Hæstiréttur íslands
Mál nr. 551/2005
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skaðabætur
|
|
Miðvikudaginn 24. maí 2006. |
|
Nr. 551/2005. |
Ákæruvaldið(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari) gegn Lárusi Má Hermannssyni (Brynjar Níelsson hrl.) |
Líkamsárás. Skaðabætur.
L var ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara stórfellda líkamsárás, með því að hafa ráðist á A, fyrrverandi sambúðarkonu sína, á heimili hennar og slegið hana margsinnis í höfuðið með felgulykli. Hlaut hún við það sár á höfði en missti ekki meðvitund og hlaut engin einkenni um heilahristing. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að felgulykillinn væri hvorki eggvopn né af teljandi þyngd og ekki lægju fyrir sérfræðileg gögn um hættuna, sem árás með hann að vopni gat leitt af sér. Þá lágu ekki fyrir nægar upplýsingar um aðstæður á vettvangi svo unnt væri að varpa ljósi á hvort L hefði gengið svo harkalega fram sem aðstæðurnar gáfu færi á. Ennfremur væri ósannað að hann hefði áður hótað að vinna brotaþola mein og þá yrðu ekki dregnar haldbærar ályktanir um ásetning L af háttalagi hans nóttina fyrir árásina eða í framhaldi af henni. Með hliðsjón af þessu þótti varhugavert að telja sannað að hann hafi ætlað að verða A að bana með árás sinni eða að honum hefði átt að vera ljóst að sú gæti orðið afleiðing hennar. Varð brot hans því ekki heimfært til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, heldur fellt undir 2. mgr. 218. gr. sömu laga í ljósi aðferðarinnar við árásina. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2½ ár auk þess sem hann var dæmdur til að greiða A 700.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða A 800.000 krónur með þeim vöxtum, sem ákveðnir voru í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærði krefst þess að refsing, sem honum var gerð í héraðsdómi, verði milduð.
I.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa að morgni 28. ágúst 2005 ráðist á fyrrverandi sambúðarkonu sína, áðurnefnda A, í baðherbergi á heimili hennar og slegið hana margsinnis með felgulykli í höfuðið með þeim afleiðingum að hún hlaut þar fjóra skurði ásamt kúlu, sem var 9 cm að þvermáli, en auk þess fékk hún skurð og mar á hendi og handleggjum. Í ákæru var þessi háttsemi aðallega talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr., en til vara 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Samkvæmt gögnum málsins voru ákærði og A í sambúð til haustsins 2003. Eiga þau tvö börn, sem voru 11 og 14 ára þegar atvik málsins gerðust.
Í skýrslum ákærða fyrir dómi og lögreglu bar hann við minnisleysi um margt, sem laut að aðdraganda þessa atviks, svo og um flest, sem varðaði það sem slíkt. Hann greindi þó frá því að hann hafi fengið vitneskju um það síðla kvölds 27. ágúst 2005 að A hafi farið á skemmtistað og skilið börn þeirra eftir ein heima. Hann hafi farið á bifreið sinni að heimili A og komið þangað um kl. 2 um nóttina. Ætlun hans hafi verið að fylgjast með ferðum hennar úr bifreiðinni og komast að raun um hvenær hún kæmi aftur heim. Um kl. 5 hafi hann séð til hennar, þar sem hún gekk sem leið lá fram hjá heimili sínu með karlmanni, en síðan hafi hún komið þangað aftur ein síns liðs um kl. 9. Um atburðina eftir það hafi hann ekki minnst annars en þess að hann hafi verið nærri A, hún hafi öskrað og hann hlaupið frá húsinu blóðugur á höndum, en þá áttað sig á að eitthvað mikið hefði gerst. Hann kvaðst einnig minnast þess að hafa tekið síðan vatnsslöngu við bensínstöð og ekið að malargryfju, þar sem hann hafi ætlað að fyrirfara sér. Fyrir liggur að þar hafi verið komið að ákærða um kl. 11 um morguninn rænulitlum í bifreiðinni, sem þá hafi verið í gangi, en slanga hafi verið leidd inn í hana frá útblástursröri.
Samkvæmt framburði A kom hún heim til sín umræddan morgun um kl. 9. Hún hafi farið út í garð með hund, sem hún hafði í gæslu, en gengið að því búnu inn á baðherbergi rétt innan við anddyri hússins. Þar hafi hún skyndilega fengið þungt högg í höfuðið án þess að hafa áður orðið vör mannaferða og um leið heyrt ákærða formæla sér. Hún hafi snúið sér við og séð framan í ákærða, sem hafi látið högg dynja á henni. Hafi hún öskrað á hjálp og náð svo að bíta í ákærða, en við það hafi honum brugðið og henni tekist að komast út úr baðherberginu. Hún hafi síðan hlaupið upp stiga, farið inn í herbergi til dóttur sinnar á efri hæð hússins og beðið hana um að hringja eftir hjálp. Eftir það varð hún ekki frekar vör við ákærða. Lögregla kom á heimili A stuttu síðar og var hún flutt á sjúkrahús. Samkvæmt vottorði læknis um áverka hennar, sem staðfest var fyrir héraðsdómi, missti hún hvorki meðvitund við árásina né bar einkenni um heilahristing og skaddaðist höfuðkúpa hennar ekki. Á hinn bóginn hafi blætt mikið úr sárum á höfði hennar og hún fundið fyrir verkjum þar, svo og í hendi. Í niðurlagi þessa vottorðs sagði að af áverkunum að dæma hafi „mikið afl verið notað og mesta mildi að ekki hlaust af alvarlegri skaði.“
Í frumskýrslu lögreglu um atvik málsins kom fram að blóðblettir hafi verið á hurð, veggjum og gólfi baðherbergisins á heimili A, svo og að felgulykill hafi fundist þar bak við hurðina. Samkvæmt gögnum um rannsókn á felgulyklinum er lengd hans rúmlega 31 cm, þvermál 20 mm og þyngd um 328 g. Áhald þetta er gert úr holu málmröri, sem myndar handfang, sem er um 23 cm að lengd, en bognar síðan í aflíðandi beygju og endar á svokölluðum toppi felgulykilsins. Merki um blóð virðast eingöngu hafa fundist á handfangi felgulykilsins, en á honum var ekki unnt að greina fingraför. Ákærði hefur kannast við að eiga felgulykil eins og þennan, sem hafi verið í bifreið hans umrætt sinn. Hann kvað hjólbarða hafa sprungið á bifreiðinni daginn áður. Hafi hann skilið við þann hjólbarða inni í bifreiðinni ásamt felgulyklinum og tjakki. Þá var þess jafnframt getið í frumskýrslu lögreglunnar að blóðug peysa hafi fundist utan við bifreið ákærða þegar komið var að henni í fyrrnefndri malargryfju.
II.
Í málinu hefur ákærði ekki neitað því að hafa að morgni 28. ágúst 2005 ráðist á A á heimili hennar og veitt henni þá áverka, sem greinir í ákæru, með felgulykli. Samkvæmt því og eins og málið liggur að öðru leyti fyrir hafa sönnur verið færðar fyrir þessari háttsemi ákærða. Ákærði neitar því á hinn bóginn að hafa búið yfir ásetningi til að bana A á þennan hátt og gert tilraun til þess, svo sem honum er gefið að sök.
Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti er af hálfu ákæruvaldsins byggt á því að hjá ákærða hafi vaknað ásetningur til að verða A að bana þegar hann sá til ferða hennar og karlmanns um kl. 5 aðfaranótt 28. ágúst 2005, en þegar ákærði hugðist láta verða af því eftir að hún kom heim til sín um fjórum klukkustundum síðar hafi hann farið úr bifreið sinni með felgulykil að vopni. Við mat á því hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna gegn neitun ákærða að hann hafi búið yfir þessum ásetningi verður að gæta að því að felgulykillinn er hvorki eggvopn né af teljandi þyngd. Að frátöldu því, sem fram kom í fyrrnefndu áverkavottorði, hafa ekki verið lögð fram sérfræðileg gögn um hættuna, sem árás með felgulyklinum gat leitt af sér, þar á meðal um hvernig hefði þurft að beita honum og af hverju afli til að verða manni að bana, svo og hverju hafi munað miðað við afleiðingar árásarinnar að þannig hefði farið hér. Í málinu er að finna uppdrátt af húsinu, sem A bjó í, og verður ráðið af honum að baðherbergið, þar sem árásin var gerð, sé lítið. Af ljósmyndum, sem lögregla tók við rannsókn málsins, virðist sem hluti herbergisins sé lagður undir sturtuklefa. Að öðru leyti liggja ekki fyrir í gögnum málsins upplýsingar um stærð baðherbergisins og gólfrými, þannig að varpa mætti ljósi á það hvort ákærði hafi gengið svo harkalega fram sem aðstæður þar gáfu færi á. Gegn neitun ákærða hafa ekki verið færðar viðhlítandi sönnur fyrir því að hann hafi á fyrri stigum hótað að vinna A mein, svo sem haldið hefur verið fram af hálfu ákæruvaldsins. Þá verða heldur ekki dregnar haldbærar ályktanir um ásetning ákærða af háttalagi hans nóttina fyrir árásina eða í framhaldi af henni. Að öllu þessu virtu er varhugavert að telja sannað að ákærði hafi haft ásetning til að verða A að bana með árás sinni eða að honum hafi átt að vera ljóst að sú gæti orðið afleiðing árásarinnar. Verður brot hans því ekki heimfært til 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Aðferð ákærða við árásina fellir háttsemi hans undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Af geðrannsókn, sem gerð var á ákærða, og öðrum gögnum málsins er ljóst að hann hafði alið með sér sjúklega afbrýðissemi. Árásin var gerð á heimili fyrrverandi sambúðarkonu hans og barna þeirra. Var hún framin af mikilli heift og án nokkurs tilefnis af hendi annarra. Til þess verður á hinn bóginn að líta að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem hér getur skipt máli. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2½ ár, en til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 31. ágúst 2005.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um bætur til A er staðfest, svo og ákvæði hans um sakarkostnað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Lárus Már Hermannsson, sæti fangelsi í 2½ ár, en til frádráttar þeirri refsingu komi gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 31. ágúst 2005.
Héraðsdómur skal vera óraskaður um skaðabætur og sakarkostnað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 519.190 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 23. nóvember 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. nóvember sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara 12. október 2005 á hendur Lárusi Má Hermannssyni, [kt.] Y, Borgarnesi, fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa að morgni 28. ágúst 2005, ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína A, [kt.], á heimili hennar að X, Akranesi, og slegið hana margsinnis í höfuðið með felgulykli, í því skyni að ráða henni bana. A hlaut af árás ákærða 4 cm skurð á hvirfli, 4 cm skurð vinstra megin á höfði, 5 cm skurð rétt ofan við hársvörð framan til, 1,5 cm skurð á hvirfli, 9 cm kúlu í þvermál hægra megin á höfði, mar og sár á vinstra handarbaki, marblett á innanverðum vinstri upphandlegg, 4 marbletti á vinstri framhandlegg og marblett á innanverðum hægri framhandlegg.
Er háttsemin talin varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr., sbr. 11. gr. laga 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreint brot.
A gerir kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 28. ágúst 2005 til 20. október 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann þess að skaðabótakrafa verði lækkuð og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.
Sunnudaginn 28. ágúst 2005 kl. 8.55 hringdi B í lögregluna á Akranesi og tilkynnti um líkamsárás. Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að B hafi verið í mikilli geðshræringu og gert grein fyrir því að verið væri að ráðast á móður hennar á heimili þeirra að X á Akranesi. Héldu lögreglumenn þegar á staðinn og hittu þar fyrir A. Kemur fram að A hafi verið á efri hæð hússins ásamt börnum sínum þeim B og C. Mikið hafi blætt úr höfði A. Hafi virst sem um marga höfuðáverka væri að ræða. Að sögn A hafi Lárus Már Hermannsson, fyrrverandi sambýlismaður hennar, ráðist á hana og hafi hann barið hana margsinnis í höfuðið með áhaldi. Var hún flutt með hraði á Sjúkrahús Akraness.
Í skýrslunni kemur fram að húseignin X sé einbýlishús á tveimur hæðum. Komið sé inn í lítið anddyri en beint á móti útidyrahurðinni sé baðherbergi. Við athugun á vettvangi hafi felgujárnslykill fundist á bak við baðherbergishurðina. Talsvert blóð hafi verið sjáanlegt í baðherberginu og blóðslettur verið á hurð, veggjum og gólfi baðherbergisins. Þá hafi talsvert blóð verið í svefnherbergi á annarri hæð, þar sem lögreglumenn hafi komið að A.
Að beiðni A hafi lögreglumenn haft samband við föður ákærða, D. Er rætt hafi verið við D hafi hann upplýst að ákærði væri í annarlegu andlegu ástandi. Ætti hann við erfitt þunglyndi að stríða og hafi honum verið mikið niðri fyrir undanfarna viku. Greindi hann einnig frá því að ákærði hafi á undanförnum árum gert nokkrar tilraunir til sjálfsvígs og taldi því næst öruggt að ákærði myndi gera tilraun til sjálfsvígs að nýju. Í kjölfar yfirlýsinga D um líðan ákærða hóf lögregla leit að honum, m.a. með því að lýsta eftir bifreiðinni MX-561, sem vitað var að ákærði ók. Um kl. 10.20 barst lögreglu tilkynning um að maður væri í andnauð í malarnámu norðan við Hvalfjarðargöng og vaknaði þegar grunur um að um ákærða væri að ræða. Kemur fram að sjúkraflutningamenn hafi fyrstir komið að ákærða þar sem hann hafi setið í framsæti bifreiðarinnar MX-561 sem hafi verið full af reyk. Er sjúkraflutningamenn hafi komið að bifreiðinni hafi ákærði verið búinn að tengja gúmmíslöngu við útblástursrör bifreiðarinnar og leiða hana inn um hliðarrúðu. Hafi ákærði verið fluttur með sjúkrabifreið á Sjúkrahús Akraness til aðhlynningar, en þaðan hafi hann verið fluttur með sjúkrabifreið til Reykjavíkur. Við hlið bifreiðarinnar MX-561 hafi fundist flíspeysa með blóðblettum í.
Fritz H. Berndsen yfirlæknir á Sjúkrahúsi Akraness hefur 29. ágúst 2005 ritað vottorð vegna komu A á sjúkrahúsið 28. ágúst 2005. Í vottorðinu kemur fram að hún hafi við komu verið vel áttuð á stað og stund og gefið skýra og góða sögu. Mikið blóð hafi verið framan í henni og á fötum hennar og hafi blóð lekið frá hári og niður. Hafi hún kvartað yfir verk um höfuð og í vinstri hendi. Við skoðun hafi eftirfarandi áverkar komið fram:
Skálægur 4ra cm skurður í hvirfli í miðlínu sem blæði úr.
4ra cm langur skurður vinstra megin á höfði sem blæði úr.
5 cm skurður rétt ofan við hársvörð framan til sem blæði úr.
1,5 cm skurður á hvirfli sem blæði úr.
Kúla hægra megin á höfði, um 9 cm í þvermál, sem sé aum viðkomu.
Á vinstra handarbaki um 6x6 cm stórt mar og grunnt sár í miðju marsins. Eymsli séu við þreifingu yfir handarbeinum.
2 x 2 cm marblettur á vinstri upphandlegg innanverðum.
1,5 x 1,5 cm marblettur á vinstri framhandlegg.
Þrír minni marblettir á vinstri framhandlegg.
Um 1 cm marblettur á hægri framhandlegg innanverðum.
Ekki hafi verið eymsli yfir andlitsbeinum né brjóstholi eða kvið. Taugaskoðun hafi verið eðlileg. Skurðir á höfði hafi verið þvegnir, staðdeyfðir og saumaðir. Teknar hafi verið myndir af höfuðkúpu sem hafi verið eðlilegar, svo og myndir af vinstri hendi sem ekki hafi sýnt brot. Áverkar A hafi samrýmst frásögn hennar af atvikum. Hafi árás beinst að höfði hennar og verið sérstaklega hrottaleg. Af áverkum A að dæma hafi mikið afl verið notað og mesta mildi að ekki hafi alvarlegri skaði hlotist af. Hafi A verið lögð inn á handlækningadeild til eftirlits yfir nóttina. Með vottorði yfirlæknis fylgja myndir er teknar hafa verið á sjúkrahúsinu af áverkum A.
Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík fékk til meðferðar felgulykil þann er fannst inni á baðherbergi að X. Í skýrslu deildarinnar frá 16. september 2005 kemur fram að umræddur lykill hafi við mælingu reynst vera 31,4 cm að lengd, 22 mm í þvermál og 328,23 g að þyngd.
Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 31. ágúst 2005 var ákærða gert að sæta geðrannsókn. Tómas Zoëga geðlæknir hefur 19. september 2005 ritað geðrannsókn vegna ákærða. Í niðurstöðu kemur fram að fyrir liggi löng saga um áfengismisnotkun af hálfu ákærða og misnotkun á verkjalyfjum. Þá sýni rannsóknin endurtekin þunglyndistímabil með alvarlegum sjálfsvígstilraunum sem oftast virðist tengd áfengisnotkuninni. Ákærði hafi slitið sambúð við sambýliskonu sína fyrir um þremur árum. Langvarandi afbrýðisemi hafi verið af hans hálfu gagnvart fyrrum sambýliskonunni. Þau einkenni hafi magnast mjög mikið upp eftir sambúðarslitin þannig að hann hafi orðið fastur í þráhyggjuhugsun sem snúist um fyrrum sambýliskonuna. Á sama tíma tali hann um að honum þyki mjög vænt um hana og börnin, vilji fá hana til baka, en geri sér jafnframt grein fyrir því að sú hugsun sé óraunhæf þó hann ráði ekki við hana. Í síðasta viðtali geðlæknisins séu hugsanir hans um fyrrverandi sambýliskonuna minnkandi. Ákærði hafi tekið töluvert magn af verkjalyfjum um margra mánaða skeið, en hafi hætt að taka þau tæpum tveim vikum fyrir atburðinn. Hafi hann augljóslega haft töluverð fráhvarfseinkenni í framhaldi af því og mikla vanlíðan og sjálfsvígshugmyndir á köflum. Rétt sé að undirstrika að þegar atburðirnir hafi átt sér stað sé ekkert sem bendi til þess að hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða lyfja. Þrátt fyrir að ákærði sé haldinn hugvilluröskun af afbrýðisemistoga sé ekkert sem bendi til þess að hann sé ekki ábyrgur gerða sinna. Engin merki séu um truflun á hugsun varðandi aðra hluti eða atburði. Sé það mat Tómasar að ákærði sé ekki í bráðri hættu gagnvart sjálfum sér og að hann hafi fullt innsæi í það sem hann hafi gert gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni. Sé hann með samviskubit gagnvart því sem hann hafi gert henni. Mjög mikilvægt sé að hann haldi áfram að fá stuðning og meðferð. Lyfjameðferð hafi hafist á geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss er ákærði hafi dvalið þar síðast og sé mikilvægt að henni verði fylgt eftir og að ákærði verði áfram undir eftirliti og meðferð lækna og sálfræðings. Þráhyggja gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sé enn til staðar en í minna mæli. Hafi hann fullt innsæi í veikleika sinn og eins og málum sé háttað séu ekki líkur á að hún sé í hættu. Þráhyggjan auki enn á nauðsyn þess að hann verði áfram á lyfjum og í meðferð hjá lækni. Sé það mat Tómasar, eftir nákvæma skoðun á gögnum málsins og viðtölum við ákærða, að ekkert bendi til þess að hann hafi að morgni 28. ágúst 2005 verið haldinn geðveiki, andlegum vanþroska, hrörnun, rænuskerðingu eða verið í öðru samsvarandi ástandi sem komi í veg fyrir að hann hafi getað stjórnað gerðum sínum. Þá sé það jafnframt mat Tómasar að ekkert læknisfræðilegt komi í veg fyrir að viðeigandi refsing geti borið árangur gagnvart honum ef sök sannist.
Ákærði bar að hann hafi verið á mjög sterkum ,,kódeinlyfjum” vegna bakverkja í um 9 mánuði fyrir atburðinn. Hafi hann ákveðið að hætta allri lyfjaneyslu 14. ágúst 2005 og verið í miklu fráhvarfi eftir það og búið við mikla vanlíðan. Líðanin hafi á köflum verið það slæm að hann hafi verið að því kominn að ,,ganga frá sér.” Hafi hann ekki nema að litlu leyti borðað eða sofið. Þá kvaðst ákærði hafa notað geðlyf síðastliðin fimm ár fyrir atburðinn. Hafi hann einnig hætt allri geðlyfjaneyslu í maí 2005, þvert á álit lækna.
Ákærði kvaðst hafa verið heima hjá sér að Y í Borgarnesi að kvöldi laugardagsins 27. ágúst 2005. Hafi hann hringt á heimili A undir miðnætti en þá komist að raun um að A hafi farið út um kvöldið og skilið börn hennar og ákærða ein eftir heima. Deginum á undan hafi hann rætt við A og hún þá sagt honum að hún ætlaði ekki að fara út að skemmta sér þetta kvöld. Er hann hafi rætt þessi efni við A hafi hann verið með börn þeirra í huga. Í símtalinu að kvöldi 27. hafi hann rætt við dóttur sína B og hún sagt að móðir hennar hafi farið út um kvöldmatarleytið og ekki komið heim eftir það. Hún væri þó búin að hringja heim og segja að hún væri á leið á dansleik. Ákærði kvaðst hafa orðið mjög reiður við þetta. Hafi hann ætlað að láta kyrrt liggja og farið inn í rúm. Hann hafi hins vegar ekki getað sofnað. Um kl. 1.30 aðfaranótt laugardagsins hafi hann farið á bifreið sinni MX-561 til Akraness. Hafi hann lagt bifreiðinni á bifreiðastæði gegnt húsinu að X, en þangað hafi hann verið kominn um kl. 2.00 um nóttina. Hafi hann drepið á bifreiðinni. Í henni hafi hann síðan dvalið alla nóttina. Tilgangur hans með för sinni til Akraness hafi verið að fylgjast með ferðum A til að grennslast fyrir um hvenær hún kæmi heim til sín, en hann hafi haft áhyggjur af börnum sínum þar sem mjög margir gangi fram hjá húsi A. Um nóttina hafi talsvert af fólki átt leið fram hjá bifreið ákærða. Um kl. 5.00 um morguninn hafi hann orðið var við A þar sem hún hafi ásamt einhverjum manni gengið fram hjá bifreið ákærða. Ákærði hafi ,,frosið” við þá sýn. Þau hafi haldið áfram fram hjá húsi A og áfram upp [götuna]. Ákærði hafi ákveðið að bíða áfram í bifreiðinni til að sjá hvenær A kæmi heim. Um kl. 9.00 um morguninn hafi ákærði síðan séð til ferða hennar og hafi hún farið heim til sín. Á þeim tíma hafi ákærði verið orðinn kaldur, syfjaður og þreyttur, auk þess að vera í miklu uppnámi eftir að hafa séð A með karlmanni undir morgun. Eftir það kvaðst ákærði ekki muna atvik svo neinu nemi. Kvaðst hann ekki geta sagt til um hvort hann hafi séð A fara inn í húsið. Það sem ákærði myndi væri að hann hafi á einhverjum tíma staðið nærri A og að hún hafi öskrað ,,hættu”. Það næsta er hann myndi væri að hann hafi verið að hlaupa á brott frá húsinu og þá verið blóðugur á höndum. Hafi hann áttað sig á að eitthvað mikið hafi gerst og því verið í mikilli geðshræringu. Kvaðst hann betur hafa áttað sig á því er hann hafi haldið frá húsinu og talið að þau hafi sennilega lent í átökum. Atvik eftir það væru einnig í þoku en hann myndi eftir að hafa verið staddur á þvottaplani við bensínafgreiðslustöð á Akranesi og hafi hann verið að slíta þvottaslöngu af krana. Hafi hann því næst ekið út fyrir bæinn og í fyrstu ætlað að aka til Borgarness. Hann hafi hins vegar haldið áfram ,,suðurfyrir”. Þá atburði myndi hann heldur ekki vel en hann myndi eftir því að hafa verið í malarnámu og að hann myndi eftir ,,einhverju bauki með slönguna.” Síðan myndi hann einhverjar glefsur frá því er hann hafi verið að fara frá Sjúkrahúsinu á Akranesi og úti í sjúkrabifreið. Hafi hann farið á Landspítala háskólasjúkrahús í Fossvogi. Þaðan hafi hann farið á geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Er ákærða var sýndur felgulykill er lögregla lagði hald á að X kvaðst ákærði þekkja lykilinn, en hann væri samskonar og tilheyrði bifreið ákærða. Hafi hann verið að nota lykilinn á laugardeginum en dekk undir bifreið ákærða hafi sprungið. Hafi hann ekki gengið frá lyklinum eftir að hafa skipt um dekk og hafi lykillinn legið ofan á hinu sprungna dekki aftur í bifreiðinni. Bifreiðin sé skutbifreið og opið í farangursgeymsluna innan úr bifreiðinni.
Ákærði kvaðst aldrei hafa ætlað að bana A. Kvaðst hann hafa orðið afbrýðisamur gagnvart því að A væri að hitta aðra karlmenn. Hafi einnig gætt afbrýðisemi af hans hálfu á meðan þau hafi verið gift. Eftir skilnað þeirra hafi hann einhverjum sinnum spurt hana að því hvort hún væri með öðrum karlmönnum. Því hafi hún jafnan svarað neitandi. Hafi hann ekki áður fylgst með því hvort hún hitti aðra menn. Eftir þessa atburði og eftir viðræður við lækna hafi honum orðið ljóst að afbrýðisemi hans hafi á tíðum verið sjúkleg. Hafi hann frá því notið lyfjameðferðar gagnvart áráttuhegðun og afbrýðisemi. Kvaðst hann áður hafa reynt sjálfsvíg. Hafi það verið á meðan hann hafi glímt við mikið þunglyndi og verð undir áhrifum lyfja. Kvaðst ákærði fá lyfjagjöf í vist sinni í gæsluvarðhaldi. Gæti hann nú í fyrsta skipti um langa hríð stjórnað hugsunum sínum. Þá sækti hann vikuleg viðtöl hjá sálfræðingum.
Er ákærði var inntur eftir því hvort A hafi lagt fram kæru á hendur honum vegna atvika 19. júní 2004 kvaðst ákærði ekki muna eftir þeim atvikum. Hafi hann þá verið búinn að vera í mikilli áfengisneyslu og verið að ,,trappa sig niður” á lyfjum. Myndi hann lítið eftir sér í langan tíma um þetta leyti, en hann hafi síðan farið í áfengismeðferð á Vog. Kvaðst ákærði kannast við að hafa haft í hótunum við A með sms skilaboðum í maí 2004 en hann hafi verið ,,með leiðindi.” Kvaðst hann ekki viss um hvort hann hafi hótað henni lífláti. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa tiltekið sinn í afbrýðisemiskasti slegið höfði hennar við vegg eða fellt hana niður úti á leikvelli. Kvaðst hann kannast við að hafa þá bendlað hana við annan karlmann, en ekki hafa beitt hana ofbeldi í kjölfarið.
A kvaðst hafa verið að skemmta sér að kvöldi laugardagsins 27. ágúst 2005 og verið í heimahúsi. Um kl. 8.30 að morgni sunnudagsins hafi verið hringt í síma hennar, en hún ekki séð númerið þar sem sá er hafi hringt hafi verið með númeraleynd. Hringingarnar hafi verið endurteknar tvisvar eða þrisvar sinnum og aldrei verið svarað. Hafi hún þá ákveðið að drífa sig heim og verið komin þangað fyrir kl. 9.00 um morguninn. Hafi hún opnað útidyrahurðina með lykli. Hún hafi hleypt hundi sínum út og bundið hann fastan á bak við húsið. Hafi útihurð verið opin á meðan. Að því búnu hafi hún farið aftur inn í húsið og inn á baðherbergi inn af anddyri. Hafi hún tekið til við að bursta tennur sínar og snúið baki í hurðina og þá fengið högg í höfuðið. Hafi hún verið barin aftur og aftur. Hafi hún náð að snúa sér við og séð að þar hafi ákærði verið á ferð. Hafi hann úthúðað henni og kallað hana ,,helvítis hóru” eða eitthvað í þá áttina. Einnig hafi hann öskrað að hann hafi vitað hvar hún hafi verið og hvað hún hafi verið að gera. Kvaðst A hafa öskrað og reynt að komast út úr baðherberginu. Hafi hún fengið mörg högg í höfuðið en högg hafi hún jafnframt fengið á vinstri höndina er hún hafi reynt að verja sig. Hafi hún ekki náð að opna baðherbergishurðina þar sem ákærði hafi staðið fyrir henni og varnað henni útgöngu. Hafi hún öskrað á hjálp en þá hafi ákærða virst fipast eitthvað og sagt henni að vekja ekki börnin. Kvaðst hún viss um að hún hafi verið að berjast fyrir lífi sínu og náð að bíta ákærða í hönd eða fingur. Í kjölfarið hafi hún náð að opna hurð að baðherberginu, komist út og upp stiga inn í herbergi dóttur sinnar. Hafi hún vakið dótturina og beðið hana um að hringja í neyðarlínuna eftir hjálp. Hafi hún beðið hana um að hringja aftur og aftur þar sem hún hafi óttast að ákærði væri enn í húsinu. Lögregla hafi komið fljótlega og flutt hana á Sjúkrahús Akraness. Mikið hafi blætt úr höfði hennar. Kvaðst A þess viss að ákærði hafi ætlað að drepa hana inni á baðherberginu, en hann hafi verið mjög trylltur í framan. Atlaga hans hafi einnig borið þess merki, en hann hafi barið hana margsinnis í höfuðið með verkfæri. Kvaðst hún aldrei hafa séð það verkfæri er ákærði hafi notast við.
A kvaðst hafa búið með ákærða í um tólf ár en þau hafi endanlega skilið að skiptum um tveim árum fyrir atburðinn. Hafi ákærði aldrei sætt sig við sambúðarslitin og það komið fram í hegðun hans, t.d. með ýmiskonar sms símaskilaboðum en í sumum þeirra hafi falist hótanir. Hafi hann hótað að drepa A og alla þá sem kæmu nærri henni. Hafi hann verið mjög afbrýðisamur. Jafnframt hafi verið til staðar nokkurs konar þráhyggja hjá ákærða gagnvart henni allt frá þeim tíma er þau hafi byrjað að búa saman. Á meðan á sambúð þeirra hafi staðið hafi ákærði verið greindur þunglyndur. Hafi hann leitað sér lækninga vegna þess. Þá hafi hann verið lagður inn á geðdeild. Þau hafi á tilteknum tíma slitið samvistir. Þá hafi farið af stað atburðarás þar sem ákærði hafi m.a. gert tilraun til að svipta sig lífi. Kvaðst A hafa lagt fram kæru á hendur ákærða 21. júní 2004. Hafi ákærði farið í áfengismeðferð og verið á leið inn á Vog. Hafi hann óskað eftir því að hún kæmi með ferðatösku til sín. Er hún hafi komið inn hafi ákærði viljað ræða við hana. Hafi hann orðið reiður og æstur og ásakað hana um að hafa verið á stefnumótum með öðrum karlmönnum. Hafi A þá ætlað að fara en ákærði þá slegið hana utanundir. Í kjölfarið hafi hann stigið ofan á bak hennar þar sem hún hafi legið á gólfinu. Hafi hún náð að komast á fætur, bíta ákærða og með því komist undan. Hafi hún nánast hlaupið á svalahurð og komist þannig út úr íbúðinni. Hún hafi náð að henda sér niður af svölum íbúðarinnar, en íbúðin hafi verið á 1. hæð. Hún hafi í kjölfarið farið til lögreglu og ætlað að kæra atburðinn. Eftir athugun hafi hún komist að raun um að ákærði myndi ekki hafa verið dæmdur í fangelsi fyrir árásina og hafi hún því ekki treyst sér til að halda kærunni frammi. Ákærði hafi beðið hana um að draga kæruna til baka og hafi hún gert það. Ákærði hafi þar fyrir utan nokkrum sinnum lagt hendur á sig. Tvisvar sinnum hafi hún leitað á Heilsugæslustöðina í Borgarnesi eftir árásir af hálfu ákærða. Í fyrra sinnið hafi lögregla verið kölluð til og komið henni til hjálpar. Ákærði og hún hafi þá búið að Kveldúlfsgötu í Borgarnesi. Þau hafi komið heim af dansleik og verið komin inn á stigagang í fjölbýlishúsinu. Þá hafi ákærði borið á hana að hún hafi verið að daðra, gripið í hár hennar og skellt höfði hennar utan í vegg. Hafi hún náð að losa sig og hlaupa út úr húsinu. Hafi hún ætlað að komast heim til foreldra ákærða, en er hún hafi verið á leið yfir leikvöll hafi ákærði náð að henda sér á hana og fella hana í malbikið. Í kjölfarið hafi hann ,,lúskrað” á henni. Lögregla hafi komið að en ákærði þá hlaupið á brott. Í seinna skiptið hafi þau komið heim af dansleik. Systur A hafi verið á heimili hennar. Ákærði hafi þá fengið afbrýðisemiskast og borið upp á hana framhjáhald. Hafi hún farið með honum inn í herbergi til að ræða málið en þar inni hafi ákærði slegið hana hnefahögg í andlitið. Hafi hún í kjölfarið leitað á heilsugæslustöðina vegna áverka í andliti.
A kvaðst óttast mjög um líf sitt og hafa gert það í langan tíma fyrir atburðinn. Hafi hún í maí 2005 haft uppi kröfu um að sett yrði nálgunarbann á ákærða gagnvart sér. Kvaðst A vera rórri eftir að ákærði hafi verið handtekinn og vistaður í gæsluvarðahaldi á meðan málið væri til meðferðar. Kvaðst hún ekki mundu hafa þorað að dvelja á heimili sínu að öðrum kosti. A kvaðst hafa reynt að ýta atburðum þessum úr minni sínu. Líði henni þó mjög illa eftir þetta og komi atburðirnir upp í huga hennar svo til á hverjum degi. Kvaðst hún óttast þann dag er ákærði yrði látinn laus á ný. Væri markmið hennar að nota tímann vel með börnum sínum á meðan ákærði væri lokaður inni, því hún væri þess fullviss að hann myndi ljúka því verkefni er hann hafi verið byrjaður á, að enda líf hennar.
D bar að vikuna fyrir þessa atburði hafi ákærða liðið mjög illa. Hafi hann fengið martraðir, verið óvenjulega dapur, en hann hafi reyndar oft verið þannig að honum hafi liðið illa. Að mati D hafi ákærði verið með þunglyndiseinkenni. Hafi það einkum komið fram við áföll, s.s. sambúðarslitin við A. Hafi ákærði ekki virst geta unnið úr því. Hafi ákærði m.a. sagt D að hann hafi alla tíð verið mjög afbrýðisamur gagnvart því að A hitti aðra menn. Að mati D hafi eitthvað borið á því á sambúðartíma þeirra. Hafi ákærði nánast verið ,,heltekinn af afbrýðisemi”. Hafi ákærði nokkrum sinnum gert tilraunir til sjálfsvígs. Hafi ástand hans reyndar gengið í bylgjum. Hafi hann fengið köst öðru hvoru, en dottið niður þess á milli. Ákærði hafi aldrei viðurkennt lyfjamisnotkun fyrir sér. Hann hafi engu að síður vitað að sonur sinn hafi misnotað lyf. Vandamál ákærða hafi í raun verið tengd því að hann hafi ekki leita sér aðstoðar og þar með viðurkennt fyrir sjálfum sér hver vandi sinn væri. Viðurkenni hann nú í hverju vandamál sín séu fólgin. Ákærði hafi í um tvær vikur fyrir atburðinn búið á heimili D í fjölbýlishúsi að Y í Borgarnesi. Þeir feðgar hafi verið heima að kvöldi laugardagsins 27. ágúst 2005. Eftir miðnættið hafi ákærði farið inn í herbergi sitt. Hafi D staðið í þeirri trú að hann hafi farið að sofa.
Fritz H. Berndsen yfirlæknir hefur ritað áverkavottorð vegna A. Kvaðst hann hafa séð af áverkum á höfði A að miklu afli hafi verið beitt við verknaðinn. Áverkarnir hafi verið miklir og skurðir opnast alveg niður að höfuðkúpu. Kvaðst hann telja að A hafi verið sérstaklega lánsöm að látast ekki við atlöguna.
Tómas Zoëga geðlæknir kvað ákærða augljóslega hafa misst tök á sér umrætt sinn en bera að hann muni ekkert af því sem hafi gerst. Sé það þekkt, en engu að síður sé erfitt að skýra það. Um geti verið að ræða sálræna þætti sem grafi minningar um atburðinn. Séu því bæði meðvitaðir og ómeðvitaðir þættir sem stjórni því. Samt sem áður sé ekkert sem bendi til að ákærði hafi ekki verið áttaður er atburðir hafi átt sér stað. Ákærði hafi reynt sjálfsvíg eftir atburðinn. Sé líklegt að hann hafi gert sér grein fyrir hvað hann hafi gert og hafi hann verið að bregðast við því. Í flestum tilvikum geti einstaklingar tekist á við afbrýðisemi. Ákærði hafi verið sjúklega afbrýðisamur og þurft á aðstoð að halda.
Niðurstaða:
Ákærði hefur viðurkennt að hafa farið frá heimili sínu í Borgarnesi, að heimili fyrrum sambýliskonu sinnar A, laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 28. ágúst 2005. Hafi hann beðið í bifreið fyrir utan hús hennar að X í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum hennar. Ákærði hafi séð til hennar um kl. 5.00 um nóttina, en þá hafi hún verið í fylgd með karlmanni. Ákærði kveðst hafa ,,frosið” við það. A og samferðamaður hennar hafi gengið fram hjá húsi A og áfram eftir [götunni]. Hafi ákærði beðið áfram í bifreiðinni til um kl. 9.00 um morguninn er A hafi komið heim. Eftir það ber ákærði að hann muni atburði lítið, minnist þess þó að hafa á einhverjum tíma staðið nærri henni þar sem hún hafi öskrað ,,hættu”, og að hafa komið út úr húsinu með hendur blóðugar.
A hefur lýst því að hún hafi fyrirvaralaust verið laminn í höfuðið aftanfrá þar sem hún hafi verið að bursta tennur sínar inni á baðherbergi heima hjá sér. Hafi hún ítrekað verið lamin í höfuðið, náð að snúa sér við og þá séð ákærða. Hafi hann öskrað á hana, kallað hana ,,helvítis hóru”, að hann hafi vitað hvar hún hafi verið og hvað hún hafi verið að gera. Hafi hún fengið mörg högg í höfuðið en högg hafi hún jafnframt fengið á vinstri höndina er hún hafi reynt að verja sig. Hafi hún ekki náð að opna baðherbergishurðina þar sem ákærði hafi staðið fyrir henni og varnað henni útgöngu. Hafi hún öskrað á hjálp en þá hafi ákærða virst fipast og sagt henni að vekja ekki börnin. Hefur hún fullyrt að hún hafi verið að berjast fyrir lífi sínu umrætt sinn. Eftir að hafa náð að bíta ákærða í hönd eða fingur hafi hún náð að opna hurð að baðherberginu, komist út og upp stiga inn í herbergi til dóttur sinnar.
Áverkavottorð Fritz H. Berndsen yfirlæknis á Sjúkrahúsi Akraness rekur þá áverka er A hlaut þennan morgun. Bar yfirlæknirinn hér fyrir dómi að hann hafi séð af áverkum á höfði A að miklu afli hafi verið beitt við verknaðinn. Áverkarnir hafi verið miklir og skurðir opnast alveg niður að höfuðkúpu. Kvaðst hann telja að A hafi verið sérstaklega lánsöm að látast ekki við atlöguna. Með vísan til afdráttarlauss framburðar A, sem að sínu leyti á einnig stoð í framburði ákærða sjálfs, er að mati dómsins er ekki varhugavert að slá föstu að ákærði hafi valdið A áverkum á höfði með þeim hætti er hún hefur lýst og ákæra miðar við. Lögregla lagði hald á felgujárnslykil inni á baðherbergi að X, en um er að ræða samskonar lykil og ákærði ber að hafi verið í bifreið hans. Verður því slegið föstu að ákærði hafi tekið sér í hendi felgujárnslykil úr bifreið sinni áður en hann fór inn á heimili A og valdið henni áverkunum með lyklinum. Áverkar þeir er ákærði veitti A voru lífsógnandi og verður ekki annað ráðið af vottorði yfirlæknis um áverkana og framburði hans hér fyrir dómi að hending hafi ráðið því að henni var ekki ráðinn bani við atlöguna. Þá verður slegið föstu með framburði ákærða sjálfs, framburði A sem og Tómasar Zoëga geðlæknis, að ákærði hafi verið haldinn sjúklegri afbrýðisemi vegna gruns um að A væri að hitta aðra karlmenn. Verður ekki við annað miðað en að sú afbrýðisemi hafi stjórnað því að hann fór til Akraness umrædda nótt og beið fyrir utan heimili hennar fram undir morgun, allt þar til hann sá hana á gangi með karlmann sér við hlið. Tómas Zoëga hefur borið að ekkert bendi til að ákærði hafi ekki verið áttaður er atburðir hafi átt sér stað og að líklegt sé að hann hafi verið að bregðast við því sem hann hafi gert með tilraun sinni til að svipta sig lífi. Þegar framangreind atriði eru virt og litið er til þess áhalds er ákærði tók sér í hendi áður en hann fór inn í húsið verður ekki við annað miðað en að með ákærða hafi þá búið sá ásetningur að ráða A bana. Veitti hann henni eftirför inn í húsið og fjölmörg högg í óvarið höfuðið með felgulyklinum, um leið og hann varnaði henni för út af baðherberginu. Sú framganga ákærða varðar við 211. gr., sbr. 20. gr., laga nr. 19/1940. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru.
Ákærði hefur gengist undir sátt vegna brota á ákvæðum umferðarlaga. Að öðru leyti hefur hann ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Atlaga ákærða gegn A var ófyrirleitin og beindist gegn lífi hennar. Réð tilviljun ein því að ákærði náði ekki markmiði sínu. Á ákærði sér engar málsbætur. Þegar allt þetta er virt og hliðsjón höfð af 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 31. ágúst 2005 til dómsuppsögu komi til frádráttar refsingu.
Ása Ólafsdóttir héraðsdómslögmaður hefur fyrir hönd A krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Í kröfunni er vísað til þess að brot ákærða hafi valdið A umtalsverðum miska og miklu líkamlegu tjóni. Um hafi verið að ræða hættulega árás þar sem ákærði hafi ítrekað lagt til höfuðs A með járnáhaldi, án þess að A hafi getað spornað við verknaðinum. Hafi A átt sér einskis ills von þegar atvikið hafi átt sér stað. Hún hafi orðið fyrir töluverðu áfalli við brotið sem leitt hafi til mikils miska. Þá óttist hún um líf sitt og heilsu. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.
Það er niðurstaða dómsins að atlaga ákærða gagnvart A hafi valdið henni miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti sýslumanns um sakarkostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Lárus Már Hermannsson, sæti fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Gæsluvarðhald ákærða frá 31. ágúst 2005 til dómsuppsögu komi til frádráttar refsingu.
Ákærði greiði A, [kt.], 700.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 28. ágúst 2005 til 20. október 2005, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 873.092 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Inga Tryggvasonar héraðsdómslögmanns 487.592 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola Ásu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanns 99.600 krónur.