- Opinberir starfsmenn
- Lögreglumaður
- Þagnarskylda
- Brot í opinberu starfi
- Refsiákvörðun
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2016. |
Nr. 279/2015.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari) gegn Gunnari Scheving Thorsteinssyni (Ólafur Garðarsson hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Lögreglumaður. Þagnarskylda. Brot í opinberu starfi. Refsiákvörðun.
G var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa sent tölvuskeyti til tilgreinds manns með nafni og lýsingu á 13 ára gömlum dreng sem G hafði haft afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður auk upplýsinga um ástæðu afskiptanna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 22. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 bæru lögreglumenn þagnarskyldu um þau atvik sem þeim yrðu kunn í starfi sínu eða vegna starfsins og leynt ættu að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Tæki þetta meðal annars til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt og sanngjarnt væri að leynt færu. Talið var að upplýsingar um nafn, aldur, búsetusvæði og andlegt ástand 13 ára drengs sem og tilgreining á ástæðu afskipta G af piltinum féllu ótvírætt þar undir. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G hafði ekki áður hlotið refsingu, hann hefði aðeins greint einum manni frá upplýsingunum og brotið væri ekki stórfellt. Samkvæmt því og með hliðsjón af 74. gr. almennra hegningarlaga var G ekki gerð refsing í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt 2. lið ákæru og dæmdur til refsingar.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, til vara að honum verði ekki gerð refsing en að því frágengnu að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Verði ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök, krefst hann málsvarnarlauna til handa skipuðum verjanda sínum úr ríkissjóði, en að öðrum kosti er ekki krafist málsvarnarlauna.
Ákærða er gefið að sök að hafa í starfi lögreglumanns brotið gegn þagnarskyldu með því að hafa með tölvuskeyti sent tilgreindum manni lýsingu á 13 ára gömlum dreng, sem hann nafngreindi og skýrði frá ástæðu afskipta lögreglu af drengnum. Er brotið talið varða við 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í ákæru var ákærði einnig borinn sökum um annað brot í starfi, sem var talið varða við 139. gr. almennra hegningarlaga, en fyrir héraðsdómi féll ákæruvaldið frá þeim lið ákæru.
Ágreiningslaust er að ákærði var við lögreglustörf er hann fékk þær upplýsingar sem að ofan greinir og lét þær í té. Við mat á því hvort háttsemi ákærða verði felld undir 136. gr. almennra hegningarlaga verður litið til efnisreglna sem gilda um starfsskyldur hans, en samkvæmt 22. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 bera lögreglumenn þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfsins og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Tekur þetta meðal annars til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt og sanngjarnt er að leynt fari. Upplýsingar um nafn, aldur, búsetusvæði og andlegt ástand 13 ára gamals drengs, sem ákærði fékk vitneskju um í starfi sínu sem lögreglumaður og hann hafði afskipti af, sem og tilgreining ástæðu afskiptanna, falla ótvírætt undir upplýsingar um einkahagi manna sem eðlilegt og sanngjarnt er að fari leynt. Upplýsingar þessar gaf ákærði af ásetningi og skiptir þá að öðru leyti engu hvort hann hafi um leið búið yfir ásetningi til að brjóta með þeirri háttsemi gagngert gegn 136. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framangreindu hefur ákærði með þeirri háttsemi sem greinir í öðrum lið ákæru brotið gegn því lagaákvæði og verður sakfelldur fyrir hana.
Líta verður til þess að ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu og að hann greindi aðeins einum manni frá þeim upplýsingum er urðu tilefni ákæru. Það brot sem hann hefur verið sakfelldur fyrir er ekki stórfellt. Samkvæmt framangreindu og með hliðsjón af 74. gr. almennra hegningarlaga verður ákærða ekki gerð refsing í máli þessu.
Fyrir Hæstarétti hefur ákæruvaldið ekki krafist endurskoðunar á ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, Gunnari Scheving Thorsteinssyni, er ekki gerð refsing í máli þessu.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 31.179 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2015
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 9. júlí 2014, á hendur:
,,Gunnari Scheving Thorsteinssyni, kennitala [...], Brávallagötu 14, Reykjavík,
Fyrir neðangreind brot í opinberu starfi, sem lögreglumaður hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu:
- Með því að hafa á tímabilinu 7. október 2007 til 16. nóvember 2013 flett upp nöfnum 45 kvenna í málaskrárkerfi lögreglunnar og skoðað þar upplýsingar um konurnar, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hans sem lögreglumanns, og þannig misnotað stöðu sína í því skyni að afla sér upplýsinga um konurnar.
Telst þetta varða við 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
- Með því að hafa mánudaginn 20. ágúst 2012, sent tölvuskeyti á samskiptasíðu (e. Facebook), til A, kennitala [...], með upplýsingum sem leynt áttu að fara, en ákærði sendi A nafn og lýsingu á 13 ára gömlum dreng sem ákærði hafði afskipti af í starfi sínu sem lögreglumaður, auk upplýsinga um ástæðu afskiptanna.
Telst þetta varða við 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Undir dómsmeðferð málsins féll ákæruvaldið frá 1. lið ákæru.
Verjandi ákærða krefst sýknu og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Ákæruliður 2
Ákærði neitar sök. Hann kvað atburðinn sem í ákæru greinir hafa átt sér stað á menningarnótt. Hann hafi verið einn við störf á lögreglubíl er tilkynnt var um ungmenni sem átti við andlega erfiðleika að stríða og hafi viðkomandi ráðist á maraþonhlaupara við marklínu í maraþonhlaupinu. Ákærði kvaðst hafa verið næstur þessum stað og farið á vettvang. Þá hafi komið í ljós að pilturinn, sem um ræðir, átti erfitt og afi hans og amma hafi reynt að halda honum. Ákærði hefði þá komið þeim til aðstoðar en pilturinn náð að skalla ákærða í andlitið auk þess að hrækja á hann. Lögreglumaður á frívakt kom þá til aðstoðar og lýsti ákærði þessu. Pilturinn var fluttur á brott. Síðar þennan dag hafi ákærði verið í forgangsakstri á lögreglubifreið á leið í útkall er ekið var inn í hlið lögreglubifreiðarinnar. Dagurinn hafi þannig verið erfiður og lýsti ákærði þessu. Er ákærði kom á lögreglustöðina til að bóka þessi mál hafi hann rætt við A, trúnaðarvin sinn. Ákærði lýsti því að hann hefði verið í nokkru uppnámi en greint A frá því á Facebook að hann hefði orðið fyrir árás. Hann hefði ekki lýst samskiptum sínum við piltinn og hann hefði ekki rætt lögregluafskiptin af honum. Ákærði hefði aðeins greint frá því að hann hefði orðið fyrir árás andlega vanheils einstaklings sem hann nafngreindi. Ákærði kvað sér vel ljóst kvað fælist í þagnarskyldu lögreglu en við nám í lögregluskólanum hafi verið fjallað um það að lögreglumenn verði að geta treyst og rætt við fjölskyldu og trúnaðarvini um mál eins og ákærði kvaðst hafa gert í þessu tilviki. Hann hafi þannig talið sér heimilt að ræða við trúnaðarvin sinn um það sem hann hafði orðið fyrir, þ.e. árás, en í samskiptum við A hafi ekki komið fram að hann hafi verið við lögreglustörf. Hann hafi þannig ekki haft ásetning til að deila upplýsingum um lögreglustörf sín. Hann kvað aldrei hafa hvarflað að sér að það gæti verið andstætt lögum að greina A frá þessu og það sé ekki í samræmi við þá kennslu sem hann hlaut í lögregluskólanum og hann hafi aldrei heyrt að lögreglumenn væru ákærðir fyrir eitthvað þessu líkt. Ákærði kvað A lengi hafa unnið með þroskaheftum einstaklingum og fólki sem eigi við andlega fötlun að stríða. Hann lýsti starfi A og því að hann taldi ákveðinn snertiflöt á starfi þeirra en A væri einnig bundinn trúnaði vegna starfs síns. Hann kvað ekkert hafa komið fram í samskiptum þeirra A sem eðli máls samkvæmt ætti að fara leynt eða varðaði persónulega hagsmuni piltsins sem um ræðir eða um málefni lögreglunnar. A hefði greint sér frá andlegri líðan piltsins sem um ræðir og hafi ákærði því ákveðið að hvorki kæra né krefjast bóta vegna atviksins í miðbænum. Ákærði kvaðst ekki telja að hann hafi með þessu gerst brotlegur við lagaákvæðið sem í ákæru greinir.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hann greindi A, trúnaðarvini sínum, frá atviki sem hann varð fyrir þennan dag. Ekki kemur fram í samskiptunum við A að ákærði hafi verið við lögreglustörf er atburðurinn átti sér stað. Ákærði kvað ekki hafa hvarflað að sér að það gæti verið andstætt lögum að greina A frá þessu, það væri hvorki í samræmi við þá kennslu sem ákærði hlaut í lögregluskólanum né hafi hann heyrt að lögreglumenn væru ákærðir fyrir eitthvað þessu líkt. Ákærði kvaðst þannig í raun hafa rætt við A um persónuleg mál sín en upplýsingarnar sem hann fékk frá A um þroska piltsins sem um ræðir urðu til þess að ákærði aðhafðist ekki frekar í málinu.
Að öllu ofanrituðu virtu er það mat dómsins að ákærði hafi ekki, með tölvuskeytinu til A, raskað neinum þeim hagsmunum sem 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga er ætlað að tryggja. Ákærði hafi því verið í góðri trú er hann sendi A tölvuskeytið sem um ræðir. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 3.999.930 króna málsvarnarlaun Garðars St. Ólafssonar héraðsdómslögmanns en þóknunin er fyrir vinnu lögmannsins undir rannsókn málsins og dómsmeðferð og hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá greiði ríkissjóður verjandanum 11.600 krónur í aksturskostnað.
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Gunnar Scheving Thorsteinsson, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin 3.999.930 króna málsvarnarlaun Garðars St. Ólafssonar héraðsdómslögmanns og 11.600 krónur vegna aksturskostnaðar verjandans.