Hæstiréttur íslands
Mál nr. 390/2014
Lykilorð
- Umferðarlög
- Bifreið
- Ölvunarakstur
- Blóðsýni
- Ökuréttarsvipting
|
|
Fimmtudaginn 11. desember 2014. |
|
Nr. 390/2014.
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn Garðari Hallgrímssyni (Gísli M. Auðbergsson hrl.) |
Umferðarlög. Bifreiðir. Ölvunarakstur. Blóðsýni. Ökuréttarsvipting.
G var borinn sökum um ölvunarakstur með tveimur ákærum. Í þeirri fyrri var honum gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem alkóhólmagn í blóði hans hafi reynst 2,02. Í síðari ákærunni var honum gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. ákvæðisins með vísan til þess að alkóhólmagn í blóði hefði þá mælst 0,86. G viðurkenndi háttsemina sem honum var gefið að sök en taldi brot sitt samkvæmt fyrri ákæru eingöngu varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Með vísan til nýrrar skýrslu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði var talið að sýnt hefði verið fram á nákvæmni þeirrar aðferðar sem rannsóknarstofan notaði við etanólmælingu í blóði og að magn þess í blóði G greint sinn hefði þannig réttilega verið mælt 2,02. Því varðaði brot hans samkvæmt fyrri ákærunni réttilega við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Með vísan til þessa var G sakfelldur samkvæmt báðum ákærunum og gert að greiða 250.000 króna sekt í ríkissjóð en sæta ella 17 daga fangelsi. Þá var G sviptur ökurétti í tvö ár og þrjá mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
I
Í máli þessu er ákærði borinn sökum um ölvunarakstur með tveimur ákærum. Í þeirri fyrri, sem gefin var út 26. ágúst 2013, var honum gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en alkóhólmagn í blóði hafi reynst 2,02. Í síðari ákærunni, sem gefin var út 18. október 2013, var honum gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sömu laga en alkóhólmagn í blóði mældist þá 0,86.
Ákærði hefur viðurkennt þá háttsemi sem honum er gefin að sök en telur háttsemi sína í fyrri ákæru varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga.
II
Hér á landi og víða annars staðar fara viðurlög við ölvunarakstri eftir því hve mikið af etanóli er í blóði eða útöndunarlofti og eru viðurlögin þyngri eftir því sem styrkurinn er hærri. Í flestum nágrannalöndum okkar er venja að draga fasta tölu eða fast hlutfall frá niðurstöðutölum etanólmælinga áður en viðurlög eru ákveðin. Það er gert til þess að tryggja að styrkur etanóls í blóði ákærða geti ekki verið lægri en sá sem lokaniðurstaðan gefur til kynna. Öryggistala þessi er kölluð vikmörk.
Á árinu 1998 voru teknar upp nýjar vinnureglur við að ákveða alkóhól í blóði. Gerðar voru tvær sjálfstæðar mælingar í stað einnar áður og tekið meðaltal og reiknað með 10% fráviki vegna hugsanlegrar ónákvæmni í mælingu. Miðað við eldri framkvæmd hefðu skekkjumörk verið talin meiri, eða 0,10 en ekki 10%. Í dómum Hæstaréttar 4. mars 1999 í máli nr. 437/1998 og 11. mars 2000 í máli nr. 93/2000 var ekki talin næg ástæða til að breyta frá fyrri dómafordæmum með því að leggja til grundvallar lægri vikmörk við greiningu blóðsýna en verið höfðu og var ekki talið að nýjar aðferðir veittu nákvæmari niðurstöðu um alkóhól í blóði en eldri aðferðir.
Í skýrslu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 18. maí 1999 um ákvörðun vikmarka við mælingar á etanóli í blóði var lagt til að við ákvörðun á vikmörkum yrði sá háttur hafður á að draga 10% frá meðalgildi mælinganna upp að 1,5, en fasta tölu, 0,15, eftir það. Í skýrslunni var gerð grein fyrir mælingum á etanóli í blóði frá því að þær hófust hér á landi 1. september 1972. Tekið var fram að nákvæmni mælinganna hafi aukist með árunum og megi fyrst og fremst þakka það bættum tækjabúnaði.
Árið 2005 tók rannsóknastofan í notkun nýjan gasgreini með tölvuúrvinnslu gagna. Samkvæmt prófum á tækinu kom í ljós að það var mun nákvæmara en tækið sem prófað var í skýrslunni frá 1999.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð skýrsla Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 21. október 2014, um endurmat á vikmörkum við mælingar á etanóli í blóði. Við útreikninga á vikmörkum var, eins og í fyrri skýrslu, miðað við 99,9% öryggisbil. Niðurstaðan var sú að það gerðist í minna en einu tilviki af hverjum þúsund að hinn raunverulegi styrkur etanóls í blóði væri lægri en mældur styrkur að frádregnum þeim vikmörkum sem rannsóknastofan miðar við. Útreikningar sýndu að nákvæmni mælinganna ykist hlutfallslega með hækkandi styrk etanóls í blóðinu. Í lok skýrslunnar er tekið fram að með henni sé sýnt fram á að tillögur rannsóknastofunnar að reiknuðu fráviki í fyrri skýrslu standist fullkomlega.
Að framangreindu virtu er sýnt fram á nákvæmni þeirrar aðferðar sem
Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði hefur notað við etanólmælingu í blóði
allt frá árinu 1998. Þeirri aðferð hefur verið beitt í því máli sem hér er til
úrlausnar og er etanól í blóði ákærða réttilega mælt 2,02
.
Brot ákærða samkvæmt ákæru 26. ágúst 2013 varðar því við 1. mgr., sbr. 3. mgr.
45. gr. umferðarlaga.
III
Eins og að framan greinir varðar brot ákærða samkvæmt ákæru 26. ágúst 2013 við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Ákvörðun ökuréttarsviptingar út af því broti á því að vera tvö ár hið skemmsta, sbr. 5. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Auk þess verður ákærði dæmdur vegna ölvunaraksturs samkvæmt ákæru 18. október 2013 í ökuréttarsviptingu í þrjá mánuði. Ákærði er því sviptur ökurétti í samtals tvö ár og þrjá mánuði frá 10. mars 2014 er héraðsdómur var birtur honum. Refsing ákærða er ákveðin 250.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 17 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber ákærða að greiða allan sakarkostnað eins og hann var ákveðinn í héraði, samtals 308.516 krónur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins, 370.791 króna, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, 313.750 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagður kostnaður verjandans, 29.700 krónur.
Dómsorð:
Ákærði, Garðar Hallgrímsson, greiði 250.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella 17 daga fangelsi.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár og þrjá mánuði frá 10. mars 2014 að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði, 308.516 krónur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins, 370.791 króna, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur, og 29.700 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 27. febrúar 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. febrúar, er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Akureyri á hendur Garðari Hallgrímssyni, kt. [...], [...], [...].
Fyrri ákæra er gefin út 26. ágúst 2013 og er
„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 4. maí 2013, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði reyndist 2,02), frá Akureyri áleiðis að heimili sínu, uns hann lenti í árekstri við bifreiðina [...] á Leirubrúnni.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“
Síðari ákæra er gefin út 18. október 2013 og er
„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 25. september 2013, ekið bifreiðinni OZ-403, undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði reyndist 0,86), frá versluninni Bónus við Kjarnagötu á Akureyri og um Miðhúsabraut, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“
Málin voru sameinuð.
Ákærði kom fyrir dóm og játaði þar þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Hann kvaðst hins vegar telja háttsemi sína í fyrri ákæru varða við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga en ekki 1. sbr. 3. mgr. hennar.
Með játningu ákærða sem fær stoð í gögnum málsins og ekki þykir ástæða til að draga í efa er hann sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar.
Í gögnum málsins eru niðurstöður rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði vegna vínandaákvörðunar eftir þann akstur sem getið er í fyrri ákæru. Segir þar að niðurstöður fyrri mælingar hafi verið 2,19, niðurstöður síðari mælingar 2,16 og meðaltal mælinganna verið 2,17. Eftir frádrátt sem nemi 0,15 sé endanleg niðurstaða 2,02.
Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 93/2000, sem kveðinn var upp hinn 11. maí 2000, segir að í dómi réttarins í máli nr. 437/1998 hafi því verið lýst að teknar hafi verið upp nýjar vinnureglur við að ákveða alkóhól í blóði. Gerðar séu tvær sjálfstæðar mælingar í stað einnar áður og tekið meðaltal. Hafi því verið slegið föstu að með þessari nýju aðferð væri rétt að halda þeirri venju að ætla vikmörk frá miðtölugildi 10% en þó ekki minna en sem svari 0,1 vínanda í blóði.
Þegar horft er til þessa dóms Hæstaréttar Íslands og þeirrar meginreglu íslenzks sakamálaréttarfars að vafi skuli skýrður ákærðum manni í hag þykir því ekki verða slegið föstu að vínandamagn í blóði ákærða hafi farið yfir 2, og refsing hans verður því ákveðin án hliðsjónar af 5. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Hins vegar er enginn vafi á því að vínandamagnið í blóði ákærða hefur verið slíkt að brot hans er réttilega heimfært til 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Ákærði ók ekki aðeins undir áhrifum áfengis heldur olli árekstri við aðra bifreið. Eykur það alvarleika brots hans. Þegar horft er til alls framanritaðs verður refsing ákærða ákveðin 200.000 króna sekt í ríkissjóð og komi fjórtán daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna. Þá verður ákærði sviptur ökurétti í tvö ár. Samkvæmt yfirlitum sýslumannsins á Akureyri nemur sakarkostnaður 85.116 krónum og verður ákærði dæmdur til greiðslu þess sakarkostnaðar. Ákærði naut aðstoðar verjanda og snerist vörn hans að mestu um að ósannað væri að alkóhólmagn í blóði ákærða hefði farið yfir 2 í fyrra atvikinu. Rétt þykir að málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, alls 188.250 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og 35.150 króna útlagður kostnaður verjandans, greiðist af hálfu af ákærða og hálfu úr ríkissjóði.
Af hálfu ákæruvaldsins fór Eyþór Þorbergsson fulltrúi sýslumanns með málið.
Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, Garðar Hallgrímsson, greiði 200.000 króna sekt í ríkissjóð en fjórtán daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 188.250 krónur og 35.150 króna útlagðan kostnað verjandans, greiði ákærði að hálfu og ríkissjóður að hálfu. Annan sakarkostnað, 85.116 krónur, greiði ákærði.