Hæstiréttur íslands
Mál nr. 125/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Dómari
- Skilorðsrof
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. nóvember 2015. |
|
Nr. 125/2015.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) (Sveinn Andri Sveinsson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Dómari. Skilorðsrof. Skaðabætur.
X var sakfelldur annars vegar fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hrækt á A, rifið í hár hennar og slegið hana og hins vegar fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga með því að hafa meðal annars kýlt B í andlitið og sparkað tvívegis í höfuð hennar. Ekki var fallist á með X að ómerkja bæri héraðsdóm af þeirri ástæðu að hann hefði átt að vera fjölskipaður, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá var talið sannað, með hliðsjón af framburðum A og B og þeim áverkum sem B bar á höfði samkvæmt læknisvottorði, að X hefði verið í skóm er umrædd atvik áttu sér stað. Með brotunum rauf X skilorð samkvæmt eldri dómi og var hann því tekinn upp og honum gerð refsing í einu lagi fyrir brotin samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing X ákveðin fangelsi í 18 mánuði auk þess sem honum var gert að greiða A 500.000 krónur og B 800.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. september 2013 til 22. október 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. september 2013 til 22. október 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir ákærði á því að nauðsynlegt hafi verið að dómur í héraði væri skipaður þremur dómurum, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 2. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að einn héraðsdómari skipi dóm í hverju máli nema svo standi á sem segir í 3. til til 5. mgr. sömu greinar. Í 4. mgr. er mælt fyrir um að ef ákærði neiti sök og dómari telji sýnt að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi geti dómstjóri ákveðið að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu. Með hliðsjón af sakarefni málsins er ekki tilefni til að ómerkja héraðsdóm af þessum sökum.
Af hálfu ákærða var því mótmælt að sannað væri að hann hafi verið í skóm er þau atvik sem ákæra lýtur að áttu sér stað. Þegar höfð er hliðsjón af framburði brotaþola og móður hennar um það atriði, sem og þeim áverkum sem brotaþoli, B, bar á höfði, samkvæmt læknisvottorði, er staðfest niðurstaða héraðsdóms að ákærði hafi verið í skóm þótt ekki verði staðhæft nánar um skóbúnað hans.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimvísun brota hans til refsiákvæða. Að teknu tilliti til þeirra atriða, sem greinir í héraðsdómi varðandi refsingu ákærða, verður hún ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað og miskabætur, en sá hluti einkaréttarkröfu A er lýtur að fjártjóni vegna skemmda á hurð íbúðar hennar er ekki studdur gögnum sem rennt geta stoðum undir þá kröfu. Að þessu gættu er hún svo vanreifuð að vísa verður henni frá héraðsdómi.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns beggja brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og einkaréttarkröfu B skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði A 500.000 krónur með vöxum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. september 2013 til 22. október 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Kröfu hennar um bætur vegna fjártjóns er vísað frá héraðsdómi.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 978.390 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns beggja brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 310.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. nóvember 2014, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara, 26. ágúst 2014, „á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir neðangreindar líkamsárásir annarsvegar á hendur A, fyrrverandi eiginkonu ákærða, og hinsvegar á hendur B, stjúpdóttur hans, á heimili þeirra að [...], [...], [...], framdar að morgni laugardagsins 28. september 2013:
I.
Líkamsárás, með því að hafa veist að A og hrækt á hana, rifið í hár hennar og slegið hana og fyrir að hafa kýlt hana í höfuð og maga eftir að hún féll á gólf íbúðarinnar. Þá reyndi ákærði að bíta A í andlitið.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 217.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa veist að B, rifið í hár hennar og kýlt hana í andlitið, hrint henni í gólfið og fyrir að hafa að minnsta kosti tvívegis sparkað í höfuð hennar þar sem hún lá á gólfi íbúðarinnar. Afleiðingar líkamsárásarinnar urðu þær að B hlaut fjölmarga yfirborðsáverka á höfði og andliti, þar á meðal bólgu undir hægra auga, tvær kúlur í hársverði og sár neðan við nef. Þá hlaut hún þreifieymsli yfir andlitsbeinum og hryggjartindum.
Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola skaðabætur að fjárhæð 800.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 28. september 2013, til þess dags er liðinn er mánuður frá því að kærða var birt skaðabótakrafan, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu B, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola skaðabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. september til þess dags þegar liðinn var mánuður frá því að ákærða var birt skaðabótakrafan, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.“
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Að morgni laugardagsins 28. september 2013 kl. 10.36 fékk lögregla tilkynningu um að verið væri að ganga í skrokk á konu í íbúð að [...] í [...]. Fram kemur að lögregla hafi þegar haldið á vettvang. Er lögregla hafi mætt á staðinn hafi mátt sjá að mikið hafi gengið á í íbúð merktri [...]. A og B, brotaþolar í máli þessu, hafi setið frammi á gangi og hafi A verið að hugga B, sem hafi verið mikið niðri fyrir. Sjá hafi mátt að búið hafi verið að brjóta upp hurð að íbúðinni og hafi m.a. mótað fyrir fari eftir sleggju á hurð íbúðarinnar. Hafi brotaþolar lýst því að X, ákærði í máli þessu, væri farinn og hefði hann forðað sér á hlaupum út um bakdyr hússins stuttu áður en lögregla hafi komið á vettvang. Hafi þær lýst því að ákærði hafi verið í annarlegu ástandi. A hafi tjáð lögreglu að ákærði hafi komið að nokkru áður og bankað á hurð hjá þeim og viljað komast inn. Hafi honum ekki verið hleypt inn vegna ofbeldistilburða og óreglu. Búið hafi verið að setja slagbrand fyrir hurðina vegna fyrri ofsókna ákærða í garð brotaþolanna. Er ákærði hafi knúið dyra hafi brotaþolarnir farið með börnin tvö á heimilinu, dreng og stúlku, inn í herbergi til drengsins. Ákærði hafi brotið sér leið inn í íbúðina og komið rakleitt inn í herbergið til drengsins. Hafi ákærði rifið í hár A og dregið hana í gólfið þar sem hann hafi sparkað í hana. Næst hafi ákærði rifið B úr rúminu og hún fallið á gólfið. Hann hafi sparkað í andlit hennar með þeim afleiðingum að hún hafi rotast við höfuðhöggið. Þær hafi lýst því að ákærði hafi ásakað A um framhjáhald og hafi hann verið reiður vegna þess að hringt hafi verið á lögreglu vegna hans nokkrum dögum áður. Drengurinn og stúlkan, en þau eru börn ákærða og A, hafi horft á allt ofbeldið.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að sökum þess að B hafi misst meðvitund eftir högg frá ákærða hafi verið óskað eftir sjúkrabifreið á vettvang. B hafi verið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild til skoðunar. Rætt hafi verið við nágranna, sem lýst hafi því að mikill hávaði hafi heyrst frá íbúðinni. Nágranninn hafi þekkt ákærða og séð hann ganga að bílskúr fyrir utan húsið og koma þaðan með stóra sleggju. Stuttu síðar hafi heyrst mikil öskur og læti frá íbúðinni. Nágranninn kvaðst ekki hafa viljað blanda sér í málið þar sem B hafi verið með ungt barn hjá sér. Í frumskýrslu kemur fram að haft hafi verið samband við Barnavernd Reykjavíkur vegna ungmennanna í íbúðinni og hafi fulltrúi þeirra komið á vettvang. Á meðal rannsóknargagna málsins eru ljósmyndir er teknar voru úr íbúðinni. Þá er á meðal rannsóknargagna málsins upplýsingaskýrsla lögreglu frá 31. júlí 2014 þar sem fram kemur yfirlit úr málaskrá lögreglu um tilvik þar sem lögregla var kvödd að [...] vegna ákærða. Þá er í gögnum málsins afrit úr dagbók lögreglu vegna afskipta lögreglu af málefnum ákærða og brotaþola.
Mánudaginn 30. september 2013 mætti B, annar brotaþola í máli þessu, á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Greindi hún þá frá þeim atvikum er átt hefðu sér stað, að morgni laugardagsins 28. september 2013, að [...] í [...].
C læknir hefur ritað vottorð vegna komu B á slysadeild 28. september 2013 kl. 11.20. Fram kemur að brotaþoli hafi við skoðun verið í miklu andlegu áfalli, en með fulla meðvitund. Hún hafi fundið fyrir verk í höfði hægra megin. Þá hafi hún verið með verki í hálsi. Smávægilegur skurður hafi verið neðan við nef hægra megin, eins og grunnt nuddsár. Þreifieymsli hafi verið yfir andlitsbeinum hægra megin. Væg bólga hafi verið undir hægra auga. Kúla hafi verið hægra megin á höfði í hársverði framan til. Stór kúla hafi verið aftan á hvirfli og brotaþoli mjög aum við þreifingu. Þreifieymsli hafi verið yfir hryggjartindum í hálshrygg. Hreyfigeta höfuðs hafi verið skert vegna stífleika. Þreifieymsli hafi verið yfir hryggjartindum efst í baki og við þreifingu yfir hægri öxl. CT-mynd hafi verið tekin af höfði. Ekki hafi verið grunur um brot eða blæðingu. Brotaþoli yrði væntanlega frá vinnu eða skóla einhverja daga eftir árásina.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu tók ákvörðun 30. september 2013, samkvæmt 7. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, að ákærði skyldi sæta nálgunarbanni í 12 mánuði þannig að lagt væri bann við því að hann kæmi á eða í námunda við heimili, vinnustað eða skóla brotaþola, B. Jafnframt var lagt bann við því að ákærði veitti brotaþola eftirför eða nálgaðist hana á almannafæri eða setti sig í samband við hana með öðrum hætti. Með úrskurði héraðsdóms 7. október 2013 var ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann staðfest.
Mánudaginn 28. júlí 2014 fór fram skýrslutaka fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. c. liðar, 59. gr. laga nr. 88/2008 af D, dóttur ákærða og A, annars brotaþolans og fyrrverandi eiginkonu ákærða. Kvaðst D hafa vaknað að morgni 28. september 2013 við það að hringt hafi verið á dyrabjöllu. A, móðir hennar, hafi orðið mjög hrædd þar sem ákærði hafi verið við dyrnar. Ákærði hafi ekki búið lengur í íbúðinni þar sem hann og A, móðir hennar, hafi verið skilin. Móðir hennar hafi ekki viljað opna íbúðina fyrir ákærða. Ákærði hafi orðið reiður og farið út í bílskúr og náð í sleggju sem hann hafi brotið upp hurðina með. D sagði að þær B hefðu orðið mjög hræddar og hafi D sjálf farið í sitt herbergi en hún hafi ætlað að þykjast sofa en B og móðir þeirra hefðu farið inn í herbergi bróður síns. Ákærði hafi og farið inn í herbergi bróðurins og hafi D heyrt einhvern segja: ,,Nei, ekki gera þetta“. Hún hafi þá orðið mjög hrædd og farið yfir í herbergi bróður síns en þar hafi hún séð móður sína liggjandi á gólfinu og hafi ákærði sparkað í hana, kýlt hana og rifið í hár hennar. Hann hafi sagt að hún væri ,,hóra“ og skyrpt í andlit hennar. D hafi séð hvernig ákærði hafi tekið B og dregið hana á gólfið. Hafi hann „kyrkt“ hana og rifið í hár hennar. Þá hafi hann sparkað í hana þegar hún hafi verið í gólfinu og hafi B misst meðvitund. Móðir D hafi staðið upp og ákærði tekið hana og ýtt henni upp að vegg og hafi hann opnað munninn eins og hann og ætlaði að bíta hana í andlitið. Móðir hennar hafi komist inn í herbergi sitt og reynt að loka hurð þess. B hafi rankað við sér og hlaupið öskrandi út. Allir hafi heyrt í henni og ákærði hlaupið á brott.
Við aðalmeðferð málsins gáfu ákærði og báðir brotaþolar skýrslu fyrir dómi. Að auki gáfu skýrslu C læknir og lögreglumenn er komu að rannsókn málsins. Verður hér á eftir gerð grein fyrir framburðum að því er máli skiptir fyrir niðurstöðu málsins.
Ákærði kvaðst hafa búið að [...] er atvik hafi átt sér stað, 28. september 2013. Hann hafi verið í verkefni úti á landi og hurð að íbúð hans að [...] verið læst er ákærða hafi borið að garði. A hafi ekki viljað opna hurðina fyrir honum. Kvaðst hann hafa fregnað að A hafi verið honum ótrú í ferð til Englands helgina á undan. Ákærði hafi sagt henni að hann ætlaði sér að komast inn í íbúðina. Hafi hann ekki viljað skemma hurðina. Þrátt fyrir þetta hafi A ekki opnað. Ákærði hafi vitað til þess að slagbrandur væri fyrir hurðinni að innanverðu. Hann hafi náð í sleggju út í bílskúr og með henni brotið upp hurðina. Hann kvaðst hafa vitað af börnum sínum inni á heimilinu og það hafi fokið í hann við það að brjóta upp hurðina. Brotaþolar og börn ákærða hafi öll verið saman inni í einu herberginu. Hafi ákærði verið reiður vegna þess að honum hafi ekki fundist hann eiga að yfirgefa íbúðina. Hann hafi búið á heimilinu þó svo hann hafi ekki lengur verið með lögheimili þar.
Er ákærði hafi komið inn í herbergið hafi hann gripið um axlir A um leið og hann hafi hreytt einhverju í hana og kallað hana illum nöfnum. B hafi staðið uppi í rúmi á milli þeirra og látið sig detta niður eins og hún væri rotuð. Hafi ákærði ,,bankað“ í höfuð hennar með tá. Hann hafi ekki verið í skóm. Hafi hann orðið pirraður yfir ,,fíflaganginum“ í henni. Hann hafi ,,bankað“ tvisvar til þrisvar sinnum til viðbótar ofan í hvirfil höfuðs hennar til að B myndi hætta ,,fíflaskapnum“. A hafi hent sér í gólfið í vörn. Ekki viti hann af hverju það hafi verið. Ákærði hafi hreytt ónotum og ýtt A fram á gang í fjöleignarhúsinu. Þar hafi hann spýtt á hana, án þess að hráki hafi komið með. Eftir þetta hafi hann yfirgefið íbúðina.
Ákærði kvaðst telja að hann hafi verið um 1 til 2 mínútur inni í íbúðinni umrætt sinn. Ákærði kvað áverka er B hafi greinst með samkvæmt áverkavottorði ekki hafa getað stafað af hans völdum. Hann kvaðst hafa verið í sambúð með A lengi. Þau hafi skilið á ,,pappírum“ fyrir tveim árum síðan og endanlega eftir atvikið 28. september 2013. Sambúð þeirra hafi verið góð og ekki ofbeldisfull af hálfu ákærða. Atvikið 28. september hafi verið einangrað tilvik. Hann kvaðst sennilega hafa fengið sér fjóra bjóra að morgni 28. september og verið undir einhverjum áhrifum áfengis. Eftir þetta atvik hafi ákærði gengist undir nálgunarbann gagnvart B. Hafi hann farið í áfengismeðferð og væri að vinna í sínum málum.
A kvað ákærða hafa komið að íbúðinni að [...] um kl. 9.00 að morgni 28. september 2013. A hafi verið sofandi en vaknað er ákærði hafi knúið dyra. Ákærði hafi öskrað að hún skyldi opna fyrir honum. Hún hafi sagt honum að hún ætlaði ekki að opna hurðina. Ákærði hafi sagt að hann vildi ræða við hana, en hún ekki viljað það. Inni á heimilinu hafi á þessum tíma verið B, dóttir A, og tvö börn ákærða og A.
Ákærði hafi farið á brott en komið aftur með sleggju. A hafi verið búin að setja slagbrand fyrir hurðina. Það hafi tekið ákærða um 5 mínútur að brjóta hurðina upp með sleggjunni. A hafi farið inn í herbergi til dóttur þeirra, D. Hafi D verið bæði hrædd og grátandi. Hafi þær síðan allar farið inn í herbergi til sonar ákærða og A. Ákærði hafi komið beint þangað inn. B hafi farið upp í rúm í herberginu en A verið í því miðju. Ákærði hafi gengið rakleitt að B og rifið í hár hennar. Hafi hann dregið hana í sófa, sem hafi verið við hlið rúms í herberginu. Því næst hafi hann hent henni niður á gólf þannig að B hafi lent á bakinu. A hafi reynt að toga ákærða ofan af B og hafi hann þá sett báðar hendur á háls A um leið og hann hafi hrækt í andlit hennar. Ákærði hafi síðan skellt A í gólfið og dregið hana upp á hárinu. Virst hafi sem hann ætlaði að bíta A í andlitið, en hann ekki náð biti með tönnunum. Ákærði hafi síðan snúið sér að B og sparkað einu sinni í höfuð hennar þar sem hún hafi legið í gólfinu. Sparkið hafi verið eins og ákærði væri að vippa bolta. Hafi hann verið í skóm. Það gætu hafa verið inniskór með ólum. A hafi brugðið mjög við spark ákærða í höfuð B. Hafi B dottið út við sparkið. Ákærði hafi farið út og B hlaupið öskrandi fram á gang. Ákærði hafi við svo búið yfirgefið svæðið.
A kvaðst sjálf ekki hafa farið til læknis þennan dag. Hún hafi ekki getað yfirgefið börn sín sem hafi verið í áfalli eftir atburðinn. Kvaðst A hafa fengið andlegt áfall við atburðinn, auk þess sem hann hafi valdið henni kvíða og martröðum. Ákærði og A hafi ekki verið í sambúð er þarna var komið. Ákærði hafi verið farinn af heimilinu. A hafi verið búin að skipta um lás og útvega sér slagbrand fyrir útihurðina til að varna því að ákærði kæmist inn. Sambandi hans og A hafi lokið á árinu 2011 er þau hafi skilið að borði og sæng. Það hafi verið vegna ofbeldis af hálfu ákærða. Hafi þau mörgum sinnum reynt að laga samband sitt og ákærði verið inni á heimilinu þar til í ágúst 2013. Þá hafi hann flutt út. Ákærði hafi verið með ranghugmyndir eftir skilnaðinn og neitað því að þau væru skilin. Mikill kvíði og reiði hafi gert vart við sig hjá börnunum vegna þessara atburða.
B kvaðst hafa ætlað að vakna snemma að morgni 28. september 2013. Hún hafi verið nývöknuð og kominn í slopp er móðir hennar hafi komið og sagt að ákærði væri á leiðinni. Stuttu síðar hafi dyrabjöllu verið hringt. Hafi B ákveðið að fara inn í stofu og þykjast vera sofandi. Hún hafi síðan hætt við það og ákveðið að fara inn í herbergi til bróður síns. Móðir hennar hafi síðan komið inn í herbergið. B hafi farið upp í rúm til bróður síns og staðið í horni þess. Slagbrandur hafi verið settur fyrir hurð íbúðarinnar af ótta við ákærða, en hann hafi áður verið búin að ,,rústa“ nánast öllu á heimilinu. Ákærði hafi náð í sleggju og brotið upp hurðina. Hafi hann komið rakleitt inn í herbergi og rifið móður hennar niður. Hafi hann skyrpt á hana og kýlt í gólfið. Því næst hafi hann rifið í B og slegið hana í andlitið. Hafi hann skyrpt í andlit hennar, dregið hana á hárinu í sófa í herberginu og þaðan á gólfið. Ákærði hafi verið mjög reiður. Hafi hann sparkað laust í höfuð B þar sem hún hafi legið á gólfinu. Hafi höggið komið hægra megin á höfuðið. Í beinu framhaldi hafi hann sparkað aftur og þá fast. Hafi ákærði verið í skóm. B kvaðst hafa dottið út á gólfinu. Viti hún ekki af hverju það hafi gerst. Það hafi verið áður en ákærði hafi sparkað í höfuð hennar. Móðir B hafi farið út úr herberginu og inn í eigið herbergi. D, systir hennar hafi sagt að ákærði hafi reynt að bíta móður þeirra í andlitið. Það hafi ekki tekist. Þetta hafi B ekki séð sjálf. Hún kvaðst hafa farið fram á gang hússins öskrandi. Amma ákærða búi á hæðinni fyrir ofan og B ákveðið að fara til hennar. Ákærði hafi síðan yfirgefið húsnæðið.
B kvaðst hafa leitað á slysadeild vegna atburðarins. Henni hafi gengið illa að jafna sig, sérstaklega andlega og hafi hún hafið töku þunglyndislyfja. Yngri systkini hennar, sem verið hafi í íbúðinni, hafi einnig átt erfitt með að jafna sig eftir atvikið, sérstaklega hafi þetta verið erfitt fyrir systur hennar.
C læknir staðfesti vottorð sitt vegna brotaþolans B. C kvað áverka er brotaþoli hafi greinst með samrýmast því að hún hafi fengið spark í höfuðið umrætt sinn, en um blæðingu undir húð hafi verið að ræða. Almennt séð væru spörk er beindust að höfði mjög hættuleg. Gætu slík spörk valdið blæðingu og broti og valdið dauða. Skór skiptu máli og yllu þeir þyngri höggum. Eitt spark gæti verið nægjanlegt til að valda dauða.
Niðurstaða:
Ákærða eru gefnar að sök tvær líkamsárásir, með því að hafa að morgni laugardagsins 28. september 2013, ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína, A, og stjúpdóttur, B, á heimili þeirra að [...] í [...]. Ákærði neitar sök. Hefur hann viðurkennt að hafa ruðst inn á heimili þeirra mæðgna og að hafa gripið um axlir A, um leið og hann hafi hreytt einhverju illu í hana og kallað hana illum nöfnum. Þá hafi ákærði ,,bankað“ í höfuð B með tá, þrisvar til fjórum sinnum, til að B myndi hætta ,,fíflaskapnum“ og standa á fætur. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa spýtt á B, án þess að því hafi fylgt hráki.
Framburðir brotaþola eru á annan veg. Lýsa brotaþolar báðar atvikum með nokkuð sambærilegum hætti, þó svo röð atburða sé eilítið mismunandi. A lýsti atvikum á þann veg að ákærði hafi ruðst inn í svefnherbergið, snúið sér beint að B og rifið í hár hennar. Ákærði hafi dregið B í sófa í herberginu og því næst hent henni niður á gólf. A hafi reynt að skerast í leikinn og ákærði þá sett báðar hendur um háls A og dregið hana upp á hárinu. Hafi hann gert sig líklegan til að bíta hana í andlitið. Því hæst hafi hann snúið sér að B og sparkað í höfuð hennar.
B lýsti atvikum þannig að ákærði hafi fyrst snúið sér að móður hennar og rifið í hár hennar, skyrpt á hana og kýlt hana. Ákærði hafi síðan snúið sér að B. Að því er spörk varðar bar B að ákærði hafi sparkað í höfuð sitt laust og síðan aftur og þá fast. A hefur borið um eitt spark í höfuð B. Eftir þetta hafi ákærði yfirgefið íbúðina. Framburðir brotaþola fá stuðning af framburði D, dóttur ákærða og A, sem gaf skýrslu fyrir dómi á rannsóknarstigi málsins. Bar D um að hafa séð móður sína liggjandi á gólfinu og ákærða sparka í hana, kýla hana og rífa í hár hennar. Þá hafi ákærði snúið sér að B og dregið hana á gólfið. Hafi hún séð hann sparka í B þar sem B hafi legið í gólfinu. D bar að D hafi misst meðvitund við atlöguna. Ákærði hafi því næst gripið í A og ýtt henni upp að vegg og gert sig líklegan til að bíta í andlit hennar.
Framburður ákærða fyrir dóminum var ótrúverðugur að því leyti að hann bar að engin átök hafi átt sér stað í íbúðinni og hann ekki snert brotaþolann B, nema með því að ýta laust við höfði hennar með tá. Þrátt fyrir það var augljóst, er lögreglumenn bar að garði, að átök hefðu átt sér stað. Voru brotaþolar og börn ákærða í miklu uppnámi. Þá bar B nokkra áverka eftir atlöguna, en hún fór rakleitt á slysadeild eftir árásina. Þegar litið er til framburða brotaþolanna beggja, sem eru samhljóða um meginatriði málsins, og framburðar D, dóttur ákærða og A, en allir eru þessir framburðir trúverðugir, er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi veist að A greint sinn, að hann hafi hrækt á hana, rifið í hár hennar og slegið hana. Fyrir dóminum komu ekki fram samhljóða framburðir um að ákærði hafi kýlt hana í höfuð og maga eftir að hún féll í gólfið. Verður það ekki talið sannað. Þá er komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi reynt að bíta A í andlitið.
Að því er B varðar er komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi rifið í hár hennar og kýlt hana í andlitið. Þá er sannað að hann hafi hrint henni í gólfið og sparkað í höfuð hennar þar sem hún lá á gólfi íbúðarinnar. Ákærði hefur viðurkennt að hafa komið við höfuð B með tá í þrí- eða fjórgang. Með hliðsjón af því telur dómurinn hafið yfir vafa að spörkin hafi að minnsta kosti verið tvö, svo sem B ber og ákæra miðar við.
Áverkar samkvæmt áverkavottorði B koma heim og saman við niðurstöðu hér að framan. Ákærði kveðst hafa verið berfættur umrætt sinn. B ber að ákærði hafi verið í skóm, en móðir hennar að ákærði hafi að minnsta kosti verið í reimuðum inniskóm. Verður samkvæmt því talið sannað að ákærði hafi í það minnsta verið í reimuðum inniskóm, sem eru með hörðum botni. C læknir hefur borið um hversu hættulegt það er að sparka í höfuð einstaklings, sem hann kveður geta verið lífsógandi. Hafi B borið áverka sem hafi samrýmst því að hafa fengið spark í höfuðið, en hún hafi verið með blæðingu undir húð á höfði. Dómurinn metur þessa háttsemi ákærða, að sparka í skóm með hörðum botni, í höfuð, sérstaklega hættulega líkamsárás. Að þessu gættu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í mars 1971. Hann var dæmdur í 8 mánaða skilborðsbundið fangelsi, til tveggja ára, 4. maí 2012 fyrir brot gegn 4. mgr. 220. gr. og 1. mgr. 257. gr. laga nr. 19/1940 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 16/1998. Ákærði hefur með broti því sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir rofið skilyrði refsidómsins. Verður skilorðið nú tekið upp og refsing dæmd í einu lagi eftir ákvæðum 60. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða eru alvarleg, en þau beinast að mikilsverðum hagsmunum. Eru brotaþolarnir tveir. Með hliðsjón af því, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, sbr. og 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr., er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 ár. Ekki er unnt að skilorðsbinda refsinguna.
Af hálfu beggja brotaþola er krafist skaðabóta. Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Af hálfu B er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta. Í tilviki A er skaðabótakrafan sett saman úr miskabótakröfu að fjárhæð 600.000 krónur. Þá er gerð krafa um skaðabætur vegna kostnaðar að fjárhæð 200.000 krónur. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás gagnvart brotaþolanum A. Aðför ákærða var harkaleg og urðu börn ákærða og brotaþola vitni að árásinni. Jók allt þetta á miska brotaþola. Eru miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Krafa um útlagðan kostnað styðst við reikninga og verður hún tekin til greina. Um vexti og dráttarvexti fer sem í dómsorði greinir.
Í tilviki B er skaðabótakrafan öll miskabótakrafa. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlega líkamsárás gagnvart henni. Bar hátterni hennar fyrir dóminum þess augljós merki að brot ákærða hefur valdið henni töluverðum miska. Eru bætur til hennar hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns, svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði A 700.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. september 2013 til 22. október 2014 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B 800.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. september 2013 til 22. október 2014 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 1.898.030 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns, 948.780 krónur og þóknun réttargæslumanns beggja brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 702.800 krónur.