Hæstiréttur íslands
Mál nr. 247/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Þriðjudaginn 16. maí 2006. |
|
Nr. 247/2006. |
Svavar Rúnar Guðnason(sjálfur) gegn þrotabúi Svavars Rúnars Guðnasonar (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Ekki var fallist á kröfu S um að bætur, sem hann fékk dæmdar vegna ólögmætrar uppsagnar á aksturssamningi, kæmu ekki til skipta við endurupptöku skipta á þrotabúi hans. Var talið að S hefði haft heimild til málsóknarinnar í eigin nafni, en til hagsbóta fyrir þrotabúið, samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en ekki var fallist á með S að skiptastjóri hefði, með yfirlýsingu um að þrotabúið myndi ekki koma frekar að umræddri málsókn, fyrirgert tilkalli þrotabúsins til hinnar dæmdu fjárhæðar. Þá var ekki talið að regla 2. ml. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991 leiddi til þess að halda bæri umræddri greiðslu utan skipta, enda liðinn sá frestur sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 45. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 21. apríl 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dæmd fjárhæð samkvæmt dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 132/2005, kæmi ekki til skipta við endurupptöku á þrotabúi hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina þannig að dæmd fjárhæð renni óskipt til hans að teknu tilliti til uppgjörs á lögmannskostnaði vegna reksturs hæstaréttarmálsins.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 21. apríl 2006.
Ágreiningur sá sem hér er til meðferðar var tekinn til úrskurðar 31. mars sl.
Sóknaraðili er Svavar Rúnar Guðnason, Blikahólum 4, Reykjavík.
Varnaraðili er Þrotabú Svavars Rúnars Guðnasonar.
Sóknaraðili krefst þess að tildæmd fjárhæð samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 132/2005, komi ekki til skipta við endurupptöku skipta á þrotabúi Svavars Rúnars Guðnasonar, en renni óskipt til sóknaraðila, að teknu tilliti til uppgjörs á lögmannskostnaði vegna reksturs hæstaréttarmálsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Prentsmiðjan Grafík hf. og Svavar Rúnar Guðnason gerðu 20. desember 2000 með sér samning um útkeyrslu á prentgripum og öðru efni fyrir prentsmiðjuna. Í samningi kemur fram að Svavar vinni þá vinnu sem verktaki og hafi alla ábyrgð á bifreið og því sem þurfi við aksturinn. Gildi samningsins er frá undirritun til 31. desember 2003, en komi upp ágreiningur í samstarfi sé uppsögn á samningi þrír mánuðir. Með bréfi 30. nóvember 2001 var samningi af hálfu prentsmiðjunnar sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara á grundvelli breytinga í starfsemi prentsmiðjunnar. Þorbjörn Árnason héraðsdómslögmaður ritaði prentsmiðjunni bréf 29. janúar 2002 vegna Svavars Rúnars Guðnasonar. Er gerð sú krafa að samningurinn verði áfram í gildi í samræmi við ákvæði samningsins. Reynir Karlsson hæstaréttarlögmaður ritaði bréf 27. febrúar 2002 til Þorbjörns Árnasonar héraðsdómslögmanns þar sem áréttaður er sá skilningur prentsmiðjunnar að unnt hafi verið að segja samningi upp með þriggja mánaða fyrirvara og að staðið verði við uppsögn samningsins. Þorbjörn Árnason héraðsdómslögmaður ritaði bréf 26. mars 2002 til prentsmiðjunnar og gerði kröfu um að samningur yrði efndur. Prentsmiðjurnar Grafík hf. og Steindórsprent-Gutenberg ehf. sameinuðust eftir þetta undir nafninu Gutenberg ehf. Svavar Rúnar Guðnason höfðaði 10. júní 2002 mál á hendur prentsmiðjunni Gutenberg ehf., og hafði uppi kröfur um að samningur aðila væri í fullu gildi, auk þess sem höfð var uppi fjárkrafa. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2003 var málinu vísað frá dómi.
Með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða 25. júní 2003 var bú Svavars Rúnars Guðnasonar tekið til gjaldþrotaskipta. Björn Jóhannesson héraðsdómslögmaður var skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Frestdagur í skiptunum var 22. apríl 2003. Mánudaginn 6. október 2003 tók skiptastjóri skýrslu af þrotamanni, en þar kom fram að Svavar hafi verið með sendibílaakstur í Reykjavík á grundvelli samnings við Prentsmiðjuna Grafík hf. Hafi samningi verið sagt upp af hálfu gagnaðila með þriggja mánaða fyrirvara. Þorbjörn Árnason héraðsdómslögmaður hafi farið með mál Svavars á hendur prentsmiðjunni fyrir héraðsdóm, en Héraðsdómur Reykjavíkur vísað málinu frá dómi. Ekki kvaðst Svavar vita um stöðu málsins, en um hafi verið að ræða kröfu á hendur prentsmiðjunni upp á 14.000.000 króna. Kvaðst Svavar vilja ítreka að ólokið væri málaferlum við prentsmiðjuna og að niðurstaða í því máli væri í raun forsenda fyrir því að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar í framtíðinni.
Skiptastjóri ritaði bréf 30. október 2003 til Þorbjarnar Árnasonar héraðsdómslögmanns þar sem fram kemur að við skýrslutöku af þrotamanni hafi komið í ljós að hann hafi staðið í málaferlum vegna uppsagnar á verksamningi og að Þorbjörn hafi annast málareksturinn fyrir hönd Svavars. Er óskað upplýsinga um stöðu málsins þar sem fyrirhugað sé að ljúka skiptum áður en langt um líði.
Sóknaraðili höfðaði nýtt mál gegn Gutenberg ehf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 20. febrúar 2004 og hafði upp dómkröfur þess efnis að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 12.079.341 krónu, auk vaxta. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2005 var stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.706.342 krónur, auk vaxta og málskostnaðar. Sóknaraðili áfrýjaði héraðsdómi til Hæstaréttar Íslands, sem með dómi í málinu nr. 132/2005, sem upp var kveðinn 17. nóvember 2005, dæmdi Gutenberg ehf. til að greiða sóknaraðila 7.335.564 krónur auk vaxta og 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Á meðal gagna málsins er afrit af tölvupósti er skiptastjóri hefur sent Jónasi Þór Jónassyni héraðsdómslögmanni 21. apríl 2004. Lýsir skiptastjóri því að við skýrslutöku af þrotamanni hafi komið í ljós að eina eign búsins hafi verið yfirveðsett bifreið, auk þess sem þrotamaður hafi upplýst að hann teldi sig eiga fjárkröfu á aðila í Reykjavík vegna sendibílaaksturs. Þorbjörn Árnason héraðsdómslögmaður hafi verið með málið fyrir þrotamann og hafi skiptastjóri ritað lögmanninum bréf þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um málareksturinn. Því bréfi hafi ekki verið svarað. Máli þrotamanns hafi á sínum tíma verið vísað frá dómi en hugmyndir hafi verið uppi hjá Þorbirni og þrotamanni að höfða málið að nýju. Hafi skiptastjóri séð gögn varðandi þann málarekstur og ljóst að þrotabúið myndi ekkert koma frekar að því máli og því væri ekkert því til fyrirstöðu að ljúka búskiptum. Hafi skiptastjóri boðað til skiptafundar til að ljúka skiptum 21. maí 2004.
Í gögnum málsins liggur frammi endurrit af skiptafundi í þrotabúi Svavars Rúnars Guðnasonar sem haldinn var 21. maí 2004. Fram kemur að til fundar hafi verið boðað með auglýsingu í Lögbirtingablaði 5. maí 2004. Af hálfu kröfuhafa búsins hafi ekki verið mætt á skiptafundinn. Í fundargerð er m.a. ritað að skiptastjóri upplýsi að þrotabúið muni ekkert aðhafast frekar vegna þeirra málaferla er þrotamaður sé í gagnvart Prentsmiðjunni Grafík hf., en af hálfu þrotabúsins muni það verða látið átölulaust þótt þrotamaður haldi sjálfur áfram málsókn á eigin kostnað og án skuldbindinga fyrir þrotabúið. Í framhaldi er lýst yfir að skiptum sé lokið á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991.
Skiptastjóri ritaði Reyni Karlssyni hæstaréttarlögmanni bréf 13. október 2004 vegna málefna þrotabús Svavars Rúnars Guðnasonar. Í bréfinu kemur fram að skiptastjóri hafi 30. október 2003 ritað Þorbirni Árnasyni héraðsdómslögmanni bréf þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um málarekstur þrotamanns. Ekki hafi borist svar við því bréfi og Þorbjörn andast stuttu síðar. Ljóst hafi verið að þrotabúið kæmi ekki til með að koma frekar að málinu og hafi 21. maí 2004 verið haldinn skiptafundur í þrotabúinu þar sem skiptum hafi verið lokið. Skiptastjóri hafi ekkert frekar heyrt af málaferlum þrotamanns fyrr en 13. október 2004 er hann hafi fengið vitneskju um að málið hafi verið höfðað að nýju.
Skiptastjóri hefur 22. nóvember 2005 ritað Prentsmiðjunni Gutenberg ehf. bréf vegna málefna sóknaraðila. Þar kemur fram að hann hafi fengið vitneskju um að 17. nóvember 2005 hafi fallið dómur í Hæstarétti Íslands í máli Svavars Rúnars Guðnasonar gegn Prentsmiðjunni Gutenberg ehf. þar sem Gutenberg ehf. hafi verið dæmt til að greiða Svavari 7.335.564 krónur, auk vaxta og málskostnaðar. Bú Svavars hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 25. júní 2003 og skiptum lokið 21. maí 2004 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Ljóst sé að krafa sú sem dæmd hafi verið í Hæstarétti 17. nóvember 2005 hafi verið til komin áður en bú Svavars hafi verið tekið til skipta og í ljósi þess og með vísan til 164. gr. laga nr. 21/1991 beri að taka skiptin upp að nýju ef eignin standi þrotabúinu til ráðstöfunar. Hafi skiptastjóri ákveðið að taka upp skipti í þrotabúinu og þess farið á leit að dómkrafa samkvæmt dómi Hæstaréttar verði greidd þrotabúinu. Bréfi þessi fylgir afrit af tilkynningu um innborgun. Samkvæmt henni greiddi Gutenberg ehf. inn á reikning lögmannsstofu Björns Jóhannessonar héraðsdómslögmanns 29. nóvember 2005, 14.308.052 krónur.
Björn Jóhannesson héraðsdómslögmaður hefur 28. desember 2005 ritað Kristni Bjarnasyni hæstaréttarlögmanni bréf þar sem rakin eru atvik í tengslum við málefni þrotabús Svavars Rúnars Guðnasonar. Er lýst upplýsingum um málarekstur Svavars gagnvart Prentsmiðjunni Grafík ehf., framvindu þess máls og bréfi er Björn sendi Þorbirni Árnasyni héraðsdómslögmanni vegna málarekstursins. Björn hafi aftur farið yfir gögn málsins í byrjun apríl 2004 og það verið mat hans að ekki væri ástæða til þess að þrotabúið héldi áfram með málið enda það skoðun Björns að frekar væri á brattann að sækja í málinu fyrir stefnanda. Í framhaldi hafi verið boðað til skiptafundar til að ljúka skiptum. Jónas Þór Jónasson héraðsdómslögmaður hafi haft samband við Björn þar sem hann hafi gert grein fyrir því að Svavar hafi leitað til sín vegna málareksturs. Leitað hafi verið eftir afstöðu þrotabúsins til málsins. Hafi erindinu verið svarað þannig að þrotabúið kæmi ekki frekar að því máli. Bókun á skiptafundi hafi ekki verið hugsuð þannig að þrotabúið væri að afsala sér kröfunni eða réttindum er það kynni að eiga lögum samkvæmt. Því væri hins vegar ekki að neita að bókunin væri óskýr þar sem ekki kæmi fram að frekari málarekstur af hálfu þrotamanns skyldi vera til hagsbóta fyrir þrotabúið. Einungis væri bókað að þrotabúið léti það átölulaust að þrotamaður héldi áfram málsókn á eigin kostnað og án skuldbindinga fyrir þrotabúið. Ekki hafi verið haft samband við þrotamann eða lögmann hans varðandi bókunina og þeim ekki gerð grein fyrir afstöðu búsins til þess atriðis. Í því ljósi kynni að vera að þeir aðilar hafi skilið bókunina með þeim hætti að allt frekara framhald málsins væri alfarið í höndum þrotamanns, bæði kostnaður við málareksturinn og það sem kynni að fást út úr málinu. Að endingu er áréttað að þrotabúið hafi á sínum tíma enga burði haft til að halda áfram með málið, kröfuhafar búsins hafi ekki látið málið sig varða og skiptastjóri verið mjög efins um stöðu þrotamanns í málinu.
Kristinn Bjarnason hæstaréttarlögmaður hefur 20. janúar 2006 ritað Lögheimtunni, Innheimtustofnun sveitarfélaga, Lögmönnum Kópavogi, Lögmönnum Borgartúni 18, AM kredit og Sýslumanninum á Patreksfirði samhljóða bréf þar sem rakin eru málefni þrotabús Svavars Rúnars Guðnasonar og málaferli þrotamanns á hendur Gutenberg ehf. Skiptastjóri hafi endurupptekið skipti í búinu og fengið dómskuld samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands greidda. Björn Jóhannesson héraðsdómslögmaður hafi 6. desember 2005 óskað eftir því við Héraðsdóm Vestfjarða að verða leystur frá störfum skiptastjóra. Héraðsdómur hafi 9. desember 2005 skipað Kristinn skiptastjóra í þrotabúinu. Með bréfi 22. desember 2005 hafi Jónas Þór Jónasson héraðsdómslögmaður, fyrir hönd þrotamanns, gert kröfu um að tildæmd fjárhæð kæmi ekki til skipta við endurupptöku á skiptum í þrotabúinu, heldur rynni óskipt til hans að teknu tilliti til uppgjörs á lögmannskostnaði við rekstur málsins. Hafi lögmaðurinn óskað eftir að skiptafundur yrði haldinn þar sem formleg afstaða yrði tekin til kröfu þrotamanns. Skiptastjóri hafi í framhaldi leitað eftir afstöðu fyrri skiptastjóra til þess álitaefnis. Hafi bréf fyrrverandi skiptastjóra frá 28. desember 2005 borist þar sem fram hafi komið það viðhorf hans að hann hafi ekki afsala þrotabúinu kröfunni heldur hafi þrotamanni verið veitt heimild til að halda áfram málarekstri á eigin áhættu og ábyrgð. Ágreiningsefni lyti að því hvort fyrri skiptastjóri hafi með aðgerðum sínum afsalað tilgreindri kröfu til þrotamanns þannig að bindandi væri fyrir þrotabúið eða hvort líta bæri svo á að hann hafi heimilað þrotamanni að reka tilgreint dómsmál á eigin kostnað og áhættu en til hagsbóta þrotabúinu með þeim hætti sem kveðið væri á um í 130. gr. laga nr. 21/1991. Þá héldi þrotamaður því fram að um væri að ræða kröfu sem væri undanþegin fjárnámi og ætti því ekki að renna til þrotabúsins. Væru þau sjónarmið byggð á því að í raun hafi verið um að ræða ógjaldfallin vinnulaun. Boðaði skiptastjóri til skiptafundar til að fjalla um kröfu þrotamanns.
Mánudaginn 30. janúar 2006 hélt skiptastjóri þrotabús Svavars Rúnars Guðnasonar skiptafund vegna endurupptöku skipta vegna hæstaréttarmálsins nr. 132/2005. Á fundinn var mætt fyrir hönd sýslumanns, Lögmanna Borgartúni 18 og Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Þá var þrotamaður sjálfur mættur á fundinn. Í endurriti úr fundargerðarbók er lýst afstöðu einstakra kröfuhafa til álitaefnisins. Lýsa kröfuhafar yfir að þeir telji að fjármunir samkvæmt dómi Hæstaréttar eigi að renna til þrotabúsins. Ekki sé gerð athugasemd við að Lögmönnum Borgartúni 18 verði greiddur tildæmdur málskostnaður. Í lokin er fært til bókar að skiptastjóri lýsi því yfir að það sé afstaða hans að fjármunir sem greiddir hafi verið þrotabúinu frá dómþola í hæstaréttarmálinu nr. 132/2005 sé eign búsins og eigi að koma til skipta og að hann muni hlutast til um að greiða Lögmönnum Borgartúni 18 dæmdan málskostnað að fjárhæð 600.000 krónur. Fært er til bókar að Svavar Rúnar Guðnason mótmæli afstöðu skiptastjóra varðandi eignarhald á kröfunni. Ekki takist að jafna ágreining um kröfuna og verði honum beint til Héraðsdóms Vestfjarða í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.
Með bréfi 1. febrúar 2006 hefur skiptastjóri þrotabús Svavars Rúnars Guðnasonar, sent ágreining þennan til héraðsdóms, á grundvelli 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að þáverandi skiptastjóri þrotabús Svavars Rúnars Guðnasonar hafi lýst yfir fyrirvaralaust, væntanlega eftir að hafa borið undir kröfuhafa þrotabúsins, að þrotabúið kæmi ekki frekar að máli sóknaraðila á hendur Gutenberg ehf. Hafi hann með öðrum orðum afsalað sér rétti til að koma að málinu síðar og geti því ekki gert kröfu um að sú fjárhæð sem hafi verið dæmd sóknaraðila í hæstaréttarmálinu nr. 132/2005 komi til skipta. Hafi sóknaraðili verið í góðri trú um að svo væri, enda ekki farið sjálfur af stað með málið vitandi það að engir fjármunir myndu renna til hans þó svo málið myndi vinnast.
Í annan stað er byggt á því að fjárhæð samkvæmt dómi Hæstaréttar geti ekki komið til skipta við endurupptöku þrotabúsins, með vísan til 2. ml. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991, þar sem kveðið sé á um að ekki verði tekin til skipta þau fjárhagslegu réttindi sem fjárnám verði ekki gert í eða verði undanþegin fjárnámi, nema mælt sé sérstaklega á annan veg í lögum. Í 6. kafla laga nr. 90/1989 um aðför, sé kveðið á um réttindi sem undanþegin séu fjárnámi. Í 3. mgr. 45. gr. laganna sé kveðið á um að fjárnám verði ekki gert í kröfu um laun í uppsagnarfresti eða í bótakröfu vegna slita á ráðningarsamningi, fyrr en mánuður sé liðinn frá því að krafan hafi orðið gjaldkræf. Telja verði að af orðalagi 2. ml. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 90/1989, sé óheimilt að taka til skipta kröfu sóknaraðila, enda sé um að ræða skaðabætur vegna tapaðra verklauna vegna ólögmætrar uppsagnar Gutenberg ehf. á verksamningi við sóknaraðila. Á það sé bent að þó svo umræddur samningur hafi að formi verið verksamningur, hafi hann í raun verið vinnusamningur, enda hafi samningssamband sóknaraðila við Gutenberg ehf. haft öll merki vinnuréttarsambands þar sem sóknaraðili hafi unnið eftir fyrirmælum fyrirtækisins og verið undir boðvaldi framkvæmda- og verkstjóra þess, hafi unnið fastákveðinn vinnutíma, notið réttar til uppsagnar ef til ágreinings kæmi milli samningsaðila o.s.frv. Með vísan til þess verði að ætla að nefndri fjárhæð verði haldið utan skipta. Breyti í engu þó svo að í lögum nr. 90/1989 segi að gera megi fjárnám í þar greindum kröfum, þegar tilteknu tímamarki sé náð, þar sem slíkt tímamark sé hvorki tiltekið í 2. ml. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991, né vísað þar sérstaklega til þeirra tímamarka sem tilgreind séu í 6. kafla laga nr. 90/1989.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að varnaraðili hafi aldrei afsalað sér kröfu á hendur Gutenberg ehf. heldur hafi þrotamanni verið veitt heimild til að reka málið á eigin áhættu og á eigin ábyrgð, sbr. 130. gr. laga nr. 21/1991. Þá mótmælir varnaraðili þeim lagarökum sóknaraðila að dómskuld samkvæmt dómi Hæstaréttar geti ekki komið til skipta á grundvelli 2. ml. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991.
Niðurstaða:
Það er grundvallarregla við gjaldþrotaskipti að réttindi sem þrotabú á eða kann að eiga renna til þrotabúsins og koma til skipta í búinu kröfuhöfum til hagsbóta. Í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um reglu þar sem kröfuhafa, eða eftir atvikum þrotamanni, er heimilað að halda uppi hagsmunum í eigin nafni en til hagsbóta búinu. Sá sem slíkt gerir ber sjálfur allan kostnað og áhættu af gerðum sínum, en getur krafið þrotabúið um endurgreiðslu kostnaðar að því leyti sem búinu áskotnast fé af þeim. Getur skiptastjóri hvenær sem er tekið við hagsmunum þrotabúsins á ný, enda greiði þá þrotabúið hlutaðeigandi um leið þann kostnað sem til hefur fallið af þessum sökum. Þá mælir 164. gr. laga nr. 21/1991 fyrir um endurupptöku skipta í þeim tilvikum að skiptum lýkur án tillits til eignar sem búið gat þá ekki ráðið yfir eða ef eign kemur fram eftir lok gjaldþrotaskipta, sem hefði átt að falla til þrotabúsins. Í ljósi þeirrar grundvallarreglu að réttindi sem þrotabú kann að eiga falli til búsins þarf skýra viljayfirlýsingu af hálfu skiptastjóra ef ætlunin er að afsala þrotabúi kröfu sem það kann að eiga.
Skiptastjóri þrotabús Svavars Rúnars Guðnasonar færði til bókar 21. maí 2004 að þrotabúið myndi ekkert aðhafast frekar vegna málaferla þrotamanns. Þá færði hann í fundarbók að þrotabúið léti átölulaust þó svo þrotamaður héldi áfram málsókn á eigin kostnað og án skuldbindinga fyrir þrotabúið. Ofangreind bókun samræmist að öllu leyti því að þrotabúið sé að heimila þrotamanni að reka málið í samræmi við 130. gr. laga nr. 21/1991, en ber engin merki þess að verið sé að afsala kröfu sem búið kann að eiga. Hefur skiptastjóri heldur ekki með öðrum gerðum sínum, svo sem með yfirlýsingu til lögmanns sóknaraðila um að þrotabúið muni ekkert koma frekar að málinu, afsalað þrotabúinu nefndri kröfu Verður kröfu sóknaraðila á grundvelli þessarar málsástæðu því hafnað.
Í annan stað byggir sóknaraðili kröfu sína á því að fjárhæð samkvæmt dómi Hæstaréttar geti ekki komið til skipta við endurupptöku þrotabúsins, með vísan til 2. ml. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 45. gr. laga nr. 90/1989. Í 3. mgr. 45. gr. laga nr. 91/1989 er mælt fyrir um að ekki megi gera í tilgreindum kröfum fjárnám fyrr en mánuður sé liðinn frá því að þær séu orðnar gjaldkræfar. Að þeim tíma liðnum er unnt að gera í þeim fjárnám. Sá mánaðarfrestur sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 45. gr. er löngu liðinn og því ljóst að ákvæði þetta girðir með engu móti fyrir að krafa samkvæmt dómi Hæstaréttar verði dregin inn í búskiptin. Eru því engir hagsmunir tengdir því að leysa úr eðli þeirrar kröfu sem sóknaraðili fékk tildæmda með dómi Hæstaréttar í máli nr. 132/2005. Verður kröfum sóknaraðila á þessum grundvelli því einnig hafnað.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu sóknaraðila, Svavars Rúnars Guðnasonar, um að tildæmd fjárhæð samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 132/2005, komi ekki til skipta við endurupptöku á þrotabúi Svavars Rúnars Guðnasonar og renni óskipt til sóknaraðila, að teknu tilliti til uppgjörs á lögmannskostnaði vegna reksturs hæstaréttarmálsins, er hafnað.