Hæstiréttur íslands

Mál nr. 538/2013


Lykilorð

  • Fjármagnstekjuskattur
  • Ákæra
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Skilorð
  • Sekt
  • Vararefsing


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 5. júní 2014.

Nr. 538/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Eiríki Sigurðssyni og

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

Hjalta Magnússyni

(Björn Jóhannesson hrl.)

Fjármagnstekjuskattur. Ákæra. Frávísunarkröfu hafnað. Skilorð. Sekt. Vararefsing.

E og H voru ákærðir fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa í sameiningu staðið skil á efnislega röngu skattframtali E og látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur E að fjárhæð 813.011.009 krónur af uppgjöri 102 framvirkra samninga með undirliggjandi hlutabréfum. Hafði H séð um gerð skattframtals fyrir E. Kröfu E og H um frávísun málsins var hafnað. Ekki var fallist á að annmarkar hefðu verið á ákæru. Þá var vísað til þess að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði ekki verið talið að það færi í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð þótt stjórnvöld hefðu áður gert manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni væri síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sömu málsatvika. Þá varðaði það ekki frávísun málsins þótt skattrannsóknarstjóri eða sérstakur saksóknari hefði tjáð sig með almennum hætti um fyrirhugaða lagasetningu á sviði skattaréttar, enda væri slík umfjöllun saksókninni óviðkomandi. Ekki var heldur fallist á að tilteknir annmarkar á samningu héraðsdóms yllu því að ómerkja bæri dóminn. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að hagnaður E af gerð umræddra framvirkra skiptasamninga hefði falið í sér skattskyldar fjármagnstekjur og að ekki hefði staðið heimild til að draga frá þeim tap af öðrum sams konar samningum.  Hvorki var fallist á með E að um hefði verið að ræða tekjur í sjálfstæðri atvinnustarfsemi né að það bryti gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar að tekjur einstaklinga af atvinnurekstri væru skattlagðar á annan veg en aðrar tekjur. Þótt lögum hefði síðar verið breytt um skattlagningu fjármagnstekna breytti það engu um refsinæmi þess að skýra rangt eða villandi frá því sem máli skipti við álagningu fjármagnstekjuskatts. Var málið því dæmt eftir gildandi skattalögum á þeim tíma er E aflaði teknanna. Þá leysti það E og H ekki undan refsiábyrgð þótt viðsemjandi E hefði vanrækt skyldu sína til að standa skil á skattinum eftir lögum nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Voru E og H sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. E og H voru báðir dæmdir í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var E dæmdur til að greiða 127.000.000 krónur í sekt og skyldi eins árs fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd. Hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að H yrði sviptur löggildingu til að vera endurskoðandi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Guðrún Erlendsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. ágúst 2013 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd, svo og að ákærði Hjalti Magnússon verði sviptur löggildingu sem endurskoðandi.

Ákærðu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Að þessu frágengnu krefjast þeir sýknu, en ella að refsing verði milduð.

I

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins 20. október 2010 mun ákærða Eiríki Sigurðssyni hafa verið tilkynnt að hafin væri rannsókn á skattskilum hans vegna tekjuársins 2007. Beindist rannsóknin meðal annars að meðferð hagnaðar á skattframtali 2008 af fjölda framvirkra skiptasamninga, sem ákærði hafði gert við Landsbanka Íslands hf. Samningarnir, sem um ræddi, höfðu verið gerðir upp á árinu 2007 og tóku til hlutabréfa í ýmsum félögum. Ákærði Hjalti hafði annast gerð skattframtalsins fyrir ákærða Eirík og sneri rannsóknin jafnframt að því hver þáttur ákærða Hjalta hefði verið við töku ákvarðana um meðferð umrædds hagnaðar. Við meðferð málsins hjá skattyfirvöldum héldu ákærðu því fram að tekjurnar hefðu réttilega verið gefnar upp til skatts, enda hefði verið heimilt að draga frá skattskyldum fjármagnstekjum vegna samninganna tap af öðrum sams konar samningum á sama tekjuári.

Ákærðu var send skýrsla skattrannsóknarstjóra vegna málsins 2. desember 2010 og þeim veittur frestur til að tjá sig um efni hennar. Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að ákærði Eiríkur hefði vanrækt að gera grein fyrir skattskyldum tekjum vegna jákvæðs mismunar af framvirkum skiptasamningum að fjárhæð 820.318.399 krónur á skattframtali 2008 vegna tekjuársins 2007. Þá var einnig komist að þeirri niðurstöðu að ákærði Hjalti hefði átt hlut að ákvörðun um hvernig farið skyldi með tekjur af viðskiptunum á skattframtalinu. Með bréfum 27. desember 2010 var ákærðu tilkynnt að rannsókn skattrannsóknarstjóra væri lokið og að málið hefði verið sent ríkisskattstjóra til ákvörðunar um hugsanlega endurálagningu. Einnig var ákærðu kynnt það mat skattrannsóknarstjóra að þeir kynnu að hafa bakað sér refsiábyrgð og að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um refsimeðferð málsins að liðnum fresti, sem ákærðu var veittur til að tjá sig um þann þátt þess.

Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð 23. janúar 2012, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stofn til fjármagnstekjuskatts ákærða Eiríks vegna gjaldársins 2008 skyldi hækka um 820.318.398 krónur og yrði bætt við hann 25% álagi eða 205.079.600 krónum. Vegna þessa hækkaði fjármagnstekjuskattur ákærða um 102.539.799 krónur. Ákærði Eiríkur kærði þennan úrskurð til yfirskattanefndar, sem kvað upp úrskurð í málinu 20. febrúar 2013. Þar var kröfum ákærða hafnað að öðru leyti en því að talið var að ríkisskattstjóra hefði borið að taka tillit til kostnaðar ákærða vegna þóknana, sem Landsbanki Íslands hf. hefði tekið sér við uppgjör skiptasamninganna, og bæri af þeim sökum að lækka vaxtatekjur ákærða af viðskiptunum um 76.127.641 krónu.

Með bréfum 8. mars 2012 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ákærðu um að málinu hefði verið vísað til lögreglu. Að undangenginni rannsókn embættis sérstaks saksóknara var ákæra gefin út 13. desember 2012, en í henni var ákærðu gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur að fjárhæð samtals 813.011.009 krónur í skattframtali ákærða Eiríks 2008 og hann þannig komist undan greiðslu 81.301.101 krónu í fjármagnstekjuskatt.

II

Ákærðu krefjast þess báðir að málinu verði vísað frá héraðsdómi sökum þess að ákæru sé ábótavant. Í henni voru ákærðu bornir sökum um meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa í sameiningu staðið skil á efnislega röngu skattframtali ákærða Eiríks gjaldárið 2008, þar sem vanrækt hafi verið að telja fram fjármagnstekjur að fjárhæð samtals 813.011.009 krónur. Í ákæru kom fram að tekjur ákærða Eiríks af uppgjöri á 102 framvirkum samningum við Landsbanka Íslands hf. hafi numið þessari fjárhæð árið 2007. Í ákæru var vísað til nánar tilgreindra ákvæða laga nr. 90/2003 um tekjuskatt til stuðnings því að tekjur þessar hafi verið skattskyldar. Þá var tekið fram að ákærði Eiríkur hafi þannig með aðstoð ákærða Hjalta, sem sé löggiltur endurskoðandi, skýrt rangt frá fjármagnstekjum sínum í skýrslugjöf til skattyfirvalda og þannig komist undan greiðslu 81.301.101 krónu í fjármagnstekjuskatt. Í ákæru var tekið upp yfirlit yfir skiptasamningana, þar sem greint var frá svonefndum lokunardegi hvers þeirra, þóknun sem hafi verið greidd og hagnaði af þeim. Þá voru brot ákærðu heimfærð til refsiákvæða. Hvorki var þörf á að lýsa nánar hvenær þessi ætluðu brot teldust hafa verið framin né að gera frekari grein fyrir röksemdum, sem málsóknin væri reist á. Þótt enginn listi yfir vitni, sem ákæruvaldið hygðist leiða fyrir dóm, hafi fylgt ákærunni eins og kveðið er á um í 154. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála leiðir sá annmarki ekki til þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Ákærði Eiríkur hefur einnig reist kröfu um frávísun málsins á því að í ákæru hafi ekki verið gerður sérstakur greinarmunur á skiptasamningum, sem voru annars vegar í erlendum gjaldmiðlum og hins vegar í íslenskum krónum, en gerður sé munur á skattlagningu slíkra samninga í lögum nr. 90/2003. Að sama skapi sé óvarlegt að treysta því að ákærði hafi gert þá skiptasamninga, sem málið lýtur að, enda hafi þeir ekki verið lagðir fram undirritaðir. Hvorugt þessara atriða getur leitt til þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en þau kunna eftir atvikum að koma til skoðunar við mat á því hvort sýkna beri ákærðu í heild eða að hluta. 

Ákærðu reisa kröfur sína um frávísun jafnframt á því að þeir hafi sætt endurtekinni málsmeðferð, enda hafi ákærða Eiríki þegar verið gerð refsing fyrir það brot, sem honum er gefið að sök, með því að sæta 25% álagi á skattstofn samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 23. janúar 2012. Um þetta verður að gæta að því að ákærði Hjalti sætti engum viðurlögum í úrskurðum skattyfirvalda, sem áður er getið. Að því er ákærða Eirík varðar verður að líta til þess að hann hafði samkvæmt framansögðu á öllum stigum málsins fengið vitneskju frá skattyfirvöldum um það í hvaða farveg mál hans gæti farið. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur það ekki verið talið fara í bága við bann við endurtekinni málsmeðferð að stjórnvöld hafi gert manni að greiða skatt af álagi á skattstofn og sama manni séu síðan í öðru máli gerð viðurlög vegna sama brots, sbr. dóma Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010, 23. janúar 2014 í máli nr. 323/2013, 15. maí 2014 í máli nr. 465/2013 og 22. maí 2014 í máli nr. 416/2013. Málinu verður því ekki vísað frá héraðsdómi á þessum grundvelli. Þá getur það ekki varðað frávísun málsins þótt skattrannsóknarstjóri hafi tjáð sig með almennum hætti um fyrirhugaða lagasetningu á þessu sviði skattaréttar, enda var slík umfjöllun saksókninni óviðkomandi.

III

Ákærðu reisa kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms á því að lýsing þar á málsatvikum sé ófullnægjandi. Þá sé hvorki vikið að ýmsum atriðum í vörnum þeirra né tekin rökstudd afstaða til saknæmisskilyrða þeirra refsiákvæða sem ákært sé fyrir. Af þessum sökum uppfylli dómurinn ekki ákvæði d., e., f. og g. liðar 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Þótt umfjöllun héraðsdóms um þessi atriði sé ábótavant valda þeir annmarkar því ekki að dómurinn verði ómerktur. Verður kröfu ákærðu um þetta því hafnað.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 skal skattskyldur maður sæta refsingu ef hann skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því, sem máli skiptir um tekjuskatt sinn. Ákærðu er gefið að sök meiri háttar brot gegn lögunum, sem hafi falist í því að hafa sameiginlega staðið skil á efnislega röngu skattframtali ákærða Eiríks gjaldárið 2008 vegna tekjuársins 2007, þar sem látið hafi verið undir höfuð leggjast að telja fram tilgreindar fjármagnstekjur. Við meðferð málsins fyrir skattyfirvöldum viðurkenndi ákærði Eiríkur að hann hefði gert þá samninga, sem mál þetta lýtur að, og að hann hefði haft af þeim tekjur. Þessu hefur hann ekki neitað fyrir dómi. Skiptir því engu að samningarnir, sem lagðir hafa verið fram í málinu, hafi ekki verið undirritaðir af ákærða.

Samningarnir, sem ákæra tekur til, voru framvirkir og bundnir viðmiðun við hlutabréf að tilteknu nafnverði í tilgreindum hlutafélögum, en á umsömdum lokadegi fór fram uppgjör, sem tók mið af gengi hlutabréfanna á þeim degi að frádregnu upphaflegu virði þeirra auk vaxta og kostnaðar. Það réðst því af verðmæti viðmiðunarbréfanna á lokadegi hvort samningarnir kæmu út í hagnaði eða tapi fyrir ákærða Eirík. Samkvæmt þessu var um að ræða afleiðusamninga, sem snerust ekki um kaup á tilteknum hlutabréfum, enda fékk ákærði hvorki né lét af hendi hlutabréf við uppgjör samninganna. Þeir samningar, sem leiddu til hagnaðar fyrir ákærða, fólu því í sér tekjur af peningalegum eignum, sem voru skattskyldar samkvæmt 3. tölulið C. liðar 7. gr., sbr. 2. málslið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 22. maí 2014 í máli nr. 416/2013. Ákærða Eiríki var því hvorki heimilt samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003 að draga frá skattskyldum fjármagnstekjum vegna samninganna tap af öðrum sams konar samningum né beinan kostnað við öflun teknanna, sbr. 3. mgr. 2. töluliðar B. liðar 30. gr. sömu laga. Ekkert liggur fyrir í málinu til stuðnings þeirri staðhæfingu ákærða að um hafi verið að ræða tekjur í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans, en viðskiptin gerði hann í eigin nafni. Þá verður það ekki talið brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar að tekjur einstaklinga af atvinnurekstri séu skattlagðar á annan veg en aðrar tekjur.

Með lögum nr. 38/2008 voru gerðar breytingar á ákvæðum laga nr. 90/2003, sem vörðuðu hagnað af afleiðusamningum, þar sem undirliggjandi verðmæti væru eingöngu hlutabréf. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2008 skyldu þessar breytingar koma til framkvæmdar við álagningu tekjuskatts á árinu 2009 vegna söluhagnaðar, sem myndaðist á árinu 2008. Lagabreyting þessi tók því ekki til framtals ákærða Eiríks, sem mál þetta lýtur að. Með lögum nr. 142/2013 var lögum nr. 90/2003 síðan breytt á þann veg að tekjur af afleiðuviðskiptum eru nú skattlagðar sem söluhagnaður í stað vaxtatekna. Hvorki lög nr. 38/2008 né lög nr. 142/2013 breyttu nokkru um refsinæmi þess að skýra rangt eða villandi frá því, sem máli skiptir við álagningu tekjuskatts. Verður málið því dæmt eftir gildandi skattalögum á þeim tíma, sem ákærði Eiríkur aflaði teknanna og honum bar að telja þær fram, sbr. lokamálslið 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Eiríkur hefur byggt á því að hluti umræddra skiptasamninga hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, en samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 sé heimilt að draga gengistap frá gengishagnaði af hvers konar eignum í erlendum verðmæli. Ekki verður fallist á að þetta atriði geti komið til frekari skoðunar við úrlausn málsins, enda hefur ákærði hvorki við meðferð þess fyrir skattyfirvöldum né fyrir dómi rakið nánar hvaða áhrif gengistap gæti hafa haft við ákvörðun fjármagnstekjuskatts hans. Þá leysir það ákærða ekki undan refsiábyrgð á framtali tekna að Landsbanki Íslands hf. hafi vanrækt skyldu sína til að standa í þágu hans skil á greiðslum eftir ákvæðum laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Loks breytir handveðsetning þess fjár, sem ákærði vann sér með hagnaði af umræddum skiptasamningum, engu um skattskyldu hans á grundvelli laga nr. 90/2003.

Samkvæmt framansögðu skýrðu ákærðu í sameiningu rangt frá fjármagnstekjum ákærða Eiríks í skattframtali hans 2008 vegna tekjuársins 2007. Ákærði Eiríkur hefur borið því við að hann hafi, á grundvelli ráðgjafar frá ákærða Hjalta, talið sér heimilt að draga tap vegna þeirra skiptasamninga, sem gerðir voru upp á árinu 2007, frá hagnaði af slíkum samningum samkvæmt uppgjörum á sama ári. Hafi hann því hvorki af stórfelldu gáleysi né ásetningi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 svo sem áskilið er í 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Af gögnum málsins verður ráðið að ákærði Eiríkur hafi, áður en hann taldi fram til skatts vegna tekjuársins 2007, látið reyna á skattskyldu hagnaðar af framvirkum skiptasamningum vegna tekjuársins 2004 fyrir skattyfirvöldum, þar á meðal með kæru til yfirskattanefndar. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu í máli ákærða að slíkar tekjur skyldu skattlagðar sem vaxtatekjur samkvæmt 3. tölulið C. liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 2. töluliðar B. liðar 30. gr. laga nr. 90/2003. Komst nefndin einnig að þeirri niðurstöðu að ákærða hefði verið óheimilt að draga frá skattskyldum hagnaði tap, sem hann hafði orðið fyrir vegna sambærilegra samninga á sama ári. Í ljósi þessa mátti ákærða vel vera kunnugt um hvernig skattleggja bæri þann hagnað, sem hann hafði af skiptasamningunum sem mál þetta lýtur að. Ber því að minnsta kosti að virða það ákærða til stórkostlegs hirðuleysis að hafa skýrt ranglega frá fjármagnstekjum sínum í skattframtali 2008 vegna tekjuársins 2007 og skiptir ekki máli í því samhengi þótt ákærði Hjalti hafi borið að hann hafi séð um að gera skattframtal ákærða Eiríks.

Að öðru leyti hafa ákærðu ekki dregið í efa lýsingu í ákæru á fjárhæð þeirra tekna, sem ákærði Eiríkur naut af skiptasamningunum sem þar eru tilgreindir. Tekjurnar, sem hér um ræðir, námu háum fjárhæðum og verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu beggja ákærðu fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003. Verða ákvæði héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærðu því staðfest, svo og um skilorðsbindingu þeirrar refsingar. Samkvæmt 2. mgr. 109. laga nr. 90/2003 verður fésekt ákærða Eiríks miðuð við tvöfalda þá fjárhæð, sem hann kom sér undan að greiða í fjármagnstekjuskatt með röngu framtali tekna, en að frádregnum skatti af álagi, sem ríkisskattstjóri gerði honum samkvæmt 2. mgr. 108. gr. sömu laga. Til samræmis við fyrrnefndan úrskurð yfirskattanefndar skal kostnaður að fjárhæð 76.127.641 króna jafnframt koma til frádráttar fjárhæð undandreginna tekna ákærða Eiríks. Þessu til samræmis verður hann dæmdur til að greiða 127.000.000 krónur í sekt að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði greinir. Staðfest verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ákærða Hjalta verði ekki gert að greiða sekt, enda greindi hann ekki rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skipti um tekjuskatt sinn.

Fallist verður á niðurstöðu héraðsdóms um að hafna kröfu ákæruvaldsins um að ákærði Hjalti verði sviptur löggildingu til að vera endurskoðandi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærðu, Eiríks Sigurðssonar og Hjalta Magnússonar, og skilorðsbindingu hennar skulu vera óröskuð.

Ákærði Eiríkur greiði 127.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í eitt ár.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærðu greiði hvor fyrir sig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Guðna Á. Haraldssonar og Björns Jóhannessonar, 1.255.000 krónur til hvors um sig, en annan áfrýjunarkostnað, 97.562 krónur, skulu ákærðu greiða óskipt.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2013.

I

Málið, sem dómtekið var 5. júní síðastliðinn, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 13. desember 2012 á hendur „Eiríki Sigurðssyni, [...] og Hjalta Magnússyni, [...], fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa í sameiningu staðið skil á efnislega röngu skattframtali ákærða Eiríks gjaldárið 2008 vegna tekjuársins 2007, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur samtals að fjárhæð kr. 813.011.009, sem voru tekjur ákærða Eiríks af uppgjöri á 102 framvirkum samningum með undirliggjandi hlutabréfum við Landsbanka Íslands hf. árið 2007, sem skattskyldar eru samkvæmt 7. gr., sbr. 3. tölul. C-liðar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Þannig skýrði ákærði Eiríkur, með aðstoð meðákærða Hjalta sem er löggiltur endurskoðandi, rangt frá fjármagnstekjum sínum í skýrslugjöf til skattyfirvalda, en með því komst ákærði Eiríkur undan greiðslu fjármagnstekjuskatts samtals að fjárhæð kr. 81.301.101, sem sundurliðast sem hér greinir:

Framvirkir samningar í íslenskum krónum (ISK)

Samn.nr.

Lokunardags.

Gengi

Hagnaður mynt

Hagnaður ISK

Þóknun mynt

Þóknun

ISK

Heildarhagnaður ISK

6602-0

9.1.2007

-

-

5.843.367

-

123.006

5.966.373

6603-0

9.1.2007

-

-

1.869.869

-

1.106.117

2.975.986

6726-0

11.1.2007

-

-

9.544.776

-

741.401

10.286.177

6889-0

14.2.2007

-

-

4.061.282

-

630.300

4.691.582

6898-0

14.2.2007

-

-

4.355.145

-

573.000

4.928.145

6918-0

14.2.2007

-

-

5.853.842

-

668.500

6.522.342

6950-0

16.1.2007

-

-

16.250.500

-

700.000

16.950.500

7107-0

23.2.2007

-

-

20.950.495

-

1.565.000

22.515.495

7130-0

30.1.2007

-

-

7.493.004

-

1.515.000

9.008.004

7384-0

9.3.2007

-

-

8.214.102

-

827.500

9.041.602

7475-0

14.3.2007

-

-

1.657.948

-

434.501

2.092.449

7495-0

16.2.2007

-

-

4.419.054

-

599.100

5.018.154

7854-0

5.3.2007

-

-

2.359.505

-

487.500

2.847.005

7896-0

8.3.2007

-

-

1.155.434

-

152.500

1.307.934

7997-0

12.3.2007

-

-

3.032.415

-

660.000

3.692.415

8033-0

12.4.2007

-

-

19.784.521

-

943.000

20.727.521

8048-0

25.4.2007

-

-

7.882.673

-

441.840

8.324.513

8101-0

16.4.2007

-

-

5.595.133

-

837.500

6.432.633

8470-0

18.4.2007

-

-

10.292.605

-

435.184

10.727.789

8730-0

11.7.2007

-

-

10.681.664

-

971.250

11.652.914

8957-0

25.5.2007

-

-

4.775.264

-

204.020

4.979.284

9021-0

31.5.2007

-

-

2.125.288

-

133.500

2.258.788

Framvirkir samningar í íslenskum krónum (ISK) - framhald

Samn.nr.

Lokunardags.

Gengi

Hagnaður mynt

Hagnaður ISK

Þóknun mynt

Þóknun

ISK

Heildarhagnaður ISK

9061-0

28.6.2007

-

-

3.162.568

-

1.430.000

4.592.568

9062-0

4.7.2007

-

-

4.411.983

-

1.442.500

5.854.483

9251-0

5.9.2007

-

-

17.021.094

-

1.358.500

18.379.594

9260-0

13.7.2007

-

-

5.820.687

-

990.000

6.810.687

9609-0

13.7.2007

-

-

11.814.008

-

885.935

12.699.943

9620-0

16.7.2007

-

-

13.775.403

-

988.750

14.764.153

9635-0

23.7.2007

-

-

3.496.102

-

620.937

4.117.039

10132-0

23.8.2007

-

-

5.690.738

-

1.292.600

6.983.338

10541-0

16.10.2007

-

-

24.081.954

-

1.689.323

25.771.277

10545-0

8.10.2007

-

-

24.567.622

-

1.987.500

26.555.122

10741-0

15.10.2007

-

-

8.252.247

-

1.100.286

9.352.533

10947-0

23.10.2007

-

-

5.138.932

-

2.225.000

7.363.932

6038-1

22.2.2007

-

-

3.583.715

-

175.605

3.759.320

6053-1

12.2.2007

-

-

15.620.581

-

790.000

16.410.581

6105-1

4.1.2007

-

-

1.939.613

-

101.495

2.041.108

6161-1

9.1.2007

-

-

17.725.632

-

690.000

18.415.632

6172-1

11.1.2007

-

-

10.325.625

-

506.250

10.831.875

6599-1

3.1.2007

-

-

180.309

-

100.080

280.389

7566-1

22.6.2007

-

-

4.515.462

-

162.400

4.677.862

7979-1

22.6.2007

-

-

5.372.154

-

219.240

5.591.394

8003-1

13.7.2007

-

-

40.939.769

-

1.022.235

41.962.004

8180-1

25.7.2007

-

-

46.805.407

-

1.713.684

48.519.091

8842-1

11.9.2007

-

-

17.566.363

-

1.028.750

18.595.113

9505-1

16.7.2007

-

-

11.173.589

-

775.711

11.949.300

9720-1

29.10.2007

-

-

23.599.224

-

2.965.875

26.565.099

6140-2

25.1.2007

-

-

25.491.065

-

997.689

26.488.754

7679-2

29.10.2007

-

-

139.743.867

-

4.400.000

144.143.867

8304-2

13.6.2007

-

-

1.862.030

-

500.000

2.362.030

5028-3

9.3.2007

-

-

12.602.038

-

662.000

13.264.038

5046-3

9.3.2007

-

-

3.072.158

-

165.500

3.237.658

4928-4

16.1.2007

-

-

364.567

-

140.500

505.067

5151-4

13.3.2007

-

-

39.267.288

-

4.127.550

43.394.838

5228-4

22.2.2007

-

-

6.959.844

-

314.000

7.273.844

5639-4

25.7.2012

-

-

15.304.612

-

685.474

15.990.086

3204-5

25.1.2007

-

-

13.673.272

-

953.100

14.626.372

3237-5

25.1.2007

-

-

12.352.493

-

868.885

13.221.378

5227-5

10.4.2007

-

-

3.082.707

-

136.500

3.219.207

4591-7

16.7.2007

-

-

5.255.386

-

658.643

5.914.029

2822-11

25.7.2007

-

-

31.959.219

-

0

31.959.219

2822-12

11.6.2007

-

-

48.048.371

-

3.303.482

51.351.853

Samtals hagnaður samninga í íslenskum krónum (ISK)

902.743.282 kr.

Framvirkir samningar í evrum (EUR)

Samn.nr.

Lokunardags.

Gengi

Hagnaður EUR

Hagnaður ISK

Þóknun EUR

Þóknun í ISK

Heildarhagnaður ISK

10134-0

21.8.2007

90,87

39.921

3.717.444

4.825

438.448

4.155.892

Samtals hagnaður samninga í evrum (EUR)

4.155.892 kr.

Framvirkir samningar í bandaríkjadölum (USD)

Samn.nr.

Lokunardags.

Gengi

Hagnaður USD

Hagnaður ISK

Þóknun USD

Þóknun

ISK

Heildarhagnaður ISK

8344-0

6.6.2007

62,59

   239.834    

   14.915.276    

     15.767    

        986.857    

           15.902.133    

9356-0

10.7.2007

60,54

   160.268    

     9.938.219    

       9.303    

        563.204    

           10.501.423    

9478-0

10.7.2007

60,54

   152.763    

     9.472.834    

       6.911    

        418.392    

             9.891.226    

9934-0

27.9.2007

61,69

     45.108    

     2.810.680    

       8.143    

        502.342    

             3.313.022    

9960-0

5.9.2007

64,71

     27.018    

     1.722.668    

       3.425    

        221.632    

             1.944.300    

9986-0

26.9.2007

62,09

     61.409    

     3.844.817    

       9.380    

        582.404    

             4.427.221    

9987-0

26.10.2007

60,53

     12.687    

        768.959    

       2.448    

        148.177    

                917.136    

10062-0

5.9.2007

64,71

     24.583    

     1.567.412    

       3.425    

        221.632    

             1.789.044    

10127-0

24.8.2007

65,04

     34.018    

     2.291.452    

       3.204    

        208.388    

             2.499.840    

10128-0

24.8.2007

65,04

     29.706    

     2.000.996    

       2.374    

        154.405    

             2.155.401    

10217-0

24.8.2007

65,04

     21.944    

     1.478.148    

       2.374    

        154.405    

             1.632.553    

10357-0

5.9.2007

64,71

       3.154    

        201.099    

          251    

          16.242    

                217.341    

10391-0

21.9.2007

62,61

     13.031    

        821.214    

               -    

                    -    

                821.214    

10424-0

17.9.2007

65,18

     12.435    

        799.819    

       3.450    

        224.871    

             1.024.690    

10608-0

16.10.2007

60,90

     65.449    

     3.924.977    

               -    

                    -    

             3.924.977    

10618-0

8.10.2007

60,92

   110.153    

     6.781.019    

       4.446    

        270.850    

             7.051.869    

10990-0

29.11.2007

61,35

     23.029    

     1.435.858    

       5.252    

        322.210    

             1.758.068    

11019-0

29.11.2007

61,35

       9.286    

        578.982    

       4.400    

        269.940    

                848.922    

11138-0

2.11.2007

58,99

       8.282    

        500.481    

       1.445    

          85.241    

                585.722    

11154-0

31.10.2007

59,92

       5.717    

        346.050    

       1.500    

          89.880    

                435.930    

11256-0

20.11.2007

61,55

       3.358    

        203.461    

       1.436    

          88.386    

291.847    

11281-0

8.11.2007

60,07

       9.995    

        591.604    

               -    

                    -    

                591.604    

11336-0

19.11.2007

60,90

     24.479    

     1.483.183    

       1.379    

          83.981    

             1.567.164    

11337-0

20.11.2007

61,55

     37.830    

     2.292.120    

       1.690    

        104.020    

             2.396.140    

11338-0

20.11.2007

61,55

     24.784    

     1.501.663    

       1.680    

        103.404    

             1.605.067    

11339-0

20.11.2007

61,55

       5.580    

        338.092    

       1.648    

        101.434    

                439.526    

11376-0

16.11.2007

61,14

     18.988    

     1.151.053    

       1.536    

          93.911    

             1.244.964    

11387-0

15.11.2007

60,59

       6.624    

        396.910    

               -    

                    -    

                396.910    

11388-0

14.11.2007

59,54

       8.408    

        505.069    

               -    

                    -    

                505.069    

11414-0

29.11.2007

61,35

     16.616    

     1.036.008    

       4.346    

        266.627    

             1.302.635    

11415-0

27.11.2007

62,85

     18.364    

     1.146.465    

       4.289    

        269.564    

             1.416.029    

11416-0

16.11.2007

61,14

     45.959    

     2.786.035    

       4.261    

        260.518    

3.046.553    

11463-0

27.11.2007

62,85

     23.647    

     1.476.282    

       4.289    

        269.564    

             1.745.846    

11475-0

26.11.2007

62,35

     36.757    

     2.262.393    

               -    

                    -    

             2.262.393    

Samtals hagnaður samninga í bandaríkjadölum (USD)

90.453.777 kr.

Framvirkir samningar í norskum krónum (NOK)

Samn.nr.

Lokunardags.

Gengi

Hagnaður NOK

Hagnaður ISK

Þóknun NOK

Þóknun

ISK

Heildarhagnaður ISK

5002-6

25.10.2007

11,232

953.689

10.797.667

53.874

605.113

11.402.780

6928-0

17.1.2007

10,943

243.145

2.682.862

51.529

563.882

3.246.744

7023-0

29.1.2007

10,915

521.811

5.624.601

34.200

373.293

5.997.894

8819-0

23.5.2007

10,278

205.664

2.139.728

51.625

530.602

2.670.330

11144-0

5.11.2007

10,952

388.651

4.346.673

37.020

405.443

4.752.116

Samtals hagnaður samninga í norskum krónum (NOK)

28.069.863 kr.

Samtals tekjur af framvirkum skiptasamningum

1.025.422.814 kr.

 

Framtaldar tekjur til frádráttar

212.411.805 kr.

 

 

Samtals vanframtaldar tekjur

813.011.009 kr.

 

 

Samtals vangreiddur fjármagnstekjur, 10%

81.301.101 kr.

 

Framangreint brot ákærða Eiríks telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, með síðari breytingum.

Framangreint brot ákærða Hjalta telst aðallega varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998, sbr. 5. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, en til vara við 1. mgr. 262. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, allt með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Að auki er þess krafist að ákærði Hjalti verði, með vísan til 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 31/1961, sviptur löggildingu til endurskoðunarstarfa.“

Ákærðu neita sök og krefjast sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu.

II

                Málavextir eru þeir að ákærði Eiríkur átti í viðskiptum við Landsbankann á árinu 2007 með svonefndum framvirkum skiptasamningum. Um var að ræða viðskipti með hlutabréf sem bankinn sá um að kaupa og selja fyrir hann. Hagnaður af viðskiptunum var lagður inn á bankareikning hans og yrði tap á þeim var tekið út af reikningnum til að jafna það.

Haustið 2010 hóf skattrannsóknarstjóri rannsókn á skattskilum ákærða. Samkvæmt bréfi skattrannsóknarstjóra til sérstaks saksóknara taldi hann að ákærði hefði skilað efnislega röngu framtali árið 2008 vegna tekjuársins 2007 með því að vanframtelja tekjur að fjárhæð rúmar 820 milljónir króna. Rannsóknin beindist einnig að þætti ákærða Hjalta er talið hafði fram fyrir ákærða Eirík. Rannsókn skattayfirvalda og síðar sérstaks saksóknara leiddi til þeirrar niðurstöðu er í ákæru greinir. Að öðru leyti koma málavextir fram í næsta kafla þar sem rakinn verður framburður ákærðu fyrir dómi.

III

Ákærði Eiríkur kvaðst hafa unnið sjálfstætt á árunum 2006 til 2008, en annars væri hann kaupmaður og hefði starfað við verslun alla sína ævi. Ákærða var sýnt framtalið, sem um getur í ákæru, og kvað hann það vera framtal sitt vegna tekjuársins 2007. Hann kvað meðákærða Hjalta hafa gert það og byggt það á gögnum er hann hefði afhent honum. Ákærði kvað meðákærða hafa gert upp fyrir sig og fyrirtæki á sínum vegum síðastliðin 20 ár. Alltaf hefði verið viðhaft sama verklag, það er að meðákærði hefði fengið öll gögn og gert upp samkvæmt þeim. Ákærði kvaðst telja meðákærða hafa haft undir höndum fullnægjandi gögn þegar hann gerði umrætt framtal. Eftir að meðákærði hafði talið fram kvað ákærði þá hafa hist og farið yfir framtalið. Meðákærði hefði síðan skilað því inn til skattstjóra. Ákærði kvað framtalið hafa gefið rétta mynd af fjárhag hans. Ákærði var spurður um tölulega framsetningu í ákæru og kvaðst hann vísa hugsanlegum athugasemdum til verjanda síns sem gera myndi grein fyrir þeim í málflutningi. Ákærði var spurður um framtaldar vaxtatekjur að fjárhæð 212.411.805 krónur í framtali hans og kvað hann þessa tölu vera mismuninn á því þegar búið væri að draga tap frá hagnaði. Hann kvað meðákærða hafa útskýrt fyrir sér hvernig þessi tala væri fundin út, það er að búið væri að breyta lögum á þann veg að þetta væri leyfilegt, en ekki kvaðst ákærði hafa sjálfur kynnt sér þau lög. Þá kvað hann meðákærða hafi tekið allar ákvarðanir varðandi framtalsgerðina og hann hefði treyst honum fyllilega til þess. Þá var borið undir ákærða yfirlit ákæruvaldsins yfir ætlaðar vanframtaldar fjármagnstekjur. Hann gerði ekki sjálfur athugasemdir við það en vísaði á verjanda sinn er gera myndi það í flutningi málsins.

Ákærði kvaðst hafa keypt og selt hlutabréf og hann hefði alltaf fengið uppgjör þegar bréf voru seld. Hagnaðurinn hefði verið lagður inn á peningamarkaðsreikning í Landsbankanum og eins hefðu greiðslur vegna taps verið teknar út af reikningnum. Hann kvaðst hafa haft aðgang að öllum upplýsingum um viðskiptin og stöðu sína í heimabanka. Hann kvaðst hafa hafið viðskipti við Landsbankann 2005 en áður hefði hann skipt við Kaupþing. Kaupþing hefði alltaf haldið eftir fjármagnstekjuskatti eins og bankanum hefði borið að gera, en síðar hefði komið í ljós að Landsbankinn gerði þetta ekki. Þess vegna hefði verið talið fram miðað við það að þeir hefðu ekki haldið eftir skattinum. Ákærði kvaðst sjálfur ekki hafa verið viss um hvort búið hefði verið að halda skattinum eftir eða ekki. Þess vegna hefði hann greitt árin 2005, 2006 og 2007 fjármagnstekjuskatt miðað við að Landsbankinn héldi skattinum ekki eftir þó svo að hann ætti að gera það.

Ákærði var spurður hvort taldar hefðu verið fram fjármagnstekjurnar, sem hann er ákærður fyrir að telja ekki fram, og kvað hann þær hafa verið taldar fram og tapið dregið frá. Þannig hefði fengist út hagnaðurinn að fjárhæð 212.411.805 krónur og hefðu þær tekjur verið taldar fram. Hann kvað allar upplýsingar hafa legið fyrir í fylgigögnum með uppgjörinu, eins og hann orðaði það, en hann kvaðst ekki geta svarað því hvort þeim upplýsingum hefði verið skilað til skattyfirvalda.

Ákærði Hjalti, sem er endurskoðandi, kvaðst hafa talið fram fyrir meðákærða í fjölda ára. Umrætt skattframtal meðákærða var lagt fyrir hann og kvaðst hann hafa gert það og talið sig hafa haft fullnægjandi gögn undir höndum til að gera það. Þar á meðal hafi hann haft undir höndum stöðu á bankareikningum meðákærða í árslok, en upplýsingar hefðu komið rafrænt inn í framtölin. Ákærði kvað framtalinu hafa verið skilað rafrænt og hefðu engin vinnugögn fylgt með því. Hann kvað framtalið hafa gefið rétta mynd af fjárhag meðákærða.

Ákærði var spurður um tölu að fjárhæð 212.411.805 krónur, sem er í framtalinu færð sem vaxtatekjur og hvernig hann hefði fundið hana út. Hann kvaðst hafa fengið skiptasamninga við framtalsgerðina og listað þá upp. Hann hefði síðan dregið tap ársins frá hagnaði og þá fengið út framangreinda tölu sem vaxtatekjur. Hann kvað tapið hafa verið áætlað 525.000.000 króna og hefði það verið varlega áætlað til að framtalið gæfi sem réttasta mynd af fjárhag meðákærða. Hann taldi nefnda tölu hafa líklega verið sameiginlega niðurstöðu sína og meðákærða. Ákærði kvað töluna 212.411.805 krónur hafa verið færða í framtalið, en hann hefði ekki gert grein fyrir heildartekjunum eða frádrættinum, enda væri ekki reitur fyrir það á framtalseyðublaðinu. Hann kvaðst hafa kynnt þetta fyrir meðákærða og hefðu þeir farið saman yfir framtalið áður en því var skilað. Ákærði kvað meðákærða hafa bent á að hann hefði orðið fyrir tapi af viðskiptum sem hann hafi viljað fá dregið frá hagnaðinum og komið með gögn þar að lútandi.

Ákærði kvað lögum hafa verið breytt þegar hann vann að framtalinu og hefði hann talið að hún gilti um þetta ár, eins og hann orðaði það, og kvaðst eiga við lög nr. 38/2008. Vísaði hann til greinargerðar með frumvarpinu og benti á að þar væri sagt að lagabreytingin ætti að hafa ívilnandi áhrif og hefði það verið túlkun hans að það ætti við um fyrri ár. Ákærða var bent á að lögin hefðu verið samþykkt eftir að framtalsfresti lauk og kvað hann þetta samt hafa verið sinn skilning. Þá vísaði hann til leiðbeininga ríkisskattstjóra frá 1997 um meðhöndlun á afleiðusamningum og heimild til að draga tap frá hagnaði.

Ákærði kvað Landsbankann ekki hafa haldið eftir fjármagnstekjuskatti í staðgreiðslu og hefði það verið vegna þess að bankinn hefði talið að þessar tekjur hefðu átt að skattleggjast eftir að framtali hefði verið skilað. Hann kvað hin undirliggjandi verðmæti í nefndum samningum hafa eingöngu verið hlutabréf og þess vegna ætti að meðhöndla tekjur af þeim samkvæmt þeim ákvæðum skattalaga er fjalla um hlutabréf.

IV

                Ákærðu er gefið að sök að hafa í sameiningu staðið skil á efnislega röngu skattframtali ákærða Eiríks gjaldárið 2008 vegna tekjuársins 2007. Eins og lýst hefur verið stundaði ákærði Eiríkur viðskipti með hlutabréf á árinu 2007 með svonefndum framvirkum skiptasamningum þar sem undirliggjandi verðmæti voru hlutabréf. Þessi viðskipti átti hann við Landsbankann, en hafði áður átt þau við Kaupþing. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins, sem ekki hafa verið bornar brigður á, námu tekjur ákærða á árinu 2007 af þessum samningum 1.025.422.814 krónum. Á framtali hans sést að taldar voru fram tekjur að fjárhæð 212.411.805 krónur og er mismunurinn 813.011.009 krónur, það er sú fjárhæð er ákæruvaldið heldur fram að ákærðu hafi látið undir höfuð leggjast að telja fram eins og þeir eru ákærðir fyrir.

                Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segir að skattskyldar tekjur teljist með þeim undantekningum og takmörkunum er síðar greinir, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Síðan eru taldar margs konar tekjur og þar á meðal vextir, verðbætur, afföll og gengishagnaður, sbr. 3. tl. C-liðar. Í 2. mgr. 8. gr. laganna er síðan talið upp hvað telst til tekna sem vextir, afföll og gengishagnaður. Framangreindar tekjur, að fjárhæð 1.025.422.814 krónur, eru hagnaður og þar með tekjur, sem ákærði hafði af viðskiptunum og ber honum að greiða skatt af þeim tekjum samkvæmt þessum ákvæðum laga um tekjuskatt. Eins og fram er komið taldi ákærði Eiríkur aðeins fram hluta teknanna, en ákærði Hjalti áætlaði varlega tap af viðskiptum ákærða Eiríks á árinu 525.000.000 króna og dró þá fjárhæð frá heildartekjunum, eins og rakið var. Eins og rakið var í kaflanum hér að framan viðurkenndu ákærðu fyrir dómi að hafa staðið saman að því að skila framtali ákærða Eiríks. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að þeir hafi báðir brotið gegn þeim ákvæðum laga nr. 90/2003 sem í ákæru greinir. Brot ákærðu lýtur að verulega hárri fjárhæð og er það því meiri háttar, sbr. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu hafa því  brotið gegn 1. mgr. sömu greinar eins og þeim er gefið að sök í ákærunni. Ekki kemur til álita að telja ákærða Hjalta hlutdeildarmann í broti ákærða Eiríks, enda þáttur hans með þeim hætti, eins og rakið hefur verið, að hann er aðalmaður í brotinu ásamt ákærða Eiríki. Ákærði Hjalti hefur borið fyrir sig að lög nr. 38/2008 hafi heimilað að telja fram á þann hátt sem hann gerði. Nefnd lög giltu um söluhagnað sem varð til á árinu 2008 og þegar af þeirri ástæðu er þessari málsástæðu ákærða hafnað. Samkvæmt framansögðu verða ákærðu sakfelldir samkvæmt ákærunni.

                Ákærðu hefur ekki áður verið refsað. Refsing hvors um sig er hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði en skilyrði eru til að skilorðsbinda refsingarnar eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærða Eiríki gert að greiða 163.000.000 króna í sekt að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði segir. Ákærða Hjalta verður ekki gert að greiða sekt, enda er hann ekki skattskyldur maður í skilningi 109. gr. laga nr. 90/2003. Þá er hann í máli þessu hvorki sakfelldur fyrir hlutdeild né tilraun, sbr. 7. mgr. sömu greinar.

Þess er krafist að ákærði Hjalti verði, með vísun til 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga, sviptur löggildingu til endurskoðunarstarfa. Í nefndri grein segir að sé maður dæmdur sekur um brot, megi í dómi í sakamáli á hendur honum svipta hann heimild, er hann hefur öðlast, til að stunda starfsemi, sem opinbert leyfi, löggildingu, skipun eða próf þarf til að gegna, enda gefi brotið til kynna, að veruleg hætta sé á því, að sakborningur muni fremja brot í stöðu sinni eða starfsemi. Þegar ákærði braut af sér giltu lög nr. 18/1997 um endurskoðendur. Þar sagði um störf þeirra í 1. mgr. 7. gr. að þau felist í endurskoðun reikningsskila og annarra fjárhagsupplýsinga ásamt ráðgjöf og þjónustu innan nærliggjandi sviða. Í núgildandi lögum um endurskoðendur nr. 79/2008 segir að endurskoðandi sé sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til starfa við endurskoðun og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga þessara. Samkvæmt þessu telja lögin ekki framtalsgerð meðal hlutverka endurskoðenda. Með því að heimildin í 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga er íþyngjandi verður að skýra hana þröngt og með vísun til þess og þess sem segir í framangreindum lögum um endurskoðendur, er ekki fallist á að hætta sé á að ákærði Hjalti muni fremja brot í stöðu sinni eða starfsemi. Dómurinn hafnar því kröfu ákæruvaldsins um að svipta hann löggildingu til endurskoðunarstarfa.

                Loks verða ákærðu dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Eiríkur Sigurðsson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði, Hjalti Magnússon, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Eiríkur greiði 163.000.000 króna í sekt og komi 360 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.

Ákærði Eiríkur greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Guðna Á. Haraldssonar hrl., 2.510.000 krónur.

Ákærði Hjalti greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Björns Jóhannessonar hrl., 2.510.000 krónur.