Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Fullnusta refsingar
- Skilorðsrof
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2017 þar sem varnaraðila var gert að afplána 190 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2015, en honum var veitt reynslulausn með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 20. júlí 2016. Kæruheimild er í 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að afplána samtals 190 daga eftirstöðvar refsingar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...] frá [...], sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 20. júlí 2016.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að klukkan 06:38 í gær hafi borist tilkynning um vopnað rán í verslun A. Í tilkynningunni komi fram að gerandi hafi verið vopnaður hníf og hafi hlaupið út úr versluninni með fjármuni sem hann hafi tekið úr sjóðsvél.
Afgreiðslumaður hafi lýst atvikum máls þannig að maður hafi komið inn í verslunina að afgreiðslukassanum, otað hníf að afgreiðslumanninum og sagt: „þetta er rán, opnaðu skúffuna á peningakassanum”. Maðurinn hafi síðan teygt sig yfir borðið og tekið alla seðlana sem verið hafi í peningakassanum þ.e. um 20.000 kr. Maðurinn hafi síðan hlaupið út þar sem annar maður hafi beðið eftir honum. Þeir hafi síðan hlaupið í burtu saman.
Klukkan 12:16 hafi lögreglu síðan borist tilkynning um par í annarlegu ástandi í strætó. Parið hafi verið handtekið sökum ástands en á manninum, B, hafi fundist hnífur sem hafi verið samskonar hnífur og notaður hafi verið í ofangreindu ráni. B hafi greint lögreglumönnum frá því að kærði hafi framið ránið og að hann hafi sjálfur ekki tekið þátt í því. B hafi sagt að þeir hefðu tekið strætó að Laugaveginum þar sem þeir hafi eytt peningunum í spilakassa.
Klukkan 13:52 hafi síðan borist tilkynning um annað vopnað rán í apóteki C við [...] þar sem fram hafi komið að þar væri maður að ógna starfsfólki með hnífi og hafi hann heimtað lyf. Maðurinn mun hafa verið með grímu fyrir andlitinu og hettu á höfðinu. Að sögn starfsfólks hafi maðurinn verið í annarlegu ástandi. Hann hafi farið bak við afgreiðsluborðið og rótað í öllum skúffum þar. Maðurinn hafi síðan farið út eftir að hafa fengið einn pakka af lyfinu rítalín. Skömmu síðar eða klukkan 14:02, hafi verið tilkynnt um mann í annarlegu ástandi við [...] í [...]. Maðurinn hafi verið að sprauta sig á [...] en skammt frá [...] hafi menn séð lögreglumenn kærða og handtekið hann en lýsingin á geranda hafi passað við kærða og klæðnað hans. Kærði hafi viðurkennt fyrir lögreglumönnum að hafa átt hlut að máli í apótekinu. Hann hafi sagt hnífinn hafa dottið úr götóttum buxnavasa sínum og hafi hann hent grímunni frá sér einhversstaðar á flóttaleiðinni frá apótekinu.
Ekki hafi sést greinilega í andlit geranda í myndbandsupptökum frá A en klæðnaður hafi sést ágætlega. Fengnar hafi verið upptökur frá D skömmu áður og þær myndir séu greinilegar en þar sjáist kærði ásamt B og E. Bæði B og E þekki sig og kærða á myndunum frá D en kærði sé þar klæddur eins og sá sem framdi ránið í A.
Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi bæði B og E sagst hafa verið með kærða í [...] í gær. B hafi sagt að það liti út fyrir að kærði hafi framið ránið í A en hafi lítið viljað tjá sig um málið. E hafi sagt að kærði hafi farið inn í verslunina en hún hafi ekki vitað hvað hann ætlaði sér að gera. Síðan þegar kærði hafi komið til baka þá hafi hann greint þeim frá því hvað hann hefði gert.
Í skýrslutöku hjá lögreglu neitaði kærði sök í báðum málunum.
Tekið er fram í skýrslunni að það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að öll lagaskilyrði 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsingar sé fullnægt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar og fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi gerst sekur um brot sem geti varðað allt að 10 ára fangelsi eða eftir atvikum 16 ára fangelsi, sbr. 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 20. júlí sl. á 190 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. desember 2016 í máli nr. 451.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsingar er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða dómara:
Kærði er talinn hafa brotið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar en fyrir liggur sterkur grunur um að hann hafi gerst sekur um brot sem geti varðað allt að 10 ára fangelsi eða eftir atvikum 16 ára fangelsi, sbr. 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærða var veitt reynslulausn þann 20. júlí sl. á 190 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...].
Fallist er á með sóknaraðila að öll lagaskilyrði 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsingar sé fullnægt, og því fallist á kröfu sóknaraðila að kærða verði gert að afplána samtals 190 daga eftirstöðvar refsingar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...], sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 20. júlí 2016.
Krafa sóknaraðila er því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Varnaraðila, X, kt. [...], er gert að afplána samtals 190 daga eftirstöðvar refsingar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur [...] frá [...], sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 20. júlí 2016.