Hæstiréttur íslands

Mál nr. 204/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Framhaldsstefna
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Fimmtudaginn 28. apríl 2011.

Nr. 204/2011.

Sigurður Bergþórsson

(Daníel Isebarn Ágústsson hdl.)

gegn

Hf. Eimskipafélagi Íslands

(enginn)

Rými ehf. og

(enginn)

Fjölhæfni ehf.

(Björgvin Jónsson hrl.)

Kærumál. Kröfugerð. Framhaldsstefna. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur E, R og F var vísað frá dómi. Í málinu krafðist S skaðabóta vegna líkamstjóns er hann varð fyrir í slysi 2. mars 2005. Í úrskurði héraðsdóms sagði m.a. að kröfugerð S væri því marki brennd að erfitt væri að gera sér grein fyrir útreikningi kröfunnar og á hverju útreikningar væru byggðir. Hefði S mótað algerlega nýja kröfugerð í málinu með framhaldsstefnu og væri kröfugerð hans svo óskýr að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að samkvæmt 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri heimilt með framhaldsstefnu að auka við kröfugerð eftir þingfestingu máls en fyrir aðalmeðferð þess ef það yrði ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu. S hefði eftir þingfestingu málsins aflað mats dómkvaddra manna um afleiðingar slyssins og var niðurstaða matsgerðarinnar m.a. hærra mat á miskastigi og örorkuhlutfalli en fyrir lá í því örorkumati sem stefna byggði á. S hefði af þessu tilefni því verið heimilt að auka við kröfugerð sína með framhaldsstefnu. Kröfugerð hans væri vissulega allflókin, einkum að því er vaxtakröfur varðaði, en forsendur hennar væru skýrðar í framhaldsstefnu og endanlegri kröfugerð. Væri málið að þessu leyti á engan hátt vanreifað og yrði ekki séð að E, R og F hefði verið gert erfitt fyrir um varnir af þessum sökum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum, var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Fjölhæfni ehf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í héraði var Sjóvá-Almennum tryggingum hf. stefnt til réttargæslu. Félagið hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðilum 8. október 2008 og krafðist bóta vegna líkamstjóns er hann varð fyrir í slysi 2. mars 2005. Kröfugerð sóknaraðila var reist á örorkumati Atla Þórs Ólasonar læknis 30. júní 2006. Samkvæmt því var sóknaraðili rúmliggjandi vegna slyssins frá 2. mars 2005 til 8. sama mánaðar, en veikur án þess að vera rúmfastur frá 9. mars 2005 til 27. júní 2006.  Á síðastnefnda deginum teldist heilsufar hans orðið stöðugt. Varanlegur miski hans vegna slyssins teldist 40 stig en varanleg örorka 50%. Sóknaraðili krafðist þess í stefnu að varnaraðilum yrði sameiginlega gert að greiða sér 16.499.142 krónur. Þessi krafa var sundurliðuð þannig að 1.155.693 krónur voru vegna tímabundins atvinnutjóns, 547.680 krónur vegna þjáningabóta og 2.556.400 krónur vegna varanlegs miska, en af samtölu þessara þátta eða 4.259.773 krónum krafðist sóknaraðili 4,5% ársvaxta frá tjónsdegi til 5. nóvember 2006.  Um þessa vexti vísaði hann til 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku nam 12.200.399 krónum og bætur fyrir annað fjártjón 38.970 krónum. Krafðist sóknaraðili dráttarvaxta af allri stefnufjárhæðinni frá 5. nóvember 2006, en þá var mánuður liðinn frá því að hann sendi réttargæslustefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. kröfubréf. Þjáningabætur og varanlegur miski voru miðuð við lánskjaravísitölu í október 2006 þegar framangreint kröfubréf var sent, sbr. 15. gr. skaðabótalaga.

Varnaraðilar höfðu allir uppi andmæli gegn örorkumati Atla Þórs Ólasonar í greinargerðum sínum í héraði. Af því tilefni óskaði sóknaraðili eftir því að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta afleiðingar slyssins. Matsgerð þeirra er dagsett 25. maí 2009 og var niðurstaða hennar að sóknaraðili hefði verið rúmliggjandi vegna slyssins frá 2. mars 2005 til 8. sama mánaðar en veikur án þess að vara rúmliggjandi frá 9. mars 2005 til 3. ágúst sama ár, en á þeim degi teldist heilsufar hans hafa verið orðið stöðugt. Varanlegur miski sóknaraðila vegna slyssins væri hæfilega metinn 45 stig og varanleg örorka hans 60%. Að fenginni matsgerðinni gaf sóknaraðili út framhaldsstefnu sem þingfest var 2. júní 2009. Þar krafðist hann þess að varnaraðilar greiddu sér óskipt 17.676.302 krónur. Þessa kröfu sundurliðaði hann þannig að þjáningabætur næmu 227.150 krónum, bætur vegna varanlegs miska 3.638.475 krónum, bætur vegna varanlegrar örorku 13.771.707 krónum og  annað fjártjón 38.970 krónum. Ljóst er, þrátt fyrir ritvillu í framhaldsstefnu, að við útreikning kröfu vegna þjáningabóta og bóta vegna varanlegs miska miðaði sóknaraðili við lánskjaravísitölu í júní 2009.  Krafðist hann 4,5% ársvaxta af 2.783.550 krónum frá 2. mars til 3. ágúst 2005 en af 15.022.919 krónum frá þeim degi til 5. nóvember 2006. Skýrði hann það svo í framhaldsstefnunni að krafist væri vaxta samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Í fyrsta lagi væri þeirra krafist frá slysdegi 2. mars 2005 til upphafsdags metinnar örorku samkvæmt mati dómkvaddra manna 3. ágúst sama ár af samtölu þeirrar fjárhæðar sem krafist var í stefnu vegna 40 stiga varanlegs miska samkvæmt mati Atla Þórs (2.556.400 krónur) og þeirrar fjárhæðar sem krafist væri í framhaldsstefnu vegna þjáningabóta samkvæmt mati dómkvaddra manna (227.150 krónur). Í öðru lagi væri þessara vaxta krafist af 15.022.919 krónum frá stöðugleikapunkti samkvæmt mati dómkvaddra manna 3. ágúst 2005 og til 5. nóvember 2006, en þá var mánuður liðinn frá því að fyrrnefnt kröfubréf var sent. Fjárhæðin væri samtala kröfu vegna þjáningabóta samkvæmt framhaldsstefnu (227.150 krónur), kröfu vegna bóta fyrir annað fjártjón (38.970 krónur), kröfu fyrir varanlegan miska samkvæmt sundurliðun á upphaflegri stefnukröfu (2.556.400 krónur) og loks kröfu vegna varanlegrar örorku einnig samkvæmt upphaflegri stefnukröfu (12.200.399 krónur). Frá 5. nóvember 2006 krafðist sóknaraðili dráttarvaxta af sömu fjárhæð (15.022.919 krónum) til 2. júlí 2009, en þann dag væri mánuður liðinn frá því að framhaldsstefna var þingfest, en dráttarvaxta af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Við upphaf aðalmeðferðar 10. febrúar 2011 lagði sóknaraðili fram skjal sem bar fyrirsögnina „lækkun á dómkröfum“ Þar er höfð uppi aðalkrafa sem er samhljóða kröfu í framhaldssök að öðru leyti en því að það tímabil sem krafist er 4,5% ársvaxta af 2.783.550 krónum er lengt þannig að það tekur til tímabilsins frá 2. mars 2005 til 27. júní 2006 í stað þess að ná til 5. ágúst 2005 og það tímabil sem 4,5% árvaxta er krafist af 15.022.919 krónum er stytt að sama skapi. Þessi breyting er skýrð þannig að eðlilegra sé að fyrra tímabilið nái til upphafsdags metinnar örorku (stöðugleikapunkts) samkvæmt örorkumati Atla Þórs, sem sé 27. júní 2006. Í annan stað er í þessu dómskjali sett fram varakrafa sem er samhljóða aðalkröfunni að öðru leyti en því að dráttarvaxta er ekki krafist fyrr en frá 2. júlí 2009 og þær fjárhæðir sem 4,5% ársvaxta er krafist af frá slysdegi og fram að upphafsdegi dráttarvaxta eru aðrar en í aðalkröfu.

Í kröfugerð sinni gerir sóknaraðili ekki ráð fyrir frádrætti samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga enda telur hann að skilyrði séu ekki fyrir því að slíkum frádrætti sé beitt. Varnaraðilar kröfðust þess hins vegar til vara í greinargerðum sínum til héraðsdóms að krafa hans yrði lækkuð af  þessum sökum og skoruðu á hann að leggja fram gögn þar að lútandi. Hann aflaði af þessu tilefni ýmissa gagna og útreikninga, sem ekki hafa þó haft áhrif á kröfur hans önnur en þá að varakrafa sýnist eiga rót sína að rekja til þeirra.

Samkvæmt 29. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt með framhaldsstefnu að auka við kröfugerð eftir þingfestingu máls en fyrir aðalmeðferð þess ef það verður ekki metið aðilanum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu. Eftir þingfestingu málsins aflaði sóknaraðili mats dómkvaddra manna um afleiðingar slyssins 2. mars 2005 af gefnu tilefni í greinargerðum varnaraðila. Niðurstaða matsgerðarinnar var meðal annars hærra mat á miskastigi og örorkuhlutfalli en fyrir lá í því örorkumati sem stefna byggði á. Sóknaraðila var af þessu tilefni heimilt að auka við kröfur sínar með framhaldsstefnu. Kröfugerð hans er vissulega allflókin, einkum að því er vaxtakröfur varðar, en forsendur hennar eru skýrðar í framhaldsstefnu og endanlegri kröfugerð. Málið er að þessu leyti fullreifað af hans hálfu og verður ekki séð að gagnaðilum hafi verið gert erfitt fyrir um varnir af þessum sökum. Ekki verður heldur séð að þau gögn sem sóknaraðili hefur af gefnu tilefni aflað og lagt fram og lúta að greiðslum frá þriðja aðila, sem hugsanlega gætu haft áhrif samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga til lækkunar á kröfu hans, hafi horft til óskýrleika þannig að frávísun geti varðað. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðilanum Fjölhæfni ehf. verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og  í dómsorði greinir en kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilinn Fjölhæfni ehf. greiði sóknaraðila, Sigurði Bergþórssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað. Kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður. 

                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2011.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 10. febrúar sl., er höfðað með birtingu stefnu 8. október 2008 og með framhaldsstefnu sem þingfest var 2. júní 2009. 

Stefnandi er Sigurður Bergþórsson, Holtsgötu 21, Reykjavík.

Stefndu eru Hlutafélagið Eimskipafélag Íslands, Korngörðum 2, Reykjavík, Rými ehf., Háteigsvegi 7, Reykjavík, Fjölhæfni ehf., Ránarvöllum 12, Reykjanesbæ og til réttargæslu Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda samkvæmt ,,lækkun á dómkröfum“ eru aðallega að stefndu, Hf. Eimskipafélag Íslands, Rými ehf. og Fjölhæfni ehf., verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega 17.676.302 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.783.550 krónum frá 2. mars 2005 til 27. júní 2006, en af 15.022.919 krónum frá þeim degi til 5. nóvember 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 2. júlí 2009, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af 17.676.302 krónum auk áfallinna vaxta, til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega 17.676.302 krónur með 4,5% vöxtum af 3.865.625 frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005, en af 17.676.302 frá þeim degi til 2. júlí 2009 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, til greiðsludags.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu sameiginlega, líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál, samkvæmt málskostnaðarreikningi eða mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Stefnandi gerir ekki kröfur á hendur réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Stefndi Hf. Eimskipafélag Íslands krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Stefndi Rými ehf. krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

Stefndi Fjölhæfni ehf. krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda.

Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og aðeins teknar til greina að óverulegu leyti.

Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.

Málsatvik

Stefndi, Hf. Eimskipafélag Íslands (hér eftir nefnt Eimskip) bauð í nóvember 2004 út kaup á hillukerfi og uppsetningu þess í vöruhóteli stefnda og tók stefndi tilboði stefnda Rýmis ehf. í verkið. Stefndi, Rými ehf., mun hafa samið við tvo verktaka um uppsetningu hillukerfisins, Stefán Má Sturluson smið og stefnda, Fjölhæfni ehf. Stefnandi var á þessum tíma starfsmaður stefnda Fjölhæfni ehf. en mun hafa verið lánaður til stefnda Rýmis ehf. til að vinna að uppsetningu hillukerfisins.

Hinn 2. mars 2005 varð stefnandi fyrir vinnuslysi er hann var að festa upp hillueiningar. Hann stóð á vörubretti sem lyft hafði verið upp í 2,65 metra hæð með lyftara. Lyftarinn var í eigu stefnda Eimskips og stjórnað af starfsmanni félagsins, Bjarna Garðarssyni, en Stefán Már stóð á gólfinu og leiðbeindi stefnanda. Stefnandi mun hafa verið að festa lykkju í þverslá þegar sláin losnaði, með þeim afleiðingum að hreyfing kom á brettið. Við það missti stefnandi jafnvægið og féll niður á gólf og lenti á fótunum með þeim afleiðingum að báðir hælar hans brotnuðu. Stefnandi var fluttur á slysadeild Landspítalans þar sem hann var skoðaður. Við þá skoðun kom í ljós hælbrot á báðum fótum.

Stefnandi óskaði eftir því að Atli Þór Ólason bæklunarskurðlæknir mæti afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Niðurstaða læknisins, sem ekki var dómkvaddur, var sú að varanlegur miski stefnanda væri 40 stig og varanleg örorka 50%. Undir rekstri málsins voru dómkvaddir Halldór Baldursson bæklunarlæknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður til að meta afleiðingar slyssins. Niðurstaða matsmanna var sú að varanlegur miski stefnanda væri 45 stig og varanleg örorka 60%. Þeir töldu að heilsufar hans hefði verið orðið stöðugt 3. ágúst 2005.

Undir rekstri málsins var Halldór Baldursson bæklunarlæknir dómkvaddur á ný til að meta hversu stór hluti af metinni örorku stefnanda hjá almannatryggingum og lífeyrissjóðum væri tilkominn vegna afleiðinga umrædds vinnuslyss stefnanda. Niðurstaða matsmannsins var sú að örorka stefnanda, eins og hún er metin í örorkumatsgerðum almannatrygginga, sé að 40% leyti tilkomin vegna afleiðinga umrædds vinnuslyss, og að örorka stefnanda, eins og hún er metin í matsgerðum vegna orkutaps á vegum lífeyrissjóða, sé að 75% leyti tilkomin vegna afleiðinga umrædds vinnuslyss. Í matsgerð Atla Þórs Ólasonar kemur fram að stefnandi var við nám í Iðnskólanum í Reykjavík við trésmíði, en hætti þegar hann átti eftir eina önn. Þá hafði stefnandi unnið verkamannavinnu við húsbyggingar í mörg ár fyrir slys það sem mál þetta fjallar um

Stefnandi krafði stefndu Rými ehf. og réttargæslustefnda um bætur með bréfum í október 2006, en réttargæslustefndi, sem er vátryggingafélag stefndu Eimskips og Rýmis ehf., hefur neitað bótaskyldu í málinu.

Aðilar málsins deila um aðdraganda þess að vörubretti var notað við vinnu stefnanda og um verkstjórn á staðnum. Stefndu hafna bótaskyldu á grundvelli eigin sakar stefnanda. Ágreiningur er um útreikning einstakra kröfuliða stefnanda og um upphafstíma dráttarvaxta. Ekki er ágreiningur milli aðila um niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna.

Niðurstaða.

Stefnandi höfðaði mál þetta með stefnu 8. október 2008 og var málið þingfest 14. október 2008. Í stefnu var gerð krafa um greiðslu á 16.499.142 krónum auk vaxta og dráttarvaxta, vegna vinnuslyss sem stefnandi hefði orðið fyrir 2. mars 2005

Í stefnunni var gerð sú grein fyrir kröfunni að um væri að ræða tímabundið atvinnutjón 1.155.693 krónur, þjáningabætur að fjárhæð 547.680 krónur, varanlegan miska 40%, 2.556.400 krónur, varanlega örorku 50%, 12.200.399 krónur, og annað fjártjón 38.970 krónur, samtals 16.499.142 krónur. Fjárhæð þjáningabóta og varanlegs miska var miðuð við lánskjaravísitölu í október 2006, en stefnandi sendi kröfubréf til réttargæslustefnda og stefnda Rýmis ehf. í október 2006.

Kvað stefnandi að til grundvallar bótaútreikningi lægi örorkumat Atla Þórs Ólasonar, læknis frá 30. júní 2006 og að því hefði ekki verið mótmælt. Mat hann stöðugleikapunkt stefnanda 27. júní 2006.

Í greinargerðum allra stefndu var örorkumati Atla Þórs mótmælt sem of háu og fór stefnandi fram á dómkvaðningu matsmanna til að meta örorku stefnanda. Dómkvaddir voru matsmenn í þinghaldi 11. febrúar 2009, þeir Ingvar Sveinbjörnsson hrl. og Halldór Baldursson bæklunarlæknir. Matsgerð þeirra er dagsett 25. maí 2009. Þeir töldu að ekki væri frekari bata að vænta hjá stefnanda eftir 3. ágúst 2005, þ.e. fyrr en samkvæmt mati Atla Þórs Ólasonar læknis. Þá mátu þeir varanlegan miska 45%, þ.e. hærri en Atli Þór hafði metið hann. Þeir mátu og varanlega örorku stefnanda 60%, þ.e. hærri en samkvæmt matsgerð Atla Þórs.

Í þinghaldi 17. desember 2009 óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að láta í ljós skriflegt og rökstutt álit á því, í fyrsta lagi, hversu stór hluti af metinni örorku stefnanda hjá almannatryggingum og lífeyrissjóðum, eins og hún var metin 3. ágúst 2005, væri til kominn vegna afleiðinga vinnuslyss stefnanda 2. mars 2005. Í öðru lagi var óskað mats á því hversu stór hluti af metinni örorku stefnanda hjá almannatryggingum og lífeyrissjóðum væri til kominn vegna afleiðinga vinnuslyss stefnanda 2. mars 2005.

Niðurstaða matsmanns, Halldórs Baldurssonar bæklunarlæknis frá 31. janúar 2010, var sú að við mat á orkutapi (örorkumati) fyrir lífeyrissjóði miðað við ástand matsbeiðanda 3. ágúst 2005, hafi þrír fjórðu hlutar metinnar örorku verið til komnir vegna afleiðinga slyss 2. mars 2005, en einn fjórði vegna afleiðinga sjúkdóms og vegna slyss 11. maí 1995.

Í ljósi niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um varanlegan miska og varanlega örorku, óskaði lögmaður stefnanda eftir því að fá að neyta heimildar í 29. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um útgáfu framhaldsstefnu og lagði fram í málinu framhaldsstefnu í þinghaldi 2. júní 2009.

Í framhaldsstefnu er þess krafist að stefndu, Eimskipafélagi Íslands, Rými ehf. og Fjölhæfni ehf. verði sameiginlega gert að greiða stefnanda 17.676.302 krónur. Krafist var 4,5 % ársvaxta af 2.783.550 krónum frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005. Krafist var 4,5% vaxta af 15.022.919 krónum frá 3. ágúst 2005 til 5. nóvember 2006. Frá 5. nóvember 2006 var krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/1001 um vexti og verðtryggingu af 15.022.919 krónum auk áfallinna vaxta, til 2. júlí 2009, en frá þeim degi var krafist dráttarvaxta af 17.676.302 krónum auk áfallinna vaxta, til greiðsludags.

Með ,,lækkun á dómkröfu“ sem lögð var fram við upphaf aðalmeðferðar máls 10. febrúar 2011, var kröfunni enn breytt. Þar var þess krafist í aðalkröfu að stefndu yrðu sameiginlega dæmdir til að greiða stefnanda 17.676.302 krónur með 4,5% ársvöxtum af 2.783.550 krónum frá 2. mars 2005 til 27. júní 2006, en frá þeim degi af 15.022.919 krónum til 5. nóvember 2006, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt  1. mgr. 6. gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu til 2. júlí 2009, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af 17.676.302 krónum auk áfallinna vaxta, til greiðsludags.

Í varakröfu er þess krafist að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda 17.676.302 krónur með 4.5% vöxtum af 3.865.62 krónum frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005, en frá þeim degi  af 17.676.302 kr. til 2. júlí 2009, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.

Gerð var sú grein fyrir breytingum þessum að í raun væri aðeins gerð krafa um lækkun á vaxtakröfu frá því sem verið hefði í framhaldsstefnu. Í framhaldsstefnu hafi verið krafist vaxta af bótum fyrir þjáningar og varanlegan miska frá slysdegi, þ.e. 2. mars 2005 til upphafsdags metinnar örorku samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, þ.e. 3. ágúst 2005. Rétt sé að þetta tímabil nái til upphafsdags metinnar örorku samkvæmt matsgerð Atla Þórs, þ.e. til 27. júní 2006.

Breytingin felist þannig í því að nú sé krafist vaxta fyrir þjáningar og varanlegan miska frá slysdegi til 27. júní 2006. Frá og með 27. júní 2006, sé svo krafist vaxta af öðru fjártjóni, miska og varanlegri örorku samkvæmt mati Atla Þórs en þjáningum samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, alls 15.022.9191 til 5. nóvember 2006.

Um útskýringu á varakröfu segir stefnandi að krafan sé gerð samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna, hún sé eins og krafa í framhaldsstefnu, að öðru leyti en því að ekki sé gert ráð fyrir frádrætti samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og því sé krafist dráttarvaxta af öllum höfuðstólnum frá og með mánuði eftir birtingu framhaldsstefnu.

Við aðalmeðferð málsins var einnig lagt fram af hálfu stefnanda, skjal sem ber yfirskriftina ,,útreikningur í kjölfar niðurstöðu tryggingastærðfræðings, dags. 3. febrúar 2011.“

Þar segir að ef talið verði að krafa stefnanda eigi að sæta frádrætti á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sé þess krafist að stefndu greiði stefnanda 9.280.871 krónu með 4,5% vöxtum af 3.865.625 krónum frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005, en frá þeim degi af 9.280.871 krónu til 2. janúar 2010, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.

Samkvæmt framangreindu hefur stefnandi tvívegis breytt kröfugerð sinni frá upphaflegri kröfugerð í stefnu. Hann hefur hækkað höfuðstól kröfu sinnar með framhaldsstefnu, auk þess sem hann notar í stefnu lánskjaravísitölu októbermánaðar 2006 til viðmiðunar vegna þjáningabóta og varanlegs miska, til framreiknings kröfunnar samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga, en í framhaldsstefnu er stuðst við lánskjaravísitölu júnímánaðar 2009. Í skjali sem ber yfirskriftina ,,lækkun á dómkröfum“ er krafist vaxta af 2.783.550 krónum frá 2. mars 2005 til 27. júní 2006, en í framhaldsstefnu er krafist vaxta frá 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005 af sömu fjárhæð. Í fyrrgreindu skjali sem ber yfirskriftina ,,lækkun á dómkröfum“ er það útskýrt að rétt sé að krefjast vaxta af bótum fyrir þjáningar og varanlegan miska frá 2. mars 2005 til 27. júní 2006, í stað þess sem gert hafi verið í framhaldsstefnu til 3. ágúst 2005. Í skjali sem ber yfirskriftina ,,útreikningur í kjölfar niðurstöðu tryggingastærðfræðings dags. 3. febrúar 2011“ er hins vegar krafist vaxta af bótum fyrir þjáningar og varanlegan miska með vöxtum frá slysdegi, 2. mars 2005 til 3. ágúst 2005.

Kröfur stefnanda hafa samkvæmt framangreindu breyst æði mikið frá því að stefna var lögð fram, einkum að því er varðar þá vísitölu sem hann styðst við til framreiknings kröfunnar samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga, varðandi þjáningabætur og varanlegan miska, en einnig varðandi vaxtakröfur, án þess að viðhlítandi grein hafi verið gerð fyrir því á hvaða grunni breytingar á vaxtatímabili eru reistar og hvers vegna nota beri þá viðmiðun lánskjaravísistölu sem notuð er hverju sinni. Ber hér og að líta til þess að í þinghaldi 16. febrúar 2010 var bókað að lögmaður stefnanda óskaði eftir fresti til þess að afla mats frá tryggingastærðfræðingi og á grundvelli þess mats reikna út endanlega kröfugerð sem kynnt yrði lögmönnum í næsta þinghaldi. Í þinghaldi 11. mars var og bókað að í næsta þinghaldi þar á eftir myndi lögmaður stefnanda leggja fram endanlega kröfugerð í málinu. Í þinghaldi 15. apríl 2010 sem var næsta þinghald í málinu, var sú kröfugerð ekki lögð fram, heldur var óskað eftir að fundinn yrði tími til aðalmeðferðar málsins.

Breytingar á kröfugerð stefnanda frá upphaflegri kröfugerð, sem að framan hafa verið raktar eru síst til þess fallnar að auðvelda lögmönnum gagnaðila vörn í málinu. Er kröfugerð stefnanda og því marki brennd að erfitt er að gera sér grein fyrir útreikningi kröfunnar og á hverju útreikningar eru byggðir.

Stefnandi hefur að mati dómsins mótað algerlega nýja kröfugerð í málinu með framhaldsstefnu, en ekki einungis aukið við kröfur sínar, sbr. 29. gr. laga nr. 91/1991. Skortir hina nýju kröfugerð tengsl við kröfugerð hans í frumsök. Er ekki gerð grein fyrir því af hálfu stefnanda hvort ætlun hans hafi verið að falla frá allri kröfugerð sinni í frumsök málsins. Þá hafa skjölin ,,lækkun á dómkröfum“ og ,,útreikningur í kjölfar niðurstöðu tryggingastærðfræðings dags. 3. febrúar 2011“ ekki verið til þess fallin að varpa ljósi á þau atriði í kröfugerð stefnanda sem eru óskýr.

Samkvæmt framangreindu hefur stefnandi svo mjög hróflað við grundvelli málsins frá því að stefna var þingfest og ekki gert þá grein fyrir þeim kröfum sem eru hafðar uppi í málinu sem nauðsynlegt er samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er kröfugerð hans því svo óskýr að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu er það mat dómsins með hliðsjón af atvikum þess og álitaefnum að ekki beri að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar og verður málskostnaður látinn niður falla milli aðila.

Stefnandi hefur gjafsóknarleyfi í málinu frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá 15. febrúar 2008.

Greiðist gjafsóknarkostnaður hans að fjárhæð 3.092.185 krónur úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Daníels Isebarn Ágústssonar hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti, 2.000.000 krónur og útlagður kostnaður að fjárhæð 1.092.185 krónur.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður milli aðila.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, Sigurðar Bergþórssonar, 3.092.185 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Daníels Isebarn Ágústssonar hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti, 2.000.000 króna og útlagður kostnaður að fjárhæð 1.092.185 krónur.