Hæstiréttur íslands

Mál nr. 158/1999


Lykilorð

  • Líkamsárás


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 23. september 1999.

Nr. 158/1999.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Brynjari Eini Einarssyni

(Sigurður Jónsson hrl.)

Líkamsárás.

B var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist að A og veitt honum hnefahögg á hnakka og í andlit með þeim afleiðingum að hann féll í götuna og hlaut skurði í andlit. Talið var sannað að B hefði brotið gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu staðfest og var refsing ákveðin með tilliti til 1. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga og B dæmdur til fangelsisrefsingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægari viðurlaga.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Með hliðsjón af sakarferli hans, sem greint er frá í héraðsdómi, verður að ákveða refsingu með tilliti til 1. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981. Að þessu gættu er refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, sem verður þannig staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Brynjar Einir Einarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 5. mars 1999.

Mál þetta sem dómtekið var 9. febrúar sl. er höfðað fyrir dóminum með ákæru lögreglustjórans í Rangárvallasýslu útgefinni 7. desember 1998, á hendur Brynjari Eini Einarssyni, Engjaseli 79, Reykjavík, kt. 060275-4919 fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 19. júlí 1998, fyrir utan félagsheimilið Njálsbúð, Vestur-Landeyjum, ráðist að Aðalsteini Árdal Björnssyni, fæddum 28. maí 1978, og veitt honum hnefahögg á hnakka, með þeim afleiðingum að hann féll í götuna og hlaut skurði á varir og höku.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Sækjandi krefst þess að ákærði verði auk þess dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar þar með talinna saksóknarlauna í ríkissjóð.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði ákvörðuð svo væg viðurlög sem lög framast heimila. Þá gerir verjandinn kröfu um að honum verði tildæmd málsvarnarlaun.

I.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Hvolsvelli eru málavextir þeir að aðfaranótt sunnudagsins 19. júlí 1998 voru lögreglumenn að störfum við félagsheimilið Njálsbúð, Vestur-Landeyjahreppi, en þar stóð þá yfir fjölmennur dansleikur. Róstur voru á planinu framan við húsið þar sem mikill fjöldi samkomugesta var saman kominn í góðu veðri. Um kl. 01:15 fann Rúnar Steingrímsson lögreglumaður Aðalstein Árdal Björnsson liggjandi í blóði sínu á planinu vestan við húsið. Á vettvangi gaf sig fram við lögreglu Björgvin Gíslason sem kvaðst hafa orðið vitni að því að Brynjar Einir Einarsson, ákærði í máli þessu, sló Aðalsteinaftan frá þannig að hann féll á planið.

Samkvæmt vottorði Hrafns V. Friðrikssonar heilsugæslulæknis á Hvolsvelli  kom Aðalsteinn Árdal Björnsson á Heilsugæslustöðina á Hvolsvelli um kl. 02:20 um nóttina í fylgd lögreglu. Áverkum í andliti hans er lýst þannig að hann sé bólginn á hægri kinn og á efri vör sé tættur skurður sem nái upp í nösina og á höku séu 2 upphöggnir skurðir og sprungur innan á vörum sem séu stokkbólgnar. Tennur virðist heilar en hann eigi erfitt með að opna munninn og bíta saman tönnunum vegna sársauka í kjálkum. Vottorðið getur ekki um áverka á hnakka.

Ákærði, sem kveðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn, hefur viðurkennt að hafa slegið Aðalstein Árdal Björnsson eitt högg með krepptum hnefa á vinstri kjálka. Hann kveður ástæðuna fyrir því að hann sló Aðalstein vera þá að skömmu áður hafi Aðalsteinn kýlt til hans um leið og hann gekk fram hjá honum og kærustu hans.  Hann hafi ekki svarað í sömu mynt, en farið á eftir Aðalsteini sem hafi þar skammt frá lent í áflogum. Hann hafi gengið upp að hlið Aðalsteins og slegið hann eitt högg, en síðan strax snúið sér undan og ekki séð hvort Aðalsteinn féll við. Hann hafi enga áverka séð á andliti Aðalsteins áður en hann sló hann.

Vitnið Aðalsteinn Árdal Björnsson hefur greint frá því að hann muni atburðarásina umrætt sinn ekki mjög vel, en hann hafi verið ölvaður. Er frásögn hans af atvikum mjög óskýr. Í framburði hans kemur þó fram að hann hafi fyrst fengið þungt högg aftan á hnakkann og við það misst meðvitund og dottið. Þegar hann hafi verið að reyna að standa upp hafi hann fengið högg á hægri kinn. Hann hafi ekki vitað hver sló hann, en stúlka sem hann þekki hafi sagt honum að ákærði hafi gert það.

Vitnið Björgvin Gíslason hefur greint frá því að hann hafi ekki verið undir áhrifum áfengis umrædda nótt.  Hann hafi orðið vitni að því, að þegar strákar sem Aðalsteinn Árdal hafði verið að slást við voru að ganga í burtu, hafi ákærði komið aðvífandi og slegið hann eitt högg aftan frá í hnakkann þannig að hann rotaðist og féll fram fyrir sig og lenti með andlitið í götunni. Gatan hafi öll verið í glerbrotum og þegar hann hafi staðið upp hafi hann verið illa farinn í andlitinu og allur í blóði, en hann hafi enga áverka haft á andlitinu áður.

Vitnið Gunnlaugur Dan Hafsteinsson hefur greint frá því að hann hafi orðið vitni að því þegar ákærði hafi komið aftan að Aðalsteini Árdal í umrætt sinn og veitt honum högg á hnakkann. Við höggið hafi Aðalsteinn Árdal fallið fram fyrir sig og lent með andlitið beint á malbikinu sem hafi allt verið í glerbrotum. Þegar hann hafi risið upp hafi hann verið alblóðugur í framan, en hann hafi ekki svo hann viti verið með áverka áður en hann datt.

II.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa slegið Aðalstein Árdal eitt hnefahögg, en borið að það hafi verið á vinstri kjálka en ekki aftan á hnakka eins og honum er gefið að sök í ákæru. Með svo til samhljóða framburði vitnanna Björgvins Gíslasonar og Gunnlaugs Dan Hafsteinssonar verður að telja sannað að ákærði hafi veitt Aðalsteini hnefahöggið í hnakka eins og honum er gefið að sök í ákæru. Þá hafa sömu vitni borið að Aðalsteinn hafi við höggið fallið fram fyrir sig og með andlitið í götuna sem þakin var glerbrotum, en  Aðalsteinn hefur borið að hann hafi misst meðvitund þegar hann fékk höggið í hnakkann. Verður því að telja sannað að Aðalsteinn hafi við höggið fallið fram fyrir sig og með andlitið í götuna. Vitnin hafa einnig borið að ákærði hafi verið alblóðugur í framan þegar hann stóð upp. Verður því að telja sannað að Aðalsteinn hafi við fallið hlotið þá áverka á andliti sem lýst er í ákæru og er í samræmi við læknisvottorð það sem frammi liggur í málinu, en vitnin sem og ákærði hafa borið að Aðalsteinn hafi ekki verið með áverka í andliti áður en ákærði sló hann.

Samkvæmt framangreindu er sannað að ákærði hafi framið brot það sem honum er gefið að sök í ákæru og  varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur áður sætt refsingu fyrir líkamsmeiðingar. Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 20. september 1994 var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi skilorðsbundið og sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hann með dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 4. desember 1995 dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 217. og 219. gr. almennra hegningarlaga. En jafnframt var hann dæmdur fyrir brot á 1. mgr. 4., 2. mgr. 36., 2. mgr. 37. og 1. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Brotið gegn 217. gr. almennra hegningarlaga var framið fyrir uppkvaðningu dómsins frá 20. september 1994 og var því um hegningarauka að ræða að því leiti. Jafnframt var um að ræða skilorðsrof dómsins frá 20. september 1994 og var sá dómur því dæmdur með. Að auki hefur ákærði tvívegis hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot. Í fyrra skiptið samkvæmt sátt á árinu 1992 fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og hið síðara með dómi Héraðsdóms Suðurlands 24. apríl 1996 fangelsi í 30 daga fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þá var hann sviptur ökurétti ævilangt.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til sakarferils hans. En einnig þykir verða að líta til þess hvernig brotið var framið og að brotavilji ákærða var ákveðinn. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs, 30.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.

Þorgerður Erlendsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur tafist lítillega vegna embættisanna dómara.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Brynjar Einir Einarsson, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs, 30.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.