Hæstiréttur íslands

Mál nr. 329/2002


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Dagsektir
  • Meðdómsmaður


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. febrúar 2003.

Nr. 329/2002.

Útgerðarfélagið Súlur ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Regin Grímssyni

(Jón Magnússon hrl.)

og gagnsök

 

Verksamningur. Dagsektir. Meðdómsmenn.

R tók að sér að smíða bát fyrir Ú ehf. Í málinu deildu aðilar um uppgjör vegna smíði bátsins. Var Ú ehf. gert að greiða R eftirstöðvar umsamins kaupverðs og fyrir nánar tiltekin aukaverk, en frá þeirri fjárhæð dregnar umsamdar tafabætur vegna dráttar á afhendingu bátsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2002. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Til vara krefst hann sýknu að svo stöddu, en að því frágengnu sýknu af kröfu gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 9. september 2002. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 6.063.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Málavextir eru þeir að aðilar gerðu með sér samning 12. mars 1999 um smíði fiskibáts af gerðinni Gáski 1100d. Skyldi báturinn smíðaður samkvæmt „teikningum sem Siglingastofnum hefur samþykkt og gerðar eru af Regin Grímssyni dags. í janúar 1999 merktar nr. 422.“ Þá skuldbatt gagnáfrýjandi sig til að smíða bátinn samkvæmt smíðalýsingu, sem fylgdi samningnum, og skyldi hún teljast hluti hans. Kaupverð bátsins var 11.624.200 krónur að teknu tilliti til lækkunar þess vegna búnaðar, sem aðaláfrýjandi lagði til eða vildi sleppa, sem og hækkunar þess vegna aukakostnaðar fyrir atriði, sem aðaláfrýjandi myndi greiða sérstaklega fyrir samkvæmt smíðalýsingunni. Átti aðaláfrýjandi að greiða 500.000 krónur við undirritun samnings, en eftirstöðvar kaupverðsins við afhendingu bátsins, sem skyldi vera 15. nóvember 1999 að lokinni reynslusiglingu. Kveðið var á um að kaupanda bæri að greiða sérstaklega fyrir aukaverk og breytingar á bátnum frá teikningu og smíðalýsingu, sem hann kynni að óska eftir. Þá skyldi seljandi greiða dagsektir, 10.000 krónur fyrir hvern virkan dag, sem afhending bátsins kynni að dragast umfram umsaminn afhendingartíma af ástæðum sem hann bæri ábyrgð á.

 Meðal gagna málsins eru teikningar gagnáfrýjanda af bát af gerðinni Gáski 1100d, dagsettar 24. febrúar 1998 og merktar með smíðanúmerinu 422. Þessar teikningar eru ekki staðfestar af Siglingastofnun. Samkvæmt bréfi hennar 16. október 2002, sem lagt var fram í Hæstarétti, eru teikningar dagsettar 16. apríl 1999, sem stofnunin samþykkti með þessu smíðanúmeri, af bát annarrar gerðar en fyrrgreindur samningur kvað á um og var sá bátur smíðaður af öðrum en gagnáfrýjanda og fyrir annan kaupanda en aðaláfrýjanda. Óumdeilt er að aðaláfrýjandi greiddi 500.000 krónur við undirritun samningsins eins og samið hafði verið um. Ekki var báturinn afhentur á umsömdum tíma.

Þann 29. febrúar 2000 gerðu aðilar með sér viðauka við fyrrgreindan samning, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Í stað fiskibáts af gerðinni Gáski 1100 kemur ný gerð báts er ber framleiðsluheitið Gáski 1100D. Teikningar dagss. í janúar 1999 falla út, og í stað þeirra koma nýjar teikningar dagss. 26.02.00 merktar Regin G og smíðanúmer 450.“ Bátinn skyldi afhenda 20. júní 2000. Þá var kveðið á um að kaupandi eignaðist smíðina „frá fyrsta degi“ og gæti fjarlægt hana úr starfsstöð seljanda ef seinkun yrði á henni miðað við tímasetta áfanga, sem lýst er nánar í hinum áfrýjaða dómi. Kaupverð var óbreytt en greiðsla þess tengd framangreindum áföngum í smíði bátsins og skyldi greiða 1.500.000 krónur 25. mars, 2.000.000 krónur 10. apríl og 3.000.000 krónur 15. maí, allt á árinu 2000, enda væri umsömdum áföngum í smíðinni náð. Loks skyldi greiða 4.624.000 krónur við afhendingu. Þá var kveðið á um dagsektir, sem skyldu greiðast „dragist afhending umfram umsamin afhendingardag“, þannig að fyrstu fimmtán dagana skyldu greiðast 10.000 krónur á dag, frá fimmtánda að þrítugasta degi 20.000 krónur á dag, en 40.000 krónur á dag eftir það.

Fyrir liggur að bátur sá, sem um ræddi í viðaukasamningnum, var frumsmíð á nýrri gerð af fiskibát. Meðal gagna málsins eru teikningar með smíðanúmerinu 450, merktar Regin G., dagsettar 28. febrúar 2000 og samþykktar af Siglingastofnun 8. mars sama árs. Af því, sem komið er fram í málinu, verður ráðið að smíði bátsins hafi dregist og að umsömdum smíðaáföngum, að minnsta kosti öðrum en þeim fyrsta, hafi ekki verið lokið á tilsettum tíma. Aðaláfrýjandi greiddi engu að síður kaupverð bátsins á umsömdum gjalddögum og hafði 26. apríl 2000 greitt 7.000.000 krónur af því. Átti hann þá aðeins ógreidda þá fjárhæð, sem greiða skyldi við afhendingu bátsins samkvæmt framansögðu. Hann greiddi síðan 1.000.000 krónur til viðbótar í tvennu lagi í júlí 2000. Báturinn mun hafa verið sjósettur 21. september 2000. Þann 29. þess mánaðar krafðist aðaláfrýjandi þess með símskeyti að báturinn yrði afhentur þegar í stað gegn greiðslu á 1.454.200 krónum, sem hann innti af hendi samdægurs með gíróseðli. Var í skýringareit seðilsins ritaður svofelldur texti: „Lokagreiðsla v/nýsmíði fiskibáts – smíðanr. 450“. Gagnáfrýjandi svaraði sama dag með símskeyti og tilkynnti að báturinn væri tilbúinn til afhendingar í Keflavík. Yrði uppgjör reikninga í starfsstöð hans og skipasmíðaskírteini afhent við það uppgjör.

 Aðaláfrýjandi tók bátinn í sínar vörslur 8. október 2000 án atbeina gagnáfrýjanda og án þess að uppgjör færi fram. Beiddist aðaláfrýjandi þegar nýskráningar á bátnum, en þeirri málaleitan hafnaði Siglingastofnun að svo stöddu með bréfi 11. sama mánaðar, þar sem ekki lægi fyrir skýr og ótvíræð eignarheimild að bátnum. Þá ákvörðun kærði aðaláfrýjandi daginn eftir til samgönguráðuneytisins. Í kæru lýsti hann meðal annars fyrrgreindu ákvæði um dagsektir í viðaukasamningi aðila. Síðan sagði: „Þann 29. september sl. greiddi kærandi til Regins Grímssonar 1.454.200 krónur. Var greiðsla þessi innt af hendi inná reikning sem Regin hafði gefið upp. Var greiðsla þessi miðuð við áfallnar dagsektir 23. september 2000, kr. 2.170.000. Hafði kærandi þann 29. september sl. fullgreitt bátinn með ofangreindum 8.000.000 ásamt greiðslunni 29. september kr. 1.454.200 og dagsektum 2.170.000 eða alls með kr. 11.624.200.“ Í athugasemdum til samgönguráðuneytisins vegna kærunnar 23. október 2002 kom fram að gagnáfrýjanda hafi borist afrit hennar og andmælti hann því meðal annars að aðaláfrýjandi ætti kröfu á dagsektum samkvæmt viðaukasamningi þeirra.

Í málinu deila aðilar um uppgjör vegna framangreindra viðskipta. Gagnáfrýjandi krefur aðaláfrýjanda um eftirstöðvar umsamins kaupverðs bátsins að viðbættum greiðslum vegna aukaverka við smíði hans. Aðaláfrýjandi hafnar að mestu kröfu gagnáfrýjanda vegna aukaverka og telur sig eiga gagnkröfu vegna dagsekta, sem fallið hafi á vegna afhendingardráttar á bátnum, og kostnaðar, sem hann hafi haft af ágreiningi um skráningu bátsins á skipaskrá og þinglýsingu eignarheimilda vegna hans.

II.

Aðaláfrýjandi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, því héraðsdómara hefði með réttu borið að kveðja sérfróða meðdómsmenn til að sitja í dómi. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er það á valdi héraðsdómara að meta hvort þörf sé á sérkunnáttu í dómi til að leysa úr máli. Ágreiningur aðila um aukaverk lýtur öðrum þræði að sérfræðilegum álitaefnum, en allt að einu reisa þeir málatilbúnað sinn varðandi þann þátt málsins fyrst og fremst á skýringu fyrrnefndra samninga og fylgigagna þeirra. Þótt héraðsdómara hefði verið rétt að kveðja til sérfróða meðdómsmenn, svo sem hann stóð að úrlausn málsins, er ekki í ljósi áðurgreinds málatilbúnaðar aðilanna næg ástæða til að hrófla við því mati hans að meðdómsmanna væri ekki þörf. Verður kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms því hafnað.

Varakröfu sína um sýknu að svo stöddu reisir aðaláfrýjandi á tveim málsástæðum. Er niðurstaða héraðsdóms um að hafna þeirri röksemd fyrir þessari kröfu, að aðaláfrýjandi hafi enn ekki gefið út reikninga vegna aukaverka, staðfest með vísan til forsendna hans. Þá kemur fram í greinargerð gagnáfrýjanda til Hæstaréttar yfirlýsing um að ekkert standi því í vegi að afhenda aðaláfrýjanda skipasmíðaskírteini og gefa út afsal um leið og lokagreiðsla samkvæmt kaupsamningi verði innt af hendi. Verður því heldur ekki fallist á varakröfu aðaláfrýjanda af ástæðum, sem að þessu snúa.

III.

Í málinu er ekki ágreiningur um að ógreiddar eftirstöðvar umsamins kaupverðs bátsins eru 2.170.000 krónur. Því til viðbótar krefur gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um 3.893.200 krónur vegna aukaverka og viðbótarbúnaðar, sem settur hafi verið í bátinn að ósk þess síðarnefnda. Eins og að framan er rakið laut samningur aðila 12. mars 1999 að smíði báts af ákveðinni gerð, Gáski 1100d, sem gerður skyldi samkvæmt tiltekinni teikningu og smíðalýsingu, sem samningnum fylgdi. Þennan samning efndi gagnáfrýjandi ekki og sömdu aðilar með viðbótarsamningi sínum 29. febrúar 2000 um smíði báts af annarri tegund, Gáski 1100D, sem skyldi gerður samkvæmt nýjum teikningum, en engin smíðalýsing fylgdi viðbótarsamningnum. Blasir við með samanburði á teikningunum að báturinn samkvæmt viðbótarsamningnum er í mörgum atriðum frábrugðinn þeim, sem fyrri samningur aðila laut að. Liggur í augum uppi að smíðalýsing fyrir þann bát, sem fyrr var um samið, getur ekki átt við síðari bátinn. Verður úrlausn um það hvort um aukaverk hafi verið að ræða við smíði þess síðari því ekki reist á þeirri smíðalýsingu. Þar sem ekki er við annað að styðjast en teikningar um það hvernig báturinn skyldi smíðaður og búinn verður að miða við að þegar gagnáfrýjandi lýsti því yfir 29. september 2000 að báturinn væri tilbúinn til afhendingar hafi hann, hvað smíði og búnað varðar, verið í samræmi við það, sem fólst í samningi aðila. Getur gagnáfrýjandi því ekki krafist greiðslu fyrir aukaverk eða viðbótarbúnað nema varðandi þau atriði, sem hann sannar að aðaláfrýjandi hafi óskað sérstaklega eftir meðan á smíði bátsins stóð.

Meðal gagna málsins er sundurliðun í 78 liðum á kröfu gagnáfrýjanda fyrir aukaverk, sem hann telur að unnin hafi verið við smíði bátsins. Er þar tilgreint fyrir hvern lið um hvaða verk eða búnað sé að ræða og hverrar fjárhæðar sé krafist. Er þetta nánar rakið í hinum áfrýjaða dómi, þar sem héraðsdómari greindi kröfu gagnáfrýjanda vegna aukaverka í 23 þætti.

 Í greinargerð fyrir héraðsdómi fjallaði aðaláfrýjandi um framangreinda sundurliðun gagnáfrýjanda á kröfu vegna aukaverka. Þar kom fram að hann hafi beðið um eftirfarandi breytingar eða aukabúnað: 1. Állúgu yfir lestarop í stað plastlúgu, en fyrir það krefst gagnáfrýjandi 190.000 króna. 2. Útvarp, en fyrir það ásamt fylgibúnaði og uppsetningu krefst gagnáfrýjandi 61.800 króna. 3. Breikkun stóls í stýrishúsi, en fyrir það krefur gagnáfrýjandi um 28.000 krónur. 4. Sérstakan frágang á snuðventli. Í sundurliðun gagnáfrýjanda er krafa vegna þessa liðar ekki tilgreind sérstaklega, heldur talinn með öðrum liðum. Aðaláfrýjandi hefur lýst sig reiðubúinn til að greiða 34.800 krónur fyrir þennan þátt. 5. Niðursetningu á síma og siglingatækjum og efni vegna þess. Í sundurliðun gagnáfrýjanda sýnast eiga undir þetta niðursetning á síma og loftneti 22.400 krónur, uppsetning „radarskanners“ 16.800 krónur, rafmagnsvinna vegna radars 14.000 krónur, vinna við að koma fyrir dýptarmæli 22.400 krónur og GPS loftneti 16.800 krónur, frágangur á radar 33.600 krónur og raflagnaefni vegna þess 5.000 krónur eða samtals 131.000 krónur. Þá kveðst aðaláfrýjandi hafa beðið um að þilfar yfir vél yrði plastað í stað niðurskrúfaðrar lúgu og sérsmíðað yrði málmstykki frá kili undir stýri til að loka fyrir tóg í skrúfu, en ekki verður séð á sundurliðun gagnáfrýjanda að gerð sé krafa um greiðslu vegna þessara aukaverka. Varðandi suma framangreindra liða hefur aðaláfrýjandi andmælt þeirri fjárhæð, sem gagnáfrýjandi krefst, en þar sem aðaláfrýjanda hefur ekki tekist að sýna fram á að hún sé ósanngjörn verður fallist á þessa kröfuliði gagnáfrýjanda. Hann á því kröfu á aðaláfrýjanda að fjárhæð 445.600 krónum vegna þeirra.

 Að auki verður greinargerð aðaláfrýjanda í héraði ekki skilin á annan hátt en þann að hann hafi beðið um að stál yrði notað í handrið og mastur í stað áls, en fyrir það krefst gagnáfrýjandi að fá greiddar 210.000 krónur, að smíðaður yrði stokkur undir spil úr stáli, sem gagnáfrýjandi krefur hann um 45.000 krónur fyrir, og að settur yrði dempari í stól stýrimanns, en fyrir það er krafist 32.000 króna. Vegna þessa verður því fallist á framangreinda kröfuliði með samtals 287.000 krónum, enda hefur aðaláfrýjandi ekki sýnt fram á að það verð sé ósanngjarnt. Samtals verður því tekin til greina krafa gagnáfrýjanda vegna aukaverka að fjárhæð 732.600 krónur. Ógreidd krafa hans vegna smíðinnar nemur því samtals 2.902.600 krónum.

IV.

Aðaláfrýjandi styður sýknukröfu sína, eins og að framan er rakið, við það að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna dagsekta og kostnaðar, sem sé að minnsta kosti jafnhá kröfu gagnáfrýjanda.

Dagsektakröfu sína reisir aðaláfrýjandi á ákvæði viðaukasamnings aðila. Í upphaflegum samningi þeirra var sem fyrr segir ákvæði um dagsektir að fjárhæð 10.000 krónur fyrir hvern virkan dag, sem afhending bátsins myndi dragast umfram umsaminn afhendingartíma. Í viðbótarsamningnum var dagsektarákvæðinu breytt, eins og áður er lýst, þannig að dagsektir færu stighækkandi eftir því, sem lengri dráttur yrði á afhendingu bátsins, jafnframt því sem þær skyldu reiknast fyrir hvern dag, sem afhendingin myndi dragast. Af framburði gagnáfrýjanda fyrir héraðsdómi er ljóst að hann er þaulvanur bátasmiður, sem smíðað hefur og selt fjölda báta. Verður hvorki litið svo á að aðstaða aðila við gerð viðaukasamningsins né efni hans gefi tilefni til að víkja honum til hliðar að því er dagsektir varðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum, eða annarra ákvæða í III. kafla þeirra laga. Þau aukaverk, sem gagnáfrýjandi telst samkvæmt framansögðu hafa unnið, eru ekki það umfangsmikil að réttlætt geti seinkun á afhendingu bátsins, enda liggur ekki fyrir að gagnáfrýjandi hafi tilkynnt aðaláfrýjanda á verktímanum að hann teldi svo vera. Aðaláfrýjanda var heimilt að draga áfallnar tafabætur frá lokagreiðslu sinni á umsömdu kaupverði bátsins. Eins og að framan er rakið krafðist aðaláfrýjandi afhendingar bátsins 29. september 2000 og innti jafnframt af hendi greiðslu, sem hann skýrði sem lokagreiðsla vegna smíðinnar. Hann tók síðan vörslur bátsins 8. október 2000 og greindi frá því fjórum dögum seinna í kæru til samgönguráðuneytisins, sem fyrir liggur að kynnt var gagnáfrýjanda, að hann hefði dregið það, sem hann taldi áfallnar dagsektir til 23. september 2000, frá lokagreiðslunni. Þessi krafa aðaláfrýjanda getur því ekki hafa fallið niður fyrir tómlæti eða vegna þess að skýringar á greiðslunni 29. september 2000 hafi komið of seint fram.

 Í framangreindri kæru aðaláfrýjanda til samgönguráðuneytis, sem samkvæmt áðursögðu barst gagnáfrýjanda, lýsti hann því yfir að greiðsla hans 29. september 2000 hefði verið miðuð við áfallnar dagsektir til 23. þess mánaðar, sem numið hefðu 2.170.000 krónum. Aðaláfrýjandi er bundinn af þessu og getur ekki nú gert kröfu um aðrar og hærri dagsektir vegna þessa tímabils. Þann 29. september 2000 lýsti gagnáfrýjandi því sem fyrr segir yfir að báturinn væri tilbúinn til afhendingar. Hefði aðaláfrýjandi þá getað tekið bátinn í sínar vörslur á grundvelli viðaukasamnings aðila, en það gerði hann ekki fyrr en 8. næsta mánaðar. Getur hann því ekki átt rétt til tafabóta eftir að fyrir lá yfirlýsing um að báturinn væri tilbúinn til afhendingar. Tafabætur á grundvelli viðaukasamningsins fyrir tímabilið frá 23. til 29. september 2000 eru alls 240.000 krónur. Samkvæmt þessu á aðaláfrýjandi kröfu á gagnáfrýjanda að fjárhæð 2.410.000 krónur, sem kemur til skuldajafnaðar við framangreindar 2.902.600 krónur, sem gagnáfrýjandi á ógreiddar hjá honum. Gagnkrafa aðaláfrýjanda er að öðru leyti ekki studd haldbærum rökum og verður henni því hafnað. Verður aðaláfrýjandi því dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 492.600 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

 Rétt er að hvor aðilinn beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Útgerðarfélagið Súlur ehf., greiði gagnáfrýjanda, Regin Grímssyni, 492.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 20. ágúst s.l.  Málið var endurflutt 6. júní s.l.  og dómtekið að því loknu.

Stefnandi er Regin Grímsson, kt. 080347-2199, Skjólvangi 8, Hafnarfirði.

Stefndi er Útgerðarfélagið Súlur ehf., kt. 681298-3399, Vogsholti 7, Raufarhöfn.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 6.063.400 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2000 til greiðsludags og jafnframt til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda að svo stöddu.  Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Til þrautavara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda á grundvelli skulda­jafnaðarkröfu stefnda að fjárhæð kr. 6.063.400, sem stefndi lýsir á móti dóm­kröfum stefnanda til skuldajafnaðar.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að með kaupsamningi dagsettum 12. mars 1999 gerðu aðilar málsins með sér kaupsamning/verksamning um smíði á fiskibáti af gerðinni Gáski 1100d.  Stefnandi tók að sér smíði bátsins og skuldbatt sig til að afhenda hann stefnda í umsömdu ástandi með umsömdum fylgibúnaði.  Segir í samningi að smíðaefni bátsins sé trefjaplast og skyldi hann smíðaður skv. teikningum stefnanda sem Sigl­inga­stofnun hafi samþykkt.  Þá skuldbatt stefnandi sig til að smíða bátinn samkvæmt smíða­lýsingu sem taldist hluti samningsins.  Í samningnum er ákvæði þess efnis að stefndi leggi sjálfur til gúmlífbát ásamt stól og sylgju og komi það til lækkunar kaup­verði um kr. 220.000, þá voru akkeri og keðja dregin frá kaupverði, samtals kr. 30.800.  Að viðbættum aukakostnaði samkvæmt smíðalýsingu var söluverð bátsins kr. 11.624.200.  Þá var í samningnum ákvæði þess efnis að stefndi skyldi greiða sér­stak­lega fyrir aukaverk sem hann óskaði eftir en væru breytingar gerðar að ósk Siglinga­mála­stofnunar skyldi stefnandi greiða fyrir þær nema í því tilfelli að þær ykju verð­gildi bátsins og skyldu þau þá greidd af stefnda.  Ef reglur Siglingamálastofnunar breytt­ust þannig að gerðar yrðu kröfur um dýrari útfærslu skyldi stefndi greiða kostn­að sem af því hlytist.  Í samningnum var ákvæði um að stefnandi pantaði vélbúnað og aðra fylgihluti í bátinn sem ekki væru sérstaklega tilgreindir í smíðalýsingu skv. ósk stefnda og í samráði við hann.  Umsaminn afhendingardagur var 15. nóvember 1999 að lokinni reynslusiglingu.  Við afhendingu skyldi liggja fyrir athugasemdalaust haf­færn­isskírteini Siglingamálastofnunar.  Kaupverð bátsins var umsamið kr. 11.624.200 og skyldi greiða kr. 500.000 við undirritun samnings og eftirstöðvarnar við af­hend­ingu. 

Aðilar málsins gerðu með sér viðaukasamning og samþykktu breytingar á ofan­greindum samningi 29. febrúar 2000.  Segir í samningi þessum að í stað fiskibáts af gerðinni Gáski 1100 komi ný gerð báts er beri framleiðsluheitið Gáski 1100 D og yrði hann smíðaður samkvæmt nýjum teikningum.  Umsaminn afhendingartími var 20. júní sama ár og í samningi segir að kaupandi sé eigandi smíðinnar frá fyrsta degi og geti hvenær sem er á framleiðslutíma fjarlægt smíðina úr starfsstöð seljanda, verði seinkum á framkvæmd smíðinnar miðað við eftirfarandi áfanga, sbr. 5. gr. samn­ingsins: 

a.               Plastskrokkur úr móti 25. mars 2000.

b.               Skilrúm, dekk og stýrishús ísett og plastað 10. apríl 2000.

c.               Innréttingar ísettar, vél niðursett, raf- og dælulagnir komnar að hluta 15. maí 2000.

d.              Allri smíði að fullu lokið, svo og öllum frágangi, prófunum og úttektum, haffæri og öll önnur skjöl klár 20. júní 2000.

Þá voru í þessum samningi ákvæði um dagsektir, drægist afhending umfram um­sam­inn afhendingardag, þannig að fyrstu 15 daga var miðað við kr. 10.000 á dag, frá 15. að 30. degi var miðað við kr. 20.000 á dag og frá 30. degi og eftir það var miðað við kr. 40.000 á dag.  Stefnandi heldur því fram að aldrei hafi verið talað um dag­sektar­ákvæði við gerð samningsins og segist ekki hafa varað sig á þessu ákvæði þar sem hann hafi ekki lesið samninginn nægilega vel.  Kvaðst hann aldrei myndu hafa sam­þykkt dagsektarákvæðið hefði hann gert sér grein fyrir því við samningsgerð, enda um fyrstu smíði nýs báts að ræða og ýmislegt sem gæti tafið smíðina.

Kaupverð bátsins var óbreytt, en greiðslutilhögun var tengd áföngum samkvæmt 5. gr. samningsins þannig að 25. mars skyldu greiddar kr. 1.500.000, 10. apríl skyldu greiddar kr. 2.000.000, 15. maí skyldu greiddar kr. 3.000.000 og eftirstöðvarnar, kr. 4.624.000, skyldu greiddar við afhendingu að fullnægðum ákvæðum aðalsamnings og viðauka­samnings.

   Stefnandi segist hafa fengið fyrirtækið Mótun ehf. til að annast smíði bátsins sem verk­taki fyrir stefnanda.  Hafi það fyrirtæki unnið að smíðinni og unnið aukaverk í sam­ræmi við samning aðila og óskir stefnda.  Stefndi heldur því hins vegar fram að samn­ingssamband hans hafi verið við stefnanda og neitar því að samið hafi verið við Mótun ehf. um aukaverk eða breytingar á bátnum.  Mótun ehf. gerði stefnanda reikn­ing fyrir verk sín og hefur stefnandi lagt fram gögn þar sem fram kemur að hann hefur fengið allar kröfur vegna smíðinnar framseldar sér eftir að hann greiddi fyrirtækinu reikningana. 

Reikningar Mótunar ehf, á hendur stefnda vegna smíði bátsins eru þrír, í fyrsta lagi reikningur nr. 56 dagsettur 20. október 2000 að fjárhæð kr. 11.624.200, í öðru lagi reikn­ingur nr. 57 vegna aukaverka dagsettur sama dag að fjárhæð kr. 3.583.400 og í þriðja lagi reikningur nr. 58, dagsettur sama dag vegna dýpkunar á bátnum og þess að settur var á hann nýr kantur að fjárhæð kr. 310.000.  Stefndi hefur greitt stefnanda kr. 9.454.200.

Í málinu liggur fyrir sundurliðað yfirlit yfir verk sem stefnandi heldur fram að hafi verið aukaverk, sbr. reikning nr. 57. 

Í fyrsta lagi er um að ræða vinnu vegna lengingar á stýrishúsi um 65 cm, ísetning tveggja glugga, sprautun o.fl., samtals kr. 647.000.  Stefndi segir umsamið að tvær rúður hafi átt að vera á hvorri hlið stýrishúss.  Þá hafi báturinn komið illa úr mótum og alls ekki fullunninn og hafi stefnandi sjálfur tekið þá ákvörðun að láta sprauta hann. 

Í öðru lagi er um að ræða tréverk í lúkar úr harðviði, þrjá skápa, skilrúm, stálvask, blönd­unartæki o.fl., samtals kr. 549.700.  Stefndi segir tréverk í lúkar samkvæmt samn­ingi og ekki hafi verið óskað eftir breytingum eða aukaverkum þar. 

Í þriðja lagi er um að ræða kostnað vegna stærra rafkerfis, örbylgjuofns, radar­skanners, ísetningu dýptarmælis og GPS með loftneti, samtals kr. 288.300.  Stefndi segist aldrei hafa óskað eftir stærra rafkerfi og fari merkingar á töflu eftir reglum Sigl­inga­stofnunar og falli undir smíðasamning.  Stefndi lýsir sig reiðubúinn að greiða kr. 20.800 vegna uppsetningar á radarskanner, GPS loftneti og dýptarmæli.

Í fjórða lagi er um að ræða vinnu vegna ísskáps, spennubreytis, borð úr trefja­plasti fyrir ísskáp og örbylgjuofn, samtals kr. 151.600.  Stefndi kveðst hafa litið svo á að eldavél í lúkar ætti að fylgja en stefnandi hafi í staðinn ákveðið að innrétta bátinn með örbylgjuofni og ísskápi.  

Í fimmta lagi er gerð krafa um greiðslu vegna salernisklefa með hurð, handlaug með blöndunartækjum o.fl., samtals kr. 207.600.  Stefndi segir vinnu vegna lengingar á stýrishúsi og salernisklefa hafa orðið vegna mistaka stefnanda við hönnun bátsins. 

Í sjötta lagi er um að ræða kostnað vegna dúkklæðningar, samtals kr. 44.600. 

Í sjöunda lagi er um að ræða kostnað vegna neysluvatnskerfis, samtals kr. 282.700. Stefndi segir þessi atriði hluta af staðalbúnaði bátsins.

Í áttunda lagi er um að ræða kostnað vegna breytingar á afturþili stýrishúss vegna stækk­unar á salernisklefa, kr. 101.400.  Stefndi segir þessar breytingar til komnar vegna mistaka stefnanda í framleiðslu bátsins. 

Í níunda lagi er um að ræða kostnað vegna klæðningar á þili í stýrishúsi, samtals kr. 22.800.  Stefndi segir að hvort sem er hefði orðið að klæða stýrishússþilið, hvort sem það stóð nokkrum sentimetrum aftar eða framar.  

Í tíunda lagi er um að ræða kostnað vegna skáps fyrir aftan stýrimann, samtals kr. 173.600.  Stefndi telur hér ekki um stórmál að ræða. 

Í ellefta lagi er um að ræða tvo þurrkumótora, samtals kr. 52.600.  Stefndi telur hér um að ræða staðalbúnað bátsins. 

Í tólfta lagi er um að ræða kostnað vegna stærra botnstykkis, samtals kr. 36.400. Stefndi segir umsamið að stefnandi setti botnstykki dýptarmælis í bátinn og hafi ekki verið rætt um sérstaka stærð botnstykkis.  Sé því ekki um aukaverk að ræða. 

Í þrettánda lagi er um að ræða kostnað vegna ísetningar á NMT síma með loft­neti, kr. 22.400.  Stefndi segist reiðubúinn að greiða kr. 11.200 vegna þessa liðar. 

Í fjórtánda lagi er um að ræða frágang á radar o.fl., samtals kr. 55.400. 

Í fimmtánda lagi er um að ræða lestarlúgu úr áli og frágang á slöngum, samtals kr. 202.000.  Stefndi fellst á að greiða kr. 50.000 vegna þessa liðar. 

Í sextánda lagi er um að ræða þykkingu á trefjaplasti á dekki, samtals kr. 190.200.  Stefndi segir plastþykkt háða reglum Siglingastofnunar og sé því ekki um aukaverk að ræða.

Í sautjánda lagi er um að ræða stálhandrið í stað áls, stálmastur í stað áls og stokk undir spil úr ryðfríu stáli í stað trefjaplasts, samtals kr. 255.500.  Stefndi segist reiðu­búinn að greiða kr. 45.000 vegna þessa liðar. 

Í átjánda lagi er um að ræða raftöflu með ETA sjálfvörum, stál undirstöðu undir spil í stað trefjaplasts, snuðloka á gírkassa, Hynautic stjórntæki, stytting á skrúfuás vegna snuðloka o.fl., samtals kr. 119.500. Stefndi segist reiðubúinn að greiða kr. 34.800 vegna þessa liðar. 

   Í nítjánda lagi er um að ræða kostnað vegna útvarps með hátölurum, samtals kr. 61.800. Stefndi lýsir sig reiðubúinn að greiða kr. 30.000 vegna þessa verkþáttar.  

Í tuttugasta lagi er um að ræða glussakæli á kælikerfi vélar fyrir spilkerfi, kr. 15.000.  Stefndi segir þetta verk hafa falist í því að skrúfa fjórar hosuklemmur. 

Í tuttugasta og fyrsta lagi er um að ræða kostnað vegna stærri stýristjakks, kr. 23.000.  Stefndi segir stýristjakk of lítinn, einnig stýrisdælu og þá séu lagnir of grannar.  Sé þessi búnaður ekki í samræmi við reglur Siglingastofnunar og krefst stefndi bóta að fjárhæð kr. 160.000 vegna þessarar handvammar stefnanda. 

Í tuttugasta og öðru lagi er um að ræða kostnað vegna botnmálningar, samtals kr. 92.000. Stefndi telur ekki um aukaverk að ræða, enda sé nýjum bátum alltaf skilað full­máluðum.  

Í tuttugasta og þriðja lagi er um að ræða stiga í lúkar, kr. 29.700.  Stefndi telur hér um staðalbúnað að ræða. 

Í tuttugasta og fjórða lagi er um að ræða dempara í stól fyrir stýrimann, kr. 32.000.  Stefndi segist reiðubúinn að greiða kr. 10.000 vegna þessa liðar.  

Í síðasta lagi er um að ræða tvöfaldan stól í stýrishús í stað eins stóls, kr. 28.000. Stefndi segist reiðubúinn að greiða kr. 12.000 vegna breikkunar stólsins, en smíðaður hafi verið setbekkur mjög einfaldrar gerðar.

Þá gerir stefndi þær athugasemdir við reikning nr. 58 að um það hafi verið samið í aðalsamningi hvernig báturinn skyldi vera.  Frávik séu því algerlega á ábyrgð stefn­anda og telur stefndi því ekki um aukaverk að ræða sem honum beri að greiða.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi ítrekað þurft að gera breytingar á bátnum að ósk stefnda.  Upphaflega smíðalýsingin hafi gert ráð fyrir allra ódýrustu gerð af Gáska­bátum, t.d. hafi ekki verið gert ráð fyrir salerni og þá hafi stefndi gert þá kröfu að allar innréttingar yrðu vandaðar þar sem nota ætti bátinn til veiðiferða með ferða­menn.  Hafi stefndi krafist þess að fá harðviðarinnréttingar og jafnframt hafi hann farið fram á salernisaðstöðu í sérklefa í stýrishúsi og hafi af þeim sökum þurft að lengja stýrishúsið um 60 cm.  Þá hafi stefndi farið fram á að fá örbylgjuofn og ísskáp í bátinn og þá hafi þurft að sprauta bátinn aftur með annarri tegund málningar að kröfu stefnda.  Komið hafi fram ósk frá stefnda um handlaug á salerni og af þeim sökum hafi þurft að stækka salernisaðstöðuna.  Stefndi hafi einnig gert kröfu um að sett yrði neyslu­vatnskerfi í bátinn með heitu og köldu vatni og vaski í eldunaraðstöðu með blönd­unartækjum, knúið rafdælu og 100 lítra ferskvatnstanki.  Hafi þessar breytingar verið tímafrekar og valdið því að önnur vinna við bátinn tafðist.  Þá hafi afhending bátsins tafist og megi rekja drátt á afhendingu eingöngu til breytinga er stefndi óskaði eftir að gerðar yrðu á bátnum. 

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi í upphafi samþykkt að Mótun ehf. kæmi í sinn stað sem samningsaðili, en þegar til átti að taka hafi stefndi ekki viljað ganga frá slíkum samningi og hafi stefnandi því orðið að leysa til sín allar kröfur Mótunar ehf.  Stefndi hafi á tímabilinu frá 12. mars 1999 til 10. júlí 2000 greitt samtals kr. 8.000.000 og 29. september 2000 hafi hann greitt kr. 1.454.200.  Segir stefnandi stefnda  því enn skulda sér kr. 2.170.000 skv. kaupsamningi og þá hafi hann ekkert greitt vegna auka­verka og viðbótartækja sem sett hafi verið í bátinn samkvæmt ósk stefnda.

Stefndi segir það rangt að stefnandi hafi ítrekað orðið að gera breytingar á bátn­um vegna óska stefnda.  Hafi smíðalýsing ekki verið fullklár er viðaukasamningur var undirritaður og segist stefndi hafa treyst því að báturinn, sem var yfir 10 metrar að lengd, yrði með salerni í samræmi við staðalbúnað slíkra báta, þar með talinni hand­laug.  Stefndi kannast ekki við að sérstaklega hafi verið rætt um að innréttingar ættu að vera vandaðar.  Þá taldi stefndi neysluvatnskerfi staðalbúnað í slíkum bátum, en það sé sáraeinfalt með 25 lítra vatnstanki.  Stefndi sagði það rangt að hann hafi beðið um örbylgjuofn og ísskáp í bátinn.  Stefndi segir að farið hafi verið fram á það við stefnanda að ekki yrði sett skrúfuð lúga yfir vélarrúm, heldur lúga af einfaldari gerð, fljót­unnari.  Þá hafi stefndi ekki sérstaklega óskað eftir styrkingu á dekki og stefnandi hafi sjálfur gert tillögu um snuðventil á gír.  Vegna mistaka stefnanda hafi skrúfu­öxullinn verið of langur, þannig að taka varð vélina upp og stytta öxulinn.  Stefndi segir stjórnloka fylgja snuðventli.  Stefndi hefur samþykkt að greiða kr. 45.000 vegna smíði á stálupphækkun undir spil.  Stefndi heldur því fram að smíði á lestarlúgu hafi ekki þurft að tefja verkið og þá hafi handrið og mastur úr ryðfríu stáli verið smíðuð í vél­smiðju og hafi þessi efnisbreyting ekki haft seinkun í för með sér.  Stefndi segir stefn­anda sjálfan hafa stungið upp á því að hafa glussakæli á spillögn sjókældan og að mati stefnda hafi þetta ekki haft áhrif til seinkunar á verkið.  Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að setja kantlista vegna þess að honum hafi þótt bát­urinn of veikur í samsetningu.  Stefndi segir að gerð hafi verið krafa um að bát­urinn yrði sprautaður upp á nýtt, þar sem verkið hafi ekki heppnast sem skyldi í upp­hafi.  Stefndi segir allt tal um aukaverk og breytingar uppspuna stefnanda.  Telur stefndi um að ræða fyrirslátt stefnanda til þess að gera meira úr framleiðsluferli báts­ins en efni hafi staðið til.  Telur stefndi að verulegur hluti þess, sem stefnandi tilgreini sem aukaverk, sé hefðbundinn staðalbúnaður slíkra báta, sem ekki hefði átt að lengja smíða­tíma bátsins.

Stefndi segir bátinn hafa verið sjósettan 29. september 2000, en þá hafi hann átt að vera haffær samkvæmt viðaukasamningi.  Svo hafi ekki verið og hafi Siglinga­stofnun gert athugasemdir í 12 liðum við bátinn og telur stefndi 7 þeirra vera vegna van­efnda stefnanda á viðaukasamningi.  Stefndi segist hafa gert þá kröfu að fá bátinn afhent­an en stefnandi hafi ekki fallist á það þar sem hann hafi viljað hafa bátinn til sýnis í nokkra daga.  Þá hafi stefnandi tilkynnt stefnda að verð bátsins hafi hækkað um 6 til 7 milljónir króna og yrði stefndi að greiða þá fjárhæð, ella fengist báturinn ekki afhentur.  Óumdeilt er að stefndi tók bátinn í sínar vörslur 8. október 2000 án samráðs við stefnanda.

Siglingastofnun Íslands mun hafa neitað að skrá bátinn 11. október 2000.  Sú ákvörðun var kærð til samgönguráðherra sem felldi hana úr gildi með úrskurði 15. janúar 2001.  Var lagt fyrir Siglingastofnun að skrá á skipaskrá fiskibátinn Þröst II ÞH-347 með skipaskráningarnúmerinu 2458 og fór stofnunin eftir þessum úrskurði 19. janúar sama ár.  Stefndi mun hafa gert ítrekaðar tilraunir til þess að færa fisk­veiði­heim­ildir yfir á bátinn en honum mun hafa verið meinað það þar eð þinglýsta eignar­heimild skorti.

Stefndi segist hafa ákveðið að kaupa nýjan bát þar sem báturinn, sem hann átti fyrir, var ekki gott sjóskip.  Hafi honum ekki tekist að fullnýta þær aflaheimildir sem fyrir hendi voru.  Telur stefndi eldri bátinn ekki hafa nema 30-40% af sóknargetu nýja bátsins, enda sé hann 5 tonnum stærri og allmiklu lengri og breiðari.  Vegna vanefnda stefnanda segist stefndi hafa orðið fyrir tjóni fiskveiðiárið 1999-2000 sem nemi kr. 2.802.621 og tjón sitt fiskveiðiárið 2000-2001 telur stefndi nema kr. 2.607.561.  Telur stefndi sig hafa orðið fyrir þessu tjóni af völdum stefnanda vegna seinkunar á af­hend­ingu bátsins svo og sökum þess að ekki hafi verið hægt að færa fiskveiðiheimildir á nýja bátinn vegna afstöðu stefnanda.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

   Stefnandi byggir á því að stefndi skuldi honum vegna kaupsamnings aðila, svo og vegna umsaminna aukaverka.  Sé það sérstaklega tekið fram í upphaflegum samningi að óski stefndi eftir breytingum á bátnum eftir undirritun kaupsamnings frá teikn­ing­um eða smíðalýsingu, skuli greiða sérstaklega fyrir þær breytingar.  Þá er einnig ákvæði um að stefndi greiði sérstaklega fyrir aukaverk.  Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki sýnt fram á að kröfur stefnanda um greiðslu fyrir aukaverk og tæki séu ósanngjarnar, sbr. 5. gr. laga nr. 39/1922, sbr. nú 45. gr. laga nr. 50/2000. 

Stefnandi miðar vaxtakröfu sína við þá dagsetningu þegar stefndi tók bátinn sann­an­lega í sínar vörslur, en þá hafi verki stefnanda verið lokið og allur kostnaður fallinn á bátinn og hafi stefndi þá þegar verið krafinn um greiðslu.

Stefnandi byggir á því að viðaukasamningurinn hafi verið gerður samkvæmt óskum stefnda og hafi fulltrúi stefnda gengið frá honum.  Segir stefnandi ljóst að samn­ingurinn hafi verið verulega óhagkvæmur fyrir sig og sé eðlilegt að honum verið vikið til hliðar, sbr. 36. gr. samningalaga að því leyti sem hann sé óhagkvæmur fyrir stefn­anda, en samningurinn hafi verið gerður einhliða af stefnda af fulltrúa hans.  Þá sé ákvæði í viðaukasamningi sem kveði á um mun dýrari og betri bát en upphaflega var samið um milli aðila á sama kaupverði.  Þá hafi verið sett inn dagsektarákvæði sem sé gjörsamlega fráleitt.

Stefnandi telur stefnda ekki eiga gagnkröfu á hendur sér vegna afhend­ing­ar­dráttar, þar sem afhending bátsins dróst ekki umfram það sem eðlilegt var miðað við þær breytingar sem gerðar voru á bátnum.  Þá heldur stefnandi því fram að ekki hafi staðið á afhendingu 29. september 2000, en afhending hafi ekki farið fram sökum þess að stefndi greiddi hvorki eftirstöðvar kaupverðs né fyrir aukaverk.  Hafi báturinn verið til­búinn mun fyrr til afhendingar en stefndi tók hann eða skoraði á stefnanda að af­henda hann.  Þar sem ekki verði séð að um afhendingardrátt sé að ræða eigi stefndi ekki kröfu á greiðslu dagsekta, þar sem hann hafi ekki orðið fyrir tjóni og þá hafi auka­verk tafið endanlegan frágang bátsins.  Hafi stefndi ítrekað við stefnanda að ekki stæði til að beita dagsektarákvæðum samningsins og því hafi stefnandi ekki varað sig á því að skora á stefnda að taka bátinn strax og smíði hans var lokið og greiða eftir­stöðvarnar.  Þá hafi stefndi aldrei sent stefnanda viðvörunarbréf þar sem hann krafðist af­hendingar og lýsti því yfir að dagsektir væru byrjaðar að telja og skv. 27. gr. laga um lausafjárkaup hefði stefndi þurft að skýra stefnanda frá því hygðist hann bera fyrir sig afhendingardrátt, en telja verði að um verslunarkaup hafi verið að ræða.  Ítrekað hafi verið skorað á stefnda að greiða skuldina vegna smíði bátsins eða leggja fram greiðslu­tryggingu og hafi afhending bátsins verið boðin um leið og greiðsla færi fram.  Þar sem stefndi hafi enn ekki greitt bátinn fullu verði eigi hann ekki rétt á dag­sektum.  Átt stefnandi því haldsrétt í bátnum meðan hann var ekki greiddur.  Eigi stefndi því ekki rétt á því að dagsektir verði dregnar frá kröfu stefnanda.

Stefnandi vísar auk þeirra lagagreina er hér að ofan getur til XXI. kafla laga nr. 91/1991 að því er málskostnað varðar og til meginreglna fjármuna- og kröfuréttar um efndir samninga.  Þá er vísað til ólögfestra reglna um haldsrétt.

Málsástæður og lagarök stefnda.

   Stefndi rökstyður kröfu sína um sýknu að svo stöddu þannig að stefnandi hafi ekki gefið út reikninga á hendur stefnda til grundvallar kröfum sínum eins og honum sé skylt.  Þá krefji stefnandi aðeins um ákveðna fjárhæð til greiðslu án þess að lýsa því yfir að gegn þeirri greiðslu verði báturinn afhentur formlega með afsali eða smíða­skírteini, en stefnda sé einungis skylt að greiða gegn afhendingu afsals eða smíða­skírteinis.  Báturinn hafi ekki verið afhentur fyrr en stefndi hafi slíkar viðurkenningar í hönd­um.  Þar til stefnandi geri þá kröfu að hann krefjist greiðslu á andvirði bátsins gegn útgáfu afsals eða smíðaskírteinis verði að sýkna stefnda að svo stöddu.  Stefndi vísar til 26. gr. laga nr. 91/1991, bókhaldslaga nr. 145/1994 og laga um virðis­auka­skatt nr. 50/1988.  Einnig vísar stefndi til þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og 6. gr. laga nr. 115/1995 og til reglna eignarréttar um yfirfærslu eignarréttinda.

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að kröfur stefnanda umfram reikning eigi ekki við rök að styðjast.  Umsamið kaupverð samkvæmt samningum aðila sé kr. 11.624.200 og lúti kröfur stefnanda um greiðslur fyrir aukaverk að mestu leyti að þátt­um sem teljist til venjulegs staðalbúnaðar slíks báts.  Vísar stefndi til athugasemda sinna við sundurliðun stefnanda þar að lútandi og smíðalýsingar sem fylgdi samn­ingn­um.  Byggir stefndi á því að engir samningar séu til um að stefndi hafi samþykkt breyt­ingar á bátnum frá upphaflegum samningi, nema að því leyti sem stefndi hefur viðurkennt.

Þá byggir stefndi á því að báturinn sé haldinn verulegum göllum.  Séu helstu gallar þeir að skrokkur bátsins sé hornskakkur sem og stýrishús.  Þá sé stýrisútbúnaður of veigalítill fyrir bát af þessari stærð.  Einnig séu hliðar bátsins allar í bylgjum, en það stafi af galla í plaststeypumótum.

Stefndi byggir skuldajafnaðarkröfu sína á dagsektarákvæði viðaukasamningsins.  Sé um að ræða skýrt samningsákvæði, sem eðlilegt hafi verið að setja með hliðsjón af þeim töfum sem orðið höfðu á smíði bátsins.  Hafi stefnda verið mikil þörf á að fá hinn nýja bát til þess að geta betur nýtt þá aflaheimild sem stefndi átti.  Hefði verið auð­velt að færa þessar aflaheimildir yfir á hinn nýja bát að fengnu smíðaskírteini, stofn­skjali eða afsali frá stefnanda. 

Stefndi byggir á því að hann hafi í raun ekki enn fengið bátinn afhentan þar sem ekki hafi verið unnt að færa veiðiheimildir yfir á bátinn, en fyrr fái hann ekki að veiða í fiskveiðilandhelginni.  Hafi stefnandi með þessu valdið stefnda miklu tjóni, en veiðar með nýja bátnum hefðu skilað stefnda mun meiri tekjum en veiðar með gamla bátnum.

Stefndi byggir á því að stefnanda hafi ekki verið heimilt að neita stefnda um af­hend­ingu bátsins, en þegar stefndi sótti bátinn hafi hann þegar verið búinn að greiða and­virði hans.

   Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki framvísað reikningum fyrir auka­verk fyrr en með stefnu í máli þessu og þá ekki í eigin nafni, heldur í nafni Mótunar ehf., en það fái ekki staðist.

Stefndi vísar til reglna kauparéttar um afhendingu og reglna verktakaréttar um lög­mæti dagsekta.  Þá er vísað til reglna um stofnun eignarréttar.  Þá sé ljóst að mati stefnda að hin nýju kaupalög og lög um þjónustusamninga eigi ekki við um samninga máls­aðila.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hann hafi lesið við­aukasamninginn mjög lauslega og kvaðst hann ekki hafa haft hugmynd um dag­sekt­arákvæðið.  Hafi forsvarsmaður stefnda, Ingimundur Magnússon, tjáð sér þegar smíði bátsins var að ljúka að þessu ákvæði yrði aldrei beitt.   Stefnandi sagði smíða­lýs­ingu þá sem liggur fyrir í málinu eiga við bát fyrri gerðar sem stóð til að smíða.  Hann kvað allt til viðbótar við lýsinguna vera aukaverk, en um hafi verið að ræða frum­gerð af bát, hinum fyrsta sinnar tegundar.  Hann kvað skriflegan samning ekki hafa verið gerðan um aukaverkin.  Stefnandi kvað engin ákvæði til um staðalbúnað í bátum og tók sérstaklega fram að salerni hafi ekki átt að fylgja bátnum.

Forsvarsmaður stefnda, Stefán Örn Hjaltason, kt. 250842-3689, skýrði svo frá fyrir dómi að stefnandi hafi ekki tilkynnt að Mótun ehf. væri undirverktaki við smíði bátsins.  Hann kvað að samið hefði verið við stefnanda um ákveðin aukaverk, en að öðru leyti hafnaði hann kröfum stefnanda.

Ingimundur Magnússon, kt. 231139-4789, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði samið viðaukasamninginn.  Hann kvað samninginn hafa verið ræddan, yfirlesinn og undir­ritaðan.  Hann kvað stefnda hafa farið fram á dagsektarákvæðið og hefði það verið rætt við stefnanda. Hann kvað að óskað hafi verið eftir ákveðnum hlutum til við­bótar og þá hafi stefnandi verið með ýmsar uppástungur.  Ingimundur kvað stefnanda hafa ákveðið aðra verkþætti á eigin spýtur og kvaðst hann hafa staðið í þeirri trú að þeir væru innifaldir í verði bátsins.  Ingimundur neitaði að svara þeirri spurningu fyrir dómi hvort hann hefði löggildingu sem skipasali.

Niðurstaða.

   Í máli þessu er upplýst að umsamið verð báts þess sem stefnandi tók að sér að smíða fyrir stefnda var kr. 11.624.200.  Af þessari fjárhæð hefur stefndi greitt kr. 9.454.200 og er óumdeilt að eftir standa kr. 2.170.000.  Ágreiningur aðila snýst um auka­verk og aukabúnað sem settur var í bátinn og gerir stefnandi kröfu um greiðslu á kr. 3.893.400 af þeim sökum.  Umsaminn afhendingardagur bátsins var 20. júní árið 2000 en stefndi tók bátinn í sínar vörslur 8. október sama ár.  Hefur ekki annað verið í ljós leitt en hann hafi þá verið fullbúinn og þrátt fyrir ummæli stefnda í greinargerð hefur hann engin gögn lagt fram um að báturinn hafi verið haldinn göllum.  Í við­auka­samningi aðila er ákvæði um dagsektir og gerir stefnandi kröfu um skuldajöfnuð af þeim sökum, án þess þó að tilgreina fjárhæð í því sambandi.  Þá lýsir stefndi yfir skulda­jöfnuði við kröfur stefnanda vegna tjóns sem hann segist hafa orðið fyrir vegna þess að hann hefur ekki getað fært fiskveiðiheimildir yfir á bátinn og haldið honum til veiða eins og ætlun hans hafi verið.

Aðalkrafa stefnda lýtur að því að hann verði sýknaður að svo stöddu þar sem stefn­andi hafi enn ekki gefið út reikninga á hið stefnda félag.  Stefnandi reisir kröfur sínar á kaupsamningi aðila og viðaukasamningi við hann. Mun stefnandi hafa fengið fyrir­tækið Mótun ehf. til að annast smíði bátsins sem undirverktaki og hefur hann fengið kröfur þess fyrirtækis framseldar til sín.  Eru reikningar í málinu gefnir út af Mótun ehf. til stefnda.  Verður því ekki fallist á að sýkna beri að svo stöddu í máli þessu.

Stefnandi gerir kröfur um greiðslu fyrir vinnu vegna lengingar á stýrishúsi um 65 cm, ísetningu tveggja glugga, sprautun o.fl., samtals kr. 647.000.  Stefndi segir um­samið að tvær rúður hafi átt að vera á hvorri hlið stýrishúss.  Samkvæmt smíðalýsingu skyldu vera þrjár framrúður og tvær hliðarrúður úr hertu öryggisgleri í álramma.  Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum skýrt þennan lið með því að stefndi hafi farið fram á salernisaðstöðu í stýrishúsi og því hafi þurft að lengja stýrishús.  Stefndi heldur því fram að salerni sé hluti staðalbúnaðar báts af þessari gerð.  Samkvæmt smíða­lýs­ingu er um að ræða 11 metra langan dekkaðan fiskibát úr trefjaplasti.  Um smíði og búnað slíkra báta gildir reglugerð nr. 592/1994, en hún nær til báta með mestu lengd allt að 15 metrum.  Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 25/1993 um eftir­lit með skipum.  Samkvæmt 1. gr. í kafla V-12 um vistarverur vinnubáta skal hver bátur sem er lengri er 8 m mesta lengd búinn minnst einu salerni.  Skulu öll sal­erni vera í sérstökum klefa með læsanlegri hurð.  Skulu þau vera vel lýst og loftræst og á hverju salerni skal vera handlaug með rennandi vatni og frárennsli.  Er heimilt að víkja frá þessari kröfu ef báturinn er minni en 10 metrar mesta lengd og ekki notaður til farþegaflutninga.  Þessum reglum var breytt með reglugerð nr. 489/1999 frá 2. júlí 1999 og var helsta breytingin sú að miðað var við báta sem voru 10 metrar að mestu lengd í stað 8 metra.  Samkvæmt framansögðu er salernisaðstaða hluti af staðalbúnaði fyrir báta af þeirri gerð er mál þetta snýst um.  Af því leiðir að stefnandi getur ekki gert sérstaklega kröfu vegna kostnaðar er hlotist hefur af uppsetningu salernisaðstöðu.  Ber því að hafna þessari kröfu stefnanda, enda hefur ekki verið sýnt fram á að samist hafi á annan veg með aðilum að þessu leyti.

Í öðru lagi gerir stefnandi kröfu um greiðslu vegna tréverks í lúkar úr harðviði, þrjá skápa, skilrúm, stálvask, blöndunartæki o.fl., samtals kr. 549.700.  Stefndi segir tréverk í lúkar samkvæmt samningi og ekki hafi verið óskað eftir breytingum eða auka­verkum þar.  Samkvæmt smíðalýsingu er ekki getið um þau atriði er hér greinir.  Að mati dómsins hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi óskað eftir breyt­ingum að þessu leyti.  Verður þessari kröfu stefnanda því hafnað.

   Í þriðja lagi er um að ræða kröfu stefnanda um greiðslu vegna stærra rafkerfis.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram að að stefndi hafi óskað eftir breytingum að þessu leyti og ekki verður af smíðalýsingu ráðið að um aukaverk sé að ræða.  Ber því að hafna þessari kröfu stefnanda.   Stefndi lýsir sig reiðubúinn að greiða kr. 20.800 vegna upp­setn­ingar á radarskanner, GPS loftneti og dýptarmæli.  Kostnaður vegna þessara atriða nemur hins vegar kr. 70.000 og verður krafa stefnanda að þessu leyti tekin til greina.

   Í fjórða lagi er um að ræða vinnu vegna ísskáps, spennubreytis, borð úr trefja­plasti fyrir ísskáp og örbylgjuofn, samtals kr. 151.600.  Ekki hefur verið sýnt fram á að eldavél sé meðal staðalbúnaðar báta af þessari gerð.  Verður því fallist á það með stefn­anda að hér sé um aukaverk að ræða sem stefndi beri að standa stefnanda skil á.

Í fimmta lagi er gerð krafa um greiðslu vegna salernisklefa með hurð, handlaug með blöndunartækjum o.fl., samtals kr. 207.600.  Með vísan til þess sem að framan er rakið um að salerni skuli vera í bát af þessari stærð, ber að hafna fjárkröfu stefnanda að þessu leyti.

Í sjötta lagi er um að ræða kostnað vegna dúkklæðningar, samtals kr. 44.600.  Stefnandi hefur enga grein gert fyrir þessari kröfu og verður henni vísað frá dómi.

Í sjöunda lagi er um að ræða kostnað vegna neysluvatnskerfis, samtals kr. 282.700.  Stefndi segir þessi atriði hluta af staðalbúnaði bátsins.  Í ljósi þeirrar kröfu um salernisaðstöðu sem gerð er í umræddri reglugerð og kröfu um handlaug með renn­andi vatni, þykir mega fallast á að hér sé um staðalbúnað að ræða sem stefndi þurfi ekki að greiða sérstaklega fyrir.  Verður þessari kröfu stefnanda því hafnað.

Í áttunda og níunda lagi er um að ræða kostnað vegna breytinga sem urðu vegna  stækk­unar á salernisklefa, samtals kr. 124.200.   Í ljósi þess sem að framan greinir um sal­ernisaðstöðu ber að hafna þessari kröfu stefnanda.

   Í tíunda lagi er um að ræða kostnað vegna skáps fyrir aftan stýrimann, samtals kr. 173.600.  Stefndi telur hér ekki um stórmál að ræða og í ljósi þeirrar afstöðu hans ber að líta svo á að hann fallist á þessa kröfu stefnanda.  Verður hún því tekin til greina.

Í ellefta lagi er um að ræða tvo þurrkumótora, samtals kr. 52.600.  Stefndi telur hér um að ræða staðalbúnað bátsins og verður fallist á þá skoðun hans og þessum lið hafnað.

   Í tólfta lagi er um að ræða kostnað vegna stærra botnstykkis, samtals kr. 36.400. Stefndi segir umsamið að stefnandi setti botnstykki dýptarmælis í bátinn og hafi ekki verið rætt um sérstaka stærð botnstykkis.  Í ljósi þessarar afstöðu stefnda ber að fallast  á það með stefnanda að hér sé um aukaverk að ræða og verður þessi liður tekinn til greina.

   Í þrettánda til fimmtánda lagi er um að ræða kostnað vegna ísetningar á NMT síma með loftneti, frágang á radar og lestarlúgu úr áli, samtals kr. 259.800.  Skilja verður afstöðu stefnda svo að hann fallist á að hér sé um aukaverk að ræða, en sætti sig ekki við uppsett verð.  Að mati dómsins hefur stefnandi gert næga grein fyrir þessum kröfuliðum og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að uppsett verð sé ósann­gjarnt verða þeir teknir til greina.

   Í sextánda lagi er um að ræða þykkingu á trefjaplasti á dekki, samtals kr. 190.200.  Stefndi segir plastþykkt háða reglum Siglingastofnunar og sé því ekki um aukaverk að ræða.  Að mati dómsins hefur stefnandi ekki sýnt fram á að um aukaverk sé að ræða og verður þessum kröfulið því hafnað.

   Í sautjánda lagi er um að ræða stálhandrið í stað áls, stálmastur í stað áls og stokk undir spil úr ryðfríu stáli í stað trefjaplasts, samtals kr. 255.500.  Skilja verður afstöðu stefnda svo að hann fallist á að hér sé um aukaverk að ræða, en sætti sig ekki við upp­sett verð.  Að mati dómsins hefur stefnandi gert næga grein fyrir þessum kröfulið og verður hann tekinn til greina, enda hefur ekki verið sýnt fram á að uppsett verð sé ósanngjarnt.

   Í átjánda lagi er um að ræða raftöflu með ETA sjálfvörum, stál undirstöðu undir spil í stað trefjaplasts, snuðloka á gírkassa, Hynautic stjórntæki, stytting á skrúfuás vegna snuðloka o.fl., samtals kr. 119.500.  Skilja verður afstöðu stefnda svo að hann fallist á að hér sé um aukaverk að ræða, en sætti sig ekki við uppsett verð.  Að mati dómsins hefur stefnandi gert næga grein fyrir þessum kröfulið og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að uppsett verð sé ósanngjarnt verður hann tekinn til greina.

   Í nítjánda og tuttugasta lagi er um að ræða kostnað vegna útvarps með hátölurum, og glussakæli á kælikerfi vélar samtals kr. 76.800.  Skilja verður afstöðu stefnda svo að hann fallist á að hér sé um aukaverk að ræða, en sætti sig ekki við uppsett verð.  Að mati dómsins hefur stefnandi gert næga grein fyrir þessum kröfuliðum og verða þeir teknir til greina, enda ekki verið sýnt fram á að uppsett verð sé ósanngjarnt.

Í tuttugasta og fyrsta lagi er um að ræða kostnað vegna stærri stýristjakks, kr. 23.000.  Að mati dómsins hefur stefnandi ekki gert næga grein fyrir þessum kröfulið og verður honum vísað frá dómi.

Í tuttugasta og öðru lagi er um að ræða kostnað vegna botnmálningar, samtals kr. 92.000. Stefndi telur ekki um aukaverk að ræða, enda sé nýjum bátum alltaf skilað full­máluðum.  Ber að fallast á þessa skoðun stefnda og verður þessi liður því ekki tekin til greina.

Í tuttugasta og þriðja lagi er um að ræða stiga í lúkar, kr. 29.700.  Stefndi telur hér um staðalbúnað að ræða.  Verður á þessa skoðun stefnda fallist.

   Að lokum er um að ræða dempara í stól fyrir stýrimann og tvöfaldan stól í stýris­hús, samtals kr. 60.000.  Skilja verður afstöðu stefnda svo að hann fallist á að hér sé um aukaverk að ræða, en sætti sig ekki við uppsett verð.  Að mati dómsins hefur stefnandi gert næga grein fyrir þessum kröfuliðum og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að uppsett verð sé ósanngjarnt verða þeir teknir til greina.

   Samkvæmt framansögðu á stefndi eftir að standa stefnanda skil á kr. 3.373.200, þ.e.a.s. kr. 2.170.000 vegna samningsgreiðslu og kr. 1.203.200 vegna aukaverka.

   Kemur þá til skoðunar hvort stefndi eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar á hendur stefnanda, annars vegar vegna dagsektaákvæðis í viðaukasamningi og hins vegar vegna þess að hann hafi ekki getað fært fiskveiðiheimildir yfir á bátinn og haldið hon­um til veiða eins og ætlun hans hafi verið.  Eins og að framan er rakið var umsaminn af­hendingardagur bátsins 20. júní 2000 en stefndi tók bátinn í sínar vörslur 8. október sama ár.  Ekki hefur annað verið í ljós leitt en báturinn hafi þá verið fullbúinn, en ekki hefur verið upplýst hvenær stefnandi lauk að fullu við bátssmíðina.  Á því tímamarki skuld­aði stefndi stefnanda kr. 3.373.200 vegna ógreiddrar samningsgreiðslu og auka­verka.  Þá má leiða líkur að því að aukaverk hafi tafið framgang verksins.  Við þessar að­stæður kemur ekki til álita að beita dagsektaákvæði viðaukasamningsins.  Þá ber einnig að hafa í huga að stefndi hefur ekki lagt fram kröfu um greiðslu dagsekta með skýrum hætti.  Verður stefnandi því sýknaður af gagnkröfu stefnda að þessu leyti.  Með sömu rökum ber að sýkna stefnanda af gagnkröfu stefnda sem lýtur að tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir sökum þess að hann hafi ekki getað fært fisk­veiði­heim­ildir á bátinn og haldið honum til veiða.

Samkvæmt framansögðu verða úrslit málsins þau að stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda kr. 3.373.200 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2000 til greiðsludags.  Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

   Stefndi, Útgerðarfélagið Súlur ehf., greiði stefnanda, Regin Grímssyni, kr. 3.373.200 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2000 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.