Hæstiréttur íslands
Mál nr. 296/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Bráðabirgðasvipting ökuréttar
|
|
Föstudaginn 27. maí 2011. |
|
Nr. 296/2011. |
Lögreglustjórinn á Selfossi (Gunnar Örn Jónsson fulltrúi) gegn X (enginn) |
Kærumál. Bráðabirgðasvipting ökuréttar.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun L um að svipta X ökurétti til bráðabirgða. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skyldi lögreglustjóri svipta ökumann ökurétti til bráðabirgða teldi hann skilyrði til sviptingar ökuréttar vera fyrir hendi. Í hinum kærða úrskurði hefði ekki verið talið að skilyrði væru til að beita ákvæðinu og hefði í því sambandi verið vísað til dóma Hæstaréttar 1. júní 2006 í máli nr. 288/2006 og 14. desember 2009 í máli nr. 710/2009. Í dómi Hæstaréttar sagði að atvikum þessa máls yrði ekki jafnað til þeirra aðstæðna sem uppi hefðu verið í þeim málum, enda hefði vitni í því fyrrgreinda talið sig geta borið um annan hraða bifhjóls en hraðamæling lögreglu gaf til kynna, en í því síðarnefnda hefðu tvö bifhjól verið saman á ferð á misjöfnum hraða og hefði ekki verið útilokað við þær aðstæður að hraðamæling lögreglu kynni að hafa beinst að öðru bifhjóli en því sem aðili þess máls hefði ekið. Var fallist á með L að ekki væru efni til að telja vafa leika á að uppfyllt væru skilyrði til sviptingar á ökurétti X til bráðabirgða. Var ákvörðun L því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. maí 2011, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila 2. sama mánaðar um að svipta varnaraðila ökurétti til bráðabirgða. Kæruheimild er í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sín um bráðabirgðasviptingu ökuréttar verði staðfest.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var lögregla við umferðareftirlit á Suðurlandsvegi rétt vestan við Kotstrandarkirkju 2. maí 2011 þegar bifhjóli varnaraðila var ekið úr gagnstæðri átt. Opnaði lögregla þá fyrir hraðaratsjá lögreglubifreiðar sem sýndi 182 km hraða á klukkustund. Skömmu síðar var akstur varnaraðila stöðvaður og neitaði hann sakargiftum. Hann var færður á lögreglustöð til skýrslutöku en í framhaldi af henni sviptur ökurétti til bráðabirgða með ákvörðun sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga. Þessa ákvörðun bar varnaraðili undir héraðsdóm sem felldi hana úr gildi með hinum kærða úrskurði.
Meðal gagna málsins er myndbandsupptaka úr lögreglubifreið sem sýnir hvernig hraðamæling var framkvæmd umrætt skipti. Þá liggja fyrir ljósmyndir úr sömu myndavél. Ein þeirra sýnir að klukkan 13.50:51 var ein bifreið fyrir framan lögreglubifreiðina og óku þær báðar í sömu átt. Á mynd, sem tekin var síðar á sömu sekúndu, sést bifhjól varnaraðila koma úr gagnstæðri átt og að lögregla hafi opnað fyrir geisla hraðaratsjár. Á næstu mynd sést að hraðaratsjá mældi 182 km hraða á klukkustund. Ljósmynd klukkan 13.50:52 sýnir að hraðaratsjá mældi 184 km hraða. Loks sýnir ljósmynd klukkan 13.50:53 að mældur var hraðinn 181 km á klukkustund. Þessar ljósmyndir sýna jafnframt að lögreglubifreiðin mældist á 84 km hraða en af myndbandi úr sömu myndavél má ráða að bifreið, sem áður var getið og ekið var fyrir framan lögreglubifreiðina í sömu akstursstefnu, var ekið á svipuðum hraða og henni. Loks sýnir myndbandsupptaka að bifhjól varnaraðila var eina ökutækið sem mætti lögreglu frá því að hraðamælingin hófst. Í frumskýrslu lögreglumanns sem annaðist hraðamælinguna sagðist hann hafa veitt athygli ljósu bifhjóli sem ekið hefði verið áberandi greitt eftir Suðurlandsvegi. Hann hefði af því tilefni opnað fyrir hraðaratsjá.
Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga skal lögreglustjóri svipta ökumann ökurétti til bráðabirgða telji hann skilyrði til sviptingar ökuréttar vera fyrir hendi. Í hinum kærða úrskurði var ekki talið að skilyrði væru til að beita ákvæðinu og var vísað í því sambandi til dóma Hæstaréttar 1. júní 2006 í máli nr. 288/2006 og 14. desember 2009 í máli nr. 710/2009. Atvikum þessa máls verður ekki jafnað til þeirra aðstæðna sem uppi voru í þeim málum, enda taldi vitni í því fyrrnefnda sig geta borið um annan hraða bifhjóls en hraðamæling lögreglu gaf til kynna, en í því síðarnefnda höfðu tvö bifhjól verið saman á ferð á misjöfnum hraða og varð ekki útilokað við þær aðstæður að hraðamæling lögreglu kynni að hafa beinst að öðru bifhjóli en því sem aðili þess máls hafði ekið. Með vísan til þess sem að framan greinir verður fallist á með sóknaraðila að ekki séu efni til að telja vafa leika á að uppfyllt séu skilyrði til sviptingar á ökurétti varnaraðila til bráðabirgða og verður ákvörðun sóknaraðila því staðfest.
Dómsorð:
Ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi um að varnaraðili, X, sé sviptur ökurétti til bráðabirgða frá 2. maí 2011 er staðfest.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. maí 2011.
Með bréfi dagsettu 4. maí sl., sem barst dóminum 5. sama mánaðar, krafðist sóknaraðili, A, kt. [...], með dvalarstað að [...], [...], þess að með úrskurði verði aflétt ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi um haldlagningu á bifhjólinu [...] og ákvörðun lögreglustjóra um sviptingu ökuréttar sóknaraðila til bráðabirgða. Sóknaraðili vísar til 107. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, vegna haldlagningar, og til 1. mgr. 103. gr. sömu laga vegna bráðabirgðasviptingar ökuréttar.
Varnaraðili, lögreglustjórinn á Selfossi, hefur krafist þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og framangreind svipting ökuréttar til bráðabirgða verði staðfest enda séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, til að svipta sóknaraðila ökurétti til bráðabirgða.
Við fyrirtöku málsins mánudaginn 9. maí sl., upplýsti varnaraðili að lögregla hafi afhent vörslusviptingaraðila bifhjólið og því séu skilyrði haldlagningar ekki lengur til staðar. Með vísan til þess féll sóknaraðili frá kröfu sinni um að aflétt verði ákvörðun lögreglustjóra um haldlagningu bifhjólsins [...]. Í framangreindri fyrirtöku málsins var bókað eftir varnaraðila að sú prentvilla væri í skjali lögreglu um sviptingu ökuréttar til bráðabirgða að vísað sé til 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hvað sviptinguna varðar en hið rétta sé að sóknaraðili hafi verið kærður í máli þessu vegna meints brots gegn 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sóknaraðili lýsti því yfir að hann óskaði eftir að kæran fengi meðferð fyrir dómi þrátt fyrir framangreinda prentvillu. Við fyrirtöku málsins þann 13. maí sl. óskaði varnaraðili eftir að leiðrétta bókun frá 9. maí sl. og kvað hann meint brot sóknaraðila varða við 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sætti það ekki athugasemdum sóknaraðila og var málið endurupptekið. Þar sem aðilar málsins töldu ekki þörf á endurflutningi var krafan tekin til úrskurðar
Samkvæmt gögnum málsins var B, lögreglumaður, við umferðareftirlit á Suðurlandsvegi rétt vestan við Kotstrandarkirkju mánudaginn 2. maí sl. á lögreglubifreiðinni [...]. Í frumskýrslu lögreglu, sem áðurnefndur B ritar, kemur fram að lögreglubifreiðinni hafi verið ekið með jöfnum hraða til austurs eftir Suðurlandsvegi. Þá hafi lögreglumaðurinn veitt athygli ljósu bifhjóli sem ekið var áberandi greitt til vesturs eftir Suðurlandsvegi til móts við Kotstrandarkirkju þar sem vegurinn liggur í nokkurri beygju en svo taki við langur beinn vegkafli, eins og segir í frumskýrslu. Þar sem hraði bifhjólsins hafi virst mikill hafi lögreglumaðurinn opnað fyrir hraðaratsjá lögreglubifreiðarinnar og þá hafi bifhjólið reynst vera á 181 km hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði á vegi er 90 km á klukkustund. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að ökumanni bifhjólsins hafi verið gefið merki um að stöðva og hafi ökumaður sinnt því. Um hafi verið að ræða þungt bifhjól með fastanúmerið [...] og ökumaður þess hafi verið sóknaraðili málsins. Í frumskýrslu segir að sóknaraðila hafi verið kynnt að mældur hraði hafi verið 181 km/klst. og haft er eftir sóknaraðila í frumskýrslu lögreglu að hann neiti sök og vilji ekki tjá sig frekar um málið.
Skýrsla var tekin af ákærða á lögreglustöðinni á Selfossi í beinu framhaldi af afskiptum lögreglu að viðstöddum verjanda. Sóknaraðili mótmælti mælingunni og kveðst hafa ekið rétt undir 100 km/klst. „svona 98 km/klst.“, eins og segir orðrétt í skýrslunni. Haft er eftir sóknaraðila að fullt hefði verið af bílum milli hans og lögreglubifreiðarinnar og að hann hafi talið að radarinn hlyti að hafa verið eitthvað bilaður og því beðið lögreglumanninn að „testa“ hann á vettvangi en lögreglumaðurinn hafi ekki viljað gera það meðan sóknaraðili var í lögreglubifreiðinni.
Í málinu liggur fyrir myndskeið úr upptökubúnaði lögreglubifreiðarinnar, svokölluðum Eyewitness upptökubúnaði. Áður en lögmaður sóknaraðila og fulltrúi lögreglustjóra reifuðu málið við fyrirtöku málsins þann 9. maí sl., var umrætt myndskeið spilað í dómsalnum. Á myndskeiðinu má sjá og heyra samskipti sóknaraðila og lögreglu inni í lögreglubifreiðinni. Þar kemur fram að sóknaraðili mótmælir mælingunni og kveðst hafa ekið á 98 km/klst. Sóknaraðili kvað mælinguna ekki standast því margir bílar hafi verið á milli bifhjólsins og lögreglubifreiðarinnar og þá hafi hann verið að koma út úr beygju og það sé ekki hægt að taka beygjuna á þessum hraða. Þá spurði sóknaraðili lögreglumanninn hvenær radarinn hafi síðast verið „testaður“ og lögreglumaðurinn svaraði „hann er svo sem testaður alla daga sko“.
Við meðferð málsins fyrir dómi kom fram hjá lögmanni sóknaraðila að sóknaraðili hafi strax á vettvangi og síðar í skýrslutöku hjá lögreglu neitað að hafa ekið bifhjólinu með 181 km/klst. Lögmaðurinn tilgreindi eftirfarandi atriði sem geri það að verkum að nauðsynlegt sé að um þau atriði verði fjallað fyrir dómi: Í lok myndskeiðs úr Eyewittnes búnaði lögreglu komi fram nokkur atriði sem gefi tilefni til að efast um áreiðanleika hraðaratsjár lögreglu og þá um leið umrædda hraðamælingu á bifhjóli sóknaraðila. Óljóst sé að hvaða ökutæki hraðamæling lögreglu beindist í umrætt sinn og ekki liggi fyrir hvaða áhrif aðrar bifreiðar hafi haft á mælingu lögreglu. Í því sambandi nefnir sóknaraðili í fyrsta lagi bifreið þá sem ekið var á undan lögreglubifreiðinni sem mældi hraða sóknaraðila. Í öðru lagi þær bifreiðar sem óku á undan bifhjóli sóknaraðila og í þriðja lagi hugsanleg áhrif bifreiða sem óku á eftir bifhjóli sóknaraðila vegna stærðarmunar sem er á þeim og bifhjólinu. Loks bendir sóknaraðili á að mælingin hafi farið fram í beygju og óvíst hvort hægt sé að aka með 181 km/klst. í umræddri beygju. Því eigi sóknaraðili rétt á að fjallað verði um varnir hans fyrir dómi. Þá vísar sóknaraðili til 108. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og 2. mgr. 6. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu.
Niðurstaða.
Sóknaraðili véfengir mælingu lögreglunnar á ökuhraða bifhjólsins og gerði það strax á vettvangi. Hann bendir á að myndbandsupptaka af hraðamælingunni gefi tilefni til að efast um áreiðanleika hraðaratsjár lögreglu og þá sé óvíst hvaða áhrif aðrar bifreiðar sem voru á ferð um Suðurlandsveg á þeim tíma sem mæling var gerð geti haft á umrædda hraðamælingu og vísar sóknaraðili í því sambandi til bifreiða sem ekið var fyrir framan og aftan bifhjólið sem og bifreiðar sem ekið var fyrir framan lögreglubifreiðina. Þá hafi umrædd mæling farið fram í beygju og alls óvíst að hægt sé að taka þá beygju með þeim hraða sem lögregla telur að sóknaraðili hafi ekið á í umrætt sinn.
Eins og að framan er rakið hefur sóknaraðili fært fram nokkrar röksemdir fyrir þeirri kröfu sinni að ákvörðun lögreglustjóra um að svipta hann ökurétti til bráðabirgða verði felld úr gildi. Röksemdir sóknaraðila eru þess eðlis að rétt er að fallast á það með sóknaraðila að hann eigi rétt á að varnir hans verði prófaðar fyrir dómi áður en til þess komi að hann verði sviptur ökurétti og vísast í því sambandi til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 288/2006 og 710/2009. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Felld er úr gildi ákvörðun varnaraðila, lögreglustjórans á Selfossi, dagsett 2. maí 2011, um að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli sviptur ökurétti til bráðabirgða.