Hæstiréttur íslands
Mál nr. 489/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 13. desember 2004. |
|
Nr. 489/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. janúar 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur ný gögn, þar á meðal endurrit af hljóðritun hollenskra yfirvalda af símtali þriggja manna er tengjast rannsókn málsins.
Þegar litið er til gagna málsins er fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi framið brot, sem að lögum geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2004.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. janúar 2005, klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsaki meint brot gegn almennum hegningarlögum er varði stórfelldan innflutning fíkniefna til landsins. Rannsókn málsins hafi staðið yfir um alllangt skeið og hafi fjöldi manna gefið skýrslur með réttarstöðu sakbornings. Málið sé umfangsmikið og taki til fleiri en einna fíkniefnasendinga, sem lögregla hafi lagt hald á, og sé aðild hinna grunuðu í nokkrum tilvikum einskorðuð við einstaka sendingar. Kærði sé grunaður um að hafa staðið fyrir innflutningi á 7.694 g af amfetamíni, en efnið hafi verið falið í vörusendingu, sem lögreglan hafi lagt hald á þann 21. júlí sl. Þáttur kærða sé talinn vera veigamikill þar sem hann sé grunaður um að hafa staðið að skipulagningu, fjármögnun og kaupum á fíkniefnunum. Um upphaf málsins og gang rannsóknarinnar sé nánar vísað til greinargerðar Jens Hilmarssonar, rannsóknarlögreglumanns nr. 8528, frá 28. október sl.
Kærði hafi verið handtekinn þann 27. október sl. og þann 28. s.m. hafi honum verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna til 11. nóvember sl., sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-527/2004. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 1. þ.m., sbr. mál réttarins nr. 432/2004. Þann 11. þ.m. hafi gæsluvarðhald kærða verið framlengt á grundvelli rannsóknarhagsmuna til dagsins í dag. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 15. þ.m. um framlengingu gæsluvarðhaldsins en lagt fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfu kærða um úrskurð um tilhögun gæsluvarðhaldsins, sbr. mál réttarins nr. 447/2004. Þann 17. þ.m. hafi krafa kærða um tilhögun gæsluvarðhaldsins verið tekin fyrir í héraðsdómi með úrskurði, sbr. mál dómsins nr. R-554/2004. Héraðsdómur hafi hafnað kröfu kærða, að tilhögun gæsluvarðhaldsins yrði án takmarkana, en fallist á röksemdir rannsóknara að vegna fyrirliggjandi rannsóknarhagsmuna væri nauðsynlegt að kærði sætti takmörkunum skv. b-, c- og d-liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms þann 22. þ.m., sbr. mál réttarins nr. 461/2004. Þann 25. nóvember sl. hafi gæsluvarðhald enn verið framlengt á grundvelli rannsóknarhagsmuna til dagsins í dag auk þess sem tilhögun á gæsluvarðhaldi skv. b-, c- og d-liðum 108. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið staðfest, sbr. mál dómsins nr. R-562/2004. Þann 29. nóvember sl. hafi Hæstiréttur staðfest úrskurð héraðsdóms og tilhögun gæsluvarðhaldsins, sbr. mál réttarins nr. 470/2004.
[...]
Á grundvelli þess sem fram hafi komið við rannsókn málsins þyki kærði vera undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað fangelsi allt að 12 árum, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Brot kærða þyki mjög alvarleg en það lúti að innflutningi á miklu magni af amfetamíni og meintur þáttur kærða að brotastarfseminni sé talinn verulegur. Kærði sé talinn hafa staðið á bak við innflutning fíkniefnanna með fjármögnun, samskiptum við [...] og [...] auk þátttöku í kaupum efnanna [...]. Kærði sé jafnframt talinn hafa átt að móttaka efnin hér á landi og koma þeim í dreifingu og sölu í ágóðaskyni til ótilgreinds fjölda fólks.
Hagsmunir almennings krefjist þess að maður sem eigi slíkan þátt í jafn stórum og alvarlegum brotum og hér um ræði, þ.e. beinan þátt í stórfelldum innflutningi sterkra og hættulegra fíkniefna, gangi ekki laus meðal almennings heldur sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í málinu. Þetta sé í samræmi við réttarvitund almennings og þyki eiga við um mál kærða þar sem um sé að ræða mjög mikið magn fíkniefna og megi þannig gera ráð fyrir að það myndi vekja athygli og andúð almennings ef hann yrði látinn laus.
Umrædd krafa um gæsluvarðhald sé gerð með hliðsjón af dómaframkvæmd síðustu ára, sbr. dómar Hæstaréttar í málum nr.: 423/2004, 269/2004, 452/1999, 471/1999, 417/2000, 352/1997, 158/2001, 294/1997, 283/1997 og 284/1997. Í framangreindum gæsluvarðhaldsmálum hafi legið fyrir sterkur rökstuddur grunur um verulega aðild sakborninga að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni og hafi kærðu verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Að mati lögreglu þyki mál kærða vera sambærilegt og sé ekki ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings hafi breyst svo mikið frá því umræddir dómar hafi gengið í réttinum, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé ekki fullnægt í því máli sem hér um ræði. Að mati lögreglu verði þannig að telja áframhaldandi gæsluvarðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna. Meint brot kærða varði fangelsi allt að 12 árum.
Lögregla kveður að verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði var handtekinn 27. október sl. og hefur sætt gæsluvarðahaldi síðan 28. október sl. Á gæsluvarðhaldstímabilinu hefur hann neitað allri aðild að málinu og talið framkomnar upplýsingar frá öðrum sakborningum rangar og ósannaðar. Einnig hefur hann ekki viljað tjá sig um einstök atriði. Kærði er undir sterkum rökstuddum grun um aðild að innflutningi á tæplega 8 kg af fíkniefnum en slíkt brot kann að varða allt að 12 ára fangelsisrefsingu skv. 173. gr. a l. nr. 19/1940. Brotið sem kærði er grunaður um er þess eðlis að telja verður gæsluvarðhaldið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna sbr. dómafordæmi Hæstaréttar. Skilyrði eru því fyrir gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála og ekki ástæða til að marka því skemmri tíma en krafist er. Því er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um áframhaldandi gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal áfram sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 20. janúar 2005, klukkan 16:00.