Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-323
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umferðarslys
- Líkamstjón
- Sönnun
- Skaðabætur
- Vátrygging
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 16. desember 2021 leita Vátryggingafélag Íslands hf. og Bolabás sf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. nóvember sama ár í máli nr. 537/2020: Vátryggingafélag Íslands hf. og Bolabás sf. gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðenda um greiðslu kostnaðar vegna nuddmeðferðar sem hún sótti á nánar tilgreindu tímabili vegna afleiðinga tveggja umferðarslysa 11. janúar 2016. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort fyrrnefndur kostnaður teljist til sjúkrakostnaðar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila. Í dóminum kom meðal annars fram að heimilislæknir hefði ráðlagt gagnaðila nudd samhliða sjúkraþjálfun vegna afleiðinga umferðarslysanna og því mati hefði ekki verið hnekkt. Yrði að meta það bæði nauðsynlegt og eðlilegt af hálfu gagnaðila að hafa reynt þá meðferð sem heimilislæknir hennar lagði til. Taldi Landsréttur að skilyrðum fyrir því að umræddur kostnaður yrði bættur sem sjúkrakostnaður væri fullnægt jafnvel þótt kostnaðurinn hefði að hluta til fallið til eftir batahvörf.
4. Leyfisbeiðendur byggja í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um hvort kostnaður tjónþola vegna nuddmeðferðar hjá heilsunuddara geti talist til sjúkrakostnaðar í skilningi skaðabótalaga. Slík meðferð falli hvorki undir lög nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn né lög nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Ekki hafi áður reynt á sambærilegt álitaefni fyrir Hæstarétti. Í öðru lagi hafi málsmeðferð í héraði og fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant. Dómendur í héraði hafi í niðurstöðu sinni vísað til ótilgreindra rannsókna um læknisfræðilegt gildi nuddmeðferðar sem hvorugur aðila málsins hafi lagt fram. Í dómi Landsréttar sé ekki fjallað um hvort þessi annmarki valdi ómerkingu dómsins. Landsrétti hafi jafnframt borið að kveða til meðdómsmann líkt og gert var í héraði. Í þriðja lagi sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til meðal annars um greiðsluskyldu sjúkrakostnaðar eftir batahvörf, auk þess sem ekki sé gerður greinarmunur á nuddmeðferð heilsunuddara og sjúkranuddara. Loks telja leyfisbeiðendur að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.