Hæstiréttur íslands
Mál nr. 293/2000
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Skaðabætur
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 22. febrúar 2001. |
|
Nr. 293/2000. |
Rauðar rósir ehf. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) gegn Ester Sveinbjarnardóttur (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Einkahlutafélög. Skaðabætur. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
R krafði E um skaðabætur vegna tjóns, sem félagið taldi E hafa bakað sér. E var annar stofnenda R, varastjórnarmaður þess og eigandi helmings hlutafjárins. Ósætti kom upp með E og og eiganda annars hlutafjár, Á, sem var jafnframt eini aðalstjórnarmaður félagsins. Í kjölfarið fjarlægði E stærstan hluta vörulagers úr verslun R og ráðstafaði að miklu leyti í eigin þágu. Var E talin hafa farið út fyrir heimildir sínar til að taka út vörur á kostnaðarverði og varð háttsemi hennar ekki réttlætt með öðru móti. Var háttsemi hennar því heimildarlaus með öllu. Fallist var á að E hefði látið persónulega hagsmuni ráða á kostnað félagsins og að háttsemi hennar hefði verið til þess fallin að valda R tjóni. Var E talin þurfa að að bera skaðabótaábyrgð á saknæmum og ólögmætum gerðum sínum. Á hinn bóginn var bótakrafa R talin svo vanreifuð að ekki yrði hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2000. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði dæmd til að greiða sér 8.268.431 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. nóvember 1997 til greiðsludags. Til vara krefst hann 5.512.287 króna auk dráttarvaxta eins og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem greinir í héraðsdómi stofnuðu Ásdís Frímannsdóttir og stefnda einkahlutafélagið Rauðar rósir 6. desember 1996. Skyldu þær vera eigendur félagsins að jöfnu og var Ásdís kjörin stjórnarmaður, en stefnda varamaður í stjórn. Hófu þær síðan rekstur í nafni félagsins í september árið eftir, en þá opnuðu þær verslunina Karachi í leiguhúsnæði að Ármúla 23 í Reykjavík. Var þar boðinn til sölu margs konar varningur, sem einkum var keyptur frá Pakistan.
Fljótlega eftir að verslunin var opnuð varð misklíð milli eigenda áfrýjanda, sem virðist hafa ágerst mjög þegar komið var fram í nóvember 1997. Heldur stefnda fram að Ásdís hafi þá sýnt af sér margs kyns háttsemi, sem hafi verið til þess fallin að grafa undan trúnaði þeirra á milli og samstarfinu um rekstur félagsins. Þannig hafi hún til dæmis ekki sinnt skyldum sínum, er lutu að bókhaldi félagsins, og neitað að gera grein fyrir reikningum, meðal annars vegna verslunarferðar, sem Ásdís hélt fram að hafi verið farin í þágu áfrýjanda. Þá hafi hin síðarnefnda skýrt stefndu frá því 12. nóvember 1997 að hún hygðist opna verslun í Mosfellsbæ með eiginmanni sínum, þar sem fram yrðu boðnar sams konar vörur og seldar voru í verslun áfrýjanda. Hafi Ásdís jafnframt lagt til að þær skiptu vörubirgðum áfrýjanda á milli sín. Þá hafi Ásdís fjarlægt um þetta leyti mikið af vörum úr versluninni í Ármúla. Hafi stefnda af þessum sökum haft vaxandi áhyggjur af sínum hag og um leið félagsins, enda hafi hún þá þegar lagt fram verulegt fé til að koma rekstri áfrýjanda af stað.
Að kvöldi 17. nóvember 1997 fór stefnda í verslunina í Ármúla og fjarlægði þaðan með aðstoð vina sinna og skyldmenna mestan hluta vörubirgðanna, sem þar voru. Er ljóst að einungis lítið var skilið eftir, en að auki voru einhverjar vörubirgðir í gámi utan við húsið, sem ekki var hróflað við. Varð meðeigandanum ekki kunnugt um hvað gerst hafði fyrr en næsta morgun þegar afgreiðslumaður kom til vinnu sinnar í versluninni. Var hún ekki opnuð eftir þetta og rekstri hennar hætt. Telur Ásdís Frímannsdóttir að stefnda hafi með gerðum sínum kippt grundvellinum undan starfsemi áfrýjanda. Hafi rekstri verslunarinnar í raun verið sjálfhætt þar eð ekki hafi verið fyrir hendi vörur til að selja þar í stað þeirra, sem stefnda fjarlægði. Þá hafi engar forsendur verið til þess að Ásdís legði ein fram fé til að leysa út nýjar vörur í þágu áfrýjanda til að halda rekstrinum áfram eftir það, sem á undan var gengið. Til að það gæti orðið hefðu eigendur áfrýjanda fyrst orðið að semja um ágreiningsmál sín eða jafnvel skipta félaginu upp. Stefnda hafi hins vegar harðneitað að gefa upp hvar vörubirgðirnar væru niður komnar og engu svarað tillögum lögmanns Ásdísar í kjölfar þessa atburðar, svo sem um það að segja upp húsleigusamningi í Ármúla. Sjálf hafi stefnda ekki fengið lögmann sér til aðstoðar fyrr en alllöngu síðar. Í ljósi alls þessa kveður Ásdís það hafa orðið að ráði að eiginmaður hennar leysti út í sínu nafni nýja vörupöntun áfrýjanda frá Pakistan. Hafi þau síðan opnað verslun með þann varning í Mosfellsbæ 7. desember sama árs.
Fram er komið að eftir þetta hefur stefnda leitast við að koma vörubirgðum áfrýjanda í verð. Í því skyni hefur hún meðal annars boðið varninginn til sölu heima hjá sér og í svokölluðu Kolaporti og jafnvel einnig í blómaverslunum. Þá urðu nokkur bréfaskipti milli lögmanna málsaðila í byrjun árs 1998, svo sem rakið er í héraðsdómi. Féllst lögmaður áfrýjanda þar á tillögur lögmanns stefndu um hvernig farið yrði með tiltekin atriði. Verða svör hins fyrrnefnda ekki skýrð á annan veg en þann að hann hafi meðal annars fallist á að stefnda seldi vörurnar í nafni áfrýjanda. Í svarinu kom jafnframt fram að fé, sem þannig fengist, skyldi ganga upp í kröfu áfrýjanda á hendur stefndu vegna tjóns, sem aðgerðir hinnar síðastnefndu hafi valdið félaginu, en þetta breytti þó engu um bótaskyldu stefndu vegna gerða sinna. Þá fólst einnig í þessu samkomulagi að stefnda tók til sín 11. febrúar 1998 þær vörur, sem urðu eftir í versluninni 17. nóvember árið áður og vörubirgðirnar í áðurnefndum vörugámi til að selja þær. Hefur stefnda lagt fram í málinu lista, sem hún kveður hafa verið gerða yfir þær vörur, sem hún tók til sín. Hafi skoðunarmaður áfrýjanda fylgst með að rétt væri skráð það, sem tekið var.
Áfrýjandi krafði stefndu um skaðabætur með bréfi lögmanns félagsins 11. maí 1999. Ákvörðun um málshöfðun á hendur stefndu til heimtu skaðabóta var tekin í kjölfarið á hluthafafundi í félaginu 4. júní sama árs á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög með áorðnum breytingum. Var þar samþykkt tillaga Ásdísar Frímannsdóttur þessa efnis með atkvæði hennar sjálfrar, en stefnda naut ekki atkvæðisréttar um tillöguna, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 138/1994.
II.
Málsókn áfrýjanda er á því reist að stefnda hafi með háttsemi sinni valdið félaginu tjóni, sem hún beri skaðabótaábyrgð á. Með gerðum sínum 17. nóvember 1997 hafi hún eyðilagt rekstrargrundvöll félagsins. Alveg sé ljóst að með því að selja vörubirgðir áfrýjanda sem hverja aðra þriðja flokks vöru heima hjá sér og í Kolaporti, hafi einungis fengist brot af því verði, sem fengist hefði með sölu í verslun áfrýjanda. Hvað sem líði óánægju stefndu í nóvember 1997 eða missætti hluthafanna í áfrýjanda sé óhugsandi að unnt sé að réttlæta gertæki af því tagi, sem stefnda hafi gerst sek um. Hafi samstarfsgrundvöllur verið brostinn, svo sem stefnda haldi fram, hafi fjölmörg lögleg úrræði verið fyrir hendi til að bregðast við því. Stefnda hafi þó ekki kosið að nýta sér þau, heldur gripið til ólögmætra og saknæmra aðgerða. Af hálfu áfrýjanda er tekið fram að úrlausn um kröfur í þessu máli marki þó ekki endi allra deiluefna, því þá sé enn eftir uppgjör innan félagsins gagnvart kröfuhöfum og hluthöfunum sjálfum.
Stefnda mótmælir því að hún hafi með gerðum sínum bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart áfrýjanda. Telur hún sig hafa verið í fullum rétti er hún fjarlægði varninginn úr versluninni. Þannig hafi eigendum áfrýjanda verið heimilt samkvæmt samningi þeirra að taka út vörur úr versluninni á kostnaðarverði. Þá hafi framganga Ásdísar í málefnum áfrýjanda leitt til þess að hag stefndu og félagsins hafi verið stefnt í voða. Hafi sú aðstaða, sem upp var komin, veitt stefndu sjálfstæðan rétt til að bregðast við með þeim hætti, sem hún gerði, til að verja hagsmuni kröfuhafa og hluthafa í áfrýjanda. Stefnda mótmælir því loks að nauðsynlegt hafi verið að loka versluninni vegna þess að hún hafi tekið vörubirgðirnar. Nægar aðrar vörur hafi verið til í eigu áfrýjanda, sem Ásdís hefði getað nýtt til að halda áfram rekstri verslunarinnar, þar til nýjar vörur bærust.
III.
Samkvæmt gögnum málsins er fram komið að verulegir brestir voru orðnir í samstarfi stefndu og Ásdísar Frímannsdóttur um rekstur áfrýjanda í nóvember 1997. Er jafnframt ljóst að hinni síðarnefndu verður að minnsta kosti að nokkru um það kennt. Hafi stefnda kosið er þar var komið að hætta samstarfinu við Ásdísi um rekstur áfrýjanda voru henni færar leiðir til þess, sem hún kaus þó ekki að fara. Þess í stað greip hún 17. nóvember 1997 til þess úrræðis, sem að framan er lýst, og leiddi til þess að verslun áfrýjanda var lokað strax næsta dag. Verður fallist á með áfrýjanda að söluaðferð stefndu á vörubirgðum félagsins í kjölfarið bauð ekki upp á sömu kosti um álagningu og hefðu þær verið seldar í versluninni með þeim hætti, sem að var stefnt. Gerðir stefndu voru því til þess fallnar að valda áfrýjanda tjóni. Er sýnt að stefnda hefur látið persónulega hagsmuni sína ráða för á kostnað félagsins, er til þessara aðgerða var gripið. Sú viðbára hennar að þær hafi verið nauðsynlegar vegna kröfuhafa félagsins er haldlaus og með því að taka til sín stóran hluta vörubirgða áfrýjanda var farið út fyrir heimildir til að taka út vörur á kostnaðarverði. Þá verður háttsemi hennar heldur ekki réttlætt með vísan til þess að Ásdís Frímannsdóttir hefði getið haldið ein áfram rekstri verslunar áfrýjanda með vörum, sem stefnda tók ekki til sín. Mátti stefndu vera ljóst að starfsemi áfrýjanda yrði ekki haldið áfram eftir þetta nema til kæmi samningur hluthafanna um lausn ágreiningsmála sinna. Verður stefnda að bera skaðabótaábyrgð á saknæmum og ólögmætum gerðum sínum og hefur áfrýjandi ekki svipt sig rétti til að hafa uppi bótakröfu vegna þess samnings, sem gerður var fyrir tilstuðlan lögmanna málsaðila í byrjun árs 1998 um tiltekna þætti ágreiningsefna þeirra.
IV.
Áfrýjandi kveðst styðja fjárhæð kröfu sinnar við ársreikning félagsins fyrir árið 1997 og skýringar endurskoðanda þess. Sé miðað við kostnaðarverð vörubirgða, sem til voru 17. nóvember 1997, með 50% álagningu, sem hljóti að teljast hóflegt í ljósi þess að álagning hafi almennt verið mun hærri í versluninni meðan hún var starfrækt. Frá vörukaupum sé dregið kostnaðarverð seldra vara. Er á því byggt að stefnda hafi geymt hluta vörubirgðanna heima hjá sér fyrir 17. nóvember 1997, og með því sem hún tók til sín þann dag og 11. febrúar 1998 hafi hún náð umráðum yfir öllum vörulagernum. Kveðst Ásdís Frímannsdóttir ekki hafa haft neinar vörur í sínum vörslum nema nokkra gallaða hluti, sem hún hafi verið með í tengslum við tilraunir til að gera við þá.
Stefnda mótmælir því að áfrýjandi hafi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni. Skipti svokallaður ársreikningur félagsins engu máli í þessu sambandi. Hann hafi hvorki verið áritaður né staðfestur af löggiltum endurskoðanda félagsins eða skoðunarmanni og ekki staðfestur með þeim hætti, sem lög nr. 138/1994 geri ráð fyrir. Skjalið feli einungis í sér hugmyndir Ásdísar Frímannsdóttur um uppgjör félagsins umrætt ár. Óreiða hafi verið á þeim þætti bókhaldsins, sem snéri að henni, og ekkert tillit hafi verið tekið til fjölmargra athugasemda stefndu við þessi drög að ársreikningi. Skýringar endurskoðandans, sem fram séu komnar með nýjum gögnum fyrir Hæstarétti, séu bæði þýðingarlausar og of seint fram komnar og að auki um sumt í ósamræmi við það, sem hann hafi borið fyrir héraðsdómi. Þá sé sannað með vætti vitna að Ásdís hafi fyrir 17. nóvember 1997 náð umráðum yfir verulegum hluta vörubirgðanna. Sú aðferð áfrýjanda að miða við 50% álagningu á allar vörur eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Loks eigi enn eftir að taka tillit til fjölmargra þátta við mat á hinu ætlaða tjóni áfrýjanda, svo sem um ýmsan kostnað, sem hafi sparast vegna gerða stefndu. Megi þar nefna laun og fleira.
V.
Fram er komið að áfrýjandi keypti vátryggingu vegna vörubirgða, sem geymdar yrðu á heimili beggja hluthafanna áður en verslun félagsins tók til starfa. Þá hefur vitni borið að það hafi aðstoðað Ásdísi Frímannsdóttur við að flytja nokkurt magn af vörum úr versluninni í nóvember 1997 og hafi Ásdís farið með þær brott. Umrætt vitni var afgreiðslumaður í versluninni og ráðið til starfa af Ásdísi. Sama vitni bar jafnframt að hafa séð á heimili hinnar síðarnefndu í janúar 1998 margs konar aðra muni úr versluninni í Ármúla. Önnur vitni hafa borið að þau hafi séð í desember 1997 og janúar 1998 ýmsan varning í verslun eiginmanns Ásdísar, sem áður var boðinn fram í verslun áfrýjanda eða auglýstur til sölu af hans hálfu. Að þessu virtu telst sannað, þrátt fyrir neitun Ásdísar, að hún hafi sjálf haft umráð yfir einhverjum hluta vörulagers áfrýjanda. Verður þegar af þeirri ástæðu hafnað að leggja svokallaðan ársreikning áfrýjanda til grundvallar um ætlað tjón félagsins. Áfrýjandi hefur ekki stutt bótakröfu sína mati dómkvadds manns, þar sem tekið yrði tillit til allra atriða, sem líta bæri til um tjónið. Er krafa áfrýjanda vanreifuð og verður við svo búið ekki hjá því komist að vísa henni frá héraðsdómi.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2000.
I
Mál þetta var höfðað með framlagningu stefnu og annarra gagna í dómi 29. júní 1999 þar sem mætt var af hálfu stefndu. Það var dómtekið 3. þ.m.
Stefnandi er Rauðar rósir ehf., kt. 620197-2709, Blómsturvöllum, Mosfellsbæ (eftir því sem segir í stefnu).
Stefnda er Ester Sveinbjarnardóttir, kt. 090963-6789, Garðhúsum 31, Reykjavík.
Stefnandi krefst greiðslu skaðabóta úr hendi stefndu, aðallega að upphæð 8.268.431 króna en til vara 5.512.287 krónur, auk málskostnaðar.
Upphafleg aðalkrafa stefndu var um frávísun málsins en henni var hafnað með úrskurði 23. nóvember 1999. Hún krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Einkahlutafélagið Rauðar rósir, með heimilisfangi að Garðhúsum 31, Reykjavík, var tilkynnt og skráð 22. janúar 1997. Tilgangur: Innflutningur, smásala, heildsala, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Stofnendur og eigendur að jöfnu eru Ásdís Frímannsdóttir, kt. 120252-7399, Blómsturvöllum, Mosfellsbæ og stefnda. Hin fyrrnefnda er aðalmaður í stjórn en stefnda varamaður. Endurskoðendur eða skoðunarmenn eru Jónína Þ. Hansen, kt. 280664-7669, og Guðrún Fríður Heiðarsdóttir, kt. 260263-3959.
Starfsemi félagsins byggðist frá upphafi á smásölu á innfluttum vörum, einkum frá Pakistan, og fóru Ásdís Frímannsdóttir og stefnda í innkaupaferð til Pakistan í janúar febrúar 1997. Ásdís fór einnig ein í innkaupaferðir. Þann 7. ágúst 1997 tók félagið á leigu af Nýborg ehf. húsnæði að Ármúla 23, Reykjavík. Til tryggingar greiðslu húsaleigu var afhentur tryggingarvíxill að upphæð 605.250 krónur, samþykktur af stefnanda og ábektur af Ásdísi Frímannsdóttur og stefndu.
Á stjórnarfundi 28. ágúst 1997 var ákveðið að nafn verslunarinnar yrði Karachi. Opnunartími var ákveðinn 11 18 virka daga og 10 14 laugardaga. Ásdís Frímannsdóttir skyldi vinna alla virka daga fyrir 130.000 króna mánaðarlaun og stefnda á laugardögum, en hún var í fullu starfi annars staðar. Meðal þess, sem ákveðið var á fundinum, var „að fá manneskju til að setja upp bókhald.”
Verslunin Karachi var opnuð 20. september að Ármúla 23, en áður mun einhver sölustarfsemi hafa átt sér stað, og var hún starfrækt til 18. nóvember s.á. Að kvöldi 17. nóvember fjarlægði stefnda nær allar vörur úr versluninni en það er meginefni málssóknarinnar eins og nánar verður greint. Að auki voru vörur geymdar heima hjá eigendunum og í gámi við verslunina.
Augljós og alvarleg brotalöm á rekstri fyrirtækisins lýtur að reikningsfærslu og bókhaldi. Þannig hafa Ásdís Frímannsdóttir og stefnda hvor um sig borið að hin hafi átt að færa bókhaldið. Frammi liggur yfirlýsing skoðunarmanns stefnanda, Guðrúnar F. Heiðarsdóttur, sem hún hefur staðfest fyrir dóminum. Þar greinir frá því að hún hafi verið fengin af eigendum til að hanna birgðabókhald og unnið að því dagana 3. og 4. september 1997. Vegna stöðu sinnar hjá fyrirtækinu hafi hún lagt til að eigendur létu strax færa bókhald félagsins, sem komið var, og síðan reglulega til að fylgjast með kostnaði og sölu. Hún hafi boðist til að aðstoða þær við uppsetningu bókhaldskerfis og koma þeim af stað svo að þær gætu sjálfar séð um bókhaldsfærslur. Stefnda hafi strax komið með þá reikninga, sem hún hafi haldið til haga, en Ásdís Frímannsdóttir hafi með engu móti viljað láta færa bókhaldið eða taka þátt í því að stemma af gögn frá stefndu. Einnig liggur frammi yfirlýsing Gunnars Ragnarssonar, kt. 160870-5839, sem hann hefur staðfest fyrir dóminum. Þar greinir frá því að þ. 6. nóvember 1997 hafi kunningjakona hans, stefnda í máli þessu, leitað ráða hjá honum varðandi fyrirtæki sem hún ætti ásamt Ásdísi Frímannsdóttur. Hún hafi borið að Ásdís neitaði að láta færa bókhald félagsins og einnig að sýna stefndu sölunótur eða önnur gögn sem hún hefði undir höndum. Þá hefði Ásdís færst undan að hitta sig en hefði samþykkt að gera það þennan dag í versluninni Karachi. Þau hafi farið þangað á tilsettum tíma en Ásdís hafi þá verið farin og við afgreiðslu hafi verið vinkona hennar, Jórunn Sigurðardóttir sem hafi aðspurð sagst vera búin að vera þar í vinnu um nokkurt skeið. Þau hafi síðan farið heim til Ásdísar sem hafi harðneitað að afhenda stefndu bókhald félagsins eða sýna henni neitt því viðkomandi, enda ætti hún eftir að hreinrita bókhaldið.
Fljótlega eftir þetta fór stefnda með tiltæk bókhaldsgögn til KPMG Endurskoðunar hf. og fól endurskoðunarstofunni færslu bókhalds stefnanda. Var það verk, sem og gerð ársreikninga sbr. síðar, í umsjá Alexanders Eðvarðssonar, löggilts endurskoðanda.
Stefnda sendi Ásdísi Frímannsdóttur símskeyti þ. 14. nóvember 1997 þar sem hún skoraði á Ásdísi að skila reikningum fyrirtækisins, sem væru í fórum hennar, til nefndrar endurskoðunarstofu.
Í bréfi Alexanders Eðvarðssonar, f.h. KPMG Endurskoðunar hf., til stjórnar stefnanda, dags. 15. desember 1997, er vísað til þess að í nóvember s.á hafi þess verið farið á leit við endurskoðunarstofuna að hún færði bókhald félagsins. Við framkvæmd þess hafi ýmsir annmarkar komið í ljós, sem megi rekja til ágreinings eigenda, og var komið á framfæri athugasemdum og ábendingum. Hinar helstu lúta að því að skráningu á sölu félagsins hafi reynst vera ábótavant, sum kostnaðarfylgiskjöl séu ófullkomin og að upplýsingar um birgðir félagsins hafi ekki verið lagðar fram þannig að ekki hafi verið hægt að sannreyna vörukaup og sölu félagsins.
Alexander Eðvarðsson bar fyrir dóminum að stefnda hefði upphaflega komið með gögn til færslu bókhaldsins en síðar hefðu borist meiri gögn frá Ásdísi Frímannsdóttur. Um þetta segir í stefnu: „Talið var að ýmis gögn vantaði þar í og taldi stjórnarmaður að stefnda hefði eytt fylgiskjölum sem vörðuðu fjárútlát stjórnarmanns fyrir félagið. Eftir að búið var að afla aftur þeirra fylgiskjala, sem vantaði, hjá bönkum, tollstjóra og fleirum, en lögmaður stefnanda hafði bókhaldið í sinni vörslu á meðan til skoðunar, var bókhaldið fengið KPMG aftur vorið 1998.”
Að kvöldi 17. nóvember 1997 fór stefnda í verslunina Karachi og fjarlægði vörurnar sem voru taldar og skráðar af stefndu og Jónínu Þ. Hansen, skoðunarmanni félagsins, sem hefur staðfest fyrir dóminum það sem skráð er á talningarblöðin að hún hafi verið fengin í verslunina til að staðfesta og vera vitni að skráningu og réttri talningu þeirra muna sem voru fjarlægðir úr henni. Einnig voru vitni að framkvæmd talningarinnar Sigurður Valgeir Jósefsson og Kjartan Júlíus Einarsson sem aðstoðuðu við að flytja varninginn heim til stefndu. Í glugga verslunarinnar setti stefnda spjald sem á stóð: „Lokað vegna breytinga”.
Um aðdraganda og tilefni töku varningsins vísar stefnda til eftirfarandi: Hinn 12. nóvember hafi Ásdís Frímannsdóttir tjáð henni í síma að hún hefði hug á því að skipta vörulagernum á milli þeirra og gæti stefnda fengið húsnæðið á Ámúlanum en sjálf væri hún búin að finna annað húsnæði fyrir sig. Hún hefði látið breyta pöntun á vörum í Pakistan á nafn eiginmanns síns sem mundi leysa þær út. Þá hafi Ásdís krafist þess þ. 13. nóvember að hún greiddi auglýsingareikning. Leiga hafi verið ógreidd fyrir október og nóvember og yfirdráttarheimild nær fullnýtt á tékkareikningi fyrirtækisins í Landsbanka Íslands. Ennfremur hafi hún haft grun um að Ásdís ætlaði sér að fjarlægja lager verslunarinnar til að selja fyrir sinn eigin reikning.
Frammi liggur bréf leigusalans, Nýborgar ehf., dags. 1. desember 1997, þar sem segir að vegna vanefnda á greiðslu húsaleiguskuldar að upphæð 407.607 krónur hyggist hann rifta húsleigusamningnum með sjö daga fyrirvara. Þá liggur frammi yfirlit Landsbanka Íslands vegna tékkareiknings stefnanda nr. 1300. Sýnir það rúmlega 1.100.000 króna yfirdrátt miðað við 31. 12.1997.
Að morgni 18. nóvember 1997 þegar Jórunn Sigurðardóttir mætti til að opna verslunina og sá hvað orðið var hafði hún samband við Ásdísi Frímannsdóttur sem kom og kvaddi til lögreglu. Þar sem engin ummerki voru um innbrot var haft samband við stefndu sem viðurkenndi að hafa tekið vörurnar úr versluninni. Atburðurinn var kærður til lögreglustjórans í Reykjavík 20. nóvember 1997 og var farið fram á rannsókn á málinu. Þann 1. desember 1997 var kærunni vísað frá þar sem talið var um einkamál að ræða. Ákvörðun lögreglustjóra var borin undir embætti ríkissaksóknara sem staðfesti hana og var hafnað að hefja rannsókn á málinu.
Ásdís Frímannsdóttir hafði farið í innkaupaferð til Pakistan í október 1997 og látið merkja varning með nýju vörumerki „Karachi” í stað hins eldra „Rauðar rósir”. Eiginmaður Ásdísar, Jónas Björnsson, bar fyrir dóminum að hann hefði lagt út 2,8 milljónir króna fyrir vörunum. Hann hafi síðan sett á stofn verslun á sínu nafni að Háholti 14, Mosfellsbæ þar sem vörur þessar voru hafðar. Verslunin hefði verið opnuð 7. 8. desember 1997, en hann hafi haft verslunarleyfi og stundað verslunarrekstur frá 1981. Ásdís Frímannsdóttir setti tilkynningu í glugga verslunarinnar í Ármúla um að hin nýja verslun yrði opnuð 5. desember. Í Morgunblaðinu voru birtar auglýsingar 10. og 12. desember 1997 undir fyrirsögninni „Verslunin Karachi”. Þar segir að annar eigandi verslunarinnar hafi opnað pakistanskan markað í Háholti 14, Mosfellsbæ til sölu á síðum leðurfrökkum, silkirúmfatnaði, kínasilki, kasmír ullarmottum; glæsilegum gjafavörum.
Lögmaður Ásdísar Frímannsdóttur sendi stefndu símskeyti 28. nóvember 1997 þar sem segir að „í ljósi núverandi aðstæðna og til að takmarka tjón félagsins“ vilji hún segja upp leigusamningi um verslunarhúsnæðið með lögformlegum uppsagnarfresti frá og með næstu mánaðamótum. Með hraðskeyti næsta dag óskaði stefnda eftir frestun þar til hún hefði ráðfært sig við lögmann.
Þann 27. janúar 1998 samþykkti lögmaður stefndu tillögu lögmanns Ásdísar Frímannsdóttur (eða stefnanda) um uppsögn leigusamningsins og var hún send leigusala 29. s.m. Með bréfi lögmanns leigusalans til stefnanda, dags. 6. febrúar 1998, var bent á að leigusamningurinn væri tímabundinn og óuppsegjanlegur. Leiga væri ógreidd fyrir mánuðina nóvember, desember og janúar en fyrir lægi tryggingarvíxill að upphæð 605.250 krónur. Leigusamningnum var rift og tilkynnt að leigusali mundi krefja stefnanda um: 1) Greiðslu tryggingarvíxilsins. 2) Bætur vegna tapaðra leigugreiðslna. 3) Greiðslu 50.000 króna í leigugreiðslur fyrir afnot af gámi í eigu leigusalans undir vörur. 4) Að fyrir 15. febrúar verði fjarlægðir hlutir sem enn séu í húsnæðinu, þ.á.m. gaflar af húsgögnum, náttborð, skilti og ónýtt búðarborð.
Lögmaður stefndu sendi lögmanni Ásdísar Frímannsdóttur (eða stefnanda) svohljóðandi bréf, dags. 30. janúar 1998:
„Í framhaldi af samtali okkar í gær get ég staðfest að umbjóðandi minn fellst á þær tillögur að framgangi deilumáls eigenda Rauðra Rósa ehf. sem við ræddum um. Nánar tiltekið var þar um að ræða eftirfarandi atriði:
1. Húseiganda Ármúla 23, Reykjavík verði tilkynnt um að húsnæðið verði laust til afhendingar um mánaðamót og samið við hann um slit á leigusamningi. Ásdís mun annast þennan frágang.
2. Ester mun taka í sínar vörslur þann lager sem eftir er hjá félaginu að Ármúla 23, Reykjavík.
3. Ester mun taka að sér að reyna að selja þann lager sem hún er með við fyrsta tækifæri gegn eins góðu verði og kostur er. Miðað skal við að vörurnar verði seldar á helmingi útsöluverðs en þó aldrei lægra en innkaupsverð nema þær séu galllaðar. Vörurnar verða seldar í nafni félagsins.
4. Söluandvirði lagersins verður látið renna til greiðslu á skuldum félagsins og skulu greiðslur á leigu og yfirdrætti hafa þar forgang.
5. Þá eru aðilar sammála um að KPMG endurskoðun muni ljúka við að færa upp bókhald félagsins. Ásdís mun þegar í stað láta endurskoðendum í té þá reikninga og gögn sem vantar til þess að unnt verði að ljúka uppgjöri.
6. Sent verði inn virðisaukaskattsuppgjör sem fyrst þannig að félagið geti fengið inneign greidda út sem fyrst. Inneigninni skal ráðstafa til greiðslu á skuldum félagsins og skulu leigugjöldin og yfirdráttur hafa forgang.”
Í svarbréfi, dags. 6. febrúar 1998, er staðfest að leigu hafi verið sagt upp á Ármúla 23. Síðan segir: „Varðandi muni þá, sem eru til staðar í Ármúla, þá hefur umbj. m. ekki lyklavöld að húsnæði eftir að skipt var um skrár og þannig ekki möguleika á að fjarlægja munina, auk þess sem hún telur eðlilegt að þeir fylgi þeim lager sem félagið á einhvers staðar hér í bæ. Varðandi sölu munanna þá hefur umbj. m. ítrekað við umbj. y. að eftir að umbj. y. tók í sínar vörslur svo til allan lager félagsins hafi hún bakað sér bótaskyldu gagnvart umbj. m. Umbj. m. samþykkir fyrir sitt leyti að vörur þessar verði seldar, enda gangi andvirði sölunnar til greiðslu skuldbindinga félagsins. Slíkt mun hafa áhrif til lækkunar þeirrar bótakröfu sem umbj. m. telur sig eiga á umbj. y. Engu að síður vill umbj. m. ítreka að hærra verð hefði fengist fyrir vörur þessar við sölu þeirra í versluninni ef þær hefðu ekki verið fjarlægðar og vísar ábyrgð vegna þess alfarið á hendur umbj. y. Jafnframt vill umbj. m. upplýsa að ógreiddar eru launaskuldir félagsins vegna þess tíma sem það var í rekstri sem og eðlilegum uppsagnarfresti starfsfólks. . . .”
Þann 11. febrúar 1998 sótti stefnda það sem eftir var af varningi í húsnæði verslunarinnar, auk verslunarinnréttinga og -skiltis, og í gámi við hana. Kveður hún vörurnar hafa fyllt einn 20 feta gám og tvo sendiferðabíla. Jónína Þ. Hansen, skoðunarmaður félagsins, annaðist sem fyrr talningu og skráningu ásamt stefndu og vitni að vörutalningunni var Bjarni Sigurðsson sem aðstoðaði við að flytja varninginn að heimili stefndu.
Í bréfi lögmanns Ásdísar Frímannsdóttur (eða stefnanda), dags. 24. febrúar 1998, segir m.a. að augljóst sé miðað við upplýsingar sem umbjóðandi hans hafi fengið að eðlilegt verð sé ekki að fást fyrir vörurnar. Gangi andvirðið hins vegar til greiðslu á skuldbindingum stefnanda muni það lækka bótakröfu á hendur stefndu. Því var mótmælt að ekki skyldi hafa verið lagður fram vörutalningarlisti og látin í ljós sú skoðun að óeðlilegt væri að sala stefndu færi fram í nafni stefnanda.
Í svarbréfi lögmanns stefndu, dags. 25. febrúar 1998, er mótmælt þeirri afstöðubreytingu sem fram komi í framangreindu bréfi. Vörutalningarlisti frá 17. nóvember 1997 fylgdi síðan bréfi lögmanns stefndu til lögmanns Ásdísar Frímannsdóttur (eða stefnanda) 13. mars. 1998.
Lögmaður sendi stefndu innheimtubréf 11. maí 1999. Þar segir að honum hafi verið falið að innheimta kröfu stefnanda á hendur stefndu vegna töku hennar á vörubirgðum félagsins þann 17. nóvember 1997, sem ljóst sé að hún hafi fénýtt þær í eigin þágu. Krafan var að höfuðstól 8.268.431 króna en samtals 10.823.423 krónur. Bókhald stefnanda fyrir árið 1997 var lagt fram með bréfi Alexanders Eðvarðssonar f.h. KPMG Endurskoðunar hf. 7. júlí 1998 og fylgdu því ýmsir fyrirvarar. Af hálfu stefndu voru gerðar margháttaðar athugasemdir við reikningana.
Hluthafafundur stefnanda var haldinn 4. júní 1998 og var málshöfðun á hendur stefndu samþykkt með atkvæði Ásdísar Frímannsdóttur gegn atkvæði stefndu.
Frammi liggur ljósrit sjóðbókar stefndu vegna vörusölu 1998 og ráðstöfunar fjárins. Hún afhenti virðisaukaskattskýrslu þ. 16. mars 1999 og gaf upp að útskattur vegna vörusölu á árinu 1998 hefði numið 399.313 krónum. Frammi liggur kvittun Nýborgar ehf., leigusala stefnanda, dags. 6. nóvember 1998, til stefndu fyrir fullnaðargreiðslu húsaleiguskuldar að upphæð 700.000 krónur.
Aðalfundur stefnanda var haldinn 28. janúar 2000. Ársreikningar fyrir árin 1997 og 1998 voru lagðir þar fram. Þeir eru án undirritana eða staðfestinga.
Á árinu 1999 kærðu Ásdís Frímannsdóttir og stefnda hvor aðra til embættis skattrannsóknastjóra ríkisins.
III
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar, sérstaklega almennu skaðabótareglunnar, en einnig til almennra reglna kröfuréttarins. Bótakrafa stefnanda sé til komin vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi stefndu. Stefnda hafi tekið einhliða úr vörslu stefnanda allar vörubirgðir hans sem hafi verið til sölu í versluninni í Síðumúla (svo) og tekið í eigin vörslu, ásamt þeim munum sem hún hafi haft í vörslu sinni fyrir. Þetta hafi hún gert í skjóli nætur og án samráðs við stjórnarmann félagsins og helmingshluthafa. Með athæfi sínu hafi stefnda kippt rekstarargrundvellinum undan versluninni, sem stefnandi rak, og bakað sér bótaskyldu gagnvart honum. Beri henni að bæta félaginu það tjón sem það hafi orðið fyrir vegna athæfis hennar, enda sé ljóst að lánardrottnar og hinn hluthafinn í félaginu hafi orðið fyrir stórfelldu tjóni af þessum sökum og geti félagið ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þeim eða opinberum aðilum vegna fjárskorts.
Fjárhæð aðalkröfu stefnanda byggist á ársreikningi félagsins fyrir árið 1997. Ekki sé byggjandi á lista þeim, sem lagður hafi verið fram og unninn af stefndu og vitorðsmönnum hennar, enda hafi hann fyrst verið lagður fram í mars árið eftir og sé ekki trúverðugur á neinn hátt. Ársreikningur félagsins, sem byggist á bókhaldi þess færðu af löggiltum endurskoðendum, sé sá grunnur sem miða verði við í málinu. Í ársreikningi komi fram að vörukaup ársins hafi verið 6.475.187 krónur en kostnaðarverð seldra vara 962.900 krónur. Mismunurinn séu birgðir sem hafi átt að vera til staðar þann 31. desember 1997, að upphæð 5.512.287 krónur. Stefnandi eigi rétt á bótum fyrir það tjón, sem stefnda hafi valdið honum með háttsemi sinni, og eigi ekki að þurfa að sætta sig við að fá einungis kostnaðarverð varanna. Það geti ekki verið lagt einhliða á vald stefndu að upplýsa hvaða vörur hún hafi selt og á hvaða verði. Sú fjárhæð, sem hún hafi aflað við endursölu munanna, hafi ekki verið upplýst, staðfest af endurskoðendum eða skilað til félagsins á neinn hátt. Álagning í verslun stefnanda hafi verið um 150 200% þann tíma sem hún starfaði. Með hliðsjón af því að félagið hafi sparað sér rekstrarútgjöld á tímabilinu vegna aðgerða stefndu sé í aðalkröfu krafist skaðabóta vegna vörubirgðanna með 50% álagningu. Fram hafi komið að stefnda hafi greitt húsaleiguskuld samkvæmt tryggingarvíxli hjá fyrrum leigusala. Sú krafa hafi verið á hennar ábyrgð, enda um afleitt tjón að ræða vegna ólögmæts atferlis hennar og dráttar að beiðni hennar á að segja leiguhúsnæðinu upp. Stefnda og Ásdís Frímannsdóttir hafi hvor um sig greitt Landsbanka Íslands vegna yfirdráttar félagsins á árinu 1998 og persónulegra ábyrgða sinna á honum. Þær fjárhæðir séu hluti af viðskiptaskuldum stefnanda við stefndu og Ásdísi og ekki um að ræða neins konar einhliða skuldajafnaðarheimild í því efni fyrir stefndu.
Fjárhæð varakröfu stefnanda grundvallast á kostnaðarverði varanna samkvæmt ársreikningi, þ.e. án álagningar.
Af hálfu stefndu er því hafnað að skilyrði séu til þess að dæma hana til greiðslu skaðabóta þar sem skilyrði sakarreglunnar séu ekki fyrir hendi. Sú háttsemi stefndu að taka lager verslunarinnar til ráðstöfunar og selja síðar í nafni félagsins til lækkunar á skuldum þess geti ekki talist vera saknæm háttsemi. Þá hafi eigendur stefnanda verið sammála um að vörurnar yrðu seldar með þessum hætti í nafni félagsins. Það hafi því verið kominn á bindandi samningur um lausn á deilumálum Ásdísar Frímannsdóttur og stefndu. Þá sé það tilhæfulaust að nauðsynlegt hafi verið að loka versluninni. Mikið af vörum hafi verið skilið eftir í versluninni og að auki hafi Ádís Frímannsdóttir verið með mikinn vörulager í geymslu á heimili sínu. Þá er á það bent að Ásdís hafi opnað verslun með samskonar vörur í Mosfellsbæ strax í kjölfar þess að hún hafi lokað verslun félagsins í Ármúla. Lokun verslunarinnar hafi því verið á ábyrgð Ásdísar sem teljist jafnframt sök stefnanda, enda Ásdís stjórnarmaður félagsins. Háttsemi stefndu hafi ekki verið andstæð lögum þar sem hún hafi einungis verið að gæta hagsmuna félagsins. Því er mótmælt að hún hafi „hirt” allar vörubirgðir félagsins og auðgast sjálf á sölu þeirra. Þá er “ársreikningi” félagsins fyrir árið 1997 mótmælt sem grundvelli skaðabótakröfu, enda hafi hann ekki verið staðfestur á þann hátt sem lög um einkahlutafélög og samþykktir félagsins áskilji og hvorki áritaður af endurskoðanda né skoðunarmönnum félagsins. Hér sé því einungis um að ræða drög að ársreikningi, sem Ásdís Frímannsdóttir hafi einhliða unnið og feli aðeins í sér hugmyndir hennar um uppgjör félagsins umrætt ár.
Til rökstuðnings fyrir varakröfu stefndu er einkum haldið fram að stór hluti af lager verslunarinnar hafi verið á heimili Ásdísar Frímannsdóttur. Beri henni að gera grein fyrir verðmæti hans sem hljóti að dragast frá bótakröfunni. Þá séu sölutekjur félagsins vantaldar í þeim drögum að ársreikningi sem stefnandi leggi fram. Því er haldið fram að Ásdís hafi selt í verslun sinni í Mosfellsbæ hluta af vörum í eigu stefnanda án þess að gera grein fyrir sölutekjum vegna þeirrar sölu. Bent er á að Ásdís sé stjórnarmaður stefnanda og því sé sök hennar í málinu jafnframt sök stefnanda. Ennfremur þurfi að líta til sölu stefndu á vörum og ráðstöfun söluandvirðis þeirra til greiðslu reikninga árið 1998, sbr. samning aðila. Til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda ætti að koma greiðsla stefndu á yfirdráttarheimild á tékkareikningi stefnanda hjá Landsbanka Íslands árið 1998, 435.360 krónur. Þá hafi stefnda greitt húsaleiguskuld stefnanda að upphæð 700.000 krónur. Sérstök athygli er vakin á að stefnandi hafi ekki lagt fram önnur gögn til stuðnings kröfu sinni en hugmynd Ásdísar Frímannsdóttur um uppgjör ársins 1997.
IV
Mál þetta er höfðað sem skaðabótamál og verður dæmt á þeim grundvelli einum. Vísun stefnanda jafnframt í “almennar reglur kröfuréttarins” er því marklaus.
Af hálfu stefnanda var ekki gerður raunhæfur reki að endurheimt varningsins, sem stefnda tók 17. nóvember 1997 úr versluninni Karachi, og stjórnarmaður hans, Ásdís Frímannsdóttir, veitti um mánaðamót janúar febrúar 1998 samþykki við tökunni. Um leið var samþykkt að stefnda tæki það, sem eftir var, sem hún gerði 11. febrúar 1998. Haldbær rök hafa ekki verið færð fram fyrir riftun á samkomulagi um að stefnda seldi varninginn í nafni stefnanda.
Ekki verður séð að lokun verslunarinnar hafi verið óhjákvæmileg afleiðing af töku stefndu á varningnum 17. nóvember 1997 sem kemur fram af því að hálfum mánuði síðar stofnsetti eiginmaður stjórnarmannsins (og hún sjálf) verslun til sölu á varningi sem hafði verið pantaður og fluttur inn fyrir stefnanda auk þess sem talsvert var eftir af öðrum varningi. Gögn málsins benda hins vegar til þess að þegar á þessum tíma hafi rekstrargrundvöllur fyrirtækisins verið brostinn vegna fjárskorts, bókhaldsóreiðu og ósamkomulags eigenda.
Skaðabótakrafa stefnanda er einvörðungu byggð á „ársreikningi félagsins fyrir árið 1997”.
Alexander Eðvarðsson, löggiltur endurskoðandi, sem hafði umsjón með færslu bókhalds og gerð ársreikninga fyrir stefnanda, bar vætti við aðalmeðferð málsins og var hann einkum inntur svara um ársreikning fyrir árið 1997. Hann kvað ársreikninginn hafa verið gerðan að beiðni Ásdísar Frímannsdóttur til að fullnægja lagaskyldu um skattframtal og vegna þess að félagið hafi keypt meira en sem nam sölu þannig að það hafi átt inni innskatt. Hann kvað ljóst hafa verið við gerð ársreikningsins að „bullandi” ágreiningur hafi verið, m.a. um birgðir. Ekki hafi verið hægt að sannreyna sölu þar sem söluskráning hafi ekki verið fullnægjandi og gæfi reikningurinn ekki rétta mynd af birgðastöðu félagsins. Hann kvað reikninginn ekki hafa verið áritaðan. Það hafi ekki verið unnt eftir fyrirliggjandi gögnum og væri ekki lagt mat á réttmæti þeirra. Reglan sé sú að stjórn félags áriti reikninga áður en endurskoðandi áriti þá, enda beri stjórnin ábyrgð á reikningunum. Aðspurður kvað hann grundvöll ekki vera fyrir því að árita ársreikninginn sem endurskoðaðan en hann hafi verið hugsaður sem grunnur fyrir eigendur stefnanda til að ná sáttum.
Stefnandi hefur ekki sýnt svo ljóst sé fram á tjón sitt vegna háttsemi stefndu.
Niðurstaða málsins er sú að sýkna beri stefndu af kröfum stefnanda. Samkvæmt þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar sem er ákveðinn 500.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefnda, Ester Sveinbjarnardóttir, er sýknuð af kröfum stefnanda, Rauðra rósa ehf.
Stefnandi greiði stefndu 500.000 krónur í málskostnað.
Sigurður Hallur Stefánsson.