Hæstiréttur íslands
Mál nr. 373/2003
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 25. mars 2004. |
|
Nr. 373/2003. |
Soffanías Cecilsson hf. (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn Gunnari Tryggva Ómarssyni (Jónas Haraldsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn.
G stýrimaður á skipi í eigu S veiktist í veiðiferð og þurfti að sigla með hann í land. Var í kjölfarið gerður við hann starfslokasamningur og honum greitt sem svaraði einum mánaðarlaunum. Síðar var honum greitt það sem á vantaði upp á þau tveggja mánaða laun í veikindaforföllum sem hann átti rétt á samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Talið var að með gerð starfslokasamningsins hafi S vikið G úr skipsrúmi án nægilegra ástæðna og ætti hann því rétt til launa í þrjá mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. september 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð ný gögn.
Stefndi hafði verið stýrimaður á Grundfirðingi SH-24 frá júlí 2001 þegar hann veiktist skyndilega í veiðiferð svo að sigla varð með hann til lands 30. október 2002, svo sem nánar er lýst í héraðsdómi. Að morgni 4. nóvember var hann kallaður til framkvæmdastjóra áfrýjanda og var þar undirritaður starfslokasamningur, sem hafði að geyma ákvæði um að hann léti strax af störfum og útgerðin greiddi honum 400.000 krónur. Í málinu liggur fyrir vottorð frá Tómasi Zoëga yfirlækni frá 20. desember 2002 um geðræn veikindi stefnda en Tómas skoðaði hann 8. nóvember. Í vottorðinu kemur fram að læknirinn telur það hafið yfir allan vafa að stefndi hafi haft svipuð einkenni 4. nóvember og hann hafði við komu á deildina til hans en þau hafi lýst sér í ofskynjunum og miklum hugsanatruflunum. Segir læknirinn að fulltrúi útgerðarinnar hafi hlotið að vita þá um alvarleg veikindi stefnda. Jafnframt segir í vottorðinu að reikna megi með að stefndi nái fullri vinnugetu.
Með bréfi lögmanns stefnda 18. nóvember 2002 var þeirri skoðun lýst að með því að fá stefnda til að undirrita áðurgreindan starfslokasamning vitandi um andlegt ástand hans hafi áfrýjandi rift ráðningarsamningi stefnda með ólögmætum hætti. Stefndi reisir kröfu sína um þriggja mánaða laun í uppsagnarfresti á þessari málsástæðu.
Áfrýjandi reisti sýknukröfu sína í héraði í fyrsta lagi á því að aðilar hafi 4. nóvember 2002 gert með sér samkomulag um starfslok stefnda. Hafi hann undirritað samkomulagið af fúsum og frjálsum vilja. Í öðru lagi byggði áfrýjandi á því að hann hafi þegar greitt stefnda staðgengilslaun í tvo mánuði, sem sé fullnaðaruppgjör vegna veikindaréttar stefnda. Vísar áfrýjandi til launaseðils sem dagsettur er 31. janúar 2003. Á hann er handskrifað að þetta sé lokauppgjör veikindalauna nóvember til desember 2002. Er því haldið fram að greiðsla þessi sé innt af hendi í ljósi læknisvottorðs, sem lagt hafi verið fram við þingfestingu stefnu. Er hér átt við vottorð Tómasar Zoëga yfirlæknis. Þessi greiðsla var dregin frá kröfu stefnda í héraðsdómi.
Fyrir Hæstarétti reisti áfrýjandi kröfu sína, auk þeirra ástæðna sem byggt var á í héraði, á því að um leið og athugasemd hafi verið gerð við samkomulagið um fullnaðaruppgjör hafi áfrýjandi fallist á að víkja því til hliðar og hafi óskað eftir því að stefndi kæmi á ný til starfa. Ekki verður séð að á þessu hafi verið byggt fyrir héraðsdómi og hefur héraðsdómur ekki fjallað um þessa málsástæðu. Er hún of seint fram komin og getur ekki komið til skoðunar fyrir Hæstarétti.
Af gögnum málsins er skýrt að skipstjóri bátsins tók þá ákvörðun í ljósi veikinda stefnda, sem að framan er lýst, að sigla með hann í land. Skipstjórinn gerði sér ljósa grein fyrir því að stefndi var sjúkur og hann gerði framkvæmdarstjóranum grein fyrir veikindunum. Stefnda bar því samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 kaup í tvo mánuði meðan á veikindum hans stæði. Líta verður hins vegar svo á að með starfslokasamningnum hafi áfrýjandi vikið honum úr skiprúmi. Síðari greiðsla hans á því sem á skorti upp á tveggja mánaða laun breytir ekki þessari niðurstöðu.
Með framangreindri athugasemd en annars með vísun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Soffanías Cecilsson hf., greiði stefnda, Gunnari Tryggva Ómarssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 24. júlí 2003.
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 22. janúar 2003. Það var þingfest 12. febrúar 2003 og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 10. júlí s.á.
Stefnandi er Gunnar Tryggvi Ómarsson, kt. 271278-3149, Litla-Felli Skagaströnd, áður Borgarbraut 1 Grundarfirði. Stefnt er Soffaníasi Cecilssyni hf., kt. 611292 - 2959, Borgarbraut 1, Grundarfirði.
Endanlega dómkrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.822.797, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. nóvember 2002 til greiðsludags. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur. Þá er krafist viðurkenningar sjóveðréttar í m.s. Grundfirðingi SH24 (1202) til tryggingar dæmdum kröfum.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi þess að dómkrafa stefnanda verði lækkuð í kr. 1.047.571.
Málavextir eru þeir að sögn stefnanda, að hann hafi ráðið sig til starfa hjá stefnda í júlí 2001 sem afleysingastýrimaður á m.s. Grundfirðing SH24 (1202). Skipið hafi verið gert út á netaveiðar. Í byrjun september 2001 hafi hann verið fastráðinn 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri. Skipið hafi verið gert út óslitið til 10. júní 2002. Þá hafi það verið sett í slipp til viðgerða og endurbóta. Hafi stefnandi verið við vinnu um borð meira og minna allan þann tíma sem skipið var í slipp. Skipinu hafi síðan aftur verið haldið til veiða um miðjan september 2002.
Sunnudaginn 26. október 2002 að morgni hafi skipinu verið siglt til veiða norður fyrir land á Kolbeinseyjarhrygg. Daginn eftir hafi netin verið lögð, en síðar þann dag hafi stefnandi farið að fá ýmsar ranghugmyndir og bráð geðveikiseinkenni, sem nánar sé lýst í fram lögðu bréfi Tómasar Zoëga geðlæknis, dags. 20. desember 2002. Hafi þetta leitt til þess, að skipstjóri skipsins hafi ákveðið fimmtudaginn 30. október 2002 að sigla með stefnanda undir læknishendur, og hafi verið komið með stefnanda til Dalvíkur til læknis morguninn eftir. Þaðan hafi stefnandi farið til Grundarfjarðar og leitað þar læknis. Stefnandi hafi átt heima í sama húsi og skrifstofa stefnda er í, að Borgarbraut 1 Grundarfirði.
Mánudagsmorguninn 4. nóvember 2002 hafi stefnandi verið sljór og magnlítill. Hafi hann þá verið kallaður til framkvæmdastjóra stefnda, sem tilkynnt hafi stefnanda, að hann gæti ekki treyst honum til að starfa áfram á m.s. Grundfirðingi SH24 eftir það sem hafði gerst um borð, þ.e. eftir að þessi andlegu veikindi stefnanda komu fram. Á borði framkvæmdastjórans hafi legið tilbúinn starfslokasamningur, sem borið hafi heitið “Fullnaðaruppgjör vegna starfsloka”, sem framkvæmdastjórinn hafi lesið upp og lagt síðan fyrir stefnanda til undirskriftar. Stefnandi hafi síðan ritað undir, þótt hann hafi ekki gert sér grein fyrir því vegna veikinda sinna hvað hann var að gera. Í þessum starfslokasamningi segi að stefnandi láti strax af störfum og útgerðin greiði honum kr. 400.000, sem verið hafi u.þ.b. mánaðarlaun.
Þann 5. nóvember 2002 hafi stefnandi farið til Vestmannaeyja til foreldra sinna og verið þar áfram illa haldinn af veikindum sínum. Þau hafi lýst sér í ranghugmyndum, þunglyndi og sljóleika. Hafi móðir stefnanda strax haft samband við heilsugæslulækni í Vestmannaeyjum og lýst ástandi stefnanda. Læknirinn hafi bent henni á að leggja þyrfti stefnanda inn á geðdeild sem allra fyrst. Hafi læknirinn svo séð um að stefnandi yrði lagður inn á Geðdeild Landsspítalans þann 7. nóvember 2002, og hafi faðir hans farið með hann þangað.
Eftir tveggja vikna sjúkrahúsalegu á Geðdeild Landsspítalans hafi stefnandi haft samband við skipstjóra skipsins til að spyrja hann hvenær skipið kæmi til hafnar svo hann gæti sótt dótið sitt. Þá hafi komið fram hjá skipstjóra að hann gæti ekki boðið stefnanda aftur stýrimannspláss vegna þeirra veikinda sem stefnandi varð fyrir.
Þann 18. nóvember 2002 hafi lögmaður stefnanda skrifað stefnda bréf, þar sem fram kemur að hann telji að svonefndur starfslokasamningur, þess efnis að stefnandi hætti störfum strax og fái greidd í uppsagnarlaun sem nemi eins mánaðar launum, hafi verið ólögmætur gerningur og óskuldbindandi fyrir stefnanda. Með þessum svokallaða starfslokasamningi hafi ráðningu stefnanda verið rift með ólögmætum hætti, og gerð hafi verið krafa um greiðslu meðallauna í þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Með bréfi, dags. 27. nóvember 2002, hafi lögmaður stefnda hafnað kröfu stefnanda um laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti, en í þess stað boðist til að greiða stefnanda laun í veikindum hans, þ.e. staðgengilslaun í tvo mánuði. Jafnframt hafi í þessu bréfi verið óskað eftir því að stefnandi skilaði til baka starfslokagreiðslunni, en honum yrði síðan greidd staðgengilslaun (sama fjárhæð) þegar frumrit læknisvottorðs yrði sent.
Lögmaður stefnanda hafi tilkynnt lögmanni stefnda það í símatali að þessu tilboði stefnda væri hafnað og haldið fast við það, að um ólögmæta riftun hefði verið að ræða á ráðningarsamningi stefnanda af hálfu stefnda, enda hafi komið skýrt fram í þessum svokallaða starfslokasamningi frá 4. nóvember 2002, að stefnandi “hætti störfum frá og með deginum í dag að telja”. Auk þess sem skipstjóri skipsins hafi síðar tilkynnt honum að stefnandi færi ekki aftur um borð vegna þessara veikinda hans.
Með bréfi, dags. 17. desember 2002, hafi lögmaður stefnanda skrifað Tómasi Zoëga yfirlækni á Geðdeild Landsspítalans bréf vegna sjúkdóms stefnanda, þar sem óskað hafi verið tilgreindra upplýsinga um veikindi stefnanda og batahorfur.
Með bréfi, dags. 20. desember 2002, hafi geðlæknirinn svarað bréfi lögmanns stefnanda. Í þessu bréfi segi m.a. þetta um veikindi stefnanda:
“Ofannefndur, Gunnar Tryggvi, lá á geðdeild Lsp frá 07.11.2002-21.11.2002. Undirritaður skoðaði Gunnar að morgni hins 08.11.2002 og í því viðtali kom fram að Gunnar Tryggvi hafði haft bráð geðveikiseinkenni í viku til 10 daga. Fram kom að hann starfaði sem stýrimaður á netabát og svo virtist sem hann hafi veikst skyndilega og byrjað að heyra raddir, fengið skilaboð í gegnum fjölmiðla og fundist eins og skipverjar sem hann var að vinna með væru að tala saman um sig. Jafnvel að það væri samsæri um að drepa hann. Misskildi m.a. hósta þeirra þannig að þeir væru að gefa honum skilaboð um að hann væri barnaníðingur og aðrar hugmyndir sem erfitt var að henda reiður á í viðtali.”
Um batahorfur stefnanda segi læknirinn þetta:
“Gunnar Tryggvi var meðhöndlaður með viðeigandi lyfjameðferð og við útskrift hinn 21. nóvember voru ranghugmyndirnar að verulegu leyti gegnar til baka og hann var á þeim tíma mjög þægilegur og viðmótsþýður. Eftir útskrift hefur undirritaður tvívegis talað vð Tryggva, síðast fyrir nokkrum dögum en þá var augljóst að honum leið mun betur en áður. Að mati undirritaðs eru horfur Gunnars Tryggva góðar. Reikna má með því að hann nái fullri vinnugetu en hann þarf að halda áfram lyfjameðferð og vera undir eftirliti lækna.”
Þar sem stefndi hafi ekki fallist á kröfu stefnanda sjái stefnandi sig tilneyddan til að höfða þetta mál.
Málsatvikum er svo lýst af hálfu stefnda: Stefnandi hafi verið stýrimaður á skipi stefnda, Grundfirðingi SH 24, skipaskrárnúmer 1202. Skipstjóri skipsins hafi ákveðið hinn 30. október 2002, þegar skipið hafi verið að veiðum fyrir norðan land, að sigla í land á Dalvík vegna óeðlilegrar hegðunar stefnanda, stýrimanns skipsins. Læknir á Heilsugæslustöð Dalvíkur hafi skoðað stefnanda og sagt stefnanda að hann þyrfti að hvíla sig í þrjá til fjóra daga. Skipstjóri stefnda hafi farið með stefnanda á skrifstofu læknisins á Dalvík. Skipstjóri stefnda hafi eftir lækninum, er skoðaði stefnanda, að sennilega væri um að ræða “eftirstöðvar eiturlyfjaneyslu”, ástand sem gæti skotið upp kollinum öðru hverju.
Skipstjórinn hafi sagt framkvæmdastjóra stefnda frá atvikum og hafi framkvæmdastjóri stefnda haft samband við stefnanda að fjórum dögum liðnum, enda hefði ekkert læknisvottorð verið lagt fram; þetta hafi verið 4. nóvember 2002. Stefndi hafi viljað fá læknisvottorð frá stefnanda og fá að vita hversu lengi stefnandi reiknaði með að verða frá vinnu. Stefnandi hafi komið á fund framkvæmdastjóra stefnda. Stefnandi hafi talið sig vera orðinn það heilan heilsu að hann gæti hafið vinnu, en sagt að hegðun sín um borð í skipinu Grundfirðingi SH. 24 hefði verið með þeim hætti, nokkrum dögum áður en hann leitaði læknis, að hann teldi sér ómögulegt að starfa áfram um borð. Framkvæmdastjóri stefnda hafi sagt stefnanda að hann gæti boðið honum starfslokasamning og boðið eingreiðslu, kr. 400.000. Framkvæmdastjóri stefnda hafi talið sig greiða umfram skyldu, þar sem stefnandi hafi talið sig heilan heilsu. Stefnandi hafi sagst vilja ganga þannig frá starfslokum. Framkvæmdastjóri stefnda hafi skrifað upp samkomulag, ,,Fullnaðaruppgjör vegna starfsloka”, sem báðir aðilar hafi undirritað. Allt hafi þetta farið fram í bróðerni og aðilar skilið sáttir, og stefnandi hafi sagt að hann mundi senda stefnda læknisvottorð.
Tveimur vikum síðar, án þess að læknisvottorð hafi verið sent stefnda, hafi komið fram krafa lögmanns stefnanda vegna ólögmætar uppsagnar. Stefna hafi verið út gefin 17. janúar 2003.
Stefnandi hafi ráðið sig til starfa á skipið Málmey SK 1. janúar 2003.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 18. nóvember 2002 hafi hann tilkynnt stefnda, að með því að framkvæmdarstjóri stefnda hafi fengið stefnanda til að undirrita svokallaðan starfslokasamning, vitandi um andlegt ástand stefnanda, og þar sem fram kemur í þessum samningi, að stefnandi láti strax af störfum gegn greiðslu mánaðarlauna, hafi stefndi rift ráðningarsamningi stefnanda með ólögmætum hætti.
Málsrök stefnanda eru þessi:
Stefnandi hafi starfað sem 1. stýrimaður á m.s. Grundfirðingi SH24. Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur, þegar hann réð sig á skipið, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Stefnandi hafi verið ráðinn ótímabundið, enda ekki gerður við hann tímabundinn ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur yfirmanna sé þrír mánuðir skv. 9. gr. sjómannalaga..
Samkvæmt 36. gr. sjómannalaga eigi skipverji, sem starfað hefur á skipi lengur en í 2 mánuði og veikist og verður óvinnufær, rétt á tveggja mánaða staðgengilslaunum.
Stefnandi hafi orðið óvinnufær vegna veikinda í lok október 2002. Í stað þess að greiða stefnanda veikindalaun þann tveggja mánaða tíma, sem 36. gr. sjómannalaga segi til um og segja síðan stefnanda upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara, sbr. 9. gr. sjómannalaga, ef þá stefndi vildi ekki hafa stefnanda lengur í sinni þjónustu, þá hafi stefndi gripið til þess ráðs að losa sig við stefnanda með greiðslu eins mánaðar launa í formi starfslokasamnings.
Stefnandi vitnar til bréfs yfirlæknis Geðdeildar Landsspítalans, dags. 20. desember 2002, um það, hvort framkvæmdastjóri stefnda hefði átt að gera sér grein fyrir andlegu ástandi stefnanda þann 4. nóvember 2002, en þar segir m.a. þetta:
“ Undirritaður telur það hafið yfir allan vafa að Gunnar Tryggvi hafi haft svipuð einkenni hinn 4. nóvember og hann hafði við komu á deildina en þau einkenndust eins og fram kemur af ofskynjunum og miklum hugsanatruflunum. Nokkuð ljóst er að fulltrúi útgerðarinnar hlýtur að hafa vitað um alvarleg veikindi Gunnars Tryggva enda sigldi skipstjórinn með hann í land vegna veikindanna nokkrum dögum fyrr. Veikindin eru þess eðlis að þau höfðu veruleg áhrif á dómgreind Gunnars.”
Með vísan til þessara ummæla geðlæknisins telur stefnandi fullljóst að framkvæmdastjóri stefnda hafi gert sér fulla grein fyrir því, að vegna veikinda sinna hafi stefnandi verið allsendis ófær um að gera sér grein fyrir því, hvað fólst í svonefndum starfslokasamningi, sem framkvæmdastjóri stefnda lagði fyrir hann til undirritunar. Megi leiða að því sterkar líkur að stefndi hafi með þessum samningi viljað losa sig strax við stefnanda úr starfi vegna geðrænna veikinda hans með því að fá hann til að gangast undir starfslokasamning um greiðslu eins mánaðar launa, þrátt fyrir að lögbundinn veikindaréttur stefnanda væri tveir mánuður á launum og þrír mánuðir í uppsagnarfresti.
Stefnandi reisir kröfu sínar á því, að hinn svonefndi starfslokasamningur sé marklaus og ólögmætur og þar af leiðandi með öllu óskuldbindandi fyrir sig. Samkvæmt 4. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 sé hægt að semja um betri rétt sjómanni til handa en sjómannalögin greina, en ekki lakari rétt.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1988 [Svo í stefnu, á augljóslega að vera l. nr. 55/1980. Aths. dómara], sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur; 10. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla og gr.1.51 kjarasamnings L.Í.Ú. og F.F.S.Í., séu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein. Jafnframt séu samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða ógildir. Telur stefnandi að með vísan til þessara lagaákvæða og kjarasamningsákvæðis, sé svonefndur starfslokasamningur þegar af þessum ástæðum ólögmætur og marklaus.
Þá vísar stefnandi til 31. gr., 33. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Í 31. gr. samningalaga segi, að hafi nokkur maður notað sér bágindi annars til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá, þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, skuli sá gerningur ógildur gagnvart þeim aðila, er á var hallað með honum.
Telur stefnandi að þetta misneytingarákvæði eigi hér við. Framkvæmdastjóra stefnda hljóti að hafa verið fullkunnugt um andlegt ástand stefnanda, þegar hann fékk stefnanda til að skrifa undir þennan svokallaða starfslokasamning.
Hið sama gildi gagnvart 33. gr. samningalaganna. Þar segi, að löggerningur, sem ella mundi talinn gildur, geti sá maður, er við honum tók, eigi borið fyrir sig ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla má að hann hafi haft vitneskju um.
Í þessu sambandi bendir stefnandi á það, að auk þess að svonefndur starfslokasamningur gæti aldrei orðið gildur þegar af þeim ástæðum, sem segi í framan greindum lagaákvæðum og áður er getið, þá væri það óheiðarlegt, svo notað sé orð lagatextans, af hálfu framkvæmdastjóra stefnda að fá stefnanda til að skrifa undir svokallaðan starfslokasamning með vitneskju um það, að stefnandi gat ekki gert sér ekki grein fyrir því vegna andlegra veikinda sinna, hvað hann var að skrifa undir.
Hvað 36. gr. samningalaganna segi með vísan til orða lagatextans, þá leiki ekki vafi á því, að starfslokasamningnum skuli vikið til hliðar, þegar af þeim ástæðum að það teljist tvímælalaust “ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.”
Með vísan til framan greindra málsástæðna og lagaákvæða telur stefnandi að dæma beri stefnda til að greiða kröfu stefnanda.
Sundurliðun dómkröfu
Stefnandi sundurliðar kröfur sínar með eftirfarandi hætti:
Tekjur stefnanda hjá stefnda hafi numið samtals kr. 6.377.905 á árinu 2002, sbr. fram lagða launaseðla. Í upphaflegri kröfugerð deildi stefnandi í þessa fjárhæð með lögskráningardögum, sem voru 242 á árinu, til að finna tekjur stefnanda pr. dag. Síðar breytti hann kröfugerðinni til lækkunar og miðaði þá við ráðningardaga. Lögmaður stefnanda skýrði svo þessa breytingu að hún væri gerð vegna þess að stefnandi hefði unnið við skipið Grundfirðing utan lögskráningardaga, þegar það var í slipp. Ráðningardagar alls á árinu 2002 hafi verið 300. Meðallaun stefnanda pr. ráðningardag séu því kr. 6.377.905:300 = kr. 21.260 pr. dag. Kr. 21.260x90 dagar í uppsagnarfresti = kr. 1.913.400. Við bætist 10.17% orlof, eða kr. 194.593, og 6% lífeyrissjóðsframlag atvinnurekanda, kr. 114.804. Samanlagt geri þetta kr. 2.222.797, en frá þeirri fjárhæð beri að draga kr. 400.000, ,,starfslokalaun”. Samtals nemi stefnukrafan kr. 1.822.797.
Lagarök.: Stefnandi byggir mál sitt einkum á 4. gr., 6. gr., 9. gr., 25.gr., 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Stefnandi byggir á 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og 10. gr laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests o.fl.. Einnig á 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá byggir stefnandi á 31. gr., 33. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Um orlof vísast til orlofslaga nr. 30/1987. Um dráttarvexti vísast til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað vísast til 1. m.gr. 130. gr. EML nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Um sjóveð vísast til XI. kafla siglingalaga nr. 34/1985, einkum 197. gr.
Málsástæður stefnda og lagarök
Málsástæður aðalkröfu er tvær.
Í fyrsta lagi byggir stefndi aðalkröfu sína um sýknu á því að aðilar hafi gert með sér samkomulag um starfslok stefnanda. Í því samkomulagi komi fram að stefnandi eigi ekki kröfu á stefnda ,, ..vegna samkomulags um starfslok og fullnaðaruppgjör.” Aðilar hafi undirritað fullnaðaruppgjör 4. nóvember 2002. Stefnandi hafi undirritað samkomulagið af fúsum og frjálsum vilja. Krafa stefnda um sýknu byggir á almennum reglum samningaréttar um efndir samninga. Ekkert hafi komið fram í málatilbúnaði stefnanda er réttlæti aðra niðurstöðu. Tilvísanir í stefnu í 31. gr., 33. gr. og 36 gr. laga 7/1936 er fjalla um ógilda löggerninga eigi ekki við.
Til ógildingar samnings eða samkomulags þurfi að vera bersýnilegur mismunur á hagsmunum og endurgjaldi því er fyrir hagsmunina koma. Veikindaréttur stefnanda og greiðsla er stefndi greiddi stefnanda með eingreiðslu, uppfylli ekki skilyrði um bersýnilegan mismun. Framkvæmastjóri stefnda hafi talið sig vera að greiða stefnanda umfram skyldu og hafi gert það að ósk stefnanda sjálfs, sem hafi viljað hætta að vinna hjá stefnda. Framkvæmdastjóri stefnda hafi vitað um veikindi stefnanda og að sennilegasta skýringin á þeim væri fyrri eiturlyfjaneysla stefnanda. Framkvæmdastjórinn hafi vitað að stefnanda var af lækni ráðlögð 3ja til 4ra daga hvíld, og að honum voru sköffuð svefnlyf til þess að ná þeirri hvíld.
Því er haldið fram af hálfu stefnda að algengt sé að vinnuveitendur og starfsmenn þeirra geri með sér samkomulag um fullnaðaruppgjör, líkt og aðilar þessa máls hafi gert 4. nóvember sl. Eðlilega liggja einhverjar ástæður að baki slíkri ákvörðun. Ástæðurnar geti verið hjá starfsmanni, vinnuveitanda eða hjá hvorum tveggja. Í þessu tilviki hafi ástæðurnar verið hjá starfsmanni, stefnanda, sem hafi sagt að hann vildi ekki starfa áfram á því skipi er hann var ráðinn til, þótt hann teldi sjálfur að veikindi hömluðu því ekki að hann hæfi vinnu. Vegna atvika hafi stefndi boðist til þess að greiða stefnanda kr. 400.000 sem fullnaðaruppgjör, og hafi stefnandi verið sáttur við þá niðurstöðu.
Um lagarök vísar stefndi á almennar reglur samningaréttar um gildi samninga.
Í öðru lagi byggir stefndi aðalkröfu um sýknu á því að stefndi hafi þegar greitt stefnanda tveggja mánaða staðgengilslaun, sem sé fullnaðaruppgjör vegna veikindaréttar stefnanda. Vísar stefndi um þetta til fram lagðs launaseðils, skráðs á nafn stefnanda; tímabil 01.01.03 til 31.01.03; dagsetning útborgunar 31.01.03. Á seðilinn er handskrifað: ,,Lokauppgjör veikindalauna nóv-des 2002" Laun samkv. seðli þessum eru kr. 384.407. Stefndi segir að greiðsla þessi hafi verið greidd í ljósi læknisvottorða sem stefnda hafi ekki verið afhent fyrr en við þingfestingu stefnu.
Líti dómurinn svo á að stefnandi sé óbundinn af því fullnaðaruppgjöri er stefnandi undirritaði 4. nóvember 2002, þá yrði slík niðurstaða fengin með vísan til ákvæði 31. gr., 33. gr. eða 36. gr. laga 7/1936, en á þeim lagaákvæðum byggi stefnandi kröfu sína.
Teljist samningur aðila vera ógildur vegna tilvitnaðra ákvæða samningalaga, þá öðlist stefnandi sama rétt og enginn samningur um fullnaðaruppgjör hafi verið undirritaður. Aðilar eigi samkvæmt ákvæðum er stefnandi vísar til að vera eins settur og ekkert samkomulag hefði verið gert milli aðila. Stefnandi öðlist, verði starfslokasamningur talinn ógildur löggerningur, veikindarétt sem sé tveggja mánaða staðgengilslaun, sem stefndi hefur þegar greitt stefnanda, sbr. fyrrgreindan launaseðil.
Stefndi vísar á bug þeim orðum er stefnandi segist hafa eftir skipstjóra stefnda þess efnis að skipstjórinn geti ekki boðið stefnanda aftur stýrimannspláss vegna þeirra veikinda sem stefnandi varð fyrir. Samkvæmt fram lagðri skriflegri yfirlýsingu skipstjórans hafi hann sagt stefnanda að hann gæti ekki notað hann um borð í þessu ástandi, og hafi stefnandi sagst vel skilja þá afstöðu. Þar að auki hefðu aðilar máls þessa á þeim tíma undirritað starfslokasamning og hafi skipstjóra stefnda væntanlega verið það ljóst.
Vegna kröfu um greiðslu málskostnaðar í aðalkröfu vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991. Vakin er athygli dómsins á því að stefnda hafi verið stefnt áður en læknisvottorð samkvæmt fram lögðum dómskjölum hafi verið send stefnda, en þau hafi fyrst verið lögð fram við þingfestingu málsins.
Um varakröfu. Stefndi gerir varakröfu fallist dómurinn ekki á aðalkröfu hans. Gerð er krafa til lækkunar útreiknaðra meðallauna stefnanda þannig að krafa stefnanda fyrir hvern dag verði lækkuð úr kr. 21.260 í kr. 17.522. Varakrafan byggist á því að stefnandi deilir í heildarlaun með 300 ráðningardögum, en stefndi deilir í heildarlaun með 364 dögum, enda hafi stefnandi verið fastráðinn starfsmaður stefnda. Samkvæmt þessu reiknar stefndi laun stefnanda kr. 6.377.905:364 dagar = kr. 17.522 á dag. Kr. 17.522x90 dagar = kr. 1.576.980. Við bætist 10,17% orlof, kr. 1.576.980, og 6% lífeyrissjóðsframlag, kr. 94.619. Samtals geri þetta kr. 1.831.978. Frá dragist kr. 400.000, starfslokagreiðsla, og ennfremur kr. 384.407, sem stefndi greiddi stefnanda í veikindalaun samkv. framlögðu ,,lokauppgjör veikindalauna", dagsetning útborgunar 31.01.2003. Eftirstöðvar séu því kr.1.047.571, en ekki kr. 1.822.797, sem er dómkrafa stefnanda.
Stefnandi hafi verið fastráðinn starfsmaður stefnda. Honum hafi verið tryggð laun allan þann tíma sem hann var fastráðinn starfsmaður stefnda. Hann hafi því verið á heilsárslaunum hjá stefnda, en er ekki ráðinn sem verktaki aðeins fyrir þann tíma sem hann var við vinnu um borð í skipi stefnda, en þann tíma hafi stefnandi verið lögskráður um borð í Grundfirðing SH.
Skýrslur fyrir dómi gáfu stefnandi og vitnin Tómas Zoëga geðlæknir; Ómar Haraldsson, faðir stefnanda, og Ásta Ýr Ásgeirsdóttir, sambýliskona stefnanda.
Stefnandi greindi frá atvikum máls mjög á sama veg og rakið er í stefnu. Stefnandi sagði að sér hefði líkað mjög vel að vera á Grundfirðingi SH 24. Hann hefði lengst af haft góðar tekjur. Fyrstu mánuðina hefði hann búið um borð í skipinu, en síðar hefði stefndi leigt honum húsnæði.
Stefnandi lýsti ástandi sínu á leið á miðin við Kolbeinsey seint í október 2002 og á veiðum næstu daga líkt og gert er í stefnu. Hann hefði átt bágt með svefn, verið sljór, ímyndað sér umtal skipverja um sig. Þegar hann hefði farið til læknis, eftir að skipið kom til Dalvíkur, hefði skipstjórinn Jónas viljað sitja inni á læknastofunni meðan læknirinn skoðaði stefnanda. Jónas hefði vitað að hann, stefnandi, hefði áður prófað eiturlyf, og hann hefði komið því að og viljað meina ,,að þetta væri eitthvað svoleiðis". Stefnandi kvaðst hafa verið ,,í neyslu" tveim árum áður, neytt hass, amfetamíns og kókaíns. Hann hefði farið í meðferð árið 2000 og hætt þá neyslu eiturlyfja, en haldið áfram að drekka áfengi. Hann hefði þó ekki smakkað áfengi síðustu fjóra mánuðina áður en þessir atburðir urðu. Hann sagði að sams konar veikindi hefðu komið yfir hann meðan hann enn neytti eiturlyfja. Þá hefði hann einnig verið úti á sjó, á togaranum Vigra. Hann hefði þá gert ráð fyrir að hann hefði þá veikst vegna neyslunnar. Stefnandi sagði að hann hefði látið fyrrverandi skipstjóra á Grundfirðingi, Gunnar Þór, vita af þessari fyrrum neyslu sinni og einnig Jónas skipstjóra.
Stefnandi sagði um vitjun sína til læknisins á Dalvík, að læknirinn hefði ekki spurt margs. Hann hefði lagt til við stefnanda að hann færi heim og hvíldi sig. Hann hefði látið sig hafa lyfseðil fyrir svefntöflur og ráðlagt sér að taka þrjár töflur áður en hann færi að sofa. Eftir þetta hefði hann farið um borð og reynt að hjálpa skipverjum að landa, en hann hefði ekki haft neinar taugar í það; hann hefði verið nærri að brotna saman á bryggjunni. Unnusta hans hefði síðan sótt sig til Dalvíkur, og þau hefðu haldið þaðan beint á Grundarfjörð. [Innskot dómara: Samkv. sjúkraskrárfærslu Guðmundar Pálssonar læknis á Dalvík, leitaði stefnandi til hans 31. október 2002 kl. 09:30. Það var á fimmtudegi] Hann kvaðst hafa hringt til læknis á Grundarfirði á laugardeginum næsta og síðan farið til hans á mánudaginn 4. nóvember. Hann hefði ekki fengið hjá honum læknisvottorð, en ávísun á lyf. Hann hefði haft samband við Sigurð Sigurbergsson framkvæmdastjóra stefnda um helgina, og hann hefði ráðlagt stefnanda að leita til læknis. Læknirinn hefði látið hann fá töflur, en þetta hefði endað með því að hann hefði farið inn á geðdeild. Þar hefði þetta lyf verið tekið af honum.
Stefnandi var spurður nánar um líðan sína dagana 31. október til 5. nóvember, þegar hann fer til Vestmannaeyja. Stefnandi kvaðst bara hafa setið og hugsað hvað hann gæti gert í vanda sínum. Hann hefði hringt í lækna. Hann hefði ekki legið fyrir, en setið heima hjá sér og talað við fjölskylduna og við lækna. Hann mundi ekki hvort hann ók bílnum sem hann fór á frá Grundarfirði til Þorlákshafnar eða hvort það var unnusta hans. Kominn til Eyja hefði fjölskylda hans séð að hann hefði verið dofinn, rýr og horaður og máttlaus.
Um svokallaðan starfslokasamning sagði stefnandi að Sigurður framkvæmdastjóri stefnda hefði boðað hann á skrifstofu sína með símhringingu. Þá hefði samningurinn legið á borði við hliðina á Sigurði. Það fyrsta sem Sigurður hefði sagt hefði verið: Ég get ekki treyst þér strákanna vegna til að vera áfram þarna um borð. Stefnandi kvaðst hafa haldið að Sigurður hefði ætlað að ræða allt annað við hann en þetta. Hann hefði orðið hálfsleginn. Sigurður hefði síðan skrifað undir samninginn og stefnandi kvaðst hafa gert það líka. Sigurður hefði sagt honum að tala við sig ef hann vanhagaði um eitthvað, og með það hefði stefnandi farið. Í bréfi sem stefnandi sendi lögmanni sínum og dagsett er 12. nóvember 2002, þegar stefnandi hafði verið 5 daga á geðdeild Landspítalans, segir m.a.: ,,Mánudaginn 4. nóv. er ég enn sljór og magnlítill, þá kallar Sigurður Sigurbergsson mig til skrifstofu sinnar, hafði hann áður tilbúið skjal sem var fullnaðaruppgjör vegna starfsloka, og þar sem ég var ekki heill heilsu, og gerði mér ekki grein fyrir því er í skjalinu stóð, skrifaði ég undir það." Þetta staðfesti stefnandi fyrir dóminum. Hann sagði að faðir sinn hefði skrifað fyrir sig bréfið, upp eftir sér. Stefnandi sagði að hann hefði, þegar hann sendi þetta bréf, að hann hefði ekki átt að skrifa undir starflokasamninginn. Reyndar hefði hann hugsað um það síðar sama dag og hann skrifaði undir, ,,að ég hefði ekkert átt að láta hann kjafta mig til að skrifa undir þetta."
Undir stefnanda var borið það sem fram kemur í greinargerð stefnda að framkvæmdastjórinn liti svo á að stefnandi hefði óskað eftir að hætta, verið sáttur við þessa niðurstöðu. Stefnandi kvaðst ekkert hafa getað sagt, fyrst útgerðarmaðurinn vildi ekki fá hann um borð aftur. Hann hefði bara þurft að taka þessu.
Eftir þetta kvaðst stefnandi hafa farið til foreldra sinna í Vestmannaeyjum, og síðan hefði hann lagst inn á geðdeild Landspítalans og verið þar í tvær vikur. Læknir hans þar hefði verið Tómas Zoëga.
Stefnandi staðfesti það sem fram kemur í stefnu að hann hefði haft samband við Jónas skipstjóra Grundfirðings. Það hefði verið sama kvöld og hann losnaði af spítalanum. Jónas hefði sagt honum að hann gæti ekki boðið honum pláss eftir þetta. Hann kvaðst hafa reiknað með að það væri komið frá framkvæmdastjóra stefnda að hann færi ekki meira um borð í skipið. Eftir þetta hefði hann ekki talað við Jónas skipstjóra.
Stefnandi var spurður hvers vegna læknisvottorð sem hann hefði fengið hefðu ekki strax verið afhent stefnda, útgerðinni. Hann kvaðst ekki vita það. Hann hefði verið inni á geðdeild fyrst og fremst til að leita sér hjálpar en ekki til að standa í málaferlum. Hann hefði hugsað sem svo að sjúkrahúsið sæi til þess að atvinnurekandinn fengi vottorð. Hann sagði aðspurður að stefndi hefði ekki beðið hann um vottorð.
Stefnandi tók fram að hann hefði litið svo á þegar hann skildi við skipstjórann að hann væri að fara í frí en ekki í veikindafrí. Svo hefði það breyst sér óvitandi. Í skriflegri skýrslu skipstjórans segði að það hefði sérstaklega verið farið með hann, stefnanda, í land, en hann hefði haldið að skipstjórinn hefði verið að fara í land með afla. Hann hefði skilið skipstjórann þannig að hann væri ekki að missa plássið. Skipstjórinn hefði sagt við hann að hann yrði að leita sér hjálpar og að það gæti tekið einhverja mánuði, og að hann skyldi svo tala við sig. Stefnandi kvaðst hafa skilið það þannig að hann væri að fara í frí.
Vitnið Tómas Zoëga var læknir stefnanda á geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Í málinu liggur frammi bréf lögmanns stefnanda til vitnisins, dags. 17. desember 2002, og svarbréf læknisins, dags. 20. sama mánaðar. Vitnið staðfesti bréf sitt. Í bréfinu segir m.a. þetta: ,,Ofannefndur, Gunnar Tryggvi, lá á geðdeild Lsp frá 07.11.2002-21.11.2002. Undirritaður skoðaði Gunnar að morgni hins 08.11.2002 og í því viðtali kom fram að Gunnar Tryggvi hafði haft bráð geðveikiseinkenni í viku til 10 daga. Fram kom að hann starfaði sem stýrimaður á netabát og svo virtist sem hann hafi veikst skyndilega og byrjað að heyra raddir, fengið skilaboð í gegnum fjölmiðla og fundist eins og skipverjar sem hann var að vinna með væru að tala saman um sig. Jafnvel að það væri samsæri um að drepa hann. Misskildi m.a. hósta þeirra þannig að þeir væru að gefa honum skilaboð um að hann væri barnaníðingur og aðrar hugmyndir sem dálítið erfitt var að henda reiður á í viðtalinu." Þetta staðfesti vitnið Tómas, m.a. með upplestri úr sjúkraskrá. Fram kom að stefnandi hafði legið inni á geðdeildinni fyrir um tveimur árum, frá 15. apríl til 25. apríl 2000. Í sjúkraskránni kom m.a. þetta fram: ,,Þegar rætt er frekar við sjúkling þá virðist vera sem að ranghugmyndir hafi ekki alveg horfið á undanförnum tveimur árum frá því hann var hér síðast [. . .] Þegar rætt er við hann um áfengis- og lyfjaneyslu, virðist vera sem engin slík neysla hafi átt sér stað síðan í ágústmánuði sl."
Í bréfi vitnisins frá 20. desember 2002 segir: ,,Undirritaður telur það hafið yfir allan vafa að Gunnar Tryggvi hafi haft svipuð einkenni hinn 4. nóvember og hann hafði við komu á deildina en þau einkenndust eins og fram kemur af ofskynjunum og miklum hugsanatruflunum. Nokkuð ljóst er að fulltrúi útgerðarinnar hlýtur að hafa vitað um alvarleg veikindi Gunnars Tryggva enda sigldi skipstjórinn með hann í land vegna veikindanna nokkrum dögum fyrr. Veikindin eru þess eðlis að þau höfðu veruleg áhrif á dómgreind Gunnars." Vitnið sagði fyrir dóminum að stefnandi hefði verið bráðveikur þegar hann kom inn á geðdeildina 7. nóvember, og hann hefði verið það það sem af var nóvember og kannski frá lokum október. Það væri því nokkuð ljóst að hann hefði verið veikur 4. nóvember. Það mætti skilja tilvitnaða klausu bréfisins þannig að stefnandi hefði ekki getað áttað sig á því hvað hann var að skrifa undir 4. nóvember.
Vitnið Tómas sagði að stefnandi hefði, þegar hann lá inni á geðdeildinni árið 2000 verið með bráð geðveikiseinkenni og hegðunartruflanir, haft margs konar ranghugmyndir og ofskynjanir. Hann hefði þá verið í einhverri ,,neyslu" um 2ja til 3ja ára skeið. hann hefði verið settur í land af frystitogara, þar sem hann hefði verið í skipsplássi. Þá hefði verið talið að sjúkdómur stefnanda væri geðrofseinkenni, sem væru framkölluð af lyfjum. Tómas kvaðst þá hafa verið læknir stefnanda, sem hefði verið útskrifaður með lyfjum, sem hann hefði átt að taka í nokkra mánuði. Síðan þegar stefnandi leggst inn í síðara skiptið hefði komið í ljós að hann hefði ekki tekið nein lyf í nokkra mánuði, a. m. k. þrjá mánuði. Taldi vitnið að sjúkdómur hans þá væri ekki framkallaður af lyfjum, og spurning hvort svo hefði verið um fyrri veikindi hans.
Vitnið Tómas var nánar spurður um fyrrgreinda klausu í bréf hans: ,,Nokkuð ljóst er að fulltrúi útgerðarinnar hlýtur að hafa vitað um alvarleg veikindi Gunnars Tryggva enda sigldi skipstjórinn með hann í land vegna veikindanna nokkrum dögum fyrr." Vitnið sagði að enginn vafi léki á að stefnandi hefði verið alvarlega veikur. Ennfremur sagði vitnið að ljóst væri að Guðmundur Pálsson læknir á Dalvík hefði ekki gefið stefnanda geðlyf, heldur svefnlyf. Á geðdeildinni hefði hann verið settur á önnur lyf. Verið gæti að einkennin hefði þá verið orðin klárari en þau voru á Dalvík. Vitnið dró úr því að fulltrúi útgerðarinnar hlyti að hafa vitað um alvarleg veikindi stefnanda.
Vitnið Ómar Haraldsson er faðir stefnanda, búsettur í Vestmannaeyjum. Í málinu liggur frammi bréfi vitnisins til lögmanns stefnanda, dags. 16. desember 2002. Þar segir: ,,Ég undirritaður faðir Gunnar Tryggva geri hér með grein fyrir aðdraganda að afskiptum mínum af málefnum sonar míns. Þriðjudaginn 5-11-02 kom Gunnar til heimilis okkar hjóna í Vestmannaeyjum illa haldinn af veikindum, sem lýstu sér með ranghugmyndum, þunglyndi og sljóleika. Móðir hans hafði samband við heilsugæslulæknir hér í Vestmannaeyjum og lýsti ástandi Gunnars og fékk hún þær ráðleggingar að hann yrði að komast inn á geðdeild sem allra fyrst. Aðstoðaði læknirinn við að tekið var á móti Gunnari inn á Geðdeild Landsspítalans fimmtudaginn 7-11-02. Ég var staddur í Reykjavík á þessum tíma og tók á móti honum á flugvellinum og ók honum á sjúkrahúsið. Er ég hafði kynnt mér aðstæður Gunnars og séð (fullnaðaruppgjör vegna starfsloka) er hann hafði skrifað undir, taldi ég fullvíst að hér væri um ólöglega uppsögn að ræða. Einnig var mér ljóst að Gunnar hafði ekki heilsu til að halda fram rétti sínum og hafði því samband við þig sem lögmann hans stéttarfélags." Vitnið staðfesti að hafa samið bréf þetta og undirritað.
Vitnið Ómar sagði að hann hefði verið úti á sjó og komið í land á þriðjudag áður en stefnandi kom til Reykjavíkur. Hann hefði ekki vitað hvað kom fyrir stefnanda. Hann hefði séð mikinn mun á honum frá því sem hann þekkti hann áður. Það hefði lýst sér í mjög daufu augnaráði og hægum hreyfingum, og varla hefði verið hægt að skilja um hvað hann talaði. Þó hefði hann haft vilja til að fara inn á geðdeildina.
Vitnið Ásta Ýr Ásgeirsdóttir er unnusta og sambýliskona stefnanda. Hún kvaðst hafa þekkt stefnanda mjög lengi. Þau hefðu verið saman í skóla. Hann hefði verið í sveit heima hjá henni á Litla-Felli á Skagaströnd.
Vitnið sagði að stefnandi hefði hringt í sig til þess að hún sækti hann til Dalvíkur 31. október 2002. Hún hefði komið þangað um hálftólf fyrir hádegi. Þá hefði stefnandi verið búinn að vera hjá lækni. Hún sagðist hafa heyrt það strax þegar hann hringdi að það var ekki allt í lagi. Hún hefði heyrt það á því hvernig hann talaði. Hann hefði veri sljór í röddinni. Hún hefði séð, þegar þau hittust, að hann hefði verið í mjög annarlegu ástandi. Hann hefði verið ósofinn og óskýr í tali. Hún hefði ekið til Grundarfjarðar. Hann hefði ekki farið strax til læknis þar, en hringt í hann. Hann hefði tekið ,,þessar töflur" og farið að sofa. Hann hefði talað við lækni á laugardeginum.
Vitnið sagðist hafa verið í vinnu mánudaginn 4. nóvember. Hún hefði komið heim í hádeginu. Þá hefði stefnandi sagt sér frá viðtali við Sigurð og sýnt sér uppsagnarbréf. Á þriðjudag hefðu þau farið suður og til Vestmannaeyja.
Vitnið Ásta var spurð nánar um ástand stefnanda þessa daga 31. október til 5. nóvember. Hún sagði að hann hefði ekkert farið út. Hann hefði bara setið heima og liðið illa. Hún hefði ekið bíl þeirra til Þorlákshafnar, hefði ekki treyst honum til þess.
Forsendur og niðurstöður
Stefndi gerði ekki skriflegan skiprúmssamning við stefnanda, sem þó var brýn skylda hans samkvæmt 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Verður að líta svo á, svo sem stefnandi gerir, að hann hafi verið ráðinn ótímabundið á Grundfirðing SH-24.
Stefnandi var stýrimaður á Grundfirðingi. Samkv. 9. gr. sjómannalaga átti hann rétt á 3ja mánaða uppsagnarfresti. Dómari fellst á það með stefnanda að með samningi þeim sem framkvæmdastjóri stefnda, Sigurður Sigurbergsson, gerði f.h. stefnda við stefnanda 4. nóvember 2002 hafi af hálfu stefnda verið slitið ráðningu stefnanda. Þau ráðningarslit voru ólögmæt, þar sem ekki var virtur réttur stefnanda til uppsagnarfrests. Er samningur þessi, sem ber yfirskriftina ,,Fullnaðaruppgjör vegna starfsloka", ekki bindandi fyrir stefnanda, þar sem í honum felast lakari kjör en stefnandi á rétt á samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938, 1. gr. laga nr. 55/1980, 4. gr. sjómannalaga, sbr. og gr. 1.51 í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Þegar af þessari ástæðu er ekki þörf á að fjalla um þau lagarök stefnanda að samningurinn kunni að vera ógildanlegar eftir ákvæðum samningalaga.
Í 25. gr. sjómannalaga segir í upphafi: ,,Ef skipverja er vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. á hann rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr." Stefnanda var vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans var liðinn. Framkvæmdastjóri stefnda hafði ekki heimild skv. 23. eða 24. gr. til þessa, enda hefur því ekki verið haldið fram. Því á stefnandi rétt á bótum samkvæmt 25. gr. sjómannalaga.
Fallist er á útreikning stefnanda á bótum. Stefnandi er rétt að finna kaupgreiðslu pr. dag með því að deila í fjárhæðina kr. 6.377.905 með fjölda ráðningardaga. Styðst það við dómafordæmi, sbr. m.a. Hæstaréttardóm í málinu nr. 319/2002, Sjólaskip hf. gegn Hans Schröder, uppkveðnum 12. desember 2002. Dómari fellst þó ekki á að stefnandi eigi samtímis rétt á bótum skv. 25. gr. og veikindalaunum skv. 36. gr. sjómannalaga. Því ber að draga frá stefnukröfunni kr. 384.407, sem stefndi greiddi stefnanda 31. janúar 2003. Dráttarvextir verða dæmdir að kröfu stefnanda. Verður því stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.438.390 með dráttarvöxtum af kr. 1.822.797 frá 1. nóvember 2002 til 31. janúar 2003, en af kr. 1.438.390 frá þeim degi til greiðsludags.
Fallist er á kröfu stefnanda um sjóveð.
Eftir úrslitum máls ber að dæma stefnda til að greiða stefnda málskostnað. Skal hann vera 250.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Jónas Haraldsson hrl. sótti málið, en Magnús Helgi Árnason hdl. hélt uppi vörnum fyrir stefnda.
Finnur Torfi Hjörleifsson kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Soffanías Cecilsson ehf., greiði stefnanda, Gunnari Tryggva Ómarssyni, kr. 1.438.390 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 1.822.797 frá 1. nóvember 2002 til 31. janúar 2003, en af kr. 1.438.390 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi á sjóveðrétt í m.s. Grundfirðingi SH24, skipaskrárnr. 1202, til tryggingar dæmdri fjárhæð ásamt vöxtum.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað auk virðisaukaskatts.