Hæstiréttur íslands
Mál nr. 222/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
- Barnavernd
|
|
Föstudaginn 15. apríl 2011. |
|
Nr. 222/2011.
|
A (Einar Hugi Bjarnason hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur(Kristján Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. Barnavernd.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að A skyldi svipt sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2011, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður hennar greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Fyrir Hæstarétti hefur verið upplýst að sóknaraðili ól barn sitt [...].[...][...]. Þar með hafa orðið þær breytingar á atvikum, sem byggt er á í forsendum hins kærða úrskurðar, að óhjákvæmilegt er að fella ákvæði hans um að svipta sóknaraðila sjálfræði úr gildi.
Ákvæði úrskurðarins um þóknun verjenda verða staðfest.
Sóknaraðila var skipaður verjandi og varnaraðila talsmaður í héraði. Með vísan til 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun þeirra vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, eins og hún verður ákveðin í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi um sjálfræðissviptingu sóknaraðila, A.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun verjenda sóknaraðila eru staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Einars Huga Bjarnasonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Kristjáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2011.
Með beiðni, dagsettri 18. mars 2011, hefur Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krafist þess að A, kt [...], [...], Reykjavík, verði svipt sjálfræði í sex mánuði á grundvelli a- og b-liða 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og 1. og 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga og 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga.
Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi frá unga aldri átt við félagsleg vandamál að stríða. Hún hafi byrjað að neyta kannabisefna og áfengis [...] ára gömul og verið í neyslu sterkari ávana- og fíkniefna frá [...] ára aldri. Varnaraðili er nú barnshafandi og á [...]. viku meðgöngu. Er það mat sóknaraðila að með hátterni varnaraðila og vímuefnaneyslu sé heilsu og lífi ófædds barns hennar stefnt í hættu. Við mæðraeftirlit á meðgöngunni hafi ítrekað mælst kannabis í líkama varnaraðila og verði af þeim rannsóknum ráðið að hún neyti kannabisefna að staðaldri. Þá hafi lögregla í tvígang verið kvödd að heimili varnaraðila og sambýlismanns hennar vegna átaka milli þeirra og hafi þau verið undir áhrifum fíkniefna. Varnaraðili hafi mætt illa í mæðraeftirlit og ekki verið til samvinnu við Barnavernd Reykjavíkur.
Að beiðni Barnaverndar Reykjavíkur var varnaraðili hinn 31. janúar sl. nauðungarvistuð á deild [...] [...], Landspítala. Í vottorði B geðlæknis, sem ritað var vegna þeirrar vistunar, kemur fram að varnaraðili hafi lítið sjúkdómsinnsæi og að dómgreind hannar sé skert. Hún sé haldin alvarlegri kannabisfíkn og sé í mikilli neyslu þótt henni eigi að vera ljóst að hún geti valdið ófæddu barni sínu skaða. Varnaraðili útskrifaðist af deildinni hinn 10. febrúar og hafði þá samþykkt að mæta daglega í eftirlit. Það gerði hún daginn eftir útskrift, en síðan ekki meir. Hún mætti ekki heldur til mæðraeftirlits hinn 16. febrúar. Við mæðraeftirlit 25. febrúar og 10. mars mældist mikið magn kannabis í líkama varnaraðila. Hinn 11. mars kom varnaraðili á deild [...] [...] í fylgd lögreglumanna, sem höfðu áður haft afskipti af henni og sambýlismanni hennar á heimili þeirra. Kemur fram að ástand á heimilinu hafi verið mjög bágborið sökum óreiðu og óþrifnaðar og borið þess merki að neytt hafi verið vímuefna í íbúðinni. Virtist varnaraðili vera undir áhrifum vímuefna og ákváðu læknar á deildinni að vista hana þar nauðuga. Hinn 12. mars samþykkti innanríkisráðuneytið nauðungarvistun varnaraðila í 21 sólarhring. Hefur varnaraðili dvalist á deildinni síðan og kemur fram í kröfu að ástand hennar sé slæmt. Hún hafi sýnt sjálfsskaðandi hegðun og gefið óljós svör um hvernig hún hyggist sinna uppeldi barnsins eftir fæðingu.
Meðal gagna málsins er vottorð C sálfræðings, dagsett 17. mars sl., þar sem kemur fram að varnaraðili sé til lítillar samvinnu, hafi lítið innsæi í fíknisjúkdóm sinn og dómgreind hennar sé verulega skert. Hún hafi greinst með einkenni [...] og „[...]“. Þá greinist hún með alvarlega [...]röskun auk fíkniröskunar. Að mati sálfræðingsins hafi hún stefnt ófæddu barni sínu í hættu með hegðun sinni. Hegðun hennar á geðdeild hafi verið þannig að rík ástæða sé til að óttast um líf fóstursins. Varnaraðili hafi hótað að skaða fóstrið og hún hafi stokkið á vegg og rekið kviðinn þar í að sögn til að þvinga fram útskrift. Þá hafi varnaraðili litla sem enga þekkingu á börnum og umönnun þeirra og sé ólíklegt að hún hafi getu til að læra að sinna barninu. Að mati sálfræðingsins er hún með [...] greind, hún hafi [...] orðaforða og virðist almennur skilningur [...] [...]. Ekkert komi fram sem gefi til kynna að hún geti sinnt forsjárskyldum sínum þegar barnið er fætt. Að hans mati sé ófætt barn varnaraðila í lífshættu og mælir hann með því að hún verði vistuð á [...]deild þangað til barnið er fætt. Með því megi halda varnaraðila frá fíkniefnaneyslu, tryggja öryggi barnsins og undirbúa fæðingu þess.
Í vottorði D geðlæknis, dagsettu 17. mars sl., er rakið að varnaraðili hafi sýnt mikið ábyrgðarleysi gagnvart ófæddu barni sínu. Hún hafi einnig beinlínis reynt að skaða barnið með því að hlaupa á veggi á [...]deildinni og látið höggið lenda á kvið sínum. Hún hafi lýst því yfir að hún vilji ekki eiga barnið og að hún hafi áhyggjur af því að geta ekki hugsað um það. Að mati fagfólks geti varnaraðili stofnað lífi barnsins í hættu eftir fæðingu. Varnaraðili hafi einkenni alvarlegrar [...]truflunar. Hún sé tortryggin gagnvart fagaðilum og ekki til samvinnu. Hverfandi líkur séu á því að ástand hennar fari batnandi. Að mati læknisins eru þessi einkenni svo alvarleg að réttlætanlegt sé að svipta varnaraðila sjálfræði til að tryggja öryggi ófædds barns hennar.
Þá er meðal gagna málsins vottorð E sérfræðings í kvenlækningum, dagsett 17. mars 2011, þar sem kemur fram að við ómskoðun 14. mars sl. hafi komið í ljós að vöxtur fósturs sem varnaraðili ber sé frekar hægur og verði að fylgjast reglulega með því að það vaxi. Áhyggjuefni sé að varnaraðili hafi ekki sinnt mæðravernd og verði sífellt mikilvægara að fylgjast með heilsu hennar og barnsins þegar nær dregur fæðingu. Jafnframt sé nauðsynlegt að tryggt verði að varnaraðili leiti á fæðingardeild þegar að fæðingu kemur svo að tryggja megi öryggi hennar og barnsins.
D og C komu fyrir dóminn og staðfestu vottorð sín. Hjá vitnunum kom fram að varnaraðili hefði greinst með alvarlega [...]röskun og vímuefnaröskun, en hvort tveggja teldist til geðsjúkdóma. Vitnin sögðust hafa eftir starfsfólki [...]deildarinnar að varnaraðili hefði reynt að skaða ófætt barn sitt með því að stökkva á vegg og láta höggið lenda á kvið sínum.
F, ráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur, kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir afskiptum starfsmanna barnaverndaryfirvalda af varnaraðila, frá nóvember 2010, þegar tilkynningar bárust frá lögreglu, félagsþjónustu og mæðravernd um að hún stofnaði heilsu og lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu. Sagði vitnið að reynt hafi verið að fá varnaraðila til að láta af vímuefnaneyslu, en hún hafi verið til lítillar samvinnu. Hún hafi mætt stopult í mæðraeftirlit og vímuefnapróf staðfest mikla neyslu kannabisefna. Hafi barnaverndaryfirvöld í tvígang haft frumkvæði að nauðungarvistun varnaraðila á deild [...] [...] á Landspítala til afeitrunar, svo sem rakið er í gögnum málsins. F staðfesti að móðir varnaraðila hafi hinn 18. mars sl. á fundi með lögmanni varnaraðila og starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur boðist að hafa varnaraðila undir eftirliti á heimili sínu uns barnið væri fætt. Hann sagði starfsmenn Barnaverndar oft hafa leitað aðstoðar móður varnaraðila við að hafa uppi á henni, en hún hafi ekki verið til samvinnu. Þá hafi móðirin ekki alltaf sagt satt um dvalarstað varnaraðila eða hvar hún væri niður komin.
G geðlæknir og meðferðarlæknir varnaraðila lýsti aðdraganda þess að varnaraðili var vistuð nauðug á [...]deild. Sagði hann hagsmuni hins ófædda barns hafa ráðið þeirri ákvörðun. Varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu um að láta af vímuefnaneyslu sinni og í ljósi reynslunnar teldi hann töluverða hættu vera á því að hún myndi byrja í neyslu að nýju útskrifist hún af sjúkrahúsinu.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hún kannaðist við að hafa hlaupið á vegg á sjúkrahúsinu, en neitaði að hafa rekið kviðinn í til að skaða barnið, eins og komið hafi fram hjá vitnum. Þá sagðist hún ekki hafa verið í neyslu örvandi fíkniefna, s.s. amfetamíns. Varð ráðið af skýrslu varnaraðila að hún bæri ekki traust til starfsmanna barnaverndaryfirvalda. Hún vísaði því á bug sem fram hefði komið að hún myndi hugsanlega ekki leita sér aðstoðar þegar að fæðingu kemur. Þá viðurkenndi hún að hafa mætt stopult í mæðraeftirlit, en sagðist þó ávallt hafa pantað nýjan tíma ef fyrir kom að hún mætti ekki til eftirlits.
Niðurstaða
Svo sem rakið hefur verið hefur varnaraðili átt við langvarandi fíknisjúkdóm að stríða, auk þess sem hún hefur greinst með alvarlega [...]röskun. Er staðreynt að varnaraðili hefur ekki látið af neyslu fíkniefna á meðgöngunni og hafa mælingar sýnt að hún neyti kannabisefna að staðaldri. Varnaraðili hefur sinnt mæðraeftirliti illa, en sérstaklega mikilvægt er að ekki verði misbrestur þar á þegar líður að fæðingu barnsins. Er það mat dómsins að varnaraðili hafi með líferni sínu stofnað heilsu ófædds barns síns í hættu. Að virtum þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu og af vitnisburði sérfræðinga og starfsmanns Barnaverndar fyrir dóminum, þykir verða ráðið að varnaraðili muni að öllum líkindum taka upp sama hátterni útskrifist hún af sjúkrahúsi nú. Þykir hagsmunum ófædds barns hennar best borgið með því að hún verði vistuð á sjúkrastofnun meðan á meðgöngunni stendur í því skyni að hún fái notið viðhlítandi aðhlynningar og meðferðar. Verður varnaraðili í því skyni svipti sjálfræði á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga, sbr. 2. mgr. 30. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga verður tímabundin sjálfræðissvipting ekki ákveðin skemur en í 6 mánuði og verður við það tímamark miðað í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda, Einars Huga Bjarnasonar hdl., 150.600 krónur, og þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., sem kom að málinu fyrir dómsmeðferð þess, 50.200 krónur. Þóknun lögmanna er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili A, er svipt sjálfræði í sex mánuði.
Þóknun skipaðs verjanda, Einars Huga Bjarnasonar hdl., 150.000 krónur, og Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 50.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði.