Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2009


Lykilorð

  • Veiðiréttur
  • Fasteign
  • Jörð
  • Landamerki
  • Sameign


                                     

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011.

Nr. 453/2009.

Skógræktarfélag Rangæinga

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Mörtu G. Bergman

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

Lúðvík Gizurarsyni

Jóni Benediktssyni

Svölu Jónsdóttur

Jónshúsum ehf.

Félagsvelli ehf. og

Ingvari Þorsteinssyni

og til réttargæslu

Veiðifélagi Eystri-Rangár

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Veiðiréttur. Fasteign. Jörð. Landamerki. Sameign.

Félagið S höfðaði mál gegn eigendum jarðanna VH, BV, VI, VII og M og krafðist viðurkenningar á því að félagið ætti veiðirétt í Eystri-Rangá og Fiská vegna jarðarinnar K sem félagið átti en jörðin lá ekki að umræddum ám. Í dómi Hæstaréttar var rakið að frá gildistöku vatnalaga nr. 15/1923 hefði samkvæmt eldri og núgildandi löggjöf um lax- og silungsveiðar að meginreglu ekki verið unnt að eignast veiðirétt í straumvatni eða stöðuvatni hér á landi nema með því að eignast land sem lægi að slíku vatni. S hafði hvorki borið því við að eigendur K hefðu fyrir þann tíma fengið afsal fyrir veiðirétti í Eystri-Rangá og Fiská án  þess að eiga land að þeim vötnum eða unnið sér þann rétt fyrir hefð, né að veiðiréttur hefði eftir þann tíma komist í hendur þeirra fyrir afsal eftir þeim takmörkuðu heimildum sem veittar hefðu verið frá gildistöku vatnalaga til að skilja veiðirétt frá eignarrétti að landi, sem að vatni lægi. Að þessu virtu gæti ekki staðist að S hefði eignast veiðirétt í ánum með því einu að K hefði verið ákveðin hlutdeild í einingum vegna þessara vatna í arðskrá fyrir Eystri-Rangá eins og haldið var fram af hálfu S. Aðild ábúanda K að veiðifélögum fyrir Eystri-Rangá og Fiská gat ein og sér ekki hafa stofnað til veiðiréttar fyrir jörðina, þótt slík félagsaðild gæti komið til álita við mat á því hvort sannað væri að K hefði átt þann veiðirétt af öðrum sökum. Af sömu ástæðu var ekki talið að veiðiréttur gæti hafa stofnast fyrir hefð vegna nota ábúenda K af veiði í Eystri-Rangá eða Fiská eftir gildistöku vatnalaga nr. 15/1923. S hélt því fram að land K hefði legið að Eystri-Rangá fram til ársins 1963 en þá hefði þáverandi eigandi jarðarinnar við landskipti afsalað hluta hennar sem lá að ánni til jarðarinnar M. Hæstiréttur vísaði til þess að í því tilviki hefði veiðirétturinn þá færst yfir á hendi eiganda jarðarinnar M í samræmi við þágildandi lög og gæti þar með ekki enn talist tilheyra K.  S hélt því einnig fram að K hefði fram til landskipta á árinu 1963 átt hlutdeild í óskiptu landi sem náði að bökkum Eystri-Rangár og Fiskár, en óumdeilt var að þegar landinu var skipt upp hefði veiðirétturinn áfram verið óskiptur á hendi fyrri sameigenda landsins. Hæstiréttur taldi að ekki yrði ályktað af heimildum að jörðin K hefði verið hluti af því landi sem jarðirnar VH, BV, VI, VII og M höfðu áður verið hluti af. Studdist Hæstiréttur að þessu leyti við heimildir þar sem fram kom að K hefði haft sjálfstæð merki, þótt ágreiningur hefði í einhverjum ótilgreindum atriðum staðið um þau. Einnig voru heimildir um að fyrri eigandi K hefði einn átt aðild að landamerkjamáli gegn eigendum nágrannajarðar en ekki aðrir eigendur hins óskipta lands. Loks var í landskiptabók getið um mörk K gagnvart jörð sem VH, BV, VI, VII og M höfðu áður tilheyrt. K hafði að einhverju leyti tekið þátt í starfsemi fiskiræktar- og veiðifélaga á svæðinu frá og með árinu 1954 og getið var um jörðina í samþykktum félaganna frá árinu 1960. Eftir það hefði aðeins einu sinni verið gefin út arðskrá vegna félaganna en fram að því virtist ekki sem K hefði verið ætlaður hlutur í arði þeirra. Af þeirri arðskrá risu deilur, en mál þetta virtist mega rekja til þeirra og þóttu því ekki efni til að telja arðskrána hafa sjálfstætt gildi til stuðnings því að veiðiréttur sá sem S gerði kröfu um fylgdi jörðinni. Ekki var ljóst hvers vegna K hafði ekki átt aðild að umræddum félögum fyrir 1960 og hvers vegna jörðin varð þá aðili að félögunum. Aftur á móti varð ekki framhjá því litið að jörðin Þ hafði verið talin upp meðal jarða sem áttu hlut að félaginu, en ekki lá annað fyrir en að land þeirrar jarðar næði hvergi að vatnasvæði félagsins. Í ljósi alls þessa var talið að S hefði ekki tekist að sýna fram á að K hefði tilheyrt hlutdeild í óskipta landinu sem lá að Eystri-Rangá og Fiská. Þar sem S bar sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu og með vísan til annarra atriða sem fjallað var um í dóminum var kröfum félagsins hafnað.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. júní 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 29. júlí 2009 og áfrýjaði hann öðru sinni 11. ágúst sama ár. Hann krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi veiðirétt í Eystri-Rangá og Fiská vegna jarðarinnar Kotvallar í Rangárþingi eystra. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fram er komið fyrir Hæstarétti að Marta G. Bergman situr í óskiptu búi sínu og látins eiginmanns síns, Bergsteins Gizurarsonar, og er hún því aðili að málinu í stað dánarbús hans.

I

Samkvæmt gögnum málsins mun áfrýjandi vera eigandi jarðarinnar Kotvallar, en stefndu Marta G. Bergman og Lúðvík Gizurarson munu eiga jarðirnar Vallarhjáleigu og Bakkavöll, stefndu Jón Benediktsson, Svala Jónsdóttir og Jónshús ehf. jörðina Völl I, stefndi Félagsvöllur ehf. jörðina Völl II og stefndi Ingvar Þorsteinsson jörðina Markaskarð. Þessar jarðir eru allar í Rangárþingi eystra á svæði, sem nær til norðurs að Eystri-Rangá, þar sem hún rennur úr austri frá ósum Fiskár að mörkum svæðisins við jörðina Efri Hvol. Að vestan liggur þetta svæði að Efri Hvoli, að sunnan að jörðinni Þórunúpi og að austan að Árgilsstöðum, en á nyrðri hluta marka svæðisins gegnt þeirri jörð ráðast þau af Fiská. Eins og nánar verður rakið hér síðar fóru fram á árinu 1963 „landaskipti Vallartorfu og Kotvallar í Hvolhreppi“, svo sem komist var að orði í fyrirsögn í landskiptabók, og hafa jarðir aðilanna að minnsta kosti frá þeim tíma ekki átt sameiginlegt land. Áfrýjandi heldur því fram að upphaflega hafi svæðið, sem lýst er að framan, átt undir jörðina Völl, sem allar hinar jarðirnar hafi síðan byggst úr, og hafi land þeirra að hluta verið sameiginlegt þar til landskiptin voru gerð. Stefndu bera því við að ekkert liggi fyrir um uppruna jarðarinnar Kotvallar, en á hinn bóginn séu jarðir þeirra allar úr upphaflegu landi Vallar og sé rætt um þær í einu lagi sem Vallartorfu. Landskiptin hafi eingöngu tekið til Vallartorfu og hafi Kotvöllur ekki átt hlutdeild í sameiginlegu landi hennar þegar þau fóru fram.

Samkvæmt framlögðum uppdráttum fellur undir Kotvöll samfellt land suðvestan á fyrrgreindu svæði, sem jarðir aðilanna eru á, og eru merki hans til vesturs móti Efri Hvoli og til suðurs gegnt Þórunúpi. Norðan við merki Kotvallar eru þrír reitir, sem frá vestri til austurs eiga undir Markaskarð, Völl II og Völl I, en að austan eru merki Kotvallar að Bakkavelli. Land þessara fjögurra jarða stefndu er ekki samfellt, heldur í hverju tilviki í tveimur aðgreindum hlutum, en allar eiga þær land að Eystri-Rangá. Land Vallarhjáleigu er á hinn bóginn í einu lagi austast á svæðinu. Það nær að norðan að Eystri-Rangá, en nyrsti hluti þess að austanverðu liggur að Fiská, sem rennur hvergi í eða með landi hinna jarðanna.

Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort veiðiréttur í Eystri-Rangá og Fiská fylgi Kotvelli, en land jarðarinnar nær hvergi að þessum ám. Áfrýjandi reisir kröfu sína um viðurkenningu á veiðirétti jarðarinnar í fyrsta lagi á því að henni hafi á árinu 1999 verið ákveðinn hlutur í arðskrá Veiðifélags Eystri-Rangár, sem síðar verður greint frá. Með þessu hafi eigendur jarða stefndu í raun viðurkennt veiðirétt Kotvallar og verði þegar af þeim sökum að taka kröfu áfrýjanda til greina. Í annan stað vísar áfrýjandi til þess að umráðamenn Kotvallar hafi í áratugi átt aðild að Veiðifélagi Eystri-Rangár og eldra veiðifélagi, sem hafi haft árnar tvær á félagssvæðum sínum, og sýni þetta að ávallt hafi verið litið svo á að jörðinni fylgdi sá veiðiréttur, sem deilt er um í málinu. Í þriðja lagi ber áfrýjandi fyrir sig að Kotvellir hafi átt land að Eystri-Rangá fram til landskiptanna 1963 auk þess að eiga hlutdeild í sameiginlegu landi Vallartorfu, svo og í hlunnindum hennar, sem aldrei hafi verið skipt, en af þeim sökum fylgi veiðiréttur nú jörðinni. Loks byggir áfrýjandi kröfu sína á því að hvað sem öðru líði hafi unnist veiðiréttur fyrir jörðina í ánum tveimur fyrir hefð.

II

Elstu heimild um svæðið, sem málið varðar, er að finna í dómi, sem sex klerkar útnefndir af biskupnum í Skálholti kváðu upp 28. júní 1495 um ágreining milli síra Þorvarðs Ívarssonar vegna sín og kirkjunnar í Odda og síra Halldórs Jónssonar vegna erfingja síra Snorra Helgasonar. Þar var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að dæma „fyrskrifada jord kotvoll kirkiunne j Odda til æuinlegrar eignar“.

Í bréfi Þorleifs Jónssonar prests í Odda 13. júlí 1671 sagði meðal annars eftirfarandi: „Vid votta bid eg þá frómu konu Margretu Jónsdóttur á Kotvelle ad birta landamerke millum Kotvallar og Efra Hvols þesse er þeir hallded hafa sem fyrir mig hafa seted Oddastad. Fyrst rædur gardur sem er fyrer sunnan Vaull siálfann og upp i dyakrok. og so framm á hædena. so ad siá meige mann á heste heiman af hladenu á Kotvelle. og so ofan i gardenn hiá grásteinum i leinegröf. sem er fyrir nedan Suarthola.“ Á bréfinu kemur fram að það var lesið upp að viðstöddum vottum að Neðri Hvoli 23. júlí 1671, svo og við Breiðabólstaðarkirkju sjötta sunnudag eftir Trinitatis á sama ári. Í lögfestu Bjarna Hallgrímssonar prófasts í Odda 23. maí 1709, sem lesin var á manntalsþingi 25. sama mánaðar, sagði efnislega það sama og að framan greinir um landamerki Kotvallar. Í lögfestu Ólafs Gíslasonar prófasts í Odda 16. júní 1731, sem var lesin upp við Breiðabólstaðarkirkju 1. júlí sama ár, var merkjunum á hinn bóginn lýst sem hér segir: „Fyrst rædur gardur sem er fyrir framan Voll sjálfann og uppi Dyakrók og þá fram á hædina, svo ad sjá meigi Mann á hesti heiman af hladinu á Kotvelli og svo ofan í gardinn hjá grásteinum í leinigröf þá sem er fyrir nedann svarthóla og þá sjónhending rietta undann þessum takmörkum útí Rángá.“ Nánast samhljóða lýsingu á merkjunum var að finna í lögfestu Gísla Snorrasonar prófasts í Odda, sem var gerð 14. maí 1753 og lesin á manntalsþingi 16. sama mánaðar. Í lögfestu sama prófasts 31. maí 1765, sem var lesin upp á manntalsþingi 1. júní sama ár, var lýsingin að hluta enn sú sama, en henni lauk á hinn bóginn í þeirri leynigröf, sem sögð var vera fyrir neðan Svarthóla, og var því ekki rætt um að merkin færu þaðan eftir sjónhendingu út í Rangá.

Áður en síðastnefnd lögfesta var gerð fyrir Kotvöll mun lögfesta hafa verið gerð fyrir Efri Hvol 17. maí 1757. Við gagnaöflun aðilanna undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti mun hvorki hafa tekist að finna þessa lögfestu né tvær yngri fyrir Efri Hvol, sem munu hafa verið gerðar 20. maí 1780 og 22. maí 1799. Á þessar þrjár lögfestur er á hinn bóginn minnst í svonefndri landamerkjabók Steingríms biskups Jónssonar, þar sem eftirfarandi athugasemd kemur fram neðan við endurritaðan texta áðurnefnds bréfs Þorleifs Jónssonar frá 13. júlí 1671: „Í lögfestunni f. Efrahvoli 17. Maji 1757 stendur „- fyrst ræður garðurinn sem byrjast fyrir vestan grióthóla, en sunnan Kotvallalæk og liggur ofan Íraheiði, útyfir Hóla, og svo beina stefnu útí þúfuna fyrir vestan Flóðalækinn við Rángá.“ Önnur dato 20. Maji 1780. eins. Þriðja dato 22. Maji 1799. eins.“

Síðastnefnda lögfestan fyrir Efri Hvol frá 22. maí 1799 varð tilefni til að Gísli Thorarinsson prestur í Odda lét 24. sama mánaðar frá sér fara „Protest ... móti Efra Hvols lögfestu til skaða við Kotvöll“, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Þá lögfestu, sem í gær skal hafa verið upplesin á Stórólfshvolsmanntalsþingi fyrir jörðunni Efrahvoli en til skaða við Oddastaðarjörðina Kotvöll protestera eg sem galda og órigtuga ... svo lengi eins skýr og authentique Document ei eru framfærð téðri lögfestu til styrkingar og eg skal fram koma með á sínum tíma og rétta stað mót hinni sömu.“ Þessi yfirlýsing var lesin upp á manntalsþingi sama dag. Ekki verður séð af gögnum málsins að frekari lögfestur hafi verið gerðar fyrir þessar tvær jarðir.

Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland, sem mun hafa verið staðfest með konungstilskipun 1. apríl 1861, var Völlur metinn sérstaklega til verðs og jafnframt hver af þremur hjáleigum jarðarinnar, Bakkavöllur, Vallarhjáleiga og Markaskarð. Kotvöllur var þar einnig metinn til verðs og ekki tengdur sérstaklega við Völl og hjáleigur hans.

Óumdeilt er að landamerkjabréf hafi hvorki verið gerð fyrir jarðirnar sex, sem tilheyra aðilunum og um ræðir í málinu, né fyrir Efri Hvol. Á hinn bóginn liggja fyrir í málinu landamerkjabréf fyrir tvær jarðir, sem eiga merki að svæðinu sem jarðir aðilanna eru á, annars vegar Þórunúp og hins vegar Árgilsstaði. Í landamerkjabréfi fyrrnefndu jarðarinnar, sem var gert ótilgreindan dag í nóvember 1886, var merkjum lýst á eftirfarandi hátt að því leyti, sem snýr að máli þessu: „Mörkin milli Þórunúps og Efrahvols eru þessi: Frá Þórunúps-gili að norðanverðu mótsvið hinn svonefnda Vestasta-botn, er síðar verður um getið beina stefnu í Mið-Grjóthól sem liggur uppá há-Íraheiði, og svo þaðan mótsvið Kotvöll til norðurs í vörðu norðan við Austasta Grjóthól, þaðan til vörðu neðanvert við norðurbrún Íraheiðar, þaðan í efstu þúfu á Lambhól og svo þaðan beint austur í þúfu neðst á Þræturima, en hún er þar sem efsta þúfan á Lambhól ber í vestri Nónstein á norðurbrún Hvolsfjalls. Mótsvið land Vallarhverfis liggja svo mörkin úr þessari vörðu í foss í fremra-Markagili, ræður svo gil þetta í jarðfastan stein fyrir ofan norðurbrúnina á fjallinu og úr honum í vörðu sunnanvert við Dagmálahnjúk og þaðan í vörðu framanvið innri-Markagilbotn.“ Bréf þetta, sem var þinglesið 14. júní 1887, var meðal annars áritað um samþykki af hálfu Kotvallar, Vallar, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs. Í landamerkjabréfi Árgilsstaða, sem var gert ótilgreindan dag í maí 1890 og þinglesið 28. þess mánaðar, var rætt um merki „milli Árgilstaða og Vallarhverfisins“. Það var áritað um samþykki fyrir „Vallarhverfið“ af sama manni og undirritað hafði fyrrgreint landamerkjabréf Þórunúps „sem ábúandi á Velli, Bakkavelli og Vallarhjáleigu, og eigandi að nokkrum hluta af Velli, Bakkavelli og Markaskarði“, en á hinn bóginn var það ekki áritað af hálfu Kotvallar.

Í gerðabók fasteignamatsnefndar í Rangárvallasýslu frá 1916 voru upplýsingar um Efri Hvol, Kotvöll, Völl og Markaskarð, en ekki að því er virðist um Bakkavöll eða Vallarhjáleigu. Um allar fyrstnefndu jarðirnar fjórar var þess getið að landamerki væru „óinnfærð“, um Efri Hvol og Völl sagði að auki að þau væru „jafnvel eigi ágreiningslaus“ og um Kotvöll að þau væru „eigi ágreiningslaus“. Þá kom þar fram bæði um Efri Hvol og Völl að lítilsháttar silungsveiði væri í Rangá, en slíks var ekki getið um hinar jarðinar, sem hér um ræðir.

Í aukarétti Rangárvallasýslu var þingfest 11. ágúst 1922 landamerkjamál eigenda Efri Hvols gegn „eigendum kirkjujarðarinnar Kotvallar og eiganda jarðanna Vallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs að því leyti sem jarðir þessar hafa óskipt beitiland með Kotvelli“, svo sem komist var að orði í þingbók. Þar var bókað að umboðsmaður eigenda Efri Hvols „hjelt því fram ... að landamerki skuli liggja úr Mið-Grjóthól eptir garðinum er byrjar þar fyrir vestan og liggur ofan Íraheiði sunnan Kotvallarlækjar og úr garðsendanum út yfir Hóla sjónhending rjetta í þúfuna fyrir vestan Hólalækinn við Rangá.“ Umboðsmaður eiganda Kotvallar héldi á hinn bóginn fram að merkjunum „ráði fyrst garður, sem er fyrir sunnan Völl sjálfan og upp í Dýakrók og svo fram á hæðina, svo að sjá megi mann á hesti heiman af hlaðinu á Kotvelli og svo ofan í garðinn hjá Grásteini í Leynigróf þá sem er fyrir neðan Svarthóla og svo sjónhending rjetta undan þessum takmörkum út í Rangá“. Þess var getið að eigandi Vallar væri „samþykkur þessari landamerkjalýsingu umboðsmanns Kotvallar.“

Þegar landamerkjamálið var tekið fyrir á ný 19. september 1922 lagði annar eigenda Efri Hvols, Björgvin Vigfússon, á hinn bóginn fram svohljóðandi yfirlýsingu frá 4. sama mánaðar: „Við undirritaðir eigendur jarðanna Vallar með Bakkavelli, Vallarhjáleigu og Markaskarðs lýsum því yfir, að við viðurkennum eigi sambeit Vallartorfu og Kotvallar, en að því leyti sem Vallartorfuland liggur að Efra-Hvolslandi vestanmegin Kotvallarlands, þá viðurkennum við mörk þau þar á milli, er sýslumaður Björgvin Vigfússon heldur fram, þarsem þúfan vestan við Flóðalækinn eða Flóðalækjarkjaft við Rangá er endamark. Af þeirri ástæðu teljum við landamerkjamál það, sem nú stendur yfir milli Efra-Hvols og Kotvallar okkur óviðkomandi og segjum oss einnig algjörlega frá því máli.“ Í tilefni af þessu var fært til bókar að landamerkjamálið væri orðið „aðeins milli eigenda Efra-Hvols og Kotvallar“, en svokallaður umráðamaður kirkjujarðarinnar Kotvallar fékk þá bókað eftirfarandi: „Jeg mótmæli því að eigendur Vallartorfunnar hafi nokkurn rjett til að semja við Efra-Hvols eigendur um landamerkjalínu og endamark milli Kotvallar og Efra-Hvols við Rangá, og hlýt jeg að halda því fram að Kotvöllur eigi land að öllu leyti móti Efra-Hvol ofan úr heiði og vestur í Rangá samkvæmt þeim lögfestum og vottorðum sem fyrir hendi eru.“ Þessu svaraði fyrrnefndur umboðsmaður eigenda Efri Hvols með bókun um að „hann haldi ágreining um sambeit milli Kotvallar annarsvegar og Vallartorfu hinsvegar máli þessu algerlega óviðkomandi.“ Umráðamaður Kotvallar lagði í framhaldi af þessu fram nokkurn fjölda skjala, þar á meðal svohljóðandi vottorð 4. september 1922 frá manni, sem nefndur var Skúli Skúlason frá Odda: „Að gefnu tilefni vottast hjermeð, að þegar jeg gerði áreið á landamerki Kotvallar fyrir rúmum 30 árum var enginn ágreiningur um mörkin milli Kotvallar og Efrahvols, en vegna ágreinings um mörkin milli Kotvallar og Vallar var mörkum Kotvallarins ekki ráðið til lykta.“ Í þessu þinghaldi mun umráðamaður Kotvallar hafa að endingu lýst því yfir að „hann gengi inn á að merkin yrðu ákveðin úr Grásteini í Leynigróf beina stefnu í Flóðalækjarkjapt“ og var málið við svo búið tekið til dóms.

Dómur var kveðinn upp í landamerkjamálinu 20. september 1922. Í honum var því hafnað að fyrrgreindar lögfestur fyrir Kotvöll nægðu til sönnunar um merki jarðarinnar við Efri Hvol, en jafnframt var vísað til þess að yrðu þær lagðar til grundvallar yrði tekin „stór spilda af Efra-Hvolsnesi sem viðurkend hefir verið rjettmæt eign þeirrar jarðar“. Að þessu frágengnu var talið sýnt af áðurnefndu landamerkjabréfi fyrir Þórunúp frá 1886 að hornmark milli þeirrar jarðar, Kotvallar og Efri Hvols væri í Mið-Grjóthóli, sem réði þannig merkjum síðastnefndu jarðanna tveggja úr suðri. Um merkin frá þeim stað „í þúfuna fyrir vestan Flóðalæk“ við Rangá yrðu lögfestur fyrir Efri Hvol ekki hafðar til sönnunar fremur en lögfestur fyrir Kotvöll, enda virtust þær fyrrnefndu „ganga nokkuð nærri Kotvelli“, meðal annars með því að sauðahús jarðarinnar yrðu þá innan merkja Efri Hvols. Af þessum sökum varð niðurstaðan sú að „milli þessara hornmarka Mið-Grjóthóls öðru megin en þúfunnar við Flóðalækinn hinu megin“ væri hlaðin varða á hárri þúfu „spölkorn fyrir suðvestan sauðahúsin á Kotvelli“, þar sem beinar línur úr hvoru hornmarki myndu mætast, og landamerkin fara samkvæmt því. Dómsorð þessa dóms var fært í landamerkjabók sem heimild um merki Efri Hvols og Kotvallar.

Í málinu hafa verið lagðar fram skýrslur, sem umráðamenn Kotvallar, Vallar I, Vallar II, Markaskarðs og eyðijarðanna Bakkavallar og Vallarhjáleigu gerðu á prentuðum eyðublöðum til undirbúnings fasteignamati 1930. Spurningu þar um landamerki var ekki svarað að því er varðar Bakkavöll, sagt var að landamerki væru samþykkt í upplýsingum fyrir Kotvöll, Völl I og Vallarhjáleigu, í tilviki Markaskarðs var spurningunni svarað með orðunum „óskiftir hagar“, en um Völl II sagði eftirfarandi: „Til landamerkja svara eg ekki neins, hier siest eingin merki sem sanna neitt.“ Í engu tilviki var getið um ítök annarra í þessum jörðum og hvergi voru nefnd hlunnindi af lax- eða silungsveiði nema í upplýsingum um Völl II, þar sem sagði að veiði væri mjög lítil sem sakir stæðu og dygði tæplega „fyrir netasliti og tíma af lagfæringu þeirra.“ Í skýrslum vegna fasteignamats 1940, sem gerðar voru fyrir sömu jarðir að frátalinni Vallarhjáleigu, var alls staðar svarað játandi spurningu um hvort landamerki væru ágreiningslaus, en því þó bætt við um Kotvöll að þau væru „sameiginl. við Völl.“ Að öðru leyti var hvergi í þessum skýrslum rætt um sameiginlegt land með öðrum jörðum og ekki var getið um hlunnindi af lax- eða silungsveiðum.

Eins og áður var getið voru á árinu 1963 gerð „landaskifti Vallartorfu og Kotvallar“, sem svo voru nefnd í fyrirliggjandi ljósriti úr landskiptabók. Í málinu hafa engin önnur gögn verið lögð fram, sem tengjast landskiptunum, og er því ekki við annað að styðjast um þau en það, sem fært var í þá bók. Þar var einskis getið um hver hafi hlutast til um landskiptin eða hvað landskiptamönnum hafi í einstökum atriðum verið tjáð um réttindi yfir landinu, en á hinn bóginn var nefnt að fyrir hafi legið „loftljósmynd af landi áður nefndra jarða“, sem ekki hefur þó komið fram í málinu. Þegar landskiptin voru tekin fyrir í fyrsta sinn 15. júlí 1963 var meðal annars eftirfarandi fært í landskiptabókina: „Nokkur vafi var á, um landamerki Kotvallar, og var byrjað á því að athuga afstöðu þeirrar jarðar gagnvart Vallartorfu. Fullt samkomulag varð að loknum umræðum að staðsetja sjerstaklega landamerki Kotvallar þannig: Frá brú á framræsluskurði og eftir honum allt uppí Dýjakrók. Þaðan ráða Þórunúpsmörk að svokölluðum Miðgrjóthól, sem er hornmark milli þeirrar jarðar annarsvegar og Efra-Hvols hinsvegar. Frá Miðgrjóthól ráða landamerki Efra-Hvols að þúfu skammt suðvestan við sauðahús Kotvallar, sbr. landamerkjalýsingu Efra-Hvols. Frá nefndri þúfu liggi svo merkin eftir markalínu Efra-Hvols í vörðu sem sett verður 820 metra vestan við Vallarveg. Úr síðastnefndri vörðu í aðra sem sett verður 500 metra uppá vellinum, og þaðan 750 metra í vörðu við túngarð á Kotvelli austan Vallarvegar. Þaðan ræður vegurinn 700 metra að brúnni sem fyrst var getið.“ Að þessu gerðu var landskiptunum frestað, en 7. september 1963 var fram haldið „skiptum ... á Vallartorfu“ og þeim lokið samdægurs með því að deila landi milli Vallar I, Vallar II, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs.

Þess er loks að geta að eignarhaldi kirkjunnar og síðar íslenska ríkisins að Kotvelli lauk með því að jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins gaf út afsal fyrir jörðinni til Hvolhrepps 10. ágúst 1989, en áfrýjandi mun hafa eignast jörðina úr hendi þess sveitarfélags.

III

Í málinu liggur fyrir gjaldskrá fyrir Fiskiræktarfélagið Rangá, sem gefin var út af atvinnu- og samgöngumálaráðherra 22. janúar 1931 á grundvelli laga nr. 6/1929 um fiskiræktarfélög og birt í Stjórnartíðindum sem auglýsing nr. 6/1931. Í upphafi hennar sagði að kostnaði af starfsemi félagsins skyldi jafnað niður „á félagana miðað við þann einingafjölda, er hvílir á þeirri jörð eða þeim jarðarhluta, sem hann á eða hefir ábúð á eða veiðirétt“. Í framhaldi af því var talin upp 81 jörð með samtals 5.665 einingar, en meðal þeirra voru Völlur með Bakkavelli, „Völlur, annað býli“, Markaskarð og Árgilsstaðir með Vallarhjáleigu. Kotvallar var þar ekki getið. Ekki hefur komið nánar fram hvenær þetta félag var stofnað.

Sami ráðherra gaf út 21. september 1943 með stoð í lögum nr. 112/1941 um lax- og silingsveiði samþykkt fyrir Veiði- og fiskræktarfélag Rangæinga, sem birt var sem auglýsing nr. 185/1943. Samkvæmt 3. gr. hennar hafði félagið „eitt umráð yfir öllum veiðirétti í þessum vötnum: Ytri-Rangá, Eystri-Rangá, Þverá og Hólsá, og öllum þverám og lækjum, sem í þau falla.“ Þar sagði jafnframt að félagsmenn væru allir eigendur eða ábúendur þeirra jarða, sem ættu lönd að þessum vötnum, og voru þær taldar þar upp, meðal annarra Völlur I, Völlur II, Bakkavöllur og Markaskarð. Árgilsstaðir voru þar einnig nefndir, en Vallarhjáleiga ekki. Kotvallar var þar ekki getið. Þá gaf ráðherra út arðskrá fyrir félagið 21. september 1944, sem var birt sem auglýsing nr. 133/1944. Í henni var jörðum skipt í sex deildir, en meðal jarða í Hvolhreppsdeild, sem einingar voru ákveðnar fyrir, voru Völlur I, Völlur II, Bakkavöllur og Markaskarð auk Árgilsstaða.

Í gögnum málsins er hluti af fundargerð frá aðalfundi Fiskræktar- og veiðifélags Rangæinga, sem haldinn var 23. október 1954. Á honum var flutt tillaga um slit félagsins og var fært í fundargerð hvernig einstakir „félagsmenn“ hafi greitt atkvæði um hana, en meðal þeirra var „Hermann Sveinsson, Kotvelli“. Ekki verður séð af þessum hluta fundargerðarinnar hver niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hafi orðið.

Landbúnaðarráðherra gaf út 31. október 1955 á grundvelli laga nr. 112/1941 samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæinga, sem birt var sem auglýsing nr. 128/1955. Í 3. gr. hennar sagði að félagið næði til allra jarða, sem ættu land að Hólsá, Ytri-Rangá, Þverá, Eystri-Rangá og allra lækja, sem í þær renna og fiskur gengur í úr sjó. Í sömu grein voru þessar jarðir taldar upp og þeim skipt eftir sveitarfélögum. Meðal jarða í Hvolhreppi var þar getið um Völl I, Völl II, Bakkavöll og Markaskarð auk Árgilsstaða, en um Kotvöll var ekki rætt. Þá liggur fyrir að arðskrá var samþykkt fyrir félagið 30. október 1958, en ekki verður séð af gögnum málsins að hún hafi verið gefin út af ráðherra eða birt í Stjórnartíðindum. Samkvæmt henni voru „Vallartorfan“ og Árgilsstaðir meðal jarða, sem einingar voru ákveðnar fyrir, en Kotvöllur var þar ekki nefndur.

Áfrýjandi hefur lagt fram í málinu ljósrit úr fundargerðabók Veiðifélags Rangæinga með „skrá yfir félaga“ í því. Þessi skrá ber ekki með sér frá hvaða tíma hún er, en tekið er fram á ljósritinu að það sé úr fundargerðabók, sem „nær yfir árin 1954-1962“. Meðal félagsmanna úr Hvolhreppi var þar getið um Hermann Sveinsson vegna Kotvallar, auk nafngreindra manna vegna Bakkavallar, Markaskarðs, Vallar I og Vallar II.

Framhaldsaðalfundur var haldinn í Veiðifélagi Rangæinga 8. apríl 1960. Samkvæmt framlagðri fundargerð féllu samhljóða atkvæði til stuðnings tillögu um nýja samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæinga, þar sem kveðið var á um það í 2. lið að félagið næði til allra jarða, sem ættu land að Hólsá, Ytri-Rangá, Þverá, Eystri-Rangá og lækjum, sem í þær renna og fiskur gengur í úr sjó. Sem fyrr voru þessar jarðir taldar upp og skipt eftir sveitarfélögum, en meðal jarða í Hvolhreppi var getið um Völl I, Völl II, Vallarhjáleigu, Bakkavöll, Markaskarð og Kotvöll. Í samþykktinni var félaginu heimilað að starfa í deildum eftir ákvörðun nánar tilgreinds hlutfalls félagsmanna og var á fundinum ákveðið að neyta þeirrar heimildar meðal annars með því að setja á stofn sérstaka deild fyrir Eystri-Rangá. Í lok fundargerðarinnar sagði síðan eftirfarandi: „Hefur Fiskiræktar- og veiðifélagi Rangæinga, sem stofnað var með reglugerð staðfestri af atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu hinn 21. sept. 1943, með nægilegu atkvæðamagni verið þar með slitið. ... Samþ. samhlj. að eignir félagsins renni til væntanl. veiðifélags.“ Óumdeilt er í málinu að þessi samþykkt var ekki staðfest af ráðherra eða birt í Stjórnartíðindum.

Samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæinga var gefin út af landbúnaðarráðherra 21. janúar 1977 og birt sem auglýsing nr. 64/1977, en um stoð fyrir henni var vísað til laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Í 2. gr. hennar voru efnislega samhljóða ákvæði og fram komu í áðurnefndum 2. lið samþykktarinnar frá 8. apríl 1960, þar á meðal um jarðir í Hvolhreppi, sem teldust eiga land að vatnasvæði félagsins, en þar var þó einnig getið um Þórunúp, sem ekki virðist fyrr hafa verið gert í slíkum talningum. Þá var í 9. gr. samþykktarinnar mælt fyrir um að félagið skyldi starfa í þremur deildum, en ein þeirra næði til eystri bakka Hólsár, allrar Þverár milli Ytri-Rangár og Eystri-Rangár og síðastnefndrar ár ásamt fiskgengum ám og lækjum, sem í hana falla.

Samkvæmt framlagðri fundargerð var haldinn stofnfundur Veiðifélags Eystri-Rangár 10. nóvember 1991. Í tillögu um samþykktir fyrir félagið, sem þar náði fram að ganga, var mælt fyrir um að félagsmenn þess skyldu vera ábúendur allra jarða og eigendur eyðijarða á félagssvæðinu, sem næði frá ósi Eystri-Rangár við Þverá að Tungufossi og yfir Stokkalæk og Fiská að Heybandsfossi, en þessar jarðir væru 32 talsins, þar á meðal Vallarhjáleiga, Bakkavöllur, Völlur I, Völlur II, Markaskarð og Kotvöllur. Á fundinum var jafnframt kosin stjórn fyrir félagið. Í fundargerðinni kom fram að fundarmaður hafi kveðið nafngreindan mann, sem var kjörinn formaður félagins, ekki vera „eiganda að jörð“, en annar endurskoðandi þess var kosinn maður, sem áfrýjandi segir að hafi verið „fulltrúi Kotvallar“ og síðar orðið formaður félagsins frá 1993 til 2002. Fyrir liggur að þessar samþykktir voru ekki staðfestar af ráðherra eða birtar í Stjórnartíðindum.

Enn gaf landbúnaðarráðherra út auglýsingu um samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæinga 1. mars 1994, sem birt var sem auglýsing nr. 115/1994, en í niðurlagi hennar var tekið fram að samþykktin væri staðfest á grundvelli 52. gr. laga nr. 76/1970. Í 2. lið samþykktarinnar sagði að félagið næði til allra jarða, sem eigi land á vatnasvæði Hólsár, Ytri-Rangár, Þverár og Eystri-Rangár, og voru þær eins og í fyrri samþykktum taldar upp eftir sveitarfélögum, en meðal jarða í Hvolhreppi voru Bakkavöllur, Kotvöllur, Markaskarð, Vallarhjáleiga, Völlur I, Völlur II og Þórunúpur. Þá sagði í 10. lið að félagið skyldi starfa í deildum, sem þar greindi nánar með talningu fimm veiðifélaga. Meðal þeirra var Veiðifélag Eystri-Rangár, en félagssvæði þess væri sú á ásamt fiskgengum ám og hliðarlækjum, sem í hana falla. Í þessum lið var einnig tekið fram að hvert af þessum fimm félögum skyldi setja sér samþykktir, sem hvorki mættu stangast á við lög nr. 76/1970 né samþykktir Veiðifélags Rangæinga.

Stjórn Veiðifélags Eystri-Rangár boðaði með bréfi til félagsmanna 28. febrúar 1999 til aðalfundar, sem haldinn yrði 25. mars sama ár, en með því fylgdi tillaga um arðskrá fyrir félagið, sem atkvæði skyldu greidd um á fundinum. Í þeirri tillögu var ráðgert að „Vallartorfa og Kotv.“ fengju sameiginlega í sinn hlut 14,22% eininga á vatnasvæðinu, en fjöldi eininganna var ekki tilgreindur nánar. Áður en til aðalfundarins kom ritaði nafngreind kona, sem mun hafa verið einn eigenda að Velli I, bréf til stjórnar félagsins, þar sem sagði eftirfarandi: „Á meðan að ekki er búið að skera úr um það hvort Kotvöllur eigi veiðirétt í Rangá get ég ekki samþykkt þessa arðskrá.“ Í málinu liggur fyrir skjal með fyrirsögninni „arðskrá fyrir Eystri-Rangá“, sem virðist hafa verið endanleg tillaga stjórnar félagsins og lögð fram á aðalfundinum. Í upptalningu jarða og eininga hverrar þeirra var þar kveðið á um að „Vallartorfa“ fengi í sinn hlut samtals 1.545 af 10.000 einingum, en neðan við þessa upptalningu var eftirfarandi athugasemd: „Skipting veiðiréttar á milli jarða á Stórólfshvolstorfu (Djúpadals, Götu, Króktúns og Þinghóls) og Vallartorfu (Bakkavallar, Markarskarðs, Vallarhjáleigu, Vallar 1 og Vallar 2) og Kotvelli er ekki lokið en arðshlutur þessara jarða verður greiddur inn á sérstakan bankareikning ef skiptum verður ekki lokið, þegar arðskráin tekur gildi og arður verður greiddur út. Síðan verða peningarnir greiddir um leið og skiptum lýkur.“ Tillaga um arðskrá var borin undir atkvæði á fundinum og samþykkt samhljóða.

Með bréfi til veiðimálastjóra 27. mars 1999 óskaði formaður Veiðifélags Eystri-Rangár eftir því að tillaga um arðskrá, sem hafi verið samþykkt á aðalfundinum 25. sama mánaðar, hlyti afgreiðslu hjá veiðimálanefnd „og henni verði skilað sem fyrst til ráðherra með jákvæðri umsögn.“ Þessu bréfi fylgdi skjal með fyrirsögninni „arðskrá fyrir Eystri-Rangá“, sem var undirritað af öllum stjórnarmönnum í veiðifélaginu. Skjalið var dagsett 25. mars 1999 og samhljóða fyrrnefndri tillögu, sem virðist hafa verið lögð fyrir aðalfund í félaginu og samþykkt þar, að öðru leyti en því að annars vegar höfðu þar verið handrituð orðin „og Kotvöllur“ aftan við orðið „Vallartorfa“ í upptalningu jarða og eininga þeirra og hins vegar hljóðaði athugasemdin neðan við upptalninguna þannig: „Skipting veiðiréttar á milli jarða á Stórólfshvolstorfu (Djúpadals, Götu, Króktúns og Þinghóls) og Vallartorfu (Bakkavallar, Markarskarðs, Vallarhjáleigu, Vallar 1 og Vallar 2) og Kotvelli er ekki lokið.“ Með bréfi til landbúnaðarráðuneytisins 30. mars 1999 lagði veiðimálastjóri til að arðskráin yrði staðfest. Ráðuneytið ritaði bréf til veiðifélagsins 15. apríl 1999, þar sem fundið var að tveimur atriðum í arðskránni, sem vörðuðu þó ekki jarðir aðila þessa máls, og var tekið fram að hún yrði því ekki staðfest að svo stöddu. Í málinu liggur fyrir endurgerð áðurnefnds skjals, sem nefnt var arðskrá fyrir Eystri-Rangá og fylgdi bréfi veiðifélagsins til veiðimálastjóra 27. mars 1999, en þessi endurgerð var undirrituð af formanni félagsins einum og ber með sér að hafa verið send í símbréfi til landbúnaðarráðuneytisins 19. apríl sama ár. Þar höfðu verið gerðar breytingar frá fyrri útgáfu skjalsins í samræmi við aðfinnslur ráðuneytisins í áðurnefndu bréfi 15. apríl 1999, auk þess sem annars vegar höfðu í upptalningu jarða og eininga þeirra verið vélrituð á sama hátt og annar texti skjalsins orðin „Vallartorfa (Bakkavöllur, Markarskarð, Vallarhjáleiga, Völlur 1, Völlur 2) og Kotvöllur“ og hins vegar hafði athugasemdin neðan við þessa upptalningu verið felld brott. Í þessum búningi staðfesti landbúnaðarráðherra arðskrána 26. apríl 1999 og var hún birt sem auglýsing nr. 282/1999.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að nokkuð hafi verið gert í framhaldi af þessu til að leysa ágreining um hvort Kotvöllur ætti að njóta með Vallartorfu hlutdeildar í arði af veiði á vatnasvæði Veiðifélags Eystri-Rangár. Á aðalfundi félagsins 17. nóvember 2002 mun á hinn bóginn hafa verið samþykkt svofelld tillaga: „Aðalfundur beinir því til stjórnar Veiðifélags Eystri-Rangár að arður jarðanna Vallar I, Vallar II, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs vegna veiðihlunninda verði tafarlaust greiddur. Rísi dómsmál vegna kröfu Kotvallar um veiðirétt og svo ólíklega vildi til að Kotvelli yrði dæmdur veiðiréttur í Eystri-Rangá, heita landeigendur í Vallartorfu og skuldbinda sig til að endurgreiða þann hlut sem Kotvelli yrði hugsanlega dæmdur.“ Áfrýjandi mun af þessu tilefni hafa fengið lagt lögbann 22. nóvember 2002 við því að veiðifélagið ráðstafaði arði í samræmi við þessa samþykkt. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 14. mars 2003, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 9. nóvember sama ár í máli nr. 118/2003, var hafnað kröfu áfrýjanda um staðfestingu lögbannsins. Eigendur jarðanna fimm, sem tilheyra stefndu og um ræðir í máli þessu, gerðu 16. ágúst 2006 samkomulag um að arði frá Veiðifélagi Eystri-Rangár, sem lagður hafi verið á geymslureikning allt frá árinu 1999, yrði skipt jafnt á milli þeirra, en þeir myndu ábyrgjast í sameiningu greiðslu á arðshlut eiganda Kotvallar ef honum yrði dæmdur veiðiréttur í Eystri-Rangá og Fiská. Samkvæmt bréfi veiðifélagsins til áfrýjanda 31. janúar 2007 hafði arðurinn, sem hér um ræðir, þá verið greiddur út í samræmi við þetta samkomulag. Þetta varð tilefni þess að áfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 21. desember 2007.

IV

Í Landabrigðisþætti Grágásar var kveðið á um að þar, sem menn ættu merkivötn saman, ætti hver að veiða fyrir sínu landi. Í 56. kapítula Landleigubálks Jónsbókar sagði að hver maður ætti vatn og veiðistöð fyrir sinni jörðu sem að fornu hafi verið nema með lögum væri frá komið. Þessum grunnreglum íslensks réttar um rétt til veiða í straumvötnum og stöðuvötnum var fylgt við setningu vatnalaga nr. 15/1923, þar sem mælt var svo fyrir í 1. mgr 121. gr. að landeiganda og þeim, sem hann veitti heimild til, væri einum heimil veiði í vatni á landi sínu. Í 2. mgr. sömu lagagreinar voru jafnframt þau nýmæli að ekki mætti skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu við landareign nema um tiltekið árabil, ekki lengra en tíu ár í senn, og þyrfti þá leyfi ráðherra eða að önnur hlunnindi kæmu á móti, sem landareigninni yrðu ekki metin minna virði en veiðirétturinn. Eftir afnám 121. gr. vatnalaga hafa efnislega sömu reglur gilt áfram samkvæmt 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 61/1932 um lax- og silungsveiði, 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 112/1941 og 1. mgr. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970, nú 5. gr. og 9. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum hefur að meginreglu ekki verið unnt frá gildistöku vatnalaga nr. 15/1923 að eignast veiðirétt í straumvatni eða stöðuvatni hér á landi nema með því að eignast land, sem liggur að slíku vatni. Áfrýjandi hefur hvorki borið því við að eigendur Kotvallar hafi fyrir þann tíma fengið afsal fyrir veiðirétti í Eystri-Rangá og Fiská án þess að eiga land að þeim vötnum eða þá unnið sér þann rétt fyrir hefð né að veiðiréttur hafi eftir þann tíma komist í hendur þeirra fyrir afsal eftir þeim takmörkuðu heimildum, sem veittar hafa verið frá gildistöku vatnalaga allt til þessa dags til að skilja veiðirétt frá eignarrétti að landi, sem að vatni liggur. Að virtum þessum lagaákvæðum getur ekki staðist að áfrýjandi hafi eignast veiðirétt í Eystri-Rangá og Fiská með því einu að Kotvelli hafi verið ákveðin hlutdeild í einingum vegna þessara vatna í arðskrá fyrir Eystri-Rangá, sem birt var með áðurgreindri auglýsingu nr. 282/1999, og gerist þess þá ekki þörf að taka afstöðu til ágreinings aðilanna um hvort arðskráin, sem landbúnaðarráðherra staðfesti 26. apríl 1999, hafi með réttu átt að geyma ákvæði um það efni. Af sömu ástæðum er ekki unnt að líta svo á að aðild ábúanda Kotvallar að Veiðifélagi Rangæinga, sem að minnsta kosti var komin til á fyrrnefndum framhaldsaðalfundi í félaginu 8. apríl 1960, og síðan Veiðifélagi Eystri-Rangár frá stofnun þess 10. nóvember 1991 geti ein og sér hafa stofnað til veiðiréttar fyrir jörðina í Eystri-Rangá og Fiská, þótt þessi félagsaðild geti komið til álita við mat hér á eftir á því hvort sannað sé að Kotvöllur hafi átt þann veiðirétt af öðrum sökum. Enn af sömu ástæðum getur veiðiréttur ekki hafa stofnast handa Kotvelli fyrir hefð vegna nota ábúenda jarðarinnar af veiði í Eystri-Rangá eða Fiská eftir að 2. mgr. 121. gr. vatnalaga tók gildi.

Áfrýjandi ber einnig fyrir sig sem áður segir að veiðiréttinn, sem hann krefst að viðurkenndur verði, megi rekja til þess að Kotvöllur hafi átt land að Eystri-Rangá þar til eigandi jarðarinnar lét það af hendi við landskipti 15. júlí 1963, en þetta telur hann einkum mega ráða af dóminum 20. september 1922 í landamerkjamáli eigenda Efri Hvols og Kotvallar. Eins og áður kom fram var það dómsmál upphaflega rekið milli annars vegar eigenda Efri Hvols og hins vegar eiganda Kotvallar og „eiganda jarðanna Vallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs að því leyti sem jarðir þessar hafa óskipt beitiland með Kotvelli“. Undir rekstri málsins létu eigendur Vallar, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markaskarðs frá sér fara yfirlýsingu, þar sem fram kom að þeir viðurkenndu ekki „sambeit Vallartorfu og Kotvallar“, en að því leyti, sem land Vallartorfu fyrir norðan land Kotvallar lægi að Efri Hvoli, væru samþykkt þau merki milli jarðanna, sem eigendur Efri Hvols gerðu kröfu um. Í dóminum 20. september 1922 sagði meðal annars í dómsorði að „landamerki milli Efra-Hvols og Kotvallar skulu vera úr Mið-Grjóthól ... í vörðu spölkorn fyrir suðvestan sauðahús Kotvallar og þaðan aptur beina stefnu í þúfu þá sem er vestan við Flóðalækinn út við Rangá.“ Eftir orðanna hljóðan voru með þessu ekki aðeins ákveðin merki Efri Hvols, heldur einnig Kotvallar, allt norður til bakka Eystri-Rangár. Án tillits til þess hvort þetta hafi að virtu framangreindu getað staðist verður að gæta að því að áfrýjandi hefur í málatilbúnaði sínum lagt til grundvallar að Kotvöllur hafi ekki átt land að Eystri-Rangá eftir 15. júlí 1963, þegar merki jarðarinnar voru ákveðin með bókun í landskiptabók, en með landskiptagerðinni 7. september sama ár kom land að merkjum Efri Hvols milli norðurmerkja Kotvallar og Eystri-Rangár í hlut Markaskarðs. Hafi land þetta tilheyrt Kotvelli einum fram til landskiptanna hlaut veiðiréttur, sem fylgdi því, upp frá þessu að vera á hendi eiganda Markaskarðs samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þágildandi laga nr. 112/1941. Áfrýjandi getur því ekki nú reist tilkall til veiðiréttar í Eystri-Rangá á ætluðum eignarrétti að landi, sem leið undir lok 15. júlí 1963, og þarf þá ekki að huga frekar að því hvernig málsástæða þessi gæti staðið til þess að viðurkenndur yrði veiðiréttur hans í Fiská.

Í málinu er ekki deilt um að landskiptin, sem voru gerð 1963, hafi tekið til lands, sem náði að bökkum Eystri-Rangár og Fiskár og var fram að því í óskiptri sameign, og að landinu hafi fylgt veiðiréttur í ánum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þágildandi laga nr. 112/1941. Þá er heldur ekki deilt um að í landskiptagerðinni hafi ekki verið kveðið á um staðbundin skipti á veiðiréttinum, sbr. 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941, og verði af þeim sökum að líta svo á að sá réttur hafi áfram verið óskipt á hendi þeirra, sem áður voru sameigendur að landinu. Á hinn bóginn er ágreiningur um hvort Kotvelli hafi fram að þessu tilheyrt hlutdeild í óskipta landinu. Um þetta er ekkert berum orðum sagt í framlögðu ljósriti úr landskiptabók, en eins og áður greinir liggur ekki fyrir í málinu við hvaða gögn hafi verið stuðst við framkvæmd landskiptanna eða hvers efnis þau gögn kunni að hafa verið. Úr þessum ágreiningi verður því að leysa á grundvelli þess, sem að öðru leyti er fram komið í málinu.

Af fyrrgreindum dómi frá 28. júní 1495 er ljóst að Kotvöllur var þegar á þeim tíma sjálfstæð jörð. Þegar Ný jarðabók fyrir Ísland kom út eftir miðja 19. öld voru Bakkavöllur, Vallarhjáleiga og Markaskarð á hinn bóginn enn hjáleigur frá Velli. Áður var greint frá bréfi prests í Odda 13. júlí 1671 og lögfestum fyrir Kotvöll, sem voru gerðar 23. maí 1709, 16. júní 1731, 14. maí 1753 og 31. maí 1765, en þau skjöl tengdust sýnilega deilum, sem stóðu um landamerki Kotvallar og Efri Hvols. Af þeim verður ekki aðeins ráðið að Kotvöllur hafi þá átt sjálfstæð landamerki móti Efri Hvoli, heldur einnig að minnsta kosti að einhverju leyti gagnvart Velli, enda hófst merkjalýsingin þar á garði „sem er fyrer sunnan Vaull siálfann og upp i dyakrok“, svo sem komist var að orði í bréfinu frá 13. júlí 1671, en þessi kennileiti varða Völl og eru óviðkomandi merkjum Kotvallar og Efri Hvols. Landamerkjabréf var sem fyrr segir gert fyrir Þórunúp í nóvember 1886, en þar var meðal annars greint frá merkjum jarðarinnar „mótsvið Kotvöll“ og síðan „mótsvið land Vallarhverfis“, sem nú tilheyrir Markaskarði samkvæmt landskiptagerðinni frá 1963. Landamerkjabréfið var áritað um samþykki meðal annars af ábúanda Kotvallar annars vegar og hins vegar manni, sem sagður var „ábúandi á Velli, Bakkavelli og Vallarhjáleigu, og eigandi að nokkrum hluta af Velli, Bakkavelli og Markarskarði“. Þá var gert landamerkjabréf fyrir Árgilsstaði í maí 1890, sem var áritað um samþykki af sama manni fyrir „Vallarhverfið“. Merki Árgilsstaða til vesturs snúa samkvæmt gögnum málsins nú að Vallarhjáleigu og Markaskarði, en það land kom í hlut þeirra jarða við landskiptagerðina 1963 og var fram að því hluti óskipta landsins. Þetta landamerkjabréf var á hinn bóginn ekki áritað af hálfu Kotvallar. Af fyrrgreindum gögnum varðandi fasteignamat frá 1916, 1930 og 1940 verður ekki annað ráðið en að Kotvöllur hafi haft sjálfstæð merki, þótt ágreiningur hafi í einhverjum ótilgreindum atriðum staðið um þau. Að virtu öllu því, sem að framan greinir, geta ekki staðist ummæli í skýrslu fyrir Kotvöll vegna síðastnefnda fasteignamatsins um að merki hans væru „sameiginl. við Völl“, hafi þar verið átt við það að á árinu 1940 hafi verið litið svo á Kotvöllur væri aðeins hluti af óskiptu landi Vallar. Þá er þess og að gæta að eigandi Kotvallar átti þegar upp var staðið einn aðild að landamerkjamáli móti eigendum Efri Hvols, sem leyst var úr með áðurgreindum dómi 20. september 1922, en þar hélt sá fyrstnefndi fram að „Kotvöllur eigi land að öllu leyti móti Efra-Hvol ofan úr heiði og vestur í Rangá“. Allt það, sem hér hefur verið greint, hnígur að því að þegar merki Kotvallar voru ákveðin með samkomulagi fyrir landskiptamönnum 15. júlí 1963 hafi það verið gert eftir fyrirmælum 9. gr. landskiptalaga, þar sem kveðið er á um skyldu þeirra til að leitast við að leysa ágreining um merki lands, sem til skipta er, við aðliggjandi jarðir. Sú ályktun fær jafnframt stoð í fyrrgreindum upphafsorðum bókunar í landskiptabók um þetta samkomulag, þar sem sagði að nokkur vafi hafi verið „um landamerki Kotvallar, og var byrjað á því að athuga afstöðu þeirrar jarðar gagnvart Vallartorfu.“ Að þessu gættu getur það ekki haft sérstakt gildi að landskiptagerðin hafi eftir fyrirsögn í landamerkjabók tekið til „Vallartorfu og Kotvallar“.

Áður er rakið það, sem liggur fyrir í málinu um tilurð Fiskiræktarfélagsins Rangár, Fiskræktar- og veiðifélags Rangæinga, Veiðifélags Rangæinga og Veiðifélags Eystri-Rangár, svo og um aðild að þeim félögum vegna jarða málsaðila og arðskrár, sem gerðar hafa verið fyrir þau. Samkvæmt þeim gögnum átti Kotvöllur ekki hlut að þessum félögum svo að víst sé fyrr en 8. apríl 1960, en þess er að gæta að þótt ábúandi jarðarinnar hafi sem fyrr segir farið með atkvæði á aðalfundi Fiskræktar- og veiðifélags Rangæinga 23. október 1954 var hvorki gert ráð fyrir henni í samþykkt fyrir Veiðifélag Rangæinga, sem var birt í auglýsingu nr. 128/1955 né var henni ætlaður hlutur í arðskrá fyrir félagið 30. október 1958. Frá árinu 1960 hefur jörðin á hinn bóginn verið tilgreind í samþykktum félaganna. Eftir gögnum málsins hefur á þeim tíma aðeins í eitt skipti verið gerð arðskrá vegna þessara félaga, en hún var birt í áðurnefndri auglýsingu nr. 282/1999. Fram að því virðist Kotvelli ekki hafa verið ætlaður hlutur í arði félaganna, en af arðskrá þessari risu deilur, sem virðist mega rekja mál þetta til, og eru því ekki efni til að telja hana hafa sjálfstætt gildi til stuðnings því að sá veiðiréttur hafi fylgt jörðinni, sem áfrýjandi gerir kröfu um. Í fyrirliggjandi samþykktum félaganna, sem hér um ræðir, hefur ávallt verið kveðið á um að þau nái til allra jarða, sem eiga land á nánar tilteknum vatnasvæðum, og þar hafa síðan jarðirnar verið taldar upp. Ekkert hefur komið fram í málinu til að varpa ljósi á ástæðu þess að Kotvöllur hafi ekki talist til þessara jarða áður en samþykkt var gerð fyrir Veiðifélag Rangæinga 8. apríl 1960, hafi jörðin á annað borð átt land eða hlutdeild í landi á bökkum Eystri-Rangár og Fiskár. Ekkert hefur heldur komið fram til að skýra á viðhlítandi hátt hvers vegna umráðamenn jarðarinnar hafi upp frá því talist til félagsmanna ef veiðiréttur hefur ekki fylgt henni. Fram hjá því verður þó ekki litið að í fyrrgreindum samþykktum fyrir Veiðifélag Rangæinga, sem voru birtar með auglýsingum nr. 64/1977 og nr. 115/1994, var Þórunúpur talinn upp meðal jarða, sem áttu hlut að félaginu, en ekki liggur annað fyrir í málinu en að land hans nái hvergi að vatnasvæði þess. Við svo búið verða ekki dregnar ályktanir til stuðnings kröfu áfrýjanda af þeim atriðum, sem hér hafa verið rakin.

Veiðiréttur í Eystri-Rangá og Fiská handa áfrýjanda sem eiganda Kotvallar verður sem fyrr greinir ekki leiddur af meginreglu íslensks réttar um að slíkur réttur sé á hendi þess, sem á land að vatni, enda fullnægir áfrýjandi hvað sem öðru líður ekki því skilyrði nú, en það gera á hinn bóginn stefndu. Að því gættu verður að leggja á áfrýjanda sönnunarbyrði fyrir því að Kotvelli hafi fram til 15. júlí 1963 tilheyrt hlutdeild í óskiptu landi, sem liggur að þessum vatnsföllum, þannig að veiðiréttur hans verði af því leiddur í skjóli 1. mgr. 3. gr. landskiptalaga. Að virtu öllu framangreindu hefur áfrýjandi ekki axlað þá sönnunarbyrði. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 6. apríl 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 7.-14. janúar 2008.

         Stefnandi er Skógræktarfélag Rangæinga, kt. 600269-4969, Kaldbaki, Rangárþingi ytra.

                Stefndu eru Lúðvík Gizurarson, kt. 060332-3479, Norðurgarði 1, Hvolsvelli, db. Bergsteins Gizurarsonar, kt. 291136-4199, Öldubakka 23, Hvolsvelli, Jón Benediktsson, kt. 080437-2189, Nýbýlavegi 40, Hvolsvelli, Svala Jónsdóttir, kt. 300338-3999, Smárahvammi 6, Hafnarfirði, Jónshús ehf., kt. 520899-2439, Álftamýri 65, Reykjavík, Félagsvöllur ehf., kt. 630496-2849, Grandavegi 42, Reykjavík og Ingvar Þorsteinsson, kt. 200329-2289, Markarskarði, Rangárþingi eystra.  Réttargæslustefndi er Veiðifélag Eystri Rangár, kt. 530492-2659, Akri, Rangárþingi eystra.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að hann eigi sem eigandi jarðarinnar Kotvallar í Rangárþingi eystra veiðirétt í Eystri-Rangá og Fiská í sama sveitarfélagi.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefndu Lúðvíks, Jóns, Svölu, Jónshúsa ehf., Félagsvallar ehf. og Ingvars eru þær að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda og þeim verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins

Dómkröfur stefnda db. Bergsteins Gizurarsonar eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins.

                Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda en hann gerir kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda

Málavextir.

Stefnandi mun vera eigandi jarðarinnar Kotvallar í fyrrum Hvolhreppi, nú í Rangárþingi eystra og heldur stefndi því fram að í heimildum greini frá því að jörðin hafi verið byggð úr jörðinni Velli og hafi átt land út að Eystri Rangá.  Stefndu telja hins vegar að jörðin hafi aldrei tilheyrt Vallartorfunni og aldrei hafa átt land út að Eystri Rangá.  Stefnandi vísar til þess að samkvæmt lögfestum fyrir Kotvöll og dómi landamerkjadóms Rangárvallasýslu frá 1922 hafi jörðin átt land að ánni.  Árið 1963 hafi verið framkvæmd landskipti Vallarjarða og Kotvallar á því óskipta landi jarðanna sem legið hafi að Eystri Rangá og Fiská.  Hafi Kotvelli verið skipt út landi þann 15. júlí og merki þeirrar jarðar staðsett sérstaklega gagnvart Vallartorfu.  Hafi skiptum því næst verið frestað um óákveðinn tíma.  Þann 7. september sama ár hafi skiptum verið fram haldið en þá hafi því óskipta landi sem eftir hafi staðið verið skipt milli jarða í Vallartorfu, þ.e. Bakkavallar, Markarskarðs, Vallarhjáleigu, Vallar 1 og Vallar 2.  Eftir landskiptin mun Kotvöllur hvorki hafa átt land að Eystri Rangá né Fiská. 

Stefnandi heldur því fram að eigendur Kotvallar á hverjum tíma hafi verið aðilar að Veiðifélagi Rangæinga frá stofnun þess árið 1960, en stefndu halda því fram að félagið hafi verið stofnað fyrr og hafi eigendur Kotvallar ekki verið aðilar að því.  Hafi Fiskiræktarfélagið Rangá verið forveri veiðifélagsins og benda stefndu á gjaldskrá frá árinu 1931 þessu til stuðnings.  Árið 1999 mun hafa verið samþykkt arðskrá fyrir Eystri Rangá og var hún staðfest af landbúnaðarráðherra 26. apríl sama ár og birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Komi fram í arðskránni að Kotvöllur og Vallartorfa (Bakkavöllur, Markarskarð, Vallarhjáleiga, Völlur 1 og Völlur 2) beri sameiginlega 1414 einingar af 10.000 í ánni.  Þá segi einnig að Vallartorfa og Kotvöllur beri sameiginlega 131 eining vegna Fiskár.  Stefndu halda því hins vegar fram að sú arðskrá sem birt hafi verið í Stjórnartíðindum hafi ekki verið í samræmi við þá arðskrá sem borin hafi verið upp til samþykktar á aðfundi veiðifélagsins 25. mars 1999.  Eftir gildistöku arðskrárinnar hafi komið upp ágreiningur um með hvaða hætti skyldi skipta arði innbyrðis milli jarðanna og þá hafi stefndu farið að bera brigður á að stefnandi ætti nokkurn rétt við arðs vegna Kotvallar.  Hafi stjórn réttargæslustefnda þá ákveðið að arðgreiðslur til jarðanna skyldu lagðar inn á sérstakan reikning þar til niðurstaða fengist um ágreining aðila.  Á aðalfundi réttargæslustefnda 17. nóvember 2002 var samþykkt að arður til jarðanna Vallar 1, Vallar 2, Bakkavallar, Vallarhjáleigu og Markarskarðs vegna veiðihlunninda yrði tafarlaust greiddur.  Jafnframt skuldbundu eigendur torfunnar sig til að endurgreiða þann hlut sem Kotvelli yrði hugsanlega dæmdur í dómsmáli vegna kröfu jarðarinnar um veiðirétt.  Stefnandi fékk lagt lögbann við því 22. nóvember 2002 að arðurinn yrði greiddur út til eigenda torfunnar, en héraðsdómur féllst ekki á að skilyrði lögbanns væru fyrir hendi og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti 9. október 2003.  Hinn 16. ágúst 2006 munu eigendur Vallartorfu hafa gert samkomulag um skiptingu arðsins og jafnframt ábyrgðust þeir allir sem einn arðshlut eiganda Kotvallar yrði honum dæmdur veiðiréttur í Eystri Rangá.  Arðurinn mun hafa verið greiddur út til eigenda Vallartorfu í september 2006 og nam upphæð hans 14.000.000 króna.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að stefndu séu bundin við efni arðskrárinnar sem samþykkt hafi verið á aðalfundi Veiðifélags Eystri Rangár 25. mars 1999.  Hafi fulltrúar allra jarða Vallartorfu mætt á fundinn nema eigandi Vallar 2.  Arðskráin hafi verið samþykkt samhljóða, boðað hafi verið til fundarins með löglegum hætti og allar ákvarðanir hans því bindandi fyrir félagsmenn.  Landbúnaðarráðherra hafi samþykkt arðskrána og hún verið birt í Stjórnartíðindum.  Samkvæmt 2. mgr. 50. gr. þágildandi laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, geti félagsmaður sem telji gengið á rétt sinn með arðskrá, krafist mats samkvæmt 95. gr. laganna. Eigendur jarða í Vallartorfu hafi ekki beitt þessu úrræði endi sýni gögn málsins að enginn ágreiningur hafi staðið um arðskrána þegar hún hafi verið samþykkt 1999.  Beri því þegar af þessari ástæðu að fallast á veiðirétt stefnanda þar sem eigendur torfunnar hafi beint og óbeint samþykkt að eigendur Kotvallar á hverjum tíma skyldu eiga tilkall til arðs af ánni.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að aðild eigenda Kotvallar að Veiðifélagi Rangæinga og Veiðifélagi Eystri Rangár sýni að ávallt hafi verið litið svo á að þeir ættu veiðirétt í Eystri Rangá.  Í stofnsamþykktum fyrrnefnda félagsins frá 8. apríl 1960 sé Kotvöllur tilgreindur meðal þeirra jarða sem land hafi átt að Hólsá, Ytri Rangá, Þverá og Eystri Rangá og lækja sem í þær renna.  Í 9. gr. samþykktanna komi fram að arði af sameiginlegri veiði skyldi skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá og hafi allir fundarmenn á aðalfundi Veiðifélags Rangæinga þennan dag greitt samþykktunum atkvæði sitt, þar á meðal a. m. k. tveir eigendur jarða í Vallartorfu, Vallar og Bakkavallar.  Hafi einhverjir eigendur jarða í Vallartorfu ekki mætt á fundinn breyti það ekki því að þeir séu bundnir við samþykktir félagsins um aðild Kotvallar.  Nýjar samþykktir hafi verið gerðar fyrir veiðifélagið árið 1994 og hafi Kotvallar aftur verið getið meðal þeirra jarða sem land eigi að umræddu vatnasvæði.  Hafi báðar þessar samþykktir verið staðfestar af landbúnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.  Í sérstökum samþykktum fyrir Veiðifélag Eystri Rangár sem staðfestar hafi verið á aðalfundi félagsins 10. nóvember 1991 sé Kotvallar enn á ný getið meðal þeirra jarða sem skapi eigendum aðild að félaginu.  Hafi fulltrúi Kotvallar, Markús Runólfsson, verið kosinn endurskoðandi félagsins og tveimur árum síðar hafi hann tekið við formennsku í því og gegnt því starfi til dánardags 2002.  Hafi engar athugasemdir komið fram við þá formennsku né stjórnarsetu Hermanns Sveinssonar, ábúanda á Kotvelli, um árabil.

Stefnandi byggir á því í þriðja lagi að Kotvöllur hafi átt land að Eystri Rangá allt til ársins 1963 en þá hafi farið fram landskipti Kotvallar og Vallartorfu.  Þá megi af lögfestum frá 1731, 1753 og 1776 ráða að suðvesturmörk Kotvallar séu frá Svarthóli og svo sjónhending rétta undan þessum takmörkunum út í Rangá.  Þá komi einnig fram í lögfestunum að jörðinni fylgi vötn og veiðiréttur og staðfesti dómur landamerkjadóms Rangárvallasýslu frá 20. september 1922 efni lögfestnanna.  Í málinu hafi verið deilt um mörk Kotvallar og Efra Hvols sem liggi að vestan.  Hafi niðurstaða dómsins orðið sú að merki milli jarðanna væru úr Mið-Grjóthól á Íraheiði beina stefnu í vörðu spölkorn fyrir suðvestan sauðahús Kotvallar og þaðan aftur beina stefnu í þúfu þá sem er vestan við Flóðalækinn út við Rangá.  Hafi í málinu verið lagðir fram fjölmargir vitnisburðir um að land Kotvallar næði út að Rangá og hefði jörðin m.a. átt kúabeit út við ána.  Stefnandi byggir á því að Kotvöllur hafi átt land í óskiptri sameign með Vallartorfu, enda hafi jörðin verið byggð út úr landi Vallar eins og fram komi í byggðasögunni Sunnlenskum byggðum IV sem gefin hafi verið út 1983.  Hafi landið norðvestan við Kotvöll verið í óskiptri sameign jarðanna og sé það skýringin á því að eldri merkjalýsingar Kotvallar liggi í hálfhring, þ.e. merkjum til norðvesturs sé ekki lokað.  Þá bendir stefnandi á framangreindar lögfestur þar sem segi að landnytjar eigi „aðrar jarðir ímóti“.  Þá sýni landskipti jarðanna 1963 skýrt að jarðirnar allar hafi átt land í óskiptri sameign og sé engum vafa undirorpið að landinu hafi verið skipt eftir landskiptalögum nr. 46/1946.  Ef einungis hefði verið um að ræða ágreining um merki Kotvallar við Vallartorfu hefði ekki verið leyst úr málinu á grundvelli þeirra laga heldur eftir ákvæðum landamerkjalaga nr. 41/1919.  Eftir skiptin hafi Kotvöllur ekki lengur átt land að Eystri Rangá en veiðiréttur jarðarinnar hafi haldist óbreyttur og áfram í óskiptri sameign, enda beinlínis óheimilt að skipta hlunnindum, sbr. 3. gr. landskiptalaga.

Stefnandi bendir á að arðskrá Eystri Rangár sé þannig sett upp að reiknaðar séu einingar fyrir þrjár ár, Eystri Rangá, Stokkalæk og Fiská.  Sé miðað við að Fiská eigi 1512 einingar af hinum 10.000 einingum Eystri Rangár.  Eftir landskiptin 1963 eigi Vallarhjáleiga, ein jarða í Vallartorfu, land að Fiská.  Engu að síður miði arðskráin við að Kotvöllur og allar fimm jarðirnar í Vallartorfu eigi að fá greiddan arð fyrir Fiská.   Megi því ætla að flestir stefndu hafi fallist á að hlunnindum hafi ekki verið skipt 1963. 

Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að ábúendur Kotvallar á hverjum tíma hafi hefðað veiðirétt fyrir því landi Vallartorfu sem áður var í óskiptri sameign.  Liggi fyrir yfirlýsing Hermanns Sveinssonar, sem búið hafi á Kotvelli 1921-1989, að veiði hafi ávallt verið stunduð í Eystri Rangá frá jörðinni.  Hafi veiðin þótt góð búdrýgindi og verið óátalin af öðrum.  Liggi fyrir að veiðin hafi staðið a.m.k. í 40 ár og séu því uppfyllt skilyrði 1. tl. 3. gr. hefðarlaga nr. 46/1905.  Til vara er byggt á því að uppfyllt séu ákvæði 8. og 9. gr. hefðarlaga um afnotahefð.

Stefnandi vísar um lagarök til 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu.  Þá er vísað til núgildandi lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006, einkum II. og VI. kafla og áðurgildandi lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970, einkum II. og IX. kafla.  Þá er byggt á ákvæðum landamerkjalaga nr. 41/1919 og landskiptalögum nr. 46/1946.  Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu, annarra en dánarbúsins.

Stefndu byggja sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, þar sem stefnandi hafi aldrei átt land að bökkum Rangár, en það hafi frá örófi verið grundvallarskilyrði veiðiréttar.  Hafi Jónsbók byggt á þeirri meginreglu að landeigandi ætti einkarétt til veiða á landi sínu, sbr. 56. kap. Landleigubálks.  Svipuð ákvæði hafi verið í Grágás, en meginreglan hafi verið að landeigandi hafi einn átt rétt til að veiða fisk í vötnum í landi sínu.  Þá vísa stefndu til 208. kap. Konungsbókar og 438. kap. Staðarhólsbókar.  Þá benda stefndu á veiðitilskipun frá 20. júní 1849, sem einkum átti við dýraveiðar aðrar en fiskveiðar, en samkvæmt henni áttu jarðeigendur einir alla dýraveiði í landi sínu.  Þá hafi verið bannað að skilja að veiðirétt og land, skyldi veiðiréttur fylgja ábúð og var lagt bann við stofnun víðiítaka.  Með vatnalögum nr. 15/1923 hafi verið lagt bann við því að skilja veiðirétt að nokkru leyti við landareign nema um tiltekið árabil, eigi lengra en 10 ár í senn.  Hafi ekki mátt lengja þann tíma nema með leyfi ráðherra.  Lög um lax- og silungsveiði nr. 61/1932 og 112/1941 hafi takmarkað enn frekar ráðstöfunarrétt yfir veiði og hafi nú verið bannað að skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu frá landareign, hvort heldur fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma.  Hafi sú undantekning verið gerð að skilja mátti rétt til stangaveiði frá landareign um tiltekinn tíma, þó ekki lengur en 10 ár nema með leyfi ráðherra.  Sömu takmarkanir hafi verið í lögum um lax- og silungsveiði nr. 53/1957 og nr. 76/1970.  Telja stefndu því ljóst að stefnandi eigi enga aðild að máli vegna veiðiréttar í ám er hann eða fyrri eigendur Kotvallar hafi aldrei átt land að.  Gegn skýrum ákvæðum framangreindra laga geti stefnandi ekki öðlast aðild að veiðiréttarmáli vegna mistaka veiðifélags eða birtingar arðskrár sem ekki hafi verið í samræmi við lög og reglur.  

Stefndu mótmæla því að þau séu bundin við efni arðskrár sem samþykkt hafi verið á fundi Veiðifélags Eystri Rangár 25. mars 1999 og telja hana ekki geta veitt þeim, sem samkvæmt henni eigi að fá greiddan arð vegna veiði, sjálfstæðan veiðirétt í á sem viðkomandi eigi ekki land að.  Sé ekki hægt að komast hjá skýrum lagaákvæðum varðandi það að veiðiréttur verði ekki skilinn frá landi.  Sé því ekki unnt að öðlast veiðirétt á grundvelli veiðiskrár án eignarhalds á landi við ána.  Væri þannig verið að heimila framsal veiðiréttar frá landi þvert á skýr lagafyrirmæli um annað.

Stefndu byggja á því að arðskrá sú sem samþykkt hafi verið 25. mars 1999 sé í ósamræmi við arðskrána sem birt hafi verið í Stjórnartíðindum.  Í þeirri tillögu sem legið hafi fyrir fundinum hafi ekki verið vikið að Kotvelli nema í neðanmálsgrein og hafi stefndu því talið sýnt að Kotvöllur yrði að sækja veiðirétt á eigendur jarða í Vallartorfunni, en ekki að eigendur torfunnar yrðu að afsanna að Kotvöllur ætti veiðirétt og rétt til arðs af veiði.  Hafi arðskráin með einhverjum hætti breyst eftir samþykkt aðalfundarins á þann veg að Kotvelli hafi verið splæst aftan við Vallartorfuna.  Telja stefndu að fulltrúi eiganda Kotvallar, Markús Runólfsson, hafi heimildarlaust breytt samþykktri arðskrá eftir að honum hafi borist athugasemdir frá ráðuneytinu við hinni samþykktu arðskrá.

Þá byggja stefndu á því að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að arðskráin sé löglega samþykkt og birt og veiti því stefnanda rétt til arðs af veiði úr Rangá, geti hún ekki myndað eignarrétt eða veiðirétt.  Ekki sé verið að ráðstafa veiðirétti með arðskránni, heldur eingöngu arði sem til sé kominn vegna veiði í ánni.  Heimilt sé að framselja tekjur af veiðirétti yfir á aðila sem ekki eigi veiðirétt, t.d. með leigu áa.  Geti löglega gerð og samþykkt arðskrá eingöngu veitt stefnanda rétt til greiðslu arðs af veiðinni en ekki veiðiréttinn sjálfan.  Þar sem stefnandi krefjist viðurkenningar á veiðirétti en ekki greiðslu arðs, verði að sýkna stefndu á grundvelli þessarar málsástæðu.

Stefndu mótmæla því að enginn ágreiningur hafi staðið um arðskrána er hún var samþykkt.  Hafi stefndu og aðrir eigendur Vallartorfu mótmælt allir sem einn.  Ástæða þess að ekkert hafi verið bókað um mótmælin á fundinum sé sú að formaður veiðifélagsins, Markús Runólfsson, hafi fullyrt við fulltrúa torfunnar að arðskráin hefði ekki nokkur áhrif á deilur aðila torfunnar og Kotvallar um veiðirétt, enda hafi önnur arðskrá verið samþykkt á fundinum en birt hafi verið í Stjórnartíðindum. 

Stefndu mótmæla því að ávallt hafi verið litið svo á að aðild eigenda Kotvallar sýni að þeir ættu veiðirétt í Eystri Rangá.  Veiðifélagið hafi ekki verið stofnað árið 1960 eins og stefnandi haldi fram, heldur megi rekja sögu þess til ársins 1931.  Ástæða þess að fulltrúi Kotvallar hafi setið fund veiðifélags Rangæinga 8. apríl 1960 hafi verið sú að hann haft mikinn áhuga á veiði.  Hafi því ekkert verið talið því til fyrirstöðu að hann væri aðili að félaginu, enda hafi hann ekki verið sá eini sem ekki hafi átt land að Eystri Rangá og átt félagsaðild.  Þá benda stefndu á að ekki eingöngu þeir sem átt hafi land að ánum hafi átt aðild, heldur einnig þeir sem átt hafi land að lækjum sem í árnar hafi runnið.

Stefndu vísa til umfjöllunar um sýknukröfu vegna aðildarskorts og telja ekki hægt að komast hjá skýrum lagaákvæðum þess efnis að veiðiréttur verði ekki skilinn frá landi.  Hafi aðild eigenda Kotvallar verið byggð á veiðiáhuga þeirra en ekki veiðirétti.  Hafi mönnum aldrei dottið í hug að Kotvöllur ætti veiðirétt í ánni og hafi það ekki verið fyrr en Markús Runólfsson kom að rekstri og framgangi stefnanda að sú hugmynd hafi komið upp.

Stefndu byggja jafnframt á því að Kotvöllur hafi aldrei átt land út að Eystri Rangá.  Árið 1922 hafi gengið dómur í landamerkjamáli milli eigenda Efra-Hvols og eiganda Kotvallar og ætti að vera óumdeilt að ekki hafi verið deilt um landamerki við Vallartorfuna, enda hefðu eigendur jarða þar þá verið aðilar að málinu.  Komi skýrt fram í dóminum að ekki sé fallist á að með fjórum lögfestum eða vottorðum séu landamerki sönnuð gagnvart Efra-Hvoli.  Ástæðan sé sú að verði landamerki úr Leynigróf ákveðin sjónhendingu rétta út í Rangá, eins og lögfestur geri ráð fyrir, teljist stór spilda úr Efra-Hvolsnesi sem viðurkennd hafi verið réttmæt eign þeirrar jarðar, eign Kotvallar.  Hafi því ekki verið unnt að taka kröfur umráðamanns Kotvallar að því leyti til greina.  Styðji því ekkert í þessum dómi þær fullyrðingar stefnanda að Kotvöllur hafi átt land út í Eystri Rangá.  Með tilvísun í þúfu sem sé vestan við Flóðalækinn út við Rangá sé eingöngu verið að finna beina línu til að skilja að landamerki Efra-Hvols og Kotvallar.  Séu landamerki Kotvallar á annan kílómetra frá Rangá og því fráleitt að telja þúfuna vera endamörk landamerkja við Efra-Hvol.  Stefndi mótmælir því að fjölmargir vitnisburðir hafi verið lagðir fram um að land Kotvallar næði að Rangá.  Stefnandi hafi aðeins lagt fram bréf Þuríðar Ólafsdóttur, en ekkert tillit hafi verið tekið til bréfsins í dóminum.  Þá sé ljóst að kúabeit sem hún minnist á og Kotvallarbóndi hafi greitt árlegt árgjald fyrir og hins vegar mjó spilda af nesinu sem hún hafi talið Kotvelli eiga, tengist landi Efra-Hvols.  Séu fullyrðingar stefnanda réttar um að hann hafi átt land að Eystri Rangá á grundvelli lögfesta og vottorða væri um að ræða land sem teljist í eigu Efra-Hvols í dag og því hluti af veiðirétti Efra-Hvols í Rangá, en sú jörð sé ekki aðili þessa máls.

Stefndu mótmæla því að Kotvöllur hafi átt land í óskiptri sameign með Vallartorfu og hafi engin gögn verið lögð fram því til stuðnings.  Nægi ekki tilvísun til ritsins Sunnlenskar byggðir og telja stefndu að Hermann Sveinsson, fyrrverandi ábúandi Kotvallar, hafi samið umfjöllunina um Kotvöll í ritinu.  Stefndu segja ástæðu þess að landamerkjum Kotvallar til norðvesturs hafi ekki verið lokað sé sú að umrætt landamerkjamál frá 1922 hafi eingöngu verið milli Efra-Hvols og Kotvallar og hafi Vallartorfan enga aðild átt að því.  Hefði verið um óskipta sameign að ræða hefði Vallartorfan þurft að vera aðili málsins.

Stefndu telja stefnanda misskilja landskiptin frá 1963.  Í fyrri hluta landskiptanna hafi verið byrjað á því að athuga afstöðu Kotvallar gagnvart Vallartorfu en ekki hafi verið um að ræða land í óskiptri sameign.  Hafi úttektarmenn eingöngu verið að framfylgja ákvæðum 9. gr. laga nr. 46/1941 er þeir leituðu samkomulags um landamerki við Kotvöll, áður en skiptin byrja, eins og segi í lögunum.  Landskiptalögin leggi þá skyldu á úttektarmenn að finna landamerki þess lands sem skipta eigi gagnvart samliggjandi jörðum, séu landamerki óviss.  Kotvöllur hafi ekki verið aðili að landskiptunum 1963.  Þegar landamerki Vallartorfu við Kotvöll hafi verið fundin hjá úttektarmönnum með samkomulagi aðila sé miðað við landamerkin frá 1922.  Sé þá enn rætt um sömu þúfu vestan við Flóðalækinn  og áður og því ekki verið að taka land af Kotvelli sem jörðin hafi átt að Rangá, enda hefði slíkt varla verið gert með samkomulagi aðila.  

Stefndu byggja á því að hefð geti aldrei veitt aðila veiðirétt í á sem viðkomandi eigi ekki land að og vísa stefndu til fyrri rökstuðnings um að veiðiréttur verði ekki skilinn frá landi.  Þá mótmæla stefndu þeirri yfirlýsingu Hermanns Sveinssonar að veiði hafi ávallt verið stunduð í Eystri Rangá frá Kotvelli, veiðin hafi þótt góð búdrýgindi og verið látin óátalin af öðrum.  Hermann hafi verið með mikla veiðidellu og haft gaman af því að veiða í ánni.  Sé rétt að veiði hafi verið stunduð í ánni en eingöngu með leyfi eigenda Vallartorfunnar og í þeirra fylgd. 

Stefndu byggja á því að verðmæti verði ekki hefðuð nema lagaheimild komi til.  Hefðarlög séu undanteking frá þessari meginreglu og beri að skýra ákvæði laganna þröngt.  Sé hefðarlögum ætlað að styrkja eignarréttindi sem fyrir séu, en ekki að koma á aðilaskiptum á eignarrétti.  Þá telja stefndu að ófrávíkjanlegar lagareglur um bann við aðskilnaði veiðiréttar frá landi girði fyrir það að hefð vinnist á veiðirétti. 

Stefndu byggja á því að veiðiréttindi myndu flokkast undir ósýnilegt ítak, sbr. 8. gr. hefðarlaga og þurfi veiði Kotvallarmanna að hafa staðið samfellt yfir í 40 ár til að veiðiréttur geti stofnast fyrir hefð.  Hafi engin gögn verið lögð fram um svo langan veiðitíma Kotvallar í ánni og þá hafi komið löng tímabil á síðustu öld þar sem enginn frá Kotvelli veiddi þar, m.a. vegna útleigu árinnar, Heklugoss og fiskræktunar.  Sé því ósannað að veiðiréttur hafi stofnast til handa stefnanda fyrir hefð.

Stefndu vísa til lax- og silungsveiðilaga nr. 61/1932, 112/1941, 53/1957 og 76/1970, vatnalaga nr. 15/1923, laga nr. 46/1905 um hefð, laga um meðferð einkamála og varðandi virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er vísað til laga nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda dánarbús Bergsteins Gizurarsonar.

Stefndi byggir á því að jörðin Kotvöllur hafi aldrei átt land að Eystri Rangá og hafi stefnandi engin gögn lagt fram sem sanni þá fullyrðingu.  Lögfestur þær er stefnandi byggi á séu einhliða yfirlýsingar af hálfu ábúenda eða fyrrum ábúenda Kotvallar sem sanni ekki fullyrðingu stefnanda.  Að því er yfirlýsingu Þuríðar Ólafsdóttur varðar sé ljóst að nes það við Rangá sem hún lýsi sé í landi Efra-Hvols og því Vallartorfunni óviðkomandi.  Í landamerkjamálinu frá 1922 hafi eigendur Kotvallar gert kröfu um að þeir fengju viðurkenndan eignarrétt í svonefndu Efra-Hvolsnesi sem sé gegnt Stóra-Hofi við Rangá.  Við meðferð málsins hafi umráðamaður Kotvallar fallið frá þessari kröfu með því að færa kröfulínu sína úr beinni stefnu út í Rangá í Flóðalækjarkjaft.  Allt að einu sé ljóst að niðurstaða dómsins hafi ekki falið í sér eignarrétt á þessu svæði.  Stefndi byggir á því að í dóminum frá 1922 hafi lögfestunum verið hafnað sem sönnunargögnum og hafi kröfulína Efra-Hvols verið samþykkt að öðru leyti en því að dómendur hafi hlaðið vörðu sem línan hafi verið dregin í að því er virðist í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir að beitarhús Kotvallar lentu í landi Efra-Hvols.  Hafi Völlur ásamt hjáleigum verið aðili að málinu frá upphafi og hafi aðildin verið skýrð með þeim hætti að hún væri tilkomin vegna þess möguleika að Vallartorfa ætti óskipt beitiland með Kotvelli.  Í yfirlýsingu sem lögð hafi verið fram í málinu hafi eigendur torfunnar hafnað því að eiga sambeit með Kotvelli og lýst þeim skilningi sínum að endamark marka á milli Vallartorfulands og Efra-Hvols vestanmegin Kotvallar sé þúfa vestan við Flóðalæk eða Flóðalækjarkjaft.  Jafnframt hafi þeir lýst því yfir að þar sem ekki væri ágreiningur á milli þeirra og Efra-Hvols væri landamerkjamálið þeim óviðkomandi.  Hafi dómendur þá bókað að þar sem eigendur Vallar með hjáleigum hafi sagt sig frá málinu sé landamerkjamálið framvegis aðeins á milli eigenda Efra-Hvols og Kotvallar.  Hafi umboðsmaður Kotvallar mótmælt þessari framlagningu með þeim orðum að eigendur Vallartorfunnar hafi ekki getað samið við Efra-Hvol um landamerkjalínu og endamark á milli Kotvallar og Efra-Hvols við Rangá og hljóti hann því að halda fast við sömu kröfur um að Kotvöllur eigi land að öllu leyti móti Efra-Hvoli ofan úr heiði og vestur í Rangá.  Ljóst sé af málatilbúnaði eigenda Efra-Hvols að miðað sé við að mörk Vallartorfu og Efra-Hvols liggi saman við ána og með yfirlýsingunni séu Vallarbændur að lýsa merkjum milli Vallar og Efra-Hvols vestanmegin við land Kotvallar en fram komi að merkin liggi við Rangá.  Stefndi dregur í efa að Kotvöllur hafi átt land að þúfunni og telur að merki Kotvallar hafi verið mun lengra frá ánni.  Jafnvel þó litið yrði svo á að landamerkjalína Kotvallar hafi eftir dóminn legið í þúfuna sé ljóst að hún hafi aldrei náð að ánni.  Hafi fyrirsvarsmaður Kotvallar gert kröfu um að miðað yrði við Flóðalækjarkjaft en fyrirsvarsmaður Efra-Hvols hafi krafist þess að miðað yrði við þúfuna vestan við Flóðalækinn.  Stefnda virðist eina skýringin á málatilbúnaði aðila sú að með því að tala um endamark séu Vallarbændur að aðgreina merki sín frá hinu umdeilda svæði þannig að með þúfunni sé fundið landamerki þriggja jarða, Kotvallar, Efra-Hvols og Vallartorfu.  Eigi Vallartorfa land frá þúfunni að ánni en Flóðalækurinn skipti merkjum milli Efra-Hvols og Vallartorfu frá þúfunni að Eystri Rangá.  Segir stefndi þessa skýringu samrýmast málatilbúnaði og bókunum allra aðila og bendir sérstaklega á bókun umráðamanns Kotvallar í landamerkjamálinu 19. september 1922.  Í málinu sé ekki sérstaklega vikið að ágreiningi aðila um hvort merki Kotvallar skuli miðast við þúfuna eða Flóðalækjarkjaft en með því hljóti að vera átt við mynni Flóðalækjar við Rangá.  Sé þó ljóst að í niðurstöðu dómsins sé miðað við þúfuna þannig að kröfur Efra-Hvols og Vallartorfu séu teknar til greina að því er endamarkið varði.

Stefndi byggir á því að landamerkjadómurinn staðfesti að Kotvöllur hafi aldrei átt land að ánni enda geti land Efra-Hvols og Vallar ekki legið saman við ána ef land Kotvallar sé á milli.  Geti stefnandi ekki óskað endurskoðunar á þeim dómi í þessu máli.  Stefndi bendir á að eigandi Kotvallar hafi við landskiptin 1963 enga kröfu gert um að fá land að ánni, heldur hafi landamerkin verið ákveðin marga kílómetra frá henni.  Verði að telja mjög ólíklegt að eigandi Kotvallar hefði sætt sig við að missa land að ánni ef  hann teldi sig eiga það í raun.  Stefndi bendir á að í fasteignamatsbók frá 1916 komi hvergi fram að Kotvöllur eigi veiðirétt í Rangá en í lýsingu Efra-Hvols og Vallar sé það sérstaklega tekið fram.

Stefndi byggir á því að við úrlausn um land Kotvallar að Rangá að fornu eigi að miða við landamerki Kotvallar eins og þau hafi verið ákveðin 1963 í tengslum við landskipti Vallartorfu.  Vilji stefnandi halda því fram að önnur merki hafi áður gilt beri hann sönnunarbyrðina fyrir því.  Verði því krafa um veiðirétt í Eystri Rangá ekki byggð á fyrrum eignarrétti stefnanda á landi sem liggi að ánni og ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda.

Stefndi mótmælir því að við landskiptin 1963 hafi Kotvöllur átt land í óskiptri sameign með Vallartorfu og komi fram í nýrri jarðabók fyrir Ísland sem staðfest hafi verið með tilskipun 1. apríl 1861 að Kotvöllur sé ekki talinn meðal hjáleigna Vallar.  Þá bendir stefndi á að í öllum lýsingum af landamerkjum Kotvallar sem lagðar hafi verið fram séu landamerki Kotvallar gagnvart Vallartorfu afmörkuð a.m.k. að hluta og hvergi minnst á óskipta sameign með Velli.  Mæli þetta á móti því að um óskipta sameign hafi verið að ræða.  Stefndi mótmælir því sérstaklega að ástæða þess að landamerkjum Kotvallar sé ekki lokað til norðvesturs í lögfestum sé sú að landið norðvestan við Kotvöll hafi verið í sameign með jörðum í Vallartorfu.  Stefndi telur lítið gagn í landamerkjum sem ekki loki landamerkjum jarðar.  Hafi umráðamönnum Kotvallar verið í lófa lagið að lýsa merkjunum auk þess að lýsa merkjum hinnar ætluðu sameignar. Sennilegri skýring sé að lögfesturnar hafi fyrst og fremst verið ætlaðar til að styðja baráttu umráðamanna Kotvallar gagnvart Efra-Hvoli, en ágreiningur hafi verið um rétt Kotvallar til beitar í Íraheiði og Efra-Hvolsnesi.  Sé ólíklegt að jörðinni Kotvelli hafi verið skipt út úr Velli að hluta en ekki að öllu leyti eins og stefnandi gefi í skyn.  Sé ljóst að við landskiptin hafi allar jarðirnar í Vallartorfu verið óskiptar og hafi stefnandi engin gögn lagt fram sem styðji að Kotvelli hafi verið skipt út að hluta en ekki öllu fyrir landskiptin.  Þá bendir stefndi á yfirlýsingu Vallartorfubænda í landamerkjamálinu frá 1922 en af henni sé ljóst að sameiginlegt beitarland hafi ekki verið viðurkennt af hálfu Vallartorfu á þeim tíma, hvað þá síðar eins og stefnandi haldi fram.  Þá sé ljóst að dómurinn gangi út frá því að ekki sé um sameign að ræða á beitilandi með því að breyta aðildinni í málinu með þeim hætti sem gert var.

Stefndi telur koma skýrt fram í landskiptagerðinni 1963 að áður en Vallartorfu hafi verið skipt hafi orðið að athuga afstöðu Kotvallar gagnvart henni, enda hafi verið talinn vafi um hana.  Sé algerlega augljóst að mati stefnda að tekin hafi verið af öll tvímæli um ætlaða sameign, enda hafi Vallartorfunni síðar verið skipt eftir að landamerki Kotvallar hafi verið ákveðin, sbr. 9. gr. landskiptalaga nr. 46/1941.  Hafi enginn ágreiningur verið við skiptin og ljóst að úrlausn á grundvelli landamerkjalaga hefði aðeins komið til álita ef svo hefði verið.  Stefndi mótmælir því harðlega að landskiptagerðin hafi falið í sér skiptingu Kotvallar og Vallartorfu eins og stefnandi haldi fram. 

Stefndi byggir einnig á því að veiðilöggjöf standi í vegi fyrir því að veiðiréttur sé skilinn frá landi sem liggi að vatnsfalli og vísar til greinargerðar meðstefndu að því er þetta atriði varðar.

Stefndi mótmælir því harðlega að aðild eigenda Kotvallar frá 1960 í veiðifélagi eða samþykktir þess félags geti skapað veiðirétt honum til handa.  Þá mótmælir stefndi því að samþykkt arðskrár vegna Eystri Rangár geti skapað stefnanda veiðirétt og bendir á að arður hafi aldrei verið greiddur til Kotvallar vegna veiði í Eystri Rangá.  Stefndi vísar til greinargerðar meðstefndu að því er þetta atriði varðar.  Stefndi bendir á að eigendur Kotvallar hafi ekki verið aðilar að veiðifélagi frá upphafi og sýni þetta að jörðin hafi á fyrri tímum ekki átt veiðirétt í Eystri Rangá.

Stefndi mótmælir því að aðild að veiðifélagi feli í sér viðurkenningu á veiðirétti og fær ekki séð að viðurkenningarkrafa um veiðirétt er byggi á fundarsetu og þátttöku í störfum veiðifélags eigi að beinast að stefndu einum af félagsmönnum í veiðifélaginu.  Ætti slík krafa að beinast að öllum félagsmönnum jafnt og væri þá um samaðild að ræða sem hefði í för með sér frávísun án kröfu.  Stefndi bendir á að fjöldi annarra aðila sem ekki hafi átt land að ánni eða veiðirétt virðist hafa tekið þátt í störfum félagsins og felist því engin viðurkenning á veiðirétti í athugasemdalausum störfum fulltrúa Kotvallar í veiðifélaginu.

Stefndi byggir á því að hvorki aðild að veiðifélagi né samþykkt arðskrár eða aðrar samþykktir geti skapað stefnanda veiðirétt þar sem slíkur réttur sé andstæður veiðilöggjöf fyrr og nú.  Sú regla hafi gilt frá örófi alda að veiðiréttur verði ekki skilinn frá landi og eigi eigandi vatnsfalls einn veiði fyrir landi sínu.  Stefndi vísar til greinargerðar meðstefndu að því er þetta sjónarmið varðar.

Stefndi mótmælir því að eigendur Kotvallar hafi unnið eignar- eða afnotarétt á veiðiréttindum fyrir hefð.  Stefndi mótmælir því að um eignarhefð á fasteign geti verið að ræða, sbr. 1.-3. gr. hefðarlaga eða afnotahefð, sbr. 7. gr. laganna.  Telja verði að veiðiréttindi hljóti að teljast til ósýnilegra ítaka, sbr. 8. gr. laganna.  Í stefnu sé byggt á því að eigendur Kotvallar hafi á hverjum tíma hefðað veiðirétt fyrir því landi sem áður hafi verið í óskiptri sameign.  Þar sem ekkert land hafi verið í óskiptri sameign Kotvallar og Vallartorfu beri þegar af þeirri ástæðu að hafna þessari málsástæðu stefnanda.  Enda þótt Hermann Sveinsson, fyrrum ábúandi á Kotvelli, hafi í einhverjum tilvikum veitt á stöng í Eystri Rangá með leyfi eigenda Vallartorfu geti slíkt tómstundagaman ekki talist nýting í skilningi hefðarlaga.  Stefndi vísar til greinargerðar meðstefndu að því er þessa málsástæðu varðar.

Stefndi vísar til landskiptalaga nr. 46/1941 og landamerkjalaga nr. 41/1919.  Þá er vísað til 116. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða Grágásar og Jónsbókar um veiðirétt, vatnalaga nr. 15/1923, lax- og silungsveiðilaga nr. 61/1932, 112/1941, 53/1957 auk síðari löggjafar á þessu sviði.  Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.               

Niðurstaða.

Málsaðila greinir á um það hvort stefnandi eigi sem eigandi jarðarinnar Kotvallar í Rangárþingi eystra, veiðirétt í Eystri Rangá og Fiská.  Aðila greinir á um það hvort jörðin Kotvöllur hafi verið byggð úr jörðinni Velli og því átt land að Eystri Rangá.  Stefnandi vísar til lögfestna frá 1731, 1753 og 1776, landamerkjadóms frá 1922 og landskiptagerðar frá 1963 og segir að eftir þau landskipti hafi Kotvöllur hvorki átt land að Eystri Rangá né Fiská.  Þá byggir stefnandi á því að með aðild eigenda Kotvallar að Veiðifélagi Rangæinga frá stofnun þess 1960 hafi verið litið svo á að þeir ættu veiðirétt í Eystri Rangá.  Stefndu halda því hins vegar fram að veiðifélagið hafi verið stofnað allnokkru fyrr og þá án aðildar eigenda Kotvallar.  Stefnandi byggir á því að stefndu séu bundin við arðskrá sem samþykkt hafi verið á aðalfundi Veiðifélags Eystri Rangár 25. mars 1999 og birt í Stjórnartíðindum 26. apríl sama ár.  Stefndu mótmæla þessari málsástæðu og telja raunar að sú arðskrá sem birt hafi verið í Stjórnartíðindum hafi ekki verið í samræmi við þá arðskrá sem borin hafi verið upp til samþykktar á aðfundi veiðifélagsins 25. mars 1999 og hafi Kotvelli með einhverjum hætti verið splæst aftan við Vallartorfuna.  Þá er á því byggt að verði ekki á þessar málsástæður fallist leiði sjónarmið um hefð til þess að ábúendur Kotvallar hafi hefðað veiðirétt fyrir því landi Vallartorfu sem áður hafi verið í óskiptri sameign.

 Stefndu, önnur en dánarbúið, byggja sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, þar sem stefnandi hafi aldrei átt land að bökkum Rangár, en það hafi frá örófi verið grundvallarskilyrði veiðiréttar.  Stefnandi byggir á því að það land sem skipt hafi verið 1963 hafi að stærstum hluta verið í óskiptri sameign Kotvallar og Vallartorfu.  Hafi veiðihlunnindum ekki verið skipt, enda ekki heimilt nema í undantekningartilfellum, sbr. 3. gr. landskiptalaga nr. 46/1941.  Stefnandi byggir á því að samkvæmt lögfestum fyrir Kotvöll og dómi landamerkjadóms Rangárvallasýslu frá 1922 hafi jörðin átt land að ánni.

Í lögfestunum frá 1731 og 1753 segir að suðvesturmörk Kotvallar séu frá Svarthóli og svo sjónhending rétta undan þessum takmörkunum út í Rangá.  Þá kemur einnig fram í lögfestunum að jörðinni fylgi vötn og veiðiréttur.  Í lögfestunni frá 1776 er lýsingin samhljóða hinum tveimur að því undanskildu að merkjum er ekki lýst út í Rangá.  Lögfestan frá 1731 var lesin upp við Breiðabólstaðarkirkju 1731 að söfnuðinum áheyrandi en hinar voru lesnar upp á manntalsþingi Stórólfshvols að þingsöfnuði áheyrandi.  Við mat á því hvaða gildi lögfestur hafa þegar skera skal úr ágreiningi um eignarrétt að landi ber að hafa í huga að lögfesta hefur verið skilgreind þannig að um sé að ræða skriflegt bann eiganda eða ábúanda fasteignar gegn því að aðrir noti landið innan ákveðinna ummerkja.  Er um að ræða einhliða lýsingu á merkjum og hafa lögfestur einar sér ekki verið taldar fullnægjandi gögn fyrir beinum eignarrétti í dómsmálum hér á landi.

Í dómi landamerkjadóms Rangárvallasýslu frá 20. september 1922 var leyst úr ágreiningi um landamerki milli eigenda Efra-Hvols og Kotvallar.  Umboðsmaður Kotvallar gerði upphaflega þær kröfur að landamerkin yrðu ákveðin eins og í lögfestunum greinir út í Rangá.  Undir rekstri málsins mun hann hafa lýst því yfir að hann gengist inn á að merkin yrðu ákveðin úr Grásteini í Leynigróf beina stefnu í Flóðalækjarkjaft.  Fram kemur í dóminum að umboðsmaður Kotvallar hafi lagt fram í málinu 4 lögfestur kröfum sínum til stuðnings.  Dómurinn féllst ekki á að umboðsmaður Kotvallar hefði með lögfestunum sannað landamerki Kotvallar gagnvart Efra-Hvoli.  Þá var heldur ekki álitið að færðar hafi verið sönnur á landamerkin með vottorðum þeim sem lögð hefðu verið fram.  Tekur dómurinn fram að verði landamerkin úr Leynigróf ákveðin sjónhending rétta út í Rangá eins og lögfesturnar geri ráð fyrir teljist stór spilda úr Efra-Hvolsnesi sem viðurkennd hafi verið réttmæt eign þeirrar jarðar, eign Kotvallar.  Taldi dómurinn því ekki unnt að taka kröfur umráðamanns Kotvallar að því leyti til greina.  Voru landamerkin því ákveðin úr Mið-Grjóthól á Íraheiði beina stefnu í vörðu sem dómendur höfðu sett upp á háa þúfu spölkörn fyrir vestan sauðahúsin á Kotvelli og þaðan beina stefnu í þúfu fyrir vestan Flóðalækinn út við Rangá.

Við upphaf landskiptanna 15. júlí 1963, þar sem meðal annars fulltrúar Kotvallar voru viðstaddir, kom í ljós að nokkur vafi lék á um landamerki Kotvallar og afstöðu þeirrar jarðar gagnvart Vallartorfu og í samræmi við ákvæði 9. gr. laga nr. 46/1941leituðu úttektarmenn samkomulags um landamerkin.  Að loknum umræðum náðist samkomulag um landamerkin og verður ekki annað ráðið af því samkomulagi en að miðað hafi verið við þau landamerki sem mörkuð voru með landamerkjadóminum frá 1922.  Að því búnu var frekari skiptum frestað um óákveðinn tíma og þeim síðan fram haldið 7. september 1963 að frátöldum umboðsmönnum Kotvallar.  Dómurinn telur ljóst af því sem hér hefur verið rakið að jörðin Kotvöllur hafi hvorki átt land að Eystri Rangá né Fiská.  Þá telur dómurinn að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að Kotvöllur hafi átt land í óskiptri sameign með Vallartorfu.  Samkvæmt áður- og núgildandi lax- og silungsveiðilögum verður veiðiréttur ekki skilinn frá jörð og þá er það rótgróin regla íslensks réttar að landeigandi eigi einn rétt til veiða á landi sínu og vötnum.  Verður málsástæðum stefnanda sem byggja á því  að hann hafi átt land að Eystri Rangá allt til ársins 1963 því hafnað.  Með sömu rökum og hér að framan eru rakin verður ekki talið að aðild að veiðifélagi veiti stefnanda veiðirétt eins og hann hefur krafist.  Hvað sem líður gildi umræddrar arðskrár verður ekki talið að samþykki og birting hennar veiti stefnanda veiðirétt en hugsanlegt er að stefnandi eigi rétt á arðgreiðslum af veiðinni án þess að til veiðiréttar hafi stofnast.  Í máli þessu er einungis krafist viðurkenningar á veiðirétti og verður því ekki frekar fjallað  um hugsanlegan rétt stefnanda að þessu leyti.

Stefnandi byggir einnig á því að eigendur Kotvallar hafi á hverjum tíma hefðað veiðirétt fyrir því landi sem áður hafi verið í óskiptri sameign.  Þar sem í þessum dómi hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ekkert land hafi verið í óskiptri sameign Kotvallar og Vallartorfu verður að hafna þessari málsástæðu stefnanda.  Þá ber til þess að líta að þrátt fyrir að í máli þessu hafi verið sýnt fram á að eigendur og ábúendur hafi veitt í ánni hafi á síðustu öld komið löng tímabil þar sem enginn frá Kotvelli veiddi þar, m.a. vegna útleigu árinnar, Heklugoss og fiskræktunar.  Samkvæmt framansögðu er því ósannað að veiðiréttur hafi stofnast til handa stefnanda fyrir hefð.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila og milli stefnanda og réttargæslustefnda falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Lúðvík Gizurarson, db. Bergsteins Gizurarsonar, Jón Benediktsson,  Svala Jónsdóttir, Jónshús ehf., Félagsvöllur ehf., og Ingvar Þorsteinsson, skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Skógræktarfélags Rangæinga, í máli þessu.

Málskostnaður milli aðila og milli stefnanda og réttargæslustefnda Veiðifélags Eystri Rangár fellur niður.