Hæstiréttur íslands

Mál nr. 606/2012

A (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
gegn
Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.)

Lykilorð

  • Meðdómsmaður
  • Líkamstjón
  • Árslaun
  • Skaðabætur
  • Sönnunarmat


Meðdómsmaður. Líkamstjón. Árslaun. Skaðabætur. Sönnunarmat.

A hlaut líkamstjón í umferðarslysi. Öfluðu aðilar sameiginlega matsgerðar þar sem lagt var mat á tímabundnar og varanlegar afleiðingar tjónsins. Þáverandi lögmaður A setti fram kröfu á hendur T hf. á grundvelli matsins en skömmu síðar ritaði annar lögmaður bréf til T hf. þar sem fram kom að áverkar sem A hefði hlotið í slysinu væru ekki fullkannaðir og að A vildi ekki taka við bótum sem reistar væru á matinu. Í kjölfarið aflaði A einhliða sérfræðimatsgerðar og höfðaði mál þar sem hann krafði T hf. um bætur vegna líkamstjónsins á grundvelli niðurstöðu hennar. Eftir að málið var höfðað greiddi T hf. bætur og kostnað til A á grundvelli fyrri matsgerðarinnar. A gerði aðallega þá kröfu fyrir Hæstarétti að dómur héraðsdóms yrði ómerktur en á það var ekki fallist. Taldi Hæstiréttur þannig að ekki hefði verið þörf á því að skipa dóminn tveimur sérfróðum meðdómsmönnum auk embættisdómara. Þá hefði héraðsdómur tekið rökstudda afstöðu til málsástæðna A og fjallað um sönnunar- og lagaatriði í samræmi við áskilnað í f. lið 1.mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að leggja ætti matsgerð þá sem aðilar hefðu aflað sameiginlega til grundvallar ákvörðun bóta til handa A þótt á henni hefðu verið nokkrir ágallar. Var vísað til þess að sérfræðimatsgerðin hefði verið annmörkum háð og hefði A ekki tekist að hnekkja niðurstöðum fyrri matsgerðarinnar. Þá var fallist á það með héraðsdómi að ekki væru skilyrði til að ákvarða árslaun A sérstaklega á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og hefði T hf. því verið rétt að miða útreikning bóta fyrir varanlega örorku við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna. Var T hf. sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. september 2012. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að stefnda verði gert að greiða sér 15.370.000 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.256.000 krónum frá 24. mars 2009 til 24. júní sama ár, af 15.370.000 krónum frá þeim degi til 12. september 2011 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 25. ágúst 2011 að fjárhæð 1.000.000 krónur, 20. september sama ár 500.000 krónur og 19. október sama ár 2.878.646 krónur. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 8.899.996 krónur, en að því frágengnu 5.359.197 krónur með sömu vöxtum og í varakröfu greinir og að frádregnum sömu innborgunum og þar greinir. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti sem og að niðurstaða héraðsdóms um gjafsóknarkostnað hans verði staðfest.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Áfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns er hann hlaut í umferðarslysi 24. mars 2009. Er atvikum að slysinu lýst nánar í hinum áfrýjaða dómi auk meðhöndlunar lækna sem áfrýjandi leitaði til í kjölfar slyssins. Áfrýjandi undirritaði umboð 12. október 2009 til handa Óðni Elíssyni, hæstaréttarlögmanni og fól honum að gæta hagsmuna sinna gegn þeim, er veitt hafði skyldutryggingu vegna bifreiðarinnar sem áfrýjandi ók, þegar slysið varð. Lögmaðurinn aflaði meðal annars læknisfræðilegra gagna um líkamstjón áfrýjanda og beiddist svo sameiginlega með stefnda, sem viðurkennt hafði bótaskyldu sína vegna slyssins, að þeir B, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum og C, héraðsdómslögmaður, legðu mat á tímabundnar og varanlegar afleiðingar þess líkamstjóns er áfrýjandi hlaut í slysinu. Þeir luku matsgerð sinni 9. desember 2010. Niðurstaða þeirra var sú að tímabil þjáningabóta væri einn mánuður frá slysdegi og að áfrýjandi hefði verið veikur þann tíma, án þess að vera rúmliggjandi. Þeir töldu að áverkar, sem áfrýjandi hefði hlotið í slysinu er yllu honum óþægindum og telja yrði varanlegar afleiðingar, væru tognun í hálshrygg, brjósthrygg og vinstri nára. Matsmennirnir töldu ,,varanlegan miska vegna slyssins 24.03.2009 hæfilega metinn fimmtán stig. Við það mat hefur verið stuðst við miskatöflu örorkunefndar.“ Varanleg örorka áfrýjanda var metin 10%. Auk þeirrar starfsorkuskerðingar, sem leiddi af líkamstjóninu sjálfu, tóku matsmenn sérstakt tillit til þess að vegna andlegrar vanheilsu og afleiðinga sjóvinnuslyss, sem áfrýjandi lenti í 1994, hafi starfsorka hans fyrir umferðarslysið verið verulega skert. Matsmenn töldu ekki líklegt að áfrýjandi hefði haft fulla atvinnuþátttöku í framtíðinni þótt hann hefði ekki lent í umferðarslysinu.

Að fenginni matsgerðinni setti þáverandi lögmaður áfrýjanda fram kröfu 13. janúar 2011 á hendur stefnda um greiðslu bóta vegna líkamstjónsins og var útreikningur bótafjárhæða reistur á niðurstöðum í fyrrgreindri matsgerð. Annar lögmaður ritaði stefnda bréf 20. janúar 2011 og tilkynnti um nýtt umboð frá áfrýjanda sér til handa vegna hagsmunagæslu fyrir hann. Taldi lögmaðurinn áverka sem áfrýjandi hlaut í umferðarslysinu ekki fullkannaða, til dæmis hefði hann fengið höfuðhögg, mjóbaksáverka og af því leiddu einnig verkir í öxl. Kvað lögmaðurinn áfrýjanda ekki vilja taka við bótum, er reistar væru á því mati, sem fyrir lægi.

Í framhaldi af þessu var aflað af hálfu áfrýjanda frekari læknisfræðilegra gagna um afleiðingar umferðarslyssins. Meðal annars var framangreindum matsmönnum ritað bréf 9. mars 2011 og óskað nánari skýringa á því hvers vegna tilgreindir áverkar sem áfrýjandi hafi hlotið í slysinu væru ekki taldir hafa varanlegar afleiðingar. Auk þess var óskað upplýsinga um hvernig varanlegir áverkar væru færðir til stiga í miskatöflu örorkunefndar. Matsmennirnir munu ekki hafa svarað bréfinu, sem áfrýjandi kveðst þó hafa ítrekað oftar en einu sinni.

Áfrýjandi beiddist þess einhliða 27. apríl 2011 að D, héraðsdómslögmaður og E, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, mætu meðal annars varanlegar afleiðingar líkamstjónsins, sem hann hlaut í umferðarslysinu. Þeir skiluðu áfrýjanda matsgerð 12. ágúst 2011, en þar kom auk annars fram að þeir hafi beint fyrirspurn bæði til áfrýjanda og stefnda um, hvort þeir óskuðu eftir að leggja fram ný gögn við matið. Niðurstaða þessara matsmanna um varanlegan miska og varanlega örorku var í báðum tilvikum með tveimur valkostum, sem settir voru fram í A og B liðum. Niðurstaða í A lið var miðuð við það líkamstjón áfrýjanda ,,sem hann skv. gögnum virðist örugglega hafa orðið fyrir“ og einkenni sem hann glímdi enn við. Í B lið var á hinn bóginn miðað við það líkamstjón áfrýjanda ,,sem hann virðist hafa orðið fyrir (leiða má líkum að) og einkenna sem hann glímir enn við, en fyrst virðist vera getið í gögnum nokkuð eftir slysið.“ Varanlegan miska mátu matsmenn svo að samkvæmt valkosti A væri hann 15 stig en samkvæmt valkosti B væri hann 10 stig til viðbótar eða samtals 25 stig. Varanleg örorka var metin svo að samkvæmt valkosti A væri hún 15% en samkvæmt valkosti B 25%. Í matsgerðinni var meðal annars að finna kafla um tekjusögu áfrýjanda árin 2006 til 2010. Samkvæmt því yfirliti og með hliðsjón af skattframtölum áfrýjanda og yfirliti um staðgreiðslu hans fyrir þennan tíma hefur hann haft nánast allt sitt framfæri af greiðslum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Tryggingastofnun ríkisins, en launatekjur hans verið hverfandi.

Að fenginni þessari matsgerð höfðaði áfrýjandi mál þetta eins og áður segir. Eftir að málið var höfðað greiddi stefndi 19. október 2011 bætur og kostnað til lögmanns áfrýjanda á grundvelli matsgerðar þeirra B og C. Félagið hafði ekki áður samþykkt niðurstöður matsgerðarinnar. 

II

Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir áfrýjandi einkum á því að dómurinn hefði átt að vera fjölskipaður, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem dómurinn þurfti að taka afstöðu til tveggja matsgerða sérfróðra manna. Nauðsyn hafi borið til að kveðja til tvo meðdómsmenn, sérfróða um þá áverka, sem málið snúist um, til þess meðal annars að unnt væri að taka afstöðu til hvernig áverkarnir væru færðir undir miskatöflu örorkunefndar. Þá hafi dómurinn ekki tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu áfrýjanda í héraði, sem studd hafi verið við 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að matsgerð þeirra B og C væri markleysa því þeir hafi ekki, svo séð verði, stutt mat sitt á varanlegum miska við töflu örorkunefndar. Þá hafi héraðsdómur ekki fjallað um þá málsástæðu áfrýjanda að hann hafi með réttum hætti aflað einhliða sérfræðimatsgerðar samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga. Loks hafi héraðsdómur ekki með skýrum hætti tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu áfrýjanda að stefndi hafi ekki, er málið var þingfest, greitt neitt inn á kröfu áfrýjanda og ekki upplýst eftir að síðari matsgerðin lá fyrir, hvort félagið ætlaði að greiða bætur á grundvelli hennar eða afla álits örorkunefndar eða fá dómkvadda menn til að meta afleiðingar líkamstjónsins.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram sú meginregla að einn dómari skipi dóm í hverju máli. Í 2. mgr. segir að ef deilt sé um staðreyndir er séu bornar fram sem málsástæður og dómari telji þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr geti hann kvatt til tvo meðdómsmenn sem hafi slíka kunnáttu. Í héraði reisti áfrýjandi aðal- og varakröfu sína einkum á matsgerð þeirra D og E en stefndi krafðist sýknu þar sem hann hefði þegar greitt fullar bætur samkvæmt matsgerð B og C. Það er hlutverk dómara samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 að taka afstöðu til þess, hvaða sönnunargögn verði lögð til grundvallar niðurstöðu dóms. Það reyndi á lögfræðilega þekkingu héraðsdómara þegar hann lagði mat á sönnunargildi matsgerðanna tveggja og hvort matsmenn hafi gætt réttra aðferða við matsstarfann. Héraðsdómari færði lögfræðileg rök fyrir því að leggja bæri til grundvallar matsgerð B og C og fól það með engum hætti í sér endurskoðun á læknisfræðilegu mati eða ályktunum. Verður hafnað að ómerkja beri héraðsdóm af þeirri ástæðu að hann hafi átt að vera skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum auk embættisdómara.

Í hinum áfrýjaða dómi er skýrlega tekin afstaða til þess að þótt áverkar áfrýjanda séu ekki sérstaklega færðir undir miskatöflu örorkunefndar í matsgerð B og C sé ekki sýnt fram á að taflan hafi ekki verið lögð til grundvallar við matið. Þá segir einnig í dóminum að áfrýjandi hafi átt þess kost, ef hann vildi ekki una niðurstöðu í mati því, sem aðilar öfluðu sameiginlega, að óska eftir að örorkunefnd legði mat á afleiðingar líkamstjónsins, sbr. 10. gr. skaðabótalaga, eða beiðast dómkvaðningar matsmanna. Áfrýjandi hafi hvorugt gert heldur aflað einhliða matsgerðar, en sú matsgerð hnekki ekki þeirri matsgerð, sem aðilar öfluðu sameiginlega. Segir svo í dóminum að matsgerð þeirra B og C verði lögð til grundvallar við úrlausn ágreiningsefna í málinu. Í framhaldi af því er tekin afstaða til bóta fyrir þá þætti, sem eintakir kröfuliðir voru reistir á. Í dóminum er einnig tekin nægilega skýr afstaða til annarra málsástæðna áfrýjanda. Með vísan til þessa og hins áfrýjaða dóms er vafalaust að héraðsdómur hefur tekið rökstudda afstöðu til málsástæðna áfrýjanda og fjallað um sönnunar- og lagaatriði, eins og ætlast má til, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Verður kröfu um ómerkingu af þeirri ástæðu, að ekki sé tekin afstaða til allra málsástæðna áfrýjanda, því hafnað.

 

III

Varakröfu sína fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi á matsgerð þeirra D og E. Hið sama á að hluta við um kröfuna sem hann gerir að varakröfunni frágenginni. Í varakröfunni er miðað við valkosti B um varanlegar afleiðingar. Auk þess er við það miðað að ákvarða beri árslaun sérstaklega þar sem skilyrði til þess séu fyrir hendi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Áfrýjandi hafnar því að leggja beri lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. til grundvallar útreikningi bóta fyrir varanlega örorku. Miða beri við árslaun ,,í þeirri starfsgrein sem [áfrýjandi] hafi menntað sig og hafi réttindi til að stunda.“

Matsgerð þeirra B og C var aflað sameiginlega af aðilum. Áttu þeir þess báðir kost að leggja fram gögn og koma að upplýsingum við matið. Áfrýjandi telur að ekki sé unnt að leggja mat þeirra á varanlegum miska til grundvallar þar sem þeir hafi ekki fært einstök varanleg einkenni til stiga í miskatöflu örorkunefndar. Því sé ekki unnt að sjá, hvernig varanlegur miski sé fundinn. Matsmennirnir hafi í engu svarað ítrekuðum fyrirspurnum áfrýjanda um nánari útlistun á miskamatinu. Þótt ákvæði 4. gr. skaðabótalaga um mat á varanlegum miska beri með sér að um heildarmat sé að ræða, sem annars vegar sé reist á afleiðingum líkamstjóns frá læknisfræðilegu sjónarmiði og hins vegar í undantekningartilvikum skuli líta til sérstakra erfiðleika sem líkamstjón kann að valda í lífi tjónþola, var matsmönnum samt rétt að útlista mat sitt nánar að beiðni áfrýjanda. Var það einkum eðlilegt þar sem um fjölþætt líkamstjón var að ræða, og áfrýjandi hafði að minnsta kosti þrenns konar einkenni sem voru metin og hlaut að þurfa að færa hvert og eitt til stiga samkvæmt miskatöflu örorkunefndar. Var ekki sjálfgefið hvernig niðurstaða matsins á varanlegum miska var fengin.

Matsgerð þeirra D og E er annmörkum háð. Mat á varanlegum afleiðingum líkamstjónsins var sett fram með tveimur valkostum eins og fyrr greinir. Mat á varanlegum miska var samkvæmt valkosti A 15 stig, sem var sama niðurstaða og í matsgerð B og C. Viðbót í valkosti B fól í sér mat á einkennum sem matsmenn töldu ,,að leiða megi líkum að“ að rekja mætti til afleiðinga umferðarslyssins. Verður þessi aðgreining valkostanna ekki skilin öðru vísi en svo að matsmennirnir D og E hafi talið að afleiðingarnar sem þeir tilgreindu í valkosti B væru ekki að þeirra mati nægilega sannaðar. Við mat þeirra á varanlegri örorku, sem ekki var eingöngu læknisfræðilegt mat, er ekki nægilegt tillit tekið til þess að áfrýjandi hafði vart verið á vinnumarkaði síðustu árin fyrir slys og atvinnuþátttaka hans allt frá sjóvinnuslysinu 1994 lengst af verið stopul. Samkvæmt þessu verður fallist á með héraðsdómi að áfrýjandi hafi ekki hnekkt niðurstöðum í matsgerð þeirra B og C á afleiðingum líkamstjónsins, sem hann hlaut í umferðarslysinu 24. mars 2009, þrátt fyrir framangreinda ágalla á henni. Ber því að leggja hana til grundvallar ákvörðun bóta.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður einnig staðfest niðurstaða hans um að ekki séu skilyrði til að ákvarða árslaun sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, og því hafi stefnda verið rétt að miða útreikning bóta fyrir varanlega örorku við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. sömu greinar.

Með skírskotun til alls framangreinds verður hafnað öllum kröfum áfrýjanda og niðurstaða héraðsdóms staðfest. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða einnig staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, A, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. maí sl., var höfðað 1. september 2011.

Stefnandi er A, […].

Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi gerir aðallega þær dómkröfur að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 15.370.000 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 24. mars 2009, til 12. september 2011 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 1.000.000 króna sem greidd var 25. ágúst 2011, 500.000 krónum sem greiddar voru 20. september 2011 og 2.878.646 krónum sem greiddar voru 19. október 2011.

Stefnandi gerir til vara þær dómkröfur að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 9.290.850 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 24. mars 2009, til 12. september 2011 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 1.000.000 króna sem greidd var 25. ágúst 2011, 500.000 krónum sem greiddar voru 20. september 2011 og 2.878.646 krónum sem greiddar voru 19. október 2011.

Stefnandi gerir til þrautavara þær dómkröfur að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 6.610.750 ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 24. mars 2009, til 12. september 2011 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 1.000.000 króna sem greidd var 25. ágúst 2011, 500.000 krónum sem greiddar voru 20. september 2011 og 2.878.646 krónum sem greiddar voru 19. október 2011.

Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu, þar sem hliðsjón verði höfð af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og þeim kostnaði sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna málsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu  af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

Málavextir

Málavextir eru þeir að hinn 24. mars 2009 ók stefnandi bifreiðinni […],  af tegundinni […]  á Vesturlandsvegi við […] í Borgarbyggð. Var hann á leið frá […] til Reykjavíkur, þar sem faðir hans lá banaleguna og ætlaði stefnandi sér að sjá föður sinn áður en hann skildi við.  Stefnandi kveðst hafa ekið á um 70 km hraða á klukkustund.  Bifreiðin hafi allt í einu tekið að rása á veginum vegna hálku. Bifreið hafi komið úr gangstæðri átt þannig að hann hafi átt erfitt með að halda bifreiðinni á veginum. Lenti bifreiðin utan vegar og fór tvær og hálfa veltu  auk þess að renna eftir ójafnri jörð utan vegarins. Var bifreiðin skráð ónýt og skráningarmerki klippt af bifreiðinni.

Stefnandi kveðst við veltuna hafa sett fæturna undir stýrið og gripið í það með höndunum og haldið sér þannig eins stöðugum og hægt var.  Hann hafi hlotið mörg högg,  meðal annars högg ofan á höfuðið er bifreiðin valt. Þá hafi kraftarnir verið slíkir að hann hafi hvað eftir annað henst til en öryggisbeltið hafi haldið honum föstum.

Læknir kom á vettvang og hlúði að stefnanda eftir óhappið. Hann taldi ekki ástæðu til þess að flytja stefnanda á sjúkrastofnun til frekari aðhlynningar. Lögreglan keyrði stefnanda síðan til Reykjavíkur.

Í vottorði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands kemur m.a. fram að fram,  að stefnandi hafi skýrt lækni, sem skoðaði hann á slysstað,  frá því að hann hafi fengið högg  ofan í hvirfilinn, en annars segir svo í vottorði heilbrigðisstofnunarinnar:

„Nóta frá [F] lækni þann 24. 3. 2009. [A] var á leið suður akandi einn í einkabíl. Var í bílbelti. Missti stjórn á bílnum í krapi og roki, rétt sunnan við […] á þjóðvegi 1. Fór tvær veltur. Man vel eftir atviki.  Segist hafa fengið högg á hvirfilinn, en kenni hvergi til. Ekki með verki, svima eða slappleika.  Við skoðun vel vakandi, skýr og áttaður. Stór og sterkbyggður.“

Stefnandi heldur því fram að þegar hann kom aftur á […] hafi honum versnað, hann orðið  stirður og aumur. Hann hafi strax beðið um að fá að fara til læknis og hafi þurft að leggja fram beiðni þar um. Það hafi síðan fengist í gegn 27. mars 2009, að hann kæmist til læknis og fengi verkjalyf. Stefnandi kveðst einnig hafa verið hryggur og langt niðri á þessum tíma vegna föður síns og mest legið fyrir og lítið gert í sínum málum.

Í fyrrgreindu vottorði frá heilbrigðisstofnuninni, í nótu frá G lækni frá 27. mars 2009, kemur fram að stefnanda leið illa í brjóstkassanum og hafði  áhyggjur af því að hafa brákað eða brotið rifbein. Hann kvartaði einnig um verk í vinstri náranum.

Um skoðun læknisins segir:  „Líkamsstaða og beiting eðlileg við göngu. Mar neðst á vinstra herðablaði og aðeins út í vinstri síðuna. Gamalt mar orðið brúnleitt. Er aumur við palpation þar fyrir og einnig vægari eymsli yfir hægri brjóstkassanum. Þrýst indirekt á brjóstkassann og ekki klínisk merki um rifbeinsbrot. Ekki að sjá nein önnur áverkamerki eða eymsli við skoðun. Álit: Mar og bólgur í mjúkpörtum eftir bílveltu. Plan: Verkjalyf pn (íbúfen og paratabs).“

Stefnandi segir að honum hafi enn versnað og því sett fram nýja beiðni um að fá að fara til læknis og hafi það orðið hinn 8. apríl 2009, en í nótu H, læknis frá þeim degi segir svo:

„1.hnakki aumur í trapezuius-trigger bilateralt, aumur í djúpa hnakki festar hægra megin. Aumur starnocleidummastiodeus hægra megin, ekki aumur á processus spinoideus. Öxl vinstra megin aumur svarandi til beltis toraclhryggur vinstra megin aumur og stirður hægri framhandlegg vöðvakippir við álag hægri fótleggur aumur yfir hné.“

Stefnandi fékk síðan leyfi til að fara aftur til læknis hinn 29. maí 2009, þar sem hann var enn þjáður af verkjum sem hann hafi haft síðan í umferðarslysinu þann 24. mars 2009. Í nótu frá H frá þeim degi segir svo:

„mjög aumur í djúpa vöðvafesti svarandi til STM hæ megin. Líka töluvert aumur svarandi til brjóskfestingar á vinstri manubrium sterni. Þetta tengist líklega slysi. Taka Celebra í 2 vikur.“ Að sögn stefnanda Celebra er þunglyndislyf.“

Stefnandi bendir á að hann hafi ekki verið rannsakaður ítarlega og ekki af sérfræðingum í bæklunarlækningum. Hann hafi aðeins fengið verkjalyf til að slá á  mestu verkina sem hann bjó við og fékk ef hann hreyfði sig eitthvað.

Er leið fram á árið 2009 kveðst stefnandi hafa sótt um að komast að hjá […]. Til þess þurfti að fá vinnu sem sækja átti frá þeim stað. Stefnandi kveðst hafa komist þangað í ágúst 2009 og hafi fyrst farið að vinna hjá […], þar sem hann hafi verið í tvo til þrjá daga. Þá hafi hann hafið vinnu sem kjötiðnaðarmaður hjá […] og unnið  þar til reynslu í  um þrjár vikur. Hafi vinnan farið fram í kældu rými og hafi það haft verulega slæm áhrif á hann. Hann hafi fljótlega fundið fyrir verkjum í handleggjum, hálsi og baki, þannig að hann gat ekki stundað þessa vinnu, sem honum þótti mjög miður, þar sem þarna var góður starfsandi, sem hafði góð áhrif á hann.

Stefnandi leitaði til I bæklunarlæknis. Í vottorði hans frá 20. desember 2009 segir að stefnandi hafi leitað til hans í september 2009. í vottorðinu segir svo m.a.:

„Hér er um að ræða hressilegan ungan karlmann sem er kraftalega vaxinn. 187 cm á hæð og um 100 kg að þyngd. Er með innlegg í skóm eftir lærbrotið [sem hann hlaut 1992] og hægri ganglimurinn er nokkuð styttri. [A] náði með höku að bringu en í endastöðu komu fram eymsli efst á brjóstbakssvæði. Yfirréttugeta aðeins skert vegna eymsla á sama svæði. Eins voru eymsli í endastöðu snúninga til hægri og var hreyfigeta þar aðeins 60 gráður. Snúningsgeta höfuðs 70 gráður til vinstri og eymslalaus. [A] verulega stirður í hliðarsveigjum um hálshrygg en eymslalausar. Engin miðlínueymsli til staðar upp eftir hálshrygg. Þá voru eymsli yfir aðlægum vöðvum hægra megin á hálshryggssúlu og upp í hnakkfestur þeim megin. Axlahreyfingar eðlilegar en eymsli við herðablöð og sérstaklega vinstra megin í efstu gráðu frásveigju handleggja. Það voru nokkur þreyfieymsli yfir tvíhöfðavöðvum og lófa megin á framhandleggjum en hreyfigeta taldist eðlileg um olnboga og úlnliði þó svo að supination og pronation (lófa snúið upp og lófa snúið niður) hafi verið nokkuð stirð. Snúningsgeta um brjóstbak aðeins skert vegna eymsla á neðanverðu brjóstbakssvæði. Framsveigja um mjóbak eðlileg og sársaukalaus. Yfirréttu geta skert og sérstaklega var skerðing í hliðarsveigjum til beggja átta vegna eymsla á mjóbakssvæði og þá öllu meira vinstra megin. Það voru fjarðureymsli niður allt bak en verst voru þessi eymsli neðst yfir lendhryggsúlu. Engin paravertebral eymsli á brjóstbaksvæði en paravertebral eymsli á öllu mjóbakssvæði og öllu meira hægra mgin. Engin eymsli yfir spjaldliðum. Eymsli yfir báðum stórum mjaðmahnútum og öllu meiri vinstra megin. Skerðing á snúningshreyfingum  um báða mjaðmaliði vegna eymsla á stóru mjaðmahnútusvæðum. Við 60 gráða SLR á vinstri gagnlim komu fram eymsli í vinstri nára og á vinstra rassvöðvasvæði. Gróf taugaskoðun útlima eðlileg.“

Í samantekt í sama vottorði kemur fram að lækninum þykir greinilegt að miðað við háorkuáverka og það sem fannst við skoðun þá hafi stefnandi fengið þó nokkurn tognunaráverka á líkama.

Í vottorði J bæklunarlæknis, frá 11. júní 2010, segir í ályktun hans að við slysið hafi stefnandi hlotið slink á alla hryggsúluna og hafi tognað þar. Þrátt fyrir ýmiss konar meðferð hafi hann enn, rúmu ári eftir slysið, einkenni sem há honum í daglegu lífi og gera það að verkum að hann á í erfiðleikum með mörg störf. Frekari meðferðarmöguleikar séu vart fyrir hendi aðrir en þeir sem hann getur sjálfur gert og hafi fengið leiðbeiningar um. Taldi hann nú tímabært að meta afleiðingar slyssins.

Með umboði til lögmanns, dags. 12. október 2009, veitti stefnandi lögmanninum Óðni Elíssyni hrl. umboð til hagsmunagæslu fyrir sína hönd.

Þáverandi lögmaður stefnanda annaðist gagnaöflun fyrir hönd stefnanda og með matsbeiðni, dags. 6. júlí 2010, óskuðu lögmaður stefnanda og hið stefnda félag sameiginlega eftir því að B læknir og C lögmaður framkvæmdu mat á afleiðingum slyssins í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993.

Niðurstaða matsmanna lá fyrir í matsgerð, dags. 9. desember 2010. Niðurstaða matsmanna var sú að við slysið hefði stefnandi hlotið 15 stiga varanlegan miska og 10% örorku. Á grundvelli matsgerðarinnar var gerð bótakrafa á hendur stefnda með bótakröfu, dags. 13. janúar 2011.

Áður en stefndi tók afstöðu til bótakröfunnar barst nýtt umboð stefnanda til Steingríms Þormóðssonar hrl., þar sem fyrra umboð til Óðins Elíssonar hrl. var afturkallað. Jafnframt var stefnda tilkynnt að stefnandi vildi ekki taka við bótum samkvæmt því mati sem framkvæmt hafði verið og að hann myndi afla matsgerðar hjá óvilhöllum matsmönnum.

Núverandi lögmaður stefnanda hóf gagnaöflun að nýju. Í málinu liggur fyrir vottorð J læknis, dags. 7. apríl 2011. Í ályktun segir: „Hér er um að ræða mann sem lendir í háorkuslysi og hlýtur áverka á höfuð, háls, herðar, brjósthrygg og brjóstkassann og báða handleggi, þegar slysið á sér stað heldur hann stíft um stýrið  og bílinn veltur og kastast til og við það fær hann áverka upp í axlir- og herðasvæðið, sömuleiðis mun bílbeltið hafa þrengst í kringum mjaðmagrindina og valdið einkennum frá mjóbaki og nárum  og einnig mun hann hafa rekið hægra hné utan í og marist þar.“

Stefnandi leitaði einnig til K taugalæknis aðallega til að ganga úr skugga um hvort hann hefði hlotið taugaskaða í slysinu, en hann kveðst hafa haft kippi í hægri hendi frá slysi, sérstaklega eftir átök með leiðniverkjum. K skoðaði stefnanda hinn 18. febrúar 2011. Í niðurlagi vottorðs hans frá 17. apríl 2011 segir svo:

„[A] (eins og undirritaður sér hann 18. 2. 2011) er með mjög slæmar tognanir yfir hnakkfestum, hnakka – og herðavöðvum, niður eftir öllu baki sérstaklega slæmt í mjóbaki, utanvert á mjöðmum báðum megin ásamt rasskinnum báðum megin og í vinstri nára. Auk þess eru veruleg eymsli yfir kjálkaliðum (TMJ).“

Síðan segir:

„Læknirinn sem kom á slysstað fékk engar kvartanir frá [A] og fann ekkert við skoðun en þrem dögum seinna á heilsugæslustöðinni í […] eru komin veruleg eymsli yfir vinstra herðablað og niður eftir síðunni og var mar þar að sjá sem var orðið brúnleitt. Það voru einnig veruleg eymsli i vinstri nára. Hálfum mánuði seinna á sama stað voru verkir í hægra hné og brjósthrygg ásamt eymslum við skoðun. Veruleg eymsli í vinstri öxl og hnakka og herðum. Þá kvartaði [A] einnig um verk í hægra hné.“

Stefnandi aflaði einhliða örorkumats hjá D lögmanni og E lækni. Þeir mátu tjón stefnanda þannig:

Varanlegur miski skv. 4. gr.:

A.                 15 stig-fimmtán af hundraði (samtals: háls, brjóstbak, vinstri nári, vinstri öxl).

B.                 25 stig-tuttugu og fimm af hundraði (sé einnig horft til hægri axlar og auk.eink. í mjóbaki)

Varanleg örorka skv. 5. gr.:

A.                15%-fimmtán af hundraði (sjá A og B að ofan í§IX.3)

B.                  25%-tuttugu og fimm af hundraði (sjá A og Bað ofan í § IX.3)

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja bótakröfu sína á hendur hinu stefnda félagi á 92. grein umferðarlaga, sbr. 88. grein sömu laga. Þegar hann slasaðist hafi verið ökumaður bifreiðar sem tryggð var hjá félaginu. Til grundvallar kröfum sínum á tryggingafélagið vísar stefnandi einnig til 95. greinar umferðarlaga. Byggir stefnandi á að hann hafi sótt sér mat samkvæmt skaðabótalögum á grundvelli 10. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, einsog hann hafi heimild til að gera.

Stefnandi byggir á að ekki sé ágreiningur um bótaskyldu. Ágreiningur sé

hins vegar um orsakasamband milli áverka á hægri öxl og mjóbaki og umferðarslyssins.Þá byggir stefnandi kröfu sína einnig á 2. mgr. 121. greinar vátryggingasamningalaga nr. 30/2004, sbr. 24. grein þeirra. Hafi hið stefnda félag aðeins greitt stefnanda brot af þeim bótafjárhæðum sem hann eigi augljósan rétt til, sem  sé skýrt brot á 24. grein vátryggingasamningalaga, þar sem ella væru þau gögn,  sem stefnandi hafi aflað um áverka sína frá virtum læknum markleysa, sem og fyrirliggjandi matsgerðir að öllu leyti. Í því sambandi vísar stefnandi til eftirfarandi orðalags 2. mgr. 24. greinar vátryggingasamningalaga nr. 20/1954 en þar segi: „Ef augljóst er orðið, áður en endanleg ákvörðun bótanna getur átt sér stað, að félaginu beri að minnsta kosti að greiða nokkurn hluta upphæðar þeirrar, er það er krafið um, má krefjast greiðslu á þeim hluta hennar samkvæmt reglum þeim, sem settar eru í 1. mgr. þessarar greinar.

Stefnandi rökstyður aðalkröfu sína með neðangreindum hætti og byggir kröfuna alfarið á framlögðu sérfræðimati þeirra E og D.

                 1.  Miskabætur: 9.132.000 x 25 stig

2.203.000 kr.

2.  Bætur fyrir varanlega örorku:

     5.020.000x10.450 x 25%

13.122.200 kr.

3.  Þjáningatímabil 30 d

53.000 kr.

Samtals stefnufjárhæð

15.370.000 kr.

Nánar séu kröfur þessar rökstuddar með eftirfarandi hætti: 

1.Bætur fyrir miska séu grundvallaðar á sérfræðimatsgerð D og E og 4. grein skaðabótalaga, þannig:  4.000.000x7493/3282=9.132.000. Byggi stefnandi einnig á 2. mgr. 15. greinar skaðabótalaga.

2.Bætur fyrir varanlega örorku séu byggðar á niðurstöðu sérfræðimatsgerðarinnar og 5. grein skaðabótalaga og 2. mgr. 7. greinar skaðabótalaga, þar sem mælikvarði 1. mgr. 7. greinar sé ekki fyrir hendi byggi stefnandi á að sanngjarnt sé að miðað sé við laun í þeirri starfsgrein sem stefnandi hafi menntað sig og hafi réttindi til að stunda. Sé miðað við 419.000 krónu mánaðarlaun (dómskjal nr. 26) og aldursstuðulinn 10,456 miðað við stöðugleikatímapunkt.

3.    Þjáningabætur séu byggðar á 3. grein skaðabótalaga.

Stefnandi byggi á því að hann hafi ekki farið í skoðun til sérfræðings í bæklunarlækningum fyrr en  um haustið 2009 er hann losnaði úr þeirri fangavist sem hann hafði verið vistaður í. Bæði I og J höfðu þá  þegar greint hann með margvíslegar tognanir vítt og breytt um líkamann og þá einmitt í mjóbaki og öxlum, eftir umferðarslysið, sem þeir telji báðir að hafi orsakað svokallaða háorkuáverka, sem þýði að stefnandi hafi í slysinu orðið fyrir þungum höggum vítt og breytt um líkamann. 

Þá sé það ljóst að þeir læknar sem skoðuðu stefnanda fram að þeim tíma hefðu ekki verið sérfræðingar í bæklunarlækningum eða taugalæknar, sem lærðir og þjálfaðir séu í að greina áverka eftir slys, heldur heimilislæknar sem eingöngu hafi ávísað stefnanda ákveðnum verkjalyfjum, án þess að áverkar væru rannsakaðir á nokkurn hátt,  nema með þukli. Það sé þó ljóst af þeim komum stefnanda á Heilsugæsluna á […] að hann hafi hlotið margvíslega áverka í slysinu og er t. d. sé bent  á nótu  H, frá 8. apríl 2009, sem tilgreini að stefnandi sé aumur og stirður í hægri framhandlegg og þar séu vöðvakippir við álag. Nú hafi verið staðreynt skemmd taug á þessum hluta líkamans sem staðfesti þá verulega áverka sem E og D tilgreini á hægri öxl stefnanda.

Þá liggi fyrir álit tveggja bæklunarlækna auk niðurstöðu  E, um að stefnandi hafi fengið áverka á mjóbak í slysinu. Þar að auki liggi fyrir álit reynds taugalæknis, K. Þannig liggi fyrir í málinu sannanir þess að þeir áverkar sem metnir eru í sérfræðimatinu á hægri öxl og mjóbaki eigi uppruna sinn í umferðarslysi því sem mál þetta er sprottið af, að um sé að ræða  afleiðingu af slysinu, samkvæmt meginreglu skaðabótaréttarins um sennilega afleiðingu.

Stefnandi byggi einnig á því að mat þeirra B og C sé markleysa, af þeirri ástæðu að áverkar stefnanda séu í matsgerðinni ekki færðir undir miskatöflur, sem sé skýrt brot á 4. greina skaðabótalaga. Sé um það einnig  vísað til greinargerðar með 4. greininni, þar sem segi meðal annars:

Ákvörðun bótafjárhæðar fer fram á grundvelli miskastigs. Örorkunefnd, sbr. 10. gr., skal semja töflur þar sem algengustu tegundir varanlegs miska eru látnar jafngilda tilteknum hundraðshlutum hliðstætt því sem gerist í örorkutöflum sem nú eru notaðar við örorkumat í skaðabótamálum og slysatryggingum. Við gerð taflnanna skal lagt til grundvallar að tiltekinn varanlegur miski bitni jafnþungt á hverjum þeim sem fyrir henni verður þannig að sami áverki eða sams konar líkamsspjöll leiði að jafnaði til sama miskastigs. Töflurnar eiga því að sýna ,,læknisfræðilega“ orkuskerðingu eða miska, en ekki skerðingu á getu til að afla tekna. Eftir 10. gr. frumvarpsins er tjónþola eða hinum bótaskylda veitt heimild til að bera ágreiningsefni undir örorkunefnd. Til ágreinings kann einkum að koma ef ekki er unnt að heimfæra tiltekin líkamsspjöll undir ákveðinn lið í miskatöflu.“

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku á því að staða hans hafi verið á þann veg að meta skuli viðmiðunarlaun eftir 2. mgr. 7. greinar skaðabótalaga fremur en 3. mgr. 7. greinar þar sem ekki sé tækt að reikna með að stefnandi færi strax út á einhverja refilstigu eftir að hann losnaði úr fangavistinni, enda  tilgangur slíkrar vistunar að fangar vinni í sínum málum til endurhæfingar og komist aftur út í þjóðfélagið sem almennir þegnar þess. Hann bendir á að endurhæfing sé þáttur í refsifullnustu þar sem reynt sé að auðvelda dómþolum aðlögun að kröfum samfélagsins til mannbóta og betrunar svo vísað sé í Jónatan Þórmundsson, bls. 71 í ritinu Viðurlög við afbrotum.  Byggi stefnandi á að hann sé kjötiðnaðarmaður og því hafi mátt reikna með að hann hefði hafið störf í þeirri iðngrein, eftir að hann losnaði úr fangelsi, en engar takmarkanir hafi verið á því samkvæmt þeirri refsingu er stefnandi hlaut, þ.e. svipting leyfis til að stunda þá iðngrein, sem séu því atvinnuréttindi stefnanda. Byggi stefnandi og á að 2. mgr. 7. greinar horfi til framtíðar, hvað hefði getað orðið, en 1. mgr. 7. greinar til fortíðar, hvað hafi verið.  Byggi stefnandi á að fara verði að lögum við slíkt mat og einnig að venja sé að meta prósentu varanlegrar örorku til jafns við miskastig þegar óvissa sé í þessu efni. Það sé hin almenna regla sem eigi við stefnanda enda þótt hann hafi verið fangi er hann var fyrir því slysi sem mál þetta er sprottið af.  Um að varanleg örorka sé metin jöfn miska sé vísað til efnis 8. greinar skaðabótalaga, eins og greinin var fyrir þá breytingu sem gerð var á skaðabótalögum með lögum nr. 37/1999.

Stefnandi telur mjóbaksáverka vanmetinn í sérfræðimatsgerð þeirra E og D, en mjóbaksáverki hafi ekki háð honum við vinnu eða átök fyrir slysið. Stefnandi bendi á að hann kenni strax til í nárum vegna þeirra átaka sem á hann komu vegna öryggisbeltisins, en frá nárum sé ekki löng leið yfir í mjóbak.  Einnig hafi stefnandi fyrir slysið verið haldinn þunglyndi. Hafi það aukist eftir slysið. Ekki hafi hins vegar verið tök á að afla læknisfræðilegra gagna þar að lútandi vegna féleysis stefnanda. Bendi stefnandi á að sú miskaniðurstaða sem liggi fyrir í málinu og stefnandi byggi á sé í raun varfærin  og að hið stefnda félag sé látið njóta vafans, ef einhver sé.

Varkröfu sína kveðst stefnandi byggja á því að ef ekki verður sannað að áverki á hægri öxl stefnanda og aukinn áverki í mjóbaki stafi af slysinu, sé miski hans metinn til 15 stiga og varanleg örorka sömuleiðis, samkvæmt mati þeirra E og D, þannig:

1.  Miskabætur: 9.132.000 x 15 stig

1.369.000 kr. 

2.  Bætur fyrir varanlega örorku:

5.020.000x10.450 x 15%

7.868.850 kr.

3.  Þjáningatímabil 30 d    

53.000 kr.

Samtals stefnufjárhæð

9.290.850 kr.

Verði ekki fallist á sérfræðimatsgerð E og D geri stefnandi þrautavarakröfu sem sundurliðist þannig:

 1.  Miskabætur: 8.791.000 x 15 stig

1.318.650 kr. 

2.  Bætur fyrir varanlega örorku:

5.020.000x10.450 x 10%

5.245.900 kr.

3.  Þjáningatímabil 30 d    

46.200 kr.

Samtals stefnufjárhæð

6.610.750 kr.

Miskahöfuðstóll í desember 2010 reiknist þannig:  4.000.000x7213/382=8.791.000 kr.

Miskabætur: 700x7212/3282=1.540x 30=46.200 kr.

Sé miðað við lágmarkslaun byggi stefnandi á  að þau verði reiknuð út á sama hátt og miski, samkvæmt 2. mgr. 15. greinar skaðabótalaga, sbr. 8. grein skaðabótalaga bæði fyrir breytinguna sem gerð var með lögum nr. 37/1999 og eftir.

Sé um það vísað til greinargerðar með upphaflegu skaðabótalögunum og greinargerðar með lögum nr. 37/1999 hvað  breytinguna á 8. greininni varðar og 3. mgr. 7. greinar skaðabótalaga. Bæri stefnanda samkvæmt því 1.318.650 krónur í miskabætur og 46.200 krónur í þjáningabætur og í bætur fyrir varanlega örorku 2.755.978 krónur,   sem reiknist þannig:  1.200.000x7213/3282 = 2.637.300 x10.450 x10%, eða samtals 4.120.828 krónur auk vaxta og kostnaðar.

Stefnandi vísar til bótakafla umferðarlaga. Þá er einnig vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, einkum til 1. gr., 3. gr., 4. gr., 5. gr., 6. gr., 7. gr. og 10. gr. Þá skírskotar stefnandi til 24. greinar vátryggingasamningalaga nr. 20/1954 og til reglna skaðabótaréttar um sennilega afleiðingu og þess að samkvæmt þeirri reglu sé horft til þeirra marka sem skilyrðið um sennilega afleiðingu setur skaðabótaábyrgð með sanngirni, sbr. Skaðabótarétt VMM bls. 364.

Í því sambandi vísar stefnandi til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 615/2007,  nr. 661/2007 og   nr. 378/2009 þar sem vitneskja tjónþola um líkamstjón er rakin til niðurstöðu bæklunarlækna um afleiðingu slysa, þrátt fyrir að sú athugun hafi fram farið löngu eftir slysaatburð.  

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af kröfum stefnanda. Hinn 19. október 2011 hafi stefnanda verið greiddar fullar bætur á grundvelli fyrirliggjandi örorkumats B og C og eigi stefnandi því ekki frekari kröfur á hendur stefnda vegna slyssins.

Stefndi hafnar því alfarið að leggja beri til grundvallar örorkumat þeirra D og E eða annað tekjuviðmið en lagt hafi verið til grundvallar í uppgjöri félagsins.

A. Sönnunargildi matsgerðar D og E.

Stefndi telur sönnunargildi matsgerðar D og E vera lítið í samanburði við fyrirliggjandi matsgerð B og C og helgast sú afstaða stefnda af þremur meginforsendum.

Sú fyrsta lúti að því með hvaða hætti matsgerðarinnar var aflað, önnur að því að a.m.k. annar matsmanna geti ekki talist óvilhallur og sú þriðja að efnislegum rökstuðningi í niðurstöðum matsgerðarinnar.

A.1. Matsgerðar er aflað einhliða.

Í málinu liggi fyrir örorkumatsgerð sem bæði stefnandi og hið stefnda félag öfluðu í sameiningu. Báðir aðilar hafi ritað undir matsbeiðni og veittu með því samþykki sitt fyrir því að leitað yrði til þeirra manna sem tilnefndir voru.

Ekki hefur verið sýnt fram á að ágallar hafi verið á framkvæmd örorkumatsins eða þeirri gagnaöflun sem fór fram í aðdraganda þess. Því sé sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda að tilvísunum til miskataflna sé svo áfátt að niðurstaða matsgerðarinnar sé óskiljanleg, eins og stefnandi virðist halda fram. Hins vegar liggi fyrir að stefnandi er óánægður með niðurstöður hennar.

Þegar annar aðila, sem aflað hefur örorkumats með framangreindum hætti, telur niðurstöðu matsgerðar ranga geti hann með tvennum hætti fengið þeirri niðurstöðu hnekkt. Annars vegar með því að skjóta málinu til örorkunefndar sbr. 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en þar sé beinlínis að finna lögbundið úrræði til að skjóta fyrirliggjandi örorkumati til lögskipaðrar nefndar til endurskoðunar.

Annað úrræði sem aðili hafi við þessar aðstæður sé að dómkveðja matsmenn skv. IX. sbr. XII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Þessi úrræði hafi stefnandi ekki nýtt sér. Í stað þess hafi hann farið þá leið að velja sér einhliða tiltekna aðila til að framkvæma örorkumat upp á nýtt, aðila sem hann sjálfur meti óvilhalla. Í málinu liggi fyrir beiðni stefnanda um mat á læknisfræðilegri örorku, en svo virðist sem lögmaður stefnanda hafi svo með símtali síðar beðið matsmenn um að framkvæma mat í samræmi við skaðabótalög.

Sönnunargildi matsgerðar sem aflað sé með þessum hætti geti aldrei verið meira en sönnunargildi matsgerðar sem aðilar máls hafa aflað í sameiningu, hvort sem um er að ræða mat á líkamstjóni eða öðrum atriðum. Óðinn Elísson hrl. hafi haft fullt umboð til að standa að öflun örorkumatsgerðar fyrir hönd stefnanda og þótt stefnandi hafi kosið að skipta um lögmann þegar matið lá fyrir, og reyndar ekki fyrr en bótakrafa hafði verið gerð á grundvelli þess, breyti það ekki því að matsins hafi verið aflað í hans umboði. Það hafi engin áhrif á sönnunargildi matsgerðarinnar að stefnandi hafi skipt um lögmann af því honum líkaði ekki niðurstaðan og sá lögmaður útvegað nýtt örorkumat einhliða.

Örorkumatsgerð sé sönnunargagn um afleiðingar slyss sem einstaklingur hefur orðið fyrir og það blasi við að sönnunargildi matsgerðar sem stefnandi og stefndi öfluðu í sameiningu hafi allt annað og meira sönnunargildi en matsgerð sem stefnandi aflaði síðar upp á eigin spýtur hjá aðilum sem voru honum þóknanlegir. Sönnunargildi matsgerðar þeirra D og E sé því mjög takmarkað, ef nokkuð.

A.2. Tengsl matsbeiðanda við annan matsmanna.

Stefndi telur að tengsl matsmannsins D við lögmann stefnanda séu með þeim hætti að réttmætt sé að draga hlutleysi hans í efa.

Á tímabilinu 1. janúar 2008 til 1. október 2011 hafi hið stefnda félag gert upp 60 slysamál samkvæmt skaðabótalögum þar sem lögmaður stefnanda hefur gætt hagsmuna tjónþola. Í 52 þessara mála liggi fyrir matsgerð frá D sem lögmaðurinn kallaði eftir einhliða. Í 6 málum hafi lögmaður stefnanda dómkvatt strax, þ.e. óskaði ekki eftir neinu mati utan réttar. Þessi upptalning sýni að í 96% tilvika þar sem lögmaður stefnanda aflaði örorkumatsgerðar utan réttar á umræddu tímabili leitaði hann til matsmannsins D án samráðs eða samvinnu við hið stefnda félag.

Þá hafi skoðun félagsins leitt í ljós að u.þ.b. 75% þeirra örorkumatsgerða D sem hafa verið sendar félaginu á sama tímabili séu í málum þar sem lögmaður tjónþola hafi verið sá sami og lögmaður stefnanda. Á árinu 2011 hafi lögmaður stefnanda gætt hagsmuna tjónþola í öllum þeim málum þar sem matsgerð eftir D hefur verið send félaginu.

Af framangreindu blasi við að örorkumat sem lögmaður stefnanda aflar einhliða hjá aðila sem sé honum jafn tengdur og raun beri vitni geti ekki undir neinum kringumstæðum hnekkt örorkumati sem aðilar höfðu áður aflað sameiginlega hjá matsmönnum sem þeir völdu saman til verksins.

Stefndi telur ljóst að Hæstiréttur hafi talið mun veigaminni tengsl en þau, sem hér hafa verið rakin, leiða til þess að hlutleysi matsmanns verði dregið í efa og valda vanhæfi hans.

A.3. Efnislegur rökstuðningur í matsgerð.

Jafnvel þótt litið væri fram hjá því hversu laskað sönnunargildi matsgerðarinnar er, bæði vegna þess hvernig matsins var aflað og þess hver tengsl lögmanns stefnanda við a.m.k. annan matsmanna eru mikil, leiði efnislegur samanburður á niðurstöðum fyrirliggjandi matsgerða til þeirrar niðurstöðu að tjón stefnanda teljist að fullu bætt.

Það sem fyrst og fremst beri í milli þegar fyrirliggjandi matsgerðir séu skoðaðar sé niðurstaða matsmanna varðandi orsakatengsl milli einkenna frá hægri öxl og slyssins hinn 24. mars 2009.

Um þetta segi á bls. 9 í matsgerð B og C:

„Einkenni eru nú mun meiri frá hægri öxl en þeirri vinstri. Ekki er getið um nein einkenni frá hægri öxl í læknisfræðilegum gögnum fyrir matsfund. Ekki verður talið orsakasamband milli slyssins 24.03.2009 og einkenna frá hægri öxl.“

Matsmenn leggi m.ö.o. til grundvallar hefðbundin og viðurkennd sjónarmið við mat á orsakasambandi milli slysa og einkenna og telja slíkt samband ekki vera til staðar þar sem einkennanna sé fyrst getið á matsfundi hinn 8. október 2010.

Um sama álitaefni segi í matsgerð D og E á bls. 16:

„Matsmenn telja einnig líklegt að rekja megi einkenni tjónþola frá hægra axlarsvæði til afleiðinga umferðarslyssins 24. september 2009 [sic] og einnig versnun á einkennum í mjóbaki. Er þá m.a. litið til eðlis tjónsatburðarins, bílveltu á um 70 km hraða pr. klst. hjá persónu með bílbeltið spennt. Horft er til þess að hann hafi haldið með báðum handleggjum um stýrið þegar tjónsatburðurinn gerðist eins og hann heldur fram við matsmenn og m.a. [J] læknir [sic] í viðtali við hann. Við komu til læknis 8. apríl s.á. er sagt frá kvörtunum hans hvað varðar vöðvakippi á hægri framhandlegg, einnig eru m.a. nefnd einkenni frá brjóstbaki. Leiða má því líkum að álagi á fyrrgreind svæði (hægri öxl og bak), annað hvort högg eða hnykki. Sama gerir bílvelta. Eins og áður kemur fram kvartar hann um einkenni í mjóbaki við komu til [I] bæklunarlæknis í september s.á. en fyrir þann tíma voru önnur einkenni sem trufluðu hann meira. Sama gildir um einkenni í hægri öxl, en um þau einkenni kvartar hann m.a. við komu til [J] í nóvember s.á. Var hann á þessum tíma að vinna en gafst að lokum upp vegna aukinna einkenna.

Matsmenn hafa við mat á síðastgreindu, einnig horft til aðstæðna tjónþola, en hann var á tjónsdegi í fangelsi og kannski fyrst á eftir slysið ekki í aðstöðu til að kvarta um öll einkenni sín, sem greinilega virðast hafa truflað hann mismikið. Einnig mun faðir hans hafa látist á tímabilinu. Við aukið álag á hægri öxl og mjóbak hafa þau einkenni svo gert meira vart við sig, s.s. í vinnu um haustið, og síðar, og kvartar hann þá um þessi einkenni.“

Síðar segi á bls. 17:

„Matsmenn telja eins og áður segir að leiða megi líkum að því að rekja megi einkenni tjónþola í hægri öxl til afleiðinga umferðarslyssins 24. mars 2009 og einnig versnun á einkennum í mjóbaki [...].“

Líkamstjón á hægri öxl sé m.ö.o. metið að líkum án þess að nein læknisfræðileg gögn styðji slíka niðurstöðu og þrátt fyrir fjölda heimsókna stefnanda til lækna eftir slysið án þess að einkenni frá hægri öxl hafi verið nefnd. Forsendur matsmanna fyrir þessari niðurstöðu standist ekki skoðun.

Stefnandi hafi fyrst verið skoðaður á slysstað og segist þá hvergi hafa verki. Næst hafi hann leitað til læknis 27. mars 2009 og þá sé ekki minnst á hægri öxl. Næst hafi hann leitað til læknis 8. apríl 2009 og þá sé ekki heldur minnst á hægri öxl. Loks hafi hann leitað til læknis 29. maí 2009 og enn sé ekki minnst á verki frá hægri öxl.

Stefnandi hafi verið skoðaður mjög vel af bæklunarlækni hinn 8. september 2009 við þá skoðun sé ekki heldur minnst á verki frá hægri öxl.

Það sé fyrst í læknisvottorði J sem minnst sé á hægri öxl, en það sé reyndar í bæði skiptin gert með lýsingunni „báðar axlir“, á sama hátt og J lýsi verkjum í „báðum nárum“, en fram að þeim tíma hafi aðeins verið getið um einkenni í vinstri nára.

Fyrra skiptið sem telja má að minnst hafi verið á hægri öxl í vottorðinu sé þegar læknirinn segi: „Við komu til undirritaðs kvartaði hann um verki í hálsi, út í herðar og upp í höfuð, út í báðar axlir og niður upphandleggina einnig verki fram í kjálkana en verstur fannst honum hann vera í framhandleggjunum og kvartaði yfir stöðugum verkjum í vöðvunum litlafingursmegin í báðum framhandleggjum.“

Ekki sé minnst á hægri öxl í kafla vottorðsins sem beri yfirskriftina „núverandi líðan“ þar sem stefnandi lýsi meiðslum sínum, en í kafla vottorðsins sem nefnist „skoðun“ lýsi læknirinn vægum þreifieymslum yfir vöðvafestum í kringum báðar axlir.

Lýsingar læknisins séu þannig mjög almennar og ónákvæmar. Hins vegar sé bætt um betur í síðara vottorði sama læknis sem hefjist á þeirri frásögn læknisins að stefnandi sé óánægður með fyrirliggjandi örorkumat og að læknirinn sé sammála honum.

Af framangreindu megi vera ljóst að það sé með öllu ósannað að einkenni sem stefnandi glími við í dag sé að rekja til umferðarslyssins hinn 24. mars 2009.

Þá telur stefndi að matsmenn hafi með algjörlega ófullnægjandi hætti tekið afstöðu til þess að hve miklu leyti fyrri áverkar og einkenni hafi áhrif á líðan stefnanda í dag, t.a.m. hafði hann rúmlega mánuði fyrir slysið leitað til læknis vegna bakverkja sem höfðu staðið í þrjár vikur með útgeislun til vinstri. Þá hefur hann margbrotnað á höndum í slagsmálum og stórslasað sig á vinstri úlnlið í vinnuslysi, sbr. Vottorð K.

B. Tekjuviðmið við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku.

Stefndi hafi greitt stefnanda fullar bætur í samræmi við fyrirliggjandi örorkumatsgerð B og C. Við útreikning á skaðabótum hafi verið miðað við lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga á stöðugleikapunkti, 2.425.500 krónur, enda séu tekjur stefnanda árin á undan umtalsvert lægri. Lagðar hafi verið fram upplýsingar tekjur stefnanda árin 2004-2008.

Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við í máli hans, hvort tveggja er varðar það að staða hans þrjú almanaksár fyrir slysið hafi verið óvenjuleg í skilningi laganna og hins vegar að annar mælikvarði sé réttari á framtíðartekjur hans. Stefndi telji ljóst að sönnun um hvorugt liggi fyrir og þess vegna sé ekki hægt að leggja aðra fjárhæð en lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga til grundvallar uppgjöri í málinu.

C. Dráttarvextir

Ef ástæða þyki til að taka kröfu stefnanda til greina að einhverju leyti sé rétt að hún beri ekki dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá endanlegum dómsuppsögudegi í málinu. Með vísan til síðari málsliðar 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur sé þess krafist að tildæmdar bætur beri fyrst dráttarvexti frá þeim degi að telja.

D. Aðrar málsástæður stefnanda

Málsástæður stefnanda að öðru leyti séu að ýmsu leyti ruglingslega fram settar og byggi stefnandi m.a. á lögum nr. 20/1954, sem fallin séu úr gildi og að því er virðist greinargerð með ákvæði í skaðabótalögum sem einnig sé fallið úr gildi. Stefndi mómæli þessum málsástæðum sem og málsástæðum sem lúta að aðferðafræði við mat á orsakatengslum, aðferðafræði við mat á varanlegri örorku og þýðingu aðkomu bæklunarlækna að málinu.

Um lagarök vísast til skaðabótalaga nr. 50/1993 og umferðarlaga nr. 50/1997. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 og um sönnunargildi matsgerða til VIII. og IX. kafla sömu laga.

Niðurstaða

Óumdeilt er að á slysdegi var bifreið stefnanda vátryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu og slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá Tryggingamiðstöðinni hf., stefnda í þessu máli. Bótaskylda hins stefnda félags er óumdeild, en deilt er um umfang líkamstjóns stefnanda sem rekja má til slyssins og útreikning bóta honum til handa.

Fyrir liggur að aðilar öfluðu sameignlega mats B bæklunarlæknis og C hdl. Er matsgerð þeirra dags. 9. desember 2010.

Í niðurstöðu matsgerðar segir m.a. að við læknisskoðun 8. apríl 2009, hálfum mánuði eftir slysið, verði að telja að einkenni áverka í slysinu hafi verið komin fram. Þá hafi verið komin fram eymsli í vöðvafestum í hnakka, mar við vinstra herðablað og út í vinstri síðu, eymsli í vinstri öxl, stirðleiki og eymsli í brjósthrygg, verkur í vinstri nára og eymsli á hægra hné. Telja matsmenn stefnanda hafa, í slysinu, fengið mar á vinstra herðablaðssvæði og vinstri síðu, tognun í hálshrygg, brjósthrygg, vinstri nára og vinstri öxl og mar á hægra hné. Einkenni við skoðun séu mun meiri frá hægri öxl en þeirri vinstri. Ekki sé getið um nein einkenni frá hægri öxl í læknisfræðilegum gögnum fyrir matsfund. Matsmenn telja því orsakasamband ekki vera milli slyssins og einkenna frá hægri öxl. Enda þótt áverkar stefnanda séu ekki sérstaklega færðir undir miskatöflur í matsgerðinni þykir ekki sýnt fram á að matsmenn hafi ekki stuðst við miskatöflur örorkunefndar í mati sínu.

Samkvæmt niðurstöðu matsmanna telst stöðugleikapunktur 24. júní 2009, tímabundin örorka engin, tímabil þjáningabóta einn mánuður án rúmlegu, varanlegur miski 15 stig og varanleg örorka 10%.

Stefnandi var óánægður með niðurstöðu matsmanna og vildi ekki una matinu. Átti hann þess þá kost að bera matsgerðina undir örorkunefnd, sbr. 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eða setja fram beiðni um dómkvadda matsmenn.

Stefnandi gerði hvorugt en aflaði einhliða, án aðkomu stefnda, matsgerðar E læknis og D lögfræðings. Stefnandi setti fram bótakröfu á hendur stefnda er byggðist á þeirri matsgerð en stefndi hefur alfarið hafnað því að leggja þá matsgerð til grundvallar uppgjörs á skaðabótum til stefnanda. Hinn 19. október 2011 greiddi stefndi stefnanda skaðabætur sem byggðust á matsgerð B og C. Greiddi stefndi 48.000 krónur í þjáningabætur, 1.374.975 krónur vegna varanlegs miska og 2.624.148 krónur vegna varanlegrar örorku.

Matsmennirnir B og C komu ekki fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins til skýrslugjafar. Stefnandi mótmælir matsgerð þeirra sem óstaðfestri. Fyrir liggur að af hálfu stefnanda var í upphafi sett fram bótakrafa á hendur stefnda er byggðist á sömu matsgerð. Teljast þessi mótmæli stefnda því þýðingarlaus.

Stefnandi ber sönnunarbyrðina um tjón sitt. Ekki er fallist á að matsgerð sem stefnandi aflaði einhliða, án allrar aðkomu stefnda að henni, hnekki matsgerð þeirri sem aðilar öfluðu sameiginlega. Verður því, þegar af þeim sökum, að byggja á matsgerð B og C við ákvörðum skaðabóta til handa stefnanda.

Þjáningabætur

Í aðal- og varakröfu sinni krefst stefnandi 53.000 króna í þjáningabætur en í þrautavarakröfu 46.200 króna.

Samkvæmt matsgerð er tímabil þjáningabóta metið einn mánuður, en stefnandi telst hafa verið veikur án rúmlegu í einn mánuð eftir slysið. Stefndi hefur þegar greitt stefnanda 48.000 krónur í þjáningabætur, þ.e. 1.600 krónur á dag í 30 daga. Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaganna skal reikna með hliðsjón af 15. gr. laganna. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að sú fjárhæð er stefnandi miðar við sé röng og teljast þjáningabætur til handa stefnanda réttilega metnar 48.000 krónur, sem stefndi hefur þegar greitt.

Miskabætur

Í aðalkröfu sinni miðar stefnandi við að hann hafi hlotið 25 stiga varanlegan miska í slysinu, en því er hafnað eins og áður segir. Í matsgerð B og C, sem byggt er á í niðurstöðu þessari, er varanlegur miski stefnanda metinn til 15 stiga. Í vara- og þrautavarakröfu sinni miðar stefnandi við 15 stiga varanlegan miska og eru kröfur hans í vara- og þrautavarakröfu lægri en sú fjárhæð er stefndi hefur þegar greitt stefnanda vegna varanlegs miska, 1.374.975 krónur, og telst hann því að fullu bættur.

Varanleg örorka

Í matsgerð B og C er varanleg örorka metin 10%. Í aðalkröfu sinni byggir stefnandi á því að hann hafi hlotið 25% varanlega örorku og í varakröfu sinni að hann hafi hlotið 15% varanlega örorku. Með hliðsjón af matsgerð B og C þykir ekki sýnt fram á stefnandi hafi hlotið meira en 10% varanlega örorku í slysinu. Með sömu rökum og áður greinir er aðal- og varakröfu stefnanda því hafnað að því er snertir varanlega örorku.

Þrautavarakrafa stefnanda byggir á því að stefnandi hafi hlotið 10% varanlega örorku. Byggir stefnandi á því að hann sé kjötiðnaðarmaður og hafi því mátt reikna með að hann myndi hefja slík störf eftir að hann losnaði úr fangavistinni. Beri því að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þegar árslaun séu metin.  Miðar stefnandi við laun iðnaðarmanna og sérhæfðs iðnverkafólks, 419.000 krónur á mánuði.

Við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku sem greiddar voru stefnanda miðaði stefndi við lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.

Fram kemur í matsgerð að stefnandi hafi lokið sveinsprófi í kjötiðnaði á árinu 1993. Hann hafi unnið sem kjötiðnaðarmaður í um það bil þrjú og hálft ár en hafi þá farið að vinna á frystitogara. Hann hafi lent í sjóslysi um borð í […] á árinu 2004 og því ákveðið að fara í Viðskipta- og tölvuskólann. Hafi hann verið í skólanum tvær annir á árinu 1997 og lært markaðsfræði og unnið með náminu í Kjötsmiðjunni. Eftir það hafi hann unnið við sölustörf hjá […] sem aðstoðarsölustjóri í hálft ár og hjá […] í þrjú ár. Eftir að hafa unnið við tryggingamiðlun hjá […] hafi hann flust til Danmerkur og byrjað að vinna í kjötinu en hönd hans hafi bólgnað og því hafi hann hætt og farið að læra dönsku. Hafi hann verið eitt ár í Danmörku en síðan farið til Íslands. Hann hafi stofnað fyrirtæki um þrif á bílum 2005 og rekið það til 2006 en þá hætt vegna óreglu. Hann hafi lent í slagsmálum í Austurríki og lent á réttargeðdeild í Salzburg í 6 mánuði. Á slysdegi hafi hann verið í afplánun á […] og unnið þar við beitingu. Í ágúst 2009 hafi hann farið á […] og byrjað að vinna hjá […] í um mánuð í kjötinu en síðan hjá […] í einn og hálfan mánuð. Kveðst hann langa til að fara að læra afbrotafræði og félagsráðgjöf en óráðið sé hvað taki við. Hann sé ekki að leita að vinnu en ætli að leita sér aðstoðar vegna lesblindu hjá Ými.

Fyrir dómi bar stefnandi að hann treysti sér ekki til að vinna sem kjötiðnaðarmaður vegna þeirra áverka sem hann hlaut í slysinu. Hann kvaðst ekki treysta sér til líkamlegrar vinnu og kvaðst ekki hafa unnið síðan slysið varð.

Samkvæmt skattframtölum hafði stefnandi nánast engar atvinnutekjur þrjú síðustu árin fyrir slysið. Samkvæmt því sem fram hefur komið er allt óráðið um framtíð hans. Hefur stefnandi ekki gert það sennilegt að hann muni starfa sem kjötiðnaðarmaður í framtíðinni. Þegar þetta er virt er ekki fallist á að efni séu til þess að beita ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þegar metin eru árslaun til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku. Er fallist á það með stefnda að í tilviki stefnanda sé eðlilegt að miða útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku við lágmarkslauna­viðmið skaðabótalaga, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Við þetta ákvæði var miðað við uppgjör stefnda á bótum til stefnanda. Verður ekki annað séð en að stefnandi hafi því nú þegar fengið tjón sitt vegna varanlegrar örorku bætt, enda hefur útreikningi stefnda ekki verið andmælt.

Þegar allt framanritað er virt ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 333.860 krónur, eða samtals 833.860 krónur greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 333.860 krónur, eða samtals 833.860 krónur greiðist úr ríkissjóði.