Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


Fimmtudaginn 30. janúar 2014.

Nr. 44/2014.

Lovísa Jónsdóttir

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

Árnasyni Faktor ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni Á ehf. um dómkvaðningu matsmanns til að meta tiltekin atriði vegna útreiknings á kaupverði hlutafjár samkvæmt samningi málsaðila. Ekki var talið að sönnunarfærslan væri bersýnilega óþörf sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013 þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og umbeðinni dómkvaðningu matsmanns hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar héraðsdóms og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði eru í lögum nr. 91/1991 ekki lagðar sérstakar hömlur við því að aflað sé nýrrar matsgerðar til sönnunar um önnur atriði en fyrri matsgerð tók til enda sé ekki svo ástatt sem um ræðir í 3. mgr. 46. gr. laganna. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Lovísa Jónsdóttir, greiði varnaraðila, Árnasyni Faktor ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2013.

                Með matsbeiðni móttekinni 26. ágúst sl. krafðist matsbeiðandi, Árnason Faktor ehf., Guðríðarstíg 2-4, Reykjavík, þess, með vísan til 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur mats- og skoðunarmaður, til þess að framkvæma mat og láta í té skriflega matsgerð á nánar tilgreindum atriðum til framlagningar í dómsmáli milli matsbeiðanda og matsþola, Lovísu Jónsdóttur, Jónsgeisla 23, Reykjavík, fyrir Hæstarétti undir áfrýjun dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. maí 2013 í máli nr. E-1289/2012. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Matsþoli gerir þær dómkröfur að beiðni matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar úr hendi matsbeiðenda að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Ágreiningur aðila var tekinn til úrskurðar 28. nóvember sl. eftir munnlegan málflutning.

I

                Matsþoli starfaði sem vörumerkjaráðgjafi hjá matsbeiðanda frá því í ágúst 2003. Við breytingar á rekstri matsbeiðanda á árinu 2006 gerðu hluthafar í matsbeiðanda með sér hluthafasamkomulag, dagsett 30. nóvember 2006, sem fól meðal annars í sér að lykilstarfsmönnum var gefinn kostur á að gerast hluthafar í félaginu, þ.m.t. matsbeiðanda. Var undirritaður samningur milli matsbeiðanda og matsþola, dagsettur 31. desember 2006, um kaup matsþola á hlutafé í matsbeiðanda. Samkvæmt samkomulaginu skuldbatt matsbeiðandi sig meðal annars til að kaupa hluti starfsmanna sem létu af störfum.

                Matsþola var sagt upp störfum 24. nóvember 2010 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í kjölfar starfsloka matsþola hjá matsbeiðanda varð ágreiningur milli matsþola og matsbeiðanda um uppgjör vegna framangreindrar skyldu matsbeiðanda til að kaupa hluti starfsmanna er létu af störfum. Með bréfi 2. desember 2010 tilkynnti matsbeiðandi matsþola að hann hygðist neyta heimildar til að leysa til sín hlutafjáreign matsþola í samræmi við framangreindan kaupsamning. Ágreiningur varð með aðilum um verðmæti hlutafjáreignar matsþola.

                Með matsbeiðni, dags. 1. júlí 2011, fór matsþoli þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur í máli nr. M-75/2011, að dómkvaddur yrði matsmaður til þess meðal annars að meta hvert hefði verið verðmæti hlutafjár matsþola við starfslok í samræmi við ákvæði kaupsamnings þar um, sbr. einkum 6. gr. kaupsamnings aðila. Matsmaður skilaði matsgerð sinni 13. desember 2011. Ekki náðist samkomulag milli aðila á grundvelli matsgerðarinnar og höfðaði matsþoli mál á hendur matsbeiðanda með stefnu, dagsettri 2. apríl 2012. Krafðist matsþoli greiðslu á 33.527.896 króna í samræmi við niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns um innlausnarverðmæti hluta hennar í matsbeiðanda. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2013 í máli nr. E-1289/2012 voru kröfur matsþola teknar til greina. Matsbeiðandi áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar Íslands.

II

                Matsbeiðandi vísar til þess að í dómsmáli nr. E-1289/2012 milli aðila hafi verið deilt um útreikning á kaupverði hlutafjár samkvæmt samningi málsaðila frá 31. desember 2006. Í forsendum dómara komi fram að niðurstaða hans um kröfur matsþola sé að hluta til byggð á áliti hins dómkvadda matsmanns, en dómarinn hafi kosið að taka ekki tillit til ákveðinna útlistana matsmannsins og skýringa hans fyrir dóminum sem matsbeiðandi telji að hefðu átt að leiða til annarrar niðurstöðu. Um þetta segir í dóminum:

Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns kemur fram sú ályktun hans að aðferðafræðin, sem fram komi í 6. gr. kaupsamnings aðila, vísi til verðmatsaðferðar sem jafnan sé nefnd „aðferð frjáls sjóðstreymis“. Matsmaðurinn skilgreinir í matsgerðinni hugtakið „frjálst sjóðstreymi“ og hvernig verðmæti félags sé fundið með þeirri aðferð, sem í frjálsu stjóðstreymi felist. Segir þar m.a. að frá núvirði frjáls sjóðstreymis, að viðbættum eignum sem ekki geti talist til rekstrartengdra eigna, séu til að finna verðmæti eigin fjár dregnar frá langtímaskuldir félags, sbr. matsgerð bls. 5. Við framangreinda ályktun hins dómkvadda matsmanns er eftirfarandi að athuga. Matsmaður var ekki í matsbeiðni beðinn um túlkun á hugtakinu „sjóðstreymi“ í 6. gr. kaupsamnings aðila. Er ályktun hans því utan matsbeiðninnar og hefur ekki sönnunargildi á grundvelli hennar. Stefnandi hefur mótmælt framangreindri ályktun matsmannsins sem málinu óviðkomandi og stefndi byggir málatilbúnað sinn ekki á umræddri ályktun. Hefur hún því ekki þýðingu fyrir úrslit máls þessa.

                Matsbeiðandi telji að þessi röksemdafærsla fái ekki staðist, en vegna hennar telji hann nauðsynlegt að fá dómkvaddan annan matsmann til þess að láta í té álit um atriði sem héraðsdómarinn telji ekki hafa sönnunargildi í fyrirliggjandi matsgerð varðandi forsendur útreikninga sem deilt sé um í málinu. Hér sé því ekki óskað eftir yfirmati á niðurstöðum í umræddri matsgerð, heldur mati um önnur atriði sem héraðsdómur hafi samkvæmt framansögðu talið að féllu utan verksviðs matsmannsins.

                Það sem matsbeiðandi óski eftir að verði metið sé eftirfarandi:

1.            Í samningi aðila um kaup á hlutafé, dags. 31. desember 2006, segi í 6. gr. að útreikningar á heildarverðmæti hluta í félaginu skuli byggðir á núvirtu sjóðstreymi félagsins síðustu tvö ár og áætluðu sjóðstreymi næstu tveggja ára, þ.e.a.s. yfirstandandi árs og þess næsta. Verðmæti félagsins (söluverð hluta) teljist þannig vera meðaltal sjóðstreymis þessa fjögurra ára framreiknað og núvirt með ávöxtunarkröfu 15%. Spurning: Er til viðurkennd aðferð við mat á heildarverðmæti hluta í félögum byggt á frjálsu sjóðstreymi og þar með skilgreining á því hugtaki? Getur matsmaðurinn skýrt í samræmi við ofangreindar skilgreiningar muninn á heildarverðmæti félags (enterprise value) og heildarverðmæti hluta (share value)?

2.            Í málinu sé deilt um hvort tillit hafi verið tekið til vaxtaberandi skulda þegar kaupverð hlutafjár matsbeiðanda sé reiknað. Í fyrirliggjandi matsgerð komi fram að ekki hafi verið tekið tillit til vaxtaberandi langtímalána samkvæmt ársreikningi 2005 þegar matsþoli hafi eignast hlutaféð. Spurning: Voru vaxtaberandi skuldir matsbeiðanda hærri eða lægri en handbært fé félagsins í árslok 2005 samkvæmt ársreikningi þess? Hvert hefði sölugengi hlutafjárins verið ef tekið hefði verið tillit til þessara fjárhæða að öðrum forsendum óbreyttum?

3.            Við ákvörðun söluverðs hlutafjárins til matsþola hafi verið reiknaður 15% afsláttur frá reiknuðu sölugengi. Spurning: Hvert hefði söluverð hluta til matsþola orðið ef vaxtaberandi skuldir hefðu verið dregnar frá eignavirði en enginn afsláttur veittur, að öðrum forsendum óbreyttum?

II

                Matsþoli byggir mótmæli sín gegn fram kominni matsbeiðni á því að efni hennar samræmist ekki heimildum matsbeiðanda til öflunar sönnunargagna samkvæmt lögum. Beiðnin byggist á 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laganna eigi aðili máls rétt á því að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem hann telji málstað sínum til framdráttar. Að meginreglu sé hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiði af ákvæðum laga nr. 91/1991. Dómara beri þannig almennt að verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanna samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema að skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laganna séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði, sem dómari telji bersýnilegt að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að beiðnin beinist að atriði, sem ekki heyrir undir matsmann að fjalla um, sbr. 2. mgr. 60. gr. laganna. Samkvæmt þessu megi matsbeiðni ekki beinast að atriðum sem telja verði bersýnilegt að skipti ekki máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, eða eigi undir 2. mgr. 60. gr. laganna.

                Um fyrrnefnda atriðið segi í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 að ef dómari telur bersýnilegt að atriði sem aðili vilji sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu. Tilgangur matsgerða samkvæmt IX. kafla laganna sé að fá álit utanaðkomandi sérfróðra manna á því hvað sé staðreynd í ákveðnu tilviki. Af 3. mgr. 46. gr., sem og almennum takmörkunum á því hvers konar atriði þarfnist sönnunar í einkamáli leiði að þau atriði sem aðili leitist við að fá staðreynd með matsgerð verði að geta haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Málsaðilum sé samkvæmt þessu ekki heimilt að fá dómkvadda matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 til að svara spurningum sem hvorki varði staðreyndir í því dómsmáli sem um ræði né verði á annan hátt taldar hafa þýðingu fyrir úrlausn þess.

                Í fyrstu matsspurningu sé annars vegar spurt um skilgreiningu á hugtakinu frjálst sjóðsstreymi og hins vegar muninn á heildarverðmæti félags og heildarverðmæti hluta. Matsbeiðandi hafi í engu rökstutt eða fært líkur fyrir því að efni þessarar spurningar tengist efnislegri niðurstöðu um ágreining aðila í málinu. Þó svo aðila sé almennt heimilt að afla mats á eigin ábyrgð og áhættu, verði að takmarka þá heimild við atriði sem séu bersýnilega óþörf. Sérstaklega verði að benda á að hugtökin „frjálst sjóðsstreymi“, „heildarverðmæti félags“ og „heildarverðmæti hluta“ komi aldrei fram í gögnum málsins og verði með engu móti ráðið hvernig skilgreiningar þessara hugtaka eða munur á slíkum skilgreiningum tengist efnislegum ágreiningi málsaðila sem nú sé fyrir dómstólum. Þvert á móti sé skýrlega tekið fram í 6. gr. samnings málsaðila um hlutafjárkaup matsþola hvaða sjóðsstreymi sé miðað við. Í þessu ljósi krefjist matsþoli þess að framangreindri spurningu verði hafnað með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, enda efni spurningarinnar ótengt staðreyndum í máli þessu og tengist með engu móti sönnunarfærslu í málinu sjálfu.

                Þá sé einnig til þess að líta að fyrsta matsspurningin feli í sér að verið sé að leita svara við lögfræðilegum atriðum sem dómari eigi að meta sjálfur, eftir atvikum með aðstoð sérfróðra meðdómenda, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991.

                Efni annarrar og þriðju matsspurningar sé sama marki brennt og að framan greinir, þó með enn augljósari hætti. Í annarri matsspurningu sé annars vegar spurt hvort vaxtaberandi skuldir matsbeiðanda hafi verið hærri eða lægri en handbært fé félagsins í árslok 2005 samkvæmt ársreikningi þess. Hins vegar sé óskað mats á því hvert sölugengi hlutafjárins hefði verið ef tekið hefði verið tillit til þessarar fjárhæðar að öðrum forsendum óbreyttum. Eins og fram komi í matsbeiðninni sjálfri liggi fyrir matsgerð í málinu þar sem tekin séu af öll tvímæli um það að ekki hafi verið tekið tillit til vaxtaberandi langtímaskuldbindinga þegar matsþoli hafi keypt hluti sína í matsbeiðanda. Spurning matsbeiðanda um hvert sölugengi hlutafjárins hefði verið að tilteknum forsendum gefnum lúti því ekki að staðreyndum málsins, né atriðum sem krefjist sérfræðiþekkingar með matsgerð, heldur mögulegri atburðarás sem óumdeilt sé að hafi ekki orðið. Spurningin sé því bersýnilega óþörf í skilningi 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Matsþoli krefjist því þess að matsbeiðanda verði einnig meinað að afla mats um framangreinda spurningu.

                Í þriðju matsspurningu sé spurt hvert verðmæti hlutanna hefði verið ef vaxtaberandi skuldir hefðu verið dregnar frá eignavirði en enginn afsláttur veittur. Það sé óumdeilt að 15% afsláttur hafi verið veittur eins og lagt sé til grundvallar í úrlausn Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1289/2012. Útreikningur á söluverðmæti hlutanna að gefnum forsendum sem óumdeilt sé að hafi ekki verið til staðar við söluna eða miðað hafi verið við með nokkrum hætti, geti því ekki tengst staðreyndum í dómsmáli milli aðila eða atriðum sem almennt þarfnist sönnunar við. Beri því einnig með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 að hafna beiðni matsbeiðanda um að afla mats um þriðja matslið.

                Þessu til viðbótar verði að benda á að með engu móti verði ráðið af matsbeiðninni hvernig skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt, einkum hvað snertir matsspurningar nr. 2 og nr. 3. Þannig verði ekki ráðið af matsbeiðninni eða fylgiskjölum hennar hvað matsbeiðandi hyggist sanna með því að afla mats um verðmæti hlutafjár við sölu til matsþola að gefnum forsendum sem óumdeilt sé að hafi ekki orðið. Í þessu ljósi beri þannig einnig að hafna beiðni matsbeiðanda um öflun mats samkvæmt öðrum og þriðja matslið.

                Fram komi í matsbeiðni að ekki sé óskað yfirmats á niðurstöðu matsgerðar í máli nr. M-75/2011, heldur mats á öðrum atriðum sem héraðsdómari í máli nr. E-1289/2012 hafi talið falla utan verksviðs matsmannsins. Muni þar vera átt við ályktanir um skilgreiningu á hugtakinu frjálst sjóðsstreymi. Við þetta verði að gera alvarlegar athugasemdir. Fyrir liggi matsgerð dómkvadds matsmanns þar sem komist hafi verið að tiltekinni niðurstöðu um verðmæti hlutafjár matsþola, meðal annars á grundvelli 6. gr. kaupsamnings aðila og 8. gr. hluthafasamkomulags matsbeiðanda, þar sem skilgreint sé það sjóðsstreymi sem fara eigi eftir við útreikning á verðmæti hlutanna.

                Óhjákvæmilegt sé að framlagning matsgerðar þar sem lagðar séu til aðrar skilgreiningar á hugtakinu sjóðsstreymi en framangreindur kaupsamningur og hlutahafasamkomulag miði við, væri í andstöðu við fyrirliggjandi matsgerð og myndi þannig vera til þess fallin að hnekkja sönnunargildi framlagðrar matsgerðar. Með því væri verið að krefjast endurmats um sömu atriði og áður hafi verið metin í málinu, sbr. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem matsbeiðandi óski ekki yfirmats um framangreind atriði verði enn fremur að hafna fyrsta matslið af þessum ástæðum.

                Matsspurningar samkvæmt öðrum og þriðja matslið lúti einnig að því að hnekkja sönnunargildi matsgerðarinnar. Það komi bersýnilega fram í matsbeiðninni sjálfri og leiði af efni fyrri matsbeiðnar og matsgerðar. Í framlagðri matsgerð hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að vaxtaberandi langtímaskuldbindingar félagsins hafi ekki verið reiknaðar með þegar kaupverð hlutafjár matsþola hafi verið reiknað út. Önnur og þriðja spurning matsbeiðanda lúti að því hvert kaupverð hlutanna hefði verið ef tekið hefði verið tillit til vaxtaberandi skulda. Spurningarnar séu því í eðli sínu til þess fallnar að fá fram niðurstöðu sem sé í andstöðu við fyrirliggjandi matsgerð. Myndi framlagning slíkrar matsgerðar óhjákvæmilega rýra eða hnekkja sönnunargildi þegar framlagðrar matsgerðar. Matsbeiðanda sé því óheimilt að afla mats á grundvelli 61. gr. laga nr. 91/1991 um framangreindar spurningar, enda hefði honum borið að afla yfirmats á grundvelli 64. gr. sömu laga ætlaði hann að hnekkja framlagðri matsgerð í málinu.

                Matsþoli bendi á að matsbeiðandi hafi þegar gefið sér niðurstöðu mats samkvæmt fyrsta matslið. Í efni spurningarinnar felist að matsbeiðandi telji að hugtakið „heildarverðmæti félags“ feli í sér annað en hugtakið „heildarverðmæti hluta“. Í því ljósi sé væntanlegum matsmanni ómögulegt annað, miðað við efni spurningarinnar, en að komast að sömu niðurstöðu.

                Áréttað sé að matsbeiðandi beri sjálfur allan kostnað af öflum matsgerðarinnar og áhættuna af því hvort hún kunni að koma honum að notum. Matsþoli telji að af því sem rakið hafi verið hér að framan sé ljóst að efni matsspurninga samræmist með engu móti þeim málsástæðum og málsgrundvelli sem matsbeiðandi hafi sjálfur markað í málinu.

                Matsþoli styðji kröfu sína við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum ákvæði IX. kafla laganna, þ.e. 60. gr., 61. gr., 65. gr. og 66. gr. Enn fremur sé vísað til ákvæðis 46. gr. sömu laga. Um málskostnað vísist til XXI. kafla laganna. Um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988.

III

                Í máli þessu krefst matsbeiðandi þess að dómkvaddur verði matsmaður til að meta tiltekin atriði vegna útreiknings á kaupverði hlutafjár samkvæmt samningi málsaðila. Matsbeiðandi byggir á því að niðurstaða héraðsdóms í máli aðila nr. E-1289/2012, sem nú hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, gefi tilefni til þess að leitast verði við að fá mat á fleiri atriðum en gert hafi verið.

                Matsþoli byggir á því að hafna beri kröfunni þar sem spurningar matsbeiðanda séu bersýnilega óþarfar til sönnunarfærslu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrsta spurningin feli í sér að óskað sé túlkunar á lögfræðilegum atriðum sem dómari meti sjálfur, sbr. 2. mgr. 60. gr. laganna. Ekki sé ljóst hvað skuli sanna með matinu, sbr. 2. málslið 1. mgr. 61. gr., einkum annarri og þriðju matsspurningu. Einnig er byggt á því að í raun sé um að ræða yfirmat, þar sem matsgerðinni sé ætlað að hnekkja niðurstöðum undirmatsgerðar. Matsþoli telur matsbeiðanda gefa sér niðurstöðu varðandi fyrsta matslið. Þá samræmist matsbeiðnin ekki málsgrundvelli matsbeiðanda í einkamálinu á milli þeirra.

                Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafa aðilar máls forræði á því hverra gagna þeir afla til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómara að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar þar sem kveðið er á um að ef dómari telur bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu. Ágreiningur aðila snýst um aðferð við útreikning á innlausnarverði hlutafjár. Matsþoli aflaði matsgerðar dómkvadds matsmanns áður en hún höfðaði mál gegn matsbeiðanda. Það liggur fyrir að í niðurstöðu héraðsdóms í máli aðila er því hafnað að leggja tiltekin atriði sem fram koma í matsgerðinni til grundvallar niðurstöðu þar sem þau rúmist ekki innan matsspurninga og hafi því ekki sönnunargildi í málinu. Dóminum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Verður ekki talið fullyrt að matsgerð um þetta atriði skipti ekki máli eða að bersýnilega sé óþarft að leita mats um það. Ekki verður heldur fallist á að það eigi við um aðra eða þriðju matsspurningu, en ágreiningur er milli aðila um hvernig reikna beri út innlausnarverð hluta í matsbeiðanda og hvort við þann útreikning skuli taka tillit til vaxtaberandi langtímaskulda. Verður matsbeiðanda því ekki meinað að afla matsgerðar um þetta efni af þessum sökum, enda verður að líta til þess að hann ber sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún komi honum að notum.

                Matsþoli telur að fyrsti liður matsbeiðninnar feli í sér mat á lögfræðilegum atriðum sem sé dómara að meta. Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Verður ekki talið að þetta eigi við um þennan matslið. Þá er til þess að líta að þótt leitað sé álits á einhverju sem öðrum þræði snerti lagaleg atriði myndi niðurstaða þar um í matsgerð ekki binda hendur dómara eða þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur.

                Matþoli telur óljóst hvað matsgerð sé ætlað að sanna, einkum vegna annarrar og þriðju matsspurningar. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 61. gr. skal í matsbeiðni meðal annars koma skýrlega fram hvað aðili hyggist sanna með mati. Talið verður að nægilega skýrt komi fram í matsbeiðni hver tilgangurinn sé með hinu umbeðna mati.

                Matsþoli byggir á því að í raun sé um yfirmat að ræða, en ekki undirmat og því hafi matsbeiðanda borið að óska yfirmatsgerðar, sbr. 64. gr. laga nr. 91/1991. Í lögum nr. 91/1991 eru ekki lagðar sérstakar hömlur við því að dómkvaddur verði matsmaður til að leggja mat á atriði, sem matsgerðar hefði áður verið aflað um eða að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar, sem taki að nokkru eða öllu til annarra atriða en sú fyrri, enda sé ekki svo ástatt, sem um ræði í 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Ljóst er að þær spurningar er matsbeiðandi leitar svara við eru ekki þær sömu og í matsgerð þeirri sem liggur fyrir í máli aðila. Þótt svör matsmanns kynnu að einhverju leyti að skarast við svör í fyrri matsgerðinni þykir ekki rétt að hafna matsbeiðni af þeim sökum.

                Matsþoli telur matsbeiðanda gefa sér niðurstöðu mats samkvæmt fyrsta matslið. Um þetta atriði er til þess að líta að matsbeiðandi verður að bera hallann af því ef sönnunargildi matsgerðar verður rýrara en ella vegna þess að lögð hefur verið til grundvallar mati forsenda hans sem reynist ekki eiga við rök að styðjast. Verður matsbeiðanda ekki meinað að afla matsgerðar af þessum sökum.

                Að lokum telur matsþoli að matsbeiðnin samræmist ekki málsástæðum og málsgrundvelli matsbeiðanda í einkamáli aðila. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í matsmáli þessu, en stefna og greinargerð í einkamáli aðila eru ekki þeirra á meðal, verður ekki séð að svo sé og verður þannig ekki fullyrt að sönnunarfærslan sé bersýnilega óþörf.

                Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á það með matsþola að hafna beri því að taka matsbeiðni til greina. Skal hin umbeðna dómkvaðning því fara fram.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður matsþola gert að greiða matsbeiðanda málskostnað svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.

                Matsþoli, Lovísa Jónsdóttir, greiði matsbeiðanda, Árnason Faktor ehf. 100.000 krónur í málskostnað.