Hæstiréttur íslands

Mál nr. 657/2011


Lykilorð

  • Líkamsárás


 

Fimmtudaginn 27. september 2012.

Nr. 657/2011.

 

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Unnari Má Hjaltasyni

(Óskar Sigurðsson hrl.)

 

Líkamsárás.

U var sakfelldur í héraði fyrir umferðarlagabrot og nytjastuld en sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem óvarlegt þótti að telja sannað að af háttsemi hans hafi hlotist þær afleiðingar sem greindi í ákæru. Í Hæstarétti þótti játning U um að hafa sparkað fótum undan A hins vegar samrýmast nægilega öðrum gögnum málsins til að leggja mætti hana til grundvallar dómi og var U sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Ekki þótti skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að sannað væri að líkamsárás hafi leitt til beinna líkamsáverka þess sem fyrir árás varð. Þessi breyting á héraðsdómi hafði ekki áhrif á refsingu U sem þar var ákveðin.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2011 og krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákærum og refsing þyngd en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu heimvísað.

Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur en til vara að líkamsárás sem honum er gefin að sök samkvæmt ákæru 22. júní 2011 verði heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu A verði vísað frá héraðsdómi, til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni, en að því frágengnu að krafan verði lækkuð.

Einkaréttarkröfu A var vísað frá héraðsdómi og er sú afgreiðsla ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði viðurkennt að hafa sparkað í fætur brotaþola á þann hátt sem lýst er í ákæru en neitað að af því hafi leitt það líkamstjón á brotaþola sem þar greinir. Fallist verður á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að ekki sé sannað að atferli ákærða hafi haft greindar afleiðingar. Hins vegar þykir játning ákærða um að hafa sparkað fótum undan brotaþola nægilega samrýmast öðrum gögnum málsins til að leggja megi hana til grundvallar dómi. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en ekki er skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að sannað sé að líkamsárás hafi leitt til beinna líkamsáverka þess sem fyrir árás verður. Þessi breyting á héraðsdómi þykir ekki eiga að valda þyngingu á þeirri refsingu sem þar var ákveðin.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um refsingu ákærða og sakarkostnað. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem verður ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. október  2011.

Mál þetta, sem þingfest var þann 25. ágúst 2011, er höfðað með tveimur ákærum útgefnum af lögreglustjóranum á Selfossi á hendur Unnari Má Hjaltasyni, kt. [...], með lögheimili að [...], [...]. Annars vegar með ákæru dagsettri 10. júní 2011, og hins vegar með ákæru dagsettri 22. júní 2011.  Fengu ákærurnar málanúmerin S-247/2011 og S-248/2011 í héraðsdóminum og voru málin sameinuð undir hærra númerinu.

Með ákæru dagsettri 10. júní 2011 er mál höfðað á hendur ákærða

„fyrir umferðarlagabrot og nytjastuld

með því að hafa síðdegis sunnudaginn 5. júní 2011 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti ævilangt, heimildarlaust og án leyfis eiganda hennar, frá Selfossi áleiðis til Þorlákshafnar, uns ákærði var stöðvaður af vegfarendum við gatnamót Eyrabakkavegar [sic] og Þorlákshafnarvegar í Ölfusi.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48.gr umferðarlaga nr. 50, 1987 sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Með ákæru dagsettri 22. júní 2011 er mál höfðað á hendur ákærða

„fyrir líkamsárás

með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 18. desember 2010 fyrir utan skemmtistaðinn [...], [...] á Selfossi, veist að A, kt. [...], og sparkað í fætur hans þannig að A missti fótanna og skall með hægri olnboga í götuna með þeim afleiðingum að hægri olnbogi brotnaði [intra articulert brot í caput radii].

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19 frá 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20 frá 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir Jóhannes S. Ólafsson hdl. fyrir hönd A, kt. [...], kröfu um að ákærða verði með dómi gert að greiða skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 1.200.000 með vöxtum af kr. 1.000.000 samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 18. desember 2010 til 24. janúar 2011, en af kr. 1.200.000 frá þeim degi til birtingardags ákæru, en frá þeim degi af þeirri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er krafist lögmannsþóknunar réttargæslumanns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, komi til þess, eða samkvæmt mati dómsins.“

Við þingfestingu sótti ákærði ekki þing, en vegna hans mætti Grímur Hergeirsson hdl., sem ákærði hafði óskað eftir að yrði skipaður verjandi sinn.  Var lögmaðurinn skipaður verjandi ákærða í þinghaldinu.  Ákærði kom fyrir dóminn 12. september 2011 og játaði sök samkvæmt ákæru dags. 10. júní 2011, en ákærði neitaði sök samkvæmt ákæru 22. júní 2011.  Kvaðst ákærði kannast við háttsemina en neita þeim afleiðingum háttseminnar sem lýst er í ákærunni.  Þá hafnaði ákærði framkominni bótakröfu.

Aðalmeðferð í málinu fór fram 30. september 2011 og var málið dómtekið að henni lokinni.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær dómkröfur sem greinir í ákærum.

Af hálfu bótakrefjanda eru gerðar sömu kröfur og greinir í ákæru en jafnframt að ákærða verði gert að greiða þóknun réttargæslumanns samkvæmt framlögðum reikningi.

Af hálfu ákærða eru gerðar þær dómkröfur að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði höfð skilorðsbundin, en jafnframt krefst ákærði þess að hann verði  sýknaður af sakargiftum í ákæru 22. júní 2011 og að bótakröfu verði vísað frá dómi.  Vegna ákæru 22. júní 2011 er jafnframt gerð varakrafa um vægustu refsingu sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði, og þá er gerð varakrafa um verulega lækkun á bótakröfu.  Þá er gerð krafa um að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg þóknun til handa skipuðum verjanda.

Málavextir

Um málavexti vegna ákæru 10. júní 2011 vísast til ákærunnar sjálfrar, en ákærði hefur játað sök samkvæmt þeirri ákæru og þykir ástæðulaust að gera sérstaka grein fyrir málavöxtum hvað hana varðar.

Vegna sakargifta sem fram eru bornar með ákæru 22. júní 2011 eru málavextir þeir, að samkvæmt frumskýrslu lögreglu kom A, hér eftir kærandi, á lögreglustöðina á Selfossi ásamt eiginkonu sinni, B, laugardaginn 18. desember 2010, til að tilkynna og kæra líkamsárás sem hann hefði orðið fyrir nóttina áður fyrir utan skemmtistaðinn [...] við [...] á Selfossi.  Þar sem kærandi er ekki íslenskumælandi hafði kona hans orð fyrir þeim og kom fram að þau hafi verið að skemmta sér á [...] nóttina áður.  Utan við skemmtistaðinn milli kl. 03:00 og 03:30 hafi hún verið á tali við ákærða og hafi kærandi komið þar að.  Með ákærða hafi verið þrír menn.  Einn þeirra hafi ráðist á kæranda og hinir svo tekið þátt í árásinni.  Hafi þeir látið höggin dynja á andliti og líkama kæranda og hafi hann fallið í götuna.  Þau hafi eftir þetta farið á sjúkrahúsið á Selfossi og hafi komið í ljós að kærandi hafi verið olnbogabrotinn og hafi verið sett gifs á kæranda.  Kom fram að þau vildu kæra árásina og var þeim bent á að hafa samband við rannsóknardeild lögreglu eftir helgina.

Í kæruskýrslu skýrði kærandi svo frá að þau hafi verið að skemmta sér á [...] umrædda nótt.  Þau hafi verið í anddyrinu að bíða eftir leigubíl þegar ákærði hafi komið og farið að tala við konuna hans.  Hafi kærandi ekki hlustað sérstaklega á það en það hafi þó hljómað eins og hann væri að bjóða henni með sér heim en hún hafi sagst vera með manninum sínum, en þá hafi ákærði sagt eitthvað á þá leið að þegar hún væri orðin leið á því þá skyldi hún hringja í sig og hún svarað „já ókei bless“.  Ákærði hafi svo farið frá og verið með vinum sínum, en þeir hafi horft hvor á annan.  Síðan hafi þau verið að fara út og þá hafi ákærði komið aftur að þeim, ásamt tveimur öðrum, og þá hafi kærandi sagt við ákærða að hann væri sár yfir því sem ákærði hefði sagt við eiginkonu kæranda og hafi kærandi bankað í ennið á ákærða.  Þá hafi vinur ákærða kýlt kæranda sem hafi kýlt til baka, en svo hafi ákærði kýlt kæranda og kærandi kýlt til baka.  Þeir hafi slegist og kærandi gripið í ákærða og hent honum í jörðina og hafi kærandi verið ofan á og vinur ákærða hafi verið að kýla kæranda í bakið.  Hafi kærandi fengið högg í bak og andlit sennilega frá fjórum einstaklingum.  Kærandi hafi ekki lamið ákærða heldur haldið honum niðri og varist sjálfur.  Einhver hafi rifið í föt kæranda og hann hafi svo staðið upp, en þá hafi verið búið að lemja hann svo mikið að hann hafi ekkert séð.  Hann hafi svo verið að reyna að færa sig frá og þá hafi hann dottið aftur á bak og lent á hægri hendi og fundið til mikils sársauka svo hafi hann dregið sig út úr þessu.

B, eiginkona kæranda, gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins og skýrði svo frá að ákærði hafi komið að tala við sig og sagt að ef hún fengi leið á ákærða þá skyldi hún bara koma til sín.  Kærandi hafi verið mjög óánægður með þetta en ekkert gert.  Þeir hafi horft illilega hvor á annan og svo hafi þeir farið að rífast og svo hafi þeim lent saman og allt gerst mjög hratt.  Skyndilega hafi svo kærandi verið horfinn og bara skórinn hans eftir.  Margir hafi tekið þátt í slagsmálunum, ekki bara kærandi og ákærði, og hafi þeir verið í jörðinni.  Ekki hafi hún séð hver hafi greitt hverjum hvaða högg eða hver hafi átt fyrsta högg.

C, vinkona eiginkonu kæranda, gaf lögreglu skýrslu við rannsókn málsins og kom fram hjá henni að kærandi hafi verið pirraður út í ákærða sem hafi sagt við konu kæranda að hún skyldi bara hringja í ákærða þegar hún yrði leið á kæranda.  Svo hafi þeim lent saman og fleiri blandað sér í slagsmálin og hafi kærandi verið neðstur og komnir fjórir ofan á hann.  Hún hafi á meðan verið að tala við enn einn sem hafi ætlað að blanda sér í slagsmálin og þegar hún hafi svo snúið sér við þá hafi allir verið að standa upp og kærandi að skríða í burtu.  Þetta hafi byrjað með því að kærandi og ákærði hafi slegið að hvor öðrum og svo hafi kærandi lent í götunni og þá hafi ákærði farið ofan á hann og fleiri vinir ákærða líka.  Ekki kvaðst vitnið hafa séð kæranda detta í jörðina eftir að hann hafi verið staðinn upp.

Ákærði gaf lögreglu skýrslu um atvik málsins við rannsókn þess og kom fram hjá honum að hann og fleiri hafi lent í rifrildi við kæranda og svo hafi byrjað ryskingar og þeir hafi dottið og verið í jörðinni og svo þegar ákærði hafi risið á fætur þá hafi kærandi verið kominn aðeins frá þá hafi ákærði farið á eftir honum og hreinsað undan honum fæturna og þá hafi kærandi dottið fram fyrir sig.

Vitnið D gaf skýrslu hjá lögreglu og hafði þá stöðu sakbornings.  Kom fram hjá honum hann hafi engin átök séð, en átökin hafi verið yfirstaðin þegar hann hafi komið út af skemmtistaðnum umrædda nótt.

Þá var tekin skýrsla af vitninu E við rannsókn málsins hjá lögreglu, en ástæðulaust er að gera grein fyrir henni, enda kemur fram í skýrslu hennar að hún hafi ekki séð þann atburð sem lýst er í ákæru og verið annarsstaðar, en vitnið kom ekki fyrir dóminn.

Í rannsóknargögnum er vottorð F sem var læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, dags. 7. janúar 2011, þar sem því er lýst að kærandi hafi komið á bráðamóttöku heilbrigðisstofnunarinnar  vegna meintrar árásar laust eftir kl. 04:00 aðfaranótt 18. desember 2010.  Kemur fram að kærandi hafi skýrt frá því að hafa orðið fyrir líkamsárás og verið snúinn niður og lent á hægri upphandlegg og komið illa niður á olnboga.  Hafi kærandi verið mjög aumur í hægri olnboga, ekki getað beygt eða hreyft um olnboga vegna mikilla verkja í olnboga.  Greinilega mikil bólga eins og það hafi orðið blæðing eða jafnvel brotáverki.  Jafnframt lýst áverkum í andliti.  Kemur fram að kærandi hafi fengið „collar and cuff“, verkjastillingu og sagt að koma í röntgenmyndatöku morguninn eftir.  Í röntgenmyndatöku hafi komið í ljós „intra articulert” brot í „caput radii“ án teljandi skekkju, setið nokkuð vel, blóð í lið.  Mætti gera ráð fyrir að kærandi yrði slæmur í olnboga næstu vikur og ekki vinnufær næstu vikur meðan hann væri að ná sér og gróa sára sinna. 

Framburður fyrir dómi

Ákærði kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa verið á [...] umrætt sinn.  Hafi hann verið frekar mikið ölvaður.  Hafi hann hitt kæranda sem hafi verið með kærustu sinni, en hana hafi ákærði þekkt fyrir löngu síðan.  Hafi ákærði sagt við hana að þegar hún yrði leið á kæranda þá gæti hún alltaf komið til sín.  Þetta hafi verið inni á skemmtistaðnum.  Þetta hafi farið í skapið á kæranda.  Úr þessu hafi orðið ryskingar og rifrildi fyrir utan, á bílaplaninu.  Hafi kærandi slegið sig fyrsta högg.  Hafi ákærði fallið í jörðina í framhaldinu.  Í ryskingunum hafi nokkrir, á að giska 5-6 strákar, verið og legið í þvögu í jörðinni í átökum, m.a. ákærði og kærandi og D vinur ákærða.  Þegar ákærði hafi staðið upp þá hafi kærandi verið að ganga burt og ákærði gengið að honum og hafi þeir þá rifist meira og svo hafi ákærði sparkað undan honum löppunum og kærandi hafi þá fallið fram fyrir sig og borið fyrir sig hendur, framhandleggi og olnboga.  Hafi kærandi risið á fætur og þeir báðir gengið burt.  Hafi ákærði ekki orðið var við neina áverka á kæranda.  Þá hafi þetta verið búið.  Ekkert vissi ákærði hvað hafi orðið um kæranda eftir þetta.  Ekki kvaðst ákærði geta útskýrt hvernig kærandi hafi brotnað á olnboga, nema ef vera skyldi að það hefði gerst þegar átökin voru og allir voru í þvögu á jörðinni.  Hafi ákærði ekki séð kæranda í neinum öðrum átökum, en allt frá því að kærandi hafi risið á fætur eftir að hafa verið í þvögunni hafi kærandi alltaf verið að reyna að komast í burtu og ekki gert neitt.

Vitnið F læknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hefði verið læknir við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á þessum tíma.  Staðfesti vitnið læknisvottorð sitt sem að ofan er getið.  Bar vitnið að kærandi hafi verið lemstraður og með mikla verki í olnboga og ekki getað hreyft handlegginn um olnboga.  Verið aumur.  Aðaláverki hafi verið í hægri olnboga, mikil bólga og miklir verkir, greinilega mikil blæðing inn í liðinn og hafi vitnið strax grunað brotáverka.  Hafi vitnið bundið um þetta með „collar and cuff“ sem sé frá hálsi og niður í úlnlið, sem haldi olnboganum „fixeruðum“.  Hafi kærandi farið í röntgenmyndatöku og hafi komið í ljós „intra articulert brot í caput radii“ þ.e.a.s. sprunga í liðhöfðinu, en brotið hafi setið vel.  Hafi jafnframt sést blóð í liðnum.  Meðferð við þessu sé hvíld, „collar and cuff“ og verkjastilling, en síðan leiði tíminn framhaldið í ljós.  Þetta ætti að gróa á nokkrum vikum en á meðan megi gera ráð fyrir algjörri óvinnufærni.  Brotið geti hafa komið við að falla fram fyrir sig og lenda á olnbogum á einhverju hörðu.  Fyrst og fremst geti svona brot komið við höggáverka á sjálfan olnbogann, en síður t.d. við að það sé snúið upp á handlegginn.  Ekki mundi vitnið eftir að hafa séð hrufl eða slíkan yfirborðsáverka á húð á olnboga, en það þyrfti ekki að vera.  Ekki breyti neinu hvort höggið á olnbogann komi við að falla fram eða aftur fyrir sig, eða þess vegna á annan hátt. 

Vitnið C kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa verið á [...] og hafa komið þar út og staðið í dyrum umrædda nótt.  Þá hafi hún séð B og kæranda, sem hafi verið að tala við einhverja gaura og skyndilega hafi þeir byrjað að fljúgast á, mest með vindhöggum.  Ekki hafi vitnið vitað aðdraganda þess.  Svo hafi kærandi verið kominn í götuna og einhverjir gaurar ofan á honum.  Taldi vitnið ákærða hafa verið einn þeirra sem hafi verið ofan á kæranda.  Hafi kærandi sætt spörkum og barsmíðum.  Ekki hafi vitnið séð þegar kærandi lenti í götunni.  Hafi vitnið ætlað að reyna að hjálpa kæranda, en svo labbað í burtu.  Vitnið hafi talað við einhvern annan þarna.  Kærandi hafi svo staðið upp mjög reiður þegar slagsmálin í þvögunni hafi verið búin og verið mjög illt í höndinni og ætlað bara að labba heim og gengið burt í áttina að [...], sem er í sömu götu, en svo hafi hann komið til baka til konu sinnar og þau hafi svo farið saman á sjúkrahúsið með leigubíl.  Hafi vitnið séð til kæranda alla þessa leið.  Ekki hafi vitnið séð kæranda lenda í jörðinni eftir þetta.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð kæranda fá högg á olnbogann.  

Vitnið A, kærandi, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hefði verið að skemmta sér á [...] ásamt konu sinni umrætt sinn.  Þegar þau hafi verið að yfirgefa [...] hafi konan hans verið við hliðina á honum.  Ákærði hafi komið til konunnar og talað við hana, en vitnið hafi haldið að það væri bara venjulegt spjall.  Þegar vitnið hafi áttað sig á því að ákærði væri að segja við konuna að þegar hún yrði þreytt á vitninu þá gæti hún hringt í ákærða, þá hafi vitninu fundist það vera dónaskapur.  Þegar vitnið hafi áttað sig á þessu þá hafi þeir horfst í augu ákærði og vitnið.  Vitnið hafi svo verið á leið út og ákærði komið til hans og þá hafi vitnið sagt að sér líkaði ekki þetta tal.  Skyndilega hafi ákærði eða vinur hans lamið vitnið og vitnið hafi lamið til baka.  Ekki gat vitnið fullyrt hvort ákærði eða vinur hans hefði greitt sér högg eða tekið við höggi.  Ekki gat vitnið skýrt það að í lögregluskýrslu væri eftir sér haft að vitnið hafi átt fyrsta höggið.  Úr þessu hafi orðið átök þar sem 3-4 menn hafi lamið vitnið.  Hafi vitnið fallið aftur á bak og lent í jörðinni.  Ekki vissi vitnið nákvæmlega hvað hafi orðið þess valdandi að vitnið datt, en taldi að tveir mannanna hefðu lyft sér upp og hent sér í jörðina og samtals fjórir ráðist á sig.  Hafi vitnið bæði fengið í sig högg og spörk.  Hafi mennirnir rifið í föt vitnisins og svo hafi ákærði og vinur hans komið beint á sig og reynt að lemja vitnið aftur.  Hafi vitnið svo staðið upp og þá verið „með leggbrot“.  Hafi mennirnir sagt við sig allskyns orð sem vitnið hafi ekki skilið.  Svo hafi mennirnir kastað í hann ýmsu lauslegu og svo tekið veskið hans þó hann væri beinbrotinn.  Hafi þeir svo farið í burtu.  Kvaðst vitnið hafa kennt sársauka í hægri olnboga þegar vitnið hafi staðið upp, en vitnið kvaðst hafa heyrt hljóð þegar beinið hafi brotnað.  Vitnið kvaðst tvívegis hafa lent í jörðinni.  Fyrst hafi þeir farið saman í jörðina og lent í átökum en í seinna skiptið hafi tveir menn hent sér í jörðina og hann aðeins einn fallið og þá hafi hann meitt sig.  Ekki hafi vitnið fengið högg á olnbogann svo hann viti til fyrr en hann hafi fallið í jörðina.  Sér hafi annað hvort verið ýtt niður eða hann verið sparkaður niður í seinna skiptið og hafi hann lent á bakinu.  Hafi ákærði eða vinur hans gert það.

Vitnið B, eiginkona kæranda, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið að skemmta sér á [...] og ballið hafi verið búið.  Hafi vitnið setið frammi í anddyri þegar búið hafi verið að kveikja ljósin.  Þá hafi ákærði komið og sagt við sig að ef hún fengi leið á kæranda þá skyldi hún bara hafa samband við sig.  Hafi ákærði verið að grínast og ekkert meint með þessu.  Kærandi sé hins vegar viðkvæmur fyrir svona.  Hann hafi ekki verið glaður með þetta og þegar hann hafi fattað hvað ákærði hafi sagt þá hafi kærandi farið og talað við ákærða og þeir hafi farið að rífast og þá hafi komið einhver strákur og kýlt kæranda og þá hafi allt farið í klessu og allir að slást.  Hún hafi ekki séð upptökin vel en það hafi verið fjórir eða fimm að reyna að lemja kæranda sem hafi verið einn til varnar ásamt vitninu og vinkonu hennar.  Gat vitnið ekki lýst nákvæmlega hvað gerðist.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar kærandi féll í jörðina.  Hún hafi ekki séð að hafi verið sparkað í kæranda.  Hafi hún reynt að draga strák ofan af kæranda.  Svo hafi kærandi allt í einu verið horfinn og hún hafi verið að reyna að tína saman dótið hans.  Svo hafi kærandi komið aftur og þau hafi farið upp á spítala.  Vitnið hafi ekki vitað nöfn á þeim sem hafi slegist við kæranda, nema nafn ákærða.  Þá hafi annar strákur, G, verið að reyna að hjálpa kæranda.

Vitnið D kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að umrætt sinn hafi hann verið að skemmta sér á [...].  Vitnið kvaðst hafa verið inni á skemmtistaðnum þegar slagsmál hafi orðið og hafi þeim verið lokið þegar vitnið hafi komið út.  Hafi vitnið ekki séð nein slagsmál. 

Niðurstaða

Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að draga í efa, á þeim sakargiftum sem fram eru bornar með ákæru, dags. 10. júní 2011, sem er samræmi við gögn málsins, þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem þar er lýst og er þar réttilega færð til refsiákvæða.  Hefur ákærði unnið sér til refsingar vegna þessa.

Vegna líkamsárásarákærunnar, dags. 22. júní 2011, hefur ákærði lýst því fyrir dóminum að hafa lent í átökum við kæranda umrætt sinn.  Hafi kærandi slegið fyrsta höggið.  Hafi fleiri átt þátt í átökunum, alls 5-6 menn.  Að þeim loknum hafi kærandi dregið sig út úr hópnum og ákærði svo gengið til hans og sparkað undan honum fótunum að framanverðu þannig að kærandi hafi fallið fram fyrir sig og borið fyrir sig hendur og framhandleggi.  Eftir það hafi kærandi risið á fætur og farið burt, en enga skýringu kvaðst ákærði hafa á olnbogabroti ákærða, nema ef vera skyldi að hann hefði brotnað í fyrri átökunum, en ákærði benti á að strax að þeim loknum hafi kærandi ekkert gert en alltaf verið að reyna að komast í burtu.

 Fyrir dómi bar kærandi um það að umrætt sinn hafi komið til átaka milli sín og ákærða.  Fyrst hafi þeir horfst í augu, en skyndilega hafi ákærði eða vinur ákærða, lamið kæranda og hafi kærandi lamið til baka.  Hjá lögreglu var haft eftir kæranda í skýrslu að hann hefði fyrst bankað í ennið á ákærða, en fyrir dóminum gat ákærði kærandi ekki skýrt það að eftir honum væri haft í lögregluskýrslu að hann hefði átt fyrsta högg.  Úr þessu hafi orðið átök þar sem 3-4 menn hafi lamið kæranda, sem hafi fallið aftur á bak og lent á jörðinni.  Hafi hann bæði tekið við höggum og spörkum.  Svo hafi ákærði og vinur hans aftur komið að kæranda og reynt að lemja hann og eftir að hafa þá risið upp hafi hann verið með „leggbrot“.  Kvaðst kærandi hafa lent tvívegis í jörðinni, fyrst þegar hann hafi verið í átökum við fleiri en svo í seinna skiptið þegar tveir menn hafi hent sér í jörðina og hann þá einn fallið og í það skiptið hafi hann meitt sig í olnboganum.  Þá hafi sér annað hvort verið ýtt niður eða hann sparkaður niður, annað hvort af ákærða eða vini ákærða.  Hafi kærandi í þetta skipið lent á bakinu.  Ekki vissi kærandi til að hann hefði fengið högg á olnbogann fyrr en hann féll í götuna í seina skiptið.

Vitnið C bar um það fyrir dóminum að umrætt sinn hafi hún séð kæranda og einhverja gaura í slagsmálum og hafi þeir verið komnir í götuna.  Taldi vitnið ákærða hafa verið einn þeirra.  Hafi kærandi verið undir og sætt höggum og spörkum, en vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar kærandi hafi lent í götunni, en kærandi hefði verið undir hinum.  Kærandi hafi svo staðið á fætur, reiður og verið illt í höndinni, en hann síðan gengið nokkurn spöl frá, komið aftur og farið svo með konu sinni burt í leigubíl.  Hafi vitnið séð kæranda allan tímann, en hann hafi aðeins einu sinni fallið í jörðina.

Vitnið B bar um það fyrir dómi að þegar kærandi hafi áttað sig á því hvað ákærði hefði sagt þá hefði kærandi farið að ákærða og þeir farið að rífast og svo komið annar maður að og kýlt kæranda og þá hafi allt farið í klessu og allir að slást, en kærandi hafi nánast verið einn til varnar.  Ekki gat vitnið lýst átökunum vel og ekki hafi hún séð þegar kærandi féll í jörðina.  Svo hafi kærandi skyndilega verið horfinn, birst svo aftur og þau eftir það farið upp á spítala.

Vitnið F læknir bar um það að meiðsl þau sem kærandi hafi á olnboga væru langlíklegast af völdum höggs á olnbogann, en síður t.d. við að væri snúið upp á handlegginn.  Ekki breyti hins vegar neinu hvort höggið kæmi við að falla til jarðar aftur fyrir sig eða fram fyrir sig, eða á einhvern annan hátt.

Ákærði hefur játað að hafa gert það sem lýst er í ákærunni, en ekkert vitni hefur staðfest þann framburð ákærða.  Bar ákærði að kærandi hefði fallið fram fyrir sig.  Kærandi hefur borið að hafa fallið aftur fyrir sig við það að annað hvort hafi verið sparkað í sig eða honum verið ýtt, annað hvort af ákærða eða vini hans.  Af framburði vitnisins C verður hins vegar það helst ráðið að kærandi hafi aðeins einu sinni fallið í götuna og þá í það skiptið þegar þvöguslagsmálin urðu.  Vitnið B sá ekki þegar kærandi féll í götuna og sá ekki að sparkað væri í kæranda.  Upplýst er og óumdeilt að kærandi og fleiri, m.a. ákærði, slógust og m.a. liggjandi í jörðinni, áður en það atvik á að hafa gerst sem er lýst í ákærunni, en upptök þeirra slagsmála eru ekki fyllilega ljós.  Þrátt fyrir framburð ákærða þykir ekki fulljóst og hafið yfir vafa hvort og hvernig kærandi lenti í jörðinni í hið síðara skipti sem lýst hefur verið.  Þá þykir það ekki vera hafið yfir skynsamlegan vafa að kærandi hafi ekki hlotið meiðsl sín í þeim slagsmálum sem upplýst er að hann lenti í og fóru fram á malbikuðu plani fyrir framan [...], en fram hefur komið að nokkrir menn tóku þátt í þeim slagsmálum og liggur ekki fyrir um hverjir það voru og um þátt hvers og eins. 

Þykir þannig óvarlegt að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákærunni og með þeim afleiðingum sem lýst er í ákærunni og ber því að sýkna hann af henni. 

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði 14 sinnum áður sætt refsingu, fyrst með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum þann 11. október 2004, og síðast með dómi sama dómstóls uppkveðnum þann 19. maí 2011.  Hefur ákærði þannig á sjö ára tímabili sætt refsingu, ýmist samkvæmt dómi eða sátt fyrir brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og umferðarlögum nr. 50/1987. Þá kemur fram á sakavottorði ákærða að hann hafi með dómum Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum þann 29. október 2007 og þann 20. janúar 2011, sætt refsingu fyrir sviptingarakstur. Hefur ákærði nú m.a. gerst sekur um sviptingarakstur og er það brot hans ítrekað öðru sinni. Þá kemur fram í sakavottorði ákærða að hann hafi hlotið tvo refsidóma á árinu 2011, báða uppkveðna í Héraðsdómi Suðurlands, annarsvegar þann 20. janúar 2011 og hins vegar, eins og að framan greinir, þann 19. maí 2011.  Með broti sínu nú rauf ákærði skilorð dómsins frá 19. maí 2011, en þar var ákærði dæmdur í fangelsi í tvo mánuði, en refsingin skilorðsbundin til tveggja ára.  Ber nú að dæma upp refsingu samkvæmt nefndum dómi og gera ákærða refsingu í einu lagi skv. 60. gr., sbr. 1. mgr. 77. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Að teknu tilliti til sakarferils ákærða þykja ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.

Með hliðsjón af framansögðu ber að vísa frá dómi skaðabótakröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða einn fjórða hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, sem alls ákveðast kr. 251.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.  Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhannesar S. Ólafssonar hdl., kr. 250.960.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Unnar Már Hjaltason, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði skal vera sýkn af kröfum ákæruvalds samkvæmt ákæru dagsettri 22. júní 2011.

Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.

Ákærði greiði einn fjórða hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Gríms Hergeirssonar hdl., sem alls ákveðast kr. 251.000.  Annar sakarkostnaður, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhannesar S. Ólafssonar hdl., kr. 250.960, greiðist úr ríkissjóði.