Hæstiréttur íslands

Mál nr. 276/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 20

 

Mánudaginn 20. ágúst 2001:

Nr. 276/2001.

Vísir.is ehf.

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Eskli ehf.

Ragnari Gunnlaugssyni

Friðjóni Guðjohnsen

Guðmundi Guðmundssyni

Hrafni Áka Hrafnssyni

Ólafi Þresti Viggóssyni

Ragnari Þórarni Ágústssyni

Sigfinni Vali Viggóssyni og

Snæbirni Konráðssyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Ósamræmis þótti gæta milli dómkröfu V ehf., sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, og lýsingar hans á málsástæðum og helstu lagaákvæðum og réttarreglum, sem hann byggði málatilbúnað sinn á, sbr. e. og f. lið sama lagaákvæðis. Var málið því vanreifað af hálfu V ehf. og þótti ekki verða úr þeim annmarka bætt undir rekstri málsins. Málinu var því vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2001, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hnekkt og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða þeim kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Vísir.is ehf., greiði varnaraðilum, Eskli ehf., Ragnari Gunnlaugssyni, Friðjóni Guðjohnsen, Guðmundi Guðmundssyni, Hrafni Áka Hrafnssyni, Ólafi Þresti Viggóssyni, Ragnari Þórarni Ágústssyni, Sigfinni Vali Viggóssyni og Snæbirni Konráðssyni, samtals 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2001

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 20. júní síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu, er höfðað með stefnu, þingfestri 8. mars 2001, af Vísi.is ehf., kt. 560299-2819, Þverholti 11, gegn Eskli ehf., kt. 551299-2289, Lyngási 13, Garðabæ, Ragnari Gunnlaugssyni, kt. 120974-4599, Túnhvammi 15, Hafnarfirði,  Friðjóni Guðjohnsen, kt. 021267-4819, Engjasmára 3, Kópavogi, Guðmundi Guðmundssyni, kt. 140566-3499, Sundlaugavegi 24, Reykjavík, Hrafni Áka Hrafnssyni, kt. 170970-­5949, Hraunbæ 118, Reykjavík, Ólafi Þresti Viggóssyni, kt. 041069-5709, Kleppsvegi 132, Reykjavík, Ragnari Þórarni Ágústssyni, kt. 041075-4309, Sóleyjargötu 1, Hafnarfirði, Sigfinni Val Viggóssyni, kt. 010467-5869, Arnarsmára 18, Kópavogi, Snæbirni Konráðssyni, kt. 260376-3149, Stapaseli 6, Reykjavík, og til réttargæslu Lee Roy Tipton, kt. 220972-4889, Skjólbraut l, Kópavogi og Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, kt. 201071-5699, Baldursgötu 3, Reykjavík.

         Stefnandi gerir þær dómkröfur, að staðfestur verði með dómi eignarréttur stefnanda á 15% eignarhlut í einkahlutafélaginu Eskli, kt. 551299-2289, að nafnverði 1.500.000 krónur. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.

                 Stefndu gera þær kröfur aðallega, að máli þessu verði vísað frá dómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu þess, að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti á þann málskostnað, sem dæmdur verður þeim einstaklingum, er aðild eiga að máli þessu.

                 Af hálfu réttargæslustefndu eru ekki gerðar neinar efniskröfur, en hins vegar krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnanda, að viðbættum virðisaukaskatti.

                    Stefnandi krefst þess, að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og að stefndu verði úrskurðaðir óskipt til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins í þessum þætti málsins.

                  Málavextir eru þeir, að með samningi, dagsettum 3. mars 2000, keypti stefnandi 15% hlut í stefnda fyrir 6.000.000 króna. Stefnandi skuldbatt sig til að greiða kaupverð hlutanna í þrennu lagi. Stefnandi innti fyrstu greiðsluna af hendi. Aðra greiðslu samkvæmt kaupsamningnum, að fjárhæð 1.500.000 krónur, átti stefnandi að greiða 20. september 2000. Var greiðslan bundin tveimur skilyrðum, öðru varðandi veltu og hinu varðandi afkomu stefnda. Af gögnum málsins verður eigi annað ráðið en að stefndu hafi mætt báðum þessum skilyrðum, en þrátt fyrir það greiddi stefnandi ekki umsamda greiðslu. Þegar vanskilin höfðu staðið í tólf daga sendi framkvæmdastjóri stefnda rafbréf til Þorvaldar Jacobsen, framkvæmda­stjóra stefnanda, og minnti hann á hina gjaldföllnu greiðslu. Framkvæmdastjórinn sendi annað rafbréf 18. október 2000 og 1. desember 2000 var stefnanda á ný send áminning um hina gjaldföllnu skuld. Þann 4. janúar 2001 sendi framkvæmdastjóri stefnda stefnanda enn á ný rafpóst, ásamt innheimtubréfi, þar sem krafist var greiðslu skuldarinnar innan 7 daga. Þar sem greiðsla var ekki innt af hendi sendi framkvæmdastjóri stefnda stefnanda bréf 10. janúar 2001, þar sem veittur var 7 daga frestur til efnda á skuldbindingunni, sem fallið hafði í gjalddaga 20. september 2000. Greiðsla barst ekki frá stefnanda innan frestsins og var stefnanda þá sent símskeyti 25. janúar 2001, þar sem lýst var yfir riftun og óskað eftir uppgjöri. Í kjölfarið voru stefnanda sendar 3.750.000 krónur, sem var sú fjárhæð sem hann hafði greitt af kaupverðinu. Stefnandi mótmælti riftuninni og greiddi einn eigenda stefnanda 1.610.000 krónur inn á reikning stefnda 26. janúar 2001, sem skilað var samdægurs til greiðanda.

                   Stefndu reisa frávísunarkröfu sína á því, að á milli dómkrafna stefnanda annars vegar og málsástæðna hans og lagaraka hins vegar sé ekkert samhengi. Málsástæður stefnanda lúti allar að því að fá dóm fyrir því, að riftun kaupsamnings aðilanna hafi verið ólögmæt, en kröfugerðin að því að fá viðurkenningu fyrir því, að stefnandi eigi 15% hlut í stefnda, Eskli ehf. Málatilbúnaður stefnanda sé því í andstöðu við d., e. og f. lið 1. mgr., 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Beri því að vísa máli þessu frá. Dómur, sem tæki kröfur stefnanda til greina, leiddi til þess, að stefnandi teldist eiga 15% hlut í stefnda, án þess að hann hefði nokkru sinni efnt kaupsamning um kaup þeirra hluta eða þyrfti að gera það. Sé því málið í þeim búnaði, að það sé með öllu ótækt til efnismeðferðar.

                   Stefnandi vísar um mótmæli sín við frávísunarkröfu stefndu til þess, að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands aðila og geti hann þá leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þurfi hann því ekki að leita dóms, sem mætti fullnægja með aðför.

                   Málatilbúnaður stefnanda miðast við að fá dóm í þá átt, að framkvæmdastjóri stefnda, Eskils ehf., hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að rifta umræddum samningi um hlutabréfakaup og að kröfuréttarlegum skilyrðum riftunar hafi ekki verið fullnægt. Hugtakið málsástæða hefur verið skilgreint svo, að það merki staðhæfingu um atvik, sem aðili máls telur hafa þá afleiðingu í för með sér að lögum, að krafa hans verði tekin til greina. Allar málsástæður stefnanda lúta að því að fá dóm fyrir því, að riftun kaupsamnings aðilanna hafi verið ólögmæt. Hins vegar er kröfugerðin um, að  fá viðurkenningu fyrir því, að stefnandi eigi 15% hlut í stefnda, Eskli ehf. Ber í því sambandi að geta þess, að stefndu hafa skilað stefnanda þeim fjármunum, sem hann greiddi þeim í tilefni af hlutabréfakaupunum.

                   Að áliti dómsins er ósamræmi milli áðurnefndrar dómkröfu stefnanda, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, og lýsingar hans á málsástæðum og helstu lagaákvæðum eða réttarreglum, sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á, sbr. e. og f. lið sama lagaákvæðis. Er málið því vanreifað af hans hálfu. Samkvæmt því og þar sem ekki verður úr þessum réttarfarsannmarka bætt undir rekstri málsins, ber að taka frávísunarkröfu stefndu til greina.

                   Eftir þessum úrslitum verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefndu málskostnað óskipt, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur. Eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli stefnanda og réttargæslustefndu falli niður.

                   Úrskurðinn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

 

Úrskurðarorð:

                   Máli þessu er vísað frá dómi.

         Stefnandi greiði stefndu, Eskli ehf., Ragnari Gunnlaugssyni, Friðjóni Guðjohnsen, Guðmundi Guðmundssyni, Hrafni Áka Hrafnssyni, Ólafi Þresti Viggóssyni, Ragnari Þórarni Ágústssyni, Sigfinni Val Viggóssyni og Snæbirni Konráðssyni, óskipt 150.000 krónur í málskostnað.

         Málskostnaður milli stefnanda og réttargæslustefndu, Lee Roy Tipton og Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, fellur niður.