Hæstiréttur íslands

Mál nr. 571/2010


Lykilorð

  • Kynferðisbrot


Fimmtudaginn 19. maí 2011.

Nr. 571/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

settur vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Gizur Bergsteinsson hdl.)

Kynferðisbrot.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því hafa á tilteknu árabili haft í frammi kynferðislega háttsemi gagnvart dóttur sinni A og um leið notfært sér hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka. Með vísan til mats héraðsdóms á sönnunargildi framburðar A og bræðra hennar um atvik málsins og þar sem kvenskoðun læknis gaf til kynna A hefði ekki haft samfarir á því tímabili sem A bar brotin hefðu átt sér stað var X sýknaður. Matsgerð dómkvaddra kvensjúkdómalækna sem skoðuðu A eftir héraðsdómur féll, og lagðar voru fyrir Hæstarétt, þóttu ekki geta hnekkt áliti þess læknis sem áður hafði skoðað A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2010. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærða eru í máli þessu gefin að sök kynferðisbrot gegn dóttur sinni, A, fæddri [...] 1990, með því að hafa á árunum 2005 til 2008 á heimili sínu að [...], haft í frammi nánar tilgreinda háttsemi og um leið notfært sér að hún hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna andlegra annmarka. Var háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, sbr. áður 196. gr. laganna.

Í vottorði I kvensjúkdómalæknis, sem rakið er í héraðsdómi og hún staðfesti fyrir dómi, kom meðal annars fram að hún hafi skoðað A í apríl 2007 en þá hafi meyjarhaft hennar verið órofið og hún verið „þar að auki með streng sem liggur aðeins til vinstri við miðlínu frá fram og yfir að afturveggnum.“ Í apríl ári síðar hafi hún skoðað stúlkuna og þá komið fram að meyjarhaftið væri enn órofið en gæfi ágætlega eftir þegar sett væri upp „lítið speculum“. Er þetta í samræmi við gögn um sjúkrasögu stúlkunnar. Fyrir dómi sagði læknirinn að umræddur strengur hafi verið horfinn við síðarnefnda skoðun, en hún hafi talið við skoðunina í apríl 2007 að stúlkan hafi verið óspjölluð. Strengurinn hafi að hennar mati rofnað, mjög líklega við samfarir, eftir þá skoðun og fram til skoðunarinnar ári síðar, en dæmi séu um að meyjarhaft rofni ekki við ítrekaðar samfarir sé það mjótt og eftirgefanlegt, eins og hafi verið í tilviki A.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms fékk ríkissaksóknari 17. desember 2010 dómkvadda tvo kvensjúkdómalækna til að meta í fyrsta lagi hvort A gæti hafa haft samræði um leggöng á tímabilinu 2002 til 2008 „þrátt fyrir að hafa við skoðun á árinu 2010 reynst vera með órofið meyjarhaft og að hafa við skoðun á árinu 2007 verið með streng yfir meyjarhafti sem talinn er vera eftirstöðvar af himnu.“ Í annan stað var leitað mats á því hvort unnt hafi verið að hafa samræði við stúlkuna á meðan hún var með strenginn á meyjarhaftinu án þess að hann slitnaði og í þriðja lagi hvort „sú himna sem strengurinn stafar frá kunni að hafa horfið smátt og smátt á tímabilinu frá fæðingu A til ársins 2007 og hvort himnan kunni að hafa endurnýjað sig.“ Í matsgerð hinna dómkvöddu manna 29. desember 2010 sagði eftirfarandi um fyrsta matsatriðið: „Skoðendur hafa enga forsendu til að geta sér til um hvenær eða hversu lengi A hafi haft samræði um leggöng eins og beðið er um í fyrsta úrlausnarefni. Því er ekki hægt að segja til um upphaf samræðis.“ Um annað atriðið sagði í matsgerðinni: „Ofangreindur strengur hefur ekki og er ekki nein fyrirstaða samræðis þar sem hann liggur til hliðar og er það teygjanlegur að A upplifir engan sársauka frá honum.“ Um þriðja atriðið sagði þar loks: „Strengur þessi er ennþá til staðar og líklegast að hann hafi verið þar frá fæðingu og er hann hluti af meyjarhafti hennar.“

Ákærði hefur neitað sakargiftum. Héraðsdómur reisti niðurstöðu sína um sýknu meðal annars á framburði A og tveggja bræðra hennar. Eðli máls samkvæmt er sú niðurstaða reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar þeirra þótt það segi ekki berum orðum, en samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður sú niðurstaða ekki endurmetin til sakfellingar ákærða fyrir Hæstarétti. Sýkna héraðsdóms er einnig reist á því áliti I kvensjúkdómalæknis að mjög ólíklegt væri að stúlkan hafi haft samræði áður en skoðun var gerð á henni í apríl 2007, en ætluð brot ákærða voru sem fyrr segir talin framin á árunum 2005 til 2008. Sami læknir skoðaði stúlkuna bæði í apríl 2007 og réttu ári síðar. Í matsgerð hinna dómkvöddu manna var sem áður segir komist að þeirri niðurstöðu að strengur, sem I kvaðst hafa séð yfir meyjarhafti stúlkunnar við skoðun í apríl 2007, hafi enn verið til staðar í desember 2010, gagnstætt því sem fyrrnefndi læknirinn hafi talið við skoðun í apríl 2008. Þetta getur þó ekki eitt og sér hnekkt því áliti læknisins, sem eftir framburði hennar fyrir dómi var ekki reist á þessu atriði einu, að mjög líklegt væri að stúlkan hefði ekki haft samfarir áður en skoðunin í apríl 2007 fór fram. Eins og nánar er vikið að í forsendum héraðsdóms hefur stúlkan borið að brotum ákærða hafi lokið áður en hann tók upp samband við nafngreinda konu fyrir árslok 2006. Samkvæmt framansögðu eru því heldur engin efni til að neyta heimildar 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.

Að gættu því sem að framan segir um að álit I standi óhaggað, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. ágúst 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 23. júní sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara, útgefnu 23. mars 2010, á hendur X, kennitala [...], [...], [...];

„fyrir kynferðisbrot, með því að hafa á árunum 2005 til 2008, á þáverandi heimili sínu að [...], [...], haft 5 til 6 sinnum samræði við dóttur sína, A, fædda [...] 1990, þrisvar sinnum látið hana eiga við sig munnmök og einu sinni haft munnmök við hana.  Við þetta notfærði ákærði sér einnig að A gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegra annmarka.

Telst háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,  sbr. lög nr. 61/2007, sbr. áður 196. gr. laga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Einkaréttarkröfur, endanleg kröfugerð fyrir dómi:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 3.500.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til 19. desember 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags

Dómkröfur skipaðs verjanda ákærða, Arnars Sigfússonar, héraðsdómslögmanns, eru, að ákærði verði sýknaður af refsikröfu og að miskabótakröfu verði vísað frá dómi.  Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun.

I.

1. Málsmeðferð.

Samkvæmt gögnum barst lögreglunni á A kærubréf frá forstöðumanni [...] [...], B, dagsett 19. maí 2009, um að brotið hefði verið kynferðislega gegn stúlkunni A, fæddri [...].  Í bréfinu segir að A eigi við þroskaskerðingu að stríða, en að hún búi ásamt móður sinni, C, og yngri bræðrum, D, fæddum [...], og E, fæddum [...], að [...], á [...].  Nánar segir í bréfinu að skömmu fyrir ritun þess hefðu vaknað grunsemdir um [...] og hefði verið leitað til starfsmanna Barnahúss um að kanna þennan orðróm frekar með könnunarviðtölum.  Viðtölin hafi farið fram nefndan dag, 19. maí 2009.  Segir frá því í bréfinu að í viðtali við A hefði hún m.a. staðhæft að faðir hennar, ákærði X, hefði fyrir u.þ.b. tveimur árum viðhaft kynferðislega háttsemi gegn henni.  Hefði stúlkan greint frá því að ákærði hefði í fimm eða sex skipti haft við sig kynmök, en einnig viðhaft aðra kynferðislega háttsemi og þá nefnt munnmök og að hann hefði látið hana sjúga kynfæri hans í þrígang.  Þessi háttsemi hefði átt sér stað á heimili ákærða að [...] er hún var 16 ára, en síðasta tilvikið af þessum toga hefði gerst er hún var nýlega orðin 17 ára.  Í nefndu bréfi, sem einnig er í samræmi við önnur rannsóknargögn, segir að auk frásagnar stúlkunnar um ætlað kynferðislegt athæfi ákærða hefði hún lýst sams konar athæfi sem hún hefði mátt þola af hálfu afa hennar og föðurbróður í föðurætt, en að hún hafi aftur á móti verið treg til að ræða það málefni sem var tilefni könnunarviðtalsins, [...].

Samkvæmt gögnum hóf lögregla strax rannsókn á ætluðum brotum ákærða og þeirra aðila sem A hafði nefnt sem gerendur í nefndu könnunarviðtali.

Ákærði var handtekinn 20. maí 2009 og færður á lögreglustöð.  Í kjölfarið var gerð húsleit á heimili hans og haldlagðar þar tvær tölvur. Við lögregluyfirheyrslu neitaði ákærði sakargiftum alfarið.  Var hann leystur úr haldi, en auk þess var annarri tölvunni, sem haldlögð var á heimili hans, skilað til sambýliskonu hans.  Hin tölvan var send til rannsóknar hjá tölvu- og rannsóknadeild LRH, en er ekkert klámefni fannst þar var henni einnig skilað.

Að beiðni lögreglustjóra var tekin dómskýrsla af A, þann 9. júní 2009, en einnig af yngri bræðrum hennar, samkvæmt heimildarákvæði 102. gr., sbr. 59. gr., laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Þá var við áframhaldandi lögreglurannsókn og meðferð ríkissaksóknara fyrir útgáfu ákæru aflað nokkurra sérfræðigagna um þroska og heilsufar A, allt frá árinu 2000.

Við þingfestingu þessa máls 7. maí sl. var því beint til ákæruvalds, sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88, 2008, að afla frekari gagna um hagi A, m.a. frá félagsmálayfirvöldum.  Gekk það eftir, en í kjölfarið voru lögð fram gögn kvennadeildar [...], enda lá þá fyrir að stúlkan hafði á árunum 2005 til 2009 endurtekið farið í kvenskoðanir.

Á síðari stigum málsmeðferðar fyrir dómi, m.a. við aðalmeðferð málsins þann 23. júní sl., lagði fulltrúi ákæruvalds fram enn frekari gögn, en þar á meðal voru sjúkradagbækur og vottorð meðferðaraðila hjá Barnahúsi.

Samkvæmt bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 11. júní 2010, höfðaði hann samhliða því sakamáli sem hér er til meðferðar, tvö önnur sakamál á hendur karlkyns ættingjum A vegna ætlaðra kynferðisbrota þeirra gegn henni á árunum 2002 til 2008.

2. Málsatvik.

A.  Samkvæmt gögnum lauk hjónabandi ákærða X og vitnisins C með skilnaði að borði og sæng í júní 1994, en lögskilnaðarbréf sýslumanns var gefið út í maí 1995.  Forsjá barnanna, A og fyrrnefndra tveggja yngri bræðra, kom í hlut C, en hún hélt áfram búsetu sinni á [...] líkt og ákærði.

Eftir skilnaðinn hélt vitnið C heimili fyrir sig og börnin í [...], m.a. í skjóli [...] [...], á [...] [...] í húseign þeirra.  Hefur hún um árabil notið víðtæks stuðnings heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda, m.a. vegna barnanna, sem öll hafa verið greind með þroskaskerðingu.

Samkvæmt gögnum bjó ákærði eftir skilnaðinn í [...] herbergja íbúð í [...], en fluttist fyrri hluta árs 2005 í [...]hús að [...] á [...].  Bjó hann þar í íbúð á [...]hæð, en á [...]hæð hafði hann til umráða [...] svefnherbergi.  Síðla sumars 2005 fluttist bróðir hans, F, ásamt þáverandi konu sinni, einnig að [...], en á [...]hæð eignarinnar hafði þá verið gerð íbúð.  Í maí 2008 fluttist ákærði í íbúð sambýliskonu sinnar í [...], en með þeim höfðu tekist kynni haustið 2006.

Ágreiningslaust er að A fór fyrst eftir skilnað foreldra sinna í reglulega umgengni á heimili ákærða, líkt og bræður hennar.  Á miðju sumri 2004 varð að ráði að hún flyttist alfarið á heimili ákærða og bjó hún hjá honum allt fram á sumar 2007, en þá fluttist hún á ný á heimili móður sinnar og yngri bræðra.  Fór hún eftir það, líkt og yngri bræður hennar, reglulega í umgengni á heimili ákærða og þar á meðal eftir að hann fluttist í íbúð sambýliskonu sinnar í [...] vorið 2008.  Þau samskipti öll munu hafa lagst af þegar nefnt kærubréf [...] [...] barst lögreglu vorið 2009.

B.  Við lögreglurannsókn og meðferð ákæruvalds var aflað nokkurra sérfræðigagna um hagi og heilsufar A.  Þeirra á meðal er mat Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, dagsett 16. október 2000, og matsskýrsla dr. G, sálfræðings, dagsett 24. febrúar 2010.  Þá er á meðal gagna ítarlegt læknisvottorð H heimilislæknis, dagsett 3. desember 2009, en þar er m.a. rakin félags- og sjúkrasaga A á árunum 2002 til 2009.  Á meðal málsskjala eru einnig gögn um stúlkuna sem aflað var eftir þingfestingu málsins fyrir dómi, en þar á meðal eru sérfræðingabréf [...] [...], dagsett 3. febrúar 2003, 27. júní 2006, 30. apríl 2009 og 8. júní 2010, vottorð I kvensjúkdómalæknis, dagsett 15. júní 2010, og læknabréf kvennadeildar [...] á tímabilinu frá 31. mars 2005 til 18. mars 2009.  Loks var lagt fram vottorð J sálfræðings, en hún hafði verið með A í sálfræðimeðferð eftir að mál hennar var kært til lögreglu vorið 2009.

Nefnd sérfræðigögn greina öll frá því að A hafi átt við verulega atferlis- og félagserfiðleika að stríða um árabil.

Í skýrslu sérfræðinga Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá 17. október 2000 er aðstæðum og ástandi A að nokkru lýst.  Fram kemur m.a að heildargreindarvísitala stúlkunnar hafi verið [...], en í niðurstöðukafla segir:

„Prófun nú bendir til vægrar þroskahömlunar með mynstri félags- og tilfinningalegra námsörðugleika.  Nám og aðlögunarfærni er í samræmi við þetta.  Við endurteknar mælingar hafa [...].  Orsök þess er óljós.  Lýst er alvarlegum atferlis- og aðlögunarerfiðleikum, [...].  Þetta er ekki nýr vandi og hefur A hlotið lyfjameðferð vegna þessa.  Ljóst er að A þarfnast sérhæfðs úrræðis í skóla.  Fjölskyldan tekst á við erfiða hluti og því er áframhaldandi stuðningur við hana afar mikilvægur.“  Í skýrslunni kemur fram eftirfarandi greining á A: [...]“

Dr. G, sálfræðingur og sérfræðingur á sviði fatlana, gerði að ósk rannsakara greiningu á A í byrjun árs 2010.  Segir í matsskýrslu hans að stúlkan hafi á grundvelli greindar- og minnisprófa verið greind ofarlega á stigi vægrar þroskahömlunar.

Í vottorði H heimilislæknis frá 3. desember 2009 er lýst högum A, en þar um er m.a. vísað til færslna í sjúkradagbók allt frá árinu 2002.  Segir m.a. frá því í vottorðinu að í ársbyrjun 2002 hafi [...] [...] veitt liðsinni á heimili móður vegna stúlkunnar, þ. á m. varðandi þrif og klæðnað fyrir skólagöngu svo og varðandi skammtímavistun eftir skóla, en að jafnframt hafi verið til umræðu vistun hennar á heimili fyrir fötluð börn.  Þá segir frá því að mjög snemma á skólagöngu stúlkunnar eða allt frá árinu 1998 hafi borið á árásarhneigð hennar í garð samnemenda og kennara.  Er þessu ástandi A m.a. lýst í færslu læknisins frá 27. september 2002, en vottorðsgjafinn skráir síðan að hann hafi vegna þessa lagt til að kallað yrði til teymi þeirra aðila sem hefðu haft afskipti af stúlkunni.  Nefnir hann þar til barnalækni, barna- og unglingageðlækni, skólastjóra, umsjónarkennara og sérfræðinga félagsþjónustu.  Fram kemur að í októbermánuði þetta ár hafi verið haldinn fundur þessara aðila og hafi þá [...] [...] og barnaverndarnefnd verið falin lausn á málefnum stúlkunnar.  Í vottorðinu segir að lyktir hafi að lokum orðið þær að í byrjun árs 2006 hafi A farið í sérskóla.  Hafi skólaganga hennar gengið misvel, m.a. vegna lýstra skapgerðargalla, en einnig hafi hún haft miklar fjarvistir í skóla vegna ýmiss konar veikinda, ekki síst á vorönn 2007, en hún hefði þá um haustið hafið skólagöngu í sérdeild framhaldsskóla.

Í vottorði heimilislæknisins er sjúkrasaga A að nokkru rakin.  Segir m.a. frá því að vegna fyrrnefndrar árásarhneigðar hefði hún mjög ung verið innlögð á geðdeild í þeim tilgangi að finna rétta lyfjameðferð, en í framhaldi af því hafi hún notið stuðnings barna- og unglingageðlæknis.  Greint er frá sjúkrahúslegum stúlkunnar á [...], á [...] árið 2001, á [...] í Reykjavík árið 2002 og loks á [...], m.a. árið 2007.  Tekur læknirinn það fram í vottorði sínu að hann hafi í nóvember 2007 lagt það til, í samráði við geðlækni, að A fengi vaktaða þjónustuíbúð eða herbergi fyrir geðfatlaða.

Í vottorði heimilislæknisins er frá því greint að A hafi oft kvartað um verki í kviði og að hún hafi af þeim sökum farið í rannsókn á árinu 2008.  Þá er sagt frá því að A hafi verið með getnaðarvörn, en að hún hafi í maí 2007 eftir ráðgjöf farið sjálfviljug í ófrjósemisaðgerð, en um þessa ráðstöfun er m.a. vísað til fyrrnefnds bréfs [...] [...] frá 27. júní 2006.  Í niðurlagi vottorðsins segir læknirinn að honum hafi fyrst haustið 2009 verið kunnugt um að grunsemdir hefðu verið um að A hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni.

Í fyrrnefndum gögnum [...] [...] er aðstæðum og högum A og fjölskyldu hennar að nokkru lýst.  Í vottorði félagsráðgjafa frá 3. febrúar 2003 segir m.a.:  „Systkinin eru öll með viðvarandi þroska- og hegðunarvanda og hafa þau af þeim sökum fengið stuðningsúrræði, bæði inni á heimilinu, í skólanum og í formi liðveislu, stuðningsfjölskyldu og skammtímavistun. Sú þjónusta sem sett var upp á heimilinu var fyrst og fremst skipulögð út frá elsta barninu, A … .  Undanfarna mánuði hefur hegðun A heima fyrir farið versnandi.  Lýsir hegðunarvandinn sér einkum í því að A fer ekki eftir reglum sem á heimilinu gilda og hún fær mjög bráð skapofsaköst.  Hún lendir í útistöðum við móður sína og bræður, þó sérstaklega þann yngri.  Kemur oftast til handalögmála og þá bíta, klóra og lemja systkinin hvort annað.  A ræðst einnig á dauða hluti sem á vegi hennar verða er hún reiðist.  Mikið álag er á heimilinu og á köflum er ástandið algjörlega óviðunandi og A óviðráðanleg.“  Í niðurlagi vottorðsins er lagt til að skammtímavistun á sérhæfðu heimili fyrir stúlkuna verði framlengd þangað til varanlegt búsetuform finnst fyrir hana.

C.  Ákærði var yfirheyrður við lögreglurannsókn málsins þann 20. maí 2009 að viðstöddum tilnefndum verjanda, en ákærði hafði fyrr um daginn verið handtekinn á vinnustað sínum.  Ákærði neitaði við yfirheyrsluna sakarefninu alfarið.  Ákærði svaraði spurningum og lýsti aðstæðum og högum dóttur sinnar A og áréttaði m.a. að við skilnað hans og C hefði dóttirin ásamt yngri bræðrum haldið áfram búsetu á heimili móðurinnar, en þau hefðu öll komið til hans í reglulega umgengni.  Ákærði skýrði frá því að A hefði mjög ung verið greind ofvirk og misþroska og af þeim sökum hefði hún þurft að taka inn viðeigandi lyf.  Hann kvað A ætíð hafa haft mikið skap og í raun verið mjög erfiða í öllum samskiptum.  Kvað hann svo hafa verið komið er stúlkan var á fjórtánda ári að móðir hennar hefði í raun verið búin að gefast upp á henni.  Staðhæfði ákærði að A hefði m.a. brotið hurðir og ógnað móður sinni með hnífi á heimili þeirra.  Vegna þessa ástands hefði komið til tals að koma stúlkunni fyrir á heimili óskyldra aðila.  Hann kvaðst hafa verið ósáttur við þessar hugmyndir, enda talið æskilegt að þrettán ára barn fengi að vera hjá foreldrum sínum sem lengst og því talið reynandi að hann tæki við henni.  Kvað hann þetta hafa gengið eftir og A því flust á heimili hans árið 2004, en hann hefði þá búið í [...] í [...], í [...] herbergja íbúð.  Ákærði kvað heimilislíf þeirra feðgina hafa gengið ágætlega miðað við aðstæður og það þrátt fyrir að A hefði á stundum fengið köst, óstjórnleg frekju- og bræðiköst.  Nefndi ákærði sérstaklega að mjög erfiðlega hefði gengið að fá stúlkuna til að þrífa sig og kvaðst hann af þeim sökum stundum hafa þurft að taka á henni til að koma henni í baðið.  Ákærði bar að hann hefði árið 2005 keypt [...] að [...] og í framhaldi af því flust þangað ásamt A, en húseignina hefði hann keypt ásamt F, bróður sínum, og þáverandi mágkonu.  Ákærði kvað bróður sinn hafa flust í húseignina, í kjallarann, þegar þar hafði verið gerð íbúð.  Ákærði staðhæfði að hann hefði nær enga aðstoð þegið hjá opinberum aðilum eða félagsþjónustu við uppeldi A, en kvaðst stundum hafa beðið fyrrnefndan bróður sinn um liðveislu, ekki síst þegar hann þurfti að fara til vinnu snemma á morgnana en A að fara í skólann.  Ákærði kvaðst hafa búið einsamall með A í nefndri húseign.  Hann kvaðst hafa haft stærsta herbergið á [...] sem svefnherbergi fyrir sig, en þar við hliðina hefði A haft eigið herbergi.  Að auki hefðu synir hans haft eitt herbergi til umráða á [...] og bar að það hefði verið [...] svefnherbergi hans.  Ákærði kvað samskipti barna hans hafa gengið áfallalaust fyrir sig þrátt fyrir eðlilegan systkinaríg, ekki síst á milli A og yngsta drengsins.  Vísaði ákærði til þess að þau væru bæði skapmikil og kvaðst hann á stundum hafa þurft að skakka leikinn.  Ákærði staðhæfði að hann hefði aldrei orðið var við að [...].

Við rannsókn lögreglu voru ákærða kynnt að nokkru efnisatriði og þær ásakanir sem dóttir hans A hafði viðhaft í fyrrnefndu könnunarviðtali í Barnahúsi.  Ákærði neitaði kæruefninu, en kvaðst engar eiginlegar skýringar geta gefið á lýsingum hennar, þar á meðal um káf hans á brjóstum, en nefndi helst „... einhverjar mistúlkanir í sambandi við þegar ég þurfti að baða hana, ég veit það ekki.“  Ákærði neitaði því alfarið að hann hefði káfað á kynfærum stúlkunnar, að hafa sleikt þau, að hafa haft samfarir við hana í leggöng og að hafa látið hana sjúga á sér liminn í nokkur skipti.  Ákærði staðhæfði að hann hefði aldrei haft vitneskju um að grunsemdir hefðu á árum áður verið um ætluð kynferðisbrot gegn dóttur hans og bar að slíkt hefði komið algjörlega flatt upp á hann.  Ákærði áréttaði að A hefði flust af heimili hans á árinu [...] og þá farið á ný á heimili móður sinnar.  Bar ákærði að aðdragandi þessara vistaskipta hefði verið sá að stúlkan hefði árin á undan dvalið að hluta til hjá móður sinni á sumrin og þar sem samskipti þeirra hefðu nefnt ár gengið vel hefði móðirin lýst vilja sínum til að reyna að hafa hana hjá sér að nýju.  Ákærði kvað sambúð þeirra mæðgna hafa gengið áfallalaust eða áfallalítið og hefðu vistaskiptin því verið látin haldast.  Ákærði bar að um líkt leyti og þetta gerðist hefði hann tekið upp samband við núverandi sambýliskonu sína, og hefði hann um síðir flust á heimili hennar.

Vitnið C, fædd [...], bar við skýrslugjöf hjá lögreglu þann 10. júlí 2009 að hún hefði fyrst heyrt um ætluð brot ákærða og tveggja ættmenna hans frá börnum sínum, einkum dótturinni A.  Vitnið staðhæfði að það hefði fundið breytingar á A fljótlega eftir að hún fluttist með ákærða í húseign hans að [...].  Vísaði vitnið að því leyti einkum til þess að dóttirin hefði sóst mikið eftir því að koma aftur á heimili hennar og þá ekki síst á kvöldin þegar hún átti að fara að sofa.  Kvaðst vitnið hafa haft grunsemdir um að ekki væri allt með felldu áður en A skýrði frá hinum ætluðu brotum.  Nefndi vitnið í því sambandi að nokkrum árum áður hefði stúlkan ekki viljað fara til föður síns, ákærða, og lýst ótta sínum gagnvart honum vegna skapofsa hans.  Vitnið kvað óskir dótturinnar um vistaskipti sífellt hafa orðið tíðari með tímanum og bar að þegar hún var 17 ára hefði hún smátt og smátt farið að greina frá ætluðu athæfi ákærða.  Vitnið bar að A hefði á nefndu tímaskeiði þurft að leggjast inn á sjúkrahús og staðhæfði að þá hefði hún bugast andlega og tjáð sig um athæfi ákærða.  Nánar aðspurt um frásögn og ásakanir stúlkunnar bar vitnið að hún hefði sagt sér að ákærði hefði káfað á henni þegar hún bjó hjá honum í [...] og að hann hefði einu sinni farið upp á hana, þ.e. haft samfarir við hana þar á heimilinu.  Vitnið staðhæfði að það hefði eftir þessa fyrstu frásögn oft heyrt A skýra frá kynferðislegu athæfi ákærða, en að auki heyrt frásögn hennar um að föðurafi og föðurbróðir hennar hefðu báðir viðhaft líka háttsemi gagnvart henni.  Vitnið bar að stúlkan hefði verið stöðug í lýsingum sínum um nefnt athæfi.

Við lögreglurannsókn málsins var eins og áður var rakið tekin dómskýrsla af stúlkunni A og bræðrum hennar.  Áheyrendur að þeim skýrslutökum voru auk fulltrúa rannsakara, skipaður verjandi, skipaður réttargæslumaður og fulltrúi barnaverndarnefndar.  Þar fyrir utan voru ekki teknar skýrslur á lögreglustigi, aðrar en hér að framan voru nefndar.

II.

Skýrslur fyrir dómi.

A. Ákærði neitaði alfarið sök við þingfestingu, líkt og við aðalmeðferð máls fyrir dómi.  Ákærði lýsti högum og heilsufari dóttur sinnar A og bar að hún hefði mjög ung verið greind misþroska, en hefði að auki átt við geðræn vandkvæði að stríða.  Ákærði lýsti högum dóttur sinnar að öðru leyti með líkum hætti og hann hafði áður gert hjá lögreglu og staðfesti að því leyti efni lögregluskýrslunnar.  Ákærði greindi frá eigin búsetu á árunum 2004 til 2009 með líkum hætti og áður hefur komið fram, en hann kvaðst m.a. hafa búið í [...] í [...]hverfi á árunum 1998 til 2005.  Þann 1. apríl 2005 hefði hann flust í eigið húsnæði að [...].  Ákærði áréttaði að A hefði komið á heimili hans á árinu [...] og lýsti hann aðdraganda þess með sama hætti og hann hafði áður gert hjá lögreglu.  Ákærði bar að dóttir hans hefði flust með honum í [...], en þar hefði hún haft til umráða sérherbergi líkt og synir hans tveir er þeir komu á heimilið í reglulega umgengni.  Ákærði staðhæfði að A hefði verið mjög myrkfælin á yngri árum og af þeim sökum viljað hafa herbergishurð opna og ljós kveikt á nóttunni.  Ákærði bar að vegna þessarar fælni hefði hann á stundum leyft dóttur sinni að koma upp í tvíbreitt hjónarúmið í svefnherbergi hans.  Ákærði bar að rúmið hefði verið gamalt og að brakað hefði í því.  Ákærði kvað synina tvo einnig hafa fengið leyfi til að sofa í rúminu, en bar að þeir hefðu auk þess stundum legið saman á dýnu í herberginu, á gólfinu við hliðina á rúmi hans.  Þá kvað hann systkinin stundum hafa sofið saman í svefnherbergjum sínum á [...] í [...].

Ákærði kvaðst ekki hafa ætlað annað en að A hefði verið sátt við vistina á heimili þeirra í [...], en bar að stundum hefði hún farið í fýlu og þá haft á orði að hún vildi fara aftur til móður sinnar.

Ákærði kvaðst hafa kynnst sambýliskonu sinni, vitninu K, haustið 2006 og staðhæfði að þau hefðu farið að lifa reglulegu kynlífi í desember það ár.  Hann kvað sambýliskonu sína hafa átt eigin íbúð í [...]hverfi, en á fyrstu mánuðum kynna þeirra hefði hún verið við [...] í [...] og haft aðsetur þar að mestu.  Hún hefði flust til [...] í júlímánuði 2007, ásamt [...].  Hann kvað [...] [...] hafa dvalið talsvert á heimili hans í [...] eftir að nefnd kynni hófust.  Ákærði staðhæfði að A hefði oftast sofið ein í eigin herbergi á heimili þeirra, en bar að er verðandi sambýliskona var í heimsókn hefði [...] hennar stundum sofið í herbergi A á [...].  Ákærði áréttaði að sumarið [...] hefði verið ákveðið að A flyttist að nýju á heimili móður sinnar, en helsta ástæða þess hefði verið vilji þeirra [...], en einnig breytingar á vaktafyrirkomulagi í vinnu hans og staðhæfði að sátt hefði verið um vistaskiptin.  Ákærði áréttaði að hann hefði tekið upp eiginlega sambúð með nefndri unnustu í maímánuði 2008, en hann kvaðst þá hafa flust í húseign þeirra [...] í [...]hverfi.

Ákærði bar að dóttir hans, A, hefði ekki fengið leyfi til að koma upp í hjónarúmið eftir að hann fluttist til sambýliskonunnar, en hún hefði haft svefnaðstöðu þar á heimilinu í herbergi [...] sambýliskonunnar.

Fyrir dómi var ákærði ítrekað inntur eftir skýringum á ásökunum dóttur hans, A, sbr. sakarefni ákæruskjals.  Ákærði kvaðst sem fyrr engar skýringar geta gefið og vísaði að því leyti til fyrri orða sinna í yfirheyrsluskýrslu hjá lögreglu.  Því til viðbótar og áréttingar bar ákærði að A hefði a.m.k. á tímabili haft mikinn áhuga á klámi og kynlífi, líkt og synir hans, en þeir hefðu verið með slíkt efni „gjörsamlega á heilanum“.  Ákærði bar að A hefði átt a.m.k. tvo kærasta, en kvaðst ætla að hún hefði ekki lifað kynlífi með þeim.  Vegna þessara samskipta kvaðst hann hafa reynt að uppfræða dóttur sína um kynferðismál, en ætlaði að þar hefði aðeins verið um almenna foreldrafræðslu að ræða.  Eftir yfirheyrsluna hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa rifjað það upp, að um líkt leyti sem A hefði samþykkt ráðagerð móður og móðurömmu sinnar um að fara í ófrjósemisaðgerð hefði hún haldið því fram að hún væri ófrísk eftir ókunnugan karlmann.  Ákærði kvað þessa frásögn dóttur sinnar síðar hafa breyst á þann veg að einhver erlendur maður hefði átt hlut að máli. Ákærði kvað þessa frásögn dóttur sinnar fyrst hafa komið fram árið 2006, og staðhæfði að það hefði verið eftir að hann kynntist sambýliskonu sinni K.  Ákærði staðhæfði að á þessu tímaskeiði hefði dóttir hans haft mikinn áhuga á því að eignast barn.  Ákærði kvaðst ekki hafa lagt trúnað á frásögn dótturinnar, en vegna staðfestu hennar hefði verið afráðið að hún færi í kvenskoðun og hefði þá komið í ljós að meyjarhaft hennar var órofið.

Ákærði staðhæfði að hann hefði aldrei heyrt ávæning um að dóttir hans A hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi.  [...]  Kvaðst ákærði því fyrst hafa lesið um hina ætluðu kynferðislegu háttsemi gegn A í gögnum lögreglu eftir að rannsókn máls þessa hófst vorið 2009.

Fyrir dómi skýrði ákærði frá því að eftir að hann hafði verið látinn laus úr haldi lögreglu í maí 2009 hefði hann farið á fund félagsmálayfirvalda ásamt sambýliskonu sinni.  Kvað ákærði þau hafa gert þetta til að fá frekari upplýsingar um málsatvik og ætlaðar sakir.  Þá kvaðst ákærði í eitt skipti hafa rætt kæruefnið lauslega við dóttur sína A, en staðhæfði að það hefði verið er hún hringdi sjálf í síma hans.  Kvaðst hann hafa innt hana eftir því hvort kæran gegn honum væri komin frá henni.  Ákærði kvað stúlkuna engu hafa svarað og ekki haft vilja til að ræða málefnið, en hann þá látið málið niður falla.  Ákærði kvaðst eftir þetta hafa farið að ráðleggingum og ekki innt dótturina frekar um ásakanir hennar, en að því leyti vísaði hann einnig til þess að hún hefði ekki komið til dvalar á heimili hans eftir að rannsókn lögreglu hófst.

Vitnið A skýrði frá því við upphaf dómskýrslu sinnar hinn 9. júní 2009, að vilji hennar stæði til að skýra frá athæfi ákærða, þ.e. föður síns, en einnig föðurafa og föðurbróður.  Verður frásögn hennar við nefnda skýrslugjöf, en einnig við aðalmeðferð málsins hinn 23. júní sl., rakin hér á eftir, og þá sérstaklega að því er varðar ákærða.

Aðspurð um athæfi ákærða bar A að hún hefði fyrst orðið fyrir kynferðislegu athæfi af hans hálfu er hún var 14 eða 15 ára, en treysti sér ekki til að segja til um hvort að hún hefði þá búið á heimili hans eða móður sinnar.  Staðhæfði hún að ákærði hefði haft samfarir við sig, þ.e. „farið uppá hana“ og bar að hann hefði gert mest af öllum:  „Já og mest F og pabbi og þeir, aðallega þeir þrír, það er engir annar sko, það eru bara þeir í fjölskyldunni.“  Nánar lýsti hún athæfi ákærða þannig:  „Hann fór til dæmis upp á mig ... ég var sextán ára ... ég var að fara að sofa um nóttina eða kvöldið, þá náttúrulega notaði hann tækifærið út af því að ég bað um að fá að sofa hjá honum, bara út af því þú veist að ég var eitthvað þú veist, ekki þú veist að líða vel, þá gerðist þetta.“  Nánar aðspurð kvað hún hið kynferðislega athæfi ákærða hafa hafist er hún bjó hjá móður sinni í [...]hverfi en var í helgarvist hjá honum.  Athæfið hefði þó aðallega átt sér stað eftir að hún hafði haft vistaskipti og bjó hjá ákærða í [...].  Nánar um aldur sinn er atvik gerðust treysti hún sér ekki alveg til að segja til um en sagði:  „Þetta gerist mest þegar ég var sextán ára og svoleiðis.“  Hún kvað ákærða hafa haft samfarir við sig í fimm eða sex skipti, en að auki hefði hann sleikt og nuddað brjóst hennar og sleikt ,,budduna.“  Bar hún að síðastnefnda athæfið hefði ákærði gert í þrjú skipti.  Þá kvað hún ákærða í eitt skipti hafa sett typpið í munn hennar og sagði að það hefði verið ógeðslegt.  Hún kvaðst hafa fundið til í klofinu þegar ákærði fór upp á hana og staðhæfði að í eitt skipti hefði blætt úr henni.  Af frásögn stúlkunnar við aðalmeðferð málsins varð helst ráðið að ákærði hefði viðhaft hina kynferðislegu háttsemi gegn henni, það er samfarir og munnmök, samhliða og þá er hún var í svefnherbergi hans á [...] í [...].  Hún kvað athæfið aðeins hafa gerst á kvöldin, en hún hefði þá verið ein með ákærða í herberginu og hefði herbergishurðin verið lokuð.  Hún kvað ákærða, líkt og föðurafa hennar og föðurbróður, hafa sagt að háttsemin væri eðlileg og bar að þeir hefðu jafnframt haft á orði:  „Margir gera svona“.

Fyrir dómi staðhæfði A að fyrrnefndur föðurbróðir hennar hefði verið sá fyrsti sem hefði viðhaft kynferðislegt athæfi gegn henni, en hún kvaðst þá hafa verið 12 eða 13 ára.  Fyrir dómi kvaðst stúlkan ekki vilja tjá sig um ætlað kynferðislegt samneyti hennar við yngri bræður sína og vísaði til eigin vanlíðunar vegna athæfisins.

A áréttaði að engin vitni hefðu verið að hinu kynferðislega athæfi ákærða og bar að hann hefði aldrei hafa hegðað sér með greindum hætti þegar bræður hennar sváfu í svefnherbergi hans á [...] í [...].  Þeir bræður hefðu haft eigið herbergi þar á hæðinni, en herbergi hennar hefði verið þar [...] [...].  Hún kvaðst hins vegar hafa heyrt frásögn bræðra sinna og sagði um það eftirfarandi:  „ ... ég man eftir eitt skiptinu sögðu bræður mínir hafa heyrt þetta gerast ... það heyrðust hljóð ... heyrðist brak í rúminu.“

A skýrði frá því fyrir dómi að vegna lýsts athæfis ákærða hefði hún á tímabili óttast að hún væri ófrísk.  Staðhæfði hún að er það gerðist hefði núverandi sambýliskona ákærða verið komin til sögunnar.  Vegna ótta við ákærða og orða hans um að hún ætti ekki að segja frá athæfi hans kvaðst hún hafa búið til sögu um að útlendingur hefði sofið hjá henni.

A bar að ákærði hefði hætt hinu kynferðislega athæfi;  „áður en hann eignaðist konuna sína“ og ítrekað aðspurð staðhæfði hún að ákærði hefði ekki áreitt hana kynferðislega eftir að hann kynntist verðandi sambýliskonu, vitninu K, og þá ekki er hún bjó um tíma á [...] landsins.

Fyrir dómi lýsti A ákærða sem mjög skapmiklum manni.  Kvaðst hún í eitt skipti hafa orðið vitni að því að hann barði eldri bróður hennar, en einnig kvaðst hún sjálf í eitt skipti hafa mátt þola barsmíð af hans hálfu.  Kvaðst hún tæplega hafa þolað ákærða og því reynt að forðast hann.  Hún kvaðst alla tíð hafa verið ósátt við búsetu sína hjá ákærða, m.a. vegna nefnds athæfis og skapofsa hans, en nefndi að auki sem ástæðu fyrir því að hún viljað fara af heimili hans að hún hefði ekkert haft þar við að vera.  Vegna þessa alls kvaðst hún hafa lýst yfir vilja til að hafa vistaskipti og búa á heimili móður sinnar á nýjan leik.  Hún kvaðst hafa haldið áfram tengslum við heimili ákærða eftir að hann hóf sambúð [...] [...], ekki síst vegna góðra tengsla hennar við [...] sambýliskonu hans.  Um síðir, eða rétt áður en mál þetta kom til kasta lögreglu, kvaðst hún hafa sagt móður sinni frá hinu kynferðislega athæfi ákærða.  „Ég gat ekki haldið þessu lengur inni ... var búin að halda þessu svo lengi í mörg ár.“

Vitnið D, fæddur [...], kvaðst fyrir dómi, þ. á m. við aðalmeðferð, hafa heyrt frásögn A um að hún hefði „stundað mök“ með pabba þeirra.  Kvaðst hann hafa trúað orðum systur sinnar og vísaði til þess að hún hefði alltaf sofið í herbergi ákærða í [...] eða allt þar til hann eignaðist kærustu, „það er núverandi sambýliskona“.  Nánar aðspurt kvaðst vitnið geta sagt frá einu tilviki sem það hefði orðið vitni að:  „Ég var bara inni í herberginu, sofnaður, ég heyrði eitthvað í rúminu, ég þorði ekkert að kíkja, ég trúi henni fyrst hún sagði þetta ... ég heyrði svona mikil læti í rúminu hans (gerir taktvisst hljóð) brak eins og brestur í rúminu, gormunum ... ég bara sofnaði, á eftir, ég á erfitt með að muna allt þetta ... ég veit hann ætlaði að fá fullnægingu, eða koma því út, og síðan vaknaði ég eða pabbi steig bara eitthvað að sækja eitthvað til að þurrka ... fór framúr til að sækja eitthvað til að þurrka, örugglega handklæði, ég líka hvatti hann til þess ... síðan sofnaði ég, ég var á dýnu á gólfinu fyrir framan rúmið“.  Vitnið kvaðst hafa snúið baki að rúmi ákærða er það heyrði nefnd ,,kynlífshljóð.“  Nánar aðspurt kvaðst vitnið hafa vaknað við hin taktföstu hljóð, en þá einnig heyrt brakið í rúminu.  Vitnið lýsti öðru tilviki er það svaf á dýnu í herbergi ákærða, en það kvaðst þá hafa heyrt samræður ákærða og A.  Kvaðst hann hafa túlkað orð þeirra á þá leið að þau ætluðu að hafa samfarir þegar hann væri sofnaður, en hann kvaðst aldrei hafa séð það athæfi með eigin augum.  Vitnið bar að lýst tilvik hefðu gerst áður en ákærði kynntist K, núverandi sambýliskonu sinni, og ætlaði að nefnt athæfi hefði ekki gerst eftir að þau kynni hófust.  Vitnið bar að það hefði heyrt umrædd ,,kynlífshljóð“ í önnur skipti, en það hefði verið þegar ákærði kom með ókunnugar konur inn á heimilið.  Vitnið kvaðst í raun ekki geta tjáð sig frekar um ætlað athæfi ákærða gagnvart A, að öðru leyti en því að það hefði heyrt frásögn hennar um að tilvikin hefðu verið fleiri en eitt og að ákærði hefði snert kynfæri hennar og beðið hana um að sjúga á honum liminn en að hún hefði neitað því.  Vitnið staðhæfði að A hefði oft talað um „þetta og að hún hafi verið misnotuð eitthvað ... en ég veit eiginlega ekkert meira“.  Vitnið kvaðst þó hafa heyrt að A hefði haft áhyggjur af því að hún hefði orðið ófrísk eftir ákærða.  Hefði hún skýrt móður þeirra frá áhyggjum sínum, en þær í framhaldi af því farið saman á spítala.

Vitnið bar að það hefði á tímabili haft áhuga á klámi og staðhæfði að það hefði fengið að skoða slíkt efni í tölvu í [...] hjá ákærða, en þó aðallega hjá föðurbróður þess, sem einnig hefði búið í húsinu.  [...], en einnig kvaðst það hafa verið áhorfandi að samförum systurinnar við föðurbróður sinn og föðurafa og nafngreindan kærasta hennar.

Vitnið E, fæddur [...], kvaðst við upphaf dómskýrslu sinnar, hinn 9. júní 2009, hafa vilja til að skýra frá kynlífsathöfnum föður síns, ákærða, en einnig föðurafa og föðurbróður, við systur þess A.  Ítrekað aðspurt fyrir dómi, þ. á m. við aðalmeðferð málsins, kvaðst vitnið aldrei með eigin augum hafa séð ákærða hafa samfarir við A, aðeins hafa heyrt að slíkt athæfi hefði átt sér stað í [...].  Vitnið kvaðst hafa heyrt þetta frá systkinum sínum, A og D og einnig heyrt frásögn systur sinnar um að ákærði hefði sleikt „budduna“.  Nánar lýsti vitnið atvikum og aðstæðum þannig að A hefði oft sofið í herbergi ákærða og þá í hans rúmi, en þess á milli hefði hún sofið í eigin herbergi þar á heimilinu.  Við aðalmeðferð málsins kvaðst vitnið ekki minnast þess að systir þess hefði sagt frá öðru athæfi en samförum, en þó aðeins ráma í að hún hefði haft orð á að hann hefði ,,sleikt leggöng“ hennar.  Vitnið bar að á heimili ákærða hefðu þeir bræður oftast sofið saman í herbergi, en þeir þó stundum fengið leyfi til að sofa á dýnum í svefnherbergi ákærða.  Vitnið bar að þá hefðu ákærði og A sofið í hjónarúminu þar við hliðina.  Þegar slíkt gerðist kvaðst vitnið stundum hafa átt erfitt með að sofna vegna brakhljóða í rúminu, en bar að slík hljóð hefðu alltaf heyrst þegar einhver hreyfði sig í rúminu.  Vitnið kvaðst hafa hugleitt á slíkum stundum að ákærði og A væru að hafa samfarir: „mér datt þetta í hug ...“.  Vitnið kvað þau systkinin stundum hafa rætt ætlaðar kynlífsathafnir ákærða sín í milli, en áréttaði að í raun hefði það aldrei séð ,,kynlíf“ A, [...], en að auki kvaðst það hafa séð slíkar aðfarir hennar og nafngreinds kærasta hennar.

Vitnið C, fædd [...], móðir A, bar fyrir dómi að frá unga aldri hefði dóttir hennar A átt við erfiðleika að stríða vegna þroskaskerðingar og geðrænna vandamála.  Vitnið kvað þessi vandkvæði hafa farið vaxandi á unglingsárum stúlkunnar, en einnig hefðu verið miklir samskiptaerfiðleikar með henni og yngri bræðrum á heimilinu.  Vitnið bar að vegna þessa hefði verið afráðið að A flyttist á heimili ákærða á árinu 2004, en hann hefði þá búið [...].  Vitnið kvaðst aldrei hafa verið sátt við þessa ráðstöfun.   Vitnið bar að A hefði ári síðar flust með ákærða í [...] og hefði hún dvalið þar fram á mitt sumar 2007, en þá flust á ný á heimili vitnisins.  Vitnið kvað yngri bræður stúlkunnar hafa farið á heimili ákærða í reglulega umgengni á þessum árum.  Vitnið kvaðst hafa haft vitneskju um að A hefði haft sérherbergi á heimili ákærða og að hún hefði sofið þar reglulega.  Vitnið kvaðst einnig hafa haft vitneskju um að A fékk að fara í rúmið til ákærða stöku sinnum og bar að það hefði gerst þegar hana hefði dreymt illa.  Vitnið bar að þegar þetta gerðist hefði A þurft á öryggi að halda og mikla nánd.  Vitnið áréttaði fyrri frásögn sína í lögregluskýrslu að á árunum 2006 og 2007, þegar A var sextán og sautján ára, hefði hún ítrekað lýst því að hún vildi flytja aftur á heimili vitnisins.  Vitnið bar að jafnframt þessum óskum hefði dóttir hennar kvartað um vanlíðan og þ. á m. um magaverki.  Af þeim sökum hefði verið leitað til heimilislæknis, H, en að auki hefði stúlkan farið ítrekað í rannsóknir til barnalækna og kvensjúkdómalækna [...].  Vitnið áréttaði fyrri frásögn sína hjá lögreglu að um líkt leyti og þetta gerðist hefði stúlkan farið að greina frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu ákærða, en einnig föðurbróður, sem hefði búið að [...].  Vitnið staðhæfði að tvívegis hefði dóttirin haldið því fram að hún væri ófrísk og í því sambandi nefnt ákærða og föðurbróður sinn, en að auki hefði hún nefnt útlendan karlmann sem hún hefði hitt í miðbænum.  Vitnið kvaðst ekki hafa lagt trúnað á þessa síðustu frásögn dóttur sinnar, og lýsti vitnið hugrenningum sínum: „... þá datt mér þetta helst í hug að hún væri ólétt eftir föður sinn, en hún gaf mér það svar ekki, ekki fyrr en löngu seinna“.  Vitnið kvaðst hafa rætt þessar grunsemdir sínar við starfsmann fjölskyldudeildar [...], vitnið L félagsráðgjafa, er hafi verið stuðningsfulltrúi fjölskyldunnar á þessum árum.  Að auki kvaðst vitnið ítrekað hafa farið með A á kvennadeild sjúkrahússins á [...] og þá rætt málefnið við I kvensjúkdómalækni. Vitnið kvaðst hafa haft efasemdir um ásakanir A eftir að hún hafði farið í kvenskoðun og bar að málið hefði þá heldur ekki farið lengra.  Vitnið kvaðst því ekki hafa rætt málefnið við heimilislækni fjölskyldunnar, H.  Nánar aðspurt um frásögn A um ætlað athæfi ákærða bar vitnið að hún hefði sagt að það hefði átt sér stað í svefnherbergi hans í [...] og þá þannig: „að hann hefði farið upp á hana, þuklað brjóstin og farið aðeins inn fyrir, en hún sagði að hann hefði ekki farið langt inn, rétt aðeins“.  Vitnið kvaðst ekki minnast þess að stúlkan hefði lýst fullkomnum samförum.  Að auki kvaðst vitnið hafa heyrt frásögn dóttur sinnar, en einnig yngri sona, um að þau systkinin hefðu fengið að skoða klámmyndir hjá ákærða.  Aðspurt minntist vitnið þess ekki að synir hennar hefðu haft orð á því að þeir hefðu orðið vitni að kynferðislegu athæfi ákærða gagnvart systur þeirra. Vitnið kvaðst hins vegar hafa heyrt frásagnir þeirra um að fyrrnefndur föðurbróðir systkinanna hefði látið þau stunda kynlíf saman.  Vitnið kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir hvenær þessir atburðir gerðust, en helst skilist að ákærði hefði verið hættur að brjóta á A þegar hann kynntist núverandi sambýliskonu sinni.  Vitnið kvaðst raunar hafa haft grunsemdir um að A hefði mátt þola kynferðislegt athæfi allt frá tólf ára aldri og vísaði þar um til breytinga á hegðan hennar á því aldursskeiði.

Vitnið bar að eftir að A hafði á ný flutt á heimili þess sumarið 2007 hefði hún líkt og bræður hennar farið í reglulega umgengni á heimili föður.  Vitnið staðhæfði að systkinin hefðu er frá leið sífellt verið tregari til að fara á heimili ákærða og bar að þau hefðu m.a. lýst harkalegum uppeldisaðferðum hans.

Vitnið kvað A hafa farið í ófrjósemisaðgerð vorið 2007, sjálfviljuga og eftir ráðgjöf.  Vitnið kvaðst hafa verið hlynnt þeirri ráðstöfun sökum þess að það hefði talið að A væri ekki fær um að ala upp ungt barn.  Vitnið bar að líðan A hefði sífellt farið versnandi með árunum, en hún hefði verið kvíðin og þunglynd, verið hrædd við karlmenn og þá sérstaklega við ákærða og föðurbróður sinn.  Vitnið kvað dótturina ennfremur þjást af miklu öryggisleysi og hefði það komið í veg fyrir sjálfstæða búsetu hennar, sem ráðgerð hefði verið á árinu 2009, en hún hefði á því ári einnig ítrekað verið með sjálfskaðandi hegðun.

Vitnið M, fædd [...], móðuramma A, kvaðst fyrst hafa heyrt um ætluð brot ákærða gagnvart dótturdóttur sinni er móðir hennar, vitnið C, fór með hana í kvenskoðun á [...].  Tilefnið hefði verið orð stúlkunnar um að hún væri ófrísk.  Vitnið kvað skoðunina hafa leitt í ljós að meyjarhaftið var órofið og bar að ásakanir þessar hefðu eftir það ekki verið ræddar frekar.

Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt annað en að A hefði, a.m.k. framan af, verið ánægð með búsetu sína hjá ákærða.  Vitnið kvaðst er atvik gerðust hafa heyrt af því að stúlkan fengi stundum leyfi til að skríða upp í rúmið til ákærða, en að það hefði gerst þegar hún var óttaslegin.  Vitnið bar að það hefði andmælt þessum svefnvenjum, en að auki kvaðst það hafa komið þeirri skoðun sinni á framfæri á fundum með félagsmálayfirvöldum að þau veittu föður hennar, ákærða, ekki fullnægjandi aðstoð vegna erfiðleika A.  Vitnið bar að A hefði farið fram á að flytja aftur á heimili móður sinnar, en um ástæðu þess kvaðst það ekki hafa heyrt annað en að stúlkan hefði einfaldlega sagt að sér liðið betur hjá móður sinni.

Vitnið N, fæddur [...], móðurafi A, lýsti atvikum máls mjög á sama veg og eiginkona þess hér að framan.  Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt frásögn dótturdóttur sinnar af ætluðu kynferðislegu athæfi ákærða.  Vitnið bar að alla tíð hefðu verið miklir erfiðleikar í lífi stúlkunnar og hefði það m.a. verið ástæða þess að hún fluttist á heimili föður síns á sínum tíma.

Vitnið K, fædd [...], kvaðst hafa kynnst ákærða haustið 2006 og bar að þau hefðu hafið kynlífssamband í desembermánuði það ár.  Vitnið kvaðst hafa verið við [...] á [...] þennan veturinn, en þó hitt ákærða reglulega, m.a. á heimili hans á [...].  Vitnið kvaðst hafa flutt til [...] í maí 2007 og eftir það haft mikil samskipti við ákærða og m.a. oft komið á heimili hans í [...].  Vitnið bar að veturinn 2006/2007 hefði A búið á heimili ákærða, en að auki hefðu synir hans dvalið þar aðra hverja helgi.  Vitnið kvað góð kynni strax hafa tekist með dóttur vitnisins, fæddri [...], og A, en bar að þær mæðgur hefðu fljótlega fengið vitneskju um að dóttir ákærða væri þroskaskert.  Vitnið bar að A hefði haft eigið herbergi á heimili ákærða, en það kvaðst hafa haft vitneskju um að hún fengi stundum leyfi til að sofa í rúminu hjá ákærða.  Bar vitnið að þetta hefði einkum gerst í skammdeginu og þegar hún óttaðist eitthvað eða leið illa.  Vitnið bar að stundum hefði dóttir sín fengið leyfi til að sofa hjá A í herbergi hennar í [...].

Nefnt vitni bar að við upphaf kynna af fjölskyldu ákærða hefði það vakið athygli vitnisins hve mikill „klámkjaftur“ var á sonum hans og hefði það sett ofan í við drengina vegna þessa.  Vitnið bar að ákærði hefði tekið undir með sér að þessu leyti, en það kvaðst einnig hafa veitt því athygli að hann viðhafði svipaðar reglur um tölvunotkun barnanna á heimilinu og hún, og hefðu svipaðar takmarkanir verið þar á og hún hafði á heimili þeirra mæðgna.  Vitnið bar að stundum hefði A sagt ólíkindasögur, og nefndi í því sambandi óléttusögu og að ókunnugur karlmaður hefði átt þar hlut að máli.  Kvaðst vitnið vegna þessa hafa keypt óléttupróf fyrir stúlkuna og að þær hefðu í framhaldi af því gætt að málum.  Hefði þá komið ljós að frásögn A átti ekki við rök að styðjast.  Vitnið bar að þetta hefði gerst vorið 2007 og áður en A fór í ófrjósemisaðgerð.  Vitnið kvaðst hafa tekið upp eiginlega sambúð með ákærða í lok maí [...], en hann hefði þá flust á heimili þeirra mæðgna í [...]hverfi.  Vitnið kvað þetta hafa gerst í kjölfar þess að húseign ákærða var seld á nauðungaruppboði.  Vitnið bar að áður en þetta gerðist hefði A verið farin að vera meira á heimili móður sinnar og hefði hún að lokum alfarið haft vistaskipti.  Vitnið staðhæfði að A hefði eftir þetta komið reglulega á heimili þeirra í [...], líkt og bræður hennar.  Vitnið kvaðst ekki hafa fundið eða heyrt að A hefði verið treg til að koma í umgengnina, heldur þvert á móti, og bar að hún hefði iðulega gist í eina til tvær nætur og þá sofið í sama herbergi og dóttir vitnisins.  Eftir að ásakanir A komu fram vorið 2009 kvaðst vitnið hafa tekið þá ákvörðun að hún kæmi ekki á heimilið, a.m.k. þar til málið væri til lykta leitt.  Vitnið kvaðst enn fremur í kjölfar kærunnar hafa farið ásamt ákærða á fund hjá félagsmálastofnun, m.a. vegna eigin dóttur, og rætt málefnið við starfsmenn [...] [...], en þá skilist að málið snérist fyrst og fremst um [...],.

B.  Sérfræðigögn og vitnisburðir.

Samkvæmt vottorði J, sálfræðings [...], sem dagsett er 8. júní 2010, hefur A frá 20. ágúst 2009 farið í ellefu meðferðarviðtöl vegna ætlaðs kynferðislegs ofbeldis. Í niðurstöðukafla vottorðsins segir að A uppfylli greiningarmerki þunglyndis og kvíða, að sjálfsmat hennar sé lágt og að skapsveiflur og tilhneiging til einangrunar valdi henni erfiðleikum í félagslegum samskiptum.  Einnig segir þar að stúlkan sé orkulaus, að fátt veiti henni ánægju, að hún virki oft leið og sýni sterka forðunarhegðun þegar ætlað kynferðisbrot sé rætt og afleiðingar þess.  Þá segir í vottorðinu að stúlkan forðist ákveðna staði, sé hrædd við karlmenn og að skortur á líkamsvitund sé áberandi.  [...].  Þess er getið að stúlkan beri neikvæðar tilfinningar í garð föður síns. Lætur vottorðsgjafinn það álit í ljós að afleiðingar ætlaðs athæfis séu mjög alvarlegar og renni niðurstöður sjálfsmatskvarða og viðtala stoðum undir að svo sé.  Séu líkur á að meðferð verði langvinn, en einnig séu líkur á að stúlkan muni eiga erfitt með að nýta sér meðferð að fullu og vegna þroskaskerðingar sé líklegt að erfitt muni reynast að vinna á ákveðnum afleiðingum ætlaðs brot í hefðbundinni sálfræðimeðferð.

Vitnið J staðfesti efni vottorðsins fyrir dómi og bar að auk orða stúlkunnar um ætluð brot ákærða hefði hún nefnt fleiri aðila sem brotið hefðu gegn henni, þ. á m. föðurbróður sinn.

Vitnið dr. G sálfræðingur staðfesti niðurstöður áður rakins vottorðs um að þroski A væri ofarlega á stigi vægrar þroskahömlunar.  Auk nefnds álitaefnis er í vottorðinu lagt mat á það hvort álykta megi út frá þroskastigi A að hún hefði getu til að greina frá tímasetningum og fjölda þeirra atvika sem hún hafi upplifað í tengslum við ætluð kynferðisbrot.  Í vottorðinu segir að stúlkan hafi lýst mikilli vanlíðan þegar hún ræddi ætluð brot og er dregin sú ályktun að það skjóti stoðum undir frásögn hennar.  Vísað er til þess að niðurstöður prófana hafi sýnt að viðmiðunargeta stúlkunnar sé á bilinu [...] til [...] ára, en að niðurstöður í matslista leiði í ljós alvarleg einkenni um depurð, kvíða og félagsfælni.  Segir að vegna þroskaskerðingarinnar megi búast við því að stúlkan geti ekki með nákvæmni tímasett atburði, en slíkt geti reyndar verið eðlilegt þegar um alvarleg brot sé að ræða sem séu ítrekuð.  Í vottorðinu segir að þrátt fyrir að nefndir veikleikar séu fyrir hendi hjá stúlkunni komi það ekki í veg fyrir að hún gæti skýrt rétt frá atvikum, en að því leyti er vísað til ólíkra staðsetninga ætlaðra brota ákærða og annarra náskyldra aðila.  Þá segir að það styrki einnig þessa niðurstöðu að A hefði ekki verið viljug til að ræða atburðina, vegna sektarkenndar og mikillar vanlíðunar, en að því leyti sé hún trúverðug.

Vitnið greindi frá því fyrir dómi að A hefði skýrt frá því að hún hefði fyrst orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 10 til 11 ára.

Í fyrrnefndu bréfi O, uppeldisráðgjafa hjá [...] [...] og starfsmanni [...] [...], til Barnahúss, sem dagsett er 30. apríl 2009, er vikið að því að grunsemdir hafi verið á árum áður um að A hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni, en að nýlegar upplýsingar hafi vakið grunsemdir um [...].  Er af þeim sökum farið fram á að A og bræður hennar fari í könnunarviðtal hjá sérfróðum aðilum Barnahúss.  Í bréfinu er vikið að aðstæðum stúlkunnar og forsögu málsins.  Segir m.a. að móðir stúlkunnar sé öryrki vegna [...] en að hún fari ein með forræði systkinanna.  Þá er í bréfinu vikið að ákæruefni máls þessa og segir um það m.a.:  „A hefur í gegnum tíðina verið að greina frá kynferðislegri áreitni sem hún á að hafa orðið fyrir.  Frásagnir hennar hafa verið mjög ótrúverulegar en einnig hefur borið á miklu ósamræmi í frásögnum hennar.  Þess ber einnig að geta að A er mjög ósannsögul og með ríkt ímyndunarafl.  Í viðtali sem undirrituð átti við C, móður A, í mars 2007, átti A að hafa greint móður sinni frá því að pabbi hennar hefði gert það með henni í þrjú eða fjögur skipti.  Í eitt skiptið þá var hún að fara að sofa, var búin að taka lyfin sín, sagðist hafa verið mjög þreytt og ekki getað ýtt honum af sér.  Þegar A sagði móður sinni frá atvikinu þá var hún ásamt börnunum sínum þremur í bíl og voru drengirnir að sögn C að tala um klám og kynlíf.  C átti erfitt með að tímasetja hvenær A greindi frá ofanrituðu en heldur að það hafi verið haustið 2006 og A hafi verið [...] ára.  Í framhaldi af ofanrituðu fór C með A til kvensjúkdómalæknis.  Sú skoðun leiddi í ljós að meyjarhaftið var órofið.  A fór einnig í skoðun til kvensjúkdómalæknis í apríl 2004 eftir að A sagðist vera barnshafandi eftir að hafa haft mök við útlending sem hún hitti í sjoppu á [...] og farið með honum heim.  Sú skoðun leiddi einnig í ljós að meyjarhaftið var órofið.“  Í niðurlagi bréfsins segir að starfsmenn barnaverndar hafi verið með málefni fjölskyldu A á sinni könnu allt frá árinu 1995 og þeir hafi m.a. haft áhyggjur af kynferðislegu tali barnanna svo og vegna orða þeirra um að þau væru að horfa á klámfengið efni.  Í lokaorðum segir að forstöðumaður barnaverndar hefði haft viðtöl við systkinin vegna upplýsinga frá tilsjónarmanni, sem upphaflega hafi komið frá móður þeirra vorið 2009, um að [...].  Segir að þrátt fyrir að þessar viðræður hefðu ekki varpað ljósi ,, [...] eða hvort þau hafi orðið þolendur kynferðislegs áreitis“ hafi það verið metið svo að nauðsynlegt væri að börnin færu í umbeðið könnunarviðtal, m.a. til að varpa betur ljósi á stöðu málsins.

Í bréfi forstöðumanns [...] [...], B, sem dagsett er 8. júní 2010, er vikið að fyrrnefndum grunsemdum um kynferðislega háttsemi ákærða gegn A, sem fram hafi komið árið 2007 og viðbrögðum barnaverndaryfirvalda með eftirfarandi hætti:  „Vorið 2007 tilkynnti móðir A barnaverndarnefnd um að hún (A) hefði sagt sér að faðir hennar hefði haft við hana samfarir.  Þessi grunur var kannaður m.a. með læknisskoðun og viðtali við stúlkuna og var ekki talinn á rökum reistur.  Einnig komu fram grunsemdir um að F, föðurbróðir hennar, hefði sýnt henni klámefni en það fékkst heldur ekki staðfest.  Var af hálfu barnaverndarnefndar ekki gripið til ráðstafana vegna þessa máls.  Skömmu síðar tilkynnti fyrrverandi eiginkona F um að hann hefði sýnt henni klámefni og jafnvel leitað á hana kynferðislega.  Þessar upplýsingar voru ekki kannaðar sérstaklega þar sem talið var að hér væri um að ræða sömu upplýsingar og áður hefðu verið kannaðar og voru upprunnar hjá sama aðila.  Eftir að A komst af grunnskólaaldri var stuðningur við hana í auknum mæli veittur með úrræðum fötlunarþjónustu fremur en barnaverndar, sem lauk við 18 ára aldur hennar þann [...].  Eftir þetta hefur umfjöllun um mál hennar tengst þeim grun sem vaknaði í apríl 2009 um [...] og var m.a. höfð milliganga um að hún fengi viðtal í Barnahúsi 19. maí 2009.“

Nefnd vitni B og O staðfestu efnislega síðast rakið erindisbréf og vottorð, dagsett 30. apríl 2009 og 8. júní 2010.  Vitnin áréttuðu að í kjölfar tilkynningar móður stúlkunnar A fyrri hluta árs 2007 um ætlað kynferðislegt ofbeldi ákærða og annarra aðila gegn henni hefði sérstök athugun farið fram, en að málið hefði verið látið niður falla þegar sérfræðiskoðun leiddi í ljós að meyjarhaft hennar reyndist órofið.  Vegna þessa og annarra upplýsinga hefðu grunsemdir þessar verið taldar óstaðfestar.  Vitnið O bar að fyrrgreind orð um ósannsögli A hefði ekki síst komið til þegar niðurstaða hinna endurteknu kvenskoðana lágu fyrir.

Vitnin og félagsráðgjafarnir P L staðfestu fyrir dómi efni framlagðra gagna frá [...] [...], þ. á m. áður rakið vottorð frá 3. febrúar 2003, um stúlkuna A og fjölskyldu hennar.

Vitnið P kvaðst hafa verið stuðningsfulltrúi A á árunum 2005 til 2008, en kvaðst aldrei hafa heyrt ávæning af ætluðum brotum gegn henni.

Vitnið L kvaðst hafa verið ráðgjafi fjölskyldu A á árunum 2003 til 2009, en á því tímabili heyrt frásögn móður hennar um að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri háttsemi, og af þeim sökum vísað henni á sérfræðiteymi sem tekið hefði málið til skoðunar.  Vitnið kvaðst ekki hafa hlýtt á frásögn stúlkunnar sjálfrar, en minntist þess ekki að grunsemdir hefðu beinst að föður hennar sem geranda, heldur föðurbróður hennar.  Vitnið bar að viðvarandi vandamál hefðu verið til staðar hjá stúlkunni vegna þroskaröskunar og geðvandkvæða og hefðu stuðningsaðgerðir miðast við það.  Vitnið kannaðist ekki við að sérstakar breytingar hefðu orðið í fari stúlkunnar á umræddu tímabili, 2003 til 2009.

Vitnið H heimilislæknir staðfesti fyrir dómi áður rakið vottorð, dagsett í desember 2009.  Vitnið áréttaði að þrátt fyrir miklar rannsóknir hefði aldrei fundist viðhlítandi skýring á kvörtunum A á umræddum kviðverkjum.  Vitnið bar að erfiðleikar stúlkunnar hefðu verið viðvarandi um árabil, m.a. vegna skapgerðarbresta hennar, árásarhneigðar og almennrar vanlíðunar, og hún m.a. vegna þessa þurft á geðlæknismeðferð að halda.  Vitnið staðhæfði að vegna þessa og mikils álags á heimili móður hefði stúlkan haft vistaskipti á árinu [..] og búið á heimili föður síns um tíma.  Vitnið staðfesti að stúlkan hefði farið í ófrjósemisaðgerð í maí 2007 og bar að þar hefði verið um að ræða fyrirbyggjandi ráðstöfun, en engin vitneskja hefði þá verið um að stúlkan væri farin að lifa kynlífi.  Vitnið áréttaði að það hefði aldrei heyrt frásögn stúlkunnar eða aðstandenda hennar um að hún hefði orðið barnshafandi og fyrst hafa heyrt af ætluðum kynferðisbrotum gegn henni haustið 2009.

Að ósk embættis ríkissaksóknara ritaði I kvensjúkdómalæknir vottorð um kvenskoðanir sem A hafði gengist undir á liðnum árum.  Tilefni erindisins voru upplýsingar um að A hefði endurtekið farið í slíkar skoðanir, m.a. vegna ætlaðra kynferðisbrota gegn henni.  Í vottorðinu, sem dagsett er 14. júní 2010, svarar sérfræðingurinn tilteknum spurningum um álitaefnið, en því til viðbótar lagði hún fram við aðalmeðferð málsins, að fyrirlagi sakflytjenda, undirstöðugögn er vörðuðu málefni stúlkunnar.  Í þessum síðastnefndu gögnum er m.a. sagt frá því að A hafi farið í ófrjósemisaðgerð vorið 2007 og ennfremur að hún hafi haft viðvarandi kviðverki, sbr. áður rakið vottorð H heimilislæknis.  Um síðast nefnda atriðið segir í sjúkradagbók frá 18., mars 2009: ,,... álít verki stúlkunnar vera tengda kviðveggnum og reyndar virðist hún öll hálf aum og ómöguleg og kann ég ekki skýringu á því en spurning er hvort þetta er eitthvað tengt hennar andlega ástandi.“  Nefndur sérfræðingur greindi frá því að Q kvensjúkdómalæknir hefði skoðað A þann 26. október 2007 og leiðrétti vitnið vottorðið að því leyti, en efni þess er sem hér segir:

„A kom fyrst til mín á stofu í apríl 2005, en þá skoðaði ég hana ekki að neðan þar sem kvartað var um kviðverki og það var engin ástæða til að gera neðanskoðun.  Í apríl 2007 gerði ég neðanskoðun og segi þá:  „Meyjarhaftið er órofið og þar að auki með streng sem liggur aðeins til vinstri við miðlínu frá fram og yfir að afturveggnum.“  Í skoðun 26.10.2007 segi ég:  „Ytri kynfæri líta eðlilega út.  Meyjarhaftið er órofið og fæ að setja inn fingur varlega, það er ekkert óeðlilegt að finna.“  Næsta skoðun er gerð 03.04.2008.  Skoðunin er gerð í svæfingu að beiðni R barnalæknis og skoðaði hún A ásamt mér.  Í niðurstöðu segir:  „Á ytri kynfærum er ekkert óeðlilegt að sjá, hymen hringurinn er órofinn en gefur ágætlega eftir þegar sett er upp lítið speculum.“  Næsta skoðun er 18.03.2009 og þar segir:  „VVP eðlilegt að sjá.“  Skammstöfunin VVP þýðir vulva, vagina og portio eða ytri kynfæri, leggöng og legháls lítur eðlilega út.  Í þeirri skoðun geri ég leggangaómun og þarf þá að setja upp staut sem er ca. 2 cm í þvermál og gekk það greiðlega.“  Lokaorð vottorðins eru þessi:  „Samkvæmt ofannefndri beiðni frá saksóknara fæ ég A til mín til skoðunar þann 12.06.2010 og er skoðunin framkvæmd í viðurvist S ljósmóður og hefst kl. 13:10 og lýkur kl. 13:15.  Ytri kynfæri A líta eðlilega út og er meyjarhaftshringurinn órofinn en framan til við hliðina á þvagrásinni vinstra megin er örlítil ójafna sem væntanlega er eftirstöðvar af strengnum sem ég lýsi í skoðuninni 02.04.2007 en hann er að öðru leyti ekki til staðar.  Neðsti hluti legganga lítur eðlilega út og er eðlilegur þegar ég þreifa.  Leggangaopið og meyjarhaftshringurinn gefa mjög vel eftir og er það engin fyrirstaða.  Frekari skoðun ekki gerð.

Svör mín við ofangreindum spurningum eru eftirfarandi:

1.  Hvort meyjarhaft hennar sé nú rofið?  Nei ekki sést rof í meyjarhafti.

2. Hvort staðsetning meyjarhaftsins sé að einhverju leyti óeðlilegt?  Nei meyjarhaftið er á réttum stað og lítur eðlilega út.

3.  Hvort einhverjar þær ástæður séu fyrir hendi sem leiði til þess að það rofni ekki eins greiðlega og almennt gerist?  Leggangaop og meyjarhaftshringur konunnar er mjög mjúkt og teygjanlegt.  Meyjarhaftið rofnar ekki hjá öllum konum við fyrstu samfarir og rofnar þá oftast ekki heldur fyrr en við fæðingu barns.  Ekki þarf frekari skýringar við.“

Vitnið I kvensjúkdómalæknir staðfesti nefnt vottorð fyrir dómi, en einnig færslur í sjúkradagbók og undirstöðugögn varðandi stúlkuna A.  Vitnið útskýrði efni nefndra gagna og áréttaði að tilefni skoðunar á stúlkunni í apríl 2007 hefði verið kvartanir hennar um kviðverki og þá hvort að skýringa væri að leita til innri kvenlíffæra.  Vitnið bar að ástæða skoðunarinnar hefði einnig verið vangaveltur móður stúlkunnar um að hún hefði mátt þola kynferðislega áreitni og minntist þess að nafn ákærða hefði í því sambandi verið nefnt.  Um niðurstöður kvenskoðunarinnar vísaði vitnið til efnis vottorðsins, þ.e. að meyjarhaftið hefði verið órofið, en þar um vísaði það einnig til tilvistar tilgreinds strengs.  Nánar um niðurstöðuna bar vitnið að eftir skoðunina vorið 2007 hefði það talið ólíklegt að samfarir hefðu verið hafðar við stúlkuna, þ.e. að limur hefði farið í leggöng hennar, þó svo að ekki væri unnt að útiloka slíkt með öllu, a.m.k. ekki 100%.  Vitnið rökstuddi niðurstöðuna frekar og vísaði til þess að á fósturstigi sé himna fyrir leggangaopi er opnist með eðlilegum hætti, en eftir geti verið mismunandi leifar af himnunni, svonefndur strengur.  Nefndur strengur sé úr sama efni og meyjarhaftið og geti því verið teygjanlegur en auk þess horfið af sjálfu sér.  Vitnið áréttaði að strengurinn hefði verið til staðar við skoðun þess í apríl 2007 og því hefði verið talið afskaplega ólíklegt að A hefði haft samfarir og þá ekki endurteknar samfarir. Vitnið bar að við skoðun þess ári síðar, í aprílmánuði 2008, hefðu einnig verið uppi grunsemdir um ósæmilegt athæfi gagnvart stúlkunni.  Vitnið bar að í þeirri skoðun hefði fyrrnefndur strengur klárlega verið farinn, en af þeim sökum hefði vitnið ályktað að samræði hefði verið haft við stúlkuna eftir að það skoðaði hana vorið 2007.  Að því leyti áréttaði vitnið þó fyrrgreindan fyrirvara sinn, en vísaði einnig til þess að við síðustu kvenskoðunina þann 12. júní 2010 hefði A enn verið með órofið meyjarhaft.

Vitnið Q kvensjúkdómalæknir staðfesti efni vottorðs fyrrnefnds kvensjúkdómalæknis að því leyti að það kvaðst hafa skoðað A þann 26. október 2007.  Vitnið bar að tilefni skoðunar þess hefði verið tilvísun frá barnalækni vegna svima og annarra einkenna en einnig vegna blæðinga og útferðar.  Vitnið bar að ekkert óeðlilegt hefði komið fram við skoðunina.  Meyjarhaftið hefði m.a. verið órofið.  Við skoðunina kvaðst vitnið ekki hafa haft vitneskju um að grunsemdir hefðu verið um kynferðislegt ofbeldi gagnvart stúlkunni, en það kvaðst hafa spurt stúlkuna um hvort hún hefði lifað kynlífi og bar að hún hefði svarað því neitandi.  Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort slímhúðarstrengur hefði verið til staðar við skoðunina, en það kvaðst hins vegar ekki hafa dregið orð stúlkunnar í efa.  Vitnið lét það álit í ljós að langlíklegast væri að sá strengur sem hér um ræðir hefði rofnað við samfarir, líkt og meyjarhaftið sjálft, þrátt fyrir að það sé ekki algilt, sérstaklega ef haftið er mjög teygjanlegt.

Valur Magnússon rannsóknarlögreglumaður staðfesti rannsóknargögn lögreglu fyrir dómi.

III.

Af hálfu ákæruvalds er ákæra í máli þessu einkum reist á frásögn A um að ákærði hafi gerst sekur um hina refsiverðu háttsemi á heimili hans að [...] á árabilinu 2005 til 2008, en stúlkan var þá 14 til 18 ára.  Einnig er ákæran reist á sérfræðivottorðum og vitnaframburðum, einkum yngri bræðra stúlkunnar og þeirra sérfræðinga sem komu að meðferð hennar svo og greiningu eftir að málið var kært til lögreglu vorið 2009.

Af hálfu skipaðs verjanda ákærða er í greinargerð um sýknukröfu einkum vísað til sönnunarskorts, sem ákæruvaldið verði að bera hallann af, samkvæmt grunnreglum opinbers réttarfars, sbr. ákvæði XVI. kafla laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Er m.a. á það bent að ákærði hafi staðfastlega neitað sök og verið sjálfum sér samkvæmur í framburði sínum.  Frásögn A fái aftur á móti enga stoð í framburði annarra vitna eða öðrum gögnum, en sé auk þess um margt reikul og óskýr.  Þá sé til þess að líta við mat á sönnunargildi framburðar hennar að hún hafi átt við greindarskerðingu að stríða og geðraskanir og hafi svo verið löngu áður en hin ætluðu brot eigi að hafa gerst.

IV.

Í máli þessu hefur ákærði neitað sök.  Ákærði hefur við meðferð málsins greint frá búsetu sinni á því tímabili sem ákæran tekur til, og þar á meðal að hann hefði vorið 2005 flutt í [...] að [...], ásamt dóttur sinni A, sem þá var á 15. ári, en fyrir liggur að hann bjó einsamall í [...] herbergja [...] í [...] er dóttirin fluttist fyrst til hans, sumarið 2004.

Samkvæmt gögnum, þar á meðal skýrslu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá árinu 2000, hefur A allt frá barnæsku átt við alvarlega atferlis- og aðlögunarerfiðleika að stríða, en einnig vanlíðan, ofvirkni og athyglisbrest.  Hún var greind með væga þroskaskerðingu, með heildargreindarvístölu [...].  Samkvæmt vottorði dr. G samsvaraði vitsmunaleg staða hennar í ársbyrjun 2010 aldursskeiði á bilinu [...] til [...] ára.  Samkvæmt sérfræðiskýrslum og dómskýrslu heimilislæknis hefur A um árabil verið til meðferðar hjá geðlæknum og tekið inn viðeigandi lyf.

Vegna lýsts ástands A og viðvarandi hegðunarerfiðleika á heimili móður, m.a. samskiptaörðugleika við yngri bræður, sem einnig hafa verið greindir þroskaskertir, varð að ráði með vitund félagsmálayfirvalda, að hún fluttist á heimili ákærða sumarið 2004, en fyrir liggur að hún fluttist á ný til móður sinnar sumarið 2007.  Þá liggur fyrir að vorið 2008 hóf ákærði sambúð með vitninu K og fluttist þá á heimili hennar og [...] ára dóttur í [...], en kynni höfðu tekist með þeim haustið 2006.  Þau höfðu tekið upp náin kynni í lok árs 2006.  Samkvæmt vætti sambýliskonunnar kynntist hún að nokkru fjölskyldulífinu á heimili ákærða í [...] og hafði m.a. samskipti við börn hans, þ. á m. A.

Samkvæmt frásögn A fyrir dómi gerðist hin ætlaða refsiverða háttsemi ákærða í svefnherbergi hans á [...] á heimili þeirra í [...].  Um atvikin hefur hún nánar borið, og m.a. sagt að aðdragandinn hverju sinni hefði verið á þann veg að þegar hún hefði fundið fyrir ótta á kvöldin hefði hún farið úr eigin herbergi og skriðið upp í rúmið til ákærða, en hann þá gripið tækifærið og brotið gegn henni.  Hefði ákærði við slík tækifæri haft samræði við hana í fimm eða sex skipti, en einnig viðhaft aðra þá háttsemi sem lýst er í ákæru.  Vegna athæfis ákærða hefði hún á tímabili óttast að hún væri barnshafandi.  Hún kvaðst ætíð hafa verið ein í herberginu með ákærða þegar greind atvik gerðust þar sem bræður hennar hefðu þá sofið í þar næsta herbergi á [...].  Hún staðhæfði að ákærði hefði verið hættur brotum sínum gegn henni er hann kynntist verðandi sambýliskonu sinni, vitninu K.

Af frásögn ættmenna A í móðurætt verður ráðið að hún hafi a.m.k. framan af að mestu verið sátt við vist sína á heimili ákærða.  Að mati dómsins er frásögn stúlkunnar nokkuð óákveðin að þessu leyti, en hún lýsti a.m.k. nokkuð þungum hug til ákærða.  Á hinn bóginn liggur fyrir að hún fór reglulega í umgengni á heimili ákærða í [...] eftir að hún fluttist á ný til móður sinnar sumarið [...] og fór einnig til hans eftir að hann fluttist í húseign sambýliskonu sinnar vorið [...].

Ákærði hefur staðfastlega og allt frá upphafi rannsóknar málsins neitað þeim sökum sem á hann eru bornar og tilgreindar eru í ákæru.  Kvaðst hann aldrei hafa haft í frammi kynferðislega háttsemi gagnvart dóttur sinni A.  Ekki hafði hann eiginlegar skýringar á ásökunum hennar, en lýsti samskiptum þeirra feðgina þann tíma sem þau bjuggu saman í [...] svo og liðsinni bróður síns, sem bjó á [...] [...] húseignarinnar.  Hann staðhæfði að fötlun A hefði haft veruleg áhrif allt líf hennar, en einnig á samskipti þeirra feðgina og heimilislífið.  Greindi hann m.a. frá því að ákveðið öryggisleysi hefði hrjáð stúlkuna á kvöldin og nóttunni og hún af þeim sökum stundum fengið leyfi til að sofa hjá honum í hjónarúminu í svefnherbergi hans.  Hann kvaðst aldrei hafa fengið upplýsingar frá heilbrigðis- eða félagsmálayfirvöldum um að grunsemdir hefðu komið fram um að brotið hefði verið gegn dóttur hans kynferðislega og þá ekki að hugmyndir hefðu verið um óeðlilegt samneyti barna hans.

Af gögnum og vætti vitna, þar á meðal O, starfsmanns barnaverndar, og C, móður A, verður helst ráðið að stúlkan hafi fyrst skýrt frá ætluðum brotum ákærða árið 2006, en hún var þá 15 eða 16 ára.  Í skýrslu móðurinnar hjá lögreglu kom m.a. fram að A hefði nefnt að ákærði hefði káfað á henni og í eitt skipti haft við hana samræði á heimili þeirra í [...].  Jafnframt kvað vitnið A hafa sagt frá kynferðisbrotum annarra fullorðinna einstaklinga í föðurætt hennar en ákærða.  Við meðferð málsins skýrði vitnið frá því að A hefði greint frá því að hún hefði fyrst mátt þola slíka háttsemi af hálfu annarra aðila en ákærða er hún var á aldrinum 10 til 12 ára.  Er þetta að nokkru í samræmi við vætti dr. G sálfræðings fyrir dómi.

Fyrir liggur að hið kærða málefni kom fyrst til kasta starfsmanna [...] [...] í mars 2007.  Var A í framhaldi af því færð í kvenskoðun á [...], þann 2. apríl 2007.  Samkvæmt áður röktu læknisvottorði I kvensjúkdómalæknis og vitnisburði hennar fyrir dómi var meyjarhaft A órofið við skoðunina, en að auki var í leggangsopinu slitrur af fósturhimnu eða strengur.  Samkvæmt vætti læknisins var í ljósi þessa, en ekki síst vegna strengsins, talið afskaplega ólíklegt að samfarir hefðu verið hafðar við A fyrir nefnda skoðun.  Vitnið bar að það væri þó ekki hægt að útiloka slíkt algerlega vegna teygjanleika strengsins og meyjarhaftsins.

Samkvæmt gögnum fór A í ófrjósemisaðgerð í lok maí 2007, en hún hafði samkvæmt frásögn foreldra, sem er í samræmi við vætti sambýliskonu ákærða, um svipað leyti haft orð á því að hún væri barnshafandi, og jafnframt sagt að þar hefði átt hlut að máli óþekktur útlendingur.  Eftir að kærumál þetta kom á borð lögreglu dró A þessa frásögn að nokkru til baka, en bar að hún hefði talið að ákærði hefði átt hlut að máli en hún ekki þorað að nefna nafn hans.  Þessu til viðbótar hefur A lýst mjög alvarlegum kynferðisbrotum ættmenna sinna í föðurætt, annarra en ákærða, þar á meðal föðurbróður, en eins og áður er fram komið bjó hann á [...] [...] húseignarinnar í [...].  Er þetta í samræmi við vitnisburð móður stúlkunnar, en einnig frásögn L félagsráðgjafa fyrir dómi, en síðast nefnda vitnið var stuðningsfulltrúi fjölskyldu stúlkunnar á árunum 2003 til 2008.  Vitnið kvaðst á hinn bóginn aldrei hafa heyrt minnst á að ákærði hefði brotið gegn A, aðeins heyrt nafn föðurbróður hennar nefnt í því sambandi.

Óumdeilt er að starfsmenn barnaverndar tóku lýst málefni til athugunar, en niðurstaðan hafi að lokum orðið, ekki síst eftir að kvenskoðun á A hafði farið fram árið 2007, að þessar grunsemdir væru ekki á rökum reistar.  Málefnið var af þeim sökum látið niður falla, en stuðningur félagsmálayfirvalda og barnaverndar, en síðar fötlunarþjónusta við stúlkuna og fjölskyldu hennar, var eftir sem áður viðvarandi.

Eins og hér að framan var rakið fór A eftir kvenskoðunina vorið 2007 í endurteknar skoðanir hjá kvensjúkdómalæknum, þar á meðal í október 2007, en þá var hún skoðuð af Q, og í apríl 2008, en þá var hún skoðuð af I.  Síðasta skoðunin var gerð í júní 2010.  Í öllum þessum læknisskoðunum reyndist meyjarhaftið órofið.  Samkvæmt vætti Q svaraði A spurningu vitnisins neitandi um að hún væri farin að lifa kynlífi.  Vitnið I kvaðst á hinn bóginn hafa ályktað, eftir skoðunina vorið 2008, að haft hefði verið samræði við A enda hefði fyrrnefndur strengur þá ekki verið til staðar.  Þar um vísaði vitnið þó til fyrri orða og fyrirvara um teygjanleika meyjarhaftsins.

Samkvæmt gögnum og framburði barnaverndarstarfsmanna var tilefni þess að A og yngri bræður hennar fóru í könnunarviðtal í Barnahús vorið 2009 [...].

Við meðferð málsins fyrir dómi hafa bræður A, þeir D og E sagt frá grunsemdum sínum um kynferðislegt athæfi ákærða gegn henni, en ítrekað aðspurðir kváðust þeir þó aldrei hafa séð slíkt athæfi með eigin augum.  Þeir kváðust hafa dregið ályktanir þar um eftir að þeir heyrðu brak í hjónarúmi þegar systir þeirra svaf í svefnherbergi ákærða.  Þá kváðust þeir margoft hafa hlýtt á frásögn A um kynferðislegt athæfi ákærða.  Piltarnir greindu einnig frá því að þeir hefðu séð kynferðislegt athæfi annarra fullorðinna ættingja en ákærða beinast að systur þeirra, þar á meðal í húseign föður þeirra í [...], en einnig kváðust þeir hafa fylgst með samförum hennar við kærasta sinn.  [...]

Líkt og hér að framan var rakið hefur ákærði staðfastlega og allt frá upphafi lögreglurannsóknar málsins neitað þeim sökum sem á hann eru bornar og tilgreindar eru í ákæru.  Ákærði hefur m.a. gefið skýringar á veru A í hjónarúmi í svefnherbergi í húseign hans í [...].  Að áliti dómsins er samræmi í frásögn ákærða og móður stúlkunnar að þessu leyti, en einnig vitnisins K, sambýliskonu hans, og að þar hafi komið til ákveðið öryggisleysi stúlkunnar.  Verður í þessu viðfangi að áliti dómsins m.a. að líta til sérfræðiskýrslna sem greina frá þroskaskerðingu A og almennrar vansældar um áraraðir.  Þá verður heldur ekki horft fram hjá frásögn hennar, að hún hafi allt frá árinu 2002 mátt þola kynferðislega áreitni annarra fullorðinna aðila en ákærða.  Hefur þessi framburður hennar nokkurn stuðning í vætti yngri bræðra hennar fyrir dómi.

Af vitnisburðum A og bræðra hennar voru kynferðismál þeim almennt nokkuð hugleikin um tíma og var það áhyggjuefni ættingja þeirra og barnaverndarstarfsmanna.  Að áliti dómsins verður að líta til þessa, auk fötlunar A, við mat á frásögn hennar um ætlað athæfi ákærða.  Einnig er til þess að líta að framburður hennar um atvik var að teknu tilliti til atgerfis hennar og þroska ekki fyllilega glöggur og eindreginn, en hún svaraði á köflum fyrst eftir að leiðandi spurningum hafði verið beint til hennar um ætlað athæfi ákærða og ákæruefni þessa máls.  Að áliti dómsins er ekki fyllilegur samhljómur með frásögn stúlkunnar og bræðra hennar um ætlað athæfi ákærða, þar á meðal um viðveru þeirra í svefnherbergi ákærða þegar atvik eiga að hafa gerst.  Frásögn A hefur aftur á móti nokkurn stuðning af skýrslum og vætti þeirra sérfræðinga og álitsgjafa er komu að málum hennar, þar á meðal eftir að kært var til lögreglu.

Við mat á því hvort ofangreint sé til þess fallið að hnekkja framburði ákærða eða rýra gildi hans svo nokkru nemi, verður að horfa sérstaklega til þeirra læknisfræðilegu gagna sem aflað var undir rekstri málsins og áður er lýst, ekki síst vegna endurtekinna kvenskoðana og tilvistar strengs og órofins meyjarhafts hjá A, í aprílmánuði 2007.  Fyrir dómi lét I kvensjúkdómalæknir það álit í ljós að vegna þessa strengs væri mjög ólíklegt að haft hefði verið samræði við A og þá enn síður endurteknar samfarir.  Er í því sambandi einnig til þess að líta að A bar það ítrekað og eindregið í skýrslum sínum fyrir dómi að kynferðisleg háttsemi ákærða gegn henni hefði verið hætt áður en hann kynntist núverandi sambýliskonu sinni.  Samkvæmt frásögn sambýliskonunnar og ákærða voru kynni þeirra orðin náin í lok árs 2006 og hefur því ekki verið hnekkt.

Í ljósi alls ofangreinds og þegar sakargögn eru virt heildstætt þykir gegn eindreginni neitun ákærða ákæruvaldinu ekki hafa tekist að færa fram nægjanlega sönnun um sök hans sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum, sbr. 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.  Er því skylt að sýkna ákærða af ákærunni en vísa bótakröfu frá dómi.

Eftir þessum úrslitum greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Arnars Sigfússonar héraðs­dóms­lögmanns, 462.500 krónur, sem ákveðast til viðbótar greiðslu sem hann hefur þegar fengið vegna starfa á rannsóknarstigi, 86.154 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Arnbjargar Sigurðardóttur héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur.  Við ákvörðun um málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns hefur verið litið til reglna um virðisaukaskatt.

Gætt var ákvæða 184. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. 

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ólafur Ólafsson sem dómsformaður, Erlingur Sigtryggsson og Þorsteinn Davíðsson.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.

Bótakröfu A er vísað frá dómi.

Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Arnars Sigfússonar héraðsdómslögmanns, 462.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Arnbjargar Sigurðardóttur héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur.