Hæstiréttur íslands
Mál nr. 440/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 25. febrúar 2010. |
|
Nr. 440/2009. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Snorra Gíslasyni(Brynjar Níelsson hrl.) (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
S var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa farið óboðinn inn í svefnherbergi A, þar sem hún lá sofandi, afklætt sig úr öllu nema nærbuxum, lagst upp í rúm til hennar, kysst hana á hálsinn og káfað á brjóstum hennar utanklæða. Var háttsemin talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af þeirri háttsemi sem S var sakfelldur fyrir, ungum aldri hans og því að hann hafði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað svo vitað væri, var refsing hans hæfilega ákveðin skilorðsbundið fangelsi í þrjá mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða A 250.000 krónur í bætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að dæmdar bætur verði lækkaðar.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis.
Ákærði er samkvæmt framansögðu sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni, en hámarksrefsing fyrir það brot er fangelsi í 2 ár samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 61/2007. Með hliðsjón af þeirri háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, ungum aldri hans og því að hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað svo vitað sé, er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði og er eftir atvikum rétt að fresta fullnustu hennar skilorðsbundið með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Í málinu liggja ekki fyrir sérfræðileg gögn um afleiðingar brotsins fyrir brotaþola. Að því gættu og að teknu tilliti til atvika allra eru bætur henni til handa hæfilega ákveðnar 250.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Snorri Gíslason, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 250.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2008 til 3. janúar 2009 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals er 455.065 krónur, þar með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns 313.750 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 2. apríl 2009 á hendur Snorra Gíslasyni, kt. 020986-2399, Birtingakvísl 17, Reykjavík, fyrir kynferðisbrot með því að hafa, að morgni laugardagsins 6. september 2008, að [...], Reykjavík, farið óboðinn inn í svefnherbergi A, kt. [...], þar sem hún lá sofandi, klætt sig úr öllu nema nærbuxum, lagst upp í rúm til hennar, kysst hana á hálsinn og káfað á brjóstum hennar utanklæða.
Telst þetta varða við 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/0940, sbr. lög nr. 61/2007, 82/1998 og 40/1992. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er gerð krafa um skaða- og miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 4. gr. laganna frá 6. september 2008 til 3. janúar 2009 en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar fyrir réttargæslu samkvæmt mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á réttargæsluþóknun.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Mánudaginn 15. september 2008 mætti A á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur ákærða, Snorra Gíslasyni, fyrir kynferðisbrot. Tekin var skýrsla af kæranda sama dag. Lýsti hún atvikum svo að hún hafi haldið upp á afmælið sitt að [...], Reykjavík 5. september 2008. Hafi hún ásamt vinum sínum og kærasta farið í bæinn eftir afmælið. Þegar þau hafi komið aftur heim snemma næsta morguns hafi þrír strákar, þar af tveir sem hún þekkti ekkert, komið í heimsókn. Hún hafi farið að sofa í svefnherbergi á neðri hæð hússins klukkan 9 um morguninn en vaknað klukkustund síðar. Þá hafi einn strákanna sem hún ekki þekkti legið ofan á henni í rúminu í nánast engum fötum. Hún hafi legið á brúninni á rúminu, en strákurinn komið upp að henni hinum megin. Hún hafi verið að rumska og fundið að einhver hafi verið ofan á henni, káfaði á brjóstunum á henni og kyssti hana á hálsinn. Hafi hún í fyrstu haldið að þetta væri kærastinn hennar en þetta hefði verið ólíkt honum og hún talið að e.t.v. væri hann mjög drukkinn. Þá hafi hún opnað augun og séð að þetta var annar strákur. Hafi hún stokkið upp úr rúminu og séð föt stráksins á stólnum. Hafi hún hlaupið upp á efri hæðina þar sem kærasti hennar hafi verið ásamt fleirum. Á þeirri hæð hafi hún farið inn í tölvuherbergi. Hafi hún heyrt að drengirnir voru að spyrja ákærða um útganginn á honum, af hverju skyrtan væri svona asnaleg og hvað hann hafi eiginlega verið að gera.
Við aðalmeðferð málsins gerði ákærði þannig grein fyrir atvikum málsins að hann hafi komið í húsið að [...] um klukkan 6 um morguninn eftir að hafa verið í miðbænum um nóttina. Hann hafi verið að skemmta sér með viðskiptafræðinemum um kvöldið og hringt í B sem var í samkvæminu að [...]. Hafi B boðið ákærða þangað. Hafi samkvæmisgestir setið í stofunni og ákærði eitthvað spjallað við A eins og aðra gesti. Ekki hafi neitt kynferðislegt verið á milli þeirra. A hafi farið niður á neðri hæð hálftíma til 50 mínútum áður en ákærði fór þangað, en rétt fyrir klukkan 9 um morguninn hafi hann farið niður og inn í svefnherbergi til hennar. Hann hafi ætlað að vera fyndinn og því klætt sig úr öllu nema nærbuxunum. Því næst hafi hann sagt „ertu til í kallinn?“ eða eitthvað í þá áttina. Við það hafi A vaknað og farið að öskra. A hafi verið sofandi þegar ákærði hafi komið inn í herbergið. Frekar stutt hafi verið frá dyrunum að rúminu eða um það bil metri. A hafi ekki svarað því sem ákærði sagði eða ,,ertu til í kallinn?“. Ákærði kvaðst ekki hafa farið upp í rúmið til hennar og ekki hafa snert hana inni í herberginu. Öll framganga ákærða hafi átt að vera grín. Vinur ákærða hafi einhverju sinni gert þetta sama og það hafi verið fyndið. Hugmyndin hafi kviknað eftir að A hafi farið niður. A hafi hlaupið upp á efri hæð. Ákærði hafi farið út á ganginn og stuttu síðar yfirgefið heimilið. Það hafi allt farið í háaloft og A verið brjáluð, eiginlega mitt á milli þess að vera reið og grátandi. B vinur ákærða hafi sagt við ákærða að hann myndi yfirgefa staðinn ef hann væri ákærði.
Ákærði kvaðst ekki hafa gert viðstöddum grein fyrir því að hann hafi einfaldlega ætlað að vera fyndinn. Hann hefði verið í sjokki yfir því hvernig A hafi tekið hlutunum. Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki hafa haft neitt kynferðislegt í huga umrætt sinn. Í skýrslutöku hjá lögreglu tjáði ákærði sig um sama atriði og bar þá að hann hafi örugglega haft eitthvað kynferðislegt í huga. Var þetta misræmi borið undir ákærða fyrir dómi og gat hann ekki skýrt það sérstaklega. Þá var ákærði inntur eftir því hvort eitthvað kynferðislegt hafi verið fólgið í setningunni ,,ertu til í kallinn?“. Ákærði kvað svo ekki vera og hafi ekki verið nein merking að baki orðunum. Hafi þau ekki þýtt neitt í raun. Fyrir fram hafi ekki hvarflað að ákærða að A mynd bregðast við með þeim hætti er hún gerði en hann hafi áttað sig á því eftir á að þetta væru eðlileg viðbrögð hjá henni. Ákærði kvaðst hafa vitað að A ætti kærasta og hafa kannast við hann. Enginn í samkvæminu hafi verið í nánasta vinahópi ákærða. Hann hafi ekki hitt A áður. Ákærði kvaðst hafa verið fullur umrætt sinn en muna atburðarásina. Hann hafi eingöngu drukkið bjór áður en hann kom í samkvæmið, en drukkið sterkt vín þegar þangað var komið.
A bar á þann veg við aðalmeðferð málsins að umrædda nótt hafi hún, kærastinn hennar og vinkona verið heima hjá henni. Einnig hafi nágranni þeirra og vinir hans komið. Samkvæmið hefði verið rólegt. A kvaðst búa að [...] með kærastanum sínum og foreldrum hans. Herbergi þeirra væri á neðri hæðinni en þau hafi umræddan morgun setið í stofu á efri hæð. Eftir að hafa farið í bæinn hafi þau komið til baka á milli klukkan sjö og átta um morguninn. Eftir að heim var komið hafi þau setið og spjallað áður en A hafi farið niður að leggja sig. Það hafi verið eftir klukkan átta. Hún hafi verið búin að drekka of mikið og farið niður án þess að láta neinn vita að hún væri að fara. Hún hafi kastað upp eftir að niður var komið og farið því næst upp í rúm. Hafi hún sent kærastanum sínum sms. Hafi hún vaknað við að einhver var að koma við hana. Viðkomandi hafi kysst hana á hálsinn og komið við brjóstið á henni. Hún hafi talið að þetta væri kærasti hennar en þetta hafi verið öðruvísi en kærasti hennar gerði þannig að hún hafi opnað augun. Þá hafi hún séð ákærða. Ákærði hafi káfað á henni utanklæða og verið kominn hálfur ofan á hana. Ákærði hafi legið fyrir innan hana í rúminu og verið undir sænginni. Hafi hún séð skyrtu ákærða og jakka á stól þegar hún hafi hlaupið upp en ekki séð hvernig ákærði var klæddur. Hún hafi orðið hrædd, stokkið á fætur og hlaupið upp á efri hæðina og inn í tölvuherbergi. Kærastinn hennar hafi komið þangað inn á eftir henni. Ákærði hafi komið upp stigann hálfklæddur og verið að hneppa skyrtunni. Hann hafi ekkert sagt við hana. Hafi A sagt kærastanum sínum að ákærði hafi verið ofan á henni og ekki í fötum. Henni hafi verið mjög brugðið. Kærasti hennar hafi orðið reiður og nánast hent ákærða út. Kærasti hennar hafi hringt í móður hennar og systur. Þær hafi komið og reynt að hugga hana en hún grátið mikið. Henni hafi liðið hræðilega illa. A kvaðst telja að hún hafi verið búin að sofa í hálftíma til klukkustund þegar þetta gerðist. Hún hafi sofnað snögglega vegna þess að hún var drukkin en vaknað auðveldlega. A kvaðst ekki hafa heyrt að ákærði segði „ertu til í kallinn?“ Að því er varðaði afleiðingar atburðarins kvaðst A verða pirruð út af engu. Þá gréti hún og liði illa yfir þessu. Hún ætti erfitt með að sofna og vaknaði gjarnan þegar verið væri að stinga lykli í skráargatið í útidyrahurðinni. Hún hafi ekki fengið neina sálfræðiaðstoð.
C, kærasti A, bar að hann, A og aðrir gestir hafi verið heima og að drekka þegar A hafi farið að sofa en það hafi verið undir morgun. Hann hafi síðar mætt henni grátandi í stiganum og ákærði verið á eftir henni við það að klæða sig í föt. Hafi C reynt að hugga hana. Hún hafi lítið sagt fyrst hvað fyrir hafi komið en viljað fá móður sína til sín. Hafi C hringt í móður hennar og systur og þær báðar komið. Hafi C rætt við ákærða, sem ekki hafi verið í ástandi til að svara neinu. Hafi hann virst fullur, ekkert sagt og loks farið. Hafi C ekki verið sáttur þar sem ákærði hafi eitthvað gert við A, enda hún komið grátandi út úr herberginu og ákærði verið óklæddur. A hafi lítið viljað tala um þetta en sagt að hún hafi verið upp í rúmi og ákærði verið að káfa á henni. Hafi A liðið illa eftir þetta og væri það enn þann dag í dag þannig þegar minnst væri á þetta.
D, systir A, sagði að kærasti systur hennar hafi hringt umræddan morgun. Hafi hún farið á staðinn. Systir hennar hafi verið hágrátandi þegar hún kom heim til hennar og miður sín. Eftir langan tíma hafi A sagt frá því að þegar hún vaknaði hafi einhver maður setið ofan á henni og verið á nærbuxunum. Þegar hún vaknaði hafi ákærði verið ofan á henni og að káfa á brjóstum hennar. Minnti hana að A hafi einnig sagt að ákærði hafi kysst hana á hálsinn. Hún hafi öskrað og hlaupið upp og hann þá farið. A hafi liðið mjög illa í langan tíma á eftir. Hún hafi komið til D og grátið. Hafi systir hennar ekki getað farið í skólann.
E, móðir A, bar að C hafi hringt í hana snemma morguns. Er E hafi komið á staðinn hafi dóttir hennar setið uppi á skrifborði, verið hágrátandi og titrandi. Eitthvað mikið hafi greinilega komið fyrir. Hafi E tekið utan um dóttur sína, en hún verið lengi að róast. A hafi tjáð móður sinni að það hafi verið maður inni í herbergi hennar og hún vaknað við það. Maðurinn hafi verið ber eða hálfnakinn ofan á henni uppi í rúminu en hún hafi ekki lýst því nánar eða hvort hann hafi gert eitthvað við hana. Hún hafi sagt að maðurinn hafi eitthvað verið að káfa á henni en ekki lýst því frekar. E kvað A vera lokaðri nú en áður. Hún og dóttir hennar hafi farið í brúðkaupsveislu síðar sama dag og atburðir hafi gerst og dóttirin setið og horft út í loftið. Hún hafi eftir atburðinn orðið dul og grátgjörn. Það hafi varað í töluverðan tíma á eftir.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa að morgni laugardagsins 6. september 2008 að [...], Reykjavík, farið óboðinn inn í svefnherbergi A þar sem hún lá sofandi, klætt sig úr öllu nema nærbuxum, lagst upp í rúm til hennar, kysst hana á hálsinn og káfað á brjóstum hennar utanklæða. Ákærði hefur viðurkennt háttsemina að hluta til. Hefur hann viðurkennt að hafa farið inn í svefnherbergi stúlkunnar umrætt sinn og að hafa klætt sig úr öllu nema nærbuxum. Hann hefur hins vegar neitað því að hafa lagst upp í rúm til stúlkunnar eða að hafa kysst hana á hálsinn og káfað á brjóstum hennar utanklæða. Hefur ákærði lýst því að hann hafi ætlað að bregða á leik með háttsemi sinni. Í því skyni hafi hann farið niður í svefnherbergi á eftir A og á nærbuxunum einum fata spurt hana ,,ertu til í kallinn?“. Öll framganga ákærða hafi átt að vera grín. Fyrir dómi fullyrti ákærði að enginn kynferðislegur tilgangur hafi búið að baki háttsemi sinni en hjá lögreglu bar hann hins vegar að svo hafi örugglega verið. Frásögn A af háttsemi ákærða hefur frá upphafi verið skýr og fullt innbyrðis samræmi í henni. Hefur hún lýst atvikum svo sem ákæra miðar við. Þá lýstu kærasti hennar, móðir og systir ástandi A strax eftir atvikið og líðan hennar síðar og báru um það sem hún tjáði þeim að hefði komið fyrir í herberginu.
Sú fullyrðing ákærða að ekki hafi neitt kynferðislegt búið að baki för hans í svefnherbergið umrætt sinn er ósennileg þegar til þess er litið að ákærði fór óboðinn inn í svefnherbergi til stúlku sem hann þekkti ekkert og var þar í fastasvefni og afklæddist öllu nema nærbuxum. Þá fær heldur ekki staðist að ekkert kynferðislegt hafi búið að baki þeirri spurningu sem ákærði beindi til A við þær aðstæður. Þá er til þess að líta að ákærði hefur orðið missaga um hvort eitthvað kynferðislegt hafi búið að baki för hans í herbergið þennan morgun. Að þessu virtu þykir dóminum framburður ákærða ótrúverðugur. Framburður A er á hinn bóginn trúverðugur og ekkert fram komið sem rýrir þann trúverðugleika. Hefur hún ekki dregið dul á að hafa verið verulega undir áhrifum áfengis er hún hafi farið að sofa en verið vel áttuð er hún hafi vaknað. Þá þykir tilfinningalegt ástand stúlkunnar fyrst eftir atburðinn sem og líðan hennar í kjölfarið benda eindregið til að eitthvað alvarlegt hafi gerst í herberginu og meira heldur en það eitt að hún hafi vaknað við það að karlmaður hafi staðið nærri rúmi hennar á nærbuxunum. Þegar til þessa er litið er að mati dómsins óhætt að leggja framburð A til grundvallar niðurstöðu og telja hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi lagst upp í rúm til stúlkunnar, kysst hana á hálsinn og káfað á brjóstum hennar utanklæða, svo sem hún hefur lýst. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og á háttsemin undir 199. gr. laga nr. 19/1940 sem hér tæmir sök.
Ákærði, sem fæddur er í september 1986, hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað svo kunnugt sé. Með hliðsjón af broti ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Í ljósi aldurs ákærða og sakaferils þykir rétt að fresta fullnustu þriggja mánaða af refsingunni með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um.
Réttargæslumaður hefur krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Er til grundvallar kröfunni vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Framferði ákærða greint sinn var til þess fallið að valda A miska. Á hún rétt á skaðabótum á þeim grundvelli sem í ljósi atvika málsins og dómvenju þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Ber krafan vexti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Ákærða greiði málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns brotaþola að viðbættum virðisaukaskatti svo sem í dómsorði er kveðið á um.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Huldu Elsu Björgvinsdóttur setts saksóknara.
Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Ásgeir Magnússon og Greta Baldursdóttir kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Snorri Gíslason, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 500.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. september 2008 til 3. janúar 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns 195.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola Auðar Bjargar Jónsdóttur héraðsdómslögmanns 157.119 krónur.