Hæstiréttur íslands

Mál nr. 117/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Nauðungarsala


Þriðjudaginn 25. febrúar 2014.

Nr. 117/2014.

Íslandsbanki hf.

(Ásgerður Þórunn Hannesdóttir hdl.)

gegn

Gunnari Árnasyni

(sjálfur)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Nauðungarsala.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Í hf. um að bú G yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í hf. reisti kröfu sína um gjaldþrotaskipti á því að hann ætti fjárkröfu á hendur G á grundvelli skuldabréfs. Það hafi verið tryggt með veði í í fasteign G en samkvæmt áritun á bréfið hafi veðið verið selt nauðungarsölu og ekki fengist greitt upp í kröfu samkvæmt því. Talið var að Í hefði ekki sýnt fram á að skilyrðum 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu væri fullnægt til þess að hann gæti krafið G um greiðslu þess sem eftir stæði af skuldinni. Ekki stoðaði fyrir Í að leitast við bæta úr þessu undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti með því að leggja fram gögn sem hann hefði aflað einhliða eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar, og bera í raun fyrir sig nýjar málsástæður um hvert hafi verið markaðsverð fasteignarinnar á umræddum tíma. Með þessum athugasemdum var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því ekki til frekari álita krafa hans um málskostnað í héraði.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms reisir sóknaraðili kröfu sína um gjaldþrotaskipti á því að hann eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila á grundvelli skuldabréfs frá 7. nóvember 2007. Þetta skuldabréf var upphaflega að fjárhæð 24.000.000 krónur og tryggt með veði í fasteigninni Naustabryggju 38 í Reykjavík, en samkvæmt áritun á bréfið var veðið selt nauðungarsölu 18. febrúar 2013 og fékkst þar ekkert greitt upp í kröfu samkvæmt því. Í kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti 21. ágúst 2013, sem mál þetta er risið af, kemur fram að eftirstöðvar skuldarinnar hafi þá numið 17.722.142 krónum, en í kröfunni vísaði hann til þess að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 14. júní sama ár fyrir skuld við annan lánardrottinn.

Af 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 4. gr. laga nr. 60/2010, leiðir að sóknaraðili getur að afstaðinni nauðungarsölu á fasteigninni, sem stóð að veði fyrir kröfu hans samkvæmt áðurnefndu skuldabréfi, aðeins krafið varnaraðila um greiðslu þess, sem stendur eftir af henni, að því leyti sem sóknaraðili sýnir fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfu sinnar. Gegn andmælum, sem varnaraðili hélt fram á grundvelli þessa lagaákvæðis, færði sóknaraðili engin haldbær gögn fram í héraði til stuðnings því að markaðsverð fasteignarinnar hefði ekki nægt til fullnustu kröfu sinnar. Ekki stoðar fyrir sóknaraðila að leitast við að bæta úr þessu undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti með því að leggja fram gögn, sem hann hefur aflað einhliða eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar, og bera í raun fyrir sig nýjar málsástæður um hvert hafi verið markaðsverð fasteignarinnar á umræddum tíma. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að varnaraðili hefur flutt mál sitt sjálfur hér fyrir dómi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila, Gunnari Árnasyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2014.

Krafa sóknaraðila, Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík um að bú varnaraðila, Gunnars Árnasonar, Naustabryggju 36, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta barst dóminum 26. ágúst 2013. Hún var tekin fyrir í dómi 16. október sl. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest þetta ágreiningsmál, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Varnaraðili lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum í þinghaldi 16. október sl. Málið var flutt munnlega 18. nóvember 2013 og tekið til úrskurðar. Dómari boðaði til uppkvaðningar úrskurðar 20. desember 2013. Í þinghaldi þann dag krafðist varnaraðili þess að málflutningur færi fram að nýju með vísan til 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 166. gr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Bókað var í þingbók að endurflutningur myndi fara fram 10. janúar sl. en vegna veikinda varnaraðila var málflutningnum frestað og fór hann fram 15. janúar sl.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst sóknaraðili máls­kostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. Þá krefst varnaraðili ómaksþóknunar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

Hinn 7. nóvember 2007 gaf G. Árnason ehf., kt. [...], út veðskuldabréf til Glitnis banka hf. að fjárhæð 24 milljónir króna. Veðskuldabréfið er auðkennt nr. 526-74-[...]. Veðskuldabréfið var verðtryggt, bundið vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 278,1 stig og skyldi bera kjörvexti, eins og þeir skyldu ákveðnir á hverjum tíma af bankanum, auk fasts 1,5% vaxtaálags. Við útgáfu veðskuldabréfsins voru vextir samtals 9,9%. Skuld samkvæmt veðskuldabréfinu átti að endurgreiða með 160 afborgunum á þriggja mánaða fresti og var gjalddagi fyrstu afborgunar 5. febrúar 2008. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, verðbóta, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar, var Glitni banka hf. sett að veði fasteign að Naustabryggju 38 í Reykjavík, fastanúmer [...], með fyrsta veðrétti. Varnaraðili undirritaði bréfið fyrir hönd lántaka. Veðskuldabréfið var móttekið til þinglýsingar 9. nóvember 2007 og innfært 12. nóvember s.á.

Með skriflegri áritun um skuldaraskipti, dags. 10. október 2008, samþykkti Glitnir banki hf. skuldaraskipti þannig að varnaraðili yrði framvegis skuldari fyrrnefnds veðskuldabréfs í stað G. Árnasonar ehf. Jafnframt félli bankinn frá öllum kröfum á hendur félaginu vegna veðskuldabréfsins. Í skjalinu segir að nýr skuldari hafi kynnt sér skilmála bréfsins, sem séu óbreyttir, og taki við skuldinni með öllum eftirstöðvum. Tekið er fram að þessi breyting sé gerð að beiðni undirritaðra. Skjalið er undirritað af varnaraðila persónulega og fyrir hönd G. Árnasonar ehf. og af starfsmanni fyrir hönd Glitnis banka hf. Af framlögðu ljósriti veðskuldabréfsins verður ekki séð að bréfið hafi verið áritað um þessi skuldaraskipti. Ekki verður heldur séð af ljósriti umræddrar áritunar að hún hafi verið móttekin til þinglýsingar.

Hinn 7. nóvember 2008 var skilmálum veðskuldabréfsins breytt. Tekið er fram í skjalinu að með áritun um skuldaraskipti 10. október 2008 hafi varnaraðili orðið nýr útgefandi og að Nýi Glitnir banki hf. hafi frá og með 14. október 2008 tekið við öllum réttindum og skyldum sem skjalið lýsi. Samkvæmt skjalinu var greiðsluskilmálum skuldabréfsins breytt og samþykkt að veðskuldabréfið yrði óverðtryggt og vaxtakjörum þess auk þess breytt. Tekið er fram að þessar breytingar séu gerðar að beiðni varnaraðila. Varnaraðili undirritar skjalið ásamt starfsmanni ,,f.h. Glitnis“. Skjalið er einnig áritað um samþykki síðari veðhafa af starfsmanni og er undirritunin gerð með stimpli sem ber merkið ,,Glitnir“. Veðskuldabréfið var áritað um þessa skilmálabreytingu. Skjalið var móttekið til þinglýsingar 12. nóvember 2008 og innfært 13. nóvember s.á.

Veðskuldabréfið er áritað um skilyrt veðleyfi, dags. 27. janúar 2009, að fjárhæð 22 milljónir króna til Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Áritunin er gerð með stimpli sem ber merkið ,,Glitnir”.

Hinn 8. júní 2009 skilmálum veðskuldabréfsins breytt á ný. Í skjalinu er vitnað til fyrrnefndra áritunar um skuldaraskipti og skilmálabreytingar. Fram kemur m.a. að 4. júní 2009 hafi eftirstöðvar skuldarinnar  numið 10.219.667 krónum, þar af vanskil 495.829 krónum. Greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins var breytt og verðtrygging tekin aftur upp, bundin vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 336 stig, auk þess sem vaxtakjörum bréfsins var breytt. Tekið er fram að Íslandsbanki hf., áður Nýi Glitnir banki hf., hafi frá og með 15. október 2008 tekið við þeim réttindum og skyldum sem skjalið lýsi. Varnaraðili undirritar skjalið ,,sem greiðandi og þinglýstur eigandi”. Veðskuldabréfið var áritað um þessa skilmálabreytingu. Skjalið var móttekið til þinglýsingar 18. júní 2009 og innfært 19. júní s.á.

Veðskuldabréfið er áritað um að nauðungarsala hafi farið fram á hinni veðsettu eign 18. febrúar sl. og hafi ekkert greiðst upp í kröfu samkvæmt veðskuldabréfinu samkvæmt úthlutun. Vakin sé athygli á 57. gr. laga nr. 90/1991. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við endurflutning málsins að lýstar kröfur sóknaraðila séu að fjárhæð um 32 milljónir króna og komi á eftir kröfum Lífeyrssjóðs verslunarmanna.

Þá sagði lögmaður sóknaraðila við endurflutninginn að Byr hf. hefði runnið saman við sóknaraðila.

Árangurslaust fjárnám var gert hjá varnaraðila 14. júní 2013 að kröfu Arion banka hf.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína á fyrrnefndu veðskuldabréfi, sem varnaraðili hafi gefið út til sóknaraðila, og á skilmálabreytingum á bréfinu. Skuld samkvæmt veðskuldabréfinu sé í vanskilum síðan 5. september 2009 og hafi varnaraðili ekki sinnt tilkynningum um vanskil. Hin veðsetta fasteign að Naustabryggju 38 í Reykjavík, fastanúmer [...], hafi verið seld á nauðungarsölu 18. febrúar sl., en sóknaraðili hafi ekkert fengið upp í kröfu sína. Sóknaraðili vísar til þess að fjárnám hafi verið gert hjá varnaraðila 14. júní sl. og hafi því lokið án árangurs. Innan við þrir mánuðir hafi liðið frá gerðinni þar til beiðni sóknaraðila var sett fram.

Við endurflutning málsins svaraði lögmaður sóknaraðila málsástæðum varnaraðila. Sóknaraðili hafnar því í fyrsta lagi að skuldaraskipti á veðskuldabréfinu sé ógild. Þessi málsástæða sé ekki rökstudd. Almenn starfsemi Glitnis banka hf. hafi haldið áfram og bankinn hafi enn haft starfsleyfi sem viðskiptabanki. Starfsmenn bankans hafi haft fullt stöðuumboð.

Þá vísar sóknaraðili til þess að Lífeyrissjóður verslunarmanna hafi keypt hina veðsettu eign á nauðungarsölu á 28 milljónir króna, en fasteignamat eignarinnar sé lægra. Ítrasta verðmat á eigninni sé 32 milljónir króna. Markaðsvirði eignarinnar hafi því fengist við uppboðið. Mat varnaraðila á markaðsverðmæti eignarinnar sé órökstutt. Úthlutun söluverðs hafi ekki verið mótmælt eftir ákvæðum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Sóknaraðili byggi á árangurslausu fjárnámi Arion banka hf. sem hafi verið staðfest.

Sóknaraðili bendir á að veðskuldabréfið hafi í upphafi verið útgefið af lögaðila. Varnaraðili sé skuldari veðskuldabréfsins samkvæmt skuldaraskiptum. Það sé rangt og ósannað að kröfu á grundvelli lánsins hafi verið lýst í þrotabú lögaðilans.

Einnig byggir sóknaraðili á því að rangt orðalag hafi verið notað í beiðni hans þar sem fullyrt hafi verið að krafan byggði á skuldabréfi með sjálfskuldarábyrgð. Þessi rangfærsla skipti engu máli. Gallar á beiðni sóknaraðila varði ekki höfnun.

Engu breyti þótt Glitnir banki hf. hefði gefið út veðleyfi. Sóknaraðili hafi eftir sem áður gefið út leyfið. Engin kennitala komi fram í stimpli.

Varnaraðili haldi því ekki fram að skuld hans við sóknaraðila sé að full greidd. Nóg sé að sóknaraðili sanni að einhver skuld sé til staðar, en þess gerist ekki þörf að sanna tiltekna fjárhæð skuldarinnar. Tilvísun til frumvarps sem ríkisstjórn Íslands hafi lýst yfir að verði lagt fram skipti engu máli. Staða annarra lána varnaraðila við sóknaraðila skipti heldur engu máli. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á greiðslugetu sína.

Varnaraðila hafi verið í lófa lagið að leggja fram gögn um að hann geti staðið við lágmark skuldbindinga sinna. Engin gögn séu lögð fram um veðrými í öðrum eignum, en eignir varnaraðila séu allar yfirveðsettar. Málsástæða varnaraðila um næga tryggingu í fasteigninni að Naustabryggju 55 í Reykjavík sé of seint fram komin. Þá sé Dragon eignarhaldsfélag ehf. ekki aðili að þessu máli og ekkert liggi fyrir um tengsl varnaraðila við það félag. Þá hafi varnaraðili ekki bent á aðrar eignir við fjárnám. Árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila sé eitt sér nægileg sönnun.

Loks sé málsástæða um dráttarvexti of seint fram komin. Kröfu um skaðabætur sé einnig mótmælt.

Í kröfu um gjaldþrotaskipti sundurliðar sóknaraðili kröfu sína á svofelldan hátt:

Höfuðstóll, gjaldfelldur

10.484.451 króna

Samningsvextir til 5. september 2009

53.159 krónur

Dráttarvextir til 21. ágúst 2013

6.815.268 krónur

Banka- og stimpilkostnaður

550 krónur

Innheimtuþóknun

189.535 krónur

Greiðsluáskorun

11.300 krónur

Veðbókarvottorð

1.000 krónur

Vanskilaskrá

1.000 krónur

Kostnaður vegna fjárnáms

250 krónur

Uppboðsbeiðni

10.400 krónur

Kostnaður vegna uppboðs

178.000 krónur

Kröfulýsing

5.200 krónur

Gjaldþrotaskiptabeiðni

5.200 krónur

Vextir af kostnaði

39.882 krónur

Virðisaukaskattur

66.947 krónur

Innborgun

-140.000 krónur

Samtals

17.722.142 krónur

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að meint skuldskeyting sé dags. 10. október 2008, tveimur dögum eftir að Fjármálaeftirlitið hefði tilkynnt að stofnunin hefði tekið yfir rekstur Glitnis banka hf. Veðskuldabréfið sé auk þess ekki áritað um meint skuldaraskipti eins og staðhæft sé í meintri skuldskeytingu. Glitni banka hf. hafi verið óheimilt að undirrita hina meintu skuldskeytingu 10. október 2008.

Varnaraðili vísar til þess að umrætt veðskuldabréf hafi verið tryggt með fyrsta veðrétti í fasteigninni að Naustabryggju 38 í Reykjavík, með fastanúmerið [...]. Eignin hafi verið seld á nauðungarsölu í febrúarmánuði síðastliðnum. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hafi ekki nægt til fullnustu kröfunnar, sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og áritun sýslumannsins í Reykjavík við úthlutun söluverðs.

Krafa sóknaraðila byggi á því að Arion banki hf. hafi gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila. Þeirri ákvörðun hafi varnaraðili vísað til úrlausnar héraðsdómara. Málið hafi verið tekið til efnislegrar meðferðar undir málsnúmerinu Y-1/2013, en málið hafi ekki enn verið flutt munnlega. Varnaraðili mótmæli því að krafa sóknaraðila sé byggð á ágreiningsmáli þar sem niðurstaða liggi enn ekki fyrir.

Í beiðni sóknaraðila sé ranglega staðhæft að varnaraðili hafi gefið út veðskuldabréfið. Hið rétta sé að lögaðili hafi gefið út bréfið. Bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og sé skiptum ekki lokið. Sóknaraðili hafi lýst kröfu í búið á grundvelli umrædds veðskuldabréfs. Einnig sé ranglega staðhæft í beiðni sóknaraðila að veðskuldabréfið sé með sjálfskuldarábyrgð.

Varnaraðili rekur að skilyrt veðleyfi hafi verið að fjárhæð 22 milljónir króna. Varnaraðili mótmælir því að krafa samkvæmt veðskuldabréfinu standi nú í tæpum 18 milljónum króna. Nærri láti að fjárhæð í beiðni sóknaraðila sé níföld sú fjárhæð sem hafi verið eftirstöðvar lánsins við innborgun á lán sóknaraðila í kjölfar lánveitingar lífeyrissjóðsins. Forsendur útreikninga sóknaraðila standist ekki og varnaraðili mótmæli þeim sem röngum og rakalausum. Varnaraðili sagði við endurflutning málsins að bein nauðungarsöluheimild sé í 5. tl. tryggingarbréfs sem hvíli á 1. veðrétti eignarinnar að Naustabryggju 55 í Reykjavík, fastanúmer [...]. Sóknaraðili hefði getað selt eignina, en skuldin hefði verið gjaldfelld í september 2009. Krafa sóknaraðila sé því röng. Þá mótmælir varnaraðili kröfu sóknaraðila um bæði dráttarvexti og innheimtuþóknun. Ekki sé hægt að sjá rétta kröfu sóknaraðila.

Þrátt fyrir ítrekanir varnaraðila hafi sóknaraðili ekki endurreiknað ólögmæt lán, sem óumdeilt sé að falli undir dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæti gengistryggðra lána, og birt honum endurreikning. Þetta eigi til að mynda við um tryggingarbréf áhvílandi á fyrsta veðrétti fasteignarinnar að Naustabryggju 55. Varnaraðili sagði við endurflutninginn að misritast hefði í greinargerð að um veðlán væri að ræða, en ekki tryggingarbréf.

Við endurflutning málsins sagði varnaraðili að ekki kæmi fram í beiðni sóknaraðila á hvaða tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 krafa hans byggði. Væri krafan byggð á 1. tl. væri hún nægilega tryggð með veði í fyrrnefndri fasteign að Naustabryggju 55, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili væri kröfuhafi tryggingarbréfs sem hvíldi á 1. veðrétti eignarinnar, þar sem Byr hefði sameinast sóknaraðila. Tryggingarbréfið sé allsherjarveð og tryggi allar skuldir varnaraðila við sóknaraðila. Fasteignamat eignarinnar sé 31 milljón króna og beri að leggja það til grundvallar. Sóknaraðili hafi ekki sannað að eignir varnaraðila séu yfirveðsettar.

Varnaraðili sagði við endurflutning málsins að sóknaraðili væri skaðabóta-skyldur gagnvart honum vegna tjóns sem krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi hans hefði valdið honum.

Varnaraðili byggir á því að ríkisstjórn Íslands hafi opinberlega lýst því yfir að frumvarp að lögum um yfirveðsettar fasteignir einstaklinga verði lagt fyrir Alþingi og komi til efnislegrar umfjöllunar á haustþingi.

Um kröfu sína um ómaksþóknun vísaði varnaraðili til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Við endurflutning málsins féll varnaraðili frá málsástæðu um að aðild sóknaraðila væri ósönnuð. Til samræmis við þessa yfirlýsingu verður að leggja til grundvallar að sóknaraðili sé réttur aðili til sóknar í þessu máli. Varnaraðili féll einnig frá málsástæðu um að áritun á skuldabréf það sem krafa sóknaraðila byggir á 27. janúar 2009, hefði ekki verið undirrituð af þar til bærum aðila.

Varnaraðili fullyrðir að skuldaraskipti sem fram fóru 10. október 2008 séu ógild þar sem þau hafi farið fram eftir að Fjármálaeftirlitið hefði 7. október 2008 ákveðið að víkja stjórn Glitnis banka hf. frá, taka yfir vald hluthafafundar bankans og skipa honum skilanefnd. Starfsmönnum bankans hafi því verið óheimilt að undirrita áritun um skuldaraskiptin. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að Glitnir banki hf. hafi á þeim tíma enn haft starfsleyfi sem viðskiptabanki. Samkvæmt b-lið 2. liðar 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki felur slíkt leyfi m.a. í sér leyfi til að veita langtímaveðlán, eins og það sem varnaraðili gekkst undir með umræddum skuldaraskiptum. Í 1. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 segir m.a. að öllum eignum Glitnis banka hf. sé ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf. þegar í stað og eru kröfuréttindi m.a. upptalin. Nýi Glitnir banki hf. taki jafnframt við öllum tryggingarréttindum Glitnis banka hf., þ.m.t. öllum veðréttindum. Fram kemur m.a. í 5. tl. ákvörðunarinnar að Nýi Glitnir banki hf. taki ,,frá og með 15. október 2008 kl. 9:00 við starfsemi sem Glitnir banki hf. hefur haft með höndum og tengist hinum framseldu eignum [...].“ Þar er ekki minnst á að Glitnir banki hf. hafi verið sviptur starfsleyfi sem viðskiptabanki auk þess sem þetta orðalag verður vart túlkað öðruvísi en sem svo að bankinn hafi haft heimild fram til þess tíma til að halda áfram starfsemi sem tengdist þessum eignum. Verður því ekki á það fallist að skuldaraskipti 10. október 2008 séu ógild af þessum sökum.

Varnaraðili byggir einnig á því að skuldaraskipti sem fram fóru 10. október 2008 séu ógild þar sem veðskuldabréfið hafi ekki verið áritað um skuldaraskiptin. Veðskuldabréf eru viðskiptabréf. Réttarreglur um viðskiptabréf fela það í sér að grandlaus framsalshafi fær almennt þann rétt sem viðskiptabréfið ber með sér að framseljandi eigi. Sé viðskiptabréf ekki áritað um breytingar á skilmálum þess tapar skuldari því almennt þeirri mótbáru sem hann átti gagnvart framseljanda. Áritun á viðskiptabréf er hins vegar ekki skilyrði fyrir því að breyting á skilmálum þess öðlist gildi gagnvart þeim aðilum sem breytinguna gera. Var áritunar veðskuldabréfsins því ekki þörf til þess að skuldaraskipti kæmust á með bindandi hætti gagnvart varnaraðila, G. Árnasyni ehf. og Glitni banka hf. Gegn andmælum sóknaraðila er ósönnuð sú fullyrðing varnaraðila að sóknaraðili hafi lýst kröfu í þrotabú G. Árnasonar ehf. á grundvelli þessa veðskuldabréfs.

Með vísan til framangreinds er ekki á það fallist að aðildarskortur sé til staðar af hálfu varnaraðila.

Varnaraðili byggir á því að gallar séu á beiðni sóknaraðila um töku bús hans til gjaldþrotaskipta, þar sem ranglega sé staðhæft að varnaraðili sé útgefandi þess veðskuldabréfs sem krafan byggist á auk þess sem ranglega komi fram í beiðninni að skuldabréfið sé með sjálfskuldarábyrgð. Fram kemur í beiðni sóknaraðila að krafa hans sé ,,vegna skuldabréfs útg. þann 07.11.2007 af Gunnari Árnasyni [...]“. Fallast verður á það með varnaraðila að þessi lýsing sé röng, enda var bréfið upphaflega útgefið af G. Árnasyni ehf. Þá kemur fram í beiðninni að m.a. sé lagt fram ,,Skuldabréf m/ sjálfsk.ábyrgð.“ Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að þessi lýsing væri röng. Í beiðninni er efni veðskuldabréfsins að nokkru leyti lýst, þ.e. útgáfudegi, upphaflegri fjárhæð og veðandlagi. Þá fylgdi ljósrit veðskuldabréfsins með kröfunni, ásamt ljósritum af áritun um skuldaraskipti og skilmálabreytingum 7. nóvember 2008 og 8. júní 2009. Þótt fallast megi á það með varnaraðila að þessir ágallar á beiðni sóknaraðila séu aðfinnsluverðir gat varnaraðili samt sem áður gert sér grein fyrir því á hvaða fjárkröfu beiðni sóknaraðila byggði og hvernig sóknaraðili teldi sig vera kröfuhafa hennar og varnaraðila skuldara hennar. Ekki verður því séð að þessir ágallar á beiðni sóknaraðila hafi haft áhrif á möguleika varnaraðila til þess að taka til varna í þessu máli. Leiða þessir ágallar því ekki til þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Varnaraðili vísar til þess að Arion banki hf. hafi gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila. Þeirri ákvörðun hafi varnaraðili vísað til úrlausnar héraðsdómara og hafi málið verið tekið til efnislegrar meðferðar undir málsnúmerinu Y-1/2013. Samkvæmt endurriti úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember sl. í því máli fjallar málið um aðfarargerð nr. 011-2012-02294 sem lauk með árangurslausu fjárnámi hjá varnaraðila 23. nóvember 2012. Aðfarargerðin sem krafa sóknaraðila byggir á er samkvæmt beiðni hans nr. 011-2013-03263 og fór fram 14. júní 2013. Krafa sóknaraðila byggir þannig á annarri gerð en þeirri sem er til umfjöllunar í málinu nr. Y-1/2013. Er þessi málsástæða varnaraðila því haldlaus.

Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að markaðsvirði hinnar veðsettu fasteignar að Naustabryggju 38 í Reykjavík, fastanúmer [...], við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfu sóknaraðila á uppboðsdegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við endurflutning málsins að lífeyrissjóður hefði keypt eignina á nauðungarsölunni fyrir 28 milljónir króna, en fasteignamat eignarinnar væri lægra. Ítrasta verðmat á eigninni sé 32 milljónir króna. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skal fasteignamat á hverjum tíma endurspegla gangverð eignar umreiknað til staðgreiðslu. Samkvæmt þessu er ljóst að virði eignarinnar var á uppboðsdegi hærra en sem nemur fasteignamati hennar, en lægra en sem nemur ítrasta verðmati sóknaraðila sjálfs. Sóknaraðili hefur þannig ekki leitast við að sýna fram á hvort sú fjárhæð sem eignin var seld fyrir á nauðungarsölunni hafi jafngilt markaðsvirði hennar. Hefur sóknaraðili því ekki sýnt fram á að skilyrðum 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 sé fullnægt til þess að hann geti krafið varnaraðila um greiðslu þess sem eftir stendur af skuldinni.

Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann sé lánardrottinn varnaraðila samkvæmt margnefndu veðskuldabréfi. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila.

Í ljósi niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal sóknaraðili greiða varnaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 125.000 krónur.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kröfu sóknaraðila, Íslandsbanka hf., um að bú varnaraðila, Gunnars Árnasonar, verði tekið til gjaldþrotaskipta, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 125.000 krónur í málskostnað.