Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-118

A (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
B (Helgi Birgisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lán
  • Samningur
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 8. nóvember 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að áfrýja dómi Landsréttar 12. október sama ár í máli nr. 210/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort sautján millifærslur gagnaðila á reikning leyfisbeiðanda á tímabilinu 2. nóvember 2017 til 3. júní 2019 hafi verið lán frá henni sem leyfisbeiðanda beri að endurgreiða.

4. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila 2.684.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Landsréttur tók fram að almennt verði sá sem telji sig eiga kröfu á hendur öðrum manni að bera hallann af því ef ekki eru færðar viðhlítandi sönnur á að til kröfuréttarsambands hafi stofnast. Af dómaframkvæmd megi þó ráða að þegar fjármunir hafi sannanlega verið færðir milli manna, til að mynda með millifærslu, sé jafnan lagt til grundvallar að greiðandi eigi kröfu um endurgreiðslu enda hafi ekki verið gert sennilegt að greiðslan sé endurgjald af einhverju tagi eða að um örlætisgerning sé að ræða. Miðað við framlögð gögn í málinu taldi Landsréttur að ekki væri upplýst að fimm millifærslur væru peningalán. Aftur á móti þótti nægjanlega fram komið að gagnaðili hefði lánað leyfisbeiðanda samtals 3.251.000 krónur með tólf millifærslum eða eftir atvikum falið leyfisbeiðanda að varðveita féð um tíma. Til frádráttar kæmu nítján greiðslur sem leyfisbeiðandi hefði innt af hendi til gagnaðila, samtals 567.000 krónur. Var leyfisbeiðanda því gert að greiða gagnaðila 2.684.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum en hún að öðru leyti sýknuð af kröfum gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Miðað við þær forsendur sem fram komi í dómi Landsréttar sé útreikningur réttarins rangur þar sem draga hefði átt hærri fjárhæð frá dæmdri kröfu gagnaðila í dómi héraðsdóms. Þegar af þeirri ástæðu beri að veita leyfisbeiðanda leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.