Hæstiréttur íslands

Mál nr. 288/2011


Lykilorð

  • Óvígð sambúð
  • Fjárskipti
  • Ógilding samnings


                                     

Fimmtudaginn 15. desember 2011.

Nr. 288/2011.

M

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

gegn

K

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Óvígð sambúð. Fjárskipti. Ógildi samnings.

M og K höfðu verið í sambúð í tæplega 20 ár er þau slitu samvistum í byrjun árs 2008. Þau gerðu með sér samning 25. febrúar sama ár þar sem m.a. var gengið frá fjárslitum milli þeirra. Komu allar eignir og skuldir í hlut M gegn staðgreiðslu til K að fjárhæð 5.000.000 krónur. K höfðaði málið til að fá fjárslitunum hnekkt. Talið var að ekki væru skilyrði til að ógilda samning aðila um fjárslitin vegna misneytingar, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða að óheiðarlegt hafi verið af hálfu M að bera samninginn fyrir sig, sbr. 33. gr. sömu laga. Að því gættu m.a. að rík fjárhagsleg samstaða var með aðilum og öll eignamyndun þeirra varð á sambúðartímanum var aftur á móti talið að samningur aðila til fjárslita hafi verið ósanngjarn og rétt væri samkvæmt 36. gr. fyrrnefndra laga að víkja til hliðar ákvæði hans um endurgjald til K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. maí 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst áfrýjandi þess að krafa stefndu verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hófu málsaðilar óvígða sambúð árið 1989, en það ár varð áfrýjandi 23 ára að aldri og stefnda 21 árs. Fyrir sambúð áttu aðilar saman barn, fætt [...], en þau eignuðust síðan þrjú börn eftir að til sambúðar var stofnað. Þegar málsaðilar tóku upp sambúð fluttu þau að [...] í [...]hreppi og hófu búskap á jörðinni ásamt foreldrum áfrýjanda. Málsaðilar tóku síðar við öllum búskap á henni, en faðir áfrýjanda andaðist árið [...]. Hinn 27. apríl 2006 afsalaði móðir áfrýjanda [...] til málsaðila ásamt [...], sem var nýbýli úr jörðinni, og [...] í sama sveitarfélagi. Sambúð aðila var slitið 20. janúar 2008 og flutti stefnda þá af jörðinni.

Í kjölfar þess að stefnda flutti af heimilinu gerðu aðilar með sér samning 25. febrúar sama ár vegna slita á sambúðinni. Með samningnum var skipað forsjá með ólögráða börnum aðila, auk þess sem kveðið var á um umgengni og meðlag. Þá var með samningnum gengið frá fjárslitum milli aðila á þann veg að allar eignir og skuldir komu í hlut áfrýjanda gegn staðgreiðslu til stefndu að fjárhæð 5.000.000 krónur. Stefnda höfðaði málið til að fá þessum fjárslitum hnekkt.

II

Fallist er á það með héraðsdómi að ekki hafi verið leitt í ljós að atvik máls hafi verið þannig að fyrir hendi séu skilyrði til að ógilda samning aðila um fjárslitin vegna misneytingar, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða að óheiðarlegt hafi verið af hálfu áfrýjanda að bera samninginn fyrir sig, sbr. 33. gr. sömu laga.

Málsaðilar hófu sambúð ung að árum og stóð hún í tæplega 20 ár. Í málinu liggur fyrir að með þeim var rík fjárhagsleg samstaða, en þau störfuðu bæði við búreksturinn og sóttu í einhverjum mæli vinnu utan búsins. Öll eignamyndun þeirra varð á sambúðartímanum en þegar sambúðinni lauk voru þau bæði að jöfnum hlut þinglýstir eigendur fyrrgreindra jarða. Í matsgerð dómskvadds manns er andvirði jarðanna, húsakosts og lausafjár í eigu aðila talið samtals 60.989.075 krónur miðað við verðmæti þeirra 20. janúar 2008. Samkvæmt skattframtali aðila voru skuldir þeirra samtals 29.982.976 krónur í árslok 2007. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður talið að samningur aðila til fjárslita, sem fól í sér að 5.000.000 krónur kæmu í hlut stefndu, hafi verið ósanngjarn og að rétt sé samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 að víkja til hliðar ákvæði hans um það endurgjald.

III

Í málinu liggur fyrir að véla- og verkfærageymsla að [...] var reist veturinn 2007 til 2008, en byggingarleyfi var samþykkt 9. maí 2007 og geymslan skráð fokheld vorið 2008. Að þessu gættu hefur ekki verið leitt í ljós að við sambúðarslitin hafi verið fullbúinn sá hluti geymslunnar sem er einangraður með steyptu gólfi, raflögn og innkeyrsluhurð. Eru því ekki efni til að leggja til grundvallar að þessi hluti geymslunnar hafi verið verðmeiri en óeinangraður hluti hennar. Verður því miðað við að fermetraverð á þessum hluta lækki sem þessu nemur, en samkvæmt því verður andvirði geymslunnar talið 8.700.000 krónur í stað 10.500.000 krónur. Svo sem fram kemur í héraðsdómi eru málsaðilar sammála um að við fjárslit þeirra skyldi taka tillit til bifreiðar og bankainnstæðna, samtals að verðmæti 3.106.866 krónur, til viðbótar þeim eignum sem metnar voru af hinum dómkvadda manni. Með vísan til framangreinds verða heildareignir aðila við sambúðarslitin taldar hafa numið 62.295.941 krónu og er ekkert fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að verðmæti þeirra hafi breyst frá þeim tíma.

Með þeim rökum sem greinir í héraðsdómi verður ekki fallist á það með áfrýjanda að telja eigi með skuldum fjárhæð sem svarar til virðisaukaskatts af dráttarvél, 1.467.550 krónur, en andvirði vélarinnar í matsgerð er talið nema kaupverðinu án virðisaukaskatts. Þá er ágreiningslaust með aðilum að frá skuldum þeirra skuli draga 342.012 krónur sem svarar til skuldar sonar þeirra. Samkvæmt þessu voru skuldir aðila í árslok 2007, skömmu fyrir slit sambúðarinnar, alls 28.173.414 krónur.

Með fyrrgreindum fjárslitasamningi milli aðila tók áfrýjandi að sér greiðslu allra sameiginlegra skulda þeirra. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 ber ekki aðeins að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila og atvika við samningsgerðina, þegar lagt er mat á hvort víkja skuli samningi til hliðar eða breyta honum, heldur einnig til atvika sem síðar hafa komið til. Sömu sjónarmið eiga við þegar leyst er úr því álitaefni hvaða breytingar skuli gera á efni samnings eftir þessari lagagrein. Með vísan til þess er fallist á þá málsástæðu áfrýjanda að taka beri tillit til þeirrar óvenjulegu hækkunar á fyrrgreindum skuldum, sem urðu síðla árs 2008 og á árinu 2009, við ákvörðun þeirra skulda aðila sem sanngjarnt er að leggja til grundvallar við úrlausn málsins. Áfrýjandi hefur ekki teflt fram neinni fjárhæð í þessu sambandi, en af gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu um hækkun skulda af þessum sökum frá árslokum 2007 til ársloka 2009, verður ráðið að sú hækkun hafi að minnsta kosti verið 3.000.000 krónur. Þar af leiðandi verður miðað við að skuldir aðila, sem rétt er að draga frá eignum við endurskoðun á fjárslitasamningi þeirra, séu alls 31.173.414 krónur.

Samkvæmt framansögðu er hrein eign aðila, sem rétt er að leggja til grundvallar við úrlausn málsins, 31.122.527 krónur. Að því gættu, sem áður segir um óslitna sambúð aðila, fjárhagslega samstöðu þeirra og að fyrrgreindar þrjár jarðir voru þinglýstar eignir þeirra beggja, verður gengið út frá að hrein eign hafi átt að skiptast að jöfnu milli þeirra, en þau virðast bæði hafa gengið út frá að þannig hafi verið um samið. Því á helmingur af hreinni eign, sem nemur 15.561.263 krónum, að koma í hlut stefndu. Að teknu tilliti til þess að hún hefur þegar fengið greiddar 5.000.000 krónur frá áfrýjanda verður honum gert að greiða henni 10.561.263 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest, en rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Áfrýjandi, M, greiði stefndu, K, 10.561.263 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. nóvember 2010 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 11. apríl 2011.

Mál þetta sem höfðað var 7. desember 2009 var tekið til dóms föstudaginn 14. janúar 2011.

Stefnandi er K, [...],[...].

Stefndi er M, [...],[...].

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að samningur aðila um sambúðarslit, undirritaður 25. febrúar 2008, verði ógiltur með dómi. Í öðru lagi er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.961.264 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga, frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags. Í þriðja lagi er krafist málskostnaðar, að teknu tilliti til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts. Stefnufjárhæð samkvæmt öðrum lið dómkrafna stefnanda var lækkuð undir rekstri málsins, fyrst með sókn sem lögð var fram í þinghaldi 5. nóvember 2010, úr 40.000.000 króna í 25.494.537 krónur, og aftur í upphafi aðalmeðferðar málsins, í 12.961.264 krónur.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar úr hendi stefnanda. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 krónur eða aðra fjárhæð lægri en þá fjárhæð sem krafist er í stefnu og að málskostnaður falli niður.

Að kröfu stefnanda var undir rekstri málsins dómkvaddur matsmaður, 9. mars 2010, til að framkvæma mat á eignum sem fjárskipti aðila lutu að, en nánar verður vikið að matsgerð hans síðar.

Við aðalmeðferð málsins gáfu auk aðila málsins skýrslur sem vitni Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður, sem dómkvaddur var sem matsmaður, og A, byggingafulltrúi [...]hrepps.

I

Aðilar máls þessa, sem eiga fjögur börn saman, hið elsta fætt á árinu [...], hófu sambúð á árinu 1989, sem varði til janúar 2008, eða í tæp 20 ár. Hinn 25. febrúar 2008 gerðu þau með sér samning þann vegna sambúðarslita, sem krafist er ógildingar á.

Þar sem málsatvikalýsing í stefnu er í greinargerð stefnda sögð villandi og á köflum beinlínis röng, verður hér fyrst rakin málsatvikalýsing stefnanda og síðan stefnda.

Í stefnu er málsatvikum lýst svo að á sambúðartímanum hafi stefnanda og stefnda áskotnast veruleg verðmæti sem þau hafi átt sameiginlega og orðið hafi til með sameiginlegu framtaki og fjárframlagi aðila. Meðal annars hafi þau átt að jöfnu bújarðirnar [...], [...] og [...], með öllum fasteignum til búsetu og búskapar. Þá hafi aðilar átt veiðiréttindi í [...]á, sauðfjárkvóta, umfangsmikinn tækjabúnað til búrekstrar, fjölda fjár og nautgripa, hesta, hlutabréf, innbú, innistæður á bankareikningum og margt fleira. Að sama skapi hafi skuldasöfnun aðila verið mjög lítil. Um þetta vísar stefnandi til skattframtala aðila síðustu árin sem þau hafi verið í sambúð. Allar eignir hafi að jöfnu verið í eigu stefnanda og stefnda og hafi orðið til í sameiginlegum búskap þeirra í tvo áratugi.

Þegar endanlega hafi slitnað upp úr samúð stefnda og stefnanda hafi hinn 25. febrúar 2008 verið undirritaður samningur sem meðal annars snéri að fjárskiptum milli stefnanda og stefnda. Samninginn hafi samið sameiginlegur lögmaður aðila. Verðforsendur samningsins hafi hins vegar verið lagðar upp af stefnda sem einn og óstuddur hafi séð um verðlagningu eigna. Í samningnum hafi verið kveðið á um að stefndi fengi í sinn hlut allar eignir aðila málsins og allar skuldir þeirra. Gegn því hafi stefndi greitt stefnanda 5.000.000 króna við undirritun samningsins. Með því uppgjöri væri uppgerður tveggja áratuga sambúðartími aðila. Ekkert verðmat hafi legið til grundvallar skiptingu eignanna. Hafi aldrei komið til álita af hálfu stefnda að láta gera slíkt verðmat. Ennfremur hafi stefnandi aldrei verið spurð álits um verðlagningu eignanna.

Stefndi hafi einhliða samið alla skilmála samningsins, þ.e. þær fjárgreiðslur sem átt hafi sér stað vegna hans, en lögmaður hafi sett samninginn í formlegan búning. Þegar samningurinn hafi verið tilbúinn hafi stefnandi verið kölluð til undirritunar. Ekki hafi því að neinu leyti verið samningaviðræður milli aðila, heldur hafi þetta verið einhliða skilmálar sem stefnanda hafi verið gert að skrifa undir.

Nokkru eftir undirritun samningsins hafi stefnandi áttað sig á því hve gríðarlega ósanngjarn samningurinn væri gagnvart henni. Hafi hún haft samband við lögmann sem hafi ítrekað reynt að fá stefnda til að semja um sanngjarnari skipti. Þær tilraunir hafi engan árangur borið og sé stefnanda því nauðsynlegt að leita atbeina dómstóla til að fá samningnum hnekkt með dómi og að fá sér dæmda eðlilega hlutdeild í eignum aðila, auk dráttarvaxta og kostnaðar.

Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst svo í greinargerð að jörðin [...] hafi lengi verið í eigu fjölskyldu stefnda. Um miðja 20. öld hafi orðið til nýbýlið [...] út úr [...], þó þannig að megnið af landi jarðanna hafi verið óskipt og húsakostur beggja jarða í einum hnappi. Foreldrar stefnda hafi búið í [...] og sé stefndi alinn þar upp. Seinna hafi þau líka eignast jörðina [...], svo og húsalausa landlitla eyðijörð í nágrenninu, [...].

Aðilar þessa máls hafi kynnst á árinu 1986, átt sitt fyrsta barn 1987 og hafið sambúð í [...]/[...]árið 1989.

Með afsali, dags. 15. júní 1990, hafi málsaðilar eignast íbúðarhúsið á [...]. Sama ár hafi aðilar hafið búskap með sauðfé á jörðunum, nýtt framleiðslukvóta foreldra stefnda, land þeirra, hús, vélar o.fl. Fyrstu árin hafi foreldrar stefnda einnig verið með búskap á jörðunum. Stefndi hafi byggt fjárhús á jörðunum árið 1998 og vélaskemma hafi verið í byggingu þegar samvistaslit aðila hafi orðið.

Samhliða búskapnum hafi málsaðilar orðið að stunda ýmis störf til að ná endum saman, einkum þó stefndi, en stefnandi hins vegar nánast ekki neitt.

Faðir stefnda hafi fallið frá árið [...] og móðir hans hafi í framhaldinu fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Árið 2006 hafi móðir stefnda, B, rætt við málsaðila um framtíðaráform þeirra þriggja. Niðurstaða þeirra viðræðna hafi orðið sú að B hafi afsalað jörðunum þremur til málsaðila, að undanskildu íbúðarhúsinu í [...]  og lóðarskika umhverfis það. Fyrir þetta hafi málsaðilar greitt alls 5.000.000 krónur, sem sé auðvitað talsvert undir raunvirði. Rætt hafi verið um að málsaðilar ætluðu sér að stunda áfram um ókomna tíð búskap á jörðunum. Forsenda afsalsins af hálfu B hafi verið sú að hún gæti búið áfram í íbúðarhúsi sínu í [...] í skjóli málsaðila og hafi málsaðilum verið ljósar þessar forsendur.

Samhliða sölunni hafi verið gengið frá yfirlýsingu, kvöð, þess efnis að sex systkini stefnda ættu rétt til að fá hvert um sig endurgjaldslaust 1,0 hektara sumarbústaðarlóð út úr landinu.

Þann 20. janúar 2008 hafi orðið samvistarslit með málsaðilum, stefnandi hafi yfirgefið heimilið og flust til [...].

Fljótlega eftir þetta hafi aðilar farið að ræða sín á milli skiptingu eigna og skulda. Strax hafi verið einhugur um það að stefndi tæki við eignum og skuldum. Jafnframt hafi þau sameiginlega farið yfir verðmæti eigna og fjárhæð skulda. Niðurstaða þeirrar yfirferðar hafi orðið sú að stefnandi hafi farið fram á sex milljónir króna til lúkningar uppgjöri en stefndi hafi boðist til að greiða stefnanda fjórar milljónir króna. Niðurstaðan hafi orðið sú að þau hafi mæst á miðri leið og samið um að greiða skyldi fimm milljónir króna, þar af eina milljón króna út en eftirstöðvarnar með afborgunum samkvæmt samkomulagi. Til viðbótar hafi stefnandi fengið meirihlutann af innbúinu.

Stefndi kveður ranghermt í stefnu að um hafi verið að ræða einhliða skilmála stefnda sem ekki hafi verið byggðir á upplýsingum sérfræðinga um verðmæti eigna. Þvert á móti hafi þetta verið niðurstaða viðræðna milli þeirra og byggt á þekkingu aðila á verðmæti eignanna, upplýsingum frá söluaðilum o.fl. Stefndi hafi ekki hindrað stefnanda í að afla gagna um þessi atriði og kannist ekki við að stefnandi hafi viljað fá einhver slík gögn en ekki fengið.

Jafnframt viðræðum aðila hafi stefnandi leitað til lögmanns sem tekið hafi að sér að ganga frá samningi um sambúðarslit. Hafi lögmaðurinn átt nokkur símtöl við aðila, sent þeim drög að samningi og á endanum hafi verið gerður samningur sem báðir aðilar hafi undirritað að viðstöddum tveimur lögmönnum þann 25. febrúar 2008. Síðar hafi sambúðarslitasamningurinn verið staðfestur hjá sýslumanninum á [...].

Stefndi kveður rangt sem fram kemur í stefnu að stefndi hafi haft yfirráð yfir öllum fjármálum aðila og látið loka aðgangi stefnanda að sameiginlegum bankareikningum. Ekki hafi verið um neina fjármuni að ræða, engar bankainnistæður. Stefndi hafi hins vegar lokað fyrir aðgang stefnanda að einkareikningi stefnda. Á þeim reikningi hafi engar innistæður verið heldur yfirdráttarskuld. Rétt sé að geta þess að á þessum tíma hafi málsaðilar greitt sér laun út úr búinu, 101.998 krónur á mánuði. Þá fjárhæð hafi stefndi greitt til stefnanda með millifærslu á sama tíma, 30. janúar 2008. Næstu mánaðarmót þar á eftir hafi stefnandi verið í vinnu á [...] og fjárskiptasamningi lokið, þannig að ekki hafi verið um frekari slíkar greiðslur að ræða þá. Fjárhagslegar þrengingar stefnda á þessum tíma hafi ekki verið minni en stefnanda.

Fyrir skilnaðinn hafi ákveðnir erfiðleikar verið hjá málsaðilum. Dóttir þeirra hafi lent í alvarlegum veikindum. Móðir stefnanda hafi svo fallið frá og þrír aðrir aðstandendur málsaðila. Nokkuð álag hafi því verið á aðilum málsins báðum. Stefndi telji þó ekki að stefnandi hafi glímt við andleg veikindi á árunum fyrir skilnað, en þó við eitthvert þunglyndi á tímabilum.

Stefndi kveðst mótmæla því að hann hafi gert stefnanda erfitt fyrir við skilnaðinn. Þvert á móti kveðst stefndi hafa gert allt sitt til að vera sanngjarn við stefnanda á þessum tíma, skilnaðurinn hafi verið að hennar ósk en hún hafi verið býsna tvístígandi í því efni. Hann hafi reynt að gefa henni allt mögulegt svigrúm.

Fjarstæða sé að börnin hafi verið notuð sem skiptimynt í málinu. Stefndi hafi aldrei blandað saman fjárskiptum og ákvörðunum varðandi börnin. Niðurstaðan varðandi börnin hafi orðið sú sama og varðandi fjárskiptin, að skipt hafi verið „jafnt“, eitt barn með lögheimili hjá hvoru fyrir sig.

Stefnandi hafi ekki staðið við umgengnissamning aðila, heldur hafi hún bæði neitað stefnda um dótturina á einstökum pabbahelgum og eins ekki viljað standa við ákvæði um sumardvöl barnsins hjá stefnda. Þetta hafi leitt til ágreinings sem sé til meðferðar hjá Sýslumanninum á [...]. Samskipti aðila séu af þessum sökum stirð.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um ógildingu samnings um fjárskipti á III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga (samningalög).

Stefnandi hafi átt afar erfitt uppdráttar andlega þegar umræddur samningur hafi verið undirritaður. Hafi hún losnað undan áralöngu oki stefnda, sem gert hafi allt sem hann gat til að gera henni sambúðarslitin sem erfiðust. Einkum hafi hann beitt fyrir sig því að þau áttu tvö ósjálfráða börn, sem hann hafi notað sem skiptimynt í tengslum við gerð fjárskiptasamnings.

Stefndi hafi því misnotað yfirburðastöðu sína til að knýja fram niðurstöðu sér í hag þegar komið hafi að gerð fjárskiptasamnings, enda hefði stefnandi, á þeim tíma er samningurinn var undirritaður, skrifað undir hvað sem var til að losna úr sambúðinni við stefnda. Stefndi hafi sjálfur viðurkennt þetta í sínum bréfaskriftum.

Forsenda stefnanda fyrir undirritun hafi verið sú að hún myndi losna við stefnda úr sínu lífi og að önnur mál, þ.m.t. forsjár og umgengnismál, myndu ganga eðlilega fyrir sig. Það hafi heldur ekki gengið eftir og séu umgengnismál í ólestri og í meðferð hjá embætti sýslumannsins á [...] og Félagsþjónustu [...].

Samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sé löggerningur ógildur ef hann er gerður við þær aðstæður sem uppi hafi verið í máli þessu. Fyrir liggi að stefndi hafi vitað af erfiðleikum stefnanda og andlegri vanlíðan hennar, eins og komi raunar fram í svarbréfi hans við greinargerð stefnanda vegna forsjárdeilu þeirra. Þar segi hann stefnanda hafa átt við „mjög mikil andleg veikindi að stríða um margra ára skeið“.

Stefndi hafi því viðurkennt með eigin orðum að sambúðarslitin hafi lagst þungt á stefnanda og andlegt ástand hennar verið bágborið á þessum tíma. Þetta hafi stefndi nýtt sér í fjárhagslegum ávinningi. Mjög bersýnilegur munur sé á fjárhagslegum ávinningi aðila af hinum umþrætta samningi. Það sé hverjum augljóst sem skoði þær eignir sem myndast hafi hjá aðilum í 20 ára sambúð, en sem hafi að lokum verið skipt með mjög ósanngjörnum og óheiðarlegum hætti. Því beri að ógilda samninginn með dómi.

Þá kveðst stefnandi byggja kröfu um ógildingu fjárskiptasamnings á 33. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda verði að telja óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig löggerninginn sem gerður hafi verið með þeim hætti að hann hafi nýtt sér yfirburðarstöðu sína gagnvart stefnanda til að hlunnfara hana í skiptunum.

Ennfremur byggi stefnandi kröfu sína um ógildingu á 36. gr. laga nr. 7/1936, þar sem það verði að teljast ósanngjarnt af stefnda að bera fyrir sig fyrrnefndan samning um fjárskipti við sambúðarslit. Verði við mat á því hvort nefnt lagaákvæði eigi við að líta til stöðu aðila við samningsgerðina, sem hafi verið afar ójöfn þar sem stefnandi hafi verið andlega niðurbrotin og stefndi hafi farið með yfirráð yfir öllum fjárráðum stefnanda. Megi hér til stuðnings nefna að stefndi hafi látið loka á aðgang stefnanda að sameiginlegum bankareikningum þeirra. Hafi stefndi nýtt sér með þessu algera yfirburðastöðu sína gagnvart stefnanda til að knýja hana til að skrifa undir bersýnilega ósanngjarnan samning.

Þá sé rétt að líta til þess að það hafi ekkert verðmat verið gert á eignum aðila fyrir skiptin og engin viðleitni sýnd af hálfu stefnda til að gera skiptin sanngjörn og eðlileg. Enginn hafi verið spurður álits um skiptingu verðmætanna, hvorki stefnandi né neinn þriðji aðili. Þetta hafi verið alfarið skilmálar stefnda sem stefnanda hafi verið gert að undirrita. Stefnandi telji ljóst að þegar eignir búsins hafi verið metnar af hlutlausum matsmanni komi í ljós að skiptin hafi verið verulega ósanngjörn þar sem stefnandi hafi aðeins fengið lítið brot þeirra verðmæta sem henni hafi borið í sinn hlut á grundvelli dómstólamyndaðrar meginreglu um að hlutur aðila í óvígðri sambúð skuli við fjárskipti taka mið af eignamyndun á sambúðartímanum. Stefnandi hyggist sýna fram á framangreint með matsgerð dómkvadds matsmanns sem verði aflað undir rekstri málsins.

Þá verði að líta til þess að vegna þess hve ójöfn staða aðila sé oft við sambúðarslit og vegna þess að gæta þurfi að jafnræði við búskipti aðila, hafi verið lögfest sérstök regla í 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sem taki til samninga sama eðlis og fjárskiptasamningur stefnanda og stefnda. Hafi dómstólar í framkvæmd litið til framangreinds ákvæðis í ríkum mæli þegar til umfjöllunar séu samningar um fjárskipti aðila sem hafi verið í sambúð árum saman, líkt og um sé að ræða í þessu máli. Verði jafnframt að líta til þess að með framangreindu ákvæði hafi löggjafinn gefið skýr skilaboð um að samninga á sviði hjúskaparréttar beri að fella úr gildi séu þeir ósanngjarnir.

Skaðabótakrafa stefnanda byggi á því mati að nettóeignir stefnanda og stefnda á slitadegi sambúðar þeirra hafi numið 90.000.000 króna. Þar af hafi eignarhlutur stefnanda verið 45.000.000, samkvæmt meginreglunni um að eftir jafn langa sambúð og hér um ræði eigi hvor aðili um sig rétt til helmings þeirrar eignamyndunar sem verði á sambúðartíma við fjárslit. Af framangreindri upphæð hafi einungis 5.000.000 króna verið greiddar. Umstefndar 40.000.000 króna séu mismunurinn þar á.

Eins og fyrr greinir var krafa stefnanda lækkuð undir rekstri málsins í samræmi við niðurstöðu dómkvadds matsmanns um verðmæti eigna og yfirlit um skuldastöðu við sambúðarslit.

Stefnandi kveðst krefjast dráttarvaxta, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga, frá 13. ágúst 2009, en þá hafi verið mánuður liðinn frá því að stefnandi gerði sannanlega kröfu um að fjárskiptasamningi yrði vikið til hliðar og að hún fengi eðlilegar greiðslur í sinn hluta vegna eignamyndunar á sambúðartíma.

Að því er varðar kröfu um greiðslu málskostnaðar bendir stefnandi sérstaklega  á að hann hafi ítrekað reynt að leysa deilumál aðila utan dómstóla. Stefnandi hafi neyðst til þess gegn vilja sínum að stefna málinu fyrir dóm og telji að taka verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar, sbr. þau sjónarmið er fram komi í 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa stefnanda um greiðslu málskostnaðar styðjist að öðru leyti við 129. og 130. gr. sömu laga.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi einkum til III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og til hjúskaparlaga nr. 31/1993. Um málskostnaðarkröfu sé vísað til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einnig lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Varðandi kröfu um dráttarvexti vísist til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður og lagarök stefnda:

Í greinargerð stefnda kemur fram að hann mótmæli sem rangri, órökstuddri og ósannaðri málsástæðu stefnanda um að skilnaðarkjör málsaðila hafi orðið til fyrir misneytingu stefnda gagnvart stefnanda. Ákvæði 31. gr. laga nr. 7/1936 eigi því ekki við í málinu. Í stefnu sé dregin upp sú mynd af aðstæðum að stefndi hafi nýtt sér andlegan vanmátt stefnanda við samningsgerðina og yfirburðastöðu sína gagnvart stefnanda. Stefndi byggi á því að þessi lýsing sé ekki rétt og því komi beiting nefnds lagaákvæðis ekki til álita. Sérstaklega sé bent á aðkomu lögmanns og annarra aðila í þessu efni og þá staðreynd að ferlið hafi tekið nokkurn tíma og að á þeim tíma hafi stefnandi búið annars staðar og því tæpast undir áþján stefnda.

Þeirri málsástæðu stefnanda að samningur aðila sé ógildanlegur á grundvelli 33. eða 36. gr. samningalaganna sé mótmælt með sömu rökum og nefnd hafi verið varðandi 31. gr. laganna. Því til viðbótar skuli eftirfarandi nefnt:

Að umgengnis- og forsjármál gengju eðlilega fyrir sig sé samkvæmt stefnu ein af forsendum stefnanda fyrir samkomulaginu. Ekkert hafi þó komið fram um þetta í samningnum sjálfum eða samningsgerðinni. Þessi mál hafi af hálfu stefnda gengið eðlilega fyrir sig. Hins vegar hafi stefnandi vanefnt skyldur sínar í þessu efni. En óháð því, þá séu ekki lagalegar forsendur til að þessi málefni varðandi börnin eigi að hafa áhrif á gildi samkomulagsins um fjárskipti.

Kröfur stefnanda byggist á þeirri meginforsendu að skipti aðila hafi ekki verið jöfn og ekki sanngjörn. Því sé mótmælt sem röngu. Stefndi telji að við skiptin hafi hvort aðili í rauninni fengið full 50% af nettóeignum í búinu. Boðað hafi verið að ein stærðin í þessum útreikningum, verðmæti jarðanna þriggja, verði metin af dómkvöddum manni. Við mat á jörðunum beri að horfa til kvaðar um sumarbústaðalóðir sem mjög rýri seljanleika og verðmæti þeirra. Jafnframt verði að gæta þess þegar skiptin séu metin, að þau taki ekki til þeirra eigna sem tilheyri móður stefnda.

Skuldir aðila hafi verið umtalsverðar við skilnaðinn, svo sem sjá megi af fylgiskjölum síðustu skattframtala málsaðila. Stefndi vinni að yfirferð þessara skulda og muni eftir atvikum leggja fram frekari gögn um þær.

Auk þessa byggi stefndi á því að hefði verið um að ræða að skiptin væru ójöfn, þá hefði verið eðlilegt og þeim að fullu heimilt að semja um skáskipti. Um það vísist til dómvenju og þeirrar hliðsjónar sem hafa megi af reglum hjúskaparlaga nr. 31/1993 (ekki síst 104. gr.).  Að því leyti sem verðmæti kunni að vera í jarðeignunum umfram það sem fram hafi komið í fjárskiptasamningnum, þá séu það verðmæti sem aðilar hafi fengið endurgjaldslaust frá foreldrum stefnda og auk þess með þeirri kvöð að móðir stefnda fengi í ellinni að búa í skjóli málsaðila. Öll sanngirnisrök sem m.a. komi fram í 33. og 36. gr. samningalaganna leiði því til þess að stefndi eigi að halda slíkum verðmætum utan skipta.

Sömu rök, þ.e. sanngirnisrök þau sem búi að baki 33. og 36. gr. samningalaga, leiði einnig til þess að ef fallist verði á riftun, þá beri við uppgjör millum aðila að miða við stöðu eigna og skulda nú en ekki í ársbyrjun 2008. Sé það vegna þeirrar gífurlegu hækkunar sem orðið hafi á lánum stefnda og mikillar lækkunar á verðmæti jarðeigna á þessu tímabili.

Loks byggi stefndi á því að allar kröfur stefnanda, hafi þær á annað borð verið fyrir hendi, séu fallnar niður vegna tómlætis. Aldrei frá því skilnaðarsamningurinn hafi verið gerður hafi stefnandi kvartað við stefnda um að fjárskiptin hafi ekki verið sanngjörn, fyrr en með bréfi, dags. 13. júlí 2009. Það bréf virðist hafa verið skrifað vegna ósættis sem þá hafi verið komið upp milli aðila um umgengnisrétt, en ekki vegna óánægju með fjárskiptin. Varðandi þetta sé vísað til dómstólamyndaðra reglna um réttaráhrif tómlætis, - þess að stefnandi hafi ekki haldið kröfum sínum til laga – og að þær falli niður vegna þessa. Sérstaklega sé bent á ársfrestinn í 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaganna sem sýni að í þessum málum beri að hafa hraðar hendur.

Varðandi málskostnað kveðst stefndi vísa til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Varakrafa stefnda byggi á því að þó fallist yrði á riftun og greiðslu bóta, þá eigi þær bætur ekki að vera hærri en sú fjárhæð sem stefnandi sjálfur hafi teflt fram í samningaviðræðum aðila, þ.e. 1.000.000 króna hærri en samningur aðila kveði á um. Ef ekki sú tala, þá önnur tala að mati réttarins, en þetta verði rökstutt betur í málflutningi að fenginni niðurstöðu dómkvadds matsmanns.

Hvað varði dráttarvexti sé vísað til ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 9. gr. laganna i.f. um síðari upphafstíma dráttarvaxta en krafist sé í stefnu.

Varðandi málskostnað í því tilviki að fallist yrði á varakröfu sé vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Sérstaklega sé bent á að báðir aðilar hafi nokkuð til síns máls og báðum um að kenna að samningur hafi verið gerður og að til málaferla hafi komið.

III

Í málinu liggur fyrir samningur vegna sambúðarslita, dagsettur 25. febrúar 2008, undirritaður af báðum aðilum og vottaður af tveimur lögmönnum. Í samningnum er kveðið á um forsjá barna aðila, meðlag og umgengni, sem og um skiptingu eigna og skulda aðila. Í 4. gr. samningsins eru helstu sameiginlegu eignir sem fjárskipti aðila taki til taldar þrjár fasteignir, þ.e. jarðirnar [...], [...] og [...], auk innbús. Í 5. gr. samningsins um skuldir segir að helstu skuldir aðila verði ekki taldar upp, enda sé samkomulag um það milli aðila að maðurinn taki með þessum fjárskiptasamningi að sér greiðslu allra þeirra skulda, hverju nafni sem þær nefndist, til komnum fram að undirritun samningsins. Er tekið fram að með undirritun sinni á þennan samning lýsi hann því yfir að hann geri sér fulla grein fyrir því um hvaða skuldir sé að ræða og telji ekki þörf á upptalningu þeirra.

Í 6. gr. samningsins er kveðið á um skiptingu eigna og skulda í nokkrum stafliðum. Ákvæði A- liðar greinarinnar er svohljóðandi:

„A. Maðurinn fær í sinn hlut allar fasteignir aðila, sbr. greinar 4.1-4.3 hér að framan. Hann tekur einnig að sér greiðslu allra skulda, sbr. grein 5. Maðurinn mun greiða konunni kr. 5.000.000,- fyrir hennar nettó eignarhlut í öllum framangreindum eignum og skal greiðsla innt af hendi við undirritun þessa samnings. Um leið og greiðsla hefur verið innt af hendi mun konan undirrita afsöl vegna fasteignanna. Maðurinn og konan munu hlutast til um að fá skuldaraskipti á núverandi lánum skráð í samráði við kröfuhafa, sé nafn konunnar skráð á einhverjar þeirra, annað hvort sem skuldara eða ábyrgðarmanns. M.ö.o. skal konan leyst undan öllum skuldbindingum sem tengdar eru nafni hennar og skal það gert áður en afsöl eru undirrituð.“

Í B-lið greinarinnar segir að aðilar séu sammála um að verðgildi innbús þeirra sé óljóst og þau munu komast að samkomulagi sín á milli um skiptingu þess. Ekki er þörf á að rekja önnur ákvæði greinarinnar.

Í málinu liggur einnig fyrir ljósrit af handrituðum og ódagsettum samningi, sem undirritaður er af málsaðilum báðum. Þar kemur fram að stefnandi og stefndi geri með sér samning um skipti á sameiginlegum eignum þannig að stefndi eignist allar eignir og skuldir stefnanda gegn greiðslu á fimm milljónum króna, en þar af greiðist ein milljón sem útborgun en afgangurinn samkvæmt samkomulagi sem nánar verði útfært við nafnbreytingar. Við samning þennan eru heftuð tvö blöð þar sem taldar eru upp eignir og skuldir, en þau blöð eru ekki undirrituð af aðilum.

Með matsbeiðni sem lögð var fram á dómþingi 2. mars 2010 óskaði stefnandi eftir því við Héraðsdóm Austurlands að dómkvaddur yrði einn hæfur, sérfróður og óvilhallur matsmaður til þess að skoða og meta hvers virði eignir búanna að [...], [...] og [...], [...]hreppi, hafi verið hinn 20. janúar 2008. Nánar tiltekið var þess óskað að matsmaður mæti markaðsvirði jarðanna, fasteigna, tækjabúnaðar til búrekstrar, sauðfjár- og sauðfjárkvóta, nautgripa, hesta, hlunninda og annarra þátta sem kynnu að hafa eitthvert fjárhagslegt verðmæti. Var Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali dómkvaddur til verksins. Matsgerð hans er dagsett 16. september 2010. Niðurstaða matsgerðar hans er sú að markaðsverðmæti jarðanna ásamt ýmsum verðmætum þeim tengdum, miðað við ástand og ásigkomulag 20. janúar 2008, hafi numið samtals tæpum 61 milljónum króna. Nánar er verðmæti eignanna sundurliðað svo í kafla VII.2.12 matsgerðarinnar, sem ber heitið „Samandregnar niðurstöður“:

„Markaðsverðmæti jarðanna [...] og [...] sundurliðast svo miðað við ástand og ásigkomulag þeirra 20. janúar 2008:

Íbúðarhús

kr. 5.300.000

Véla/verkfærageymsla

kr.10.500.000

Fjárhús með áburðarkjallara

kr.12.000.000

Gömul útihús

kr.0

Tún (34,3*157.000)

kr.5.385.100

Fjalllendi (915,7*3.500)

kr.3.204.950

Hlunnindi

kr.1.400.000

Búsmali

kr.3.700.000

Greiðslumark í sauðfé

kr.7.164.025

Tæki

kr.11.920.000

SAMTALS

kr.60.574.075

Lækkun vegna kvaðar um lóðir

kr.- 942.000

MATSVERÐMÆTI

kr. 59.632.075

Markaðsverðmæti jarðarinnar [...] sundurliðast svo miðað við ástand og ásigkomulag jarðarinnar 20. janúar 2008:

Tún (2*157.000)

kr.314.000

Fjalllendi (198*3.500)

kr.693.000

Hlunnindi

kr.350.000

MATSVERÐMÆTI

kr.1.357.000

IV

Niðurstaða:

Aðilar máls þessa slitu hinn 20. janúar 2008 sambúð er varað hafði í um 20 ár. Þau gerðu með sér samning þann um sambúðarslit, dags. 25. febrúar s.á., sem hér að framan er lýst, þar sem kveðið er á um forsjá barna þeirra, meðlag með þeim og umgengni, sem og um skiptingu eigna og skulda. Samkvæmt ákvæðum samningsins um skiptingu eigna og skulda, sem hér eftir eru nefnd fjárskiptasamningur, tók stefndi yfir allar eignir og skuldir búsins, gegn greiðslu á 5 milljónum króna til stefnanda. Stefnandi telur verulega hafa verið á sig hallað með þessum samningi og telur hann ógildanlegan vegna atvika sem varði bæði tilurð og efni samningsins. Skilja verður kröfu stefnanda um ógildingu samningsins svo, í ljósi málatilbúnaðar hans, að einungis sé krafist ógildingar ákvæðis hans um endurgjald til stefnanda vegna skiptingar eigna og skulda, en ekki ákvæða hans að öðru leyti, þ.á m. um forsjá, meðlag og umgengni.

Fyrir liggur niðurstaða dómkvadds matsmanns um verðmæti þeirra þriggja fasteigna sem aðilar eru sammála um að falli undir fjárskipti þeirra, ásamt ýmsum verðmætum þeim tengdum, svo sem tækjum og bústofni. Þá voru undir rekstri málsins lögð fram gögn um skuldastöðu aðila við slit sambúðarinnar. Hafa lögmenn beggja aðila leitast við að einfalda ágreining aðila í ljósi framangreindra gagna, með þeim hætti sem fram kom við munnlegan flutning málsins og hér á eftir greinir.

Samkvæmt niðurstöðu matsgerðarinnar er samanlagt markaðsverðmæti framangreindra eigna málsaðila við tímamark sambúðarslita þeirra metið 60.989.075 krónur. Af hálfu stefnda eru ekki bornar brigður á niðurstöðu matsgerðarinnar, utan eins þáttar hennar sem varðar verðmæti véla- og verkfærageymslu í landi [...]. Telur stefndi ranglega á því byggt í matsgerðinni að 60 fm hluti geymslunnar hafi verið lengra kominn í byggingu en aðrir hlutar hennar, en í matsgerðinni er lagt til grundvallar að verðmæti þess hluta hafi verið 60.000 krónur pr/fm en verðmæti hennar að öðru leyti hafi verið 30.000 krónur pr/fm, og geymslan öll metin á 10.500.000 krónur. Telur stefndi að miða beri verðmæti allrar geymslunnar við hið lægra fermetraverð og verðmæti hennar því 1.800.000 krónum lægra en niðurstaða matsgerðarinnar hljóðar um, eða 8.700.000 krónur.

Þá eru aðilar sammála um að undir skiptin hafi átt að draga bifreið að verðmæti 1.895.400 og bankainnistæður að fjárhæð 1.211.466. Ágreiningslaust er því að verðmæti eigna búsins hafi numið á bilinu 62.295.941 krónum til 64.095.941 króna, eftir því hvort framangreindar 1.800.000 krónur eru dregnar frá vegna véla- og verkfærageymslunnar eða ekki.

Í málinu liggur fyrir yfirlit yfir skuldir aðila um áramót 2007-2008, upp á samtals 29.982.976 krónur, sem aðilar eru sammála um að leggja beri til grundvallar sem skuldir aðila á því tímamarki er sambúðarslit urðu, þó þannig að ágreiningslaust er að frá skuli dragast skuld að fjárhæð 342.012 krónur vegna fjórhjóls í eigu sonar aðila, sem ekki er talið meðal eigna búsins, auk þess sem ágreiningur er um fjárhæð skuldar vegna Valtra dráttarvélar, sem samkvæmt yfirlitinu nemur 7.457.550 krónum. Upplýst er að sú fjárhæð sé kaupverð vélarinnar að meðtöldum virðisaukaskatti. Byggir stefnandi á því að þar sem verðmæti dráttarvélarinnar sé í matsgerð matsmannsins tilgreint sem kaupverð hennar án virðisaukaskatts, 5.990.000 krónur, beri einnig að tilgreina skuldina án virðisaukaskatts. Ber aðilum þannig saman um að heildarskuldir bús þeirra hafi verið á bilinu 28.173.414 krónur til 29.640.964 krónur, eftir því hvort skuld vegna dráttarvélar er tilgreind sem kaupverð hennar með eða án virðisaukaskatts.

Samkvæmt framangreindu virðast aðilar sammála um að nettó eign búsins hafi, á því tímamarki er sambúðarslit urðu, 20. janúar 2008, verið að lágmarki 32.654.977 krónur, sé tekið fullt tillit til afstöðu stefnda, en stefnandi byggir á því að nettóeign búsins hafi verið röskum þremur milljónum króna hærri, eða 35.922.527 krónur. Sú greiðsla á 5 milljónum króna sem kom í hlut stefnanda samkvæmt fjárskiptasamningi aðila, nemur því um 1/6 til 1/7 hluta af nettóeign aðila við sambúðarslitin.

Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu fjárskiptasamningsins í fyrsta lagi á því að stefndi hafi misnotað sér bágborið andlegt ástand hennar við sambúðarslitin til að knýja fram niðurstöðu sér í hag hvað fjárskipti þeirra varðaði. Vísar stefnandi til 31. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga (samningalög) í þessu sambandi. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að telja verði óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig löggerninginn, sem gerður hafi verið með þeim hætti að hann hafi nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stefnanda til að hlunnfara hana í skiptunum, sbr. 33. gr. sömu laga.

Af hálfu stefnda er málsástæðum stefnanda um að stefndi hafi nýtt sér andlegan vanmátt stefnanda og yfirburðarstöðu sína gagnvart henni mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Af hálfu stefnanda hafa engin gögn verið færð fram til stuðnings staðhæfingum um bágt andlegt ástand hennar á umræddu tímabili. Er þeirri staðhæfingu til stuðnings einungis vísað til þess að stefndi hafi vitað af andlegri vanlíðan stefnanda og viðurkennt hana í bréfaskriftum vegna forsjárdeilu sem risið mun hafa milli aðila eftir sambúðarslitin. Er í stefnu vitnað til orða í ótilteknu svarbréfi stefnda við greinargerð stefnanda vegna forsjárdeilu þeirra, um að stefnandi hafi átt við „mjög mikil andleg veikindi að stríða um margra ára skeið“, en bréf þetta hefur ekki verið lagt fram. Þá hefur stefnandi ekkert fært fram sem stutt gæti staðhæfingar hennar um að stefndi hafi neytt yfirburða til að knýja fram fjárskiptasamninginn. Að mati dómsins hefur stefnanda, gegn eindregnum mótmælum stefnda, ekki tekist að sanna að atvik máls hafi verið með einhverjum þeim hætti að uppfyllt séu skilyrði fyrir ógildingu fjárskiptasamningsins á grundvelli 31. gr. eða 33. gr. samningalaga.

Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu samningsins ennfremur á því að ósanngjarnt sé að stefndi beri fyrir sig samninginn, sbr. 36. gr. samningalaga. Byggir stefnandi á að með matsgerð dómkvadds matsmanns, sem ekki hafi verið vefengd nema að litlum hluta af hálfu stefnda, og með yfirliti skulda, sem aðilar séu að mestu leyti sammála um, hafi verið sýnt fram á að nettóeign búsins hafi verið mun hærri en þær 10 milljónir króna sem 5 milljón króna greiðsla til hennar samkvæmt fjárskiptasamningi aðila hafi miðast við, eða tæpar 36 milljónir króna. Stefnandi byggir á því að skipta hafi átt nettó eign aðila til helminga, í samræmi við dómstólamyndaða meginreglu um að eftir jafn langa sambúð og hér um ræði eigi hvor aðili um sig rétt til helmings þeirrar eignamyndunar sem orðið hafi á sambúðartíma. Hafi henni því borið tæpar 18 milljónir króna, en að teknu tilliti til 5 milljóna króna sem henni hafi verið greiddar við sambúðarslitin sé gerð krafa um að stefndi greiði henni nú tæpar 13 milljónir króna til viðbótar. 

Stefndi mótmælir því að fjárskiptin hafi verið svo ósanngjörn að réttlæti ógildingu þeirra á grundvelli 36. gr. samningalaga. Stefndi byggir aðallega á því að í raun hafi hvor aðili fengið full 50% af nettóeignum í búinu. Eins og fyrr sagði er niðurstaða matsgerðar um verðmæti jarðanna og ýmissa verðmæta þeim tengdum ekki vefengd af hálfu stefnda utan þess sem áður greinir um mat á véla- og verkfærageymslu á jörðinni [...]. Verður því að hafna þessari málsástæðu stefnda.

Í annan stað byggir stefndi á því, sé ekki fallist á að skiptin hafi verið jöfn, að samið hafi verið um skáskipti, en það hafi aðilum verið frjálst og það hafi verið eðlilegt eins og á stóð. Vísar stefndi þar til þess hvernig eignir aðila séu tilkomnar, en stefndi telur verðmæti jarðanna, umfram kaupverð þeirra, verða að metast sem gjöf til hans frá foreldrum hans. Auk þess beri að líta til þess að hið lága endurgjald sem málsaðilar greiddu fyrir jarðirnar á árinu 2006 skýrist m.a. af því að kaupunum hafi fylgt sú kvöð að móðir stefnda fengi að búa í ellinni í skjóli þeirra. Vísar stefndi til dómvenju og þeirrar hliðsjónar sem hafa megi af reglum hjúskaparlaga nr. 31/1993, ekki síst 104. gr. laganna.

Stefnandi hefur með öflun matsgerðar dómkvadds matsmanns, sem ekki hefur verið vefengd af hálfu stefnda nema að litlu leyti, fært sönnur fyrir því að í hennar hlut hafi komið verulega minni verðmæti við fjárskiptin en komu í hlut stefnda, eða um 1/6 til 1/7 hluti nettóeigna búsins, eftir því hvernig þær eru virtar. Fyrir liggur að áður en gengið var frá formlegum fjárskiptasamningi aðila, ríflega mánuði eftir að stefnandi flutti út af sameiginlegu heimili þeirra, höfðu aðilar þegar gert með sér skriflegt samkomulag, þ.e. þann ódagsetta, óvottaða, handritaða samning sem fyrr var lýst, þess efnis að eignir búsins og skuldir kæmu í hlut stefnda gegn greiðslu á 5 milljónum króna til stefnanda. Á því stigi naut hvorugur aðilinn aðstoðar lögmanns. Í þessum samningi kom ekkert fram um verðmæti eigna og skulda, en ósannað er að listar yfir eignir og skuldir sem stefndi lagði fram í málinu, hafi verið stefnanda kunnir við undirritun þess samnings. Ekki varð nein breyting á þessu fyrirkomulagi skiptingar eigna og skulda við gerð hins formlega sambúðarslitasamnings, en við gerð hans nutu aðilar aðstoðar eins og sama lögmannsins. Liggur fyrir, samkvæmt verkbókhaldi lögmannsins, að drög að samningnum voru send aðilum til yfirlestrar viku áður en hann var undirritaður og voru drögin sama efnis hvað fjárskiptin varðaði og hinn endanlegi samningur. Hvorki í drögunum né hinni endanlegu útgáfu samningsins kom nokkuð fram um verðmæti eigna og fjárhæð skulda aðila, né var þess þar getið hvort um helmingaskipti væri að ræða eða einhvers konar skáskipti.

Eins og áður er rakið byggir málatilbúnaður stefnda aðallega á því að í raun hafi verið um jöfn skipti að ræða. Vísar hann þar til þess að aðilar hafi verið sammála um að miða við að verðmæti jarðanna þriggja væri hið sama og aðilar greiddu fyrir þær á árinu 2006. Rennir þessi málatilbúnaður stefnda stoðum undir það að stefnandi hafi, er hún undirritaði fjárskiptasamninginn, mátt vera í góðri trú um að við skiptin væri miðað við að nettóeign skiptist jafnt milli aðila. Þá verður ekki hjá því litið að ekkert mat var lagt á verðmæti eigna í aðdraganda undirritunar fjárskiptasamningsins og ekki verður talið að stefnandi hafi mátt gera sér glögga grein fyrir verðmæti þeirra, enda um þrjár jarðir að ræða, ásamt mannvirkjum, vélum og tækjum, búfénaði, greiðslumarki í sauðfé og hlunnindum, auk þess sem aðilar höfðu ekki keypt eignir þessar á almennum markaði, heldur af móður stefnda, á verði sem ekki endilega endurspeglaði markaðsverð þeirra. Enda þótt hinn formlegi fjárskiptasamningur hafi verið gerður með aðstoð lögmanns og aðilar hafi haft drög að honum til skoðunar í um eina viku fyrir undirritun hans, þá verður að ekki hjá því litið að aðstoðar lögmannsins var ekki leitað fyrr en eftir að aðilar höfðu þegar gert með sér samkomulag það um skiptingu eigna og skulda sem hér er deilt um og að ekkert mat virðist hafa farið fram fram á eignum eða skuldastöðu eftir aðkomu lögmannsins.

Eins og atvik máls horfa við, samkvæmt því sem upplýst er í málinu, verður að telja ósannað að stefnanda hafi verið ljóst er hún undirritaði fjárskiptasamninginn að með því fengi hún í sinn hlut einungis um 1/6 til 1/7 af nettóeign búsins. Verður stefndi að bera hallann af því að ósannað er, gegn mótmælum stefnanda, að samið hafi verið um skáskipti.

Stefndi byggir á því að fjárskiptasamningur aðila hafi allt að einu verið sanngjarn vegna þess að eignir þær sem aðilum áskotnaðist á sambúðartímanum hafi verið fengnar gegn litlu sem engu endurgjaldi frá foreldrum stefnda. Leiði sanngirnisrök  sem m.a. komi fram í 33. og 36. gr. samningalaga, til þess að stefndi eigi að halda verðmætum, að því leyti sem verðmæti kunni að vera í jarðeignunum umfram það sem fram kom í fjárskiptasamningi aðila, utan skipta. Í málflutningi var af hálfu stefnda vísað til hliðsjónar til niðurlags 2. málsliðar 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga, þar sem heimilað er að víkja frá helmingaskiptareglu „ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna“ og tiltekið að til marks um það kunni að vera þær aðstæður þegar „annað hjóna [...] hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum“.  Í málinu liggur fyrir afsal, dagsett 15. júní 1990, þar sem faðir stefnda selur og afsalar stefnda og stefnanda báðum íbúðarhús að [...] fyrir 300.000 krónur. Þá liggja fyrir kaupsamningar og afsöl, allt skjöl dagsett 27. apríl 2006, þar sem móðir stefnda selur og afsalar stefnda og stefnanda báðum jarðirnar [...], [...] og [...] fyrir alls 5 milljónir króna. Jafnvel þótt vera kunni að kaupverð þessara eigna hafi verið lágt, þá er ósannað að verðmæti þessara eigna umfram kaupverð hafi verið gjöf til stefnda eins, en ekki aðila málsins beggja sem báðir eru tilgreindir kaupendur á gerningum þessum. Þá verður ekki hjá því litið að aðilar máls hafa frá upphafi sambúðar sinnar búið á [...] og stundað búrekstur á jörðunum, einnig meðan þær voru í eigu foreldra stefnda, og kunna því að hafa lagt sitt af mörkum til aukins verðmætis jarðanna. Telst því einnig ósannað að verðmæti jarðanna, umfram það verð sem aðilar greiddu fyrir þær, sé að öllu leyti runnið frá foreldrum stefnda. 

Loks byggir stefndi á því að allar kröfur stefnanda, hafi þær á annað borð verið fyrir hendi, séu fallnar niður vegna tómlætis, enda hafi stefnandi ekki kvartað við stefnda yfir ósanngjörnum fjárskiptum fyrr en með bréfi 13. júlí 2009. Vísar stefndi til hliðsjónar til ársfrests 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga, sem sýni að í þessum málum beri að hafa hraðar hendur. Ekki verður fallist á það með stefnda að um slíkt tómlæti hafi verið að ræða af hálfu stefnanda að leitt geti til þess að hún tapi kröfum sínum, en tilvitnað ákvæði hjúskaparlaga á ekki við um slit óvígðrar sambúðar, auk þess sem skýrt kemur þar fram að tímafrestir ákvæðisins eigi ekki við þegar þess er freistað að hnekkja samningi með stoð í reglum um fjármunaréttarsamninga.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á það með stefnanda að fjárskiptasamningur aðila, dags. 25. febrúar 2008, teljist ósanngjarn og að rétt sé að víkja því ákvæði hans til hliðar sem fjallar um endurgjald til stefnanda vegna skiptingar eigna og skulda, sbr. 36. gr. samningalaga. Með hliðsjón af lengd sambúðartíma aðila, þess að hvorugt þeirra átti eignir umfram hitt við upphaf sambúðar þeirra og þess að framlag beggja til eignamyndunar með launaðri vinnu og umsjón heimilis þeirra verður ekki virt öðru vísi en jafnt, verður að leggja til grundvallar að nettóeign búsins skiptist jafnt milli aðila.

Ítrasta varakrafa stefnda um að krafa stefnanda verði lækkuð og henni ekki dæmd hærri fjárhæð en ein milljón króna byggist á þeirri staðhæfingu stefnda að stefnandi hafi í viðræðum þeirra á milli við sambúðarslitin ekki farið fram á að fá í sinn hlut hærri fjárhæð en sex milljónir króna, þ.e. eina milljón krónur umfram þá fjárhæð sem hún síðan fékk í sinn hlut við fjárskiptin. Gegn mótmælum stefnanda telst í fyrsta lagi ósannað að hún hafi í aðdraganda fjárskiptanna gert kröfu um tilgreinda fjárhæð. Í öðru lagi verður stefndi, eins og fyrr var rakið, að bera hallann af því að ósannað telst að samið hafi verið um skáskipti, og verður því ekki séð að það hafi þýðingu fyrir niðurstöðu um varakröfu stefnda hvort og þá hvaða fjárhæðir komið hafi til tals milli aðila í aðdraganda fjárskiptasamningsins. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda.

Varakrafa stefnda um að stefnanda verði ella dæmd önnur fjárhæð lægri en stefnufjárhæðin byggist annars vegar á því að þau sanngirnisrök er búi að baki 33. og 36. gr. samningalaga leiði til þess, verði fallist á ógildingu fjárskiptasamningsins, að við uppgjör milli aðila beri að miða við stöðu eigna og skulda nú en ekki í ársbyrjun 2008, vegna mikillar hækkunar sem orðið hafi á lánum stefnda og lækkun á verðmæti jarðanna á þeim tíma er liðið hafi frá sambúðarslitum. Hins vegar byggist varakrafan á þeim athugasemdum sem stefndi gerir við mat dómkvadds matsmanns á verðmæti véla- og verkfærageymslu annars vegar og á fjárhæð skuldar vegna Valtra dráttarvélar hins vegar.

Hvað fyrri málsástæðu stefnda verður ekki hjá því litið að stefndi tók við sambúðarslitin yfir allar eignir aðila og skuldir og bar eftir það af þeim alla áhættu. Þegar af þeirri ástæðu eru að mati dómsins ekki efni til þess að dæma lækkun að álitum á kröfu stefnanda vegna breytinga sem kunna að hafa orðið fram til þessa dags á verðmæti jarðanna eða stöðu skulda þeirra sem stefndi yfirtók.

Um véla- og verkfærageymslu þá á [...] sem stefndi gerir athugasemd við mat á, segir svo í matsgerð hins dómkvadda matsmanns á bls. 4:

„Um er að ræða 291,9 fm stálgrindarhús, byggt 2008, klætt með bárujárni, og skiptist í tvo hluta, annars vegar u.þ.b. 50-60 fm hluta sem er einangraður, með steinsteyptu gólfi, raflögnum og innkeyrsluhurð, og hins vegar óeinangraðan hluta, ósteypt plata og ekkert rafmagn. Í greinargerð lögmanns matsbeiðanda, dags. 18. kemur fram að vélageymslan hafi verið í sama ástandi og hún var og fram kom á matsfundi. Matsbeiðandi gerir þá kröfu að hún verði metin sem slík.“

Eins og áður kom fram byggir stefndi á því að sá hluti véla- og verkfærageymslunnar sem metinn er á hærra fermetraverði en aðrir hlutar geymslunnar í matsgerð hins dómkvadda matsmanns, hafi verið í sama horfi og aðrir hlutar geymslunnar við sambúðarslitin og eigi því að metast á sama fermetraverði. Til stuðnings þessari staðhæfingu sinni hefur stefndi lagt fram fjölda kvittana fyrir kaupum á ýmsum vörum hjá Húsasmiðjunni og Ískraft á árunum 2008 og 2009, sem hann kveður hafa verið notaðar til framkvæmda við geymsluna en alla vinnu við verkið kveðst hann hafa framkvæmt sjálfur og geti því ekki framvísað reikningum fyrir þeirri vinnu. Af hálfu stefnda hafa engin gögn verið lögð fram til stuðnings staðhæfingum hans um að efniskaup þessi hafi í raun farið til framkvæmda við geymsluna og verður stefndi, gegn mótmælum stefnanda, að bera hallann af því að ósannað telst að geymslan hafi verið í öðru horfi snemma árs 2008 en hún var við vettvangsgöngu hins dómkvadda matsmanns. Verður því að leggja til grundvallar að verðmæti geymslunnar sé það sem greinir í matsgerðinni, enda hefur henni ekki verið hnekkt.

Hvað fjárhæð skuldar vegna Valtra dráttarvélar varðar, þá lýstu aðilar því yfir undir rekstri málsins að þeir væru sammála um að leggja til grundvallar að skuldir aðila hafi verið þær sem greinir á framlögðu yfirliti endurskoðanda hjá Skrifstofuþjónustu [...] yfir skuldir samkvæmt skattframtali 2008, en á yfirlitinu eru taldar upp eftirtaldar skuldir: Langtímaskuldir vegna búrekstrar, skuldir við Íbúðalánasjóð, þrjú lán hjá Avant vegna bifreiða og loks viðskiptaskuld vegna Valtra dráttarvélar. Fyrir liggur að fjárhæð viðskiptaskuldar vegna Valtra dráttarvélarinnar samsvarar kaupverði vélarinnar að meðtöldum virðisaukaskatti. Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns er verðmæti dráttarvélarinnar tilgreint sem kaupverð hennar án virðisaukaskatts og krefst stefnandi af þeim sökum þess að virðisaukaskatturinn sé dreginn frá skuldinni þegar skuldastaða aðila við sambúðarslitin sé skoðuð. Stefndi mótmælir þeirri kröfu stefnanda, enda hafi aðilar skuldað kaupverð allrar vélarinnar að meðtöldum virðisaukaskatti við sambúðarslitin og bendir á að virðisaukaskatturinn hafi væntanlega verið færður sem innskattur til lækkunar á útskatti vegna reksturs jarðanna haustið 2007. 

Ætla má að virðisaukaskattur af dráttarvélakaupunum hafi verið færður sem innskattur vegna búrekstursins og komið til lækkunar á útskatti vegna sama reksturs. Með því að krefjast þess að skuldin vegna dráttarvélarinnar sé talin kaupverð hennar að meðtöldum virðisaukaskatti, enda þótt verðmæti hennar sem eignar sé tilgreint kaupverð án virðisaukaskatts, er stefndi í raun krefjast þess að meðal skulda aðila við sambúðarslitin verði talin útskattsskuld að sömu fjárhæð og innskatturinn vegna dráttarvélakaupanna, en það stangast á við þá málflutningsyfirlýsingu stefnda, að skuldir aðila við sambúðarslitin hafi einungis verið þær sem greinir á yfirliti endurskoðandans. Verður því að fallast á það með stefnanda að skuld vegna Valtra dráttarvélar skuli miðast við kaupverð vélarinnar án virðisaukaskatts, eða 5.990.000 krónur.

Eins og fyrr er fram komið fellst dómurinn á það með stefnanda að ákvæðum sambúðarslitasamnings aðila, dags. 25. febrúar 2008, um endurgjald til stefnanda vegna skiptingar eigna og skulda skuli vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga og við það miðað að stefnanda hafi borið helmingshlutdeild í nettóeignum aðila á tímamarki sambúðarslita. Samkvæmt framangreindu er einnig fallist á það með stefnanda að nettóeign aðila hafi á greindum tíma numið 35.922.527 krónum. Samkvæmt því bar stefnanda að fá í sinn hlut 17.961.264 krónur, en þar af hafa henni þegar verið greiddar 5 milljónir króna, við gerð hins umdeilda fjárskiptasamnings. Verður stefndi því dæmdur til að greiða  stefnanda 12.961.264 krónur eins og krafist er.

Stefnandi krefst dráttarvaxta af dæmdri fjárhæð, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga, frá 13. ágúst 2009 til greiðsludags, en þann dag var liðinn mánuður frá því að stefnandi gerði kröfu um að fjárskiptasamningi aðila yrði vikið til hliðar með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda. Upphafsdagsetningu dráttarvaxta er mótmælt af hálfu stefnda. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir rétt að dæma stefnda til að greiða dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá því að matsgerð dómkvadds matsmanns var lögð fram á dómþingi, eins og nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af úrslitum málsins, en að teknu tilliti til þess að ekki verður talið sanngjarnt að kostnaður af matsgerð hins dómkvadda matsmanns falli að öllu leyti á stefnda, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.175.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. 

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, M, greiði stefnanda, K, 12.961.264 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga, frá 5. nóvember 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.175.000 krónur í málskostnað.