Hæstiréttur íslands

Mál nr. 312/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Miðvikudaginn 13. júní 2007.

Nr. 312/2007

Ákæruvaldið

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. júlí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur varnaraðila 6. júní 2007 fyrir tilraun til manndráps, þar sem ákærða er gefið að sök að hafa 3. apríl 2007 veist að manni og stungið hann tvívegis með hnífi í brjóstkassa. Hafi önnur stungan gengið í gegnum brjóstvegg mannsins og við það komið gat á framvegg hjartans sem hafi valdið lífshættulegri blæðingu. Kominn er fram sterkur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir. Meðal gagna málsins er áverkavottorð 17. maí 2007, en áður hafði einungis legið fyrir svokallað bráðavottorð ritað sömu nótt og tjónþoli komst undir læknishendur. Ríkissaksóknara voru send rannsóknargögn 4. júní og ákæra gefin út tveimur dögum síðar. Eins og mál þetta liggur fyrir verður af gögnum þess hins vegar ekki annað ráðið en rannsókn hafi ekki gengið með nægilegum hraða, þrátt fyrir að varnaraðili hafi setið í gæsluvarðhaldi. Á þessu hafa ekki verið gefnar viðhlítandi skýringar. Þrátt fyrir þetta eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní  2007.

Ár 2007, miðvikudaginn 6. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af  Allan V. Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

             Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X [kennitala], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. júlí nk. kl. 16:00. 

             Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að vísað sé til krafna lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald yfir kærða, dags. 4. apríl og 9. maí sl., til úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur í málum R-210/2007 og R-253/2007, og til dóms Hæstaréttar í máli nr. 256/2007.

             Lögregla hafi verið kölluð að [...] þann 3. apríl sl. Við komu á vettvang veittu lögreglumenn athygli manni, kærða, sem kom gangandi frá bifreiðaplani við húsið í átt að lögreglubifreiðinni.  Hafi hann verið handtekinn og tilkynnti hann strax lögreglu að hann hefði stungið mann.  Kvaðst hann hafa skilið árásarvopnið, hníf eftir er hann yfirgaf íbúðina, ætlaðan brotavettvang.  Blóðblettir voru á fatnaði kærða.  Inni í íbúðinni voru fjórir aðilar, einn af þeim brotaþoli, sem hafi sýnilega verið með tvö stunguför annað á bringu og hitt á kvið og hafi hann verið hreyfingarlaus við komu lögreglu á staðinn.  Á sófaborði lá hnífur með um 10-11 cm löngu blaði og hafi hann verið blóðugur upp að skafti.  Annar hnífur með brotnu skafti lá á gólfi fyrir framan sófann. 

             Kærði hafi játað að hafa umrætt sinn misst stjórn á sér í samskiptum við brotaþola, náð í hníf og lagt til brotaþola.  Framburður vitna af atvikinu sé á þá leið að eftir að sljákkaði í deilum á milli kærða og brotaþola hafi kærði farið fram í eldhús íbúðarinnar sem þeir voru í, sótt hníf og lagt til brotaþola.

             Rannsókn málsins sé lokið og sætir nú meðferð hjá Ríkissaksóknara, sbr. bréf dags. 5. júní sl.

             Sterkur rökstuddur grunur sé fyrir hendi þess efnis að kærði hafi framið brot gegn 211., sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981, sem getur varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi.  Til meðferðar sé mál þar sem kærði hafi játað að hafa beitt stórhættulegu vopni í tvígang gegn brotaþola, í kvið og brjóstkassa.  Fyrir liggi vottorð læknis, þar sem fram komi að um lífshættulegan áverka hafi verið að ræða. Telur lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. 

             Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

             Kærði hefur viðurkennt að hafa lagt tvívegis til Y með hnífi hinn 3. apríl sl. Með því olli hann Y lífshættulegum áverka. Fram kemur að ríkissaksóknari muni gefa út ákæru á hendur kærða vegna þessa nú í dag.  Dómari telur að brot það sem kærði hefur viðurkennt sé það alvarlegt að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi og að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt.  Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett.

Úrskurðarorð:

             Kærði, X, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. júlí nk. kl. 16.00.