Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-85
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skuldamál
- Res Judicata
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 14. júní 2022 leita Eyja eignir ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. maí 2022 í máli nr. 411/2021: Eyja eignir ehf. gegn Fylki ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um greiðslu fjögurra reikninga en gagnaðili kvaðst hafa fengið kröfuréttindi samkvæmt reikningunum framseld frá Vélasölunni ehf.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfur gagnaðila. Undir rekstri málsins í héraði var kveðinn upp úrskurður þar sem frávísunarkröfu leyfisbeiðanda var hafnað. Í áfrýjunarstefnu var þess ekki getið sérstaklega að úrskurði héraðsdóms væri skotið til Landsréttar samhliða hinum áfrýjaða dómi. Landsréttur tók fram að þar sem málskot áfrýjanda beindist ekki sérstaklega að frávísunarúrskurðinum yrði aðalkrafa leyfisbeiðanda um frávísun málsins ekki tekin til skoðunar sem slík. Rétturinn myndi þó sem endranær gæta að því hvort annmarkar væru á málinu sem vörðuðu frávísun þess frá dómi án kröfu. Landsréttur tók fram að ágreiningur í tengslum við kröfur samkvæmt reikningunum hefði áður komið til kasta dómstóla í formi kröfu Vélsölunnar ehf. um að bú leyfisbeiðanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í þeim úrskurði hefði þó ekki verið tekin bindandi efnisleg afstaða til þeirra krafna sem gagnaðili hefði uppi í málinu heldur hefði því einungis verið slegið föstu að Vélasölunni ehf. hefði ekki tekist að sýna fram á að félagið ætti kröfu á hendur leyfisbeiðanda. Þóttu því ekki efni til að vísa málinu frá dómi án kröfu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi og sé fordæmisgefandi um beitingu 116. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng þar sem Landsrétti hafi borið að vísa málinu frá héraðsdómi þar sem þegar hafi verið tekin afstaða til krafna gagnaðila í dómi héraðsdóms um kröfu Vélsölunnar ehf. um að bú leyfisbeiðanda yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
6. Um sakarefni af þessum toga má meðal annars benda á dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 53/2007. Að því gættu og að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laganna. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.