Hæstiréttur íslands

Mál nr. 709/2015

Sveitarfélagið Skagafjörður (Einar Hugi Bjarnason hrl.)
gegn
Lánasjóði sveitarfélaga ohf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun

Reifun

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 94/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að nánar tilgreindur lánssamningur aðila hefði verið í íslenskum krónum bundið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Í máli þessu laut ágreiningur aðila að endurútreikningi lánsins, nánar tiltekið hvort líta ætti á greiðslur S á vöxtum af láninu á tímabilinu eftir að hann höfðaði fyrrgreint mál og fram til þess að dómurinn var kveðinn upp sem fullnaðargreiðslur vaxta. Talið var að S gæti ekki borið því við að hann hefði verið grandlaus á umræddu tímabili um að samningsbundnar vaxtagreiðslur hans hefðu verið ófullnægjandi, ef talið yrði að lánið væri bundið ólögmætri gengistryggingu. Var L ohf. því sýknaður af kröfu S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. október 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að eftirstöðvar lánssamnings aðila nr. 20/2007 hafi 16. september 2014 numið 49.264.854 krónum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í héraðsdómi hélt áfrýjandi því fram í bréfi til stefnda 22. mars 2012 að lán samkvæmt fyrrgreindum samningi hefði verið í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 14., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Var þess farið á leit að lánið yrði endurreiknað án gengistryggingar og í þeim efnum var vísað til dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Með nefndum dómi réttarins var því hafnað að kröfuhafa væri heimilt að hafa uppi viðbótarkröfu vegna vaxta fyrir liðna tíð heldur yrði slík krafa aðeins gerð til framtíðar litið. Að þessu gættu getur áfrýjandi ekki borið því við að hann hafi eftir þetta verið grandlaus um að samningsbundnar vaxtagreiðslur hans til stefnda væru ófullnægjandi, ef talið yrði að lánið væri gengistryggt í bága við fyrrgreind ákvæði laga nr. 38/2001, sbr. til hliðsjónar dómur Hæstaréttar 17. desember 2015 í máli nr. 292/2015. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sveitarfélagið Skagafjörður, greiði stefnda, Lánasjóði sveitarfélaga ohf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2015

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 4. mars 2015 og dómtekið 23. september 2015 að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er sveitarfélagið Skagafjörður, Skagfirðingabraut 21, Sauðárkróki. Stefndi er Lánasjóður sveitarfélaga ohf., Borgartúni 30, Reykjavík.

                Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að „viðurkennt verði með dómi að staða lánssamningsins nr. 20/2007, hafi 16. september 2014 verið 49.264.854 krónur“. Hann krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar 2. október 2014 í máli nr. 94/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að lán það, sem vísað er til í kröfugerð stefnanda og stefnandi tók á árinu 2007 hjá Lánasjóði sveitarfélaga, hefði verið í íslenskum krónum og bundið með ólögmætum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla. Um var að ræða lán að jafnvirði 115 milljónir íslenskra króna í evrum og bandaríkjadölum til 15 ára sem greiða skyldi með 20 afborgunum. Skuldin í evrum skyldi bera vexti sem væru sex mánaða EURIBOR-vextir að viðbættu 0,14% álagi. Skuld í bandaríkja­dölum skyldi bera vexti sem væru sex mánaða LIBOR-vextir að viðbættu 0,18% álagi. Í dómi Hæstaréttar var einnig lagt til grundvallar að stefndi, sem tekið hafði við réttindum og skyldum lánveitanda, gæti ekki krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann með skírskotun til þess að greiðsluseðlar og fyrirvaralaus móttaka stefnda á greiðslum hefðu jafngilt fullnaðarkvittun. Er þannig ágreiningslaust að taka beri tillit til fullnaðarkvittana vegna greiðslu stefnanda á samningsvöxtum fram til greiðslunnar sem átti sér stað 17. september 2012.

Umrætt dómsmál var höfðað fyrir héraðsdómi með birtingu stefnu 22. ágúst 2012. Eftir höfðun málsins innti stefnandi hins vegar af hendi fimm afborganir af vöxtum, í öllum tilvikum samkvæmt innheimtuseðlum sendum frá stefnda. Fyrir liggur að umræddir seðlar miðuðust við að lánið væri lögmætt erlent lán og voru vextir tilgreindir til samræmis við ákvæði lánssamningsins. Fyrsta afborgun stefnanda fór fram 17. september 2012. Önnur afborgun fór fram 18. mars 2013, en stefndi hafði lagt fram greinargerð sína í héraðsdómsmálinu 23. október 2012. Þriðja greiðslan fór fram 16. september 2013. Fjórða greiðslan fór fram 17. mars 2014 en dómi héraðsdóms 11. nóvember 2013 hafði þá verið áfrýjað til Hæstaréttar. Fimmta greiðslan fór fram 16. september 2014 en dómur Hæstaréttar var kveðinn upp 2. október þess árs, svo sem áður greinir. Ekki er um það deilt að ef lagt er til grundvallar að samningsvextir hafi verið fullgreiddir á umræddum gjalddögum beri að miða við að staða lánsins 16. september 2014 sé sú sem greinir í kröfugerð stefnanda. Er þannig ekki tölulegur ágreiningur með aðilum sem deila einungis um hvort stefnandi geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiddra samningsvaxta vegna fimm áðurgreindra afborgana.

Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök aðila 

                Stefnandi vísar til almennra reglna kröfuréttar um gildi fullnaðarkvittana og fordæma Hæstaréttar vegna endurútreiknings gengistryggðra lána. Vísar hann til þess að stefnandi hafi greitt af láni sínu samkvæmt innheimtuseðlum stefnda án þess að nokkrar athugasemdir eða fyrirvarar hafi komið frá þeim síðarnefnda. Öllum skilyrðum sé fullnægt til þess að stefnandi geti byggt á fullnaðarkvittunum. Hann hafi verið í góðri trú um að um væri að ræða fullnaðargreiðslu vaxta og önnur niðurstaða myndi raska hagsmunum hans verulega. Mikil festa hafi verið á greiðslum stefnanda sem hafi ætíð staðið í skilum og einnig hafi verið um að ræða aðstöðumun milli aðila. Bendir stefnandi í þessu sambandi á að stefndi sé fjármálastofnun en stefnandi sveitarfélag sem hafi ekki sérkunnáttu í fjármálum. Við munnlegan flutning málsins benti stefndi einnig á að ein greiðsla hans hefði verið gerð fyrir framlagningu greinargerðar stefnda í héraði.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skilyrðum sé ekki fullnægt til þess að stefnandi geti byggt á fullnaðarkvittunum þannig að stefndi eigi ekki rétt til fullra efnda. Leggur hann áherslu á að stefndi hafi ekki getað treyst því, við áðurgreindar greiðslur, að um væri að ræða fullnaðargreiðslur vaxta þannig að hann hafi getað talið sig hafa fengið fullnaðarkvittanir í skilningi kröfuréttar. Stefndi vísar til þess að hann hafi ekki gefið út staðfestingu þess efnis að um væri að ræða fullnaðarkvittanir. Þvert á móti hafi stefnanda mátt vera ljóst að um var að ræða ágreining með aðilum um hvort lánið væri erlent lán eða lán í íslenskum krónum. Telur stefndi að ef niðurstaðan yrði sú að lánið væri í íslenskum krónum hafi stefnanda mátt vera ljóst að hann yrði krafinn um vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að svo miklu leyti sem lög leyfðu. Við munnlegan flutning málsins vísað stefndi meðal annars til ummæla í greinargerð sinni sem lögð var fram í héraði við meðferð áðurgreinds dómsmáls. Stefndi hafnar því einnig að nánari skilyrði fyrir beitingu fullnaðarkvittana séu uppfyllt, svo sem að aðstöðumunur hafi verið á milli aðila. Til vara er á því byggt að stefnandi hafi samþykkt endurútreikning stefnda með fyrirvaralausri greiðslu 16. mars 2015.

Niðurstaða

                Í málinu liggur fyrir að stefnandi sendi stefnda bréf 22. mars 2012, þar sem því var haldið fram að umrætt lán væri bundið ólögmætri gengistryggingu. Var vísað til nánar tiltekinna dóma Hæstaréttar þessu til stuðnings. Þá var þess krafist að stefndi endurreiknaði lánið í samræmi við dóm Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Í þeim dómi er vitnað til forsendna dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, þar sem efnislega kom fram að ógildi ákvæðis lánssamnings um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samnings um vaxtahæð. Var það niðurstaða Hæstaréttar í því máli að um vexti skyldi því fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. nú 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010. Í dóminum 15. febrúar 2012 var þrátt fyrir þetta talið að skilyrði væru þar uppfyllt til þess að víkja frá þessu viðmiði um vexti með vísan til reglu kröfuréttar um fullnaðarkvittanir.

Svo sem áður greinir höfðaði stefnandi mál gegn stefnda á þeim grundvelli sem byggt var á í bréfinu 22. mars 2012. Málið var höfðað með stefnu birtri 22. ágúst þess árs og lauk því endanlega með dómi Hæstaréttar 2. október 2014. Svo sem áður greinir snýst ágreiningur aðila einungis um greiðslu vaxta vegna fimm afborgana sem fram fóru eftir þessa málshöfðun og er ekki um það deilt að ef miðað er við að fullnaðargreiðslu vaxta fram til 16. september 2014 er staða lánsins sú sem greinir í kröfugerð stefnanda.

                Að mati dómsins verður ekki önnur ályktun dregin af bréfinu 22. mars 2012 en að stefnanda hafi verið fullljóst að samkvæmt fordæmum Hæstaréttar var litið svo á að órjúfanlegt samband væri milli ákvæða lánssamnings um vexti og gengistryggingar samnings. Leiddi ógildi gengistryggingar þannig almennt til þess að alfarið bæri að líta fram hjá ákvæðum lánssamnings um vaxtahæð. Með greiðslum af téðu láni eftir þetta tímamark gat stefnandi þar af leiðandi aldrei verið í góðri trú um að greiðslur hans á vöxtum af láninu, sem miðuðust við ákvæði lánssamningsins óbreytt, væru fullnaðargreiðslur vaxta, enda væri fallist á sjónarmið hans um að samningurinn hefði verið bundinn ólögmætri gengistryggingu, svo sem síðar varð raunin. Með sama hætti gat það ekki valdið stefnanda ósanngjarnri röskun við þessar aðstæður að hann væri eftir þetta tímamark krafinn um vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og þar með fullar efndir samkvæmt nánari fyrirmælum 18. gr. laga nr. 38/2001.

                Þegar málið er virt heildstætt telur dómurinn að málatilbúnaður stefnanda feli í reynd í sér kröfu um samningsvexti á höfuðstól gengistryggðs láns eftir það tímamark þegar stefnanda mátti vera fulljóst að forsendur voru brostnar fyrir samningsvöxtum og jafnframt að um vexti af slíkum lánum giltu ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001. Atvik eru því með öðrum hætti en þau sem byggt var á í dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 sem vísað hefur verið til af stefnanda. Á það er einnig að líta að alkunna er að samningsvextir af lánum sem miðuðust við vexti á alþjóðlegum millibankamörkuðum, svo sem hér um ræðir, voru umtalsvert lægri en vextir sem buðust á íslenskum markaði af lánum í íslenskum krónum. Mælti þetta einnig eindregið gegn því að stefnandi hefði réttmæta ástæðu til að ætla að innheimtuseðlar, sem hann fékk senda frá stefnda, og greiðsla á grundvelli þeirra fælu í sér fullnaðarkvittanir. Þvert á móti gaf afstaða stefnda, meðal annars eins og hún kom fram í bréfi hans 17. apríl 2012 og greinargerð hans fyrir héraðsdómi 23. október 2012, skýrt til kynna að hann krefðist fullra efnda, hvort heldur væri litið á lánið sem lögmætt erlent lán eða gengistryggt lán í íslenskum krónum sem bæri í því tilviki vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Er því ekki fullnægt skilyrðum til að stefnandi geti byggt á fullnaðarkvittunum fyrir greiðslu samningsvaxta vegna þeirra fimm greiðslna sem áður er lýst.

                Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda. Eftir úrslitum málsins og atvikum þess verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þorsteinn I. Valdimarsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Heiðar Örn Stefánsson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Lánasjóður sveitarfélaga ohf., skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

                Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.