Hæstiréttur íslands

Mál nr. 474/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Sakarskipting
  • Réttaráhrif dóms
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2007.

Nr. 474/2005.

A

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

B

(Halldór H. Backman hrl.)

og

B

gegn

A og

C

(Tómas Jónsson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Sakarskipting. Réttaráhrif dóms. Gjafsókn.

B krafði A og C um bætur vegna líkamstjóns er hann varð fyrir er til slagsmála kom í miðborg Reykjavíkur. A var í opinberu máli sakfelldur fyrir að hafa slegið B hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í götuna og var á því byggt í hinu opinbera máli að líkamstjón B hefði að langmestu leyti stafað af fallinu. C var ákærður fyrir að hafa sparkað í B eftir að hann féll í götuna en var sýknaður. B var einnig sakfelldur fyrir sinn þátt í slagsmálunum og var hann talinn hafa átt upptökin að því að líkamlegu ofbeldi var beitt í samskiptum aðila. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að dómurinn í hinu opinbera máli hefði fullt sönnunargildi um að A hefði slegið B í höfuðið með umræddum afleiðingum, sbr. 1. mgr. 138. gr. laga nr. 19/1991. Jafnvel þó að ekki teldist útilokað að líkamstjón B væri að einhverju leyti rakið til sparka í höfuð hans eftir að hann féll í götuna var A allt að einu talinn bera ábyrgð á öllu tjóni B þar sem um samverkandi tjónsorsakir væri að ræða. B var þó látinn bera einn þriðja tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Ekki var talið sannað að C hefði sparkað í höfuð B eftir að hann féll í götuna og var hann því sýknaður af kröfum B. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. nóvember 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að dæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 23. janúar 2006 gagnvart aðaláfrýjanda og 30. janúar 2006 gagnvart stefnda C að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega úr þeirra hendi greiðslu 14.016.305 króna með 2% ársvöxtum samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 frá 27. september 1998 til 11. mars 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 17. maí 2001 að upphæð 3.100.000 krónur. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi C krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar.

Við fyrirtöku málsins í héraði 11. ágúst 2005 var mætt af hálfu allra málsaðila og því lýst yfir að þeir teldu óþarft að flytja málið á ný þó að dómsuppsaga hefði dregist fram yfir þann frest sem greinir í 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við svo búið var hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp.

Áður en málflutningur hófst fyrir Hæstarétti skoðuðu dómendur réttarins ásamt lögmönnum málsaðila myndbandsupptöku, sem tveir vegfarendur gerðu á vettvangi og afhent var lögreglu vegna opinberrar rannsóknar sem fram fór á þeim atvikum sem um ræðir í málinu.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2000 í sakamáli á hendur aðaláfrýjanda og stefnda C var talið sannað að aðaláfrýjandi hefði slegið gagnáfrýjanda í andlitið umrætt sinn með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að gagnáfrýjandi skall aftur fyrir sig í götuna og missti meðvitund. Var á því byggt að líkamstjón gagnáfrýjanda hefði að langmestu leyti stafað af fallinu. Dóminum var ekki áfrýjað. Telst hann samkvæmt 1. mgr. 138. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála hafa fullt sönnunargildi um að aðaláfrýjandi hafi slegið gagnáfrýjanda í höfuðið með umræddum afleiðingum. Ekki verður fallist á með aðaláfrýjanda að hnefahöggið hafi réttlæst af sjónarmiðum um neyðarvörn sem hafi áhrif á skaðabótaábyrgð hans á afleiðingum höggsins.

Í dóminum 14. júní 2000 var talið ósannað að aðaláfrýjandi og stefndi C hefðu sparkað í höfuð gagnáfrýjanda eftir að hann féll í götuna. Í þessu máli hafa vitni sem báru um þetta ekki verið yfirheyrð sérstaklega, heldur hefur verið látið við það sitja að leggja fram lögregluskýrslur og endurrit yfirheyrslna fyrir dómi í nefndu máli um framburð þeirra. Í þessum vitnisburði, sem er ítarlega rakinn í dóminum, gætir mikils misræmis bæði milli vitnanna innbyrðis en einnig í framburði einstakra vitna. Með vísan til þess verður fallist á með aðaláfrýjanda og stefnda C að ósannað sé að þeir hafi veist að aðaláfrýjanda með þessum hætti. Leiðir þetta til þess að því er stefnda C varðar að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur um sýknu hans af kröfum gagnáfrýjanda.

Jafnvel þó að ekki teljist útilokað að líkamstjón gagnáfrýjanda verði að einhverju leyti rakið til sparka í höfuð hans, þar sem hann lá í götunni eftir hnefahöggið, verður allt að einu talið að aðaláfrýjandi beri á grundvelli almennra reglna um skaðabótaábyrgð, þegar um samverkandi tjónsorsakir er að ræða, ábyrgð á öllu tjóni hans, en þó með lækkun vegna eigin sakar gagnáfrýjanda. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en fjárhæð málskostnaðar, sem aðaláfrýjanda verður gert að greiða í ríkissjóð.

Ekki eru efni til að verða við kröfu aðaláfrýjanda um lækkun bóta með vísan til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Málskostnaður sem aðaláfrýjanda verður gert að greiða í ríkissjóð vegna meðferðar málsins í héraði ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Málskostnaður stefnda C fyrir Hæstarétti fellur niður.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða í ríkissjóð hluta málskostnaðar gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Gjafsóknarkostnaður gangáfrýjanda og stefnda C skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna þeirra sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að fjárhæð málskostnaðar sem aðaláfrýjanda, A, verður gert að greiða í ríkissjóð, ákveðst 1.000.000 krónur.

Aðaláfrýjandi greiði 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Málskostnaður stefnda C fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, B, og stefnda, C, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns gagnáfrýjanda, Halldórs H. Backman hæstaréttarlögmanns, 650.000 krónur og lögmanns stefnda C, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. júní sl., er höfðað með stefnu birtri 15. febrúar 2003.

Stefnandi er B, [...].

Stefndu eru A, [...], og C, [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði óskipt dæmdir til greiðslu 10.916.305 króna auk vaxta skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 27. september 1998 til 11. febrúar 2003, en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. mars 2003 allt til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda A eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður. Til vara krefst stefndi A þess að bótaábyrgð hans verði felld niður og/eða sök skipt og stefnukröfur stórlega lækkaðar.

Dómkröfur stefnda C eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarnmál.

MÁLSATVIK

Stefnandi lýsir atvikum svo að aðfaranótt sunnudagsins 27. september 1998 hafi hann verið staddur í miðborg Reykjavíkur ásamt nokkrum úr vinahópi sínum, er fundum þeirra bar saman við hóp ungra manna er í voru m.a. stefndu í máli þessu. Hafi allflestir í hópunum verið undir áhrifum áfengis. Slegið hafi í brýnu með hópunum og hafi viðskiptum þeirra lyktað með því að stefnandi hafi orðið fyrir líkamsárás af hálfu beggja stefndu. Stefndi A hafi slegið stefnanda í andlitið með krepptum hnefa. Hafi stefnandi fallið afturábak við höggið og skollið í götuna, að því er virðist rænulaus. Hafi stefndu báðir því næst veist að stefnanda er hann hafi legið bjargarlaus í götunni og sparkað í líkama hans og höfuð. Stefnandi hafi í kjölfar líkamsárásar þessarar verið fluttur meðvitundarlaus á slysadeild sjúkrahúss Reykjavíkur.

Samkvæmt vottorði Garðars Guðmundssonar læknis, dags. 28. september 1998 hafi stefnandi verið meðvitundarlaus og með áverkamerki á höfði er fólust í bólgu og mari hægra megin ofan og aftan við bæði eyru við komu á slysadeild.  Auk þess hafi hann verið með glóðarauga hægra megin. Hafi þá komið í ljós við skoðun, að sprunga var í höfuðkúpu stefnanda undir áverkasvæðinu hægra megin. Er höfuðkúpa stefnanda hafi verið opnuð hafi komið í ljós blóðslikja innan á henni, auk þess sem grunur hafi vaknað um mar á heila vinstra megin. Þá hafi verið blóð bæði í ennis- og kinnholum stefnanda og hafi læknirinn talið hugsanlegt að um nefbrot væri að ræða. Þá komi fram að stefnandi hefði eftir ofangreinda heilaskurðaðgerð verið með verulega slævða meðvitund, ekkert samband náðst við hann og hann gæti ekki talað þó svo hann hreyfði sig eðlilega. Taldi hann enn fremur að stefnandi myndi vakna af dáinu á næstu dögum, en útilokað væri að meta hvort einhver varanlegur heilaskaði hefði hlotist af áverkum þeim sem að ofan greinir. Í vottorði sama læknis, dags. 8. október 1998 hafi læknirinn getið þess að stefnandi væri farinn af sjúkrahúsinu, en að hann biði eftir sjúkrarými á Grensásdeild til endurhæfingar. Taldi læknirinn þá sýnt, bæði af andlegu ástandi stefnanda, háttsemi hans og læknisfræðilegum rannsóknum, að hann hefði hlotið skaða á báðum ennislöppum framheila og að líklegt væri að um varanlegt ástand væri að ræða þó svo það myndi skýrast á eftirfarandi 3-6 mánuðum.

Í vottorði Guðnýjar Daníelsdóttur, læknis á endurhæfingardeild SHR, dags. 25. maí 1999 komi fram að stefnandi hefði í kjölfar sjúkrahúsvistunar og þeirrar bráðalæknisaðgerðar er þar var framkvæmd á höfði hans, verið djúpt meðvitundarlaus í um hálfan sólarhring, en verið með skerta meðvitund í sex sólarhringa þar á eftir. Hefði hann fljótlega eftir það fengið fótavist og náð að tjá sig, en ljóst hefði verið strax að hann hafði mikil taugasálfræðileg einkenni. Kom þá fram í vottorðinu að stefnandi hefði á tímabilinu frá því hann hlaut áverka sína verið alls þrisvar sinnum til meðferðar á endurhæfingardeild. Þá komi fram í vottorðinu að stefnandi hafi orðið fyrir framheilaskaða sem lýsi sér m.a. í minnistruflunum, skertri dómgreind, skorti á innsæi og skertri sjálfsgagnrýni. Komi einnig fram að skaphöfn stefnanda væri breytt, þar sem geðbrigði hans væru minni en áður, auk þess sem tilfinningalíf hans væri grynnra. Þá þjáðist stefnandi af svefntruflunum og skertu líkamlegu úthaldi. Jafnframt hefði læknirinn stðreynt að stefnandi hefði tapað lyktarskyni sínu. Hafi niðurstaða læknisins í umrætt sinn verið sú að þótt hugsanlegt væri að andlegt ástand stefnanda ætti eftir að taka framförum, þá væri ljóst að hann sæti uppi með fötlun er setti honum skorður varðandi valkosti í lífinu og skerti lífsgæði hans.

Í vottorði sama læknis, dags. 3. apríl 2000, sé að finna ítarlegri greinargerð um líkamlegt og andlegt ástand stefnanda, sem og innsýn í félagslegar kringumstæður hans. Komi þar fram að stefnandi búi við verulega skerta rökhugsun og skipulagsgáfu. Þá eigi hann einnig í erfiðleikum með að öðlast innsýn í andlegt ástand sitt og annarra, auk þess sem geðslag hans hafi breyst mjög til hins verra. Þá virðist vera farið að bera á ábyrgðar- og hömluleysi. Hafi hann þannig rekist illa í vinnu, bæði vegna þess að hann virðist ekki gera sér grein fyrir skyldum þeim er störfunum tengist, en einnig vegna þess að vera kunni að jafnvel einfaldasta vinna sé honum ofviða, auk þess sem beri á þráhyggju og svefntruflunum. Komi að síðustu fram í vottorðinu það álit læknisins, að stefnandi sitji uppi með taugasálfræðilega fötlun eftir framheilaskaða, sem hafi umbylt lífi hans og framtíðarmöguleikum og skert félagslega hæfni hans. Læknirinn hafi tekið fram að ekki sé unnt að búast við frekari bata stefnanda, nema þá helst í því að hann nái að semja sig að þeim kringumstæðum sem líf hans er nú undirorpið. Hafi það verið álit læknisins að slíkur bati myndi aðeins nást ef ytri kringumstæður yrðu stefnanda hliðhollar, en jafnframt hafi hann getið þess að slíkar aðstæður væru vandfundnar í tilviki stefnanda.

Á grundvelli þessarar niðurstöðu hafi verið óskað eftir því að varanlegur miski og örorka stefnanda yrði metin auk annarra þátta.

Í örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis, sem dagsett sé 18. september 2000 komi fram sú niðurstaða læknisins að stefnandi beri mikil taugasálfræðileg einkenni sem rekja megi til framheilaskaða þess er rakinn er að framan. Telji læknirinn einkum kveða að einkennum er varði dómgreind stefnanda, innsæi hans, sjálfsgagnrýni, auk einkenna skapgerðarbreytinga. Þá hefðu greind og minni stefnanda skerst og lyktarskyn hans horfið. Niðurstöður læknisins um einstaka þætti tjóns stefnanda hafi verið þær, að hann  teldi tímabundið atvinnutjón stefnanda vera 100% í átta mánuði eftir árás stefndu. Jafnframt að stefnandi hefði verið veikur í skilningi skaðabótalaga í jafnlangan tíma. Þá meti læknirinn varanlegan miska stefnanda 60% og varanlega örorku hans 50%, enda væri starfsorka stefnanda og tekjuhæfi varanlega mikið skert. Réði mestu um það mat læknisins að hann teldi óvissu ríkja varðandi það hversu lengi stefnandi gæti stundað launuð störf án hjálpar foreldra sinna, auk þess sem hann teldi vafasamt að stefnandi gæti stundað frekara bóknám.

Á þeim tíma sem liðinn sé síðan umrætt örorkumat hafi verið framkvæmt hafi með gleggri hætti komið fram hversu mikil áhrif ofangreindur heilaskaði hafi haft á líf og starfsgetu stefnanda. Hafi þannig komið á daginn að hann sé alfarið ófær um að sinna jafnvel einföldustu störfum á almennum vinnumarkaði þar sem hann eigi í erfiðleikum bæði með að skilja leiðbeiningar um það hvernig störfin skuli framkvæmd, sem og að framkvæma þau vegna skorts á innsæi og einbeitingu, sem hvoru tveggja vegna séu afleiðingar heilaskaðans, en einnig vegna þess að honum veitist erfitt að skilja þær starfsskyldur og kröfur sem vinnumarkaðurinn geri til hans. Þjáist hann þá af úthaldsleysi, sem gerir honum erfitt, jafnvel þótt ofangreind einkenni væru ekki til staðar, að stunda vinnu með eðlilegum hætti. Þá hafi borið á skapsveiflum og þunglyndi og hafi stefnandi einangrað sig félagslega.

Ríkissaksóknari höfðaði, með ákæru dags. 11. júní 1999, mál á hendur stefndu í máli þessu fyrir þá atlögu að stefnanda sem um er fjallað í máli þessu. Var stefnda A þar gefið að sök að hafa slegið stefnanda í andlitið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að stefnandi skall aftur fyrir sig í götuna og missti meðvitund, og að hafa að því loknu, ásamt stefnda C, sparkað í höfuð stefnanda þar sem hann lá, allt með þeim afleiðingum sem raktar eru að ofan. Var meint brot stefndu í ákæru heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-1571/1999, sem upp var kveðinn 14. júní 2000, var stefndi A sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, fyrir að hafa slegið stefnda hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Var í því sambandi tekið fram að dómurinn teldi langlíklegast að sá áverki á heila sem stefnandi hlaut í umrætt sinn hefði stafað af falli hans í götuna eftir hnefahögg stefnda A. Þó taldi dómurinn ekki loku fyrir það skotið að áverkana mætti einnig skýra með því að sparkað hefði verið í höfuð stefnanda liggjandi í götunni, sem dómurinn taldi sannað að hefði verið gert. Taldi dómurinn hins vegar ekki fram komna lögfulla sönnun þess að stefndu í máli þessu hefðu verið þar að verki, og voru þeir því sýknaðir af þeim refsikröfum ákæruvaldsins er að þeirri háttsemi lutu.

Þann 17. maí 2001 féllst bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995 um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota á að ríkissjóði bæri að greiða stefnanda máls þessa skaðabætur vegna þeirrar varanlegu örorku og þess varanlega miska er stefnandi varð fyrir í umrætt sinn. Námu bætur þessar samtals kr. 3.100.000 og koma þær til frádráttar dómkröfum stefnanda í málinu.

Af hálfu stefnanda voru, í ofangreindu refsimáli, ekki hafðar uppi kröfur um skaða- og miskabætur, en skipaður réttargæslumaður hans hafði, á rannsóknarstigi þess máls gert áskilnað um að hafa uppi slíkar kröfur er tjón stefnanda lægi ljóst fyrir. Er mál þetta höfðað nú á grundvelli þess áskilnaðar.

Að beiðni stefnanda voru læknarnir Guðmundur Björnsson og Atli Þór Ólason kvaddir af dómara til þess að meta varanlegan miska stefnanda og örorku hans og segir svo í matsgerð þeirra frá 2. desember 2003:

“Afstaða til matsefna:

A.   Varanlegur miski matsbeiðanda.

Samkvæmt fjórðu grein skaðabótalaga nr. 50/1993 er varanlegur miski metinn út frá læknisfræðilegu sjónarmiði og til þess litið hversu miklum erfiðleikum tiltekið tjón veldur í lífi tjónþolans. Miða á við heilsufar tjónþola þegar það er orðið stöðugt.

Um er að ræða almennt mat í þeim skilningi að sambærileg meiðsl eiga almennt að leiða til sama miskastig hjá tveimur eða fleiri einstaklingum, enda þótt svigrúm sé til frávika þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Hefur örorkunefnd samið töflur þar sem miskastig vegna ýmis konar líkamstjóns er metið með almennum hætti. Hafa tölur þessar verulegt gildi til leiðbeininga við mat á varanlegum miska einstakra tjónþola þótt ekki séu þær bindandi og heldur ekki tæmandi.

Er byggt á töflum þessum að því marki sem unnt er, en ella reynt að daga af þeim

ályktanir um megin stefnu.     Sé það ekki hægt er leitast við að haga mati þannig að samræmi sé í því og miskastigum samkvæmt töflunum.

Fyrir slysið þann 27.09.98 hafi matsbeiðandi verið einkennalaus frá hálsi og höfði.

Við  líkamsárásina þann   11.04.01   fékk matsbeiðandi  áverka sem leiddu  til höfuðkúpubrots og heilaskemmda báðum megin í framheila.

Afleiðingar þess eru mikil taugasálfræðileg einkenni, sérstaklega varðandi dómgreind, innsæi og sjálfsgagnrýni, auk skapbreytingar. Greind hans og minni eru einnig talin hafa skerts.   Þá hefur hann misst lyktarskyn.

Almennt líkamlegt úthald er skert og talið er að rekja megi öll þessi einkenni til framheilaskaða. Þá hefur hann væg tognunareinkenni frá hálsi, en ekki sjáanleg önnur einkenni vegna afleiðinga líkamsárásarinnar.

Matsmenn taka tillit til þess að matsbeiðandi hefur nýlega lent í umferðarslysi sem valdið hefur honum nokkrum óþægindum, aðallega í brjóstkassa, en einnig á hægra axlarsvæði, hægri olnboga og á vinstra hné, þannig er hann með mar á læri, kálfa og ökkla vinstra megin. Matsmenn líta ekki til þessara áverka við miskamat það sem hér er lagt fram.

Með vísan til þess sem hér er rakið telja matsmenn að varanlegur miski matsbeiðanda skv. 4. gr. skaðabótalaga sé réttilega metinn 60 stig - sextíu stig.

B. Samkvæmt 1. og 2. málsgrein 5. gr. skaðabótalaga á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku sökum líkamstjóns eftir að heilsufar hans er orðið stöðugt, valdi tjónið varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Við mat á tjóni vegna þeirrar örorku skal líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. Um er að ræða svokallað fjárhagslegt örorkumat, en ekki læknisfræðilegt mat og er þetta örorkumat að öllu leyti einstaklingsbundið. Niðurstöður læknisfræðilegra athugana og ályktana skipta þó engu að síður verulegu máli í þessu efni, þar sem nauðsynlegt er að staðreyna læknisfræðilegt tjón tjónþolans og síðan áhrif þess á tekjumöguleika hans í framtíðinni.   Matið snýst um að áætla á grundvelli fyrirliggjandi gagna og rökstuddrar spár um framtíð tjónþolans hver sé hin varanlega skerðing á getu hans til að afla launatekna í framtíðinni vegna hlutaðeigandi tjóns eða að öðrum kosti að staðreyna að ekki sé um þess háttar skerðingu að ræða. Sú spá sem hér um ræðir snýr annars vegar að því að áætla hver orðið hefði framvinda í lífi tjónþolans ef líkamstjónið hefði ekki orðið og hins vegar að ályktun um hvernig líklegt sé að framtíð hans verði að þeirri staðreynd gefinni að hann varð fyrir líkamstjóninu.  Við þetta mat ber meðal annars að taka hæfilegt tilliti til félagslegrar stöðu tjónþolans, aldurs hans, atvinnu- og tekjusögu, andlegs og líkamlegs atgerfis, menntunar, heilsufars, eðli líkamstjóns og hinna varanlegu áhrifa þess.   Þá skulu metnir þeir kostir sem tjónþola bjóðast eða kunna hugsanlega að standa til boða varðandi það að halda áfram fyrra starfi sínu eða fínna sér nýtt starf við hæfi. Jafnframt skal gæta þess að samkvæmt grunnreglum skaðabótaréttar hvílir sú skilda á tjónþola að takmarka tjón sitt eins og unnt er að ætlast til af honum miðað við aðstæður. Í þriðju málsgrein 1. gr. skaðabótalaga er gefið til kynna að verðmæti vinnu við heimilisstörf skulu lögð að jöfnu við launatekjur varðandi bætur fyrir örorkutjón sem lögin ná til og verður að telja að við mat á örorkustigum samkvæmt lögum sé rétt að hafa m.a. mið af þessu eftir því sem við getur átt.    I ljósi allra þessara viðmiðunaratriða verður, eftir því sem við getur átt, að leggja mat á það, hvort matsbeiðandi í máli þessu hafi beðið varanlega örorku í kjölfar þess slyss sem hann varð fyrir þann 27.09.98 og ef svo er þá hversu mikið í stigum talið.

Eins og fram hefur komið fyrr í matsgerð þessari hefur matsbeiðandi verið undir eftirliti lækna og leitað til þeirra vegna heilsufars síns eftir umrædda líkamsárás. Að því leyti hefur hann með fullnægjandi hætti leitast við að takmarka tjón sitt í skilningi skaðabótaréttar.  Matsbeiðandi hefur að baki grunnnám sem hann reyndar hefur ekki lokið að fullu, þannig hafði hann fyrir slysið ekki fullnægjandi árangur á samræmdum prófum og hafði hafið nám í námsflokkum til að bæta sér það upp. Matsbeiðandi hefur eftir líkamsárásina ekki geta haldið áfram því námi.   Starfsreynsla matsbeiðanda á almennum vinnumarkaði er fyrst og fremst eftir að líkamsárásin átti sér stað.   Hann hefur unnið við ýmis störf, flest almenn verkamannastörf og hefur komið fram að líkamleg og andleg færni hans er skert.   Þannig hefur hann ekki haldist í líkamlega erfiðum störfum og í öðrum störfum þar sem reynir á vitræna og andlega hæfni, lent í samskiptavandræðum við vinnufélaga og yfirmenn. Hann hefur þannig ekki haldist lengi í starfi á hverjum stað. Þá kemur fram í viðtali við matsbeiðanda og móður hans að hann sé oft frá vinnu vegna þreytu og sé í raun á vernduðum vinnustað í því tilliti að hann sé í núverandi starfi hjá kunningja föður síns, starfi með föður sínum og missir laun þegar hann mætir ekki í vinnu.

Matsmenn telja því ljóst að starfsorka hans sé verulega skert miðað við það sem hún hefði verið ef hann hefði ekki orðið fyrir áverkum þeim sem um er fjallað í matsgerð þessari. Þá er einnig ljóst að starfsöryggi hans er tiltölulega lítið og starfsval verulega takmarkað, þannig er ekki hægt að búast við því að hann geti borið ábyrgð á því að leysa sjálfur verkefni, en séu honum fengin skilgreind verkefni og hann hvattur og hafður undir eftirliti getur hann lokið við þau. Verður því að líta svo á að í raun geti hann aðeins starfað á "vernduðum vinnustað". Matsbeiðandi nýtur nú fullra örorkubóta hjá Tryggingastofnun ríkisins og er ekki fyrirsjáanleg breyting hvað það varðar, þar sem að horfur á frekari bata og aðlögun eru takmarkaðar. Námsgeta og menntunarhæfni er einnig verulega skert, þannig gæti jafnvel starfsþjálfun í nýju starfi reynst honum erfið. Þá telja matsmenn ljóst að geta hans til heimilisstarfa sé að nokkru leyti skert.

Að áliti matsmanna er ljóst af framansögðu að matsbeiðandi hefur hlotið mikla varanlega örorku í skilningi 5. gr. skaðabótalaga, af völdum slyss þess sem þetta mál snýst um. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telja matsmenn að varanleg örorka matsbeiðanda - einnig að teknu tilliti til skertrar getu til heimilisstarfa sé réttilega metin 75% - sjötíu og fimm prósent.

Niðurstöður:

Hér fara á eftir spurningar sem lagðar hafa verið fyrir matsmenn ásamt svörum þeirra, með vísun til þess sem hér hefur áður verið rakið í matsgerð þessari.

1.1.  Telja matsmenn að varanlegur miski matsbeiðanda í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993, vegna afleiðinga líkamsárásar þann 27. september 1998 sé hærri en 60 stig ?

Svar - nei, matsmenn telja þann miska rétt metinn.

2.1.   Telja matsmenn að varanleg örorka matsbeiðanda í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna afleiðinga líkamsárásar þann 27. september 1998 sé hærri en 50% ?

Svar-já.

2.3.   Ef svar við spurningu 2.1 er jákvætt, er þess óskað að matsmenn láti upp álit sitt á því hver varanleg örorka matsbeiðanda er.

Svar  -  matsmenn telja varanlega örorku matsbeiðanda vegna afleiðinga líkamsárásarinnar vera 75% - sjötíu og fimm prósent. ”

Endanlegar dómkröfur stefnanda í máli þessu eru m.a byggðar á framangreindri matsgerð dómkvaddra manna þar sem varanleg örorka hans er metin 75% og varanlegur miski hans talinn 60%.

Um kröfugerð stefnanda segir hann að svo sem fram komi í stefnu málsins hafi kröfur hans verið miðaðar við 100% örorku og áskilinn réttur til breytinga í samræmi við niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um varanlega örorku og varanlegan miska. Niðurstaða þeirra liggi nú fyrir, en stefnandi óskaði ekki afstöðu matsmanna til fyrri niðurstöðu um þjáningabætur og sé um það byggt á fyrri matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis.

Tekið hafi verið tillit til athugasemda stefndu um tekjuviðmiðun og séu meðaltekjur stefnanda lagðar til grundvallar frá 28. september 1997 til 27. september 1998 skv. skattframtölum. Eru tekjurnar reiknaðar hlutfallslega miðað við dagafjölda hvort ár og við það miðað að frá 28. 09. 1997 til 31. 12. 1997 séu 95 dagar en frá 01. 01. 1998 til 27. 09. 1998 séu 270 dagar (alls 365 dagar). Sundurliðun útreiknings tekjuviðmiðunar er svofelld:

Tekjurárið 1997 kr. 1.110.265,00/365x95                                                               kr.    288.973,00

Tekjur árið 1998 kr. 1.159.692,00 / 365 x 270                                                        kr.    857.854,00

Alls tekjur til viðmiðunar skv. 1. mgr. 7. gr.                                                        kr. 1.146.827,00

Loks hafi orðið breyting á kröfu stefnanda B vegna miskabóta. Sé þannig fallið frá hækkun grunnfjárhæðar samkvæmt lögunum úr 4.000.000,00 í 6.000.000,00, enda ekki talið tilefni til að halda slíkri kröfu til streitu miðað við niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna.

Kröfur stefnanda sem auk fyrirliggjandi matsgerða, byggist á ákvæðum laga nr. 50/1993, eins og þau voru á þeim tíma sem atvik málsins urðu séu nú eftirfarandi.

Bætur fyrir varanlega örorku skv. 5. - 7. gr., sbr. 15. gr.

Tekjugrundvöllur kr. 1.146.827,00.

Metin örorka er 75% og margfeldisstuðull er 10.

1.146.827,00 x 10 x 75%                                                          kr.   8.601.203,00

Verðbætur skv. 15. gr. (4421/3605)                                       kr.   1.946.902,00   

Alls bætur fyrir varanlega örorku                                        kr. 10.548.105,00

Bætur fyrir varanlegan miska skv. 4. gr., sbr. 15. gr.

Grunntala miska kr. 4.000.000,00 auk

verðbóta (4421/3282), alls kr. 5.388.000,00.

5.388.000,00 x 60%                                                                                                 kr.   3.232.800,00

Bætur fyrir þjáningar skv. 3. gr., sbr. 15. gr.

Tímabil frá 27.09.1998 til 27.05.1999, alls 243 dagar, þar af

13 dagar rúmliggjandi.

13 dagar x 1.750,00                                                                                                kr.        16.900,00

230 dagar x 950,00                                                                                                 kr.      218.500,00

Alls bætur fyrir þjáningar                                                                                    kr.      235.400,00

Samtals bætur án vaxta                                                                                        kr. 14.016.305,00

Frádráttur vegna greiðslu úr ríkissjóði                                                              kr.   3.100.000,00 -

Bótakrafa alls                                                                                                         kr. 10,916.305,00  

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Dómkröfur stefnanda í málinu eru byggðar á þeirri málsástæðu og meginreglu íslensks skaðabótaréttar að hver sá maður er veldur öðrum manni tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti skuli greiða þeim manni skaðabætur er svari til tjóns hins síðarnefnda.

Er í því sambandi á því byggt, að stefndi A hafi, veitt stefnanda hnefahögg í andlitið aðfaranótt sunnudagsins 27. september 1998 fyrir utan veitingahúsið Subway í Austurstræti í Reykjavík, með þeim afleiðingum, auk þeirra sem að neðan greinir, að stefnandi féll aftur fyrir sig og skall með höfuðið í götuna, og að stefndu A og C hafi því næst sparkað í höfuð stefnanda er hann lá meðvitundarlaus í götunni, allt með þeim afleiðingum að stefnandi hlaut þann heilaskaða sem að ofan greinir og orsakað hefur þá skerðingu á starfsgetu (örorku) stefnanda, þann miska og annað það tjón sem stefnt er útaf í máli þessu. Er þannig á því byggt að stefndu beri óskipta (solidaríska) sakarábyrgð á því tjóni er stefnandi varð fyrir í sökum ofangreindrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefndu, enda hafi um samverknað þeirra verið að ræða, eftir atvikum þó með verkskiptri aðild. Er þá sérstaklega á því byggt að stefndu hefði mátt vera ljóst á verknaðarstundu að það tjón er stefnandi varð fyrir sökum ofangreindrar háttsemi þeirra, væri bæði fyrirsjáanleg og sennileg afleiðing þessarar háttsemi vegna mikilla hættueiginleika hennar sem hverjum góðum og gegnum manni hefði átt að vera fullkomlega ljós.

Þá byggir stefnandi ennfremur á því að sá dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-1571/1999, sem upp var kveðinn 14. júní 2000, feli ekki í sér bindandi niðurstöðu um það sakarefni sem til úrlausnar er í máli þessu, enda þar fjallað um refsiábyrgð vegna þeirrar háttsemi sem liggur til grundvallar þessu máli á grunni þeirra sönnunarreglna er um slík mál gilda.

Dómkröfur stefnanda séu byggðar á meginreglum íslensks skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð utan samninga. Þá séu sönnunarkröfur þær sem gilda við meðferð almennra einkamála, sbr. 44. gr. laga nr. 91/1991 uppfylltar hér.

Séu bótakröfur stefnanda byggðar á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og ákvæðum laganna var háttað á tjónsdegi.

Krafa stefnanda um dráttarvexti er studd við ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Um samaðild stefndu er vísað til 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991.

Þá séu kröfur um málskostnað úr hendi stefndu byggð á ákvæðum 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála.

Um varnarþing er vísað til ákvæða 41. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi A byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að tjón það sem stefnandi varð fyrir megi rekja til athafna af hálfu stefnda. Telur stefndi vel líklegt að aðrir hafi orðið valdir að áverkum stefnanda.

Þannig sé í fyrsta lagi alls ósannað að högg það er stefndi veitti stefnanda B hafi valdið því að stefnandi féll í götuna. Í öðru lagi sé það ljóst og óumdeilt að í höfuð B hafi verið sparkað eftir að hann hafði fallið í götuna. Bæði stefndi A og meðstefndi C hafi hins vegar verið sýknaðir af því að hafa sparkað í höfuð hans. Af þessu sé ljóst að þrátt fyrir að stefnandi hafi hlotið heilsutjón eftir fallið sé vel líklegt að áverkar þeir sem hann hlaut megi rekja til annarra en stefnda. Vegna þessa beri að sýkna stefnda A af bótakröfum stefnanda í þessu máli.

Verði hins vegar ekki fallist á að sýkna beri stefnda byggir hann á því að fella beri niður bótaskyldu hans eða lækka verulega bótakröfur stefnenda. Það liggi fyrir að stefnandi hafi, áður en hann varð fyrir höggi stefnda, ráðist að tilefnislausu á stefnda á hrottafengin hátt og valdið honum töluverðum áverkum. Hafi m.a. verið tekið tillit til þessa við ákvörðun refsingar í málinu á hendur stefnda í áðurgreindum dómi. Fyrir þessa árás hafi stefnandi verið dæmdur til refsingar en við ákvörðun hennar hafi m. a. verið horft til þess að hann hafi ráðist í félagi við annan mann að tilefnislausu á fólskulegan hátt á stefnda sem ekki hafi getað komið við vörnum. Telur stefndi að miðað við þessar aðstæður beri honum ekki að greiða stefnanda í ofangreindu máli umkrafðar bætur, eða a.m.k. mun lægri fjárhæð en krafist sé. Ljóst sé að stefnandi hafi átt stóran þátt í þeirri árás sem hann varð fyrir, ekki aðeins með framangreindri árás á stefnda, heldur einnig þegar horft sé til þess að hann hlaut umrætt högg þegar hann var um það bil að slá til ofangreinds C með flösku. Þegar þetta sé virt, ásamt því að þeir áverkar sem hlutust af falli stefnanda hafi verið mun meiri en við hefði mátt búast af hnefahöggi stefnda, stefnanda hafi þegar verið bætt tjón hans með 3.100.000 krónum er hann hafi fengið greiddar skv. lögum nr. 69/1995 um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, fjárhæðar kröfunnar á hendur stefnda, og þess að stefndi er tekju- og eignalítill, hyggst stunda nám næsta vetur og á von á barni fljótlega, telur stefndi að fyrir hendi séu skilyrði til þess að fella niður bótaábyrgð hans eða lækka bótakröfur stefnenda verulega skv. almennum reglum skaðabótaréttar um eigin sök eða með stoð í 24. gr.laga nr. 50/1993.

Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttar, m.a. ólögfestum reglum um eign sök, en einnig á skaðabótalögum nr. 50/1993, m.a. 24. gr. Þá byggir stefndi og á sönnunarreglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi C byggir sýknukröfu sína á því að hann eigi engan þátt í meintu tjóni stefnanda B.  Hann átti engan þátt í því hnefahöggi, sem meint tjón stefnanda B verður að öllum líkindum rakið til.  Þá er því harðlega mótmælt að stefndi hafi sparkað í höfuð stefnanda B.  Hann hefur í tvígang verið sýknaður í héraðsdómi af þeirri háttsemi, sem honum var gefin að sök. Niðurstaða héraðsdóms var á þá leið að enginn áreiðanlegur vitnisburður væri fyrir hendi, sem benti til sektar stefnda C.

Í þessu máli hefur engin tilraun verið gerð til þess að færa ítarlegri sönnur á þessa meintu háttsemi, sem ákæruvaldinu mistókst algerlega að sanna þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.  Fyrirliggjandi dómar héraðsdóms séu því fordæmisgefandi fyrir niðurstöðuna um þennan þátt málsins.

Stefndi C byggir og sýknukröfu sína á því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi slegið því föstu að meint líkamstjón stefnanda B stafi að langmestu leyti af falli hans á hnakkann.  Hafi sú skoðun byggst á fyrirliggjandi læknisvottorðum og framburði læknisins Garðars Guðmundssonar fyrir dómi.  Þessari niðurstöðu hafi ekki verið hnekkt og virðist stefnendur einnig fallast á hana í málatilbúnaði sínum.  Jafnvel þó ekki sé hægt að útiloka að áverkar séu einnig af völdum sparka í höfuð stefnanda sé útilokað að byggja bótaábyrgð á svo óljósum grunni.

Lagarök:

Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttar, m.a. ólögfestum reglum um eigin sök, en einnig á skaðabótalögum nr. 50/1993, m.a. 24. gr. Þá byggir stefndi og á sönnunarreglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um dráttarvaxtakröfuna er vísað til 3. kafla l. nr. 38/2001 og krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.

NIÐURSTAÐA

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2000 var stefndi A sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, fyrir líkamsárás við veitingastaðinn Subway í Austurstræti, Reykjavík, aðfaranótt sunnudagsins 27. september 1998 með því að hafa slegið stefnanda í andlitið með krepptum hnefa svo hann skall aftur fyrir sig í götuna og missti meðvitund.  Var á því byggt að líkamstjón stefnanda hafi að langmestu leyti stafað af falli hans á hnakkann í framhaldi af hnefahöggi því er stefndi A greiddi honum. Verður þessi úrlausn um málsatvik lögð til grundvallar niðurstöðu í því máli sem hér er til umfjöllunar, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, enda hefur ekki annað verið sannað við meðferð þessa máls fyrir dómi. Ber stefndi A fébótaábyrgð á því tjóni sem hann samkvæmt framansögðu olli áfrýjanda með saknæmri háttsemi sinni umrætt sinn.

             Með framangreindum dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júní 2000 var stefndi C sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og við meðferð þessa máls hefur ekkert verið sannað sem hnekkir því mati þess dóms að stefndi C beri ekki saknæma ábyrgð á tjóni stefnanda og verður hann því sýknaður af öllum kröfum stefnanda hér en málskostnaður á milli þeirra svo og stefnda og foreldra stefnanda sem fallið hafa frá kröfum um miskabætur fellur niður. Stefndi C hefur fengið gjafsóknarleyfi og greiðist allur málskostnaður hans 700.000 krónur úr ríkissjóði.

             Þessu næst kemur til álita hvort skilyrði séu til þess að skipta sök með aðilunum A og stefnanda en samkvæmt framangreindum dómi hafði stefnandi ásamt öðrum manni ráðist með hrottafengnum hætti að stefnda A og stefndi A greitt stefnanda högg það sem telja verður orsök tjóns stefnanda í sömu mund og stefnandi sló til stefnda C með flösku. Verður að líta til þess hér að stefnandi á nokkra sök á tjóni sínu með því að eiga upptök að því að líkamlegu ofbeldi var beitt í samskiptum aðila og hlaut hann fyrir það refsidóm. Er rétt að stefnandi beri tjón sitt að 1/3 hluta sjálfur.

Ekki er tölulegur ágreiningur um endanlega kröfugerð stefnanda. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnandi skuli bera einn þriðja hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Verður stefndi A dæmdur til að greiða honum 9.344.203 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði allt að frádregnum 3.100.000 krónum sem stefnandi fékk greiddar 17. maí 2001. Þá greiði stefndi A 1.737.489 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist málskostnaður hans 1.737.489 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur af málflutningsþóknun úr ríkissjóði.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

             Stefndi, A, greiði stefnanda, B, 9.344.203 krónur með 2% ársvöxtum frá 27. september 1998 til 11. mars 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 17. maí 2001 að fjárhæð 3.100.000 krónur.

             Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda 1.737.489 greiðist úr ríkissjóði.

             Stefndi, A, greiði 1.737.489 krónur í málskostnað sem renni í ríkisjóð.

             Stefndi, C, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda.

             Málskostnaður í þessum þætti málsins fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda C, 700.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.