Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-74
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sóttvarnalög
- Stjórnarskrá
- Atvinnufrelsi
- Lagaheimild
- Reglugerðarheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 8. júní 2023 leitar Austurátt ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. maí 2023 í máli nr. 74/2022: Austurátt ehf. gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort skilyrði séu til veitingar leyfis til áfrýjunar og þá hvort tilefni sé til að takmarka það við tiltekin atriði málsins.
3. Mál þetta á rætur að rekja til þess að yfirvöld mæltu fyrir um lokun skemmtistaða og kráa með birtingu stjórnvaldsfyrirmæla þess efnis í COVID-19 faraldrinum. Lýtur krafa leyfisbeiðanda að lokunum 24. mars til og með 24. maí 2020, 18. til og með 27. september 2020 og 5. október 2020 til 8. febrúar 2021. Krefst hann viðurkenningar á skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins á fjártjóni sem hann varð fyrir er honum var gert að loka starfsemi sinni vegna þessa á fyrrgreindum tímabilum.
4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um sýknu íslenska ríkisins staðfest með vísan til forsendna. Héraðsdómur taldi ekki unnt að líta svo á að með 2. mgr. 12. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 hefði ráðherra verið falið óheft ákvörðunarvald um skerðingu á atvinnustarfsemi. Var talið að hinar umdeildu sóttvarnaraðgerðir hefðu átt sér stoð í 1. mgr. 12. gr. laganna sem hefði ekki að geyma tæmandi talningu sóttvarnaraðgerða sem heimilt væri að grípa til. Því hefði ráðherra ekki verið framselt vald umfram heimildir 75. gr. stjórnarskrárinnar. Auk framangreinds þyrfti ráðherra einnig að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið, jafnræði og meðalhóf. Meðal annars í ljósi þeirra sjónarmiða sem sóttvarnarlæknir lýsti í málinu taldi dómurinn að sá mismunur sem gerður var á skemmtistöðum og krám annars vegar og veitingastöðum hins vegar hefði stuðst við málefnaleg rök, ekki brotið í bága við jafnræðisreglu eða gengið lengra en nauðsynlegt var. Leyfisbeiðandi hefði þegið lokunar- og tekjufallsstyrki, auk þess að hafa nýtt sér svonefnda hlutabótaleið vegna umræddra sóttvarnaraðgerða. Yrði leyfisbeiðandi að bera hallann af sönnunarskorti um áhrif þessara úrræða á rekstur hans, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi enda snúi það meðal annars að heimild stjórnvalda til að skerða stjórnarskrárvernduð réttindi með stjórnvaldsfyrirmælum. Málið hafi jafnframt fordæmisgildi um skýringu sóttvarnarlaga og lögmæti þeirra aðgerða sem stjórnvöld réðust í vegna COVID-19 faraldursins. Þá sé dómur Landsréttar rangur að efni til þar sem ekki er gerður greinarmunur á aðgerðum við upphaf faraldursins vorið 2020 og veturinn 2020 til 2021 þótt meiri vitneskja hljóti þá að hafa verið til staðar um COVID-19 sjúkdóminn.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.