Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Vegabréf


Dómsatkvæði

 

Þriðjudaginn 1. júní 2004.

Nr. 224/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Vegabréf.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. júní 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að hann verði látinn sæta vægari þvingunarráðstöfunum, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tíma.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eins og fram kemur í gögnum málsins er talið að varnaraðili hafi komið hingað til lands ásamt tveimur öðrum mönnum 6. maí 2004 og þá framvísað fölsuðu vegabréfi. Varnaraðili var handtekinn í Reykjavík 25. sama mánaðar.

Í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hafi verið tekin skýrsla af varnaraðila. Í þeirri skýrslu viðurkennir hann að hafa átt viðskipti með falsað vegabréf. Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að sýni af fingraförum varnaraðila hafi verið send utan í því skyni að bera kennsl á hann. Við þá rannsókn hafi komið í ljós að varnaraðili sé þekktur undir ýmsum nöfnum í nokkrum löndum, meðal annars í Þýskalandi, Danmörku og Noregi, en ekki hafi tekist að sannreyna hver varnaraðili er. Leikur því sterkur grunur á að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og II. og III. kafla laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. 57. gr. laganna. Með vísan til þessa verður fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. og 6. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002, til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2004.

                Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að héraðsdómur úrskurði að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. júní 2004 kl. 16.00.

[...]

Lagarök:  

Verið er að rannsaka ætlað brot gegn löggjöf um útlendinga, sem geta varðað kærða fangelsisrefsingu ef sannast.  Rannsókn málsins er á frumstigi og ef kærði gengi nú laus gæti hann torveldað mjög þá rannsóknarvinnu sem enn er ólokið.  Þá er ljóst að ekki er unnt að láta menn sem ekki hafa gert nægilega grein fyrir sér ganga lausa

                Heimild til gæsluvarðhalds er í a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 5. mgr. 33. gr. útlendingalaga nr. 96, 2002.”

             Sækjandinn hefur leiðrétt kröfuna og getið þess að sést hafi til tveggja manna hlaupa frá stað í Danmörku þar sem stolið var vegabréfi fyrir skömmu.

             Kærði mótmælir kröfunni alfarið en til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldstíminn verði verulega styttur.

 

Dómarinn álítur að skilyrði 1. mgr. 103. gr. oml. fyrir því að láta kærða sæta gæsluvarðhaldi séu uppfyllt, enda liggi fyrir að hann kom hingað til lands 6. maí sl. ásamt tveimur öðrum mönnum og voru þeir með fölsuð skilríki.  Er hann því grunaður um brot gegn útlendingalögum sem varðað getur fangelsi.  Ber því að verða við kröfu lögreglustjórans í Reykjavík og ákveða að kærði skuli sæta gæsluvarðhaldi.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðviku­dagsins 2. júní 2004 kl. 16.00.