Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-125

Vinnslustöðin hf. (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
A (Eva B. Helgadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sjómaður
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Slys
  • Orsakatengsl
  • Dómari
  • Dómstóll
  • Réttlát málsmeðferð
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 4. apríl 2019 leitar Vinnslustöðin hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. mars sama ár í málinu nr. 575/2018: Vinnslustöðin hf. gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. A leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu leyfisbeiðanda vegna afleiðinga slyss sem hann kveðst hafa orðið fyrir um borð í skipi þess síðarnefnda þegar hann hafi runnið til og rekið annan fótinn upp undir koll. Við þetta hafi hann fengið sár á tá sem hafi síðar valdið sýkingu og eyðingu í beini og hafi í kjölfarið þurft að fjarlægja tána og hluta af ristarbeini. Ágreiningur aðila snýst einkum um hvort skilyrðum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu sé fullnægt þannig að til skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda komi. Með fyrrnefndum dómi staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda á grundvelli 1. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en lagt var til grundvallar að slysið og sykursýki sem gagnaðili hafi átt við að etja hafi verið samverkandi orsakir líkamstjóns hans og yrði leyfisbeiðandi að sæta því að gagnaðili hafi verið veikari fyrir að þessu leyti. Þá var gagnaðili ekki talinn hafa sýnt af sér vítavert gáleysi við meðferð á sárinu þannig að efni væru til að fella niður fébætur eða lækka þær.

Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið farið að lögum við skipun eins af dómurunum sem þar fóru með það. Af þeim sökum hafi málsmeðferðin ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, að skipan dómstóls skuli ákveðin með lögum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019 í máli nr. 26374/18. Verði því ekki komist hjá að ómerkja dóm Landsréttar. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða í dómi Landsréttar um túlkun á slysahugtaki siglingalaga og mat á orsakatengslum sé bersýnilega röng en einnig sé dómurinn rangur að formi til sökum þess að ekki hafi verið fjallað þar um tiltekna málsástæðu leyfisbeiðanda. Þá telur hann í þriðja lagi að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi um skilgreiningu á hvað sé slys í skilningi siglingalaga og mat á orsakatengslum og sennilegri afleiðingu. Loks varði málið sérstaklega mikilsverða hagsmuni sína.

Að virtum fyrirliggjandi gögnum verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um fyrrgreind atriði á sviði skaðabótaréttar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.