Hæstiréttur íslands
Mál nr. 313/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 2. september 2002. |
|
Nr. 313/2002. |
Ragnar Ó. Magnússon(Helgi Birgisson hrl.) gegn Steinari Pálmasyni (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
R höfðaði mál á hendur S þar sem hann krafðist þess að S greiddi sér skaðabætur vegna bifreiðaviðskipta. Málinu var vísað frá héraðsdómi þar sem málatilbúnaður R var talinn svo ómarkviss og bótagrundvöllur svo óljós að ekki væri unnt að kveða upp efnisdóm í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ragnar Ó. Magnússon, greiði varnaraðila, Steinari Pálmasyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2002
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 29. maí síðastliðinn, hefur Ragnar Ólafur Magnússon, Galtalind 17, Kópavogi, höfðað 29. janúar sl. á hendur Steinari Pálmasyni, Goðsölum 15, Kópavogi.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 985.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. febrúar 2000 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Að auki er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda svo og að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.
II.
Stefnandi var eigandi einkahlutafélagsins Glæsivagnar ehf. sem rak og leigði út lúxusbifreiðar. Stefndi var eigandi einkahlutafélagsins Jöklalax ehf., ásamt Jóhönnu Þorbergsdóttur og átti félagið og rak veitingahúsið Kaffi-Fjörð að Fjarðargötu 13-15 í Hafnarfirði. Jöklalax ehf. átti bifreiðina TV-532, sem er af gerðinni Cadillac Fleetwood limosine, árgerð 1985. Stefndi var jafnframt stjórnarmaður fyrirtækisins. Þann 22. júlí 1999 gerðu þessi tvö fyrirtæki með sér samning þar sem Jöklalax ehf. seldi Glæsivögnum ehf. bifreiðina TV-532. Umsamið kaupverð, 1.570.000 krónur var staðgreitt og var bifreiðinni afsalað sama dag til kaupanda. Samkvæmt munnlegu samkomulagi bar Jöklalaxi ehf. að aflétta af bifreiðinni áhvílandi veðskuld sem nam að höfuðstóli 1.500.000 krónum. Mun hér hafa verið um að ræða veðskuldabréf gefið út í Hafnarfirði 17. desember 1998 af Jöklalaxi ehf. til Bermúda ehf. Í aðilaskýrslu stefnda hér fyrir dómi kom fram að hann hafi ábyrgst það persónulega gagnvart stefnanda að veðskuld þessari yrði aflétt. Stefnandi kvað í aðilaskýrslu sinni að hann hafi treyst þessum orðum stefnda en hafi ekki kannað það sérstaklega hvort veðskuldinni hefði verið aflétt.
Glæsivagnar ehf. hófu þegar rekstur bifreiðarinnar. Þann 28. september 1999 framseldu Glæsivagnar ehf. umrædda bifreið til stefnanda. Mun þetta hafa verið gert vegna þess að leyfi til reksturs bifreiðarinnar var bundið við einstakling en ekki lögaðila. Í byrjun árs 2000 ákvað stefnandi að selja reksturinn og þær tvær bifreiðar sem hann átti. Þann 22. febrúar 2000 seldi hann Jóni Þóri Jónssyni allt hlutafé sitt í Glæsivögnum ehf. Samhliða seldi hann og afsalaði Lincoln bifreið sinni til Jóns Þóris og áðurnefndri Cadillac bifreið til Matthíasar, sonar Jóns Þóris og var það hluti af kaupsamningi um félagið. Við þessa samningsgerð uppgötvaðist að á Cadillac bifreiðinni hvíldi enn fyrrnefnd veðskuld sem Jöklalax ehf. hafði við söluna til Glæsivagna ehf. lofað að aflétta af bifreiðinni.
Að sögn stefnanda hafði hann samband við stefnda og hafi stefndi lofað að veðskuldinni yrði aflétt og hafi því til tryggingar afhent stefnanda tékka að fjárhæð 1.500.000 krónur. Hins vegar hafi láninu ekki verið aflétt og þegar tékkinn hafi verið sýndur til greiðslu þann 23. mars 2000 hafi hann reynst innistæðulaus. Þegar ljóst hafi verið að bréfið fengist ekki aflýst af bifreiðinni hafi kaupin við Matthías Jónsson gengið til baka. Samkomulag varð með stefnanda og viðsemjanda hans að stefnandi tæki bifreiðina TV-532, með láninu áhvílandi og að jafnframt framseldu Glæsivagnar ehf. skaðabótakröfu á hendur stefnda eða öðrum vegna viðskipta Jöklalax ehf. og Glæsivagna ehf. um bifreiðina. Var þetta gert með yfirlýsingu og kröfuframsali dagsettu í febrúar 2000.
Stefnandi krafðist þann 29. mars 2000 lögreglurannsóknar á því broti stefnda að gefa út innistæðulausan tékka til tryggingar aflýsingu lánsins sem hvíldi á bifreiðinni. Lögreglurannsóknin leiddi til þess að hinn 10. maí 2001 höfðaði sýslumaðurinn í Kópavogi opinbert mál á hendur stefnda fyrir brot gegn tékkalögum og hlaut stefndi dóm fyrir brotið.
Að sögn stefnanda var láninu skyndilega aflétt af bifreið hans eftir að sakamálið hafði verið höfðað og segist stefnandi hafa upplýsingar um að það hafi verið stefndi sjálfur sem aflétti skuldabréfinu, en hann hafi haft frumrit þess í sínum vörslum um nokkurt skeið. Að svo komnu auglýsti stefnandi bifreiðina til sölu að nýju og þann 25. júní 2001 var hún seld Fjölni Hlynssyni á 515.000 krónur. Þá hafði bifreiðin að sögn stefnanda staðið ónotuð frá febrúar 2000 og hafði á þeim tíma hríðfallið í verði.
Þann 18. október 2000 var bú Jöklalax ehf. tekið til gjaldþrotaskipta.
III.
Bótakröfu sína á hendur stefnda byggir stefnandi á því að það hafi verið ólögmæt og saknæm háttsemi að stefndi aflétti ekki áhvílandi veði af bifreiðinni TV-532 þegar hann seldi hana stefnanda 22. júlí 1999. Þegar gengið hafi verið á stefnda í febrúar 2000 hafi hann afhent stefnanda tékka að fjárhæð 1.500.000 krónur dagsettan fram í tímann, sem tryggingu fyrir því að hann efndi skyldu sína. Þegar láninu var ekki aflétt og tékkinn sýndur til greiðslu hafi hann reynst innistæðulaus. Stefndi hafi ekki aflétt láninu fyrr en ákæruvaldið hafi höfðað opinbert mál á hendur honum í maí 2001, tveimur árum eftir söluna til stefnanda. Þessi framkoma stefnda hafi leitt til þess að kaupsamningur sem stefnandi hafði gert 22. febrúar 2000 um bifreiðina TV-532 hafi gengið til baka og hafi bifreiðin þá verið óseljanleg í tæpt eitt og hálft ár, eða allt þar til veðinu var aflétt í júní 2001. Þá hafi verðmæti bifreiðarinnar verið metið 500.000 krónur og hafi hún verið seld fyrir 515.000 krónur. Vegna þessarar saknæmu háttsemi stefnda hafi stefnandi orðið fyrir beinu fjártjóni sem hafi numið 985.000 krónum, en það sé mismunurinn á söluverði bifreiðarinnar til Matthíasar Jónssonar 22. febrúar 2000 og því verði sem fékkst fyrir hana þegar hún var seld Fjölni Hlynssyni 25. júní 2001 og sé þessi sölumismunur stefnufjárhæð málsins.
Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 22. febrúar 2000 þar sem tjónsatvik og bótafjárhæð miðist við það tímamark.
Í munnlegum málflutningi lýsti lögmaður stefnanda því yfir að krafa hans um skaðabætur byggði alfarið á reglum um skaðabætur utan samninga. Stefndi hafi bakað stefnanda tjón með þeirri saknæmu og ólögmætu háttsemi að ráðstafa ekki hluta af þeim peningum sem hann hafi tekið við sem greiðslu fyrir bifreiðina til að greiða upp veðskuldina svo henni yrði aflétt eins og hann hefði lofað við samningsgerðina.
Ennfremur kom fram í málflutningi lögmanns stefnanda að hann teldi að skortur á sönnun um fjárhæð tjóns ætti að leiða til frávísunar málsins en ekki sýknu eins og stefndi haldi fram. Það væri þó vafalaust í huga stefnanda að fjárhæð tjóns hans væri fullsönnuð og vísaði hann í því sambandi til meginreglu einkamálaréttarfars um frjálst sönnunarmat.
Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og til almennra reglna kröfuréttarins, einkum um loforð og skuldbindingargildi samninga. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa hans styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefndi til þess að þrátt fyrir að Jöklalax ehf. hafi vanefnt skyldu sína til að aflétta veðinu af bifreiðinni hafi stefndi sjálfur reynt að tryggja að samningurinn fengi réttar efndir með því að leggja fram ávísun á sinn eigin reikning til tryggingar því að bréfinu yrði aflétt.
Stefndi vísar til þess í greinargerð sinni að hann hafi ekki verið aðili að kaupsamningnum um bifreiðina og hann hafi ekki ábyrgst efndir hans með öðrum hætti en með framlagningu tékkans. Skyldan til að efna samninginn hafi því ekki hvílt á stefnda. Þar af leiðandi verði stefndi aldrei gerður ábyrgur fyrir því meinta tjóni sem hlaust af vanefndunum. Stefndi sé því af augljósum ástæðum ekki réttur aðili að þessu máli og því beri að sýkna hann af kröfu stefnanda. Eins og fram hefur komið lýsti stefndi því í aðilaskýrslu sinni að hann hafi við samningsgerðina ábyrgst það persónulega gagnvart stefnanda að umræddu veðbandi yrði aflétt af bifreiðinni.
Stefndi byggir einnig á því að það sé meginregla bótaréttarins að bótakrefjandi þurfi að sanna tjón sitt og fjárhæð þess. Samkvæmt dómvenju skuli færa slíka sönnun fram með mati dómkvaddra matsmanna liggi ekki fyrir önnur ótvíræð sönnunargögn. Í þessu máli liggi hvorugt fyrir. Bifreiðin TV-532 hafi verið seld Glæsivögnum ehf. í lok júlí 1999 fyrir 1.570.000 krónur sem sé hátt verð fyrir nærri fimmtán ára gamla bifreið. Þann 22. febrúar 2000 hafi stefndi selt Matthíasi Jónssyni sömu bifreið á 1.500.000 krónur eða á einungis 70.000 krónum lægra verði en hann hafði keypt hana. Stefnandi fullyrði hins vegar að rúmu ári seinna hafi verð bifreiðarinnar verið komið niður í 515.000 krónur, þ.e. að verðmæti hennar hafi hrapað um tæpa eina milljón króna. Engar skýringar eða rök séu í málatilbúnaði stefnanda fyrir þessari skyndilegu verðlækkun bifreiðarinnar. Ekki liggi fyrir neitt mat á verðmæti bifreiðarinnar, hvorki þegar kaupin fóru fram milli Jöklalax ehf. og Glæsivagna ehf. né heldur við sölu hennar til Fjölnis Hlynssonar í maí 2001. Stefndi mótmælir því alfarið að nokkur rök séu til þess að verðmæti bifreiðarinnar hafi minnkað svo mjög á þessum tíma og stefnandi hafi ekki sýnt fram á raunverulegt tjón sitt með neinum þeim gögnum sem tæk séu í dómsmáli. Tjónið sé því ósannað og einnig af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda.
Við munnlegan málflutning kom fram hjá lögmanni stefnda að hann teldi að 59. gr. kaupalaga nr. 39/1922, sem giltu á þeim tíma sem hér skipti máli, leiddi til þess að stefnandi ætti ekki rétt til skaðabóta. Þegar hlutur væri seldur með ávílandi veði væri um að ræða vanheimild að hluta og þá ætti seljandi að greiða kaupanda skaðabætur vegna þess tjóns sem hann hefði orðið fyrir vegna vanheimildarinnar. Bótaréttur falli þó niður ef seljandi vissi eða mátti vita af vanheimildinni þegar kaup hafi átt sér stað. Stefnandi hafi viðurkennt í aðilaskýrslu sinni að honum hafi verið kunnugt um veðskuldina þegar kaup hafi átt sér stað og eigi því ekki rétt á skaðabótum.
Einnig var byggt á því við munnlegan málflutning af hálfu stefnda að um væri að ræða vanefndir einkahlutafélags á samningi og að slíkar vanefndir leiddu ekki til sakarábyrgðar stjórnenda félagsins nema eitthvað sérstakt kæmi til.
Til stuðnings kröfu sinni um sýknu sem byggir á aðildarskorti vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi sýknu vegna sönnunarskorts vísar hann til reglna bótaréttarins um sönnun og sönnunarbyrði bæði um tjónið sjálft og fjárhæð þess. Kröfu sína um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Stefnandi máls þessa eignaðist bifreiðina TV-532 með afsali frá Glæsivögnum ehf. og fékk einnig framselda til sín hugsanlega skaðabótakröfu á hendur stefnda eða öðrum vegna kaupa Glæsivagna ehf. á bifreiðinni af Jöklalaxi ehf. Það er því vafalaust og í raun óumdeilt að stefnandi er réttur aðili máls þessa.
Í stefnu kemur fram að bótakrafa stefnanda sé til komin vegna þeirrar ólögmætu og saknæmu háttsemi stefnda að aflétta ekki veðinu af bifreiðinni TV-532 við söluna til stefnda. Varðandi lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og til almennra reglna kröfuréttarins, einkum um loforð og skuldbindingargildi samninga. Við munnlegan málflutning lýsti lögmaður stefnanda því yfir að grundvöllur kröfu stefnanda væri reglur um skaðabætur utan samninga. Varnir stefnda virðast miðaðar við að mál þetta snúist um skaðabætur innan samninga. Hefur stefndi annars vegar uppi sýknukröfu vegna aðildarskorts þar sem hann hafi ekki verið aðili að kaupsamningi um bifreiðina og hins vegar á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna tjón sitt.
Málsgrundvöllur stefnanda er óskýr og hvergi nærri ljóst af stefnu hvort hann byggi á reglum um skaðabætur innan eða utan samninga. Þrátt fyrir yfirlýsingu lögmanns stefnanda um að bótagrundvöllur byggðist á reglum um skaðabætur utan samninga, snúa röksemdir þær sem stefnandi færir fram í málinu samt sem áður að stærstum hluta að hinum munnlega samningi um að aflétta veði af viðkomandi bifreið og til vanefnda á þeim samningi, enda vísar hann til stuðnings kröfum sínum m.a. til almennra reglna kröfuréttarins, einkum um loforð og skuldbindingargildi samninga. Í aðilaskýrslu stefnda hér fyrir dómi kom fram að hann kvaðst hafa ábyrgst það persónulega að bifreiðin yrði leyst úr veðböndum. Hann hefur því viðurkennt að hafa gengist í ábyrgð fyrir efndum samningsins. Skortir mjög á það að stefnandi geri grein fyrir og rökstyðji hvernig vanefnd stefnda á þessari ábyrgðaryfirlýsingu geti leitt til skaðabótaábyrgðar samkvæmt reglum um skaðabætur utan samninga. Stefndi virðist og hafa tekið til varna í málinu á grundvelli þess að um væri að ræða vanefndir á samningi. Það er því mat dómsins að málatilbúnaður stefnanda í máli þessu sé svo ómarkviss og bótagrundvöllur svo óljós að ekki sé unnt að kveða upp efnisdóm í málinu. Við aðalmeðferð málsins var ekki greitt úr þessum óskýrleika. Telur dómurinn því, með vísan til 4. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að ekki sé annað fært en að vísa máli þessu frá dómi án kröfu.
Í samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 140.000 krónur.
Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri, kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Stefnandi, Ragnar Ólafur Magnússon, greiði stefnda, Steinari Pálmasyni, 140.000 krónur í málskostnað.