Hæstiréttur íslands
Mál nr. 384/2012
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2013. |
|
Nr. 384/2012.
|
Margrét Gunnarsdóttir (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra (Einar Baldvin Axelsson hrl.) |
Vinnusamningur. Uppsögn.
M höfðaði mál gegn hjúkrunarheimilinu H til heimtu skaðabóta vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar hennar úr starfi sjúkraliða. Reisti M kröfu sína á því að H hefði við uppsögnina ekki gætt fyrirmæla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Vísað var til þess að lög nr. 70/1996 tækju ekki til starfsmanna H samkvæmt efni sínu, þar sem H væri ekki ríkisstofnun. Þá var ekki talið að M hefði tekist sönnun um að engu að síður hefði réttarstaða hennar í starfi hjá H verið sú hin sama og ríkisstarfsmanna, hvorki á grundvelli samnings milli sjúkraliðafélags Íslands og H, sem var útrunninn, né á grundvelli ráðningarsamnings M við H, þar sem ekki var á þeirri málsástæðu byggt í héraði. Þá var ekki talið sýnt að H hefði brotið gegn M með ólögmætum og saknæmum hætti í aðdraganda uppsagnar hennar. Var H því sýknað af skaðabótakröfu M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2012. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.066.418 krónur með 5,5% ársvöxtum frá 1. júní 2010 til 1. ágúst sama ár, með 5,2% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október sama ár, með 4,5% ársvöxtum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, með 3,85% ársvöxtum frá þeim degi til 1. janúar 2011, með 3,7% ársvöxtum frá þeim degi til 20. september sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda og þess að málskostnaður falli niður.
Áfrýjandi er sjúkraliði og hefur lokið framhaldsnámi í öldrunarhjúkrun. Hún var ráðin til starfa hjá stefnda með ráðningarsamningi 14. júlí 1998. Starfaði hún þar uns henni var sagt upp í febrúarmánuði 2010. Í uppsagnarbréfi sem ranglega er dagsett 25. mars 2010, en óumdeilt er að afhent hafi verið áfrýjanda mánuði fyrr, voru skipulagsbreytingar tilgreindar sem ástæða uppsagnar. Þar var og tekið fram að uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir, hún fengi greitt til 30. maí 2010 og að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hennar á uppsagnarfresti.
Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að um réttindi sín og skyldur skyldi farið eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Við uppsögnina hafi stefndi ekki gætt ákvæða 43. gr. og 44. gr., sbr. 21. gr., laganna eins og skylt hefði verið. Uppsögnin hafi því verið ólögmæt og eigi hún af þeim sökum rétt til skaðabóta.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 70/1996 taka lögin til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, enda verði starf hans talið aðalstarf. Stefndi er í eigu Sjómannadagsráðs og er ekki ríkisstofnun. Lögin taka því ekki til starfsmanna hans samkvæmt efni sínu. Kröfu áfrýjanda um að þau taki engu að síður til sjúkraliða sem starfa hjá hjá stefnda og þar með sín reisti hún í héraði á þremur málsástæðum. Í fyrsta lagi á því að um það hafi verið samið með samningi milli Sjúkraliðafélags Íslands og stefnda 8. janúar 1993. Í annan stað verði þetta ráðið af yfirlýsingu BHM og BSRB annars vegar og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu hins vegar frá 30. júní 2005 um skipun vinnuhóps til að „skila drögum að niðurstöðu um réttindamál fyrir lok janúar 2006“, en niðurstaða þess starfshóps liggi enn ekki fyrir og í þriðja lagi á því að það hafi verið föst venja að sjúkraliðar sem starfa hjá fyrirtækjum sem eiga aðild að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu njóti sambærilegrar réttarverndar og ríkisstarfsmenn gegn uppsögnum.
Samningur sá frá 8. janúar 1993 sem áfrýjandi reisir kröfu sína í fyrsta lagi á er í átta greinum. Í honum er kveðið á um nánar tiltekin atriði varðandi kjör og réttarstöðu sjúkraliða hjá stefnda, en samningurinn getur þó ekki talist kjarasamningur. Í 5. gr. hans segir: „Um réttindi og skyldur starfsmanna skal farið eftir ákvæðum laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með síðari breytingum.“ Í 7. gr. segir að um gildistíma og uppsögn samningsins skuli farið eftir ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Loks segir í 8. gr.: „Gildistími þessa samnings er frá 1. október 1992 til 28. febrúar 1993 og fellur þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar.“
Enda þótt samningnum hafi þannig með 8. gr. hans fyrirfram verið markaður gildistími telur áfrýjandi að það leiði af 7. gr. samningsins að eftir honum skuli farið uns nýtt samkomulag hafi verið gert. Vísar hann í þeim efnum annars vegar til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1986 og hins vegar til þess að á íslenskum vinnumarkaði hafi í framkvæmd gilt sú regla að eftir kjarasamningi sé farið enda þótt fyrirfram umsaminn gildistími sé liðinn þar til nýr kjarasamningur hafi verið gerður eða verkfall hafist. Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1986 segir að renni kjarasamningur út vegna uppsagnar skuli þó eftir honum farið uns nýr kjarasamningur hafi verið gerður. Gildi umrædds samnings fram yfir umsaminn gildistíma hans verður ekki leitt af þessu ákvæði enda er hvorki um kjarasamning að ræða, en ákvæðið varðar aðeins framlengingu á gildistíma slíkra samninga, né á það efnisatriði ákvæðisins við að samningurinn hafi runnið út vegna uppsagnar. Þá verður gildi samningsins umfram umsaminn gildistíma hans ekki heldur leitt af ætlaðri venju um gildistíma kjarasamninga í slíkum tilvikum þegar af þeirri ástæðu að ekki er um kjarasamning að ræða og ágreiningslaust er í málinu að í kjarasamningum Sjúkraliðafélags Íslands og stefnda sem síðar hafa verið gerðir sé ekki að finna slíkt ákvæði.
Áfrýjandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að það leiði af venju að starfsmenn fyrirtækja sem aðild eiga að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu njóti við uppsögn réttarstöðu ríkisstarfsmanna. Honum hefur ekki tekist slík sönnun.
Auk framangreindra þriggja málsástæðna reisir áfrýjandi kröfu sína fyrir Hæstarétti á þeirri málsástæðu að í ráðningarsamningnum 14. júlí 1998 sé kveðið á um að um réttindi og skyldur hennar skuli fara eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með nánar tilteknum hætti. Þar sem áfrýjandi hafði þessa málsástæðu ekki uppi í héraði verður ekki á henni byggt við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að öllu þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Margrét Gunnarsdóttir, greiði stefnda, Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 8. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Margréti Gunnarsdóttur, Lautasmára 24, Kópavogi á hendur Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra, Laugarási, Reykjavík, með stefnu birtri 7. september 2011.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda 2.066.418 krónur ásamt 5,5% ársvöxtum frá 1. júní 2010 til 1. ágúst 2010, en 5,2% ársvöxtum frá þ.d. til 1. október 2010, en 4,5% ársvöxtum frá þ.d. til 1. nóvember 2010, en 3,85% ársvöxtum frá þ.d. til 1. janúar 2011, en 3,7% ársvöxtum frá þ.d. til 1. febrúar 2011, en 3,67% ársvöxtum frá þ.d. til 1. mars 2011, en 3,5% ársvöxtum frá þ.d. til þingfestingardags, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að mati dómsins en til vara að bætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Málavextir stefnanda
Stefndi rekur dvalarheimili fyrir aldraða. Stefnandi er sjúkraliði að mennt. Til viðbótar sjúkraliðanámi hefur stefnandi lokið framhaldsnámi í öldrunarhjúkrun, sem er 3 anna nám. Stefnandi er félagsmaður í SLFÍ. Stefnandi starfaði sem sjúkraliði hjá stefnda frá júlí 1998 þar til henni var sagt upp í febrúarmánuði 2010. Uppsagnarbréfið er dagsett 25. mars 2010, sem er misritun en rétt dagsetning er 25. febrúar 2010, þannig að uppsagnarfrestur var til 31. maí 2010. Samkvæmt uppsagnarbréfinu eru skipulagsbreytingar taldar ástæða uppsagnarinnar. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á uppsagnarfrestinum en hún fékk laun fyrir þann tíma.
Hinn 15. mars 2010 var uppsögn stefnanda mótmælt, samanber bréf lögmanns hennar og þess krafist að hún yrði dregin til baka. Ef ekki yrði fallist á kröfu stefnanda færi málið fyrir dómstóla.
Hinn 26. mars 2010 hafnaði stefndi kröfunni og gerði nánar grein fyrir þeim skipulagsbreytingum sem átt höfðu sér stað hjá stefnda.
Málið var síðan höfðað með birtingu stefnu í september 2011.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt og hún eigi rétt til skaðabóta, samkvæmt almennu skaðabótareglunni og dómvenju um greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar starfsuppsagnar.
Stefnandi heldur því fram, að í gildi hafi verið samkomulag frá 8. janúar 1993 þess efnis að um réttindi og skyldur starfsmanna skyldi farið eftir ákvæðum laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með síðari breytingum. Lögin hafi verið felld úr gildi með lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og taki tilvísunin í fyrrnefndu samkomulagi því til núgildandi laga.
Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 hafi forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir sé mælt í ráðningarsamningi. Þessi heimild takmarkist af 1. mgr. 44. sömu laga, en þar segi að skylt sé að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum sé sagt upp störfum ef uppsögn eigi rætur að rekja til ástæðna sem þar séu greindar. Þessar reglur beri að skýra þannig að starfsmanni verði ekki sagt upp án málefnalegra ástæðna. Ef ástæðurnar séu ávirðingar í garð starfsmanns, sem 21. gr. laganna taki til, þá verði viðkomandi ekki sagt löglega upp án skriflegrar áminningar, þar sem starfsmanni sé gefið raunverulegt tækifæri til að bæta ráð sitt.
Stefnandi telur að raunveruleg uppsagnarástæða hennar hafi verið ávirðingar sem komu fram í samtali hjúkrunarforstjóra stefnda og hjúkrunarforstjóra Grundar. Stefnandi áréttar að hún telji ávirðingarnar ekki eiga sér nokkra stoð í raunveruleikanum en jafnvel þótt svo hefði verið, þá hefði borið að veita stefnanda skriflega áminningu og gefa henni þannig tækifæri til að bæta ráð sitt. Stefnandi vísar því á bug að uppsögn hennar verði réttlætt með tilvísun til skipulagsbreytinga.
Að síðustu byggir stefnandi kröfur sínar sérstaklega á því að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti komið í veg fyrir að hún kæmist í sambærilegt starf hjá Grund, með því að gefa hjúkrunarforstjóranum þar rangar og meiðandi upplýsingar um stefnanda sem starfsmann, nánar tiltekið að hún hafi fengið munnlega áminningu og athugasemdir vegna slælegrar mætingar. Enginn fótur hafi verið fyrir ummælunum og þau hafi verið óréttmæt eins og á stóð. Samtalið hafi orðið til þess að hjúkrunarforstjóri Grundar hætti við að bjóða stefnanda starf sem hún ella hefði fengið. Fjártjón og miski stefnanda verði einnig rakinn til þessa.
Stefnandi krefst bóta vegna fjártjóns og miska. Vísast til almennu skaðabótareglunnar og fordæma Hæstaréttar í málum vegna ólögmætra uppsagna ríkisstarfsmanna. Tjón stefnanda skuli bætt að fullu. Bótakrafa stefnanda sundurliðist þannig:
Bætur vegna fjártjóns kr. 1.766.418,-
Miskabætur kr. 300.000,-
Krafa samtals kr. 2.066.418,-
Fjárhæð bóta vegna fjártjóns sé að hluta til staðreynt í fjárhæðum talið, samanber framlögð gögn og að hluta til að álitum. Í stefnu er gerð grein fyrir forsendum kröfugerðarinnar.
Miskabótakrafa stefnanda sé gerð með stoð í 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi telur skilyrði ákvæðisins til greiðslu miskabóta vera uppfyllt. Með því að velja stefnanda úr stórum hópi starfsmanna til að segja upp hafi verið vegið að æru stefnanda, starfsheiðri og persónu. Framangreind ummæli hjúkrunarforstjóra stefnda um stefnanda sem starfsmann hafi einnig verið sérlega meiðandi og ómakleg. Atvikin, sem mál þetta sé höfðað út af, höfðu þau áhrif á stefnanda að hún hafi fundið og finni enn fyrir þunglyndiseinkennum og glími við svefnvandamál.
Verði ekki fallist á bótakröfu stefnanda að öllu leyti felst í henni varakrafa um bætur lægri fjárhæða að álitum samkvæmt mati réttarins.
Stefnandi krefst skaðabótavaxta með vísan til ákvæða 8. gr., sbr. 1. málsgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er uppsögnin hafi komið til framkvæmda til þingfestingardags, en dráttarvaxta frá þingfestingardegi með vísan til ákvæða III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að uppsögn stefnanda úr starfi hinn 25. febrúar 2010 hafi verið lögmæt.
Í fyrsta lagi sé á því byggt að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 („starfsmannalögin“) gildi ekki um stefnanda. Nefnd lög gildi samkvæmt efni sínu eingöngu um réttindi og skyldur þeirra sem starfa í þjónustu ríkisins, sbr. 1. gr. laganna. Þar sem stefndi sé ekki opinber aðili, eða „ríkið“, í þeim skilningi, gildi lögin ekki um starfsmenn stefnda.
Því sé hafnað sem lýst sé í stefnu að starfsmannalögin gildi á grundvelli samkomulags frá 1993 eða að það hafi verið „föst venja“ að lögin giltu um starfsmenn innan samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu þar sem slíkt væri skilningur Sjúkraliðafélags Íslands.
Bendir stefndi á að samkomulagið sé úr gildi fallið, sbr. 8. gr. þess, og breyti yfirlýsingin frá 30. júní 2005 því ekki, enda sé hún gerð eftir að umrætt samkomulag hafi fallið úr gildi.
Um uppsögn stefnanda hafi því gilt almennar reglur vinnuréttar, þar á meðal um heimild til uppsagnar af hverri þeirri ástæðu sem vinnuveitandi kjósi og án þess að hann þurfi að gera nánari grein fyrir því, svo framarlega sem uppsagnarfrestur sé virtur. Fyrir liggi að svo hafi verið gert í tilviki stefnanda og uppsögn þar af leiðandi fyllilega lögmæt. Skipti engu í því sambandi hvort vinnuveitandi kjósi að geta um ástæðu uppsagnar í uppsagnarbréfi eða ekki, heldur sé honum frjálst að gera slíkt af tilliti til starfsmanns sem sagt sé upp.
Í öðru lagi er byggt á því að jafnvel þó litið verði svo á að starfsmannalögin gildi um stefnanda þá hafi uppsögn hennar úr starfi hjá stefnda verið fyllilega lögmæt og samræmst ákvæðum laganna.
Uppsagnir starfsmanna sem eigi undir starfsmannalögin séu vissulega heimilar þó lögin setji þeim ákveðnar skorður sem einkum felist í aðferð við uppsögn. Forstöðumanni stofnunar sé þannig heimilt að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem ráðningarsamningur aðila segi til um og felist það einkum í því að gæta þurfi ákvæða um uppsagnarfrest, sbr. 43. gr. Þá segi í 44. gr. að skylt sé að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum sé sagt upp ef uppsögnin eigi rætur að rekja til ástæðna sem þar séu greindar. Annars sé ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún taki gildi, þar á meðal ef uppsögn stafi af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar.
Af þessu sé ljóst að heimilt sé að segja starfsmanni upp störfum án undanfarandi áminningar eða andmælaréttar ef ástæða uppsagnar sé málefnaleg og lögmæt. Meðal þess sem falli þar undir sé sú ástæða að fækka þurfi starfsmönnum af rekstrarlegum ástæðum, svo sem vegna breyttra aðstæðna, sbr. lokamálslið 1. mgr. 44. gr. starfsmannalaganna.
Eins og rakið hafi verið að framan, og komið hafi fram í uppsagnarbréfi stefnanda, hafi uppsögn hennar eingöngu verið vegna skipulagsbreytinga sem hafi leitt til fækkunar starfsmanna. Ástæða uppsagnarinnar hafi því verið málefnaleg og þar með lögmæt.
Því sé því enn og aftur mótmælt sem skilja megi af málatilbúnaði í stefnu að einhverjar aðrar ástæður hafi verið að baki uppsögninni, ástæður sem beindust að persónu stefnanda, enda sé það ekki stutt neinum gögnum og því ósannað með öllu. Sönnunarbyrðin um slíkt liggi alfarið hjá stefnanda.
Þá sé því sérstaklega mótmælt að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti komið í veg fyrir að stefnandi kæmist í sambærilegt starf á Grund. Ekkert ólögmætt eða saknæmt felist í því að veita þeim sem e.t.v. hafi í hyggju að bjóða fyrrum starfsmanni stefnda starf upplýsingar um fyrri störf starfsmannsins, ef eftir því sé leitað. Áréttað skuli að þær upplýsingar hafi verið gefnar í trúnaði. Að auki bendir stefndi á að ummæli um stefnanda í áðurnefndum samskiptum stefnda og starfsmanns Grundar komi uppsögn stefnanda úr starfi á engan hátt við enda hafi þau samskipti átt sér stað löngu síðar. Þá skipti umsögn deildarstjóra stefnda, dags. 19. mars 2010, sem rituð hafi verið eftir að stefnanda hafi verið sagt upp störfum, að sama skapi engu máli í þessu samhengi.
Af öllu framangreindu virtu telur stefndi að uppsögn stefnanda úr starfi hafi verið lögmæt og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda. Stefndi bendir á að hér gildi sú meginregla að sá sem krefjist bóta hafi sönnunarbyrði fyrir því að hafa orðið fyrir tjóni, sem og að sýna fram á umfang þess. Þá skuli bent á að meginregla sé að einungis sannanlegt fjártjón skuli bætt.
Ekkert liggi fyrir í málinu um að stefnandi hafi orðið fyrir öllu því tjóni sem hún krefjist bóta fyrir. Ekkert liggi fyrir um að stefnandi hefði haldið starfi sínu hjá stefnda óbreyttu og með sömu launum og hún hafði og sé því ósannað að hún hafi orðið fyrir tjóni sem nemi mismuni á tekjum sem hún hafði og þeim sem hún hefði getað haft í óbreyttri vinnu hjá stefnda. Þá telur stefndi ekki unnt að meta framtíðartekjutap að álitum, enda sé það á engan hátt fyrirsjáanlegt.
Þá sé miskabótakröfu stefnanda alfarið hafnað, enda með öllu ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir nokkrum miska í tengslum við uppsögnina. Beri stefnandi hér alla sönnunarbyrðina fyrir því að hún hafi orðið fyrir því tjóni sem hún lýsi í stefnu og telji hafa valdið sér miska. Sé það hreinlega rangt að stefndi hafi vegið að æru, starfsheiðri og persónu stefnanda, enda ljóst að uppsögn hennar hafi eingöngu átt rætur að rekja til skipulagsbreytinga. Að auki liggi engin gögn fyrir í málinu um þær meintu afleiðingar sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir vegna uppsagnarinnar eða að þær sé að rekja til hennar. Meintar afleiðingar séu þannig með öllu ósannaðar.
Kröfu um dráttarvexti sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, til vara frá því áður en sundurliðuð endanleg kröfugerð í málinu var sett fram.
Niðurstaða
Stefnandi málsins heldur því fram að um uppsögn hennar hjá stefnda gildi lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Stefnandi byggir á því að í gildi hafi verið samningur milli stefnda og Sjúkraliðafélags Íslands frá 8. janúar 1993. Í 5. gr. samningsins segir að um réttindi og skyldur starfsmanna stefnda skuli fara eftir ákvæðum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með síðari breytingum (nú lög nr. 70/1996). Í 7. gr. er kveðið á um að um gildistíma og uppsögn samningsins skuli fara eftir ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamning opinberra starfsmanna. Í 8. gr. samnings er síðan tilgreint að gildistími samnings sé frá 1. október 1992 til 28. febrúar 1993 og falli hann þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Varðandi 7. gr. samningsins vísar stefnandi til 12. gr. laga nr. 94/1986 þar sem kveðið er á um að ef kjarasamningur renni út vegna uppsagnar skuli þó fara eftir honum uns nýr kjarasamningur hefur verið gerður. Nýr kjarasamningur hafi ekki verið gerður og vísar stefnandi í því sambandi til yfirlýsingar Samtaka fyrirtækja í heildbrigðisþjónustu, SFH, annars vegar, og BHM og BSRB, hins vegar, dags. 30. júní 2005, um skipan vinnuhóps til að „skila drögum að niðurstöðu um réttindamál fyrir lok janúar 2006“. Niðurstaða um það efni liggi enn ekki fyrir og telur stefnandi því að fara beri eftir samkomulaginu frá 1993. Þá telur stefnandi að venja standi til þess að sjúkraliðar, sem starfa hjá fyrirtækjum sem eru aðilar að SFH, njóti sambærilegrar réttarverndar gegn uppsögnum og ríkisstarfsmenn. Þessum rökum hafnar stefndi og heldur því fram að um uppsögn stefnanda fari að almennum reglum vinnuréttar, þar á meðal um heimild til uppsagnar af hverri þeirri ástæðu sem vinnuveitandi kjósi, án þess að hann þurfi að gera nánari grein fyrir því, svo framarlega sem uppsagnarfrestur sé virtur.
Samningur sá er stefnandi byggir á er frá 8. janúar 1993 eða tæpra tuttugu ára gamall. Ekki liggur fyrir í málinu hver hafi verið ástæða þess að samningur þessi var gerður eða neitt um tilurð hans, en ætla má af efni hans að samningurinn sé hluti af kjaradeilu frá þeim tíma. Þá kannast fyrirsvarmenn stefndu ekki við samning þennan eða að hann sé nú í gildi milli stefnda og Sjúkraliðafélags Íslands. Ósannað er að samningurinn hafi gildi vegna venju. Í samningnum er skýrlega tekið fram í 8. gr. hans, að hann gildi einungis til 28. febrúar 1993 og falli þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Tilvísun til 7. gr. samningsins, um að fara skuli eftir ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamning opinberra starfsmanna varðandi gildistíma og uppsögn samningsins, hefur ekki þýðingu hér, en lögin gilda um kjarasamninga en ekki hefur verið sýnt fram á að nefndur samningur frá 8. janúar 1993 falli þar undir.
Tilvísun stefnanda til yfirlýsingar frá 30. júní 2005 er haldlaus. Sú yfirlýsing er gerð tólf árum eftir samningsgerðina en engin merki eru um tengingu á milli þessara skjala samkvæmt orðalagi þeirra.
Samkvæmt 1. gr. stafsmannalaga nr. 70/1996 taka lögin til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar. Stefnandi var ekki í þjónustu ríkisins, en stefndi, Hrafnista dvalarheimili aldaðra, er rekið af Sjómannadagsráði. Því eiga starfsmannalögin ekki við hér.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi ekki um uppsögn stefnanda og geti hún ekki byggt rétt sinn á þeim lögum. Stefnanda var sagt upp störfum 25. febrúar 2010 og fékk greidd laun út uppsagnarfrestinn. Á stefnandi því ekki rétt til frekari launa úr hendi stefnda.
Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti komið í veg fyrir að hún kæmist í sambærilegt starf hjá Grund, með því að gefa hjúkrunarstjóranum á Grund rangar og meiðandi upplýsingar um stefnanda sem starfsmann, þ.e. að hún hefði fengið munnlega áminningu og athugasemdir vegna slælegrar mætingar. Stefnandi telur að enginn fótur hafi verið fyrir ummælunum og þau hafi verið óréttmæt eins og á stóð. Þetta samtal hafi orðið til þess að hjúkrunarforstjórinn hætti við að bjóða stefnanda starf, sem hún hefði ella fengið. Þessu hafnar stefndi og telur að ekkert ólögmætt né saknæmt felist í því að veita þeim sem e.t.v. hefur í hyggju að bjóða fyrrum starfsmanni stefnda starf upplýsingar um fyrri störf starfsmannsins, ef eftir því væri leitað. Þá hafi upplýsingarnar verið gefnar í trúnaði.
Ágreiningslaust er að stefnandi sótti um vinnu á Grund og hitti þar Sigrúnu Faulk hjúkrunarforstjóra. Stefnandi taldi fyrir dómi að búið hefði verð að ákveða að hún ætti að hefja störf á Grund tiltekinn dag, en Sigrún minnist þess ekki. Sigrún kveðst hafa aflað upplýsinga um stefnanda og haft samband við Ölmu Birgisdóttur, hjúkrunarforstjóra hjá stefnda, og í kjölfar þess hringt til stefnanda og sagt að ekki yrði af því að hún fengi starf hjá stefnanda. Í framburði Ölmu fyrir dómi kom fram að Sigrún hafi hringt til hennar og spurt hvort það væri rétt að Margréti hefði verið sagt upp vegna skipulagsbreytinga og Alma kvað svo vera. Hún kvaðst sammála efni meðmælabréfs þess er stefnandi fékk hjá fyrrverandi deildarstjóra sínum. Þá hafi hún verið spurð um mætingar Margrétar og hún svarað því til að Margrét hafi verið töluvert frá vinnu vegna veikinda. Hún taldi sig vera að tala í trúnaði við Sigrúnu og jafnframt lét hún þess getið að ef starfsmenn fengju ekki 100% meðmæli væri það oft ráðið til reynslu og síðan séð hvernig það reyndist. Hún taldi að fyrir hana skipti það máli ef hún fengi upplýsingar um fjarveru starfsmanna vegna veikinda, en hún myndi gefa starfsmanni kost á að reyna sig til reynslu.
Eins og mál þetta liggur fyrir verður ekki fallist á að starfsmaður stefnda, Alma Birgisdóttir, hafi á saknæman og ólögmætan hátt gefið upplýsingar um stefnanda sem leitt hafi til þess að stefnandi fékk ekki starf á Grund. Alma kveðst einungis hafi upplýst að stefnandi hafi verið tölvuvert frá vinnu vegna veikinda. Stefnandi hefur ekki hrakið það. Ósönnuð eru þau atriði sem stefnandi heldur fram að farið hafi á milli Ölmu og Sigrúnar, þ.e. að stefnandi „hefði fengið munnlega áminningu og athugasemdir vegna slælegrar mætingar“. Það að hjúkrunarforstjóri Grundar hafi kosið á grundvelli nefndra upplýsinga að ráða annan starfsmann en stefnanda er ekki á ábyrgð stefnda. Því ber að sýkna stefnda.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða málsins að stefndi er sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Hrafnista dvalarheimili aldraðra, er sýknað af kröfu stefnanda, Margrétar Gunnarsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.