægjandi. Gagnstefnandi hafi því ekki talið æskilegt að ganga til samninga við félagið um lagfæringar á fyrri vinnu. Ljóst sé hins vegar að tilboð Fjallabíla ehf. hafi verið hærra en tilboð gagnstefnda og því hafi gagnstefnandi gengið að tilboði gagnstefnda. Gefi augaleið að hefði gagnstefndi ekki fallist á að gera bindandi tilboð í verkið hefði gagnstefnandi tekið tilboði Fjallabíla ehf.

Fyrrnefnt tilboð gagnstefnda hafi verið gert í ísetningu framdrifs og öllu því sem því fylgi. Utan tilboðsins falli hins vegar lagfæring á afturhluta grindar bifreiðarinnar og aðrar lagfæringar sem ætlaðar hafi verið til þess að laga aksturseiginleika hennar.

Gagnstefnandi byggir á því að sú fjárhæð sem gagnstefndi hafi krafið gagnstefnanda um fyrir umrætt aukaverk sé ósanngjörn miðað við eðli þeirrar vinnu sem innt hafi verið af hendi. Gagnstefnandi hafi aflað mats dómkvadds matsmanns á sanngjarnri og eðlilegri greiðslu fyrir þennan verkhluta og með matsgerð, dagsettri 15. september 2004, hafi matsmaður komist að þeirri niðurstöðu að sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir þennan þátt verksins væri 1.067.781 króna. Sé gagnstefnanda því óskylt að greiða gagnstefnda hærri fjárhæð fyrir verkið, skv. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. einnig 37. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup.

Að þessu virtu sé gagnstefnandi ekki skuldbundinn til að greiða gagnstefnda hærri fjárhæð fyrir hið umsamda verk en 2.067.781 krónu. Gagnstefnandi hafi engu að síður greitt gagnstefnda 2.500.000 krónur fyrir verkið. Það hafi þó verið áður en mat dómkvadds matsmanns lá fyrir. Fyrst þegar niðurstaða matsmanns lá fyrir, hafi hann getað gert sér að fullu grein fyrir, að hann hefði ofgreitt gagnstefnanda. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár beri gagnstefnda því að endurgreiða gagnstefnanda það sem hann hafi greitt umfram skyldu.

Stefnukrafa sé nánar tiltekið mismunur milli þeirrar fjárhæðar sem gagnstefnandi hafi innt af hendi til gagnstefnda og samningsfjárhæðar samkvæmt tilboði gagnstefnanda annars vegar og niðurstöðu dómkvadds matsmanns um verð fyrir hið umsamda aukaverk hins vegar. Stefnukrafa sundurliðast þannig:

            

Greiðslur gagnstefnanda fyrir viðgerðir á bifreiðinni

kr.

2.500.000,-

Ísetning framdrifs með efni og vinnu

- kr.

1.000.000,-

Niðurstaða dómkvadds mats. um verð fyrir aukaverk

 

- kr.

 

1.067.781,-

 

Samtals mismunur til endurgreiðslu:

kr.

432.219

 

Á því sé einnig byggt, að töluverður aðstöðumunur hafi verið á aðilum við samningsgerðina og því beri að skýra allan vafa um ákvæði samnings aðila gagnstefnanda í hag. Ljóst sé að gagnstefndi sé sérfræðingur í jeppabreytingum og hafi einnig umfangsmikla reynslu af samningsgerð um jeppabreytingar, en gagnstefnandi hafi ekki sérþekkingu á þessu sviði.

Gagnstefnandi byggir kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar á því að honum hafi verið nauðsynlegt að afla mats dómkvadds matsmanns til að hnekkja því verði sem gagnstefndi hafi krafist fyrir verkið. Niðurstaða matsmanns staðfesti ótvírætt að sú fjárhæð sem gagnstefndi hafi krafið gagnstefnanda um hafi verið langt umfram eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir verkið. M.a. í ljósi þessa beri því gagnstefnda að bæta gagnstefnanda umræddan kostnað.

 

Málsástæður gagnstefnda

Gagnstefndi mótmælir málavaxtalýsingu gagnstefnanda í aðalsök og gagnsök sem ósannri og villandi.

Kveðst gagnstefndi hafa gefið gagnstefnanda kostnaðaráætlun sem hljóðað hafi upp á 1.000.000 til 1.200.000 krónur og hafi hún verið byggð á þeirri skoðun sem hann hafi haft svigrúm til þess að framkvæma á bifreiðinni, þegar kostnaðaráætlunin hafi verið sett fram. Bifreiðin hafi verið óvenjuleg eins og rakið hafi verið. Það hafi ekki verið aðstæður til þess að gera fast tilboð í verkefnið eins og það hafi legið fyrir, nema framkvæma ýtarlega skoðun á bifreiðinni.

Engar kröfur séu hafðar uppi af hálfu gagnstefnanda í málinu vegna dráttar á verkinu, enda hafi tafir orðið vegna hinnar gífurlegu aukningar á umfangi viðgerðanna sem gagnstefndi hafi staðið frammi fyrir er viðgerð hófst og hafi skapað starfsemi hans mikinn vanda og hafi starfsmenn hans á tímabili þurft að leggja nótt við dag við vinnu við bifreiðina til þess að geta efnt aðrar samningsskuldbindingar sínar gagnvart öðrum viðskiptavinum.

Mótmælt er öllum staðhæfingum um, að forsvarsmaður gagnstefnda hafi ekki gert gagnstefnanda kunnugt um framgang verksins og kostnað. Gagnstefnandi, sem sé sjálfur vélfróður og m.a. með reynslu af suðuvinnu, hafi fylgdist vel með verkinu og framgangi þess og oft komið á staðinn auk þess sem hann hafi gefið fyrirmæli hvað varði einstaka verkliði.

Fullyrðingum um tilvist munnlegs skuldbindandi samnings um verklaun að fjárhæð 1.000.000 krónur er harðlega mótmælt sem ósönnum. Um vísvitandi rangfærslur sé að ræða hjá gagnstefnanda eða misskilning sem felist í því að hann hafi tekið lauslega kostnaðaráætlun sem skuldbindandi tilboð.

Hvort sem gagnstefnandi hafði verið í stuttu stoppi á Selfossi eða ekki, hafi aðstæður verið þannig vegna annarra verkefna á verkstæði gagnstefnda, þá er forsvarsmaður gagnstefnda hafi skoðað bifreiðina, að ekki hafi verið hægt að taka bifreiðina inn á lyftu til að framkvæma nauðsynlega skoðun á henni svo unnt væri að gera tilboð. Þetta hafi gagnstefnandi, sem sé vélfróður, gert sér grein fyrir.

Gagnstefnandi kjósi að una matsgerð hvað varði aukaverk, en ekki að því er varði það sem hann kjósi að skilgreina „innan tilboðs.“

Gagnstefndi telur þá aðgreiningu, sem gagnstefnandi hafi kosið að gera, í raun ekki standast. Um hafi verið að ræða framkvæmd sem unnin hafi verið í samfellu og hafi verkliðir fléttast saman.

Skilgreiningaratriði sé hvað teljist vera „innan tilboðs“ og hvað ekki og þar hafi gagnstefnandi einn komið að málum við samningu matsbeiðni, sem varði grundvöll mats. Gagnstefnandi hafi í raun, án samráðs við gagnstefnda, sjálfur skipt reikningnum upp.

Því er mótmælt, að niðurstaða matsgerðar staðfesti ótvírætt að sú fjárhæð sem gagnstefndi krefur um „sé langt umfram sanngjarnt verð fyrir verkið.“ Þvert á móti sýni matsgerðin að gagnstefnandi hafi ekki greitt það af verklaunum sem matsmaður telji sanngjarnt og þar vanti talsvert upp á. Horfa verði m.a. til þessa í tengslum við málskostnað.

Gagnstefndi vísar, máli sínu til stuðnings, til laga um lausafjárkaup og laga um neytendakaup. Krafa um málskostnað sé studd við fyrstu málsgrein 130. gr. laga nr. 91/1991 með síðari breytingum.

 

Niðurstaða

             Aðalstefndi og gagnstefnandi, Alfreð Bóasson, óskaði eftir að aðalstefnandi og gagnstefndi, Icecool ehf., tæki að sér að setja framdrif og loftpúða að framan í bifreiðina SB-764, sem er af gerðinni GMC Truckmaster, árgerð 2002. Vinna hófst við bifreiðina í apríl 2003. Bifreiðin hafði verið flutt inn ný frá Kanada í apríl 2002 og stuttu síðar var hún hækkuð upp fyrir 44 tommu dekk. Sú vinna var framkvæmd af Breyti ehf.

             Aðila greinir á um hvort forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda, Gunnar Egilsson, hafi gert aðalstefnda og gagnstefnanda tilboð í verkið. Aðalstefndi og gagnstefnandi heldur því fram að forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda hafi gert tilboð að fjárhæð 1.000.000 króna. Forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda fullyrðir að hann hafi áætlað kostnað 1.000.000 til 1.200.000 krónur eða 80 til 100 vinnustundir. Staðfest er af hálfu aðalstefnanda og gagnstefnda, með bréfi dagsettu 3. febrúar 2004 (sjá fskj. 4 með matsgerð), að forsvarsmaðurinn hafi gert kostnaðaráætlun að fjárhæð 1.000.000 til 1.200.000 krónur. Af hálfu aðalstefnda og gagnstefnanda er því hins vegar haldið fram að aðeins fyrri talan hafi verið nefnd.

Upplýst þykir að forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda  hafi skoðað bifreiðina frekar lauslega í upphafi, þ.e. skoðað undir hana á stæði, en ekki tekið hana upp á lyftu. Þykir ekki skipta máli í þessu sambandi hvort hann hafði tök á því að skoða hana betur í það sinn, eins og aðalstefndi og gagnstefnandi heldur fram, eða ekki. Það sem fór á milli aðila í framhaldi af þessari skoðun var munnlegt og engin vitni að því samtali. Þar sem aðalstefndi og gagnstefnandi byggir á því að bindandi tilboð hafi verið gert, verður að leggja á hann sönnunarbyrði um að svo hafi verið. Ótrúverðugt þykir að gengið sé frá bindandi samningi um jafn stórt verk á svo losaralegan hátt og aðalstefndi og gagnstefnandi heldur fram. Báðir aðilar stunda viðskipti og var því að þessu leyti jafnræði með þeim. Þá hefur aðalstefndi og gagnstefnandi greitt 1.500.000 krónur umfram meint tilboð án fyrirvara eða athugasemda. Þykir aðalstefndi og gagnstefnandi ekki hafa sannað, gegn neitun aðalstefnanda og gagnstefnda, að forsvarsmaður hins síðarnefnda hafi þarna gert bindandi tilboð í verkið.

Aðilar deila um hvort líta beri á framkvæmdina í heild sem eitt verk, eða hvort um tvö verk hafi verið að ræða, það sem upphaflega var beðið um og það sem síðar varð ljóst að þyrfti að framkvæma. Ljóst þykir að það verk sem upphaflega var beðið um varð umfangsmeira en ella hefði verið, vegna þeirra breytinga sem áður höfðu verið gerðar á bifreiðinni. Óumdeilt er að þær breytingar voru ófullnægjandi og nauðsynlegt reyndist að færa þær til baka og endurgera með öðrum hætti. Eins og málum var háttað var einnig nauðsynlegt að lagfæra afturdrif og fjöðrun bifreiðarinnar til þess að hlutföll og aksturseiginleikar yrðu eðlilegir, einnig að gera við skemmdir sem komið höfðu fram, svo sem sprungur í grind. Þykja þessir verkþættir allir svo samtengdir að eðlilegt sé að líta á verk þetta sem eina heild. Hins vegar voru jafnframt nokkrir smærri verkþættir sem bættust við, sem ekki var nauðsynlegt að framkvæma í tengslum við meginverkið, til dæmis að smíða ný gangbretti og vinna við stuðara, en ekki virðist vera ágreiningur um verkbeiðni að þessu leyti. 

             Líta verður svo á að forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda hafi áætlað kostnað við það verk sem upphaflega var beðið um, þ.e. að setja framdrif í bifreiðina með loftpúðum, en verðáætlun virðist ekki hafa verið gerð um það sem nauðsynlegt reyndist að gera umfram það, né um greind aukaverk. Dómurinn telur að ekki verði ætlast til þess, að forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda gerði sér grein fyrir því við fyrstu skoðun, að þeirri breytingu sem gerð hafði verið á bifreiðinni væri jafn ábótavant og raun varð á, og að sú vinna sem hann upphaflega tók að sér yrði mun umfangsmeiri af þeim sökum. Á honum hvíldi hins vegar sú skylda að upplýsa aðalstefnda og gagnstefnanda um þetta strax og tilefni var til og gera honum grein fyrir kostnaðarauka sem af því leiddi, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Aðalstefndi og gagnstefnandi heldur því fram að þetta hafi forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda ekki gert og hvílir sönnunarbyrði þar um á aðalstefnanda og gagnstefnda. Starfsmaður hans, vitnið Magnús Valur Sveinsson, kveðst hafa orðið vitni að samtali aðila þar sem forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda hafi skýrt fyrir aðalstefnda og gagnstefnanda að ekki væri hægt að framkvæma verkið eins og upphaflega hafi verið ráðgert. Ber hann að aðalstefndi og gagnstefnandi hafi sagt að hann hefði ekki vit á þessu og beðið forsvarsmann aðalstefnanda og gagnstefnda um að gera það sem þyrfti að gera. Staðfestir vitnið að forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda hafi talað um að þetta myndi „kosta fullt af peningum.“ Aðalstefndi og gagnstefnandi hafnar því að þessi orðaskipti hafi átt sér stað, en staðfestir hins vegar að rætt hafi verið um að lagfæra þyrfti í kringum afturhásingu. Jafnvel þótt vætti starfsmanns aðalstefnanda og gagnstefnda staðfesti að rætt hafi verið um verkið og að um umtalsverðan kostnað yrði að ræða, þykir aðalstefnandi og gagnstefndi ekki hafa sannað að hann hafi fullnægt þeirri skyldu sinni, að gera aðalstefnda og gagnstefnanda skýra grein fyrir umfangi verksins og hversu mikið það myndi kosta og aflað samþykkis hans fyrir því. Undir rekstri málsins kom fram að aðalstefnandi og gagnstefndi hafi síðar sett viðskiptasamninga sína í formlegri farveg. Á hinn bóginn er upplýst, að aðalstefndi og gagnstefnandi kom oft á verkstæðið á meðan á verkinu stóð. Hann er lærður járnsmiður, og stundar viðskipti. Þrátt fyrir að aðalstefndi og gagnstefnandi hafi ekki sérþekkingu á bifreiðabreytingum, þykir hann hafa mátt gera sér nokkra grein fyrir því að verkið varð umfangsmeira en upphaflega var ráðgert og að vænta mætti að kostnaður við það yrði talsvert umfram upphaflega kostnaðaráætlun. Lét hann engu að síður hjá líða að ganga eftir útskýringum og áætlun um viðbótarkostnað.

             Að beiðni aðalstefnda og gagnstefnanda var Þórarinn Guðmundsson, bifreiðasmíðameistari, dómkvaddur til að meta verkið. Matsgerð hans er dagsett 15. september 2004. Staðfesti matsmaður hana fyrir dómi. Er niðurstaða matsmanns sú, að eðlilegur heildarkostnaður vegna verksins teljist vera 3.021.221 króna. Verð á efni er metið samtals 1.161.729 krónur. Tímagjald er, samkvæmt vætti matsmannsins, miðað við miðgildi hæsta og lægsta tímagjalds á helstu breytingarverkstæðum eða 4.275 krónur. Eðlilegur heildarfjöldi vinnustunda er metinn 435. Matsgerð er ítarleg og fagmannlega unnin og þykir mega hafa hana til hliðsjónar við úrlausn málsins. Henni hefur ekki verið hnekkt með yfirmati.

             Að því er varðar það efni sem keypt var og notað í verkið þykir ekki ástæða til að vefengja það magn sem aðalstefnandi og gagnstefndi gefur upp. Að því er varðar verð á efni verður að líta til þess, að matsmaður tekur fram að hann miði við verðlag í september 2004 og að verð kunni að hafa breyst frá framkvæmdatíma bæði til hækkunar og lækkunar. Ljóst er einnig að framboð og eftirspurn á notuðum hlutum ræður einhverju um verð á hverjum tíma. Verður tilgreindur efniskostnaður aðalstefnanda og gagnstefnda 1.236.634 krónur því tekinn til greina.

Óumdeilt er að verk aðalstefnanda og gagnstefnda hafi verið vel og fagmannlega unnið. Forsvarsmaður hans er ekki lærður bifreiðasmiður, hönnuður eða bifvélavirki, en hann hefur óumdeilanlega mikla reynslu á þessu sviði og af torfæruakstri. Hefur hann getið sér gott orð fyrir vinnu sína við bifreiðabreytingar. Fallast má á með matsmanni að hönnunarvinna teljist vera innifalin í tímagjaldi. Að þessu athuguðu þykir það gjald sem aðalstefnandi og gagnstefndi krefst fyrir vinnustund 4.482 krónur vera innan eðlilegra marka og er fallist á að leggja það til grundvallar.

             Að því er varðar mat á vinnustundum, verður að líta til þess, að reynsla forsvarsmanns aðalstefnanda og gagnstefnda af bifreiðabreytingum hefði átt að leiða til þess að hann áttaði sig fljótlega á þeim vanda sem fyrra verk Breytis ehf. skapaði og á því að bakfæra þyrfti það sem þar var unnið. Hann bar og ábyrgð á því að gera aðalstefnda og gagnstefnanda glögga grein fyrir þessu, eins og að framan greinir. Ekki þykir sannað að hann hafi gert það á fullnægjandi hátt. Þykir hann af þessum ástæðum verða að bera sjálfur nokkurn halla af því hvernig staðið var að hans eigin verki í upphafi, og þar með að hluti þess nýttist ekki. Fallast má á að um talsverða hönnunarvinnu hafi verið að ræða. Við mat á þeim tíma sem farið hefur í hönnun verður á hinn bóginn að líta til þess, að þó að bifreiðategund þessi hafi verið sjaldgæf hér á landi á þeim tíma, var hún ekki gerólík öðrum GMC og Chervolet bifreiðum sem hér voru fyrir, og að síðar hafa verið fluttar inn samskonar bifreiðar. Forsvarsmaður aðalstefnanda og gagnstefnda nýtur og í starfi sínu þeirrar reynslu sem hann fékk af þessu verki. Með vísan til þessara athugasemda þykir rétt að lækka tímafjölda samkvæmt matsgerð í 383 klukkustundir.

             Þegar allt það er virt sem hér að framan hefur verið rakið, er það niðurstaða dómsins að sanngjarnt heildarendurgjald fyrir verkið teljist 2.953.240 krónur, sem sundurliðast þannig: efni 1.236.634 krónur, vinna 1.716.606 krónur. Aðalstefndi hefur þegar greitt 2.500.000 krónur og skal hann því greiða aðalstefnanda mismuninn 453.240 krónur, auk dráttarvaxta svo sem krafist er og nánar greinir í dómsorði.

             Með vísan til framangreindrar niðurstöðu í aðalsök er gagnstefndi sýknaður af kröfum gagnstefnanda.

             Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að aðilar skipti með sér matskostnaði og skal aðalstefnandi greiða aðalstefnda 91.860 krónur vegna hans, en að öðru leyti skal hvor aðili bera sinn kostnað af málinu.

             Dóm þennan kveður upp Hjördís Hákonardóttir, dómstjóri, ásamt meðdómendunum Hafsteini Hafsteinssyni, rennismíðameistara, og Jóni Hjalta Ásmundssyni, vélaverkfræðingi.

 

D ó m s o r ð

Aðalstefndi, Alfreð Bóasson, skal greiða aðalstefnanda, Icecool ehf., 453.240 krónur, auk dráttarvaxta, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 31. janúar 2004 til greiðsludags.

Gagnstefndi, Icecool ehf., skal vera sýkn af kröfum gagnstefnanda, Alfreðs Bóassonar.

Aðalstefnandi skal greiða aðalstefnda 91.860 krónur upp í matskostnað. Málskostnaður fellur að öðru leyti niður í aðalsök og gagnsök.